Færsluflokkur: Ferðalög
Everest er sirkus
22.4.2014 | 13:43
Mikið er rætt um fjallgöngur á Everest þessa dagana. Dauði 16 burðarmanna frá Nepal í snjóflóði við rætur fjallsins hefur endurvakið umræðu um siðfræði þá, sem ríkir á fjallinu og um sport sem sumir nefna extreme tourism. Hvað vilt þú kosta miklu fé til að komast á toppinn? Vilt þú stefna lífi fátækra burðarmanna í vísa lífshættu, einungis til að koma þér á toppinn? Burðarmenn á fjallinu eru allir Sherpar, og starfa í hálfgerðum þrældómi við að koma auðugum túristum frá vesturlöndum upp á toppinn, hvað sem það kostar.
Sagan sýnir, að það eru nokkra hetjur, sem hafa klifið Everest, einir, án aðstoðar, án súrefnis, og eru Reinhold Messner og Göran Kropp þar í fremstu röð. Árið 1996 kleif svíinn Göran Kropp tindinn Everest aleinn, án súrefnis og án aðstoðar. Hann kleif fjallið eftir að hafa ferðast á reiðhjóli með allan farangur sinn frá Eskiltuna í Svíþjóð. Síðan hjólaði hann aftur heim. Myndin sýnir Göran og reiðhjólið góða. En á sama tíma þegar Göran var á leið niður af fjallinu í miklum stormi, þá voru nokkrir hópar óreyndra fjallgöngumanna á ferðinni, alls 34, og fórust átta manns í storminum, þrátt fyrir allar tilraunir Sherpanna til að koma þeim niður.
Sherparnir bera upp nær allan farangur, tjöld, birgðir, reipi, stiga, súrefniskúta og annað, sem gerir óreyndum túristum færat að komast á fjallið. Síðan er það oft hlutskipti Sherpanna að bókstaflega draga fjallgöngufólkið á toppinn og bera það niður örmagna. Jafnvel sjáfum Sir Edmund Hillary ofbýður nú: Ég held að ástandið varðandi klifur fjallsins Everest sé komið á hryllilegt stig. Fólk vill bara komast á toppinn, hvað sem það kostar. Það sinnir engu varðandi ástand og vandræði annara, sem kunna að vera í lífshættu. Aðrir reyndir fjallamenn segja að nú sé Everst eins og sirkus, og fari stig versnandi.
En þetta er dýrt sport. Þeir sem nú vilja klífa syðri leiðina frá Nepal þurfa að greiða allt að $65 þúsund á mann fyrir ferðina. Hins vegar eru nú í boði klifurferðir upp norður leiðina, undir stjórn Kína, sem kosta aðeins um $10 þúsund.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þegar Vilhjálmur Stefánsson stakk af
17.1.2013 | 20:03
Fyrir um eitt hundrað árum, árin 1913 og 1914, urðu þáttarskil í sögu heimskautarannsókna. Þessi ár lögðu af stað tveir síðustu leiðangrarnir í tréskipum, fyrir daga loftskeyta, sendistöðva og flugvéla. Annar leiðangurinn var á skipinu Endurance, undir Stjórn Ernest Shackleton. Hann stýrði í átt að Suðurpólnum, og veitti mönnum sínum frábæra forystu í gegnum skipsbrot og aðrar miklar hörmungar, en honum tókst að koma þeim öllum aftur heim, heilu og höldnu. Hinn leiðangurinn var á skipinu Karluk í átt að Norðurskauti, undir stjórn Vilhjálms Stefánssonar. Vestur Íslendingurinn stakk af: hann yfirgaf bæði skip og áhöfn þegar á reyndi. Ellefu af tuttugu og fimm þátttakendum leiðangurs hans fórust.
Að minnsta kosti þrjár bækur hafa nú komið út, þar sem fjallað er um Karluk leiðangurinn. Ein þeirra er eftir skotann William Laird McKinlay (1976) sem var einn af vísindamönnum leiðangursins. Önnur bókin er eftir sjálfan skipstjóra Karluks, Robert Bartlett (1916, 2007), og sú þriðja eftir Jennifer Niven (2000). Ég las nokkuð af þessu merkilega efni nú yfir hátíðirnar. Þessar áreiðanlegu heimildir um afdrif leiðangursins, áhafnarinnar á Karluk og undarlega framkomu Vilhjálms Stefánssonar er ekki fallegur lestur.
Karluk var 39 metra langt tréskip, með 13 manna áhöfn. Um borð voru auk þeirra voru 10 vísindamenn og 7 eskimóar, sem voru veiðimenn leiðangurins. Þeir sigldu frá Alaska og síðan inn á Íshafið um Beringssund. Í byrjun ágúst voru þeir komnir í lausan og gisinn rekís, en Vilhjálmur gaf skipun um að sigla norður, inn í ísinn. Hann var að leita að nýju og áður óþekktu meginlandi, sem hann taldi vera í grennd við Norðurpólinn. Skipið sat nær strax fast í ísnum, sem teygðist eins langt og augað eygði. Vilhjálmur varð fljótlega órólegur um borð og þoldi ekki biðina. Hinn 20. september yfirgefur hann skipið Karluk og lýsir yfir að hann ætli að skreppa í veiðiferð á hafísnum í nokkra daga. Hann tekur með sér tvo eskimóa veiðimenn, nokkra hundasleða, þrjá vísindamenn og miklar birgðir. Vilhjálmur sagðist munu koma til baka eftir viku til tíu daga.
Karluk var enn fastur í ísnum og rak fyrst til austurs en síðar nokkuð hratt til vesturs. Á meðan hélt Vilhjálmur yfir ísinn til suðurs og tók land í Alaska með fámennt lið sitt. Hann gerði enga tilraun til að hafa aftur samband við skipið Karluk. Næstu mánuði rak skipið með hafísnum stöðugt til vesturs. Úti var hörkufrost, vetur og myrkur. Stöðugt óx óttinn um, að skipið myndi brotna vegna hins gýfurlega þrýstings. Ísinn kreisti skipsskrokkinn og miklir brestir dundu yfir öðru hvoru. Bartlett skipstjóri gerði sér grein fyrir að innan skamms myndi skipið brotna og flakið sökkva í hafið. Hann skipaði því áhöfninni að fytja birgðir út á ísinn og reisa þar búðir skammt frá skipinu. Eftir nokkra daga var kominn stór bingur af birgðum á ísnum: 250 kolapokar, 6 kassar af saltfisk, 114 kassar af kexi, 9 hundasleðar, 3 kolaofnar, 33 kassar af benzíni, 2000 fet af timbri og fleira. Jólin gengu í gar og enn var áhöfnin um borð, en tilbúin að yfirgefa Karluk ef hættu bæri að garði. Enn rak skipið til vesturs, í átt til Wrangeleyjar í Íshafinu fyrir norðan Síberíu.
Hinn 10. janúar braut ísinn að lokum skipið og áhöfnin flutti í búðirnar á ísbreiðunni, sem voru á um 73oN breiddargráðu. Á meðan skipið sökk tóku þeir þá ákvörðun að ganga yfir ísinn með hundasleða og birgðir til Wrangeleyjar, sem var nú í um 200 km fjarlægð. En fyrst var standrað við í búðunum á ísnum og ferðin vel undirbúin. Fyrsta tilraun til að gang yfir ísinn til Wrangel hófst hinn 21. janúar. Hópurinn lenti strax í mikilli ófærð, þar sem ísinn hafði hrannast upp í mikla hryggi og á milli voru stórar vakir. Sumir sneru aftur til ísbúðanna. Næstu daga fóru fleiri hópar af stað yfir ísinn og árangurinn var svipaður: miklar svaðilfarir, kal á fingrum og tám, slys og dauði. Smátt og smátt tókst þeim að merkja færa leið og nálgast eynna.
Loks var landi náð á Wrangel hinn 12. mars. Þar er alger auðn, óbyggð eyja, en nokkuð af rekaviði, selveiði og fuglabjarg. Bartlett skipstjóri gerði sér strax ljóst að nú væri nauðsynlegt að koma boðum til byggða í Síberíu. Hann sá að enginn af áhöfninni var fær um slíka þolraun nema hann sjálfur og einn eskimóinn. Þeir lögðu af stað frá Wrangel yfir ísinn hinn 18. mars og eftir miklar raunir náði Bartlett til Síberíu í byrjun apríl og komst til byggða innfæddra. Það tók nú Bartlett skipstjóra einn mánuð í viðbót að komast yfir Síberíu til hafna í austri, þar sem von var á að fá bát til Alaska. Hann var staðráðinn í að gera út björgunarleiðangur til hjálpar mönum sínum, sem eftir sátu á Wrangeleyju.
Þegar Bartlett komst loks til Alaska hinn 28. maí hóf hann strax undirbúning til að senda bát til Wrangel. Á meðan kom í ljós að Vilhjálmur hafði ekkert aðhafst varðandi leit að hinni horfnu ahöfn og skipinu Karluk. Á meðan versnaði ástandið á Wrangel. Sumir létu nú lífið af næringarskorti og einn skipbrotsmannanna var myrtur. Allir mannasiðir og siðfræði var nú farin land og leið meðal áhafnarinnar og deilur um matarleifar urðu heiftúðlegar. Aðeins eskimóarnir héldu sönsum og héldu reyndar lífinu í mannskapnum með veiðum.
Meðal hinna sjö eskimóa sem Vilhjálmur valdi í leiðangurinn á Karluk var ein fjölskylda: faðirinn Kuraluk, kona hans Kiruk og dæturnar Helen (8 ára) og Mugpi (3 ára). Fjölskyðdan komst öll af, en Mugpi lifði lengst allra leiðangursmanna. Hún létst í Alaska árið 2008, 97 ára að aldri. Loks kom sumar á eynni en það var kalt og í byrjun ágúst gekk vetur aftur í garð. Það var loks hinn 7. september að hjálp barst þegar skip frá Alaska náði loks til eyjarinnar í gegnum ísinn. Ellefu höfðu nú farist af þeim 31 sem upphaflega tóku þátt í leiðangrinum.
Fréttin um björgun áhafnarinnar af Karluk barst út um allan heim inn 14. september 1914, á sama tíma og fyrstu stórorustur fyrri heimsstyrjaldarinnar byrjuðu að geisa í Evrópu. Fjórtán mánuðir höfðu nú liðið frá því að Karluk sigldi fyrst úr höfn. Vilhjálm Stefánsson var hvergi að sjá, en ritari hans reyndi að taka viðtöl við skipbrotsmennina með það fyrir augum að birta birta greinar í blöðum og ritum, sem Vilhjálmur hafði samband við. Andúð áhafnarinnar á Vilhjálmi var nú svo mikil, að enginn þeirra féllst á að veita sendimanni Vilhjálms viðtal.
En Vilhjálmur var ekki af baki dottinn. Árið 1922 gerði hann út leiðangur til Wrangeleyjar í þeim tilgangi að eigna Kanada eynna. Í þennan leiðangur sendi hann fjóra menn og eina eskimóakonu, en hætti sjálfur við þáttöku á síðustu stundu. Allir mennirnir fórust en eskimóakonan Ada Blackjack komst ein af úr þeirri ferð tveim árum síðar.
Hver er nú arfleifð Vilhjálms? Eftir hörmungarnar á Karluk og á Wrangeleyju varð Vilhjálmur strax mjög umdeildur. Einn nefndi hann an explorer-cum-swindler. Norski landkönnuðurinn Roald Amundsen hafði ekki mikið álit á honum og kallaði Vilhjálm the greatest humbug alive. Einnig var gert grín af fullyrðingu hans að hann hefði uppgötvað ljóshærðu eskimóana. En á Íslandi er minningu Vilhjálms hampað þeð því að setja á laggirnar árið 1998 rannsóknastofnun sem ber hans nafn, af því að hann var frægur. Rannsóknir síðari tíma sýna nú að hann er frægur að endemum.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Stytturnar á Páskaeyju "gengu" á staðinn
28.10.2012 | 16:56
Páskaeyja er mjög afskekkt eldfjallaeyja í miðju Kyrrahafinu. Á eynni finnast meir en eitt þúsund styttur, sem hafa verið höggnar til úr hraungrýti og síðan fluttar langar leiðir og stillt upp sem útverðir eyjarinnar. Þær eru kallaðar Moai á máli innfæddra. Sumar stytturnar eru allt að 74 tonn að þýngd og um tíu metrar á hæð. Þær eru höggnar til úr einum steini. Hvernig í ósköpunum komu eyjabúar þeim frá námunni og á staðinn, um margra kílómetra veg? Nú er komin fram ný kenning um hverngi moai komust leiðar sinnar -- þær fóru gangandi. Myndbandið sýnir tilraun sem var gerð nýlega til að sannprófa þessa kenningu. Með því að binda þrjú reipi í toppinn á styttunni og toga í sitt á hvað, þá er hægt að fá moai til að ganga eða rugga sér áfram. Þetta má sjá hér: http://www.dailymail.co.uk/sciencetech/article-2222376/Did-Easter-Islands-statues-walk-place-Controversial-theory-suggests-megaliths-moved-position-fridge.html#ixzz2Ac1s8I7B
Þetta er eithvað það snjallasta, sem ég hef lengi séð og mjög sannfærandi um uppruna styttnanna. Þær eru höggnar úr gosmyndun, sem er að mestu harðnað basalt gjall, einskonar móberg eða fremur blöðrótt basalt hraun og því ekki eins þétt og blágrýti. Enn er þó gátan um uppruna þjóðflokksins sem gerði stytturnar óleyst.
Íslenski heiti reiturinn fór undir Grænland: Erindi Eldfjallasafns
15.10.2012 | 10:11
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skipsbjallan á HMS Hood
29.8.2012 | 07:55
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þúfurnar á Snæfellsjökli
28.8.2012 | 18:00
Ferðalög | Breytt 29.8.2012 kl. 12:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Mesti Fjársjóður Heims
7.5.2012 | 14:13
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eyjar Salómons: Ferðasaga úr Suðurhöfum
16.4.2012 | 16:19
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Flettu vindar ísnum af Öskjuvatni?
15.4.2012 | 22:05
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Kafað í Járnbotnasundi
13.4.2012 | 02:28
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 02:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)