Færsluflokkur: Ferðalög

Everest er sirkus

 

Mikið er rætt um fjallgöngur á Everest þessa dagana.  Dauði 16 burðarmanna frá Nepal í snjóflóði við rætur fjallsins hefur endurvakið umræðu um siðfræði þá, sem ríkir á fjallinu og um sport sem sumir nefna “extreme tourism”. Hvað vilt þú kosta miklu fé til að komast á toppinn? Vilt þú stefna lífi fátækra burðarmanna í vísa lífshættu, einungis til að koma þér á toppinn?  Burðarmenn á fjallinu eru allir Sherpar, og starfa í hálfgerðum þrældómi við  að koma  auðugum túristum frá vesturlöndum upp á toppinn, hvað sem það kostar.  Göran Kropp

Sagan sýnir, að það eru nokkra hetjur, sem hafa klifið Everest, einir, án aðstoðar, án súrefnis, og eru Reinhold Messner og Göran Kropp þar í fremstu röð. Árið 1996 kleif svíinn Göran Kropp tindinn Everest aleinn, án súrefnis og án aðstoðar.  Hann kleif fjallið eftir að hafa ferðast á reiðhjóli með allan farangur sinn frá Eskiltuna í Svíþjóð. Síðan hjólaði hann aftur heim.  Myndin sýnir Göran og reiðhjólið góða. En á sama tíma þegar Göran var á leið niður af fjallinu í miklum stormi, þá voru nokkrir hópar óreyndra fjallgöngumanna á ferðinni, alls 34, og fórust átta manns í storminum, þrátt fyrir allar tilraunir Sherpanna til að koma þeim niður.   

Sherparnir bera upp nær allan farangur, tjöld, birgðir, reipi, stiga, súrefniskúta og annað, sem gerir óreyndum túristum færat að komast á fjallið. Síðan er það oft hlutskipti Sherpanna að bókstaflega draga fjallgöngufólkið á toppinn og bera það niður örmagna.  Jafnvel sjáfum Sir Edmund Hillary ofbýður nú:  “Ég held að ástandið varðandi klifur fjallsins Everest sé komið á hryllilegt stig.  Fólk vill bara komast á toppinn, hvað sem það kostar.  Það sinnir engu varðandi ástand og vandræði annara, sem kunna að vera í lífshættu.”  Aðrir reyndir fjallamenn segja að nú sé Everst eins og sirkus, og fari stig versnandi.

En þetta er dýrt sport. Þeir sem nú vilja klífa syðri leiðina frá Nepal þurfa að greiða allt að $65 þúsund á mann fyrir ferðina.  Hins vegar eru nú í boði klifurferðir upp norður leiðina,  undir stjórn Kína,  sem kosta “aðeins” um $10 þúsund. 


Þegar Vilhjálmur Stefánsson stakk af

 

Ferð KarluksFyrir um eitt hundrað árum, árin 1913 og 1914, urðu þáttarskil í sögu heimskautarannsókna. Þessi ár lögðu af stað tveir síðustu leiðangrarnir í tréskipum, fyrir daga loftskeyta, sendistöðva og flugvéla. Annar leiðangurinn var á skipinu Endurance, undir Stjórn Ernest Shackleton.  Hann stýrði í átt að Suðurpólnum, og veitti mönnum sínum frábæra forystu í gegnum skipsbrot og aðrar miklar hörmungar, en honum tókst að koma þeim öllum aftur heim, heilu og höldnu. Hinn leiðangurinn var á skipinu Karluk í átt að Norðurskauti, undir stjórn Vilhjálms Stefánssonar.  Vestur Íslendingurinn stakk af:  hann yfirgaf bæði skip og áhöfn þegar á reyndi.  Ellefu af tuttugu og fimm þátttakendum leiðangurs hans fórust.  

Að minnsta kosti þrjár bækur hafa nú komið út, þar sem fjallað er um Karluk leiðangurinn. Ein þeirra er eftir skotann William Laird McKinlay (1976) sem var einn af vísindamönnum leiðangursins. Önnur bókin er eftir sjálfan skipstjóra Karluks, Robert Bartlett (1916, 2007), og sú þriðja eftir Jennifer Niven (2000).  Ég las nokkuð af þessu merkilega efni nú yfir hátíðirnar. Þessar áreiðanlegu heimildir um afdrif leiðangursins, áhafnarinnar á Karluk  og undarlega framkomu Vilhjálms Stefánssonar er ekki fallegur lestur.   

Karluk var 39 metra langt tréskip, með 13 manna áhöfn. Um borð voru auk þeirra voru 10 vísindamenn og 7 eskimóar, sem voru veiðimenn leiðangurins.  Þeir sigldu frá Alaska og síðan inn á Íshafið um Beringssund. Í byrjun ágúst voru þeir komnir í lausan og gisinn rekís, en Vilhjálmur gaf skipun um að sigla norður, inn í ísinn. Hann var að leita að nýju og áður óþekktu meginlandi, sem hann taldi vera í grennd við Norðurpólinn.  Skipið sat nær strax fast í ísnum, sem teygðist eins langt og augað eygði.  Vilhjálmur varð fljótlega órólegur um borð og þoldi ekki biðina.  Hinn 20. september yfirgefur hann skipið Karluk og lýsir yfir að hann ætli að skreppa í veiðiferð á hafísnum í nokkra daga. Hann tekur með sér tvo eskimóa veiðimenn, nokkra hundasleða, þrjá vísindamenn og miklar birgðir. Vilhjálmur sagðist munu koma til baka eftir viku til tíu daga.

Karluk var enn fastur í  ísnum og rak fyrst til austurs en síðar nokkuð hratt til vesturs. Á meðan hélt Vilhjálmur yfir ísinn til suðurs og tók land í Alaska með fámennt lið sitt. Hann gerði  enga tilraun til að hafa aftur samband við skipið Karluk.  Næstu mánuði rak skipið með hafísnum stöðugt til vesturs. Úti var hörkufrost, vetur og myrkur. Stöðugt óx óttinn um, að skipið myndi brotna vegna hins gýfurlega þrýstings.  Ísinn kreisti skipsskrokkinn og miklir brestir dundu yfir öðru hvoru. Bartlett skipstjóri gerði sér grein fyrir að innan skamms myndi skipið brotna og flakið sökkva í hafið. Hann skipaði því áhöfninni að fytja birgðir út á ísinn og reisa þar búðir skammt frá skipinu. Karluk í ísnumEftir nokkra daga var kominn stór bingur af birgðum á ísnum: 250 kolapokar, 6 kassar af saltfisk, 114 kassar af kexi, 9 hundasleðar, 3 kolaofnar, 33 kassar af benzíni, 2000 fet af timbri og fleira.  Jólin gengu í gar og enn var áhöfnin um borð, en tilbúin að yfirgefa Karluk ef hættu bæri að garði. Enn rak skipið til vesturs, í átt til Wrangeleyjar í Íshafinu fyrir norðan Síberíu.  

Hinn 10. janúar braut ísinn að lokum skipið og áhöfnin flutti í búðirnar á ísbreiðunni, sem voru á um 73oN breiddargráðu. Á meðan skipið sökk tóku þeir þá ákvörðun að ganga yfir ísinn með hundasleða og birgðir til Wrangeleyjar, sem var nú í um 200 km fjarlægð.  En fyrst var standrað við í búðunum á ísnum og ferðin vel undirbúin.  Fyrsta tilraun til að gang yfir ísinn til Wrangel hófst hinn 21. janúar.  Hópurinn lenti strax í mikilli ófærð, þar sem ísinn hafði hrannast upp í mikla hryggi og á milli voru stórar vakir.  Sumir sneru aftur til ísbúðanna. Næstu daga fóru fleiri hópar af stað yfir ísinn og árangurinn var svipaður: miklar svaðilfarir, kal á fingrum og tám, slys og dauði. Smátt og smátt tókst þeim að merkja færa leið og nálgast eynna. 

Loks var landi náð á Wrangel hinn 12. mars.  Þar er alger auðn, óbyggð eyja, en nokkuð af rekaviði, selveiði og fuglabjarg.  Bartlett skipstjóri gerði sér strax ljóst að nú væri nauðsynlegt að koma boðum til byggða í Síberíu. Hann sá að enginn af áhöfninni var fær um slíka þolraun nema hann sjálfur og einn eskimóinn. Þeir lögðu af stað frá Wrangel yfir ísinn hinn 18. mars og eftir miklar raunir náði Bartlett til Síberíu í byrjun apríl og komst til byggða innfæddra. Það tók nú Bartlett skipstjóra einn mánuð í viðbót að komast yfir Síberíu til hafna í austri, þar sem von var á að fá bát til Alaska.  Hann var staðráðinn í að gera út björgunarleiðangur til hjálpar mönum sínum, sem eftir sátu á Wrangeleyju. 

Þegar Bartlett komst loks til Alaska hinn 28. maí hóf hann strax undirbúning til að senda bát til Wrangel. Á meðan kom í ljós að Vilhjálmur hafði ekkert aðhafst varðandi leit að hinni horfnu ahöfn og skipinu Karluk.  Á meðan versnaði ástandið á Wrangel. Sumir létu nú lífið af næringarskorti og einn skipbrotsmannanna var myrtur. Allir mannasiðir og siðfræði var nú farin land og leið meðal áhafnarinnar og deilur um matarleifar urðu heiftúðlegar.  Aðeins eskimóarnir héldu sönsum og héldu reyndar lífinu í mannskapnum með veiðum. 

Meðal hinna sjö eskimóa sem Vilhjálmur valdi í leiðangurinn á Karluk var ein fjölskylda: faðirinn Kuraluk, kona hans Kiruk og dæturnar Helen (8 ára) og Mugpi (3 ára).  Fjölskyðdan komst öll af, en Mugpi lifði lengst allra leiðangursmanna. Hún létst í Alaska árið 2008, 97 ára að aldri.    Kurruluk fjölskyldanLoks kom sumar á eynni en það var kalt og í byrjun ágúst gekk vetur aftur í garð.  Það var loks hinn 7. september að hjálp barst þegar skip frá Alaska náði loks til eyjarinnar í gegnum ísinn. Ellefu höfðu nú farist af þeim 31 sem upphaflega tóku þátt í leiðangrinum.  

Fréttin um björgun áhafnarinnar af Karluk barst út um allan heim inn 14. september 1914, á sama tíma og fyrstu stórorustur fyrri heimsstyrjaldarinnar byrjuðu að geisa í Evrópu. Fjórtán mánuðir höfðu nú liðið frá því að Karluk sigldi fyrst úr höfn.  Vilhjálm Stefánsson var hvergi að sjá, en ritari hans reyndi að taka viðtöl við skipbrotsmennina með það fyrir augum að birta birta greinar í blöðum og ritum, sem Vilhjálmur hafði samband við. Andúð áhafnarinnar á Vilhjálmi var nú svo mikil, að enginn þeirra féllst á að veita sendimanni Vilhjálms viðtal. 

En Vilhjálmur var ekki af baki dottinn. Árið 1922 gerði hann út leiðangur til Wrangeleyjar í þeim tilgangi að eigna Kanada eynna. Í þennan leiðangur sendi hann fjóra menn og eina eskimóakonu, en hætti sjálfur við þáttöku á síðustu stundu. Allir mennirnir fórust en eskimóakonan Ada Blackjack komst ein af úr þeirri ferð tveim árum síðar.  

Hver er nú arfleifð Vilhjálms? Eftir hörmungarnar á Karluk og á Wrangeleyju varð Vilhjálmur strax mjög umdeildur.  Einn nefndi hann “an explorer-cum-swindler”.  Norski landkönnuðurinn Roald Amundsen hafði ekki mikið álit  á honum og kallaði Vilhjálm “the greatest humbug alive”.   Einnig var gert grín af fullyrðingu hans að hann hefði uppgötvað  “ljóshærðu eskimóana”.  En á Íslandi er minningu Vilhjálms hampað þeð því að setja á laggirnar árið 1998 rannsóknastofnun sem ber hans nafn, af því að hann var frægur.  Rannsóknir síðari tíma sýna nú að hann er frægur að endemum.    


Stytturnar á Páskaeyju "gengu" á staðinn

 

Páskaeyja Páskaeyja er mjög afskekkt eldfjallaeyja í miðju Kyrrahafinu. Á eynni finnast meir en eitt þúsund styttur, sem hafa verið höggnar til úr hraungrýti og síðan fluttar langar leiðir og stillt upp sem útverðir eyjarinnar.  Þær eru kallaðar Moai á máli innfæddra. Sumar stytturnar eru allt að 74 tonn að þýngd og um tíu metrar á hæð.  Þær eru höggnar til úr einum steini. Hvernig í ósköpunum komu eyjabúar þeim frá námunni og á staðinn, um margra kílómetra veg?  Nú er komin fram ný kenning um hverngi moai komust leiðar sinnar -- þær fóru gangandi. Myndbandið sýnir tilraun sem var gerð nýlega til að sannprófa þessa kenningu.  Með því að binda þrjú reipi í toppinn á styttunni og toga í sitt á hvað, þá er hægt að fá moai til að ganga eða rugga sér áfram. Þetta má sjá hér:  http://www.dailymail.co.uk/sciencetech/article-2222376/Did-Easter-Islands-statues-walk-place-Controversial-theory-suggests-megaliths-moved-position-fridge.html#ixzz2Ac1s8I7B

Moai gangandi Þetta er eithvað það snjallasta, sem ég hef lengi séð og mjög sannfærandi um uppruna styttnanna.  Þær eru höggnar úr gosmyndun, sem er að mestu harðnað basalt gjall, einskonar móberg eða fremur blöðrótt basalt hraun og því ekki eins þétt og blágrýti.  Enn er þó gátan um uppruna þjóðflokksins sem gerði stytturnar óleyst.


Íslenski heiti reiturinn fór undir Grænland: Erindi Eldfjallasafns

Heiti reiturinnNæsta laugardag, hinn 20. október, held ég erindi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi kl. 14.  Allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Í þetta sinn fjalla ég um sögu heita reitsins sem er undir Íslandi. Hann mun hafa komið fyrst fram undir Baffinseyju fyrir um 62 milljón árum. Reyndar vilja sumir rekja sögu hans alla leið til Síberíu fyrir 250 milljón árum. Síðan fluttist hann undir vestur Grænland og síðan kom hann fram undan austur Grænlandi og loks í Norður Atlantshafinu, þar sem Ísland myndaðist. Þetta er spennandi saga, sem hefur áhrif á myndun og þróun lands vors.

Skipsbjallan á HMS Hood

HMS HoodÍ águst 2012 var ég um borð í snekkjunni M/Y Octopus, þegar fjarstýrður kafbátur var sendur niður á flakið af breska herskipinu HMS Hood í Grænlandssundi. Flakið hvílir á um 2848 metra dýpi og þar um borð og á hafsbotninum umhverfis er nær öll 1418 manna áhöfnin. Aðeins þrír komust af þegar stærsta herskipi breta var sökkt hér á örfáum mínútum í orustu við þýska herskipið Bismarck hinn 24. maí árið 1941. Það sökk um 500 km beint vestur af Reykjanesi. Markmið okkar var að kanna flakið og að færa upp á yfirborðið skipsbjölluna, eitt helsta einkenni skipsins. Bygging á HMS Hood hófst í fyrri heimstyrjöldinni árið 1916 og það var fullbúið árið 1920. Hood var hvorki meira né minna en 48 þúsund tonn, og 262 metrar á lengd. Þrátt fyrir stærðina gat þetta tröllvaxna skip samt siglt um heimshöfin á 28 til 31 hnúta hraða. Utan á skrokk skipsins var tólf tommu þykk brynvörn úr stáli, og fallbyssur þess skutu sprengikúlum sem voru fimmtán tommur í þvermál. Bretar vissu að þjóðverjar höfðu hleypt af stokkunum öðru risavöxnu skipi í Hamborg, sem skírt var Bismarck, eftir kanslaranum fræga. Hinn 5. maí 1941 kom sjálfur Adolf Hitler til Hamborgar til að skoða þetta nýja vopn, sem átti að granda skipalestunum milli Norður Ameríku og Rússlands. Aðal hlutverk Bismarck var að ráðast á skipalestirnar sem fóru milli Norður Ameríku og Norður Evrópu. Bretar gerðu sér þetta ljóst og vissu að Bismarck myndi stefna út í Norður Atlantshafið um eitt af þremur sundum í grennd við Ísland, annað hvort Grænlandssund, eða þá sundið milli Færeyja og Íslands eða sundið milli Skotlands og Íslands. Breski sjóherinn vissi þvi ekki hvaða sunds þeir ættu að gæta. Á meðan sigilir Bismarck óséður frá Bergen hinn 21. maí á ofsa hraða 25 til 30 hnútum (56 km á klst.), út á Atlantshafið undan vestur strönd Noregs og beint norður fyrir Ísland. Bismarck kemur inn á Grænlandssund um kl 10 að morgni hinn 23. maí. Það var hér sem breska herskipið Suffolk fyrst sá Bismarck á siglingu. Suffolk hafði verið inni á Ísafirði en var nú kominn út á sundið. Skömmu síðar sá Bismarck breska herskipið Norfolk birtast út úr þokunni og skaut á það en hæfði ekki. Norfolk slapp aftur inn í þokuna og tilkynnti strax flotastjórninni í London um að Bismarck væri fundinn. Nú hófst eltingarleikurinn fyrir alvöru. Hood og fleiri skip sigldu fyrir sunnan Ísland og stefnu á Grænlandssund til að hefja sjórustuna. Hlutverk Bismarcks var að sökkva fragtskipum skipalestanna, en ekki að há orustu við bresk herskip. Bismarck og hitt þýska skipið Prinz Eugen héldu því beint áfram til suðurs og í átt að skipalestunum, en Suffolk elti fast á eftir. Það var skömmu eftir miðnætti hinn 24. maí að Hood sá Bismarck í um 17 sjómílna fjarlægð. Klukkan 0552 var fjarlægðin 23 kílómetrar milli skipanna og fallbysur Hood og breaska skipsins Prince of Wales byrjuðu að skjóta á óvininn. Þessi fyrstu skot höfðu engin áhrif. En fyrstu skotin frá Bismarck lentu hins vegar mjög nærri Hood. Auk þess var aðstaðan erfiðari fyrir breta, sem sigldu beint upp í vindinn. Skot frá Prinz Eugen hæfði Hood og það kviknaði í á þilfari um miðju skipsins. Bjallan á þilfariNú var klukkan 0555 og aðeins þrjár mínútur liðnar frá því að orustan hófst. Það hafði kviknað í birgðum af púðri af þeirri tegund sem nefnist cordite. Fljótlega breiddist eldurinn út og skotfærabirgðir byrjuðu að springa á dekkinu. Nú var bilið milli skipanna um 12 mílur. Þá breytti Hood um stefnu og sigldi nú samhliða Bismarck svo að hægt væri að skjóta af öllum fallbyssum í einu á þjóðverjana. En einmitt þá kemur fallbyssuskothríð frá Bismarck og hittir alveg í mark. Þessar sprengikúlur eru hvorki meira né minna en 38 cm í þvermál.  Myndin fyrir neðan sýnir þversnið af einni slíkri. Risastór sprenging verður nú um miðju á Hood og eldsúlan stendur upp meir en fjórum sinnum hærra en miðmastrið, upp til himins. Skipið veltur strax og skuturinn byrjar að sökkva. Stuttu síðar stendur stafninn beint upp, og Hood hverfur í hafið. Orustunni er lokið. Fjórtan hundrað menn farast og aðeins þrír af áhöfninni komast af. Allt bendir til þess að skotið frá Bismarck hafi farið niður í gegnum þilfarið og beint ofan í skotfærageymslu Hood. Klukkan 0613 siglir Prince of Wales á brott á flótta, aðeins 21 mínútu eftir að orustan hófst. Breska sjóhersstjórnin fær svohljóðandi skeyti: Hood hefur sprungið í loft upp. Þremur sjóliðum af 1418-manna áhöfn Hood var bjargað. Þeir komu til Reykjavíkur með bresku skipi seinni part dags hinn 24. maí.  Fallbyssukúla af þeirri tegund sem grandar HoodAð tapa HMS Hood, flaggskipi breska flotans, var ótrúlega mikið áfall fyrir breska herinn og reyndar þjóðina alla. Churchill forsætisráðherra áttaði sig strax á þessu og skipaði: Sink the Bismarck! Sökkvið Bismarck. Allur sjóherinn var nú gerður út til að ná hefndum. Bismarck hafði orðið fyrir lítilsháttar skemmdum í átökunum á Grænlandssundi og var að tapa töluverðri olíu í hafið. Bismarck stefndi því beint í áttina til Brest í Frakklandi til viðgerðar. Tveimur dögum síðar tókst breskum herflugvélum að varpa tundurskeytum á þýska risann, sem var 251 meter á lengd. Fljótlega tókst að skemma stýri skipsins og var það nú nær stjórnlaust. Önnur tundurskeyti hæfðu í beint mark og Bismarck sökk í hafið hinn 27. maí um 650 km fyrir vestan Brest í Frakklandi. Bismarck hafði verið aðeins 9 daga í þjónustu þýska hersins frá þvi skipið var tekið í notkun og þar til það sökk. Árið 2001 fannst flakið af HMS Hood á Grænlandssundi á um 2849 metra dýpi. Í ágúst 2012 var gerður út leiðangur á M/Y Octopus til að ná upp skipsbjöllunni af Hood, með samþykki og þátttöku breska sjóhersins. Hugmyndin Bjallan á hafsbotnivar að færa bjölluna til minjasafns sjóhersins í Bretlandi. Skipsbjallan hafði verið upphaflega á þilfari skipsins, eins og gamla myndin sýnri. Við sendum fjarstýrðan kafbát niður og fljótlega fannst bjallan, en hún var ofan á haug af miklu rusli úr skipinu og hvíldi undir stálþili, sem slútti yfir. Þetta gerði okkur erfitt að ná til hennar. Kafbáturinn hefur tvo vélarma, sem geta verið furðu fimir. Það tókst að koma járnkrók í gatið efst á bjölluni, en þegar átakið kom á krókinn, þá réttist úr honum og bjallan slapp af og seig lengra niður í ruslið. Nú fór veður versnandi og varð því að hætta fekari köfun þegar vindur fór yfir 30 hnúta og sjór var orðinn nokkuð mikill. Við skildum því við bjölluna á botninum, eins og myndin sýnir. Örin rauða bendir á bjölluna á hliðinni.  Af kafbátnum er það að segja, að hann er tengdur við skipið með rúmlega 3 km löngum kapli, sem sendir rafmagn niður og sendir síðan rafræn gögn, myndefni og annað upp til skipsins. Kafbáturinn hefur tvo arma og ýmiss önnur tæki.  Fylgst er nákvæmlega með staðsetningu kafbátsins um borð í skipinu og reyndar furðulegt hvað kafbátsstjórinn getur stýrt honum nákvæmlega í gegnum allar þær hættur sem verða á vegi hans í grennd við og jafnvel inni í þessu risastóra skipsflaki, þar sem stálvírar, járnbitar og annað brak eru alltaf fyrir hendi sem hættulegar gildrur.

Þúfurnar á Snæfellsjökli

Þúfan á JónsmessunóttHæstu tindar Snæfellsjökuls eru nefndar Þúfurnar. Sú í miðju er hæst, eða 1446 metrar. Þegar ég hef klifið Jökulinn þá hefur Þúfan nær undantekningalaust verið hulin ís og fönn, eins og fyrsta myndin sýnir. Hún var tekin á Jónsmessunótt í sumar. Þá var Þúfan kleif með því að höggva spor í ísinn, en þverbratt niður undir. En þegar ég flaug í þyrlu umhverfis topp Jökulsins hinn 26. ágúst 2012 þá blasti önnur sjón við. Þúfan í miðjunni var nú nær alveg íslaus og jarðlögin komu vel í ljós, eins og kemur fram á seinni myndinni. Ég held að þetta sé ef til vill í fyrsta sinn að Þúfan er svo algjörlega afhjúpuð, enda bráðnar Jökullinn nú hratt.  Nú gefst því tækifæri til að kanna þessi jarðlög og fræðast frekar um gossögu Jökulsins. Þúfan afhjúpuðSennilega eru hér aðallega rauðleit gjall og vikurlög, en ef til vill einnig hraunlög. Lögunum hallar til suðurs, í átt frá stóra gígnum, sem er rétt fyrir norðvestan Þúfurnar. Það eru nokkur áberandi ljós lög í Þúfunni. Það er freistandi að giska á að þau séu ef til vill trakít, en sú bergkvikutegund einkennir stóru sprengigosin þrjú, sem hafa orðið í Snæfellsjökli síðan ísöld lauk.  En nú ber að hætta öllum ágiskunum og bregða sér upp á Jökul til að kanna þetta nánar.

Mesti Fjársjóður Heims

Sri Padmanabhaswamy musteriSem börn lesum við ævintýri og sögur um mikla fjársjóði af gulli og gersemum falda í jörðu eða í hirslum auðugra konunga. Þegar við þroskumst gerum við okkur grein fyrir því að slíkur auður tilheyrir aðeins ævintýrum til. En er það alveg satt? Kannske er eitthvað til í þessu! Nýlega hefur fundist einn mesti fjársjóður sögunnar í indversku musteri. Það er Sri Padmanabhaswamy musterið í Kerala héraði í suðvestur Indlandi, en það var fyrst reist á áttundu öldinni. Siðan var það endurbyggt á sextándu öld, sem sjö hæða stórhýsi úr graníti. Musterið er helgað hindu guðnum Vishnu, og hvílir stórt líknesi af Vishnu inni í musterinu, gert úr hreinu gulli. Enda er talið að Vishnu búi í þessu musteri, og er það þar með eitt hið allra mikilvægasta í Indlandi. Fjölskylda maharaja eða konungsins í Kerala héraði hefur um alda raðir varðveitt og séð um musterið, en Travancore konungsríkið réði lengi yfir öllum syðri hluta Indlands. Það var lengi siður að konungsfjölskyldur gáfu musterinu gull öðru hvoru þegar ungir prinsar fengu meiri tign, og þá var magnið af gulli jafnt og þyngd prinsins.  MusteriAlmúginn hefur stöðugt fært musterinu gjafir, og um alda raðir hefur því ógrynni af gulli og gersemum safnast fyrir hér. Musterin á Indlandi hafa lengi safnað fé. Árið 77 fyrir Krist ritaði Plinius Eldri að til Indlands bærist að lokum allt gull jarðar. Á miðöldum streymdi gull til Indlands einkum vegna kryddverslunarinnar við vesturlönd. En nýlega komst orðrómur á kreik um að konungsfjölskyldan hefði gengið í fjársjóð musterisins og selt gull, silfur og gimsteina. Þá hófst opinber rannsókn á musterinu og þeim sex hirslum eða kjallörum þar sem fjársóðurinn er geymdur. Hirslur þessar eða steinhvelfingar nefnast kallaras á Hindu tungu, og dettur manni þá strax í hug að hér sé kominn fram uppruni íslenska orðsins kjallari (kelder á hollensku og källare á sænsku). Flestar af steinhvelfingunum hafa ekki verið opnaðar í hundruðir ára, en þessar steinhvelfingar eru lokaðar af voldugum og margföldum járndyrum og stálgrindum. Fimm af sex kjallörum musterisins hafa nú verið opnaðir af sérstakri rannsóknarnefnd. Þegar voldugar stálgrindur og járnhurðir voru opnaðar, þá kom í ljós haugar af gulli og gimsteinum á gólfinu.Guðinn Vishnu  Fjársjóurinn hafði verði í trékistum, sem höfðu fúnað og rotnað í sundur og eftir var aðeins mylsna á gólfinu en gullið flóði út um allt. Hefur fjársjóðurinn nú verið metinn sem að minnsta kosti $22 milljarðar dala, eða um 2750 milljarðar króna. Nú hefur hafist vörutalning á fjársjóðnum í fimm af sex kjöllurum, en sá sjötti er enn læstur. Tvö hundruð vopnaðir verðir gæta nú musterisins, til að vernda stærsta fjársjóð jarðar frá frekara hnupli af konugsfjölskyldunni og prestum.

Eyjar Salómons: Ferðasaga úr Suðurhöfum

KavachiLaugardaginn 21. apríl flyt ég erindi um ferð mína til Salómonseyja nýlega. Erindið verður flutt í Eldfjallasafni í Stykkishólmi og hefst kl. 14. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis. Upplagt fyrir fólk í höfuðborginni að skreppa vestur og njóta alls þess sem Stykkishólmur hefur uppá að bjóða.

Flettu vindar ísnum af Öskjuvatni?

Ég hef áður dregið í efa að það sé vísbending um yfirvofandi eldvirkni þótt Öskjuvatn sé nú íslaust. Sjá hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1232428/ Einn lesandi þessa bloggs gerði þá eftirfarandi og fremur niðrandi athugasemd við skrif mín:“Vatn sem hefur lagt í vægu frosti í febrúar en er íslaust í nístingsgaddi í mars hefur greinilega hitnað nóg í millitíðinni til að losa sig við ísinn. Ekki þarf gráðu í eðlisfræði eða jarðfræði til að átta sig á slíku. Það sem ekki fæst svar við nema með nákvæmum mælingum er hversu heitt vatnið er.” Öskjuvatn 30.júní 2009Nú berast þær fregnir (sjá til dæmis fréttavef RUV 15. apríl 2012) að vísindamenn hafi kannað vatnið. Niðurstaða þeirra er sú að vatnið sé aðeins einnar gráðu heitt eða jafnkalt og vatnið er í aprílmánuði. Mín skoðun er sú, að ísleysið sé ekki sökum eldvirkni, heldur að sennilega hafi ís brotnað og færst til á vatninu vegna vinda. Ef við skoðum til dæmis myndina af Öskjuvatni sem fylgir hér með, sem er tekin 30. júní 2009, þá er greinilegt að stórar vakir eru yfirleitt opnar á svæðunum í suðvestur hluta vatnsins, þar sem heitar lindir eru við flæðarmál og á vatnsbotni. Í réttri vindátt, og ef stormur geisar, þá er vel hugsanlegt að ísinn brotni og hrannist upp við land. Ég held því að það sé líklegra að skýringuna á ísleysinu á Öskjuvatni sé frekar að finna í veðurfari en ekki í tengslum við breytingar í hitastreymi innan eldstöðvarinnar.

Kafað í Járnbotnasundi

USS AtlantaÍ nótt fór ég í átta manna kafbáti niður á flakið af herksipinu Atlanta hér í Járnbotnasundi við eynna Guadalcanal í Salómonseyjum. Flakið er á um 150 til 200 metra dýpi. Við vorum tvo tíma í kafi og fórum hringinn í kringum flakið, sem er mjög illa farið. Atlanta var mjög voldugt herskip, 541 fet eða 165 metrar á lengd og 6000 tonn, með 673 manna áhöfn. Hámarkshraði var 33 hnútar. Hún var vopnuð sextán fimm tommu fallbyssum, níu byssum til aðUSS Atlanta verjast herflugvélum og með átta hólka fyrir tundurskeyti. Hinn 12. Nóvember árið 1942 réðust tuttugu og fimm japanskar herflugvélar og ellefu herskip á ameríska herflotann í Járnbotnasundi. Aðmíráll Scott var um borð í flaggskipi sínu, Atlanta og fórst þar um borð ásamt fjðlda sjóliða. Á hafsbotni liggur járnadrasl úr skipinu í miklum bing, en skrokkurinn er í tvennu lagi. Við skoðuðum stafnið vel, og sáum risavaxnar akkeriskeðjur, og vindurnar sem draga upp akkerin. Einnig voru fallbyssur mjög greinilegar, reykháfarnir og svo brúin. Á botninum er einnig dreif af ósprendum fallbyssukúlum öðrum skotfærum. Tvær myndir fylgja hér með, sem ég tók í ferðinni. Atlanta hvílir á klettabrún hér á botninum, og eru klettarnir gamalt hraunlag, sem myndar grunnbergið fyrir eyjunna Guadalcanal. Allt lífríkið hér niðri fe´kk strax áhuga á ljósum kafbátsins, og innan skamms vorum við umkringdir af tíu til þrjátíu punda túnfiskum, smokkfisk og ýmsu fleira.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband