Elsta jarðskorpan er eins og Ísland

Kanada einsog Ísland

 

Í norðvestur hluta Kanada eru bergmyndanir, sem eru um 4.02 milljarðar ára að aldri.  Þetta berg nefnist Idiwhaa Gneiss  og er meðal elsta bergs, sem finnst á jörðu.  Til samanburðar er aldur jarðar talinn vera 4.54 milljarðar ára. Mikið af þessu bergi í Kanada er kallað greenstone, eða grænsteinn, en það er ummyndað basalt.  Ummyndunin er af völdum jarðhita, eins og gerist í jarðskorpunni undir Íslandi. Reyndar er grænsteinn bergtegund sem er algeng á Íslandi.  Við finnum til dæmis grænstein í Hafnarfjalli á móti Borgarnesi og í fjöllunum fyrir ofan Staðarsveit á Snæfellsnesi. Ransóknir á jarðefnafræði og steinafræði þessara fornu myndana í Kanada sýna að þessi jarðskorpa hefur myndast á alveg sama hátt og Ísland.  Frumkvikan er basalt, sem hefur myndast við bráðnun í möttli jarðarinnar.  Basalt gosin hafa hlaðið upp miklum stafla af hraunum, sem er margir kílómetrar eða jafnvel tugir km á þykkt.  Basalt hraunstaflinn  varð svo þykkur, að neðri hluti hans grófst djúpt og breyttist vegna jarðhitans í grænstein. Á vissum svæðum í djúpinu bráðnaði ummyndaða bergið og þá varð til líparítkvika.   Jarðefnafræði gögnin á forna berginu frá Kanada eru nauðalík niðurstöðum á jarðskorpunni frá Íslandi.  Þetta skýrðist allt þegar Kanadískir jarðfræðingar beittu skilningi á myndun Íslands við að túlka Kanadíska fornbergið.  Það má segja að myndun Íslands skýri á nokkurn hátt myndun meginlandsskorpu af vissri tegund. Myndin sem fylgir er túlkun Kanadamanna á þeirra elstu jarðskorpu.  Takið eftir að jafnvel landakortið, sem þeir teikna á yfirborðið er hermt eftir útlínum Íslands.  Það er langt síðan að jarðfræðingar fóru að bera saman gömlu jarðskorpuna í Kanada og Ísland.  Robert Baragar var þegar kominn á sporið í kringum 1970.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sigurður, þetta er mjög athyglisvert hjá Kanadamönnunum.

Veit samt ekki hvort tala megi um "meginlandsskorpu" í þessu samhengi. Meginlöndin eru í grunninn úr graníti, sem er mun léttari en basalt og "flýtur" ofaná möttlinum.

Granítið kemur væntanlega upphaflega úr rofi basalts. Fyrsta fastlandið hefur verið basalteyjar á borð við Ísland. Rof þeirra í sjó fram myndar sandlög á hafsbotni, en sandurinn er léttari en basalt þar sem málminnihaldið minnkar við veðrunina.

Þar sem úthafsskorpur renna undir hvor aðra verður sandurinn sem á þeim liggur eftir, safnast saman með tíma, ummyndast og breytist í granít. Hringrás graníts er síðan að sumt veðrast og myndar ný sandlög á hafsbotni sem geta af sér nýtt granít, sumt grefst nógu djúpt til að bráðna, ummyndast og rís jafnvel upp á yfirborð aftur í eldgosum. En granítið á væntanlega allt uppruna sinn í rofi basaltseyja á borð við Ísland, samanber það sem Kanadamenn hafa fundið.

Brynjólfur Þorvarðsson, 14.6.2014 kl. 10:28

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Hver er þessi Sigurður?  Gamal kenningin um meginlandsskorpu er að falli komin.  Það þarf ekki granít til. Hvernig flýtur Ísland ofan á möttlinum, granít-laust? Granít myndast við diffrun eða aðskilnað frá basalt kviku, eða við partbráðnun af basaltskorpu, sem hefur ummyndast af jarðhita.

Haraldur Sigurðsson, 14.6.2014 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband