Eldgosið í Mont Pelée árið 1902

Hraungúll og myndun gjóskuflóðsÁrið 1902 varð eitt frægasta eldgos sögunnar, þegar eldfjallið Mont Pelée gaus á eynni Martinique í Karíbahafi. Það gos er frægt af endemum, ekki vegna þess að gosið hefði verið sérlega stórt, heldur vegna hins mikla mannfalls, en um 28 þúsund manns fórust.  Eldfjallið Pelée hafði gosið áður árin 1792 og 1851.  Pelée þýðir sá sköllótti, sem vísar til þess, að í sögunni hefur efri hluti eldfjallsins jafnan verið gróðurlaus, vegna tíðra eldgosa.Samt sem áður hafði blómgast allstór borg við rætur þess. Það var borgin Saint Pierre, sem var oft nefnd París Karíbahafsins. Þar var mikil náttúrufegurð, gleði, fjör og blómleg verzlun.  Enda var Saint Pierre þá höfuðborg eyjarinnar Martinique, sem enn er ein af nýlendum Frakka í Karíbahafi.  Ég kynntist Mont Pelée náið árin 1970 til 1974, þegar ég starfaði við rannsóknir á eldfjöllum í Karíbahafi.  Það var í febrúar árið 1902 að  tekið var eftir því að gas streymdi í vaxandi mæli frá eldfjallinu og vart var við jarðskjálfta.  Í lok apríl höfðu smásprengingar hafist, og er sennilegt að þá hafi hraungúll verið að myndast á fjallstoppnum.  Slíkir hraungúlar verða til þegar mjög seig kvika hleðst upp yfir gígnum, og skriður af mjög heitu bergi og ösku kunna að falla úr hlíðum hraungúlsins.  Rústir Saint PierreJarðhræringarnar orsökuðu óróa meðal borgarbúa, en yfirvöld gerðu lítið úr þessu og vildu fyrir alla muni halda borgurum í Saint Pierre þar til almennum kosningum þar hinn 11. maí væri lokið. Svo virðist sem að yfirvöld hafi komið í veg fyrir flótta frá borginni til að hafa góða þáttöku í kosningunum, en gígurinn er aðeins um 8 km fyrir norðan Saint Pierre. En áhrif eldgoss á sveitir umhverfis borgina orsökuðu það, að fjöldi fólks streymdi inn í Saint Pierre. Fyrstu fórnarlömb í gosinu fórust hinn 5. maí, þegar gjóskuflóð náði niður í sveitir fyrir norðan borgina. Samt voru viðbrögð hins opinbera lítil eða engin, og landstjórinn yfir Martinique flutti til borgarinnar til að róa almenning.  Fórnarlömb í gjóskunniÞað var skömmu eftir kl. 8 að morgni hinn 8. maí, að hörmungarnar skullu yfir.  Gjóskuflóð úr hlíðum fjallsins streymdi á miklum hraða til suðurs og skall yfir borgina. Sennilega var gjóskuflóðið myndað þegar stór hluti af hraungúlnum hrundi fram, heit kvikan myndaði mikla skriðu af glóandi heitum bergbrotum, vikri, ösku og gasi. Gjóskuflóðið náði til Saint Pierre á nokkrum mínútum þennan Uppstigningardagsmorgun.  Fanginn Ciparis komst afAð minnsta kosti 28 þúsund mans fórust í Saint Pierre af völdum gjóskuflóðsins. Þau fórust í fyrsta lagi vegna hitans, sem var gýfurlegur, og einnig vegna þess að anda að sér mjög heitri ösku sem brenndi slímhúð og leiddi strax til dauða. Aðeins tveir komust af í borginni. Annar var skósmiðurinn Leon Compere, en honum tókst að komast út úr borginni, mikið brenndur.  Hinn var fanginn Louis Cyparis (1875-1929), sem var í dýflisunni undir fangelsi borgarinnar þegar gjóskuflóðið gekk yfir. Hann fanst á lífi í rústunum, og varð síðan frægur um heim allan, en hann var sýndur í hinum vinsæla sirkusi Barnum & Bailey sem fanginn frá Saint Pierre.  Við gosið í Mont Pelée árið 1902  varð mesta mannfall sem orðið hefur í eldgosi síðan gosin miklu í Krakatá árið 1883 (um 35 þúsund fórust) og í Tambóra í Indónesíu árið 1815 (um 117 þúsund fórust). Frakkar hófu strax rannsóknir á eldgosinu og orsökum þess og sendu jarðfræðinginn Alfred Lacroix (1863-1948) til Martinique.  Nálin á Mont PeléeRit hans, sem kom út árið 1904, markar að nokkru leyti upphaf eldfjallarannsókna, en hann er sá fyrsti sem skilur mikilvægi gjóskuflóða.  Mont Pelée gýs 1929Hann gaf þeim nafnið nuées ardentes, eða glóandi flóð.  En Mont Pelée var ekki búinn að ljúka sér af, heldur hélt áfram að gjósa.  Fljótlega eftir gjóskuflóðið tók að rísa risavaxin súla af bergi eða kviku upp af gígnum. Þessi mikla nál af bergi reis um 15 metra á dag, og náði alls 350 metra hæð yfir umhverfið.  Súlan myndaðist vegna þess að kvikan var mjög seig og rann ekki, heldur ýttist beint upp og storknaði til að mynda nálina.  Það minnir því helst á tannkrem sem er kreist upp úr túbunni. Þegar súlakólnaði þá brotnaði hún og sprakk í mola og lækkaði smám saman. Gos hófst aftur í Mont Pelée árið 1929 og varði þar til 1932. Hér með fylgja tvö listaverk úr Eldfjallasafni í Stykkishólmi, sem sýna eldfjallið í þessu gosi. Það fyrra er olíumálverk eftir Edward Kingsbury, sem sýnir allt fjallið snjókvítt af ljósri ösku. Woodbury gos 1929Hin myndin er eirstunga eftir Charles H. Woodbury, sem sýnir rjúkandi hraungúlinn á toppi eldfjallsins.  Síðan hefur Mont Pelée ekki gosið, en borgin Saint Pierre hefur aldrei náð sinni fornu frægð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi súla er ekkert ósvipuð Devils Tower í norðaustur Wyoming ekki langt frá

Black Hills í South Dakota

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.7.2011 kl. 17:20

2 identicon

Takk fyrir að svara beiðni minni um þetta gos

Það er ótrúlegt hvað stjórnvöld geta/gátu haft mikil völd yfir íbúum! 

En þessi bergsúla, á hún eitthvað skilt við Þumal í Skaftárfellsfjöllum? (sem kallast gígtappi er það ekki?)  Eða getur svona súla yfirhöfuð myndast á Íslandi?

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 28.7.2011 kl. 18:47

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Devil´s Tower í Wyoming er reyndar gígtappi og eldfjallið hefur verið rofið utan af honum. Ég veit ekki um nein dæmi þess að slíkt fyrirbæri hafi gerst á Íslandi, eða reyndar neins staðar á jörðu.  Nálin á Mont Pelée er alveg einstæð í jarðsögunni til þessa.  Hér þarf mjög seiga kviku til, sem inniheldur lítið eða ekkert gas.

Haraldur Sigurðsson, 28.7.2011 kl. 20:49

4 identicon

Takk fyrir þetta,

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.7.2011 kl. 20:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband