Færsluflokkur: Ferðalög

Eldfjallalist frá Nýju Gíneu

Tavurvur gýsÉg ferðast varla svo inn á eldfjallasvæði, að ég rekist ekki á nýtt listaverk fyrir Eldfjallasafn í Stykkishólmi. Svo var einnig í ferð minni til Nýju Gíneu og til Rabaul eldstöðvarinnar í maí árið 2011.  Ég var við athuganir út á auðninni milli gíganna Tavurvur og Rabalanakaia, þegar ég hitti nokkra krakka sem voru að selja ýmsa muni.  Ungi ljóshærði kaupmaðurinn seldi mér málverk eftir föður sinn Mika.  Myndin sýnir gos í Tavurvur gígnum, en af einhverjum ástæðum er Mika sérlega hrifinn af hvítum fjallabílum og bætir þeim oft inn á myndir sínar.  Þeir búa á eynni Matupit, inni í miðri Rabaul öskjunni. Reyndar er hún ekki lengur eyja, heldur hefur hún lyftst upp um 17 metra vegna jarðhræringa og er nú komið þurrt land á milli Matupit og meginlandsins.  Eyjan heldur áfram að rísa dag frá degi um nokkra millimetra.  

Málverkasali í RabaulAnnars var ég nokkuð undrandi á því hvað það er mikið af ljóshærðum börnum og einnig ungum ljóshærðum konum í Nýju Gíneu.  Ég fékk þrjár skýringar á þessu fyrirbæri:  (a) þau þvo sér um hárið með peroxíð, (b) það er svo lítið ferskt vatn að fá á Matupit að þau fara í bað í sjónum á hverjum degi og það lýsir hárlitinn, (c) ljóshærðir Ástralir hafa farið hér um í mörg ár og skilið eftir erfðaefni sitt meðal innfæddra.  Ég veit ekki hvað er líklegasta skýringin, og ef til vill eru allar virkar. 

 


Eldur Niðri fær fimm stjörnur!

FréttatíminnHinn 13. maí 2011 birtist grein í Fréttatímanum, bls. 44, sem fjallar um bók mína, Eldur Niðri. Það er óneitanlega fróðlegt og forvitnilegt fyrir höfund að lesa hvað öðrum sýnist um verk hans.  Ég er alveg sáttur við að fá fimm stjörnur hjá Páli Baldvin Baldvinssyni.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eldur Niðri kemur út!

Vulkan ehf og Eldfjallasafn í Stykkishólmi gefa út bókina Eldur Niðri eftir Harald Sigurðsson eldfjallafræðing.  Útgáfudagur er 10. apríl 2011.  Bókin er 336 síður, skreytt fjölda mynda. 

Vulkan ehf, Bókhlöðustíg 10,  340 StykkishólmiEldur Niðri  vulkan@simnet.is  Dreifing og pantanir: Árni Þór Kristjánsson  arsig@simnet.is    Sími: 862 8551 eða 841 1912

Úr bókarkynningu:  „Eldur Niðri lýsir ferli eins þekktasta vísindamanns Íslands, eldfjallafræðingsins Haraldar Sigurðssonar. Bókin er einstök heimild um uppeldi, sköpun og þróun jarðvísindamanns, sem hefur unnið brautryðjendastörf á rannsóknum á eldfjöllum víðs vegar um heiminn.  Hér fjallar Haraldur á hispurslausan hátt  um spennandi og oft lífshættuleg rannsóknaverkefni, um ástir, sigra, áföll og margt annað sem hefur gerst á nær fimmtíu ára ferli.  Í frásögn sinni kemur Haraldur til dyra eins og hann er klæddur, þegar hann greinir frá leiðöngrum sínum í Indónesíu, Ítalíu, Haítí, Vestur Indíum, Grikklandi, Afríku og víðar.  Brenndandi áhugi hans á leyndardómum jarðar kviknar á æskustöðvunum á Snæfellsnesi og leiðir af sér ævilangt ferðalag um flest stórvirkustu eldfjöll heims, þar til hann lokar hringnum með stofnun Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Eftir atburðaríkan feril við eldfjallarannsóknir um heim allan hefur Haraldur Sigurðsson frá mörgu að segja.”

Efnisyfirlit:

Réttlætingin .................................................... 7

Þingeyingurinn ................................................ 11

Oddur Val ...................................................... 35

Hjónin í Norska Húsinu ...................................... 47

Fyrstu minningar .............................................. 55

Áfallið ........................................................... 67

Táningur í Reykjavík .......................................... 75

Ameríkuferð hin fyrri ......................................... 81

Sumar á Sigöldu ............................................... 89

Námsárin erlendis ............................................. 95

Doktorsverkefnið .............................................. 105

Vestur Indíur ................................................... 113

Á sundi í eldfjallinu ........................................... 129

Neðansjávargígurinn Kick’em Jenny ........................ 139

Ameríkuferð hin síðari ........................................ 147

Kvikuhlaup ..................................................... 157

Aska á hafsbotni ............................................... 163

Vesúvíus og Pompeii .......................................... 175

Banvæn gjóskuflóð ............................................ 189

Gígvötnin í Afríku ............................................. 207

Tambora ....................................................... 215

Eldeyjan Krakatau ............................................ 249

Galapagos – Ísland framtíðar? ................................ 261

Loftsteinninn ................................................... 271

Vísindin og klofin menning .................................. 285

Erfiðir tímar .................................................... 291

Að duga eða drepast ........................................... 297

Eldfjallasafn .................................................... 317

Aðrar hliðar á lífinu ........................................... 327

 

 

 


Fimm hundruð ára gömul eldgosamynd frá Mexíkó

codexMexíkó er mikið eldfjallaland og Mexíkanar hafa lengi gert frábærar myndir af eldgosum.  Árið 1519 kom spánski hershöfðinginn Hernan Cortes til austurstrandar Mexíkó með flota sinn, 11 skip, 500 hermenn, 13 hesta, og nokkrar fallbyssur.    Í ágúst sama ár skundaði hann inn í Mexókóborg, sem þá hét Tenochtitlan og var höfuðborg Aztecríkisins.  Þetta voru fyrstu alvarlegu kynni Mexíkana af Evrópubúum.  Spánverjar gjöreyddu menningu Aztecanna og aðeins brot af fornri frægð eru eftir.  Eitt af þeim er handrit, sem er í eftirriti, og ber heitið Codex Telleriano Remensis.  Í þessu handriti er merkileg mynd og texti sem varðar tímabilið frá 1507 til 1509. Myndin er hér til hliðar.  Textinn sem fylgir lýsir miklu ljósi eða birtu, sem reis upp frá jörðu og til himins.  Birtan varði í meir en fjörutíu daga og sást um allt Mexíkó.  Sennilega er þetta lýsing á eldgosi í fjallinu Popocateptl eða Orizaba.Montanus  Annað listaverk frá Mexíkó sem sýnir eldgos er frá árinu 1671, og er það í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.  Árið 1671 gaf  Arnoldus Montanus út merka bók í Amsterdam: Die nieuwe en onbekende Weereld, eða Nýji og óþekkti heimurinn.   Ameríka var þá sannarlega nýji heimurinn, enda uppgötvuð aðeins um 77 árum áður.  John Ogilby “stal” verkinu og prentaði aðra útgáfu af bókinni sama ár undir sínu nafni.   BörkurMyndin sýnir  viðbrögð hinna innfæddu Mexíkana við því þegar tvö eldfjöll gjósa í einu, en Spánverjar horfa undrandi á hátterni hinna innfæddu.  Þriðja myndin her frá Mexíkó er máluð á trébörk, og er hugmynd Mexíkanans í dag af eldgosi. Hún er einnig í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. 

 


Fyrirlestrar Eldfjallasafns

Nú eru haldnir fyrirlestrar vikulega í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Þeir eru á laugardögum kl. 13, og aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir.  Haraldur Sigurðsson flytur fyrirlestrana. Fyrirlestrar hafa verið þessir:

1. Sprengigos og áhrif þeirra,  29. janúar, 2011Komodo dreki

2. Þrjú gos mynda þrjú vötn: myndun Baulárvallavatns, Hraunsfjarðarvatns og Selvallavatns,  5. febrúar, 2011

3. Drekarnir á Komodo,  12. febrúar 2011

4. Leyndardómar Kerlingarfjalls, 19. febrúar 2011

 


Eyjafjallajökull og flugið: Var Lokun Norður Atlanshafsins ekki réttmæt?

Dagana 15. og 16. september 2010 var haldin alþjóðaráðsefna í Keili á Keflavíkurflugvelli um áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á flugsamgöngur.  Það er best að byrja á því að taka strax fram, að ekkert slys varð í lofti af völdum gossins, og einnig er það mikilvæg staðreynd að ENGIN farþegaþota varð fyrir neinum áhrifum sökum eldfjallaösku frá gosinu.  Mér þótti þetta merkar upplýsingar, en auðvitað auðskildar, þar sem nær öllum farþegaþotum á þessu svæði var lagt og þær teknar úr umferð í lengri tíma.  Alls voru um 300 þáttakendur frá ýmsum löndum á ráðstefnunni, og þar á meðal yfirmenn helstu flugyfirvalda, fulltrúar flugfélaga, jarðvísindamenn, veðurfræðingar, og einnig fulltrúar fyrirtækja sem smíða þotuhreyfla. Ég tók þátt í ráðstefnunni, flutti fyrirlestur um sprengigosið, og stýrði þeim hluta fundarins sem fjallaði um eldgos.  Það er nú vel ljóst að langmesta hættan fyrir þotur í sambandi við eldgos er aska sem sogast kann inn í þotuhreyfilinn, en hún bráðnar þar og myndar glerhúð sem stíflar inntak fyrir eldsneyti og súrefni.  Af þeim sökum kann að drepast á hreyflinum, eins og gerst hefur í sambandi við sprengigos í Indónesíu árið 1982 og í Alaska árið 1989.  Rolls-Royce hreyflar og aska

Á tímabilinu frá 15. til 21. apríl tóku yfirvöld sem ráða flugstjórn í Evrópu þá ákvörðun að loka og leggja niður nær allar flugsamgöngur  yfir Norður Atlantshaf og í Evrópu.  Þetta voru viðbrögð yfirvalda við sprengigosinu í Eyjafjallajökli sem hófst  hinn 14. apríl.  Yfir 104 þúsund flugum var aflýst, um 10 miljón farþegar voru strandaglópar víðs vegar um Evrópu og í Norður Ameríku, flugfélögin töpuðu um $1.7 miljörðum,  313 flugvellir voru lokaðir,  aðeins um 20% af flugsamgöngum í álfunni voru enn í gangi, og tekjutap flugvalla var yfir $317 miljónir.  Þetta er mesta áfall sem flugsamgöngur hafa orðið fyrir í heiminum síðan flugvélin var uppgötvuð af Wright bræðrunum árið 1903.  Það er líklegt að áhrifin af þessarri truflun á flugsamgöngum á efnahag heims séu ekki innan við $5 miljarðar.  Var þetta nauðsynlegt eða voru þetta röng viðbrögð?  Eldgosið í Eyjafjallajökli og askan í loftinu var alvarlegur raunveruleiki, en voru viðbrögð yfirvalda rétt og réttmætanleg, eða voru gerð stórfeld og mjög dýrkeypt mistök?  Í upphafi kom yfirlýsing frá flugstórn Evrópu að ekkert mætti fljúga innan svæðisins ef minnsti vottur um ösku væri fyrir hendi: “zero tolerance”.  Var það ef til vill allt of ströng regla?  Auðvitað er öryggi mikilvægasta atriði flugsins, en margir þáttakendur á ráðstefnunni litu svo á að lokunin hefði verið langt út úr hlutfalli vil hugsanlega hættu.   Ulrich Schulte-Strathaus, fulltrúi sambands flugfélaga í Evrópu, taldi til dæmis að “lokunin hefði alls ekki verið í hlutfalli við áhættuna”  eða “closures were disproportionate to safety risk”. 

Lokun á flugsvæðinu var gerð samkvæmt ráðgjöf frá VAAC í London, sem er eitt af níu stofnunum í heiminum sem gefa út yfirlýsingar og veita ráðgjöf um dreifingu ösku frá eldgosum.  VAAC London bjó til reiknilíkön um dreifingu öskunnar, sem voru byggð á upplýsingum frá veðurstöðvum um loftstrauma yfir Atlantshafi.  Þessi líkön voru ekki byggð á neinum mælingum á öskumagni í loftinu. Það var ef til vill eitt mikilvægasta atriði ráðstefnunnar að menn byrjuðu að átta sig á því að lokunin var eingöngu byggð á líkönum um hugsanlega dreifingu öskunnar, en alls ekki á  mælingum.  Einnig kom það fram, að reiknilíkön frá VAAC London voru ekki sammála VAAC Tolouse um sömu svæði.

Það er auðvitað ein spurning sem skiftir öllu máli varðandi flug í gegnum öskudreif eins og frá Eyjafjallajökli.  HVAÐ mikla ösku þola þotuhreyflarnir?  Framleiðendur hafa af eðlilegum ástæðum ekki viljað til þessa gefa svör við þessari spurningu.   Þotuhreyflar fyrir flugvélar heims eru smíðaðir aðallega af tveimur fyrirtækjum:  General Electric í Bandaríkjunum og Rolls-Royce í Bretlandi.  Það kom fram í erindi Patrick Emmott frá Rolls-Royce  að þeir hafa ákvarðað það magn af ösku í loftinu sem hreyflar þeirra geta þolað.  Myndin til hliðar er af línuriti því sem Emmott sýndi á ráðstefnunni, og hefur það aldrei sést fyrr.  Það er vitað að hreyflar Rolls-Royce fljúga oft í gegnum rykský af finum sandi og ryki yfir flugvöllum í Kaíró í Egyptalandi og í Rydiah í Arabíu og víðar á eyðimerkursvæðum.  Þar er magnið af ryki og sandi í loftinu um 10 til 2000 míkrógrömm á rúmmeter af lofti (það er ein miljón míkrógrömm í einu grammi).  Rolls-Royce telur því óhætt að fljúga með hreyfla þeirra í þessu magni af ösku í lofti, það er að segja undir 2000 míkrógrömm.  Það lætur nærri lagi að það samsvarar tveimur kornum af matarsalti á hvern rúmmeter af lofti sem þotan dregur inn í hreyfilinn.  Ekki getur það talist mikið magn af ösku.  Efri mörkin, þar sem þotuhreyflar drepa á sér, setur Rolls-Royce við um 0.1 gramm. Það er áætlað öskumagn í lofti þegar tvær risaþotur lentu í öskskýum með þeim afleiðingum að allir þotuhreyflarnir stöðvuðust.  Fyrra tilfellið var flug BA-09 í Indónesíu árið 1982 og hið seinna var KLM-867 yfir Alaska árið 1989.   Loks fengust mælingar á öskumagninu í lofti yfir Evrópu og Atlantshafi, til dæmis mælingar yfir Zurich hinn 17. apríl, en þær sýndu aðeins um 50 til 80 míkrógrömm af ösku í hverjum rúmmeter af lofti, eða um þrjú prósent af leyfilegu magni, samkvæmt meðmælum Rolls-Royce.    Varðandi frekari umfjöllun um mistök flugumferðastjórna í sambandi við gosið í Eyjafjallajökli  bendi ég hér á forsíðugrein eftir David Learmount, ritstjóra Flight International hinn 16. september,  þar sem deilt er harðlega á meðferð málsins. Kapt Moody og Ólafur Forseti

Ég tók myndina sem er til hliðar á Bessastöðum í lok ráðstefnunar. Þar stendur flugstjórinn Eric Moody við hlið forseta Íslands.  Moody er frægasti flugstjóri heims, en hann flaug risaþotu inní öskuský í Indónesíu árið 1982, þar sem drapst á öllum fjórum hreyflum, en ásamt áhöfn sinni tókst honum að koma hreyflunum aftur í gang eftir hrap vélarinnar í 15 mínútur og lenda þotunni á eynni Jövu. Ég hef áður blogað um þetta fræga flug hér.  Moody flutti frábært erindi á ráðstefnunni.

 


Á siglingu með heimsskipinu The World

The WorldÉg hef ekki haft mikið samband við auðmenn um ævina, en en í sumar var ég á sjó í grennd við Ísland á tveimur og mjög einstökum skipum auðmanna.  Hér áður fyrr, á mínum róttæku árum, hefði það ekki komið til mála að vera í slíkum félagsskap örgustu kapítalista, en þar er víst rétt sem sagt er, að maður mildast með árunum.  Fyrri ferðin var tólf daga sigling á glæsisnekkjunni M/Y Octopus, frá 30. júlí til 12. ágúst, en varðandi þá ferð er ég bundinn þagnarskyldu.  Síðari siglingin var á  M/V The World, og hér er stutt frásögn af þeirri sjóferð, sem var dagana 26. til 30. ágúst.    Fyrir um einu ári var mér boðið að halda fyrirlestra um Ísland og eldfjöll á The World.  Ég tók þessu fálega, af því að ég hef alltaf haft lítið álit á svokölluðum skemmtiferðaskipum, sem eru flest fljótandi spilavíti þar sem allt er á floti í áfengi um borð.  Ég afþakkaði því boðið.   Eftir stöðugar hringingar og mikinn straum af upplýsingum var ég loks sannfærður um, að hér væri ekkert venjulegt skemmtiferðaskip, já, reyndar ekki skemmtiferðaskip, heldur eiginlega fljótandi þorp eða samfélag.  The World er í eigu um eitt hundrað manna og kvenna, frá um 40 löndum.  Eigendurnir ráða rekstrinum, ferðaáætlun og öllu skipulagi. Skipið siglir um öll heimsins höf, og hefur öðru hvoru um 2 til 5 daga viðdvöl í höfnum hér og þar.  Ferðaáætlun 2010Landakortið til hliðar sýnir ferðaáætlun þeirra fyrir árið 2010.  Um borð í þessu risastóra skipi, sem er vel yfir 200 metrar á lengd, eru 165 íbúðir sem eru allar í einkaeign. Þær dýrustu og stærstu eru 300 fermetrar, og kostar ein slík íbúð um $13.5 miljónir.  Mánaðargjöld fyrir hverja íbúð eru um $20 þúsund.  Það er því ekki á færi hvers sem er að taka þátt í búskap, lífinu og siglingum  með The World.  Yfirleitt eru um 200 manns um borð, en nokkrir eigendur, einkum kamlir og einhleypir karlar á níræðisaldri, búa um borð allt árið, nema þegar skipið fer í þurrkví einn mánuð á ári.   Skipið var smíðað í Noregi árið 2001 og því var hleypt af stokkunum ári síðar.  Skipstjórinn er norskur, en annars er meiri hluti af áhöfninni, um 200 manns, frá Filippseyjum og Bretlandi.  Um borð er allt sem mann getur dreymt um til að gera lífið þægilegt.  Það var gleðilegt að sjá hvað bókasafnið var stórt og vel skipulagt og greinilega mikið notað.  Fimm veitingahús hafa uppá að bjóða besta mat sem ég hef komist í.  Fólkið var einstaklega viðkunnanlegt og hafði mikinn áhuga á að fræðast um Ísland, um eldfjöll, jarðfræði og reyndar allt sem ég hafði uppá að bjóða, en um borð er auðvitað fyrsta flokks fyrirlestrasalur.  Það vakti sérstaklega eftirtekt mína, að allir kynna sig einungis með fornafni, en eftirnöfn eru ekki notuð.   Ég sá mörg andlit sem ég þóttist kannast við sem frægt fólk úr blöðum og fjölmiðlum, og fékk aðeins að heyra fornafnið,  en á þennan hátt reyna auðmennirnir að vernda sitt einkalíf.  Hér er á ferðinni fólk sem lifir eingöngu í sínum verndaða og vel varða heimi, líður áfram um heimsins höf, situr úti á svölum fyrir utan íbúðina sína og sér Öræfajökul og Surtsey líða framhjá þessa vikuna en síðar grænu eyjarnar í Karíbahafi í næstu viku, um leið og þjónninn kemur með annað glas af kampavíni.  Um leið og ég fer í land við Skarfaklett í Reykjavík þá reyni ég að telja mér trú um, að svona líf  hljóti nú að vera ósköp leiðinlegt til lengdar, en ég er nú bara ekkert svo viss…


Haroun Tazieff og Stefnumót með Djöflinum


Les Rendez-vous du DiableÍ Eldfjallasafni í Stykkishólmi er fallegt plakat eða auglýsing fyrir heimildakvikmynd um eldgos.  Það er reyndar gert í gömlu Sovíetríkjunum, en auglýsir myndina “Les Rendez-vous du Diable” eða Fundur með Djöflinum, eftir Haroun Tazieff.  Hann Haroun Tazieff var mjög sérstakur maður.  Þegar ég var stúdent í kringum 1964, og starfandi með Sigurði Þórarinssyni og öðrum íslenskum eldfjallafræðingum, þá var stundum kvíslað á göngunum:  “Tazieff er að koma!”   Þá birtist þessi goðsögn, og sópaði af honum.   Þá var hann á ferð til að kvikmynda Surtseyjargosið, og önnur merk eldfjöll á Íslandi.  Ég átti eftir að hitta hann nokkrum sinnum á ýmsum fundum, og síðast í vestur Afríku, eins og ég kem að síðar.  Ekki vorum við þá alltaf sammála.  Tazieff var sannur heimsborgari sem var fæddur í Varsjá í Pólandi árið 1914 og lést í París árið 1998.  Í æsku fluttist Tazieff til Belgíu þar sem hann var við nám í landbúnaðarfræðum og einnig í jarðfræði, og síðar settist hann að í Frakklandi.   Árið 1984 var hann gerður að sérstökum ráðherra til að fjalla um náttúruvá og umhverfismál.  Hann varð svo frægur í Frakklandi að þeir gáfu út frímerki með honum við andlát hans.  Annars var hann frekar óheppinn í yfirlýsingum sínum.  Eitt sinn spáði hann því að stór jarðskjálfti myndi skella á Frakkland,  en ekki hefur sú spá ræst.   Tazieff var ekki sannfærður um hlýnun jarðar, þvert á móti.  Hann lýsti því yfir að kenningin um hlýnun jarðar væri hreinn uppspuni, og væru tómar lygar.   Einnig hélt hann því fram að gatið í ózón laginu hefði ekkert með flúrokarbon efni að gera, heldur hefði gatið verið þegar komið á himinn árið 1926, laungu áður en flúrókarbon efni voru fundin upp.  Þetta var auðvitað vitleysa.   En samt sem áður var Tazieff áhrifamikill og vinsæll meðal almennings, sökum þess að hann hélt áfram að framleiða mjög vinsælar heimildamyndir af eldfjöllum sem voru sýndar um heim allan.   Það er ekki oft sem jarðfræðingar eða eldfjallafræðingar ná hylli lýðsins eða verða frægir, en það gerði Tazieff. Sennilega hefur hann lært af meistaranum sjálfum, Jacques Cousteau, en þeir unnu sman á sextugasta áratugnum.  Einn af lærisveinum Tazieffs var Maurice Krafft, sem ég mun fjalla um síðar. Tazieff á frímerki

Síðasta sinn sem ég hitti Tazieff var í lyftu í hóteli í Yaounde, höfuðborg Kameroon í vestur Afríku.  Við vorum á alþjóðafundi jarðfræðinga, þar sem fjallað var um dularfullar gas sprengingar sem gerðust í gígvötnum í Kameroon  árin 1984 og 1986.  Ég var sá fyrsti til að rannsaka þessi fyrirbæri og þá kom ég fram með þá kenningu að sprengingarnar væru ekki af völdum eldgosa, heldur vegna koltvíoxíðs sem safnaðist fyrir í botni gígvatnanna. Tazieff var algjörlega ósammála, taldi að sprengingarnar væru venjuleg eldgos, og leit mig illum augum í lyftunni.  Hann sagði að ég væri svikari eldfjallafræðinga, að  láta mér detta í hug að halda fram að þetta væri ekki eiginlegt eldgos.  Síðan hafa aðrir jarðfræðingar samhyllst mína skoðun,  og eru sprengingarnar fyrstu og einu tilfellin sem við vitum um af þessu tagi.  Hvað sem öðru líður, þá var Tazieff ágætur kvikmyndaframleiðandi og gerði mikið til að vekja athygli almennings á stórbrotinni fegurð og tign mikilla eldgosa -- en hann var ekki mikill vísindamaður.

 


Er Alxar-Björn kominn á dvalarheimilið?


Graffíti eftir Pöbel á ÖxlÉg hef átt leið um Breiðuvík á Snæfellsnesi nokkrum sinnum í sumar, og alltaf hugsað til Axlar-Bjarnar í hvert sinn.  Eins og vel er kunnugt, þá er Axlar-Björn mesti raðmorðingi Íslandssögunnar, og myrti hann að minnsta kosti 18 manns.  Að lokum var hann dæmdur til dauða á Laugarbrekku undir Jökli, árið 1596, síðan voru bein í útlimum hans  brotin með sleggju á meðan hann var enn á lífi, og hann því næst afhöfðaður og brytjaður niður. Aðskiljanlegir partar hans voru síðan dysjaðir undir þremur dysjum, til að koma í veg fyrir að hann gengi aftur.  Dysjarnar voru lengi áberandi á Laugarholti, skammt fyrir  sunnan Bárðarlaug,  en nú stendur þar aðeins Dreplakolludys ein stök eftir.  Dysjarnar þrjár hans Axlar-Bjarnar munu hafa verið eyðilagðar við vegagerð og grjótnám, samkvæmt grein er Kristinn Kristjánsson kennari ritaði í Morgunblaðinu árið 1998.  Sonur Alxar-Bjarnar var Sveinn skotti, einnig afbrotamaður sem hengdur var árið 1648.  

Þegar keyrt er yfir holtið hjá Öxl, þá blasir við skúr sem er tengdur fjarskiftamastri.  Nú er komið listaverk á vestur vegg skúrsins, eins og myndin sýnir.  Ég sé ekki betur, en hér sé Axlar-Björn kominn í hjólastólinn, og Sveinn skotti keyrir.  Verkið er eftir Pöbel, sem mun vera norskur stensil-graffíti listamaður.  Skyldi Pöbel nokkuð vita um Axlar-Björn?


Grímshellir

Suður op GrímshellisÁrið 1928 voru fornleifar friðlýstar í Grímshelli á Snæfellsnesi.  Ekki virðist hafa verið mikil hætta á að nokkur kæmi nálægt þessum fornleifum, því hellirinn hefur verið týndur og reyndar mjög erfitt að komast í hann.  Loks tókst mér að finna Grímshelli í dag. Hann er ofarlega í austanverðu Kerlingarfjalli á Snæfellsnesi, en ekki í Grímsfjalli, eins og ætla mætti.  Það er alls ekki auðvelt að finna og komast að Grímshelli, þótt hann sé stór og myndarlegur.  Hellismunninn sést aðeins sunnan frá, þegar suðaustur hlíð Kerlingarfjalls er skoðuð frá Grímsfjalli.  Það munu vera tvær leiðir að hellinum.  UppdrátturÖnnur leiðin er upp mjög bratta og erfiða skriðu austan frá, en hin leiðin er frá Grímsskarði.  Ég valdi siðari leiðina, og fór til norðurs þegar í skarðið er komið, þræddi bratta hlíð Kerlingarfjalls, þar til komið er í bratta móbergshamra. Þar má skríða á syllu til norðurs, fyrir ofan hengiflugið, og þá niður skriðu að hellinum.  Opið kemur ekki í ljós fyrr en rétt er að kemur.   Grímshellir er sannkallaður útilegumannshellir.  Sagnir ganga um það í Helgafellssveit að sakamaður nefndur Grímur hafi fyrrum haft dvalarstað í hellinum.  Síðar sóttu menn úr sveitinni að honum þar og drápu hann.  Mér hefur hvergi tekist að finna neitt ritað um hellinn, en ef lesendur hafa séð slíkt, þá væru allar upplýsingar kærkomnar. Hleðsla og bæli

Lauslegur uppdráttur af Grímshelli fylgir hér með, en hann er í móbergshömrum, og eru móbergskúlur áberandi.  Til suðausturs snýr stórt op, sem er um 8 metrar á breidd og blasir Grímsfjall þar við.  Í norðaustri er lægra og minna op, sem horfir niður í Helgafellssveit og í átt til Stykkishólms.  Fyrir innan aðal opið í suðri er stórt bjarg.  Þegar vel er að gáð kemur í ljós 3 metra há hleðsla af móbergssteinum, og er hleðslunni þannig fyrir komið að margir munu hverfa frá og álíta að ekkert sé frekar að sjá hér.  Sennilega hefur hleðslan verið bæði til varnar gegn vindum og regni, og einnig til að fela vistarveruna fyrir innan.  En þegar farið er bak við stóra bjargið, þá kemur í ljós upphækkaður pallur eða byrgi, sem er eiginlega salur.  Þar við einn vegginn er hleðsla sem hefur sennilega verið bekkur eða svefnpláss.  Tveir mjög þröngir og mjóir skápar eða holur liggja út frá þessum bekk, sem hafa verið ágætis geymslur eða felustaðir. Hleðsla er einnig í norðaustur munnanum, og hefur hún sjálfsagt verið til að draga úr norðanáttinni og veita skjól.   Það má finna bein hér og þar í hellinum, en ekki sá ég aðrar minjar.  Í móbergið umhvefis suður munnann hafa ýmsir ferðalangar rist fangamörk sín.  Eitt það elsta sem ég sá er frá 1896 eftir OJJ frá Hrísum, sem er bær í Helgafellssveit austanverðri.   Fangamark 1896

Maður hefur það strax á tilfinningunni að hér hafi einhver dvalið um tíma og lagt mikla vinnu í að gera lífið þægilegra með hleðslu og annari vinnu í hellinum.  Einnig benda beinin til að hér hafi verið búið lengi.   En það hefur verið erfitt líf, því ekki er öllum fært að komast í hellinn.  Hann hefur því verið einstaklega góður felustaður fyrir sakamann á árum áður.     Í Árbók Hins Íslenska Fornleifafélags (39. árg. 1925-26. Bls. 46 og 47)  skrifar Þorleifur  J. Jóhannesson um Grímshelli árið 1924.  Hann heimsótti hellinn í fylgd með Kristleifi Jónssyni bónda á Kóngsbakka. Hann lýsir hellinum og telur að Grímsfjall og önnur örnefni séu kennd við mann sem verið hefur skógarmaður og haft fylgsni í hellinum. Líklega var hann uppi á söguöldinni, telur Þorleifur, því árið 1250 eru örnefnin með Grímsnafninu orðin alkunn.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband