Færsluflokkur: Ferðalög

Í Járnbotnasundi

JárnbotnasundÉg var rétt í þessu að sigla inn í flóa milli tveggja eyja í Salómonseyjum, sem ber hið sérkennilega nafn Járnbotnasund, eða Iron Bottom Sound. Sundið ber nafnið með rentu, því hér á botninum eru 111 ryðguð flök af ótrúlegum fjölda herskipa frá seinni heimsstyrjöldinni, alls um fimm hundruð þúsund tonn. Það var í ágúst 1942 að fyrsta orrustan varð milli stórveldanna, en alls voru það fimm orrustur, sem í heild stóðu yfir í aðeins 188 mínútur. Í viðbót eru hér á botninum 1450 herflugvélar, og lík yfir tuttugu þúsund hermanna. Japanir högðu byggt herstöð hér á eynni Guadalcanal, sem ameríkanar réðust á í ágúst 1942 og tóku.  HerskipsflakÞá komu japanir til baka með herflugvélar frá herstöð sinni í Rabaul, með enn meira herlið, en þá voru ameríkanar komnir með sextíu skip inn í sundið. Næst gerði stór japanskur herfloti árás í sundinu að nóttu til, og sökkti miklum fjölda skipa ameríska flotans.  Þá var her amerískulandgönguliðanna orðið algjörlega einangrað á eynni.  Enn sendu japanir sjóhertil að taka eynna, en amerískur sjóher er fyrir í sundinu og veitir miklamótstöðu í einni mestu sjórrustu okkar tíma.  Orrustunni lauk með sigri ameríkumanna.  Í dag er margt sem minnir okkur á þessar óskaplegu hamfarir.  Hér eru enn stór og ryðguð flök skipa áströndinni, allskonar fallbyssuvirki á landi og svo auðvitað allt járnadrasliðá  botni Járnbotnasunds.  Þetta var fyrsti sigur bandamanna á Japan og markaði ein mikilvægustu tímamótin í seinni heymsstyrjöldinni.

Hættuleg eldfjöll neðansjávar

Myojin-ShoVið erum nú á ferð umhverfis Kavachi neðansjávareldfjall í Salómonseyjum. Fyrir norðan er Kyrrahafið en fyrir sunnan okkur er Kórallahafið. Þegar við siglum í grennd við Kavachi kemur mér streax í hug neðansjávareldfjallið Myojin-Sho í hafinu fyrir sunnan Japan. Þar var eldgos á hafsbotni árið 1952 og öðru hvoru árið 1953. Allt virtist ver með ró og spekt hinn 24. september 1953, þegar japanska hafrannsóknaskipið Kaiyo Maru No. 5 sigldi inn á svæðið. Þeir sigldu yfir gíginn til að mæla dýpið. Allt í einu varð mikil sprenging, og skipið fórst með allri áhöfn. Um borð voru 31 manns, bæði áhöfnin og níu jarðvísindamenn sem voru að rannsaka eldstöðina.  Myojin-Sho kortMyndin sýnir eina af sprengingunum árið 1953, sem líkist mjög virkninni í Surtseyjargosinu 1963.  Þegar leitað var, þá fannst aðeins spýtnabrak úr skipinu, með steinum og vikri sem hafði stungist fast inn í viðinn við sprenginguna.  Seinni myndin sýnir gíginn á hafsbotni, eins og hann lítur út í dag. Ég ætla því að fljúga fyrst yfir Kavachi neðansjáareldfjallið í þyrlu í dag, áður en við siglum inn.

Hverir á hafsbotni

Black smokerHér á 1700 metra dýpi á hafsbotni fyrir norðan Nýju Gíneu er mikill fjöldi hvera, sem dæla um 300oC dökkgráum og heitum vökva út í hafið.  Efni í heita vatninu þettast og falla út, og mynda spírur sem eru tugir metra á hæð, en aðeins um einn eða hálfur meter í þvermál. Í vökvanum er mikið magn af bakteríum eða örverum, og þrífast á þeim fjöldi snigla, krabba og einnig rækjur, eins og sést á myndinni.  Hnöttóttu hlutirnir eru kuðumngar, sem eru um 10 til 15 cm í þvermál.  Stórkostleg sjón, og einkum spennandi, þar sem spírurnar eru mjög ríkar af málmum, einkum kopar, blýi, gulli og silfri. Nú stendur til að hefja námurekstur hér á 1700 m dýpi.  Myndina tókum við í nótt, úr fjarstýrðum kafbáti.  Ævintýrið heldur áfram...

Eldfjöll í Nýju Gíneu

TavurvurFurðuleg og fremur einföld eru nöfn sumra eldfjallanna í Nýju Gíneu. Tökum þessi sem dæmi: Blupblup, Bagabag, Bam, Manam, Pago, Lolobau, Loluru og Karkar. Myndin fyrir ofan er af Tavurvur eldfjalli, sem er í jaðri öskjunnar Rabaul. Appelsínu guli liturinn í sjónum er vegna hveravirkni við ströndina. Hér var mikið gos síðast árið 1994.

Farinn til Papua Nýju Gíneu

Papua Nýja GíneaÉg er á förum til Papua Nýju Gíneu í dag. Þar eru um 60 virk eldfjöll og margt að skoða. Kortið til hliðar sýnir hina flóknu myndun jarðflekanna þar í landi. Hér eru virk amk. tvö sigbelti og tveir úthafshryggir, og jarðskorpan á hraðri hreyfingu, eða um 7 til 11 cm á ári. Það er vert að taka það fram, að síðast þegar ég lagði af stað í leiðangur til Nýju Gíneu, þá tók að gjósa í Grímsvötnum. Vonandi missi ég því ekki af Öskjugosi í þetta sinn. En eins og maðurinn sagði: “Alltaf má fá annað gos….” Þar sem ég er bundinn þagnarskyldu um þessa ferð þá get ég lítið sagt um hana, annað en það, að bækistöð mín verður skipið M/Y OCTOPUS.

Þegar Öskjuvatn myndaðist

Myndun ÖskjuvatnsÁrið 1875 hófst eldgos í Öskju.  Það voru bændur í Mývatnssveit sem fyrst tóku eftir eldsumbrotum inni í Dyngjufjöllum í ársbyrjun. Hinn 16. febrúar fóru fjórir menn úr Mývatnssveit yfir Ódáðahraun og komu í Öskju. Þeir sáu stóran gíg í suðri en þá hafði ekki enn sigið sú stóra landspilda sem nú myndar Öskjuvatn.  Skömmu síðar hófst sprungugos í Sveinagjá, um 50 km norðan Öskju, en gjáin er hluti af sprungusveim Öskjueldstöðvarinnar. Gosið í Sveinagjá var vegna kvikuhlaups ofarlega í jarðskorpunni, úr kvikuþrónni undir Öskju og til norðurs, alveg eins og Krafla gerði hvað eftir annað frá 1975 til 1984.  Sennilega hefur landspildan yfir kvikuþrónni í Öskju þá sigið til að mynda Öskjuvatn.  Hinn 20. mars 1875 hófst mikið sprengigos í Öskju, sem dreifði ösku og vikri yfir allt Austurland.  Askan barst einnig til Noregs og Svíþjóðar.  Öskufallið um vorið hafði mikil áhrif á beitarland á Austurlandi, bæir fóru í eyði og gosið ýtti þannig undir flutning vesturfara til Norður Ameríku.

Öskjuvatn er yngsta caldera eða askja á Jörðu og er því mjög merkilegt fyrirbæri fyrir vísindin. Hún er lítil askja inni í stórri öskju.  Við vitum dálítið um gang mála í Öskju og myndun sigdældarinnar sem nú inniheldur Öskjuvatn. Myndin sem fylgir er línurit um myndun Öskjuvatns, byggt á ýmsum kortum og teikningum ferðamanna sem Ólafur Jónsson tók saman.  Myndin er úr nýútkominni bók minni Eldur Niðri (2011).  Lóðrétti kvarðinn er flatarmál nýju öskjunnar, í ferkílómetrum.  Á myndinni kemur fram að sigdældin myndaðist ekki í einum hvelli, heldur hefur hún myndast á nokkrum mánuðum.  Sigið hefur sennilega verið að mestu búið árið 1880, eða innan fimm ára frá gosi. 

Varðandi umræður um það, hvort Öskjuvatn sé að hitna, þá er vert að hafa það í hug að skjálftavirkni hefur verið fremur lítil á svæðinu enn sem komið er.  En næsta blogg mitt fjallar um skjálftana.


Er Öskjuvatn að hitna?

Dýptarkort af ÖskjuvatniÞað vekur athygli í fjölmiðlum, að nú er Öskjuvatn íslaust. Vatnið er um 4,4 km á breidd og um 220 m djúpt, en það myndaðist við mikið ketilsig í kjölfar Öskjugossins árið 1875. Öskjuvatn var mælt af Sigurjóni Rist og félögum árið 1975, en Jón Ólafsson efnafræðingur birti merka grein um eðli og efni vatnsins árið 1980.  Svörtu púnktarnir á kortinu sýna mælistöðvar hans. Kort Sigurjóns af vatnsbotninum er hér til hliðar. Volgrur á botni og við ströndina vestan og suðvestan vatnsins mældust allt að tíu stig og yfirborðshiti vatnsins um 7 stig árið 1980. Á eða við vatnsbakkan eru víða volgrur með allt að 84 stiga hita. Það er því ljóst að vatnið hefur lengi verið óvenju heitt og að jarðhiti er töluverður. Guðmundur Sigvaldason benti á 1964 að sum svæði væru íslaus á vatninu yfir veturinn, en að öðru leyti kortir upplýsingar um ísalög á þessu afskekkta vatni. Það kemur því ekkert á óvart að vatnið sé íslaust nú í byrjun apríl. Nú verður fróðlegt að sjá hvort mælingar sýni hærri hita en árið 1980, eða hvort það er mælikvarði um hlýnandi veðurfar að Öskuvatn er nú laust við ísinn snemma vors. En svarið við spurningunni hér fyrir ofan: Er Öskuvatn að hitna?  er þá þessi: Það hefur alltaf verið heitt frá upphafi.Öskjuvatn

Jarðvangur á Snæfellsnesi

Frá nátturunnar hendi er Snæfellsnes kjörið til þess að þar verði stofnaður jarðvangur. Á Nesinu er ótrúleg fjölbreytni jarðmyndana og náttúrufyrirbæra af ýmsu tagi, og má með réttu segja að hér finnist á tiltölulega vel afmörkuðu svæði nær allar tegundir bergtegunda sem Ísland hefur uppá að bjóða. Á undanförnum árum hafa jarðvangar (jarðminjagarðar eða geoparks) verið stofnaðir um allan heim. Það eru nú 77 jarðvangar í 25 löndum, og þeim fer stöðugt fjölgandi. Jarðvangur er svæði, sem nær yfir merkilega jarðfræðilega arfleifð og sýnir þætti í náttúru, sögu og menningu, sem eru mikilvægir fyrir sjálfbæra þróun lands. Aðal tilgangur jarðvangs er að benda á mikilvægi svæðis, að beina náttúruunnendum inn á svæðið og þar með að styrkja ferðaþjónustu. Jarðvangur er ekki verndað svæði, en telja má, að með viðurkenningu á mikilvægi svæðisins fylgi betri umgengni og aukin virðing fyrir gæðum þess. Forgöngumennirnir fyrir hugmyndinni um jarðvang voru jarðfræðingar og þeir fyrstu voru stofnaðir í Evrópu. Innan Evrópu eru sérstök samtök – European Geopark Netvork. Utan um alþjóðlega þróun jarðminjagarða heldur Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNESCO). Nú er búið að stofna fyrsta jarðvanginn á Íslandi: Katla Geopark Project á Suðurlandi og hann hefur þegar fengið aðild að Evrópusamtökunum og vottun UNESCO. LjósufjöllHér leggjum við fram tillögu um þróun jarðvangs á Snæfellsnesi. Hugmyndin um jarðvang á Snæfellsnesi getur verið einn mikilvægur þáttur í varnaráætlun til að stemma stigu við fólksfækkun í þessum byggðakjörnum. Á Snæfellsnesi búa um fjögur þúsund manns, en fólksfækkun á svæðinu var um 5% á tímabilinu 2001–2010. Ekki er þó þróun mannfjölda alveg eins í öllum bæjarfélögum á Nesinu. Á tímabilinu 1994 til 2003 var til dæmis breyting á mannfjölda í einstökum bæjarfélögum á Snæfellsnesi sem hér segir: Kolbeinsstaðahreppur -11,0% , Grundarfjarðarbær 3,9%, Helgafellssveit -30,7%, Stykkishólmur -7,8% , Eyja- og Miklaholtshreppur -12,2% , Snæfellsbær -5,7%. Nú er brýn nauðsyn að vinna að þróun svæðisins í heild ogleita nýrra leiða til þess að stemma stigu við hinni miklu fólksfækkun sem hér er greinilega í gangi. Líklega er enginn atvinnuvegur sem getur vaxið jafnhratt á Snæfellsnesi og skapað jafnmörg ný störf á næstu misserum eins og ferðaþjónustan. Sem gjaldeyrisskapandigrein, þá er ferðaþjónustan og tekjur af erlendum ferðamönnum mikilvægur þáttur í efnahag landsins. Í dag skapar íslensk ferðaþjónusta meir en 20% gjaldeyristekna þjóðarbúsins, og undanfarin ár hefur hlutur ferðaþjónustu verið á bilinu 15 til 22% af heildarútflutningstekjum Íslands. Alls vinna nú um 9000 íslendingar við ferðaþjóustu eða í tengdum störfum. Skoðanakannanir sýna, að langvinsælasta afþreying erlendra ferðamanna á Íslandi er náttúruskoðun, gönguferðir og fjallgöngur, og einnig að minnisstæðasti þáttur dvalar þeirra hér á landi er náttúran og landslagið. Á Vesturlandi hefur ferðaþjónustan vaxið undanfarin ár. Á níu ára tímabilinu frá 1998 til 2008 hefur gistinóttum til dæmis fjölgað um meir en 200% á öllu Vesturlandi. Þessi fjölgun er töluvert yfir landsmeðaltali og lofar góðu um framtíðina, en ekki er enn ljóst hvort fjölgunin á Snæfellsnesi er sambærileg við þá sem mælst hefur á öllu Vesturlandi. Það má segja að undirbúningur fyrir vistvæna og sjálfbæra ferðaþjónustu á Snæfellsnesi sé þegar kominn í góðan farveg. Eins og kunnugt er hefur Snæfellsnes hlotið nýlega vottun frá hinum alþjóðlegu vottunarsamtökum Green Globe sem votta sjálfbæra ferðaþjónustu um allan heim. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull dregur stöðugt fleiri ferðamenn inn á svæðið. Einnig er nú rekin fræðandi ferðaþjónusta (educational tourism) umhverfis allt Nesið sumar hvert, en það eru eins dags fræðsluferðir í jarðfræði og sögu á vegum Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Jarðvangur er svæði, sem nær yfir merkilega jarðfræðilega arfleifð og þætti í náttúru og menningu, sem eru mikilvægir fyrir sjálfbæra þróun lands. Jarðvangur skal ná yfir svæði, sem er nægilega stórt til að leyfa hagnýta þróun þess. Innan jarðvangs skal vera nægilegur fjöldi af jarðfræðifyrirbærum, hvað snertir mikilvægi fyrir vísindin, eru sjaldgæf, og túlka til fegurðarskyns og mikilvægis fyrir menntun. Mikilvægi jarðvangs getur einnig verið tengt fornminjum, vistfræði, sögu eða menningu. Jarðvangur skal vinna samhliða að verndun svæðis og hagnýtri þróun þess í sjálfbæru jafnvægi, einkum fyrir ferðaþjónustu. Rekstur jarðvangs skal fara fram á þann hátt, að verndun, sjálfbær og hagnýt þróun sé í fyrirrúmi. Hvorki rýrnun, sala eða eyðilegging jarðminja og náttúrulegra verðmæta skal á nokkurn hátt vera leyfileg. Jarðvangur skal taka virkan þátt í efnahagslegri þróun svæðisins með því að styrkja ímynd sína og tengsl við ferðaþjónustu. Jarðvangur hefur bein áhrif á svæðið með því að bæta afkomu íbúa þess og umhverfið, en stofnun jarðvangs gerir ekki kröfur um lagalega verndun. Það er eðlilegt frá náttúrunnar hendi að allt Snæfellsnes myndi einn jarðvang. Á Snæfellsnesi mun Eyja- og Miklaholtshreppur gera ráð fyrir jarðvangi í aðalskipulagi sem nú er í auglýsingaferli og verður bráðlega staðfest. Helgafellssveit mun væntanlega einnig gera ráð fyrir því í fyrirhuguðu aðalskipulagi að jarðvangur geti verið innan marka hennar. Landfræðilega kemur einnig til greina að nærliggjandi svæði s.s. fyrrum Skógarstrandarhreppur, nú í Dalabyggð, fyrrum Kolbeinsstaðahreppur, nú í Borgarbyggð og Stykkishólmsbær, verði innan marka hugsanlegs jarðvangs á Snæfellsnesi og fleiri svæði koma einnig til greina. Tenging Jarðvangs við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul er fullkomlega eðlileg og raunar æskileg. Í Stykkishólmi eru stofnanir eins og Náttúrustofa Vesturlands, Háskólasetrið og Eldfjallasafn, sem munu hafa mikla þýðingu fyrir starfssemi jarðvangs. Þessi sveitarfélög á innanverðu Snæfellsnesi gætu í góðu samstarfi við nærliggjandi byggðir, byggt upp áhugaverðan jarðvang að fyrirmynd European Geopark Network og stuðlað þar með að aukinni ferðamennsku innan svæðisins. Á Snæfellsnesi er að finna mjög fjölbreyttar jarðminjar og aðrar náttúruminjar. Fjölbreytileikinn felst í mismunandi gerð eldstöðva og hrauna, ölkeldum og áhugaverðri jarðsögu, fornum býlum og landnámsjörðum. Þrjár megineldstöðvar hafa skapað fjallgarðinn sem liggur eftir Snæfellsnesi endilöngu, frá austri til vesturs. Austast er megineldstöðin Ljósufjöll, sem reyndar nær alla leið frá Grábrók, um Hnappadal og vestur til Berserkjahrauns, alls 90 km leið. Myndin af Ljósufjöllum hér fyrir ofan er tekin af Söndru Dögg Björnsdóttur. Um mitt Nesið er lítt þekkt megineldstöð sem hefur verið nefnd Lýsuskarð, og vestast er sjálfur Snæfellsjökull, sem hefur fengið verðskuldaða viðurkenningu sem þjóðgarður. Auk þess er þetta skrifar eru meðlimir í vinnuhópi um stofnun jarðvangs á Snæfellsnesi þessir: Reynir Ingibjartsson frá Hraunholtum í Hnappadal, Sturla Böðvarsson, Stykkishólmi og Skúli Alexandersson, Hellissandi.

Er elsta Jarðfræðikortið frá 1886?

Jarðfræðikort 1886Eitt þekktasta jarðfræðikort af Íslandi kom út árið 1901, og var gefið út af hinum víðförla jarðfræðingi Þorvaldi Thoroddsen. En það er samt ekki fyrsta jarðfræðikortið af Íslandi. Árið 1881 var haldin alþjóðaráðstefna jarðfræðinga í borginni Bologna á Ítalíu (Second International Geological Congress in Bologna 1881). Í því sambandi var gefið út stórt jarðfræðikort af allri Evrópu, sem kom út nokkrum árum síðar. Þar var birt í fyrsta sinn það jarðfræðikort af Íslandi, sem hér er sýnt til hliðar og er það einnig til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.  Ég rakst á og eignaðist kortið þegar ég var við jarðfræðinám í Queen´s University í Belfast á Írlandi árið 1963.   Hinar ýmsu jarðmyndanir eru sýndar með litum. Dökkgráu svæðin eru Tertíera blágrýtismyndunin,  en yngstu eldfjallamyndanir eru sýndar með sterkum rauðum lit.  Landafræðileg undirstaða jarðfræðikortsins var landakort Björns Gunnlaugssonar frá 1848. Ekki er vitað hver eða hverjir lögðu fram jarðfræðiupplýsingarnar í kortið frá Bologna, en þetta kortablað mun sennilega hafa komið út árið 1886.  Ísland lenti á fjórum blöðum á kortinu, sem nær yfir alla Evrópu, en það er í skalanum 1:1500000. Kortið má sjá í heild sinni hér http://commons.wikimedia.org/wiki/File:Carte_Geologique_Europe.jpg

 Hver teiknaði Íslandskortið, og hvaðan komu jarðfræðiupplýsingarnar?  Ef til vill var það þýski jarðfræðingurinn Konrad Keilhack (1858-1944) sem síðar fórst í sprengjuárás á Berlin árið 1944.  Keilhack var prófessor í Berlín í mörg ár og ferðaðist um Ísland árið 1883 í för með Carl. W. Schmidt. Ef til vill var það einnig sænski jarðfræðingurinn Carl W. Paijkull, sem fór um Ísland árið 1867 og gaf þá út lítið jarðfræðikort af Íslandi. Eð af til vill komu upplýsingar í kortið einnig frá Þorvaldi.  Alla vega er hér merkilegt fyrsta framlag af gerð jarðfræðikorts Íslands. 


Fíkn í betelhnetur, mannætur og Rockefeller


Tygur betelhneturÉg var á ferð á eynni Flores í Indónesíu árið 2010 og keypti þá fallegan dúk af þessari vingjarnlegu konu á förnum vegi.  Það fór ekki á milli mála, að konan er háð þeirri fíkn, sem tengd er við betelhnetur og er mjög algeng víða í frumstæðari löndum Suðaustur Asíu, einkum í Nýju Gíneu og í Indónesíu. Betelhnetufíkn felst í því að safna hnetum af plöntunni Areca, skera hnetuna í sneiðar, strá yfir um það bil einni tekseið af brenndu kalki, og vefja síðan í lítinn böggul í laufblaði af betelplöntunni, sem er síðan tugginn duglega.  Brennda kalkið veldur efnahvörfum, sem mynda blóðrauðan lit á munnvatni, og litar hann þá strax varir og góma eldrauða.  Í Nýju Gíneu ganga margir karlemnn dagsdaglega með litla tösku sem er ofin úr pálmalaufblöðum og er hún ómissandi fyrir betelhnetufíkla. Litla taskanÍ töskunni er glerkrukka með hvítu brenndu kalki, nokkrar hnetur af Aracia, búnt af grænum laufblöðum af beteljurtinni, og hnífur til að skera hneturnar. Það er alltaf greinilegt hverjir eru fiklar í betlehnetur:  eldrauður munnurinn og varir og flestar tennur eyddar niður í góm eða dottnar út.  Þið getið rétt ímyndað ykkur áhrifin af því að setja brennt kalk í munninn.  Tuggunni fylgir vellíðan, og verður betelhnetan fljótt leiður en mjög ódýr ávani, sem veldur ýmsum slæmum kvillum, þar á meðal krabbameini í munni.  Nú er því þannig háttað að fólk á þessum svæðum hitabeltisins er bæði munnstórt og með fremur þykkar varir, og blasir rauði liturinn og miklar skemmdir strax við. Þessu fylgja miklar spýtingar af blóðrauðu munnvatni.  Í sumum þorpum er nær hver einasti íbúi með beteltuggu í munni, og unglingar byrja snemma á þessum óþvera.  Ég verð því að játa að ég á mjög erfitt með að horfa framan í fólk sem tyggur betelhnetur.  Og það er einmitt þá sem ég minnist óþægilega á sögusagnir um mannætur á þessum slóðum.

          Michael Rockefeller 1961  Það er því miður staðreynd að frumbyggjar Nýju Gíneu hafa stundað mannát til skamms tíma.  Mest er þetta gert í hefndarskyni í tengslum við erjur eða stríð sem háð eru milli ættbálka landsins.  En stundum hafa Evrópumenn orðið þeim að bráð.   Michael Rockefeller  (1938-1961)  var yngsti sonur Nelsons Rockefeller, sem var einn af fremstu stjórnmálamönnum Bandaríkjanna á tuttugustu öldinni og Nelson var jafnframt ættarhöfðingi einnar ríkustu fjölskyldu landsins.  Sonurinn Michael fékk snemma áhuga á mannfræði og fór í leiðangra langt inn í frumskóga Nýju Gíneu til að kanna líf og hætti frumbyggja þar.  Árið 1961 hvarf hann á dularfullan hátt og strax fóru að myndast sögusagnir um endalok hans, einkum orðrómur um að hann hefði orðið mannætum að bráð.  Í bók sinni frá 1979 segir Paul Toohey þá sögu að móðir Michaels Rockefeller hafi sent rannsóknaleiðangur til Nýju  Gíneu í leit að syninum.   Sagan segir að leiðangursstjórinn hafi skift á utanborðsmótor og þremur hauskúpum, en þær áttu allar að vera af hvítum mönnum sem höfðu verið drepnir – og étnir.  Ein þeirra átti að vera hauskúpa Rockefellers,  en móðirin mun hafa greitt $250 þúsund fyrir leiðangurinn. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband