Færsluflokkur: Ferðalög

Ævintýraferð til Indónesíu

SeaSafari8 fyrir slysÉg var allan júlí mánuð í Indónesíu.  Í þeta sinn ferðaðist ég um austur eyjarnar, ásamt 25 áhugamönnum, og konum um jarðfræði og náttúru og menningu eyjanna. Ferðin hófst í Balí, en síðan var siglt í austur átt til Lombok, Satonda, Sumbawa, Komodo, Rinca, Flores og víðar. Fararkostur okkar var 45 metra langur seglbátur, Sea Safari 8, hefðbundinn tveggja mastra kútter,  rammbyggður úr stórum og digrum harðviðarplönkum, sem kom sér vel.  Eina nóttina sigldi hann á bjarg við suður strönd Flores eyjar, en sterkir straumar, undiraldan og vindur á Indlandshafi hafði borið okkur út af leið, og á klettana.Brotið bugspjót  Við höggið brotnaði baugspjótið af, reiðingin skekktist, og allir köstuðust fram úr kojunum. En enginn leki kom á bátinn, og við héldum ótrauðir áfram til næstu eyjar.  Reyndar er Flores eyja mjög sérstök. Þar höfðu portúgalir mikil áhrif lengi vel, og flestir eyjaskeggjar eru kaþólskir og sumir tala jafnvel portúgölsku.  Við komum í eitt af askekktustu þorpum Flores, sem er Bena. Þar er eiginlega einn steinaldarmenning, við rætur eldfjallsins Inerie.  Hér er svokölluð megalithic menning, eða dýrkun þar sem stórir steinar skifta miklu máli. Íbúar hafa flutt risastór björg frá eldfjallinu og inn í þorpið, þar sem þeim er komið fyrir til að mynda altari til fórna og trúariðkana. Þetta eru stórir stuðlar af basalti og andesíti, þaktir skófum og mosagróðri. Steinaldarmenning í Bena þorpi  Á Flores eru að minnsta kosti 15 virk eldfjöll, en í gígum þeirra eru nokkur fögur og litrík stöðuvötn.  Auðvitað komum við víð á Komodo eyjunum og heimsóttum Komodo drekana.  Einnig var dvalið nokkra daga á Balí, til að njóta hins besta sem Indónesía hefur uppá að bjóða.  Er farinn að hugsa til næstu ferðar þarna austur á bóginn, en þarf endilega að finna annan bát,  eða að minnsta kosti betri skipstjóra…


Á ferð til Indónesíu

Ég er nú rétt einu sinni á leið til mesta eldfjallalands heimsins: Indónesíu. Það verður því sennilega ekkert bloggað hér fyrr en ég sný aftur til Íslands um 20. júlí.  Hér fylgir mynd af einu uppáhaldseldfjalli mínu: Anak Krakatau, sem hefur gosið nær stöðugt frá því eyjan reis úr hafi árið 1928.  Það verður víða komið við í þessari ferð: Balí, Lombok, Sumbawa, Flores, Sangeang Api .s.frv.Krakatau

Skriðu-Fúsi er enn í Kerlingarskarði

Fúsaskurðir

Í bernsku man ég eftir mörgum ferðum yfir Kerlingaskarð á Snæfellsnesi í rútubílnum.  Þegar komið var að sunnan var oftast stanzað í Efri Sneið, þar sem útsýnið yfir Breiðafjörð birtist eins og svift væri frá blæju.  “Hvílík fegurð!”  sagði móðir mín.  Karlarnir tóku upp vasapelana og jafnvel sjálfur bílstjórinn fékk alltaf einn vel útilátinn brennivínssnaps, áður en það var rennt niður í Stykkishólm.  En nú er leiðin um Kerlingarskarð lögð af, og fólkið ekur í staðinn yfir fremur sviplitla Vatnaleið, tekur ekki eftir neinu, og missir alveg af þeirri fegurð og sögu sem Kerlingarskarð hefur að geyma.  Á miðju Kerlingarskarði eru skorningar eða lækjadrög sem bera nafnið Fúsaskurðir. Ég man að faðir minn minntist oft á draugagang á þessum slóðum, en það var miklu seinna að ég fékk alla draugasöguna.  FúsaskurðirÁ seinni hluta 18. aldar varð óreiðumaður og förukarl, sem Vigfús hét, úti hér í skorningunum, sem síðan bera nafnið Fúsaskurðir.  Af einhverjum sökum var Fúsi illa liðinn af samtíðarmönnum.  Fyrir afbrot eitt var hann dæmdur til þess að skríða ávalt á fjórum fótum í annarra viðurvist og hlaut þannig viðurnefnið Skriðu-Fúsi. Hann mátti þó ganga uppréttur, þar sem ekki var mannavon, og gat hann því farið í sendiferðir og verið selsmali.  Ef hann sá til manna, þá varð hann að kasta sér á fjóra fætur.  Oft lá Skriðu-Fúsi á alfaravegum og veinaði eins og hann væri í nauðum staddur.  Þannig tældi hann til sín brjóstgóðar konur.  Þegar þær komu nær þá tók hann þær með valdi.  Eitt sumar starfaði hann í Selgili við Húsafell, ásamt tveimur dætrum  séra Sigvalda Halldórssonar (1706-1756). Talið er að hann hafi skriðið heldur nærri systrunum, því  báðar urðu ófrískar af hans völdum.  Eitt sinn var Skriðu-Fúsi á ferð yfir Kerlingarskarð að vetri til, þegar óveður mikið skall á. Þá varð hann úti þar sem nú heita Fúsaskurðir. Um nóttina var komið á gluga á Hjarðarfelli og vísa kveðin:

                                    Skriðu-Fúsi hreppti hel,

                                    hálfu fyrr en varði.

                                    Úti dó það ei fór vel,

                                    á Kerlingarskarði.

 

Þegar farið er um Kerlingarskarð í dag má enn sjá Skriðu-Fúsa, eins og myndirnar tvær sýna, sem fylgja hér með.  Þetta mun vera listaverk sem nemendur í Grundarfirði hafa skapað til minningar um ólánsmanninn.  Verkið var gert fyrir nokkrum árum og er orðið anzi mikið veðrað.  Nú fer hver að verða síðastur að sjá Skriðu-Fúsa, áður en hann fýkur út í veður og vind.  Skáldið Þorsteinn frá Hamri hefur ort eftirfandi kvæði um Skriðu-Fúsa:

 

Ég sem aldrei

uppréttur mátti ganga,

aðeins brölta á fjórum

og sleikja ruður

með áfellisskuld

og skelfingu aldalanga –

skelli mér suður.

 

Í farartækinu

fyrnist glæpur minn stórum.

Ég flyt af Kerlingarskarði

í borgarhallir.

Mér fer að skiljast

hve gott er að ganga á fjórum.

Það gera nú allir.


Myndir af gosinu í Eyjafjallajökli árið 1821-23

 

E BruhnGamlar myndir geta veitt einstakar upplýsingar um eldgos fyrr á tímum.  Árið 1986 gaf bandaríski listfræðingurinn Frank Ponzi út merka bók um Ísland á 19. öld.   Þar er að finna stórmerkilega mynd af gosinu í Eyjafjallajökli árið 1822.  Nafn listamannsins hefur verið ýmist ritað sem E. Bruhn eða Erik Bruun. Undirskriftin á listaverkinu er örugglega E. Bruhn og verkið er dagsett hinn 8. júlí 1822. Hann var sennilega liðsforingi í strandmælingadeild danska flotans.  Jóhann ÍsbergVatnslitateikningin er  21 x 33.5 cm og mun vera í eigu Det Kongelige  Bibliotek, Köbenhavn.  Myndin er gerð úr mikilli fjarlægð,  í grennd við Vestmannaeyjar, og sennilega af sjó.  Þetta er nákvæm teiknun reykjabólstranna og rísandi öskumakkarins og önnur atriði sýna að hann er að festa á blað sjónarspil sem han varð vitni af.  Emil Hannes Valgeirson hefur áður bloggað um þessa mynd hér    Það er sláandi að bera þessa mynd saman við myndir af gosmökknum yfir Eyjafjallajökli  árið 2010.  Graah 1823Ég læt fylgja hér með ljósmynd Jóhanns Ísberg af sprengigosinu í apríl til samanburðar.  Önnur mynd af gosinu er teiknuð af Graah inn á landakort af Íslandi sem gert var árið 1823. Graah kann einnig hafa verið í strandmælingadeild danska flotans.  Þessi mynd er einnig af  Eyjafjallajökli eins og hann ber við frá Vestmannaeyjum, en myndin er sýnd hér til hliðar.  Gosið sem hófst í desember árið 1821 stóð yfir þar til í janúar 1823. Guðrún Larsen telur gosið hafa verið fremur lítið, og er áætlað að aðeins um 0.004 km3 hafi komið upp.  Sprengigosið dreifði fremur fíngerðri ljósri ösku  umhverfis fjallið, en askan er fremur kísilrík, eða milli 60 og 70% SiO2.  Einnig orsakaði gosið jökulhlaup sem braust fram úr Gígjökli.  Sjá blogg um gosið og einkum um jökulhlaupið eftir Sigríði Magneu Óskarsdóttur hjá Veðurstofu Íslands hér


Jarðlögin í Stöðinni

Stöð SnæfellsnesiFjöllin á norðanverðu Snæfellsnesi eru merkileg fyrir margt, eins og ég hef áður bloggað um í sambandi við Búlandshöfða hér.   Skammt fyrir austan Búlandshöfða er fjallið Stöð, eða Stöðin.   Þetta er fagurt en einstakt fjall, 268 m á hæð, og algjörlega flatt að ofan.  Stöðin hefur gengið undir ýmsum nöfnum.  Þannig er það nefnt Brimlárhöfði í Eyrbyggju, en danskir sæfarar kölluðu það áður fyrr Líkkistuna vegna þeirrar lögunar sem það hefur séð utan frá sjó (alveg í stíl kölluðu þeir Kirkjufell því ómerkilega nafni Sukkertoppen). Árið 1936 fann Jóhannes Áskelsson  (1902 -1961)  jarðfræðingur sandsteinslög milli klettabelta í Stöðinni með skeljum og steingerðum plöntuleifum, nokkuð hátt upp í fjallinu að austanverðu. Þetta var merkileg uppgötvun, en senilega hefur Jóhannes lagt af stað upp í Stöðina eftir að Helgi Pjéturss gerði fyrstu uppgötvanir á þessu sviði í Búlandshöfða mörgum árum áður.  Fjöllin á norðanverðu Snæfellsnesi varðveita mjög merkileg jarðlög sem skrá sögu ísalda eða jökulskeiða fyrir um 1.8 til 1 miljón árum síðan.  Best er að leggja af stað frá bænum Lárkoti til að skoða jarðlögin í Stöðinni og fara upp bergið til hægri á fjallsbrúnina.  Jarðlög StöðinÞaðan má klífa upp á flatneskjuna efst á Stöðinni um þröngt en tryggt einstigi.  Neðri hluti fjallsins, upp í um 130 metra hæð, er blágrýtismyndun frá Tertíera tíma, eða nokkra miljón ára gömul og fremur ellileg basalt hraunlög.  Efst eru hraunlögin jökulrispuð og ofan á þeim er nokkuð þykkt lag af jökulbergi eða mórenu.  Hérna vantar sem sé um fimm til tíu miljónir í jarðsöguna, en rofið á fyrri hulta ísaldar hefur fjarlægt alla vitneskju.  Þar fyrir ofan er brúnt og gráleitt set af sandsteini og leirlögum sem innihalda skeljar og einnig steingervinga eða blaðför af laufblöðum af víði, lyngi og elrir.  Myndin til hliðar sýnir tvö steinrunnin  laufblöð úr laginu. Setið í Stöðinni er sennilega óseyrarlög, völuberg og sandsteinn sem hefur myndast á áreyrum. Snæfellsnes hefur sennilega verið vaxið elri og birkiskógi þegar þessi lög mynduðust. Sökkull eða neðri hluti fjallsins er myndaður af blágrýtislögum frá Tertíer, en að minsta kosti tveir basaltgangar skera Tertíeru blágrýtislögin, og hafa báðir stefnuna NA-SV, en þeir ná ekki upp í setlögin fyrir ofan.  Efra borð blágrýtismyndunarinnar er því mikið mislægi, en þar ofaná liggur myndun setlaga frá um 120 til 130  metrum yfir sjó.  Setlögin eru völubergslög, leirsteinn og sandsteinn, og innihalda skeljar af Astarte borealis, Saxicava rugosa samkvæmt  Guðmundi G. Bárðarsyni (1929).  Steinrunnin laufblöð StöðHraunlögin sem liggja innan setlaganna og hraunlög ofaná þeim eru einnig öfugt segulmögnuð samkvæmt ransóknum Doell og félaga (1972) og eru því senilega frá Matuyama segulskeiði, eða eldri en sjö hundruð þúsund ára.  Einn gangur sker setlögin í suður enda fjallsins, með stefnu nærri norðri.   Ofan af Stöðinni er einstakt útsýni í allar áttir, og til austurs má til dæmis sjá þökin á húsunum á Kvíabryggju, fangelsi íslenskra hvítflibbaglæpamanna. Á síðustu öld var stundað mikið útræði frá plássi eða hverfi hér í Kvíabryggju.  Síðan fluttist útgerð til Grundarfjarðar þegar hafnarskilyrði vor bætt þar.  Frá árinu 1954 voru vistaðir á Kvíabryggju menn, sem ekki greiddu meðlagsskuldir eða barnalífeyri. Árið 1963 voru fyrstu refsifangarnir sendir þangað til afplánunar. 


Má bjóða þér gos? Eldfjöll sem aðdráttarafl í ferðamennsku

Anthony RussoÍ dag flutti ég þetta erindi á ráðstefnu Ferðamálaþings í Reykjavík:

Atburðir tengdir eldgosunum í Eyjafjallajökli hafa minnt okkur rækilega á að eldfjöll og eldgos geta haft áhrif á ferðamennsku á ýmsan hátt.  Það er ljóst að þessi miklu sjónarspil náttúrunnar eru sterkt aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en einnig hefur komið í ljós að mistök í fréttamiðlun og kynningu á slíkum hamförum hafa haft neikvæð áhrif á ferðaiðnaðinn í landinu í heild.   Aska í háloftum frá Eyjafjallajökli hefur beint eða óbeint orsakað það að eitt hundrað þúsund flugferðum var aflýst milli 15. og 21. apríl, miljónir ferðamanna fóru í strand og kostnaður og tekjutap flugfélaga mun vera meir en 1.7 miljarðar dollara eða um 220 miljarðar króna.    Athygli alheims beindist nú að Íslandi sem aldrei fyrr í tengslum við gosið.  Erlendir fjölmiðlar streymdu til landsins í leit að fréttum.  Hver voru viðbrögðin hér heima?  Ég var staðsettur suður í sveitum á þessum krítiska tíma og varð vitni af því þegar erlendir fréttamenn reyndu að safna einhverju efni tengdu gosinu á allan mögulegan máta.  Fókus heimspressunnar var allur á Íslandi.  Hér var besta tækifæri Íslands til að koma  upplýsingum og áróðri um landið til alheims.  En engin skipuleg fjölmiðlaveita var til.  Hið opinbera og þar á meðal Iðnaðarráðuneytið, brást.  Ísland missti af  stærsta tækifærinu, sem hefði getað verið algjörlega ókeypis áróður um land og þjóð  og lyftistöng fyrir ferðamál landsins.  Einu upplýsingar til fjölmiðla virtust vera frá Almannavörnum, til dæmis um að stærsta samgönguleið landsins, Highway 1, væri rofinn í sundur, brúm lokað og hundruðir manna fluttir á brott.  Auðvitað er það hlutverk Almannavarna að aðstoða og vernda gegn jarðvá, en það fór lítið fyrir  tilkynningum eða fréttaveitu frá hinu opinbera varðandi það jákvæða, að nú væri búið að opna aftur.  Strax og gosið á Fimmvörðuhálsi hófst bárust mér póstur og fjöldi símhringinga frá ferðamönnum erlendis sem vildu koma til að sjá gosið, og enn fleiri þegar sprengigosið hófst.  Því miður gat ég ekki sinnt þeim vegna annara verkefna.   Ég vil segja ykkur lítið eitt frá starfsemi sem ég hef rekið í um 30 ár sem er tengd ferðum til eldfjallasvæða víðs vegar um heiminn.   Hér var aðallega um að ræða landsvæði þar sem ég hef unnið við eldfjallarannsóknir.  Ég rak starfsemina í gegnum fyrirtæki mitt Volcano Tours, en þar sem þetta var aukavinna, var ég yfir leitt með aðeins tvær til þrjár ferðir á ári hverju.  Þetta eru 10 til 15 daga ferðir, og þáttaka takmörkuð við 25 manns í hverri ferð.  Viðbrögðin hafa verið stórkostleg.  Ég hef skipulagt og stýrt ferðum á eldfjallasvæði Ítalíu (Vesúvíus, Stromboli, Etnu, Líparí), með blöndu af rómverskri sögu og menningu eins og hún kemur fram í borgunum Pompeii og Herkúlaneum sem urðu undir ösku og vikri frá gosinu í Vesúvíusi árið 79 eKr.   Einnig hefur gríska eldeyjan Santóríni í Eyjahafi verið vinsæl, þar sem er að finna stórkostlega blöndu af spennandi eldfjallafræði, fornleifum frá Bronzöld, menningu og sögu.  Þá vil ég nefna eyjaklasann Galapagos í Kyrrahafi.  Þar hef ég þann máta að hópurinn býr um borð í bát sem fer milli eyjanna á nóttinni, en farið  er í land á nýrri eyju á hverjum morgni og hún könnuð, ásamt sundi og köfun í hafinu umhverfis.  Á svipaðan hátt könnum við eldeyjarnar í Indónesíu, og notum bát sem fljótandi bækistöð hópsins.   Fræðsla er mikilvæg, og við höldum fyrirlestur á hvrjum morgni um jarðfræði, sögu, áður en farið er í gönguferðir.  Eldfjöllin í Mið-Ameríku, einkum í Costa Rica, hafa einnig verið könnuð með slíka hópa áhugasamra ferðamanna.   Einig má nefna ferðir okkar til Ekvador, Guatemala og Vestur Indía.  Ísland hefur uppá mjög mikið að bjóða fyrir ferðamenn sem þyrstir í fróðleik um land og sögu, eldfjöll, náttúruöfl og útivist.   Nýja Íslandskortið fyrir ferðamenn á að vera jarðfræðikortið.  Eldfjallasafn í Stykkishólmi býður nú upp  á eins dags fræðsluferðir umhverfis Snæfellsnes, og hefur því verið mjög vel tekið.  Nýja ferðafólkið er  duglegt, þráir útivist, vill fræðast á skipulegan hátt, vill hafa fullt prógram fyrir daginn til að njóta ferðarinnar til hins ýtrasta.  Leyfið fólkinu að koma til eldfjallsins. 

 

 

 

 


Eldfjöll sem Mótíf í Arkitektúr

Vulcano BuonoStundum finnst manni að ástandið sé svipað í dag með þá sem stunda arkitektúr eða byggingalist og með nútíma listamenn: það er búið að prófa allar mögulegar leiðir í listum undanfarnar aldir, og í örvæntigarfullum tilraunum sínum til að vera frumlegir eru sumir í þessum hóp komnir út í vitleysu og öfgar í dag. En nú hefur komið fram hreyfing meðal arkitekta sem mér líst nokkuð vel á, og það er hreyfing sem notar eldfjöll sem mótíf. Þetta er ekki bara hreyfing heldur hreint og beint alda, og arkitektar virðast nú keppa um að líkja eftir eldfjöllum. MíluturninnHér með fylgja nokkur dæmi. Það fyrsta sem ég vil benda ykkur á er bygging í grennd við Vesúvíus, en hún er komin í gagnið. Byggingin ber nafnið “Il Vulcano Buono” eða góða eldfjallið, og er staðsett í bænum Nola nálægt Napólíborg á Ítalíu. Það er sjálfur Renzo Piano sem hefur skapað þetta skemmtilega verk. Gígurinn er 150 metrar í þvermál. Stærsta bygging heims gæti litið út eins og eldfjall. Arkitektinn og boxarinn Eugene Tsui hefur nú stungið uppá þriggja kílómetra hárri ofurbyggingu fyrir San Francisco borg, sem nefnist Ultima Tower og getur hýst um eina miljón manns. Munið eftir Mount Doom eldfjallinu í Hringadrottinssögu?Taichung  Ætli Tsui hafi fengið hugmyndina þar?Nú er í byggingu Taichung ráðstefnubyggingin í Taívan, en hún er mynduð eins og þyrping af eldfjöllum eða gígum, hlið við hlið. Byggingin er skemmtilega létt og opin, en hún er hönnuð af MAD Architekts í Beijing í Kína. Njiric Arhitekti í Króatíu hafa hannað blátt eldfjall sem íþróttaleikvang. Í stað þess að hafa öskuský fyrir ofan eldfjallið, þá hafa þeir komið fyrir skýi sem er reyndar sólarsellur. Bláa eldfjalliðAð lokum er það Vulcania, eldfjallasafnið í Auvergne héraði í Frakklandi. Þar hafa þeir í frekar smáum stíl reist lítið eldfjall á smekklegan hátt.Er ekki kominn tími til að arkitektar reisi okkur eldfjall á Íslandi, til dæmis veglega byggingu undir Eldfjallasafn í Stykkishólmi?  Vulcania jpgEf til vill hefði sú hugmynd fengið góðan hljómgrunn fyrir 2008, en sennilega eru undirtektir ekki alveg eins góðar í dag. Við lifum í voninni…

Ástir og Eldgos í Bíó

Vulkano 1950Það er Valentínusadagur í dag, og viðeigandi að fjalla um ástir, bíó og eldgos, allt í einum pakka. Í Miðjarðarhafi, milli Sikileyjar og Ítalíu, eru nokkrar eldfjallaeyjar, en tvær þeirra komu mikið við sögu kvikmyndanna árið 1950. Það var á eyjunum Stromboli og Vulkano sem leikkonurnar Ingrid Bergman og Anna Magnani börðust um ást ítalsks leikstjóra og gerðu samnefndar kvikmyndir þetta ár. Ég vil sérstaklega benda ykkur á bíóplaköt frá þessum kvikmyndum, sem eru til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Anna og RosannoSagan byrjar dag einn árið 1948 þegar Roberto Rosselini situr í Róm og er að opna póstinn sinn. Hann les þá eftirfarandi sendibréf frá Ameríku: “Kæri herra Rosselini: Ég sá myndir þínar "Open City" og "Paisan" – – og ég varð mjög hrifin. Ef þig vantar sænska leikkonu sem talar mjög góða ensku, og líka þýsku, og er líka sæmileg í frönsku, en kann aðeins “ti amo” á ítölsku, þá er ég reiðubúin að koma og vinna með þér. Bestu kveðjur, Ingrid Bergman.”Svona einfalt var það í þá daga. Rosselini, sem hafði verið í ástarsambandi við Önnu Magnani í nokkur ár og stýrt henni í kvikmyndum (“L´Amore” 1948), flaug strax til Ameríku til að hitta sænsku leikkonuna sem var nýbúin að hljóta Óskarsverðlaunin og var þá tvímælalausr frægasta kvikmyndastjarna heims. Anna MagnaniHann fór til Hollywood og fundaði með stærsta framleiðandanum, David O. Selznick, og innan skamms var kominn samingur um að gera myndina “Stromboli” á Ítalíu árið 1950 með Ingrid í aðalhlutverki. Þegar Anna fær fréttir af þessu fer allt uppíloft. Upphaflega átti hún að fá þetta hlutverk, og nú er hún líka að missa elskhugann í klærnar á sænsku stjörnunni. Anna er alls ekki af baki dottin, og byrjar að gera sína eigin eldfjallsmynd með leikstjóranum William Dieterle, ásamt leikurunum Rossano Brazzi og Geraldine Brooks. Það er kvikmyndin “Vulkano” sem kom einnig út árið 1950. Eins og kortið sýnir, þá er ekki langt á milli Stromboli og Vulkano eyjanna, aðeins um 50 kílómetrar. En þarna störfuðu þau, nýju elskhugarnir Ingrid og Roberto á sínu eldfjalli, og Anna og hennar lið á Vulkano sumarið 1949. Myndin Vulkano fjallar um gleðikonuna Maddalena Natoli, sem er leikin af Önnu Magnani, sem er dæmd í útlegð frá Napólí, til að eyða æfinni heima í þorpinu sínu á eldfjallseynni Vulkano. Vulkano eyjaÞegar hún kemur heim, þá er henni ekki vel tekið af systkinum sínum. Eini vinurinn er elskuginn, og kafarinn Donato, sem Rosanno Brazzi leikur. Á þeim dögum var litið á kafara eins og við lítum á geimfara í dag: einskonar ofurmenni. Anna fær vinnu á bát kafarans, en hann fær áhuga á yngri systur Önnu. Hún vill bjarga systur sinni frá smabandi við þennan hættulega mann, og einn daginn, þegar hann er í kafi djúpt á hafsbotni, hættir hún að dæla til hans lofti og drepur hann. Í örvæntingu sinni gengur Anna upp fjallið og niður í gíginn þegar gosið hefst. Þetta var ekki besta mynd Önnu, en árið 1956 hlaut hún Óskarsverðlaunin fyrir myndina “Rose Tattoo” með Burt Lancaster, en handritið var samið sérstaklega fyrir hana af sjálfum Tennessee Williams.Stromboli1950  Anna var sögð afskaplega skapmikil og jafnvel stórir karlar á við stjörnurnar Burt Lancaster og Anthony Quinn, sem léku á móti henni, voru sagðir vera dauðhræddir við hana. En hún var ein allra vinsælasta leikkonan um miðja tuttugustu öldina og talin jafnast á við sjálfa Gretu Garbo. Til dæmis má geta þess að það fyrsta sem rússneski geimfarinn Yuri Gagarin sagði þegar hann útvarpaði úr geimnum til jarðar fyrstur mann árið 1961 var þetta: “Ég sendi kveðjur mínar til mannkynsins á jörðu, til heims listanna og til Önnu Magnani.” Eyjan Vulkano er stórmerkilegt eldfjall, en þar búa nú um 500 manns. Síðasta gosið var árið 1888, en Vulkano var mjög virkt á átjándu öldinni. IngridÞað eru þrír gígar, sá yngsti er Vulcanello sem myndaðist í gosi 183 f. Kr., næst er Fossa sem var virk 1888, og elst er Il Piano askjan. Eyjan er mjög vinsæl meðal ferðamanna, og í næsta gosi verður stórtjón fyrir þá sem hafa byggt hér fjölda af hótelum undanfarið. Gríski guðinn Æolus, guð vindanna, hafði aðsetur sitt í eldfjöllunum á Isole Eolie, Vindeyjum, og þar var að finna uppruna vindanna, samkvæmt grísku goðatrúnni. Reydar er það alveg lógiskt og mjög skiljanlegt, þar sem kenning forngrikkja um eldgos var sú, að þau væru afleiðing þess þegar vindur brýst út úr jörðinni út um lítið op, sem er gígur eldfjallsins. Það var sjálfur Aristóteles sem setti fram þessa kenningu. Um leið og Anna Magnani var að kæfa Rosanno Brazzi í hafinu rétt hjá Vulkano, þá voru þau hjúin Ingrid Bergman og Roberto Rosselini að hafa það gott á Stromboli rétt hjá. Ferðamönnum sem koma til Strombolí er sýnt fallega litla rauða steinhúsið þar sem hjúin bjuggu saman, og marmaraskilti á útvegg lýsir ástarsambandinu. Afrakstur af því var kvikmyndin “Stromboli” (1950) og svo litla barnið Robertino Rosselini. Kvikmyndin fjallar um unga flóttakonu, Karin, frá Litháen sem giftist ítölskum sjómanni til að sleppa út úr flóttamannabúðum. Hann fer með hana heim til Stromboli. Ingrid á eldfjallinuÞað fyrsta sem hún segir þegar til eyjarinar kemur er: “Er það alltaf gjósandi?” Svarið er já. Hún er mjög óhamingjusöm og reynir að komast í burt með því að ganga yfir eldfjallið til að reyna að komast í annað þorp og sleppa burt frá Stromboli eyju. Kvikmyndin endar þegar hun er að nálgast gíginn, en við vitum ekki um endanleg örlög hennar. Myndin Stromboli orsakaði eitt mesta hneyksli í sögu kvikmyndanna. Bæði Rosselini og Bergman voru gift öðrum þegar ástarsamband þeirra hófst á eynni, og þegar hún fæddi son þeirra Robertino. Casa IngridHinn 14. marz árið 1950 tók senator Edwin C. Johnson frá Kolóradó til máls í efri deild bandaríska þingsins. Hann flutti þá langa ræðu um Ingrid Bergman, og spillingu þá sem hún breiddi nú út með hegðun sinni. Kosning í þinginu gerði Ingrid persona non grata í Bandaríkjunum og hún flúði land og settist að á Ítalíu. Loks snéri hún aftur til Bandaríkjanna sjö árum síðar og tók upp þráðinn aftur þar í Hollywood. En Stromboli heldur áfram að gjósa og það má segja að þetta eldfjall sé það virkasta á jörðu. Ekki er að furða að Stromboli eyja sé oft kölluð “viti Miðjraðarhafsins”, en her hefur gosið stöðugt í meir en 2500 ár. Gosin eru flest mjög lítil, og gera lítinn usla. 

StomboliRosi

 Tvö þorp sjómanna hafa þvi þrifist í hlíðum fjallsins í alda raðir.  Upphafið á sögunni um Vulkano og Stromboli kvikmyndirnar var það, að fjórir aðalsmenn á Sikiley fundu upp aðferð til að taka kvikmyndir neðansjávar og vildu gera mynd um kafara. Þeir fengu Rosselini og Önnu Magnani í lið með sér til að vinna að kvikmyndinni. 

Stromboli Olía

En svo sveik Roberto Önnu sína, og svo framvegis.  Hér fyrir neðan fylgja tvö málverk sem ég eignaðist þegar ég heimsótti Strombólí árið 1990 og 1997.  

Stromboli á gler

Þær má báðar sjá í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, ásamt fleiri myndum af Strombóli eldeyju. 

 

Eldgosið á Eynni Montserrat

Montserrat 2009Árið 1980 starfaði ég við eldfjallarannsóknir í Vestur Indíum, en það er eyjaklasinn sem skilur Atlantshaf frá Karíbahafi. Flestar eru þessar eyjar eldfjöll sem hafa risið úr hafi vegna flekahreyfinga milli Atlantshafsflekans í austri og Karíbaflekans fyrir vestan. Þá bárust fregnir um dularfulla atburði í Soufriere Hills eldfjalli á eynni Montserrat og ég fór þangað til athugana og kynntist þessari fögru eyju, en hún er nú eina nýlendan sem eftir er af breska heimsveldinu. Ég kannaði hlíðar eldfjallsins Soufriere Hills á suður hluta eyjarinnar, og rakst á hverasvæði þar sem bráðinn brennisteinn rann niður úr fjallinu eins og hraun. Það var greinilegt að hiti var að færast í fjallið, eins og kom vel fram fimmtán árum síðar.Gosið í Soufriere Hills hófst árið 1995, eftir fimm hundruð ára dvala eldfjallsins. Strax var ljóst að allur suður helmingur eyjarinnar var í hættu, og þar á meðal höfuðborgin Plymouth, með um 4000 íbúa. Ég snéri aftur til Montserrat árið 1996, en þá var hafinn mikill flótti íbúanna frá eynni. Gosið hélt áfram, en það var með þeim hætti, að mjög seig hraunkvika kreistist upp úr gosopinu og myndaði stóran hraungúl efst á fjallinu. Montserrat 1997Öðru hvoru hrundu stór björg úr hraungúlnum og mynduðu glóandi heitar skirður eða gjóskuflóð niður brattar híðarnar. Árið 1997 hrundi mikill hluti hraungúlsins sem hafði safnast fyrir ofan á gígnum, og myndaði það stórt gjóskuflóð sem drap 19 manns. Skömmu síðar var um 80% af byggðinni í Plymouth eyðilögð af gjóskuflóðum og borgin þá yfirgefin fyrir fullt og allt. Árið 1998 starfaði ég við rannsókn á hafsbotninum umhverfis Montserrat. Yolanda WoodberryÍ þeim leiðangri kom ég við á nágrannaeynni Antigua. Þar hitti ég fyrir tilviljun svörtu listakonuna Yolanda Woodberry sem býr þar. Við ræddum um gosið og hún sagðist hafa glóandi fjallið fyrir augunum daglega, og væri byrjuð að mála gosið. Þannig eignaðist ég olíumálverkið af gosinu í Soufriere Hills eftir Woodberry, sem hangir uppi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, og er hér til hliðar. Myndin sýnir eldvirknina að nóttu til, þar sem glóandi heitir og eldrauðir straumar af grjóti og ösku streymir niður hlíðarnar, þegar hraungúllinn hrynur. Ljósmyndin hér fyrir neðan sýnir samskonar fyrirbæri. Á daginn sést glóðin lítt eða ekki, þar sem gjóskuflóðin hylja hlíðarnar og fela glóðina. Soufrier Hills heldur áfram að gjósa, og í gær fór gjóskustrókurinn í 16 km hæð og gjóskufall truflaði flugsamgöngur í Karíbahafi.Soufriere Hills á nóttinni

Jarðskjálftar undir Arnarvatnsheiði

JarðskjálftarUndanfarna daga hefur verið í gangi fremur óvenjuleg jarðskjálftahrina undir Arnarvatnsheiði, vestan Langjökuls. Þetta eru litlir skjálftar, og á takmörkuðu svæði á Tvídægru heiði. Eins og myndin frá Veðurstofu Íslands sýnir, þá eru skjálftaupptökin rétt við brotalínu eða misgengi sem liggur aust-norð-austur um Arnarvatnsheiði. Þetta er nokkuð óvenjuleg stefna á misgengjum á Íslandi, en gæti hugsanlega verið tengt Snæfellsnes beltinu fyrir vestan.  Árið 2001 varð einnig jarðskjálftahrina á svipuðum slóðum, en eilítið vestar.  Enn meiri virkni varð hér á þessum slóðum árið 1974, eins og Páll Einarsson hefur ítarlega fjallað um. Það verður því fróðlegt að fylgjast með þessarri skjálftavirkni næstu daga. Yfirlit yfir jarðfræði svæðisins er sýnt á seinni myndinni, og upptök skjálftanna eru flest innan rauða hringsins.  Svarta brotna línan er stefna misgengja. Jarðmyndanir á svæðinu þar sem skjálftarnir gerast eru aðallega blágrýrismyndun frá lokum Tertíera tímans.  ArnarvatnsheiðiUm 20 km austar er Hallmundarhraun, sem rann sennilega skömmu eftir Landnám eða eftir árið 900, samkvæmt aldursgreiningu Kristjáns Sæmundssonar og Hauks Jóhennessonar. Það er talið eina hraunið sem hefur runnnið í Vesturgosbeltinu (Langjökull og gosbeltið suður að Þingvallavatni) síðan land byggðist, en Hallmundarhraun rann úr þremur gígum við vesturbrún Langjökuls. Þetta basalthraun er um 50 km á lengd og nær yfir um 205 ferkílómetra, en rúmmál þess er 3,4 rúmkílómetrar.  Hæget er einnig að fylgjast með skjálftavirkni á Arnarvatnsheiði með því að skoða gögn úr skjálftamæli Jóns Frímann hér  http://www.jonfr.com/

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband