Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010
Einn mælikvarði á goskraftinn í Eyjafjallajökli
11.5.2010 | 06:53
Hæðin á öskumekkinum er nokkuð góður mælikvarði á magnið af kviku sem nú berst upp í gíginn á Eyjafjallajökli. Hæðin á mekkinum er gefin á fimm mínútna fresti af veðursjá eða radar Veðurstofunnar á Keflavíkurflugvelli. Upplýsingarnar má nálgast hér. Það eru ýmsar útgáfur af veðursjánni, en ég fylgist mest með ETOP(Z). Myndin sýnir niðurstöður veðursjár kl. 525 í morgun, og takið eftir tölunni 5.0 fyrir ofan Eyjafjallajökul, en það er hæð gosmakkarins sem veðursjáin sér á þeim tíma. Reyndar mælir veðursjáin mökkinn aðeins þegar hann er hærri en 2.5 km, en til þessa hefur hann oftast verið hærri en svo. Myndin til hliðar sýnir breytingar á hæð hans nú í morgun, 11. maí, frá kl. 2:30 til kl. 6:00, en á þeim tíma hefur hann verið mest á 3.9 til 5.0 km hæð. Í nótt bar meir á glóð í mekkinum en áður, en það má ekki túlka sem aukinn goskraft. Heldur er líklegra að meiri glóð bendi á minni áhrif vatns úr jöklinum á sprengivirknina. Ef til vill er gígurinn að þorna upp smám saman. Eitt af því sem við skiljum nokkuð vel í sambandi við eldgos er hegðun makkarins. Hann fylgir mjög einfaldri eðlisfræði. Morton jafnan, H=1.37Q1/4 gefur okkur hlutfallið milli hæðar gosmakkarins og magns af kviku (Q) sem berst upp í gosinu. Það eru til margar útgáfur af Morton jöfnunni, en ég sýni þá einföldustu hér. Aðal skilaboðin eru þau, að það er magnið af hita sem berst út í andrúmsloftið í gosinu sem ræður því hversu hátt mökkurinn rís. Það er því ekki goskrafturinn sjálfur sem stjórnar hæðinni, heldur kvikumagnið, sem við getum til dæmis mælt í rúmmetrum af kviku sem berst upp úr gígnum á sekúndu. Þegar heit aska og gjall þeytist upp í loftið, þá blandast gosmökkurinn við andrúmsloft. Hitinn frá öskunni hitar um leið loftið og þá minkar eðlisþyngd loftsins sem hefur blandast inn í mökkinn. Við það rís mökkurinn hærra. Þetta er alveg sama fyrirbæri og venjulegur loftbelgur sem menn ferðast í langar leiðir. Hann rís upp vegna þess að blossi af logandi gasi streymir inn í belginn að neðan og dregur með sér hitað loft sem þenst út, léttist og lyftir belgnum. Hér með fylgir mynd sem sýnir hlutfallið milli hæðar gosmakkar, í km, og magns af kviku sem gýs, í rúmmetrum á sekúndu. Samkvæmt því er Eyjafjallajökull nú að gjósa um eða undir eitt hundrað rúmmetrum af hraunkviku á sekúndu. Magnið í virkilega stórum gosum getur verið mörg hundruð þúsund rúmmetrar á sekúndu og fer mökkurinn þá í 30 til 40 km hæð. Við getum því sætt okkur við það að málið er ekki svo slæmt.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 06:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ný hrina - sterkara gos?
10.5.2010 | 14:19
Mikil skjálftahrina hófst undir Eyjafjallajökli í nótt og hélt áfram í morgun, 10. maí. Meir en 50 skjálftar hafa komið fram, allir smáir, undir styrkleikanum 3,0, en þeir dreifast á mismunandi dýpi. Myndin til hliðar sýnir dreifinguna í dýpi, sem er frá um 30 km, eða alveg neðst í jarðskorpunni, og upp undir yfirborð. Það er athuglisvert hvað margir skjálftanna eru í kringum 20 km, en einnig er athyglisvert að skjálftar hefjast á öllu dýpi á svipuðum tíma. Þannig er ekki ljóst að skjálftavirknin færist smátt og smátt upp á við. Vafalaust er þetta ný viðbót af frumkviku úr möttli jarðar og inn í jarðskorpuna. Nú er eftir að sjá hvernig Eyjafjallajökull vinnur úr þessum nýja skammti af kviku. Hingað til hefur það verið svo, að kvikan sem gýs í toppgíg er trakí-andesít kvika, og því ekki alkalí basalt frumkvikan sem kemur beint úr möttli og inn í skorpuna. En það var frumkvikan sem kom upp á Fimmvörðuhálsi. Samt sem áður getur ný frumkvika flýtt fyrir myndun á andesít kvikunni í kvikuþró undir toppgíg og því má búast við sama áframhaldi. Öskumökkurinn hefur verið nokkuð stöðugur í um 4 til 5 km hæð, samkvæmt radar mælingum, og óróinn er svipaður og fyrr. Það er hins vegar athyglisvert að dregið hefur úr hraunrennsli um tíma, en alltaf má gera ráð fyrir slíkum sveiflum í hegðun gossins. Ég veit ekki hvort það er tilviljunj, en skjálftarnir raða sér upp á norð-austlæga stefnu, eins og þeir gerðu snemma í skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli. Þetta er auðvitað aðal sprungustefnan í eystra gosbeltinu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fer fyrir Gígjökli eins og Steinsholtsjökli árið 1967?
7.5.2010 | 06:19
Hinn 2. maí, síðastliðinn sunnudag, tók NASA þessa mynd af Eyjafjallajökli úr EO-1 gerfihnetti. Um borð er The Advanced Land Imager tæki, sem gerði myndina. Myndina má sjá í upprunalegu formi hér
Takið eftir sprengigígnum þar sem brúna öskuskýið kemur upp. Takið einnig eftir Gígjökli (sem var einnig oft nefndur Falljökull) fyrir norðan gíginn. Smellið einu sinni eða tvisvar á myndirnar til að fá stækkaða útgáfu. Hvítir gufubólstrar rísa upp um göt í Gígjökli, en jökullinn er vel afmarkaður af þverbröttum hömrum. Næsta mynd hér fyrir neðan er einnig úr EO-1 gervihnetti, og sýnir hún aurana fyrir framan Gígjökul lengst til vinstri. Til hægri á myndinni er blágrænt jökullón Steinsholtsjökuls. Norður eru upp á báðum myndum. Jökull sá er nú svartur af ösku. Hinn 15. janúar árið 1967 varð mjög stórt framhlaup úr 400 metra háum hamrinum Innstahaus fyrir ofan Steinsholtsjökul. Guðmundur Kjartansson skrifaði góða grein um þetta framhlaup í Náttúrufræðingnum. Um 15 miljón rúmmetrar af móbergi féllu niður á jökulinn og orsakaði það mikið flóð í Markarfljóti. Skellurinn var svo mikill að hann kom fram á jarðskjálftamælinum á Kirkjubæjarklaustri. Nú eru móbergshamrar umhverfis og undir Gígjökli sennilega orðnir mjög veikburða og kunna að koma úr þeim fljótlega stórar fyllur og framhlaup þegar jökullinn heldur áfram að minnka. Bretinn Martin P. Kirkbride gerði kort af svæðinu umhverfis Steinsholtsjökul fyrir um tíu árum, sem er sýnt hér fyrir neðan. Þar kemur vel fram hvernig jökullinn hefur hopað, en jökulgarðar frá ýmum tímum hafa verið aldursgreindir. Einnig er sýnt á kortinu setið sem myndaðist í hlaupinu mikla árið 1967. Grein Kirkbridge má nálgast hér
Nú þegar gosið er búið að rústa Gígjökli er ekki óhugsandi að stór framhlaup myndist úr hömrum umhverfis hann.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 06:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Göt í jarðskjálftamælanetinu þarf að fylla strax
5.5.2010 | 06:20
Á mánudag, 3. maí, heimsótti ég Veðurstofu Íslands og flutti erindi þar um jarðeldana í Eyjafjallajökli. Vonandi hafa þeir lært eitthvað af mér, en eitt er víst: ég lærði heilmikið af þeim. Til dæmis þótti mér fróðlegt að heyra að hinn hái órói undir Eyjafjallajökli veldur því að smærri jarðskjálftar mælast ekki og týnast í truflunum af völdum óróans. Það var mjög fróðlegt að kynnast betur þeim tækjabúnaði sem Veðurstofan hefur til að fylgjast með jarðhræringum undir Íslandi. Netið af jarðskjálftamælum er mjög fullkomið, en þó þarf að fylla upp í stór göt í því. Mat á næmni jarskjákftamælanetsins sem Kristján Ágústsson gerði árið 2006 sýnir stóru götin. Myndin sem fylgir sýnir næmni netsins yfir landið allt. Næmnin er hæst á rauðu svæðunum, í miðju virka gosbeltinu. Þar kemur í ljós að til dæmis á Vestfjörðum skynjar netið aðeins skjálfta sem eru stærri en 1,5 (græna svæðið). Á Snæfellsnesi skynjar netið aðeins skjálfta sem eru stærri en 1,0 (gula svæðið). Nú kunna einhverjr að segja að það þurfi ekki jarðskjálftamæla á þessum svæðum því þar séu engir skjálftar. Ég lít frekar á málið þannig, að skjálftavirkni sé líkleg á þessum svæðum, en þeir eru ekki mældir og ekki skráðir. Það er nauðsynlegt að bæta úr þessu, og við Steinunn Jakobsdótir jarðeðlisfræðingur höfum rætt þetta mál. Mín uppástunga er sú, að koma upp jarðskjálftamælum í Eysteinsdal við Snæfellsjökul, og í Ljósufjöllum, til að þétta netið frekar. Báðar þessar eldstöðvar geta verið virkar, en við höfum enga hugmynd um skjálftavirkni undir þeim.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 06:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Má bjóða þér gos? Eldfjöll sem aðdráttarafl í ferðamennsku
4.5.2010 | 20:24
Atburðir tengdir eldgosunum í Eyjafjallajökli hafa minnt okkur rækilega á að eldfjöll og eldgos geta haft áhrif á ferðamennsku á ýmsan hátt. Það er ljóst að þessi miklu sjónarspil náttúrunnar eru sterkt aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en einnig hefur komið í ljós að mistök í fréttamiðlun og kynningu á slíkum hamförum hafa haft neikvæð áhrif á ferðaiðnaðinn í landinu í heild. Aska í háloftum frá Eyjafjallajökli hefur beint eða óbeint orsakað það að eitt hundrað þúsund flugferðum var aflýst milli 15. og 21. apríl, miljónir ferðamanna fóru í strand og kostnaður og tekjutap flugfélaga mun vera meir en 1.7 miljarðar dollara eða um 220 miljarðar króna. Athygli alheims beindist nú að Íslandi sem aldrei fyrr í tengslum við gosið. Erlendir fjölmiðlar streymdu til landsins í leit að fréttum. Hver voru viðbrögðin hér heima? Ég var staðsettur suður í sveitum á þessum krítiska tíma og varð vitni af því þegar erlendir fréttamenn reyndu að safna einhverju efni tengdu gosinu á allan mögulegan máta. Fókus heimspressunnar var allur á Íslandi. Hér var besta tækifæri Íslands til að koma upplýsingum og áróðri um landið til alheims. En engin skipuleg fjölmiðlaveita var til. Hið opinbera og þar á meðal Iðnaðarráðuneytið, brást. Ísland missti af stærsta tækifærinu, sem hefði getað verið algjörlega ókeypis áróður um land og þjóð og lyftistöng fyrir ferðamál landsins. Einu upplýsingar til fjölmiðla virtust vera frá Almannavörnum, til dæmis um að stærsta samgönguleið landsins, Highway 1, væri rofinn í sundur, brúm lokað og hundruðir manna fluttir á brott. Auðvitað er það hlutverk Almannavarna að aðstoða og vernda gegn jarðvá, en það fór lítið fyrir tilkynningum eða fréttaveitu frá hinu opinbera varðandi það jákvæða, að nú væri búið að opna aftur. Strax og gosið á Fimmvörðuhálsi hófst bárust mér póstur og fjöldi símhringinga frá ferðamönnum erlendis sem vildu koma til að sjá gosið, og enn fleiri þegar sprengigosið hófst. Því miður gat ég ekki sinnt þeim vegna annara verkefna. Ég vil segja ykkur lítið eitt frá starfsemi sem ég hef rekið í um 30 ár sem er tengd ferðum til eldfjallasvæða víðs vegar um heiminn. Hér var aðallega um að ræða landsvæði þar sem ég hef unnið við eldfjallarannsóknir. Ég rak starfsemina í gegnum fyrirtæki mitt Volcano Tours, en þar sem þetta var aukavinna, var ég yfir leitt með aðeins tvær til þrjár ferðir á ári hverju. Þetta eru 10 til 15 daga ferðir, og þáttaka takmörkuð við 25 manns í hverri ferð. Viðbrögðin hafa verið stórkostleg. Ég hef skipulagt og stýrt ferðum á eldfjallasvæði Ítalíu (Vesúvíus, Stromboli, Etnu, Líparí), með blöndu af rómverskri sögu og menningu eins og hún kemur fram í borgunum Pompeii og Herkúlaneum sem urðu undir ösku og vikri frá gosinu í Vesúvíusi árið 79 eKr. Einnig hefur gríska eldeyjan Santóríni í Eyjahafi verið vinsæl, þar sem er að finna stórkostlega blöndu af spennandi eldfjallafræði, fornleifum frá Bronzöld, menningu og sögu. Þá vil ég nefna eyjaklasann Galapagos í Kyrrahafi. Þar hef ég þann máta að hópurinn býr um borð í bát sem fer milli eyjanna á nóttinni, en farið er í land á nýrri eyju á hverjum morgni og hún könnuð, ásamt sundi og köfun í hafinu umhverfis. Á svipaðan hátt könnum við eldeyjarnar í Indónesíu, og notum bát sem fljótandi bækistöð hópsins. Fræðsla er mikilvæg, og við höldum fyrirlestur á hvrjum morgni um jarðfræði, sögu, áður en farið er í gönguferðir. Eldfjöllin í Mið-Ameríku, einkum í Costa Rica, hafa einnig verið könnuð með slíka hópa áhugasamra ferðamanna. Einig má nefna ferðir okkar til Ekvador, Guatemala og Vestur Indía. Ísland hefur uppá mjög mikið að bjóða fyrir ferðamenn sem þyrstir í fróðleik um land og sögu, eldfjöll, náttúruöfl og útivist. Nýja Íslandskortið fyrir ferðamenn á að vera jarðfræðikortið. Eldfjallasafn í Stykkishólmi býður nú upp á eins dags fræðsluferðir umhverfis Snæfellsnes, og hefur því verið mjög vel tekið. Nýja ferðafólkið er duglegt, þráir útivist, vill fræðast á skipulegan hátt, vill hafa fullt prógram fyrir daginn til að njóta ferðarinnar til hins ýtrasta. Leyfið fólkinu að koma til eldfjallsins.
Goshringir
3.5.2010 | 20:50
Reykhringir myndast þegar maður andar frá sér skýi af vindlareyk og blæs um leið gat í gegnum skýið. Þá vefst uppá reykinn og hann myndar fallegan hring. Eldgos mynda oft reykhringi, en nú hafa náðst góðar myndir af reykhringjum yfir Eyjafjallajökli. Það er Kjartan Már Hjálmarsson á Selfossi sem tók báðar þessar frábæru myndir laugardaginn 1. maí. Hringarnir eru örugglega tengdir gosinu. Sennilega myndast hringirnir í gufuskýum þeim sem nú rísa uppaf Gígjökli, þar sem gufan myndast vegna hraunrennslis undir jöklinum. Frábærur reykhringir hafa einnig sést yfir Etnu eldfjalli á eynni Sikiley á Ítalíu, einkum í gosinu árið 2000, eins og myndin fyrir neðan sýnir. Þeir voru allt að 200 metrar í þvermál og endast oft í allt að 15 mínútur.
Hitamet í Markarfljóti
3.5.2010 | 07:07
Gufan kemur fram undan Gígjökli
2.5.2010 | 21:05
Efst á Eyjafjallajökli
2.5.2010 | 17:44
Ég hef flogið í nokkur skifti yfir toppgíg Eyjafjallajökuls í þyrlum og flugvélum, og einnig lent á Skerjunum fyrir vestan gíginn, en í gær, 1. maí, tókst mér loks að komast að gígnum og stíga upp á Goðastein, vestan við gígbarminn. Það var stórkostleg og alveg ógleymanleg sýn sem blasti við mér. Ég var í för með bandaríska sjónvarpsliðinu frá 60 Minutes, en Gunnar Egilsson kom okkur upp á ótrúlega skömmum tíma. Myndin til hliðar er af okkur Scott Pelley með sprengigosið í baksýn. Við fórum vestari leiðina á fjallið, upp frá Seljalandsfossi, og upp Hamragarðaheiði. Við ókum námuveginn upp í grjótnámuna fyrir Bakkafjöruhöfn. Hér með fylgir jarðfræðikort sem Jón Jónsson (1988) gerði af Hamragarðaheiði og sýnir hinar fjölmörgu eldstöðvar þar á leiðinni. Fljótlega var komið upp á jökulinn, en um leið og við komum upp í um 1000 metra hæð, þá ókum við uppúr þokunni og inn í glimmrandi fínt sólskin og hið besta veður. Fjallasýn var stórkostleg til Tindfjallajökuls og Heklu, en aðeins fjallatopparnir stóðu uppúr skýjum. Við gengum strax upp á Goðastein og nutum útsýnisins, beint yfir gosstöðvarnar. Við höfum sennilega verið í um 400 metra fjarlægð frá virka sprengigígnum. Það er talið að nafngiftin Goðasteinn hafi komið til við Kristnitöku á Alþingi þegar trúfrelsi var afnumið árið 1000. Þá fór Runólfur goði með sínar skurðmyndir af goðunum upp á Eyjafjallajökul og mun hafa varpað goðamyndunum í gíginn í grenndi við Goðastein. Þá hefur gígurinn sennilega verið íslaus og opinn, eftir gosið árið 920, aðeins áttatíu árum fyrr. Þegar litið er yfir toppgíg, þá kemur strax í ljós að mikill gufumökkur stígur upp af efri hluta gígjökulsins. Hann er allur brotinn og siginn hér, en gufumökkurinn er vafalaust vegna hraunrennslis undir jöklinum. Sennilega er þetta andesít hraun sem er að troða sér leið undir jökli, svipað að efnasamsetningu og askan sem berst upp í sprengingunum. Mér virtist að gufan, og þar með hraunið undir jöklinum, væri komin um það bil hálfa leið niður Gígjökulinn, og kæmi því fljótlega fram niður á láglendi, framúr Gígjökli. Myndin til hliðar sýnir gufumökkinn upp af Gígjökli, en sprengigígurinn er lengst til hægri á myndinni. Ekkert lát var á sprengingum og öskuframleiðslu á meðan við dvöldumst á Goðasteini. Gosið virðist vera blandað gos, og er nú á millistigi milli hraun rennslis og sprengigoss. Sennilega mun draga úr sprengingum enn frekar, enda eru öskuskýin lægri en áður. Eftir 25 mínútur steig skýjaþykknið og kaffærði okkur sýn. Okkar verki var lokið hvað varðar upptöku á sjónvarpsefni á toppnum, en við vorum ótrúlega heppnir að það birti til í þessar fáu og dýrmætu mínútur. Við snérum því til baka en ókum síðan inn í áttina að Þórsmörk þegar niður kom. Næst gengum við inn að sporði Gígjökuls niðri á láglendinu. Hér geysti fram mikill straumur af brúnu og leðjukenndu vatni út um gljúfur í móberginu við rætur jökulsins. Í flóðvatninu var ógrynni af ísmolum og mikið af sandi og ösku. Þetta er auðvitað hlaupvatn sem myndast vegna bráðnunar jökulsins í snertingu við hraunkviku í grennd við gíginn. Nú verður spennandi að sjá hraunið koma framúr sporði Gígjökuls einhvern næstu daga. Starfi okkar var lokið við þetta Ginnungagap í rótum Gígjökuls, þegar lögreglan kom og skipaði okkur að halda strax á braut frá hættusvæðinu, enda getur koltvíoxíð og önnur gös komið hér fram og safnast fyrir í hættulegu magni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Með 60 Minutes á Eyjafjallajökli
1.5.2010 | 06:37
Einn frægasti fréttaskýringaþáttur heims er þátturinn "60 Minutes" hjá CBS sjónvarpskeðjunni í Bandaríkjunum. Þeir eru þekktir aðallega fyrir vandaða vinnu, mikla gagnrýni og ítarlegar rannsóknir á fréttaefni því sem þeir fjalla um. Það var mikil ánægja fyrir mig að starfa með þeim í nokkra daga á Íslandi og fræða þá um gosin tvö í Eyjafjallajökli, jarðfræði Íslands og uppruna eldfjalla yfir leitt. Enginn sjónvarpsþáttur sem fjallar um daglega viðburði og fréttnæmt efni er jafn hátt metinn og hefur eins mikla áhorfun eins og 60 Minutes, en um 15 miljón sjá þáttinn á viku hverri í Bandaríkjunum einum. Fréttaskýrandinn sem ég vann með á Eyjafjallajökli var Scott Pelley, en honum til aðstoðar var framleiðandinn Rebecca Peterson og íslenska sjónvarpskonan Elín Hirst. Þær Rebecca og Elín unnu dag og nótt við undirbúning og að safna efni áður en upptakan hófst. Tæknimenn sem unnu við upptökuna voru alls tíu manns og frábært lið í alla staði.