Færsluflokkur: Bergfræði
Heiti reiturinn undir Íslandi er yfir 1600oC heitur
8.8.2014 | 05:14
Ísland rís upp úr hafinu sem allstórt landsvæði og eitt höfuð einkenni þess er mikil eldvirkni. Ísland er þá það sem jarðvísindamenn kalla hotspot eða heitan reit. Lengi hefur verið deilt um uppruna og eðli heitra reita, en þeir eru nokkrir á jörðu, þar á meðal Hawaii, Galapagos, Páskaeyja og Yellowstone. Eru rætur heitu reitanna djúpar, langt niðri í möttlinum, jafnvel á mörkum möttuls og kjarna, eða eru þetta fremur yfirborðsfyrirbæri? Deilan meðal jarðvísindamanna um það hefur varið í nær fimmtíu ár. Nú vitum við tvennt um íslenska heita reitinn , sem skiftir miklu máli: (1) hann nær meir en 660 km niður í möttul jarðar og sennilega mun dýpra, og (2) hann er um 165 oC heitari en venjulegur möttull umhvefis. Gögn sem jarðskjálftafræðingar hafa safnað undir Íslandi gera kleift að teikna nýtt þversnið af möttlinum undir Íslandi. Það er Yang Shen, prófessor í University of Rhode Island, sem teiknar. Hann er með skrifstofu á hæðinni fyrir ofan mína skrifstofu í Rhode Island í Bandaríkjunum. Þversniðið hans Yang nær niður fyrir 660 km dýpi á myndinni. Í möttlinum eru greinileg skil, sem koma fram á skjálftabylgjum. Þau neðri eru á 660 km dýpi en hin efri á 410 km dýpi undir yfirborði. Bogar á þessum skilum sýna staðsetingu heita reitsins. Hann er sem sé eins og hallandi strókur í möttlinum undir landinu, en honum virðist halla dálítið til norðurs. Hann er um 200 km í þvermál í möttlinum. Tökum eftir, að möttulstrókurinn er fastur og óbráðinn. Hann er mjög heitur, en vegna þrýstings í jörðu helst hann óbráðinn þar til hann rís grynnra. Hann byrjar að bráðna og kvika myndast á línunum sem eru merktar solidus.
Basalt kvikan, sem gýs á yfirborði, getur veitt okkur upplýsingar um hitann í möttulstróknum undir Íslandi. Keith Putirka hefur rannsakað basaltið á Íslandi með þetta í huga og hann kemst að þeirri niðurstöðu, að möttulstrókurinn undir okkur sé yfir 1600 oC heitur. Hann er þá um 165 oC heitari en venjulegur möttull jarðar. Neðri myndin sýnir samanburð á hitanum á "venjulegum" möttli (til vinstri), möttlinum í heita reitnum undir Hawaií (í miðju) og lengst til hægri möttlinum í heita reitnum undir Íslandi. Þetta er nú gott og blessað, en vakna þá ekki aðrar spurningar? Hvers vegna er möttullinn heitari hér undir okkur? Er það ef til vill vegna þess, að möttulstrókurinn, sem rís undir Íslandi, kemur af mjög miklu dýpi, úr heitari lögum jarðar, og jafnvel frá mörkum möttuls og kjarna jarðar? Hversvegna er strókurinn hallandi, en ekki lóðrétt súla undir landinu? Eins og venjulega, þá vekja nýjar upplýsingar nýjar og erfiðari spurningar í jarðfræðinni og reyndar í öllum vísindum. Það er einmitt málið, sem gerir vísindin og alla fróðleiksleit svo dásamlega spennandi.
Steinblómin í Drápuhlíðarfjalli
27.7.2014 | 05:35
Þegar ég var að alast upp í Stykkishólmi gafst mér stundum tækifæri til að sjá stein, sem átti hug minn allan. Þetta var nokkuð stór steinn úr Drápuhlíðarfjalli, sem stillt var upp í stofu þeirra hjóna Sigurðar Ágústssonar og Ingibjargar Helgadóttur í Clausenshúsi. Yfirborð steinsins var eins og heill blómagarður, þar sem brúnar greinar kvíslast og breiðast út. Allir sem skoðuðu steininn voru á einu máli um að hér væru steingerðar plöntur. Að vísu finnast plöntusteingervingar í Drápuhlíðarfjalli, og jafnvel steinrunnin tré, 4 milljón ára gömul. En steinblómin þeirra Sigurðar og Ingibjargar eru ekki steingervingar, heldur kristallar af mángan oxíði.
Steinninn er alveg jafn fagur og merkilegur fyrir það, en skreytingin er ekki af lífrænum uppruna. Steinninn mun hafa fundist þegar gullleitin var gerð í Drápuhlíðarfjalli árið 1939. Síðan hef ég rekist á nokkra steina af svipaðri gerð í fjallinu, en þó engan jafn stóran og fagran. Hér með fylgja nokkrar myndir af þeim. Mángan oxíð kristallar með þetta form eru nefndir dendrítar vegna þess að þeir skifta sér sífellt í ýmsar greinar í vexti. Með því myndar kristallinn einskonar blað, sem líkist helst margskiftu laufblaði af burkna.
Sennilega berst mángan oxíð upp í sprungur í berginu með jarðhita og við vissar aðstæður fellur vökvinn út MnO2 og myndar kristalla af ýmsum tegundum af mangan oxíði, eins og hollandít, romanechit, cryptomelan og todorokít.
Elsta jarðskorpan er eins og Ísland
13.6.2014 | 21:16
Í norðvestur hluta Kanada eru bergmyndanir, sem eru um 4.02 milljarðar ára að aldri. Þetta berg nefnist Idiwhaa Gneiss og er meðal elsta bergs, sem finnst á jörðu. Til samanburðar er aldur jarðar talinn vera 4.54 milljarðar ára. Mikið af þessu bergi í Kanada er kallað greenstone, eða grænsteinn, en það er ummyndað basalt. Ummyndunin er af völdum jarðhita, eins og gerist í jarðskorpunni undir Íslandi. Reyndar er grænsteinn bergtegund sem er algeng á Íslandi. Við finnum til dæmis grænstein í Hafnarfjalli á móti Borgarnesi og í fjöllunum fyrir ofan Staðarsveit á Snæfellsnesi. Ransóknir á jarðefnafræði og steinafræði þessara fornu myndana í Kanada sýna að þessi jarðskorpa hefur myndast á alveg sama hátt og Ísland. Frumkvikan er basalt, sem hefur myndast við bráðnun í möttli jarðarinnar. Basalt gosin hafa hlaðið upp miklum stafla af hraunum, sem er margir kílómetrar eða jafnvel tugir km á þykkt. Basalt hraunstaflinn varð svo þykkur, að neðri hluti hans grófst djúpt og breyttist vegna jarðhitans í grænstein. Á vissum svæðum í djúpinu bráðnaði ummyndaða bergið og þá varð til líparítkvika. Jarðefnafræði gögnin á forna berginu frá Kanada eru nauðalík niðurstöðum á jarðskorpunni frá Íslandi. Þetta skýrðist allt þegar Kanadískir jarðfræðingar beittu skilningi á myndun Íslands við að túlka Kanadíska fornbergið. Það má segja að myndun Íslands skýri á nokkurn hátt myndun meginlandsskorpu af vissri tegund. Myndin sem fylgir er túlkun Kanadamanna á þeirra elstu jarðskorpu. Takið eftir að jafnvel landakortið, sem þeir teikna á yfirborðið er hermt eftir útlínum Íslands. Það er langt síðan að jarðfræðingar fóru að bera saman gömlu jarðskorpuna í Kanada og Ísland. Robert Baragar var þegar kominn á sporið í kringum 1970.
Stóra gosið í Tianchi eldfjalli var samtíma Eldgjárgosinu
30.11.2012 | 18:57

Járnsteinn úr Kjarnanum
19.7.2012 | 06:34


Demantsgluggin sem sér djúpt inn í Jörðina
26.5.2012 | 14:22



Uppruni Nafnsins Basalt
7.5.2012 | 18:08



Maðurinn sem uppgötvaði íslandít
5.5.2012 | 11:05

Dýpi skjálfta undir Jöklinum
19.4.2012 | 06:34


Bergfræði | Breytt s.d. kl. 06:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Silfurberg -- sólarsteinn?
15.1.2012 | 20:28


