Færsluflokkur: Bergfræði
Uppruni Íslands liggur undir Baffinseyju
19.10.2011 | 19:13
Bergfræði | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sprungukerfið í móbergi Kerlingarfjalls
29.7.2011 | 10:51
Eldgosið í Mont Pelée árið 1902
28.7.2011 | 13:43
Bergfræði | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Djúpalónsperlur og Benmorít
28.7.2011 | 07:01
Keilugangar í Setbergseldstöð
29.6.2011 | 14:54
Þeir sem kunna að hafa áhuga á að skoða keiluganga er bent á strandlengjuna í botni Grundarfjarðar. Ég mæli með því að ganga í fjörunni (sætið sjávarföllum) frá Grund og fyrir neðan Hamra. Þar eru ágætar opnur í nær samfellda þyrpingu af keilugöngum, bæði af þykkum keilugöngum úr líparíti, og þynnri basalt keilugöngum. Þar sést einnig mjög vel hvað blágrýtismyndunin, gömlu basalt hraunlögin, er mikið ummynduð af háhita hér. Steindir sem finnast hér í blágrýtismynduninni, á milli keiluganganna, eru meðal annars laumontít (hvítir og frekar mjúkir eða jafnvel loðnir kristallar), og einnig epídót (fallega grænir kristallar) og að lokum granat (smáir og rauðleitir kristallar). Þessar steindir benda til þess, að hér hafi verið um 400oC hiti í jarðskorpunni, eða virkt og kraftmikið háhitasvæði. Síðari myndin er hluti af jarðfræðikortinu sem ég birti 1966 af svæðinu.
Geimkorn eða Chondrules eru elstu steinarnir í sólkerfinu
7.4.2011 | 21:43
Stærsti kolefnisríki kondrít loftsteinninn sem fallið hefur til jarðar er Allende loftsteinninn, en hann féll árið 1969 í Mexíkó. Hann var upphaflega á stærð við bíl, en brotnaði í mðrg stykki þegar hann kom inn í lofthjúp jarðar. Brotin dreifðust yfir svæði sem er um 50 km á lengd og 8 km á breidd. Nú er búið að safna um 3 tonnum af steinum, og fólk er enn að finna steina af þessum merkilega loftsteini. Hann féll til jarðar í norður hluta Mexíkó, skammt fyrir norðan borgina Durango. Ég var hér á ferð árið árið 1990, en ég og félagar mínir hurfu strax frá svæðinu, þegar fréttist að eiturlyfjasmyglarar færu hér um daglega á leið til Bandaríkjanna, og öll umferð væri stórhættuleg af þeim sökum. Annars hefði ég sennilega fundið stykki af þessum merkilega loftsteini. En fjórða myndi sýnir part af Allende steininum, og takið eftir að það er fullt af litlum kúlum eða geimkornum (kondrules) í honum: elsta efni sólkerfis okkar, um 4,6 milljarðar ára að aldri.
Bergfræði | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Seigja kviku
13.2.2011 | 12:45
Seigja (viskositet) er eiginleiki efnis sem við hugsum oftast ekkert um, en hún er mjög mikilvæg varðandi hegðun allra vökva, eins og til dæmis hraunkviku. Berum til dæmis saman tvö vökva sem þið þekkið vel: vatn og tómatssósu. Seigja tómatssósunnar er einmitt eitt hundrað sinnum hærri en vatnsins, þegar við berum þessa vökva saman með seigjumælingu og notum seigjugildi vísindanna, en það nefnist Pa s eða paskal-sekúndur. Tjara er ótrúlega seigur vökvi, og lengsta tilraun vísindanna er tilraun með seigju tjöru. Þessi tilraun er enn í gangi í Queensland háskólanum í Brisbane í Ástralíu, eftir 84 ár, enda á tilraunin metið í Guinness Book of Records. Prófessor Thomas Parnell setti tjöru í trekt árið 1927 og beið síðan eftir því að dropar af tjöru læku niður úr trektinni. Hann sá fyrsta dropann falla árið 1938, og annan dropann árið 1947, rétt áður en hann dó. Tilraunin er enn í gangi í Brisbane (vonandi hafa flóðin þar nýlega ekki haft nein slæm áhrif) en nú hafa alls átta dropar fallið, sá síðasti í nóvember árið 2000. Seigja tjöru hefur verið reiknuð út á grundvelli þessar tilraunar, og reyndist hún 230 milljörðum hærri en seigja vatns, eða 2,3x108 Pa s. Eðlisfræðideild Queensland Háskóla í Brisbane hefur vefmyndavél á tjörutilrauninni, svo þið getið, kæru lesendur, fylgst með því þegar næsti dropi fellur, ef þið þafið mikla þolinmæði og góðan tíma og yfirleitt nennið að bíða eftir þeim merka atburði. Vefmyndavélin er hér http://www.smp.uq.edu.au/pitch/
Það er annars upplagt að rannsaka seigju einmitt heima í eldhúsinu, og gera sjálfur tilraunir varðandi áhrif hita á seigjuna. Eftirfarnadi gildi eru fyrir seigju ýmissa efna við 20 stiga hita, gefin í pascal-sekúndum eða Pa s: vatn 0,001, hunang 10, tómatsósa 100, bráðið súkkulaði 130, hnetusmjör 250. Myndin til hliðar sýnir seigju á nokkrum tegundum rúðuglers, eða réttara sagt heita vökvans eða kvikunnar sem myndar rúðugler. Svarta kúrvan sýnir áhrif hita á seigju fyrir venjulegt rúðugler, en einingarnar eru í log Pa s. Seigja glerkvikunnar við um 700 stiga hita er sem sagt mörgum milljörðum sinnum hærri en við 1100 stiga hita, samkvæmt línuritinu.
Það sem við köllum föst efni, eins og ís, hafa líka seigjueiginleika, þegar litið er á efnið í nógu miklu magni. Heill skriðjökull af ís rennur, og er seigja jökuls um 1013 Pa s. Möttlull, jarðar, lagið undir jarðskorpunni, er enn seigari. Venjulegur möttull, eins og undir meginlöndunum, er um 1021 Pa s. Möttullinn undir Íslandi er alls ekki venjulegur, þar sem hann er óvenju heitur. Seigja okkar möttuls er um það bil 1018 Pa s og þessi lága seigja hefur þau áhrif að lóðréttar jarðskorpuhreyfingar eru mun hraðari á Íslandi en víðast hvar á jörðu.
En snúm okkur nú að aðalefninu: seigju hraunkviku. Það er gífurlegur munur á seigju á ýmsum tegundum af kviku, en seigjan er háð bæði hita og efnasamsetningu og einnig innihaldi vatns og annara reikulla efna í kvikunni. Seigja kviku getur verið allt frá 100 Pa s fyrir mjög heita basalt kviku, og allt til 1011 Pa s fyrir mjög kísilríka líparít kviku, og nær sviðið á seigju kviku því yfir um ellefu stærðargráður! Auk þess er seigjan háð þrýstingi, og er seigja kviku djúpt í jörðu, undir háum þrýstingi, því enn lægri en á yfirborði. Heitasta og þynnsta kvikan sem við þekkjum er kölluð komatiít, og hefur hún seigjugildi um 0,1 til 10 Pa s, eða álíka og hunang. Komatiít hraun runnu á frumöld jarðar, fyrir meir en 2,5 milljörðum ára. Síðan hefur þessi kvika ekki komið upp á yfirborð hér á okkar plánetu. En hins vegar gýs kómatiít hraunum á plánetunni Io, eins og ég hef bloggað um hér: http://vulkan.blog.is/admin/blog/?entry_id=997761
Ég hef mælt seigju kvikunnar sem kom upp í gosinu á Fimmvörðuhálsi í fyrra, og einnig kvikunnar sem gaus í toppgíg Eyjafjallajökuls. Aðgerðin byggist á efnagreiningu glerdropa, sem finnast inni í kristöllum. Þessir kristallar eða steindir hafa myndast í kvikunni á miklu dýpi, og berast upp á yfirborðið með kvikunni. Þessar mælingar á efnasamsetningu veita upplýsingar um hita, sem ég hef einnig bloggað um hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1141566/
og er þá hægt að reikna út seigjuna. Niðurstöðurnar eru sýndar á myndinni til hliðar. Alkalí basalt kvika frá Fimmvörðuhálsi hefur seigju frá 5 til 50 Pa s, og hún er sem sagt lapþunn. Hins vegar er trakíandesít kvikan sem kom upp úr toppgíg með seigju á bilinu 1000 til 4000 Pa s, eða um eitt hundrað sinnum seigari! Þessi mikli munur á seigju er að nokkru leyti skýringin á því, hvers vegna þessi tvö eldgos voru svo gjörólík í hegðun. Alkalí basalt kvikan var heitari, mjög þunnfljótandi og myndaði hraun. Hins vegar var trakíandesít kvikan svo seig, að gasbólur sem mynduðust í kvikunni gatu ekki risið og sloppið út, heldur bárust upp með kvikunni og sprungu á yfirborði. Að sjálfsögðu átti samspil kviku og bráðnandi jökuls og gufusprengingar einnig mikinn þátt í sprengivirkninni í Eyjafjallajökli, en seigja kvikunnar er mikilvægt atriði, sem taka verður inn í reikninginn.
Bergfræði | Breytt 13.7.2011 kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kort Helland af Lakagígum er merkilegt listaverk
29.5.2010 | 17:27
Eitt af fyrstu listaverkum tengdum eldfjöllum Íslands er kort norska jarðfræðingsins Amund Helland af Lakagígum, sem var árangur af ferð hans til Íslands árið 1881. Lakagígar er 25 km löng sprunga þar sem yfir eitt hundrað gígar gusu miklu hrauni árið 1783, þegar Skaftáreldar geisuðu og mynduðu stærsta hraun sem hefur runnið á jörðu síðan sögur hófust. Áhrif gossins voru óskapleg, bæði á Íslandi og í Evrópu. Allir þekkja Móðuharðindin sem komu í kjölfar gossins, en þá var 24% mannfækkun á Íslandi og um 75% af öllum búpening landsmanna fórst. Ekki fór mikið fyrir rannsóknum á gosinu, en Sveinn Pálsson læknir kom fyrstur manna að Lakagígum árið 1794, rúmum tíu árum eftir gosið. Tæpum eitt hundrað árum eftir gosið gerði norski jarðfræðingurinn Amund Theodor Helland (1846-1918) út leiðangur til eldstöðvanna. Bræðurnir Leó og Kristján Kristjánssynir hafa fjallað um heimsókn Hellands til Íslands í grein í Náttúrufræðingnum árið 1996. Helland kom til Seyðisfjarðar snemma sumars árið 1881, og komst svo loks til Lakagíga síðar um sumarið. Árangurinn af ferð hans var kort af eldsprungunni Lakagígar, en kortið eitt er meir en tveir metrar á lengd. Kortið teiknaði norski málarinn Knud Gergslien undir leiðsögn Hellands. Það er til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Hann áætlaði að gosið hefði myndað hraun sem væri 27 rúmkílómetrar, en það er nokkuð hærri tala en síðari rannsóknir telja: eða um 15 km3. Eftir ferð sína til Íslands birti Helland merka grein með heitinu Lakis kratere og lavastromme, og kom hún út í Kristiania (nú Osló) árið 1886. Ekki eru allir hrifnir af framtaki Hellands. Sigurður Þórarinsson (1969) fer til dæmis frekar niðrandi orðum um Íslandsför Hellands og telur að hann hafi aðeins verið tvo daga við Lakagíga í ágúst árið 1881. Ef litið er á kortið, þá virðist ótrúlegt að Helland hafi afkastað þessu mikla verki á tveim dögum. Grein Hellands sýnir reyndar að hann var í eina viku í ferðinni. Hann mældi hæð og breidd flestra gíganna, og eru hæðartölur á flestum gígunum sýndar á kortinu. Samkvæmt kortinu eru 56 gígar fyrir norðaustan Laka, og 49 gígar fyrir suðvestan Laka. Hér eru sýnd smáatriði í byggingu jarðsprungunnar og gígana sýnd og vafalaust hefur þetta verk tekið töluverðan tíma. Á kortinu koma fram alveg ný atriði í jarðfræði Íslands. Til dæmis notar hann alþjóðaheitið palagonit fyrir móbergsmyndunina. Í öðru lagi er hann fyrstur til að kenna gossprunguna við móbergsfjallið Laka, en það heiti hefur fylgt gosinu ætíð síðan. Komið í Eldfjallasafn og sjáið þetta einstæða og merkilega kort af mestu gossprungu jarðar. Helland var sérstakur persónuleiki og skopmyndin sem fylgir gefur nokkra hugmynd um það.
Bergfræði | Breytt 30.5.2010 kl. 06:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Merkir molar
27.5.2010 | 20:47
Bergfræði | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ferð á Eyjafjallajökul 16. maí 2010
18.5.2010 | 06:38
Í gær tók ég þátt í leiðangri á Eyjafjallajökul með Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, í þeim tilgangi að safna sýnum og mæla þykkt á gjósku sem fallið hefur á jökulinn vestan gígs. Við ókum í þremur jeppum frá Seljalandsfossi og upp Hamragarðaheiði. Síðan var ekið upp á jökulin og gekk ferðin nokkuð vel. Þegar við vorum komnir rétt austur fyrir Skerin, í um 1000 metra hæð, var stanzað til að taka sýni af öskunni sem þekur jökulinn. Rétt í þann mund hófst kraftmikil hrina af sprengingum, sem myndaði stóra og dökkgráa öskubólstra hátt í loft. Um leið blossuðu eldingar í mekkinum og þrumurnar skullu yfir okkur. Eldingar og miklar rafmagnstruflanir eru eitt af einkennum sprengigosa, einkum ef vatn er í mekkinum. Þá virkar gjóskan eins og skammhlaup milli jarðar og háloftsins, og stöðurafmagn eða static verður mjög mikið vegna mismunandi rafpóla í öskukornum og gufu í mekkinum. Lesið frekar um eldingar í gosinu hér.
Rafmagnið var svo mikið að hárið stóð beint upp á höfði okkar, og ef við réttum upp handleggi hátt upp, þá titraði loftið á fingurgómunum. Við nálguðumst gígbrúnina, með hjálma á höfði, en tókum þá ákvörðun að fara ekki upp á Goðasein vegna hættu af eldingum. Askan féll stöðugt og var svo þét að erfitt var að sjá út úr bílnum. Ég hafði áður komið á Goðastein undir allt öðrum kringumstæðum og glampandi sól, eins og ég bloggaði um hér. Hávaðinn var gífurlegur í þrumunum, en þess á milli var hljóðið sem gosið gaf frá sér eins og mjög mikið brim. Mökkurinn reis hátt beint yfir höfðum okkar, en hann fór í um 8 km hæð þann dag. Við færðum okkur nær, og stöðvuðumst rétt fyrir vestan Goðasein, sem er á brún stóra gígs Eyjafjallajökuls. Þá erum við um 1 km frá gígnum sem er nú virkur. Ekki var ráðlegt að fara upp á Goðastein vegna eldingahættu. Hér vorum við komnir í stöðugt öskufall, og ringdi yfir okkur sandur og aska allt að 4 mm að stærð. Liturinn á gjóskunni sem þekur jökulinn nálægt Goðasteini er nokkuð ljósgrar, eiginlega khaki litur. Einnig er mikið af gjóskunni vikur, nokkuð útblásinn. Hér og þar lágu 10 til 15 sm gjallstykki á yfirborði, og skammt frá gígbrúninni eru stórir pyttir eða holur eftir bombur sem hafa fallið á jökulinn. Í sprengingum kastast oft mjög stór flykki af hraunslettum í loft upp og þær geta verið á stærð við rúmdýnur eða jafnvel bíla. Bomburnar skella á jökulinn og mynda gíga í ísinn. Einn gígurinn er um 5 m í þvermál og rúmlega 2 m djúpur. Í botni hans var stór bomba sem er rúmlega 1 m í þvermál og sennilega um 2.5 tonn. Sprenging hefur varpað henni hátt í loft og síðan féll hún til jarðar um 1 km fra gígnum. Stór hluti hennar er nú kominn á Eldfjallasafn í Stykkishólmi, en afgangurinn er kominn í safn Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Slíkar bombur eru mjög góð sýni af kvikunni sem nú berst upp á yfirborðið, og munu gefa verðmætar upplýsingar um gerð kvikunnar og gasinnihald hennar eftir rannsóknir jarðefnafræðinga og bergfræðinga. En slíkar rannsóknir taka því miður nokkuð langan tíma. Við vildum ekki dvelja lengur á hættusvæðinu en nauðsyn krefur, og héldum því frá gígnum. Guðrún Sverrisdóttir jarðfræðingur og félagar hennar gerðu síðan fjölda af mælingum á þykkt öskulagsins víðs vegar um vestanverðan jökulinn áður en við héldum til byggða.