Grímshellir

Suður op GrímshellisÁrið 1928 voru fornleifar friðlýstar í Grímshelli á Snæfellsnesi.  Ekki virðist hafa verið mikil hætta á að nokkur kæmi nálægt þessum fornleifum, því hellirinn hefur verið týndur og reyndar mjög erfitt að komast í hann.  Loks tókst mér að finna Grímshelli í dag. Hann er ofarlega í austanverðu Kerlingarfjalli á Snæfellsnesi, en ekki í Grímsfjalli, eins og ætla mætti.  Það er alls ekki auðvelt að finna og komast að Grímshelli, þótt hann sé stór og myndarlegur.  Hellismunninn sést aðeins sunnan frá, þegar suðaustur hlíð Kerlingarfjalls er skoðuð frá Grímsfjalli.  Það munu vera tvær leiðir að hellinum.  UppdrátturÖnnur leiðin er upp mjög bratta og erfiða skriðu austan frá, en hin leiðin er frá Grímsskarði.  Ég valdi siðari leiðina, og fór til norðurs þegar í skarðið er komið, þræddi bratta hlíð Kerlingarfjalls, þar til komið er í bratta móbergshamra. Þar má skríða á syllu til norðurs, fyrir ofan hengiflugið, og þá niður skriðu að hellinum.  Opið kemur ekki í ljós fyrr en rétt er að kemur.   Grímshellir er sannkallaður útilegumannshellir.  Sagnir ganga um það í Helgafellssveit að sakamaður nefndur Grímur hafi fyrrum haft dvalarstað í hellinum.  Síðar sóttu menn úr sveitinni að honum þar og drápu hann.  Mér hefur hvergi tekist að finna neitt ritað um hellinn, en ef lesendur hafa séð slíkt, þá væru allar upplýsingar kærkomnar. Hleðsla og bæli

Lauslegur uppdráttur af Grímshelli fylgir hér með, en hann er í móbergshömrum, og eru móbergskúlur áberandi.  Til suðausturs snýr stórt op, sem er um 8 metrar á breidd og blasir Grímsfjall þar við.  Í norðaustri er lægra og minna op, sem horfir niður í Helgafellssveit og í átt til Stykkishólms.  Fyrir innan aðal opið í suðri er stórt bjarg.  Þegar vel er að gáð kemur í ljós 3 metra há hleðsla af móbergssteinum, og er hleðslunni þannig fyrir komið að margir munu hverfa frá og álíta að ekkert sé frekar að sjá hér.  Sennilega hefur hleðslan verið bæði til varnar gegn vindum og regni, og einnig til að fela vistarveruna fyrir innan.  En þegar farið er bak við stóra bjargið, þá kemur í ljós upphækkaður pallur eða byrgi, sem er eiginlega salur.  Þar við einn vegginn er hleðsla sem hefur sennilega verið bekkur eða svefnpláss.  Tveir mjög þröngir og mjóir skápar eða holur liggja út frá þessum bekk, sem hafa verið ágætis geymslur eða felustaðir. Hleðsla er einnig í norðaustur munnanum, og hefur hún sjálfsagt verið til að draga úr norðanáttinni og veita skjól.   Það má finna bein hér og þar í hellinum, en ekki sá ég aðrar minjar.  Í móbergið umhvefis suður munnann hafa ýmsir ferðalangar rist fangamörk sín.  Eitt það elsta sem ég sá er frá 1896 eftir OJJ frá Hrísum, sem er bær í Helgafellssveit austanverðri.   Fangamark 1896

Maður hefur það strax á tilfinningunni að hér hafi einhver dvalið um tíma og lagt mikla vinnu í að gera lífið þægilegra með hleðslu og annari vinnu í hellinum.  Einnig benda beinin til að hér hafi verið búið lengi.   En það hefur verið erfitt líf, því ekki er öllum fært að komast í hellinn.  Hann hefur því verið einstaklega góður felustaður fyrir sakamann á árum áður.     Í Árbók Hins Íslenska Fornleifafélags (39. árg. 1925-26. Bls. 46 og 47)  skrifar Þorleifur  J. Jóhannesson um Grímshelli árið 1924.  Hann heimsótti hellinn í fylgd með Kristleifi Jónssyni bónda á Kóngsbakka. Hann lýsir hellinum og telur að Grímsfjall og önnur örnefni séu kennd við mann sem verið hefur skógarmaður og haft fylgsni í hellinum. Líklega var hann uppi á söguöldinni, telur Þorleifur, því árið 1250 eru örnefnin með Grímsnafninu orðin alkunn.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þakka kærlega þessa fróðlegu færslu. Þarna hef ég komið, án þess að vita nokkuð um hvað ég var að skoða.

Svanur Gísli Þorkelsson, 2.9.2010 kl. 17:53

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Eitthvað finnast mér áttirnar undarlegar á þessari teikningu. Ég get fallist á að munninn vinstra megin sé austur eða jafnvel suð-austur munni en Norðaustur, gengur ekki aveg upp, ef eitthvað er að marka þessar merkingar.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.9.2010 kl. 19:48

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Jón Steinar:

Myndin sýnir að það er lauslega um 90 gráðu horn milli munna.  Bilið milli NA og SA er einnig 90 gráður.  Ég sé ekki vandamálið sem þú ert að velta fyrir þér.

Haraldur Sigurðsson, 2.9.2010 kl. 20:06

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Athyglisvert,   þakka þér fyrir Haraldur.  Þekkti ekki þennan Grím en af lýsingum er ljóst að þar hefur verið búið og ef eingin önnur er sagan, hversvegna mátti það þá ekki vera Grímur, hvað sem áttum líður?

Hrólfur Þ Hraundal, 2.9.2010 kl. 21:45

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nú? Þarna tendur uðurmunni og í tæplega 90 gráðum stendur norð austur, sem eftir mínum kokkabókum ætti að vera í aust-suð austur.

Á teikningunni stendur suður en ekki suð austur. Þetta er ranglega merkt. Sorry bara.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.9.2010 kl. 05:49

6 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Takk fyrir pistilinn.  Hann er bæði skemmtilegur og einstaklega fróðlegur. 

Anna Einarsdóttir, 3.9.2010 kl. 10:43

7 identicon

Þetta var skemmtilegt að lesa. Maður sperrir alltaf augu og eyru ef maður sér einhvern fróðleik um náttúru Snæfellsness. -  Ég er búinn í framhaldinu að skoða þjóðsagnasöfn Jóns Árnasonar og Jóns Þorkelssonar og í hvorugu fann ég neitt um Grím þennan. Kannski hef ég ekki leitað nógu vel og stundum leynist svonalagað inn í öðrum frásögnum. En mig langaði til að spyrja um ljósu rákirnar í móbergshamrinum, sem sjást greinilega ef maður stækkar fyrstu ljósmyndina eins og hægt er.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 3.9.2010 kl. 15:40

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég hef ekki fundið neitt enn á prenti varðandi hellinn.  Ljósu rákirnar í móberginu eru af tvennum uppruna.  Þær sem halla minna eru lagskifting í móberginu.  Hinar ljósu rákirnar, sem eru nær lóðréttar, eru sprungur í móberginu sem leir eða fingerð aska hefur safnast fyrir í.

Haraldur Sigurðsson, 3.9.2010 kl. 16:16

9 identicon

Sæll

Áhugaverð lesning takk fyrir það ...sendi þér það sem ég fann skrifað 1924  um Helgafellssveitina..

Kveðja Helga S

Helga Sigmundsdóttir (IP-tala skráð) 4.9.2010 kl. 19:29

10 identicon

Sæll aftur

Sá ekkert mail hjá þér á síðunni. en ég get sent þér þetta ef þú villt í tölvupósti... gætir sent mér adressuna þína á mailið mitt..

Kv. Helga S

Helga Sigmundsdóttir (IP-tala skráð) 4.9.2010 kl. 19:34

11 Smámynd: Njörður Helgason

Áhugavert um falinn helli.

Njörður Helgason, 4.9.2010 kl. 20:45

12 identicon

Sæll Haraldur.

Þetta var gaman að lesa og sjá myndirnar.

Fyrir 40 árum eða svo fór pabbi með okkur elstu krakkana í Grímshelli og lengi síðan var ætlunin að sýna yngri kynslóðunum þennan skemmtilega helli. Hvorugt okkar Bryndísar var þó öruggt með staðsetninguna og reyndar vorum við ósammála um flestar mögulegar leiðir að hellinum. Pabbi ekki lengur ferðafær nema á jafnsléttu en reyndi þó að leiðbeina okkur eftir því sem hann minnti um leiðina.

Við lögðumm svo í hann frá Kerlingarskarði með nokkurn hóp af börnum og barnabörnum og gengum í Grímsskarðið. Þaðan héldum við í austurhlíðar Kerlingarfjalls, skiptum liði og æddum upp og niður án þess að finna neitt. Bryndísastrákar, sem eru miklar fjallageitur, hafa þó, miðað við lýsingu þína, komist nálægt eða jafnvel alveg að honum án þess að átta sig á því. En við gáfumst upp í þetta skipti en þó með því fyrirheiti að gera út annan leiðangur seinna. Lýsingin þín ætti að hjálpa okkur með það.

Bestu kveðjur, Eyþór

Eyþór Benediktsson (IP-tala skráð) 7.9.2010 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband