Göt í jarðskjálftamælanetinu þarf að fylla strax

Næmni jarðskjálftamælanetsinsÁ mánudag, 3. maí, heimsótti ég Veðurstofu Íslands og flutti erindi þar um jarðeldana í Eyjafjallajökli. Vonandi hafa þeir lært eitthvað af mér, en eitt er víst: ég lærði heilmikið af þeim.  Til dæmis þótti mér fróðlegt að heyra að hinn hái órói undir Eyjafjallajökli veldur því að smærri jarðskjálftar mælast ekki og “týnast” í truflunum af völdum óróans.  Það var mjög fróðlegt að kynnast betur þeim tækjabúnaði sem Veðurstofan hefur til að fylgjast með jarðhræringum undir Íslandi.  Netið af jarðskjálftamælum er mjög fullkomið, en þó þarf að fylla upp í stór göt í því.  Mat á næmni jarskjákftamælanetsins sem Kristján Ágústsson gerði árið 2006 sýnir stóru götin.  Myndin sem fylgir sýnir næmni netsins yfir landið allt.  Næmnin er hæst á rauðu svæðunum, í miðju virka gosbeltinu. Þar kemur í ljós að til dæmis á Vestfjörðum skynjar netið aðeins skjálfta sem eru stærri en 1,5 (græna svæðið).  Á Snæfellsnesi skynjar netið aðeins skjálfta sem eru stærri en 1,0 (gula svæðið).  Nú kunna einhverjr að segja að það þurfi ekki jarðskjálftamæla á þessum svæðum því þar séu engir skjálftar.  Ég lít frekar á málið þannig, að skjálftavirkni sé líkleg á þessum svæðum, en þeir eru ekki mældir og ekki skráðir.  Það er nauðsynlegt að bæta úr þessu, og við Steinunn Jakobsdótir jarðeðlisfræðingur höfum rætt þetta mál.  Mín uppástunga er sú, að koma upp jarðskjálftamælum í Eysteinsdal við Snæfellsjökul, og í Ljósufjöllum, til að þétta netið frekar.  Báðar þessar eldstöðvar geta verið virkar, en við höfum enga hugmynd um skjálftavirkni undir þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef ríkið er ekki viljugt, þá getur almenningur komið sér upp áhugamannaneti til þess að mæla jarðskjálfta. Slík mælanet eru ekki dýr, en geta margborgað sig til lengri tíma sérstaklega ef fólk býr á svæði sem er nærri virkri eldstöð.

Ég er nú þegar með tvo áhugamannamæla. Einn á Hvammstanga og annan nærri Heklu. Sá sem er hjá Heklu mælir óróann í Eyjafjallajökli mjög vel og sveiflunar í honum, og þá jarðskjálfta sem þar verða.

Hægt er að kaupa þennan búnað sem ég nota héðan frá Bandaríkjunum. Kostnaður er einhver, en þetta borgar sig til lengri tíma fyrir áhugamenn í jarðfræði að mínu mati.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 5.5.2010 kl. 07:24

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Jón Frímann hefur byggt upp merkilegt "prívat" jarðskjálftakerfi og á heiður skilið fyrir. Ég tel samt sem áður að Veðurstofan þurfi að stækka netið sitt til vesturs og norð-vesturs sem allra fyrst. 

Haraldur Sigurðsson, 5.5.2010 kl. 07:44

3 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Alltaf er maður að læra eitthvað nýtt. Ég hafði ekki hugmynd um þetta og taldi að það væri jafnt vægi á þessu út um allt land. Með tilkomu Internetsins og sér í lagi að þessi mælar eru þannig lagað séð ekki sérlega dýrir (miðað við ávinninginn) - þá skil ég ekki af hverju þetta er ekki orðið betra.
Stundum þarf almennilegt eldgos svo stjórnmálamenn vakni af værum blundi.

Sumarliði Einar Daðason, 5.5.2010 kl. 23:32

4 identicon

Heyr,heyr! Sérstaklega í ljósi þess að eldgos í Snæfellsjökli gæti valdið flóðbylgjum sem ógna Reykjavík (skv. Vísindavefnum).

Maður dáist að því hversu vel hefur verið staðið að öllum rýmingaráætlunum og æfingum í grennd við Mýrdalsjökul. Nú megum við ekki gerast löt og gleyma okkur.

Mig langaði að spyrja þig Haraldur, hvort þér finnist ekki NV-horn Vatnajökuls eiga að vera betur vaktað? Er Kistufellið ekki annars næst?

Helga (IP-tala skráð) 5.5.2010 kl. 23:56

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Kistufell er nokkuð vel vaktað. Það er innan brúna svæðisins á kortinu fyrir ofan og því mælast þar skjálftr minni ein af stærðargráðunni 1,0.

Haraldur Sigurðsson, 6.5.2010 kl. 05:27

6 identicon

Takk fyrir þetta. Ég er með aðra leikmannaspurningu. Hvað þýðir það eiginlega að það mælist jarðskjálfti á 29km dýpi. Er það ekki undir jarðskorpunni?

Helga (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 10:32

7 identicon

Þakka þér fyrir þessar upplýsingar. Ég hef einmitt verið að furða mig á því hvers vegna jarðskjálftakortin á vedur.is sýna fremur litla virkni á meðan óróamælarnir virðast vera á fullu. Mér finnst þetta með götin einnig mjög merkilegt. Var einmitt að skoða óróamælakortið um daginn og fannst merkilegt að ekki einn einast mælir er staðsettur á Snæfellsnesi.

Óskar (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 12:43

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Helga:  Jarðskjálfti á 29 km dýpi er sennilega neðst í jarðskorpunni. Reyndar er deilt um það hvað jarðskorpan er þykk á þessu svæði.  Venjulega er talið að jarðskjálftar myndist þegar berg brotnar.  Ef berg er mjög heitt, eins og neðsti hluti jarðskorpunnar og efsti hluti möttulsins undir, þá brotnar það ekki heldur sígur, og þá er líklegra að jarðskjálftinn myndist vegna hreyfinga kviku, eins og menn hafa túlkað flesta skjálftana undir Eyjafjallajökli.

Haraldur Sigurðsson, 6.5.2010 kl. 13:18

9 identicon

Það er náttúrulega alveg ljóst, að eldstöðvakerfin á Snæfellsnesi eru fræðilega séð a.m.k. virk. Í þeim hafa orðið gos síðan síðasta ísaldarskeiði lauk og miklar líkur á að gos hafi orðið í Ljósufjallakerfinu eftir að land byggðist, auk þess sem austasta eldvarpið í því kerfi, Grábrók m.tilh. hefur gosið eftir upphaf tímatals okkar. Snæfellsjökull hefur að vísu ekki rótað sér neitt svo menn hafi vitað til á sögulegum tíma, en miðlungs stórt gos í honum, t.d. á stærð við núverandi gos í Eyjafjallajökli, yrði mikil katastrofa, bæði fyrir byggðina "undir Jökli" og eins fyrir hið þéttbýla höfuðborgarsvæði. Gos í Lýsuskarðskerfinu yrði trúlega meira í ætt og stíl við Fimmvörðuhálsgosið. Manni finnst nú að yfirvöld ættu að taka þessa hógværu ábendingu okkar fremsta fræðimanns á þessu sviði alvarlega.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 17:40

10 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Snæfellsjökull er sennilega virkt eldfjall, þótt hann hafi ekki gosið síðan land byggðist.  Við vitum ekkert um havð er að gerast innan í fjallinu, þar sem engar mælingar eru í gangi. Ljósufjallakerfið er um 90 km á lengd, frá Berserkjahrauni til Grábrókar. Í því kerfi eru Rauðhálsahraun sem gaus rétt eftir landnám. Sem sagt: Ljósufjallakerfið er vel virkt. Í því geta orðið bæði basalt sprungugos ens og Berserkjahraun, og einnig líparít gúlar eða hraun, eins og Ljósufjöll.  Nauðsynlegt að setja mæla á báðar þessar miklu eldstöðvar.  Málið er í rannsókn....

Haraldur Sigurðsson, 6.5.2010 kl. 18:24

11 Smámynd: Júlíus Valsson

Mjög athyglisverður og gagnlegur póstur. Hef oft velt því fyrir mér hvers vegna Snæfellsjökull er að hverfa. E.t.v. má þar kenna um auknum jarðhita undir jöklinum?

Spurning vaknar hvort, suðurhluti Íslands gæti verið eitt stórt eldfjall (super volcano?) líkt og í Yellowstone?

Júlíus Valsson, 6.5.2010 kl. 20:44

12 identicon

Fór að lesa mér til um Snæfellsjökul og komst að því mér til mikillar undrunar að það eru ekki til miklar rannsóknir um eldstöðina. Velti því fyrir mér af hverju eldstöðin heilli ekki jarðvísindamenn á meðan bókmenntirnar og hvers konar sértrúarsöfnuðurnir gera henni góð skil.

Það verður að vera áhugi (og fjármagn) fyrir rannsóknum en er mjög dýrt að reka jarðskjálftamæli?

Helga (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 22:05

13 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Helga: Ég vil benda þér á blogg mitt um Snæfellsjökul hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/991763/

Það er satt að allt of lítið hefur verið unnið í rannsóknum á þessu merka eldfjalli. Mér er ekki ljóst hvers vegna hann hefur orðið út undan, en við stefnum að því að bæta úr.  Það mun kosta um eina til tvær miljónir kr. að setja upp jarðskjálftamæli, sem verður síðan rekinn af Veðurstofu og gögnin strax inn á netið þar sem allir geta fylgst með.  Við Steinunn Jakobsdóttir höfum rætt málið, en ekki tekist enn að finna fjármagn.    

Haraldur Sigurðsson, 7.5.2010 kl. 05:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband