Má bjóða þér gos? Eldfjöll sem aðdráttarafl í ferðamennsku

Anthony RussoÍ dag flutti ég þetta erindi á ráðstefnu Ferðamálaþings í Reykjavík:

Atburðir tengdir eldgosunum í Eyjafjallajökli hafa minnt okkur rækilega á að eldfjöll og eldgos geta haft áhrif á ferðamennsku á ýmsan hátt.  Það er ljóst að þessi miklu sjónarspil náttúrunnar eru sterkt aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en einnig hefur komið í ljós að mistök í fréttamiðlun og kynningu á slíkum hamförum hafa haft neikvæð áhrif á ferðaiðnaðinn í landinu í heild.   Aska í háloftum frá Eyjafjallajökli hefur beint eða óbeint orsakað það að eitt hundrað þúsund flugferðum var aflýst milli 15. og 21. apríl, miljónir ferðamanna fóru í strand og kostnaður og tekjutap flugfélaga mun vera meir en 1.7 miljarðar dollara eða um 220 miljarðar króna.    Athygli alheims beindist nú að Íslandi sem aldrei fyrr í tengslum við gosið.  Erlendir fjölmiðlar streymdu til landsins í leit að fréttum.  Hver voru viðbrögðin hér heima?  Ég var staðsettur suður í sveitum á þessum krítiska tíma og varð vitni af því þegar erlendir fréttamenn reyndu að safna einhverju efni tengdu gosinu á allan mögulegan máta.  Fókus heimspressunnar var allur á Íslandi.  Hér var besta tækifæri Íslands til að koma  upplýsingum og áróðri um landið til alheims.  En engin skipuleg fjölmiðlaveita var til.  Hið opinbera og þar á meðal Iðnaðarráðuneytið, brást.  Ísland missti af  stærsta tækifærinu, sem hefði getað verið algjörlega ókeypis áróður um land og þjóð  og lyftistöng fyrir ferðamál landsins.  Einu upplýsingar til fjölmiðla virtust vera frá Almannavörnum, til dæmis um að stærsta samgönguleið landsins, Highway 1, væri rofinn í sundur, brúm lokað og hundruðir manna fluttir á brott.  Auðvitað er það hlutverk Almannavarna að aðstoða og vernda gegn jarðvá, en það fór lítið fyrir  tilkynningum eða fréttaveitu frá hinu opinbera varðandi það jákvæða, að nú væri búið að opna aftur.  Strax og gosið á Fimmvörðuhálsi hófst bárust mér póstur og fjöldi símhringinga frá ferðamönnum erlendis sem vildu koma til að sjá gosið, og enn fleiri þegar sprengigosið hófst.  Því miður gat ég ekki sinnt þeim vegna annara verkefna.   Ég vil segja ykkur lítið eitt frá starfsemi sem ég hef rekið í um 30 ár sem er tengd ferðum til eldfjallasvæða víðs vegar um heiminn.   Hér var aðallega um að ræða landsvæði þar sem ég hef unnið við eldfjallarannsóknir.  Ég rak starfsemina í gegnum fyrirtæki mitt Volcano Tours, en þar sem þetta var aukavinna, var ég yfir leitt með aðeins tvær til þrjár ferðir á ári hverju.  Þetta eru 10 til 15 daga ferðir, og þáttaka takmörkuð við 25 manns í hverri ferð.  Viðbrögðin hafa verið stórkostleg.  Ég hef skipulagt og stýrt ferðum á eldfjallasvæði Ítalíu (Vesúvíus, Stromboli, Etnu, Líparí), með blöndu af rómverskri sögu og menningu eins og hún kemur fram í borgunum Pompeii og Herkúlaneum sem urðu undir ösku og vikri frá gosinu í Vesúvíusi árið 79 eKr.   Einnig hefur gríska eldeyjan Santóríni í Eyjahafi verið vinsæl, þar sem er að finna stórkostlega blöndu af spennandi eldfjallafræði, fornleifum frá Bronzöld, menningu og sögu.  Þá vil ég nefna eyjaklasann Galapagos í Kyrrahafi.  Þar hef ég þann máta að hópurinn býr um borð í bát sem fer milli eyjanna á nóttinni, en farið  er í land á nýrri eyju á hverjum morgni og hún könnuð, ásamt sundi og köfun í hafinu umhverfis.  Á svipaðan hátt könnum við eldeyjarnar í Indónesíu, og notum bát sem fljótandi bækistöð hópsins.   Fræðsla er mikilvæg, og við höldum fyrirlestur á hvrjum morgni um jarðfræði, sögu, áður en farið er í gönguferðir.  Eldfjöllin í Mið-Ameríku, einkum í Costa Rica, hafa einnig verið könnuð með slíka hópa áhugasamra ferðamanna.   Einig má nefna ferðir okkar til Ekvador, Guatemala og Vestur Indía.  Ísland hefur uppá mjög mikið að bjóða fyrir ferðamenn sem þyrstir í fróðleik um land og sögu, eldfjöll, náttúruöfl og útivist.   Nýja Íslandskortið fyrir ferðamenn á að vera jarðfræðikortið.  Eldfjallasafn í Stykkishólmi býður nú upp  á eins dags fræðsluferðir umhverfis Snæfellsnes, og hefur því verið mjög vel tekið.  Nýja ferðafólkið er  duglegt, þráir útivist, vill fræðast á skipulegan hátt, vill hafa fullt prógram fyrir daginn til að njóta ferðarinnar til hins ýtrasta.  Leyfið fólkinu að koma til eldfjallsins. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er þessu algerlega sammála.  Eldgosið getur einmitt verið aðdráttarafl fyrir ferðamenn hingað til lands.  Það upplifðum við jú svo sannarlega þegar teymið frá 60 Minutes var hér á landi. 

Elín Hirst (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 21:24

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Takk fyrir, Elín.

Haraldur Sigurðsson, 4.5.2010 kl. 22:43

3 identicon

Sæll Haraldur.

Það er talað um gusthlaup í fréttum. Er virkilega raunveruleg hætta á slíku við þessar aðstæður sem eru í toppgíg Eyjafjallajökuls og Gígjökli?

kv Erling

Erling Magnússon (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 23:22

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Og ekki vantar "Söguna" á svæðinu. Njála er þarna í öllu sínu veldi.

Góður pistill að vanda hjá þér, Haraldur. Ég benti á hann á bloggi Ómars Ragnarssonar áðan.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.5.2010 kl. 00:09

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Myndir af gosösku í krukku má sjá HÉR

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.5.2010 kl. 00:11

6 Smámynd: Óskar

Sæll Haraldur, sammála þér - það átti að nýta athyglina sem Ísland fékk miklu betur.

En mig langar að vita hvort þú getir túlkað jarðskjálftana sem hafa verið að mælast mjög djúpt undir Eyjafjallajökli síðustu 2 sólarhringa, allt að 20 km. dýpi.??  Er þetta merki um aukið kvikustreymi upp í gosrásina ?

Óskar, 5.5.2010 kl. 00:46

7 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Djúpir jarðskjálftar undir Eyjafjallajökli eru líklega af völdum kvikustreymis uppúr möttli jarðar.  Sennilega hefur slíkt kvikusteymi verið í gangi undanfarið, en hinn hái órói hefur ekki gert kleift að sjá slíka skjálfta.  Hár órói er eins og stöðug truflun í útvarpssendingu; önnur hljóð heyrast ekki vegna truflunarinnar.  Það er því líklegt að djúpir smáskjálftar hafi verið í gangi lengi en ekki verið mælanlegir.

Varðandi gusthlaup: mig grunar að Almannavarnir vilji taka alllt með inn í reikninginn og tryggja sig á allan máta - og til að halda fólki frá svæðinu.  Ég sé ekki líkur á slíku fyrirbæri, né er mér kunnugt um  að þau séu þekkt í jarðsögu Eyjafjallajökuls.

Haraldur Sigurðsson, 5.5.2010 kl. 05:33

8 identicon

Glæsileg nýja viðbótin hjá þér í Eldfjallasafninu um gosin fyrir sunnan og myndirnar hans RAX stórfenglegar. Við Stella frænka þín skoðuðum  safnið í gær og fengum þessa fínu leiðsögn hjá Þorsteini Eyþórs.

Símon (IP-tala skráð) 5.5.2010 kl. 07:30

9 identicon

Glæsilegur pistill.

Friðbjörn B. Möller (IP-tala skráð) 5.5.2010 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband