Færsluflokkur: Ferðalög

Surtsey Miðjarðarhafsins var Ferdinandea árið 1831

Sikileyrarsund og FerdinandeaÁrið 1831 hófst eldgos í sjó í Miðjarðarhafi, um 50 kílómetrum fyrir sunnan Sikiley. Þessi atburður hafði merkileg áhrif á milliríkjamál Evrópuveldanna, og einnig beinlínis á þróun eldfjallafræðinnar. Þetta var gosið í Ferdinandeu, eða Graham Island, eða Giula, eða í eynni sem hvarf, en þetta neðansjávareldfjall hefur langa sögu. Á dögum Púnverjastríðsins (264 til 241 fyrir Krist) er fyrst getið um eldgos í hafinu fyrir sunnan Sikiley. Síðan hefur eyja risið og horfið í hafið aftur á þessu svæði fjórum eða fimm sinnum, og síðast á sautjándu öld. Sökum þess hlaut eyjan dularfulla nafnið “L´isola che non c´é piu” eða eyjan sem er ekki lengur. Ferdinandea er staðsett á hafsbotni í Sikileyjarsundi, milli Sikileyjar og Túnis, eins og kortið fyrir ofan sýnir. Hér í næsta nágrenni er eldfjallseyjan Pantelleria og einnig eyjan Linosa.  Ferdinandea bretannaHér er það sem við vitum um gang mála árið 1831:28. júní 1831: Breska herskipið HMS Rapid var statt undan suður strönd Sikileyjar, þegar skipið hristist og skalf í miklum jarðskjálfta og áhöfnin heyrði sprengingar sem þeir töldu vera eldgos.19. Júlí 1831: HMS Rapid nálgast svæðið og Kapteinn Swinburne og áhöfn hans sjá gos í hafinu, uppúr gíg sem er aðeins nokkrir metrar fyrir ofan sjávarborð. júlí 1831: Frakkar frétta af gosinu og senda jarðfræðinginn Constant Prevost og listmálarann Edouard Joinville til eyjarinnar og gefa eynni nafnið Giulia, þar sem hún var uppgötvuð í júlí. Um þetta leyti heimsækir rithöfundurinn Sir Walter Scott eynna.1. ágúst 1831: Sjóliðar af breska herskipinu St Vincent lenda á eynnit til landmælinga. Einnig koma herskipin Ganges, Hind, og Melville við á eynni í ágúst og gefa bretar henni nafnið Graham Island, í höfuð á fyrsta lávarði breska flotans, Sir James Graham.Þá var eyjan um 50 metrar á hæð. Þeir reisa stöng með breska fánanum á hæsta toppnum.6. ágúst 1831: Breska herskipið St Vincent er enn við eldeynna. Einn af áhöfninni teiknaði gosið, og eftir þeirri teikningu var gerð eirstunga af R. Ackermann. Sú mynd er til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, en hún er sýnd hér fyrir ofan. 17. ágúst 1831: Konungur Sikileyjar og Napólí, Ferdinand II sendir freigátuna Etnu gefur eynni nafn sitt, Ferdinandea, lætur fjarlægja breska fánann og reisa sinn fána upp á eynni. Ítölsk eirstunga af gosinu var gerð á þessum tíma, með titlinum “Isla Volcanica”, og er hún einnig sýnd í Eldfjallasafni í Stykkishólmi og sést hér fyrir neðan. Ferdinandea ítalannaUm þetta leyti sýna spánverjar eynni einnig áhuga og hyggjast nema land. 17. december 1831: Tveir sjóliðar í þjónustu konungs Sikileyjar og Napólí leita eyjarinnar en finna ekki. Öldur hafsins hafa brotið hana alveg niður og eftir eru aðeins grynningar. Það er greinilegt að Evrópuveldin höfðu mikinn áhuga á eynni, og hann var ekki vísindalegur, heldur tengdur ástandi þjóðmála innan Evrópu. Á þessum tíma gekk mikil byltingaralda yfir Evrópu, og íhaldssömum kóngum eins og Karli X í Frakklandi, var steypt af stóli af lýðræðissinnum, frjálslyndum og byltingarseggjum. Það var mikil ólga enn í álfunni eftir Napóleonsstyrjaldirnar. Miðjarðarhafið var hernaðarlega mikilvæt. Eyja í miðju hafinu, mitt á milli Möltu (sem var bresk), Spánar og Frakklands gat verið mjög mikilvæg fyrir breska heimsveldið, sem vildi ráða ríkjum í höfum heims á þeim tíma. En konungsríki Bourbonans, Ferdinands II, Sikiley og Napólí, varð fokreitt þear bretar helguðu sér eynna, og brugðu skjótt við. Það var viðeigandi að Ferdinand II sendi freigatuna Etnu á staðinn, lét fjarlægja breska fánann og reisa fána sinn á eynni og gefa henni ítalsk nafn: Ferdinandea. Til allrar hamingju hvarf eyjan fljótlega, en annars hefði sennilega komið til alvarlegra átaka hér. Það voru önnur átök sem áttu sér stað um Ferdiandeu á þessum tíma, en þau voru milli vísindamanna um upruna eldfjalla. Í byrjun nítjándu aldar var í gangi mikil deila um uppruna eldfjalla sem landslagsmyndunar eða landforms. Hvernig mynduðust þessi einstöku, háu og bröttu fjöll? Hér voru tvær kenningar ríkjandi. Önnur var Upplyftingarkenningin (Erhebungstheorie), sem var einkum ríkjandi í Þýskalandi og Frakklandi. Samkvæmt henni myndast eldfjöll sem einskonar bóla eða bunga, þar sem þrýstingur neðan frá lyftir upp jarðskorpunni. Frumkvöðull kenningarinnar var sjálfur Alexander von Humboldt, en þekktustu fylgisveinar hans voru Leopold von Buch og Elie de Beaumont, og einnig Charles Darwin. Hin kenningin var sú, að eldfjöll myndist vegna þess að hraun og gjall hleðst upp umhverfis gíginn eða gosrásina. Þeir sem einkum fylgdu þeirri kenningu, sem má kalla Goskenninguna, voru bretarnir Poulett-Scrope, Charles Lyell, og frakkinn Constant Prevost.Þegar Ferdinandea gaus, þá var greinilegt að eyjan hlóðst upp smátt og smátt, við það að öskulög lögðust hvert ofan á annað og þannig smáhækkaði hún. Upplyftingarkenningin var dauð eftir þetta gos. Eins og myndirnar sýna, þá var gosið nauðalíkt Surtseyjargosinu árið 1963. Hér var það aftur samspil kviku og vatnsins sem orsakaði sprengingar, alveg eins og í Surtsey og reyndar einnig í Grímsvötnum.

Koldíoxíð, Saga Loftsins og Loftslag

Loftbólur í ísLoftið á jörðu er nokkuð gamalt. Fyrst var andrúmsloftið nær eingöngu koldíoxíð, en þá gerðist stökkbreyting þegar lífríki kom á vettvang á yfirborði jarðar. Jarðfræðin sýnir að súrefnisríkt andrúmsloft hafði byrjað að myndast fyrir um 2,5 miljörðum ára. Vitneskja um það finnst í jarðmyndunum í Ástralíu, þar sem járnsteindir hafa ryðgast vegna oxunar á þessum tíma. En hver er saga loftsins á síðari tímabilum jarðsögunnar? Ýmsum aðferðum hefur verið beitt til að kanna það, jafnvel hafa sumir vísindamenn fengið rannsóknastyrki til að mæla og efnagreina loftið í gömlum flöskum af frönsku víni, sem hafa aldrei fyrr verið opnaðar. CO2 og hiti í VostokBesta skráin yfir gamalt loft er í ískjörnum frá borunum á heimsskautunum. Fallega bláa myndin hér fyrir ofan er af ískjarna, sem inniheldur mikinn fjölda af loftbólum. Hér er loft sem hefur lokast inn í ísnum og varðveist lengi, jafnvel um hundruðir þúsunda ára. Í hjarninu, á milli snjókorna sem hafa nýlega fallið til jarðar, er bil fyllt af lofti. Vinur minn Michael Bender hefur sýnt að loftið streymir inn og út úr hjarninu fyrir ofan 0,5 til 1,2 metra dýpi, en þar fyrir neðan er loftið lokað inni og varðveitt um aldur og ævi, þegar snjór breytist í ís. Loftið í ískjarnanum á hverju dýpi er því aðeins yngra (um það bil tíu til fimmtíu árum yngra) en ísinn sjálfur, en það er auðvelt að taka það inn í dæmið, þar sem við vitum ákomuna. Ákoma á Suðurheimsskautinu er aðeins um 3 cm á ári, en á Grænlandi er hún um 30 cm á ári. Bender og fleiri hafa rannsakað efnasamsetningu loftsins í ískjörnum langt aftur í tímann, og mælt það allt að 800 þúsund ár í Vostok ískjarnanum. Þeir bræða lítinn ísmola og safna loftbólunum til efnagreiningar. Þarna er ótrúlegur sjóður af fróðleik um þróun andrúmsloftsins á ísöld. Auðvitað spyr fólk fyrst: hvernig hefur koldíoxíð í andrúmsloftinu hagað sér öll þessi ár? Myndin fyrir ofan sýnir breytingar á koldíoxíð og hitastigi í ískjarna frá Vostok á Suðurheimsskautinu síðustu 400 þúsund árin. Rauða línan allra lengst til hægri er koldíoxíð breytingin á síðustu áratugum, eins og hún mælist á Hawaí. Háu topparnir eru hlýskeið (eins og það sem við lifum við í dag) á milli jökulskeiða. Það er slándi hvað koldíoxíð og hitaferill fylgjast vel saman í myndinni og sama sagan sést í ísborunum á Grænlandi. CO2 í sjóEn ég vil strax benda á, að koldíoxíð breytingin í ískjörnum fylgir á EFTIR hitanum, og er koldíoxíð sveiflan um 500 til eitt þúsund árum á eftir hitasveiflunni. Það er því ljóst að koldíoxíð getur ekki verið orsökin fyrir þessum sveiflum. Þegar jökulskeiði líkur, þá er hlýun ekki af völdum koldíoxíðs, heldur af Milankovitch breytingum á magn sólarorku sem fellur á yfirborð jarðar, eins og ég fjallaði um í síðasta pistli. Hlýunin orsakar það hinsvegar, að koldíoxíð streymir upp í andrúmsloftið, úr hafinu. Skoðum myndina hér fyrir ofan, sem sýnir uppleysanleika koldíoxíðs í sjó við mismunandi hita. Hlýr sjór inniheldur minna koldíoxíð og afgangurinn fer upp í andrúmsloftið þegar sjórinn hlýnar. co2 og hitiÍ andrúmsloftinu byrjar vaxandi koldíoxíð nú að hafa gróðurhúsaáhrif og heldur við hlýun, en á meðan dregur úr Milankovitch áhrifum. Þannig orsakar koldíoxíð hlýun um leið og hlýun veldur flutningi af meira magni af koldíoxíði úr hafinu. Ég tek það aftur fram, að aukning koldíoxíðs í andrúmsloftinu er um 500 til 1000 árum á EFTIR hlýun, og að vaxandi koldíoxíð orsakar ekki lok jökulskeiða, heldur eru það breytingar á innbyrðis afstöðu jarðar og sólar. Það er fróðlegt að líta á feril hita og koldíoxíðs í ísnum á tíma síðasta hlýskeiðs, Eemian, sem var fyrir um 130 þúsund árum. Myndin fyrir ofan sýnir það tímabil og jökulskeiðið sem fylgdi. Það jökulskeið er einmitt það síðasta á ísöldinni. Hér er mjög greinilegt að þegar Eemian byrjar, þá er það hitinn (blái ferillinn) sem rís á undan koldíoxíð magni andrúmsloftsins (guli ferillinn). En síðan seinkar koldíoxíð magnið kólnuninni. Í jarðsögunni er það koldíoxíð sem yfirleitt eltir hitann, og er ekki aðal orsökin fyrir hlýun. En lítum nú á tímabilið sem okkur er enn nær, eða síðustu átta þúsund árin, eins og myndin fyrir neðan sýnir. Hér er eitthvað allt annað að gerast varðandi koldíoxíð magn andrúmsloftsins. Það rýkur upp, langt á undan hitabreytingunni, eins og sést í fyrri myndinni frá Vostok ískjarnanum fyrir ofan.co2 8000 ár  Það var aldrei ætlun vísindamanna að halda því fram, eins og margir virðast misskilja, að koldíoxíð skýrði allar fyrri hitasveiflur jarðsögunnar, en þær eru að miklu leyti skírðar af breytingum á innbyrðis afstöðu jarðar og sólar. Hins vegar benda vísindin nú á þetta gífurlega frávik í koldíoxíð magni andrúmsloftsins og vekja athygli á hugsanlegum afleiðingum þess. Jarðsagan er komin inn á nýtt kerfi, nýtt tímabil, sem er tíminn eftir að síðasta jökulskeiði lauk, og áður hét Hólosen. Sumir vilja nú nefna þeta tímabil Anþrópósen, eða tímabil mannkynsins, þar sem maðurinn virðist vera að skapa nýtt og annað loftslag og breyta hinu og þessu í leiðinni.

Berghlaup úr Drápuhlíðarfjalli - í fortíð og í framtíð

ShastaBerghlaup nefnist það fyrirbæri þegar stór spilda eða fylling fellur eða skríður skyndilega fram úr fjallshlíð og myndar mikla breiðu af stórgrýti og moluðum jarðmyndunum á sléttlendi fyrir neðan. Forfeður okkar kölluðu slíkt fyrirbæri hraun, sem er sennilega dregið af orðinu hrun eða að hrynja. Yfirborð á berghlaupum er reyndar mjög líkt og yfirborð á hraunum þeim sem myndast við eldgos, og hafa forfeður okkar sennilega ekki gert mikinn greinarmun þar á. Sennilega eru Vatnsdalshólar mesta berghlaup á Íslandi, en það hlaup náði fram um 6,5 kílómetra. Eitt stærsta berghlaup á jörðu varð í Kaliforníu fyrir um 300 þúsund árum, þegar hlíð eldfjallsins Shasta hrundi, og þá fór berghlaup í allt að 45 km fjarlægð frá fjallinu og þakti um 450 ferkílómetra svæði. DrápuhlíðarfjallBerghlaup myndast í bröttum hlíðum þegar styrkur bergs eða jarðmyndana er ekki nægilegur til að vinna á móti hallanum og þyngdarlögmálinu. Sennilega hafa flest berghlaup á Íslandi myndast skömmu eftir eða um leið og skriðjöklar hopuðu í lok ísaldarinnar, fyrir um tíu þúsund árum. Úr norðvestur hluta Drápuhlíðarfjalls hefur orðið berghlaup, sennilega rétt eftir að ísöld lauk. Það myndar um eins km langa, bratta og ljósa skriðu út brotnu líparíti, sem er nokkrir tugir metra til eitt hundrað metrar á þykkt. Upptök berghlaupsins er hamar norðan í fjallinu, þar sem tvö þykk líparít lög hafa brotnað fram. GjáinBerghlaupið úr Drápuhlíðarfjalli var lengi notað sem náma fyrir hið landsþekkta Drápuhlíðargrjót: fallegar stórar flögur af gulu eða rauðleitu líparíti, sem voru fluttar í stórum stíl til Reykjavíkur á sjötta og sjöunda áratugnum, til að klæða veggi umhverfis arinninn í stofunni eða við útidyrnar í nýbyggingum í fúnkis stíl hjá efnuðum borgurum. Á þeim tíma var arinn í stofu og Drápuhlíðargrjót stöðutákn hinna nýríku. Nú er fjallið friðað og efnistaka bönnuð, enda hefur tískan víst breytst. Nú virðist að annað berghlaup kunni að falla úr Drápuhlíðarfjalli í framtíðinni. Um eins meters víð sprunga hefur myndast í fjallinu um eitt hundrað metra innar en hamarsbrúnin þar sem fyrra berghlaupið varð. Sjá mynd hér til hægri af sprungunni. Undir hamrinum, sem er mjög þykkt líparít hraun, er um 20 til 30 metra þykkt lag af gjóskuflóði. Það er um 3,5 miljón ára að aldri og hefur með tímanum og vegna áhrifa jarðhita breytst í mjúkan leir.Hamarinn  Í leirlaginu finnast oft leifar af steingerðum trjám, sem bera vitni um gróðurfar á Snæfellsnesi í lok Tertíera tímans. Hamarinn hvílir því á sleipu leirlagi og allar aðstæður eru því tilbúnar að hamarinn kastist fram og myndi nýtt berghlaup. Nú er kominn tími til að fylgjast með sprungunni, til að kanna hvort hér sé hreyfing á bergfyllingunni og hversu hröð hún er.

Mayon á Filipseyjum

Mayon 1915Undanfarna daga hefur Mayon eldfjall á Filipseyjum verið í fréttum. Fjallið byrjaði að gjósa 10. ágúst 2009, og virðist krafurinn fara sívaxandi. Mayon, sem er á eynni Luzon, er 2460 metrar á hæð og er sennilega formfegursta eldfjallskeila á jörðu, jafnvel reglulegri en Fuji í Japan. Sjá myndina til vinstri úr Eldfjallasafni, en hún er tekin af Mayon árið 1915. Hér hafa orðið 48 gos síðan sögur hófust (þ.e. eftir að spánverjar komu til Filipseyja). Stærsta gosið var 1814 en þá fórust 1200 manns í gjóskuflóðum. Myndin til hægri sýnir gjóskuflóð í gosinu 1984. Mayon er virkasta eldfjall Filipseyja og gaus síðast 2006. GjóskuflóðNær öll gosin hafa verið út toppgíg fjallsins, og mynda oftast hraunstrauma niður hlíðarnar, en einnig myndast hraungúll í toppgígnum. Gúllinn verður stór og hrynur úr honum mikið af glóandi heitu bergi, sem myndar mjög skaðleg gjóskuflóð niður hlíðarnar og jafnvel niður í byggð, eins og sýnt er á myndinni frá 1984. Gjóskuflóðin eru lang hættulegust, vegna þess að þau fara hratt, eru glóandi heit og ná fjær fjallinu en hraunstraumar. Auk þess verða heitir eðjustraumar eða lahar, þegar mikið rignir á fjallinu. Mayon er aðeins 16 km frá borginni Legaspi. Nú síðustu daga hafa hafist sprenginar og lítil öskugos, sem senda mökk upp í allt að 1 km hæð yfir fjallinu. Hraunstrumurinn nær nú 3 km niður hlíðarnar. Fjöldi jarðskjálfta hefur aukist í um 248 á dag, og sumir þeirra benda til að hraunkvika sé á uppleið í fjallinu. Nú dælir Mayon um 1000 tonnum af brennisteini út í andrúmsloftið á dag. Eldfjallastofnun Filipseyja, PHIVOLC, hefur lagt bann við allri umverð innan 7 km frá fjallinu og vill færa það út til 8 km. 

Filipseyjar  Alls hafa nú um 50 þúsund manns verið fluttir frá hættusvæðinu, en margir bændur hafa snúið aftur til að sinna ökrum sínum og búpeningi. Það er engin leið að spá um framvindu mála, en goskraftur getur vaxið, og stórgos kann að verða á borð við það sem skall yfir byggðina 1814. Nú er mun fleira fólk í þéttbýli sem er í hættu. Þegar Mayon byrjaði að gjósa, þá hvarf hugur minn til gamals vinar míns, Raymundo Punongbayan, sem var forstöðumaður PHIVOLC í mörg ár. Árið 2005 fórst Raymundo í þyrluslysi á einu eldfjallanna í heimalandi sínu, ásamt 4 öðrum eldfjallafræðingum. Það var mikið áfall fyrir rannsóknir á eldfjöllum í Filipseyjum.


Gullið í Drápuhlíðarfjalli?

Loftmyndir ehfAllir eru sammála um að Drápuhlíðarfjall á Snæfellsnesi sé gullfallegt. Svo glóir það stundum eins og gull, í réttu ljósi. Kíkið á myndina hér til vinstri, sem er tekin af Loftmyndum ehf. En það er ekki þar með sagt að það sé gull í því! Árið 1939 hófst gullleit í Drápuhlíðarfjalli. Það voru Magnús G. Magnússon frá Ísafirði, þá útgerðarmaður og skipstjóri í Boston, ásamt Sigurði Ágústssyni kaupmanni í Stykkishólmi sem stóðu fyrir leitinni. Magnús kemur hingað frá Boston með skip sitt og áhöfn, sérfræðinga og allan útbúnað til gullleitarinnar. Þeir fluttu með sér borvél, vigtir, bræðsluofn, kemísk efni og annan úbúnað til að rannsaka bergið í Drápuhlíðarfjalli. Þá stofna þeir Magnús og Sigurður Hartmansfélagið til gullleitarinnar. Magnús útbjó rannsóknarstofu í eldhúsinu í gamla samkomuhúsinu í Stykkishólmi, sem nú er Eldfjallasafn. Mikið var starfað í norðanverðu fjallinu þetta sumar, og aðallega í tveimur giljum fyrir ofan bæinn Drápuhlíð, sem nú er í eyði. Í miðjum klíðum varð Magnús að hætta leitinni í Drápuhlíðafjalli haustið 1939, vegna þess að skipið var kallað aftur til Bandaríkjanna til þátttöku í seinni heimsstyrjöldinni. Magnús varð kapteinn á skipinu Nanok í Landhelgisgæzlu Bandaríkjanna og var við varnir gegn nazistum við strendur Grænlands það sem eftir var af seinni heimsstyrjöldinni. Vitað er að þeir Magnús og Sigurður fengu jákvæðar niðurstöður í gulleitinni. Í sendibréfi frá 1943 segir Magnús að “niðurstöður voru svo góðar að hann taldi að íslenska ríkið gæti greitt allar sínar skuldir með námuhagnaðinum”. Í bréfi Magnúsi frá Bandaríkjunum hinn 20. janúar 1940 ríkir mikil bjartsýni: “Við aðra rannsókn sem ég lét gjöra á því sem ég tók með mér kom í ljós að það er yfir $100 [af gulli] í tonninu.” Ýmsir munir hafa varðveist frá gullleitinni og eru sumir þeirra sýndir í Eldfjallasafni. Það eru vigt, bræðsluofn, panna, deiglur, töng og ýmis kemísk efni sem voru notuð við efnagreiningar á bergi úr Drápuhlíðarfjalli. Einnig er sýndur borkjarni frá borun í fjallið.Magnús var bróðir Kristjáns H. Magnússonar listmálara, en Kristján fór til Boston til náms. Kristján málaði fræga mynd af eldgosi í Vestmannaeyjum, sem einnig er fjallað um í Eldfjallasafni. Sumarið 1941 ferðast bóndinn og jarðfræðingurinn Jakob Líndal um Snæfellsnes og kannar Drápuhlíðarfjall, eins og lýst er í bók hans Með Huga og Hamri (1964). Hann er sannfærður um gullið og lýsing hans er ágæt: “Eins og víða þar sem súrar gufur hafa til lengdar leikið um berg, hefur myndast hér nokkuð af brennisteinskís á dreifingi. En það sér einnig til annarrar bjartari málmíblöndunar, er liggur í örþunnum æðum. Líkt og þær væru ofnar í bergið meðfram ósýnilegum sprungum. Þetta efni er gull, er ég sá nú í fyrsta sinn í bergi, svo ég hefði vissu fyrir. Það hefur leikið orð á gulli á þessum stað, líklega mest vegna brennisteinskíssins, um langan aldur. En nú nýlega hefur verið unnið þarna dálítið af íslenskum málmleitarmanni frá Ameríku, og hafa sum sýnishorn hans gefið góða raun um gullmagn. Við borun hefir komið í ljós að gullmagn þarna niður er mjög mismunandi, á stöku stað allmikið, en með köflum mjög lítið og ekki neitt. Enn mun ekki úr því skorið, hvort tiltækilegt sé að hefja þarna námugröft. Ég veitti því eftirtekt að gullið sést helst þar, sem bergið var hálfsoðið í sundur, en ekkert í því bergi, sem með öllu var ósnert af jarðhitanum, sömuleiðis að gull var engu síður í hnullungum vatnamyndunarinnar en í fasta berginu neðan við, og jafnvel, að þess varð vart í hreinum, lagskiptum vatnaleir, þar sem fannst votta fyrir jurtaleifum og einskonar steinbrandi.” Ég hef kannað Drápuhlíðarfjall töluvert, og er það merkilegt hvað varðar jarðfræðina. Fjallið er myndað að miklu leyti af tveimur þykkum líparít hraunlögum, og eru þau um 3,5 miljón ára gömul, sem sagt frá Tertíera tímanum í jarðsögunni. Neðarlega í norðvestur hluta fjallsins er 20 til 30 metra þykkt lag af völubergi eða mórenu, undir líparítinu. Þetta lag er gegnsoðið af jarðhita, eins og Jakob Líndal benti á, og það er hér sem gullleitin fór aðallega fram 1939, í tveimur giljum fyrir ofan Drápuhlíð. Síðastliðið sumar kannaði ég gilin og tók sýni af berginu, í fylgd með danska námujarðfræðingnum Peter Wolff, en hann er meðal reyndustu gullleitarmanna. Við sendum tólf sýni af bergi og seti til efnagreiningar. GlópagullÍ stuttu máli eru niðurstöður þær, að gull finnst í mælanlegu magni í einu af þessum sýnum, og inniheldur það um 0,1 ppm af gulli (samsvarar einum tíunda úr grammi af gulli í miljón grömmum af grjóti - eða einu tonni af grjóti). Bestu gullnámur í heimi skila allt að 8 til 10 g af gulli í tonni af grjóti. Margar námur eru reknar sem skila aðeins 1 gr á tonnið. Með aðeins um 0,1 g á tonnið er Drápuhliðarfjall greinilega ekki rétti staðurinn til að hefja gullnám, enda fjallið friðað og allt of fagurt til að fara að grafa það í sundur. En hvað þá með athugun Jakob Líndals? Var þetta bara sjálfsblekking og óskhyggja? Það minnir mig á viðkvæði eins vinar míns, sem er þekktur jarðfræðingur: “I would never have seen it if I had not believed it!” Sem sagt, ef þú trúir á eitthvað er öruggt að þú sérð það -- eða heldur að þú sjáir það. Eins og Jakob benti á, þá er mikið af glópagulli í fjallinu. Glópagull er járnkís, FeS2 sem er einnig kallað pýrít eða brennisteinskís. Það myndast við mikinn jarðhita, eins og hefur leikið um rætur Drápuhlíðarfjalls áður fyrr.

Eru leyndardómar Snæfellsjökuls að skýrast?

Snæfellsjökull eftir LarsenHér fylgir mynd af Snæfellsjökli, gerð af danska listamanninum Carl Emanuel Larsen árið 1845. Hana má sjá í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Þetta er koparstunga en sama myndform er til sem olíumálverk af Snæfellsjökli eftir Larsen og hangir það uppi í öndvegi á Bessastöðum. Larsen (1823-1859) sigldi til Íslands árið 1845 og málaði hér víða, einnig málaði hann Heklugosið 1845. Snæfellsjökull er nær einstakt meðal íslenskra eldfjalla að vera í laginu eins og hrein keila, úr hvaða átt sem litið er til fjallsins. Því svipar á þann hátt til Fuji eldfjalls í Japan. Ástæðan fyrir hinu fagra formi er sú, að eldfjallið situr ekki á eiginlegu sprungusvæði, eins og flest eldfjöll hérlendis, heldur hleðst það upp í kringum staðbundna kvikurás í miðri eldstöðinni. Hið fagra form Snæfellsjökuls virðist hafa einskonar aðdráttarafl og dulbúna töfra fyrir marga sem koma þar nærri. Fjallið hlaut heimsfrægð sem gáttin á leið til miðju Jarðarinnar í skáldsögu Jules Verne. Snæfellsjökull er merkilegt fjall á margan hátt. Jökulsins er getið strax við landnám, þegar Bárður Dumbsson nemur hér land. Kokfelt sniðÁ efri árum gekk Bárður í jökulinn en var mönnum minnistæður og varð eini heitguð íslendinga. “Var hann tröllum og líkari að afli og vexti en mennskum mönnum og var því lengt nafn hans og kallaður Bárður Snjófellsás því að þeir trúðu á hann nálega þar um nesið og höfðu hann fyrir heitguð sinn. Varð hann og mörgum hin mesta bjargvættur.” Síðan hefur haldist sú trú meðal almennings að sérstakur kraftur búi í Snæfellsjökli, jafnvel himneskur. Eitt er víst, að mikill jarðneskur kraftur býr í jöklinum, enda er hann virkt eldfjall. Síðustu gos hér urðu fyrir um 1750 árum, og ef til vill eru nokkur hraun eins og Væjuhraun jafnvel yngri. Þrátt fyrir heimsfræð sína, þá hefur eldfjallið Snæfellsjökull ekki enn verið rannsakað sem skyldi. Nú hefur verið bætt úr því að hluta til, með merkri grein eftir þýska og bandaríska jarðfræðinga, þar sem þeir fjalla um jarðefnafræði hrauna sem runnið hafa frá Snæfellsjökli. Greinin birtist í Geochimica et Cosmochimica Acta (73, 2009, 1120–1144). Það er ein eða fleiri kvikuþró undir eldfjallinu. Kvika eða glóðheitt bráðið berg streymir upp úr möttli jarðarinnar og safnast fyrir í þrónni, en sú kvika myndar bergtegundina ólivín basalt þegar hún storknar. Með tímanum breytist efnasamsetning heitu kvikunnar í þrónni. Við skulum kalla kvikuna sem kemur beint úr möttlinum frumkviku, en eftir langan tíma (sennilega um 66 þúsund ár) breytist hún í kviku sem er ríkari af kísil og við köllum þróaða kviku, en undir Snæfellsjökli myndar hún bergtegund sem er nefnd trakít. Þeir félagar mældu fimmtíu frumefni í yfir tuttugu hraunum og öðrum gosefnum frá Snæfellsjökli. Snaefellsjokull póstkortEitt merkilegt atriði sem kemur fram við þessar rannsóknir er, að þróaða kvikan gýs oftast úr toppgíg, en frumkvikan gýs fjær fjallinu. Myndin til vinstri sýnir tvö hugsanleg líkön af kvikuþrónni eða kvikuþróm Snæfellsjökuls, sem eru byggð á þessum niðurstöðum úr jarðefnafræðinni. Annars vegar er líkan af stórri kvikuþró, sem er lagskift. Hins vegar er likan af nokkrum smáum kvikuþróm, sem hafa mismunandi efnasamsetningu. Jarðefnafræðin hefur því fært okkur anzi langt í ráðgátunni með innri gerð Snæfellsjökuls, en næsta stig er auðvitað að beita jarðeðlisfræðilegum aðferðum til að leysa leyndardóma Snæfellsjökuls. Á því sviði hefur nær ekkert berið gert, og má til dæmis benda á að enginn jarðskjálftamælir er staðsettur í grennd við jökulinn og reyndar enginn á öllu Snæfellsnesi! Það er mikil nauðsyn að bæta úr því nú, þegar spurninga vakna um hvort ein eða fleiri kvikuþrær séu undir fjallinu og hvort kvikuþróin sé nú storknuð.

Liang Bua og Hobbitarnir á Flores

HomosÉg var ákveðinn í því að komast alla leið austur til eyjarinnar Flores á ferð minni um Indónesíu í nóvember 2009. Hvað er svona spennandi við Flores? Eyjan er um 375 km á lengd, hálend, og full af eldfjöllum. Eini vegurinn sem nær eftir eynni endilangri er ótrúlega krókóttur, holóttur og seinfarinn, en samt þurfti ég að fara austur til Flores. Jú, þar bjuggu hobbitarnir áður fyrr. Ég skal skýra þetta frekar. Þangað til í september árið 2003 var það álit vísindamanna að mannkynið, þ.e. fólk eins og við, Homo sapiens, hefðum verið ein í heiminum síðan Neanderthal maðurinn (Homo neanderthalensis) varð útdauður fyrir um 30 þúsund árum.Hellir Í september 2003 breyttist allt þetta, þegar leifar af áður óþekktum mannverum fundust í hellinum Liang Bua á Flores. Hellirinn var fyrst rannsakaður í kringum 1955 af hollenskum kaþólskum presti sem bjó lengi á Flores, Theodor Verhoeven að nafni. Hellirinn er í kalksteini frá Tertíera tímanum, en hann er um 14 km fyrir norðan bæinn Ruteng, þar sem ég fékk ágæta næturgistingu hjá nunnum í kaþólska klaustrinu. Það eru um 25 km frá hellinum og til strandar fyrir norðan Flores. Frá hellisopinu er litið yfir fagran dal, sem er þakinn hrísökrum, og yfir Wae Racang ána, í um 500 metra hæð yfir sjó. Hlið við hliðHellirinn er um 30 m á breidd, 25 m á hæð og 40 m langur. Það er um 12 metra þykkt lag af sandi, leir og mannvistarleifum í hellisgólfinu í Liang Bua og enn er aðeins lítill hluti þess kannaður. Beinagrindin sem fannst árið 2003 er af konu, sem var rétt um einn meter á hæð, en síðan hafa fundist leifar af alls 14 einstaklingum í hellisgólfinu. Yngstu beinin eru um 17 þúsund ára gömul, og ofan á þeim hvílir ljóst lag af eldfjallsösku. Fornleifafræðingarnir hafa gizkað á, að útdauði hobbitanna hafi ef til vill orsakast af áhrifum frá þessu eldgosi. Einnig fundust steinaldar tól af ýmsu tagi við uppgröftinn, sem flest voru unnin úr tinnu eða hraunsteini. Það er ljóst að hobbitarnir voru gáfaðir og hagir og bjuggu til og notuðu verkfæri, og nýttu sér einnig eldinn til matreiðslu. Þeir voru því greinilega þróaður kynþáttur. KortSamt var heilabú þeirra mjög smátt, eða aðeins um 400 rúmsentimetrar. Til samanburðar er heilinn hjá okkur Homo sapiens í kringum 1100 rúmsentimetrar. Ferðalagið var strembið. Fyrst tók það okkur tvo daga að komast til bæjarins Ruteng, eftir krókóttum vegum. Síðan var ekið norður um hálendi, og þá niður í fagran dal þar sem hellirinn er. Það er áhrifarík stund þegar maður kemur inn í Liang Bua hellinn. Hvelfingin yfir höði manns virðist risastór, en niður úr henni hanga hundruðir af leirsteinskertum, sem gefa hellinum skrautlegt útlit. Gólfið er nokkuð slétt, en góð birta fellur inn í hellinn innum stóra opið. Afmarkaðir reitir á gólfinu sýna hvar fornleifafræðingar hafa grafið, og svæðin eru ferhyrnd, um 2 til 4 metrar á kannt. Að loknum uppgreftri er mokað ofaní aftur. Það er ljóst að mikið svæði er enn ókannað, og er spennandi að bíða frekari uppgötvana hér. Aðgangur var greiður, og ekkert eftirlit var haft með því hvort við værum að grúska, grafa eða bara taka myndir. En samt er byrjað að undirbúa Liang Bua sem ferðamannasvæði og er líklegt að fjöldi fólks leggi leið sína hingað í framtíðinni. Ferðin er vel þess virði, ekki bara fyrir landslagið og dalinn fagra. TólÍbúar Flores eyjar hafa þjóðsögur og sögusagnir um lítið fólk sem býr í frumskógum eyjarinnar. Umsjónarmaður Liang Bua sagði mér að hann gæti farið með mig heim til lifandi fólks í þorpinu sem væri alveg eins og hobbitarnir, og aðeins rúmlega meter á hæð. Þegar ég sýndi málinu áhuga, þá tjáði hann mér að það myndi kosta mig $20 að sjá konuna og $30 manninn. Ég áttaði mið þá á að ferðaiðnaðurinn er kominn vel af stað í Liang Bua, og hætt við að hér verði kominn sirkus eftir nokkur ár. Ég afþakkaði boðið.Í fyrstu var deilt mikið um eðli og uppruna hobbitanna meðal mannfræðinga og fornleifafræðinga. Sumir héldu því fram að þeir væru bara dvergvaxnir menn, Homo sapiens, og ekki ný tegund. Þeir sem voru á þessari skoðun bentu á að dvergvaxið fólk og dýr kunna að þróast á eyjum þar sem framboð fæðu er takmarkað og þar sem litlir einstaklingar komast betur af en stórt fólk - þeir þurfa minna í matinn. Nú virðast langflestir vera hins vegar á þeirri skoðun að hobbitarnir séu ný og óþekkt tegund, Homo floresiensis, sem á engan sinn líka. Það er því fróðlegt að skoða hobbitana í samhengi við Homo sapiens og aðra fjarskylda ættingja okkar manna, eins og myndin fyrir neðan sýnir:Ættingjarnir 1: Homo habilis (verkamaðurinn), var uppi fyrir 1.6 til 2.4 miljón árum.2: Homo sapiens (nútímamaðurinn), hefur ríkt á jörðu sl. 200 þúsund ár.3: Homo floresiensis (hobbitinn), var uppi frða um 95 þúsund til 13 þúsund árum.4: Homo erectus (uppréttur maður), var uppi fyrir 1.8 miljón til 100 þúsund árum.5: Paranthopus boisei (hnetubrjóturinn), var uppi fyrir 2.3 til 1.4 miljón árum.6: Homo heidelbergensis (Golíat), var uppi fyrir 700 til 300 þúsund árum.7: Homo neanderthalensis (Neanderthal), var uppi frá um 250 þúsund til 30 þúsund árum.


Bromo - Eldfjall Guðanna

BromoÉg kleif Bromo eldfjall nýlega, en til að kunna að meta mikilvægi þess fjalls, þarf að hafa stuttan formála varðandi mannkynssöguna. Á miðöldum var mikið ríki á eynni Jövu í Indónensíu sem kallað var Majapait keisaraveldið. Áhrifa þess gætti um allar eyjarnar, en hornsteinn Majapait voru hindú trúarbrögðin. Senilega hefur Majapait ríkið átt uppruna sinn að rekja til Indlands, en trúin, siðir og hættir voru allir á indverska vísu. Hápúnktur Majapai veldisins var undir stjórn Hayam Wuruk, frá 1350 til 1389, en þá náði veldið yfir alla Indónesíu, Filipseyjar, Malaísíu, Singapore, og víðar. Á elleftu öld fóru kaupmenn frá Arabíu fyrst að verzla í Indónesíu og byrjuðu að setjast að í helstu hafnarborgum eyjanna. Með þeim barst múslimatrúin og breiddist ótrúlega hratt út.  Caldera 2Á sextándu öld voru áhrif múslima orðin svo mikil, að Majapait veldið hrundi. Aðallinn flúði til eyjarinnar Bali, en þar er hindú trúin og menning Majapait veldisins enn varðveitt meðal 95% eyjarskeggja. Á Jövu tóku múslimar öll völd, en lítill hópur frá gamla Majapait og hindú trúandi manna flúði til fjalla og setist að í grennd við eldfjallið Bromo og þar eru þeir enn. Þjóðsagan segir, að Majapait prinsessan Roro Anteng og maður hennar Joko Seger hafi stofnað þar lítið ríki undir nafninu Tengger, sem er samansett úr nöfnum þeirra hjóna, en hálenda svæðið Tengger er eitt stærsta eldfjall í Indónesíu. Veldi þeirra hjóna í Tengger var í miklum blóma en í fyrstu var þeim ekki barna auðið. Þau klifu þá eldfjallið Bromo og báðu guðina að veita þeim frjósemi. Guðirnir urðu við bæninni, en með því skilyrði að þau fórnuðu síðasta barninu í gíginn. Þau eignuðust 25 börn, og þegar hið síðasta fæddist, þá varð prinsessan ekki við skipan guðanna. Guðirnir hefndu sín með miklu eldgosi, sem varði þar til hún fórnaði barninu. SemeruSíðan færa Tengger búar árlega fórnir á barmi Brómo gígsins enn í dag, þar sem þeir varpa nautum, geitum og öðru góðgæti niður í hyldýpið. Enn búa afkomendur Tengger fólksins umhverfis Bromo og stunda aðallega akuryrkju og reka ferðaiðnað. Þeir leigja út hesta fyrir reiðtúra um öskjuna, og veita leiðsögn um fjöllin. Tengger askjan er 16 km í þvermál, en hún er óvenjuleg, þar sem hún er ekki hringlaga, eins og flestar öskjur, heldur eins og tígull í laginu. Sjá loftmynd og gervitunglsmynd sem hér fylgir. Askjan hefur myndast í kjölfar á miklu sprengigosi, og er talið að það hafi orðið fyrir um 2000 árum. Myndin til hliðar sýnir jarðlag á öskjubrúninni, sem er aska og vikur frá sprengingunni. Bromo er virkt eldfjall, og er stöðugt strókur af gufu og brennisteinsgasi uppúr gígnum. Bromo gýs með fárra ára millibili. Öðru hvoru verða stærri sprengingar, en sú síðasta varð í júní 2004. Þá fórust tveir sem voru á gígbrúninni og sjö aðrir særðust illa. Skammt fyrir sunnarn Tengger öskjuna er eldfjallið Semeru sem er hæsta fjall á Jövu, eða 3676 metrar.  BatokSemeru er einnig virkasta eldfjall Indónesíu og gýs með um 20 mínútna fresti. Semeru er mikilvægasta fjall í Indónesíu að áliti hindú trúarmanna. Hér er mynd sem sýnir hindú dýrkun í hlíðum Semeru, á meðan á gosi stendur. Oft farast prestarnir við þesskonar athöfn. Eldfjallið Agung á Bali er mikið dýrkað, en Smeru er talið vera faðir Agung, og því lang merkast. Það er ógleymanleg sjón að sjá sólina koma upp yfir Tengger öskjunni, en þa gerist um kl. 5 að morgni. Smátt og smátt breiðist birtan yfir gígana, hvern á eftir öðrum, fyrst Semeru, þá Batok, og síðan Bromo. Við hliðina á Bromo er útkulnað eldfjall sem nefnist Batok. Eins og sjá má á myndinni til hliðar er Batok óvenjulegt fjall, vegna rofs og veðrunar sem hefur myndað djúpar rákir og rennur í hlíðar fjallsins. Það stafar af því að Batok er myndað af eldfjallsösku, sem regn og vindar veðra og rífa niður á skipulegan hátt. Hér fyrir neðan er mynd af Bromo og Tengger öskjunni sem ég tók í nóvember, 2009. Það var ógleymanleg sjón að sjá sólaruppkomu yfir eldfjöllunum. Besta mynd sem ég hef séð af öskjunni var reyndar tekin af John Stanmeyer 2007, og má finna hana hér:http://ngm.typepad.com/our_shot/november-30-2007.html

Leirgos á Jövu

Sidoarjo Mud FlowÍ lok nóvember 2009 átti ég leið um eyna Jövu í Indónesíu, en hún er töluvert stærri en Ísland (um 133 þúsund ferkílómetrar) og hér búa að minnsta kosti 150 miljón manns. Eitt af mörgum furðuverkum á Jövu er leirgosið sem hefur kaffært bæinn Sidoarjo síðan 2006 og heldur stöðugt áfram að ausa út heitum leir. Myndin til vinstri er tekin úr geimfari.  Leirgosið í Sidoarjo er klassískt dæmi um hamfarir af manna völdum, orsakaðar af algjörum klaufaskap, en djúptæk spilling meðal yfirvalda Indónesíu hefur leyft sökudólgunum að sleppa til þessa. Forsagan er sú, að olíufyrirtækið og gasrisinn Lapindo Brantas boraði holu eftir jarðgasi í maí 2006 nálagt bænum Sidoarjo á austur hluta Jövu. Þegar holan var orðin rúmlega einn km á dýpt, þá fóðruðu þeir holuna með stálpípum. Borun hélt áfram og enn dýpra, en án fóðrunar á neðri hluta holunnar. Þá streymdi heitt vatn, leðja og gas upp holuna, bæði innan stálrörsins og utan þess og þeir misstu alveg stjórn á holunni.  Gos 3Auk þess byrjaði að gjósa leir og gasi 200 m frá holunni og siðar einnig í um 800 metra fjarlægð.Holan víkkaði mikið og er nú orðin stór gígur, þar sem gýs stöðugt upp heitt vatn og gufa, leðja, gas og olía. Gufustrókarnir ná nokkur hundruð metra hæð, og svartar leðjuslettur kastast tugi metra í loft upp. Talið er að um ein miljón rúmmetrar af leðju komi upp úr gígnum á degi hverjum. Allt umhverfið er þakið leðju, sem hefur myndað leirlag sem er meir en tuttugu metrar á þykkt. Leðjan hefur umlukið íbúðarhús í bænum og fært mörg þeirra í kaf. Ennig eru margar verksmiðjur farnar undir leirinn. Meir en fimmtíu þúsund manns hafa orðið að yfirgefa heimili sín og leirfjallið er nú orðið meir en tuttugu metrar á hæð, og þekur svæði sem er meir en 24 ferkílómetrar. Yfir áttatíu þúsund manns búa rétt utan við varnargarðana og eru í stöðugri hættu ef þeir bresta. Tjón og kostnaður við aðgerðir er nú metið á um $4 milljarða.Garður  Allt hefur veri reynt til að stöðva leirgosið og sumt örvæntingarfullt. Ein tilraunin var að láta þúsundir af meter-stórum steinsteyptum kúlum síga niður í gíginn, í von um að það kynni að reka tappann í gosið, en ekkert breyttist við það. Flóðgarðar hafa verið reistir allt í kringum svæðið, og eru þeir tíu til tuttugu metrar á hæð. Það er furðuleg sjón að líta á risastóra leirtjörnina liggja fast að brúnum garðanna, en íbúðarhús í næstu þorpum eru rétt við vegginn, og eru miklu lægri en varnargarðarnir.Framkoma stjórnvalda í þessu máli hefur verið mjög umdeild í Indónesíu og er gott dæmi um spillingu hér í landi. Aðal eigandi olíu og gas félagsisns Lapindo Brantas er Aburizal Bakrie, en hann er einn af fremstu ráðherrum í stjórn Indónesíu. Forseti landsins vill að Lapindo greiði allan kostnað sem hefur orðið af leirgosinu, varðandi byggingu varnargarða, aðstoð við flóttafólk og fleira.EJ20090930 overview p40  En Lapindo harðneitar og segir að hér sé um náttúruhamfarir að ræða, og að gosið hafi orsakast af jarðskjálfta sem var í meir en 300 km fjarlægð. Jarðfræðingar telja það fráleitt og hafa sýnt framá að leirgosið orsakaðist af lélegum aðferðum við borun, en yfirvöldin hafa ekki enn gengið hart á eftir Lapindo með greiðslu. Aðgangur að svæðinu er mjög takmarkaður, en flóttafólk úr þorpunum sem eru farin í kaf hafa reist búðir við þjóðveginn. Reyndar er þjóðvegurinn lokaður, þar sem um 10 km kafli er kominn undir leir. Þegar við nálguðumst svæðið, þá vorum við strax umkringdir af flóttamönnum, sem voru reiðir, illir viðureignar og heimtuðu greiðslu fyrir að hleypa okkur inn á svæðið. Þegar við nálguðumst flóðgarðinn þá tók á móti okkur öryggisverðir Lapindo Brantas félagsins og neituðu okkur um frekari inngang. Yfirmaður öryggisvarðanna var þó viljugur að fara með mig einan á mótorhjóli inná svæðið til að taka myndir, þegar hann frétti að ég væri jarðfræðingur. Við ókum eftir slóða í sleipum leirnum efst á varnargarðinum og inn á þann hluta svæðisins þar sem leirinn hefur þornað og harðnað eins og steinsteypa. Þegar nær kom gígnum þá var leirdrullan rennandi blaut, og streymdi fram 60oC heit blanda af vatni, olíu og leir. LoftmyndUSGSÞað var strek lykt af brennisteinsgasinu H2S. Mér skildist að hver fjölskylda flóttamanna af svæðinu hafi fengið um $200 í bætur, sem er skammarlega lítið. Nú hafa fjögur þorp farið undir leirinn, og fjórtán manns hafa farist. Mér var sagt að 25 verksmiðjur hefðu farið í kaf, og atvinnuleysi er mjög mikið. Ekkert lát virðist enn vera á leirgosinu og jarðfræðingar spá að það muni vara í um 30 ár. Nú er miðjan á leirfjallinu byrjuð að síga niður, vegna þess að svo mikið magn af jarðefnum hefur komið upp á yfirborðið.

Drekarnir á Komodo

Það Komodo 1mennt álitið, að risaeðlurnar hafi orðið útdauðar fyrir 65 miljón árum síðan, þegar loftsteinn ekki minni en 10 km í þvermál skall á jörðina. Ef dæma skal út frá því sem ég sá á eyjunum Rinca og Komodo í Indónesíu nú í vikunni þá mætti halda að ekki séu þær nú allar horfnar. Komodo eyjaklasinn er einn þekktasti þjóðgarður Indónesíu og ég ferðaðist milli eyjanna á bátnum Binteng Laut í för með Lukman Hidayat, forstöðumanni þjóðgarðsins. Við lögðum upp í ferðina frá bænum Labuhan Bajo ("Krókódílahöfn”) vestast á eynni Flores í Indónesíu, og héldum til eyjarinnar Rinca, sem er gamalt eldfjall eins og reyndar allar eyjar hér um slóðir. Hér var mér afhentur 3 metra langur stafur, sem er klofinn eins og forkur í annan endann, og síðar kom í ljós að þetta er er nauðsynlegt vopn í návígi við Komodo drekana. Mér fannst þetta vera óþarfi, en Lukman fullyrti að drekarnir væru stórhættulegir og miklu verri en krókódílar í viðureign. “Notaðu stafinn til að halda þeim frá þér, og ef þeir ráðast á þig, þá er best að reka forkinn í augun” sagði Lukman. Lukman sagðist aðeins einu sinni hafa komist í hættu og orðið alvarlega hræddur á eyjunum. Hann var einn á ferð í skóginum og tók ekki eftir dreka sem leyndist á bak við tré. Drekinn hljóp á hann og Lukman hafði ekki tíma til að bregða stafnum góða fyrir sig, en tók til fótanna í staðinn, klifraði upp í tré og slapp. Lukman  Hann fullyrðir að drekarnir geti hlaupið á 14 km hraða á klst. Þá hætta þeir að skríða og lyftast frá jörðu og skeiða yfir völlinn eftir bráð sinni.Það eru mörg dæmi þess að drekar hafi drepið menn. Einkum eru það börnin í þorpunum tveimur á Rinca og Komodo sem hafa orðið þeim að bráð. Síðast var það 9 ára strákur á Komodo hinn 4. júní árið 2007. Honum blæddi einfaldlega út eftir árás drekans. Hinn 24. mars 2009 réðust tveir drekar á sjómann, Muhamad Anwar, á Komodo. Hann var að ná sér í ávexti úti í skógi þegar hann varð fyrir árás. Hann var látinn þegar hann barst loks á sjúkrahús á eynni Flores. Eitt þekktasta tilfellið varð árið 1974, en þá var svissneskur barón og náttúruunnandi, Rudolf Biberegg, étinn af drekum. Á fjallsbrún á eynni Komodo stendur hvítur kross, og á honum er eftirfandi áletrun: Til minningar um Baron Rudolf Von Reding Biberegg, fæddur í Svisslandi 8. ágúst 1895 og hvarf hér á eynni hinn 18. júlí 1974. “Hann unni nátúrunni allt sitt líf.”Baróninn var í drekaskoðun með félögum sínum en dróst aftur úr hópnum, og varð viðskila. Eftir mikla leit fannst hatturinn hans, myndavélin og einn blóðugur skór þar sem krossinn stendur. Drekinn hafði étið allt hitt. Einnig hefur drekinn þann leiða sið að grafa upp lík í grafreitum hinna innfæddu í eina þorpinu á Komodo, þar sem um 500 manns búa. Buffalo 2   Af þeim sökum hafa íbúarnir hlaðið stórum hnullungum af kóral og öðru grjóti ofan á grafirnar til að vernda leifar liðinna ættingja. Þegar ég kom í land á Rinca fór Lukman með mig beint til miðstöðvar þjóðgarðsins í Loh Buaya. Við komum fyrst að litlu húsi og Lukman segir: “Hér inni á skrifstofunni varð einn af starfsmönnum mínum fyrir árás nýlega. Hann sat við störf við skrifborðið þegar drekinn greip utan um báða fæturna og særði hann illa, og klippti í sundur slagæðar á báðum fótum. Næst beit drekinn hann á handlegg. Hjálp barst að og maðurinn lifði þetta af, en þetta var bara ungur dreki, innan við tíu ára.” Við fórum inn í skrifstofuna og þar tók á móti okkur ung og falleg kona sem hefur nýlega hafið störf. Ég spurði hana hvort hún kíkti ekki alltaf undir skrifborðið þegar hún kæmi í vinnuna. Hún sagðist alltaf loka útidyrunum. Reyndar voru þær opnar þegar okkur Lukman bar að garði. Þjóðgarðsstöðin í Loh Buaya eru nokkur timburhús í þyrpingu, og eitt þeirra er eldhúsið sem stendur á meir en eins meters háum stultum eða staurum. Þar í skuganum, undir húsinu lágu nokkrir stórir drekar, sumir meir en tveir metrar á lengd. Sumir voru steinsofandi en hinir lágu rólegir og fylgdust með okkur. Lukman var búinn að úthluta mér löngum staf með klofnum enda, og ég var við öllu búinn. “Það er allt í lagi, þeir eru alltaf hérna út af matarlyktinni frá eldhúsinu” sagði Lukman. Ég fór nú að taka Lukman alvarlega og gætti þess að fylgja honum fast á eftir. Mér til léttis, þá rak einn aðstoðarmaður hans lestina á ferð okkar um frumskóginn, svo ég þurfti ekki að líta alltaf um öxl. Við gengum upp gilskorning á Rinca, í áttina að vatnsbóli. Hér rennur stórfljót um regntímann, en nú í lok þurrkatímans í nóvember og desember var árfarvegurinn alveg þurr. Lukman fór varlega og steig mjúkt til jarðar og við forðuðumst að gera hávaða eða tala saman. Eftir háltíma göngu vorum við komnir í grennd við vatnsbólið og strax mátti sjá vitnisburð um verknað drekanna: hauskúpur af öpum, dádýrahorn, og stór hauskúpa af buffaló, prýdd svörtum hornum, lá í árfarveginum. “Þetta er það eina sem þeir skilja eftir, en þeir éta allt hitt” sagði Lukman. “Stundum finnum við dauðann dreka, með dádýrshorn sem stendur út úr maganum. Hann hefur þá gleypt hausinn með hornum og öllu, og beittur broddurinn á horninu gert gat á magann.”Allt í einu stöðvast Lukman og bendir mér á dreka sem liggur flatur í mölinni. Hann er ekki undir 3 metrar á lengd, steinsofandi, og belgurinn úttroðinn af mat. Hér rétt hjá er stór pollur í árfarveginum, og í honum tveir risastórir og kolsvartir buffalóar, á stærð við stærstu naut. Annar var að drekka í rólegheitum, og lagðist í drullupollinn öðru hvoru til að kæla sig. Hinn lá alveg kyrr í pollinum. “Hann er særður af drekabiti, og vill ekki standa upp” sagði Lukman. “Ef hann stendur upp úr vatninu þá finna drekarnir lyktina af rotnandi holdi og koma strax og klára hann.” Rannsóknir sýna að drekinn getur þefað upp bráð sína í meir en 10 kílómetra fjarlægð, en það er ekki bara nefið, heldur einnig langa og klofna tungan sem er þeffærið. Við héldum áfram upp farveginn, og komum að öðrum stórum polli þar sem mikill fjöldi af drekum var saman kominn til að rífa í sig dauðan buffaló. Ég taldi hér sextán dreka, af ýmsum stærðum. Litlu drekarnir voru að rífa út augun úr hausnum, en þeir stóru voru komnir á kaf í kviðholið. Fullsaddir drekar lágu á jörðinni allt í kringum okkur, en Lukman gætti þess að hafa alltaf klofna stafinn tilbúinn á meðan ég var að taka myndir, ef þeir gerðu sig líklega til að ráðast á okkur. Eitt af höfuð einkennum í byggingarstíl húsa í austur hluta Indónesíu er, að þau eru alltaf byggð á stultum eða stólpum, og er gólfið þá um 1.5 metra fyrir ofan jörðu. Er þessi gamli siður í húsagerð ef til vill til þess að vera óhultur frá drekanum í rúminu á nóttinni? Áður fyrr var Komodo drekinn á öllum eyjum í austur hluta Indónesíu, og þar er einmitt þessi húsagerð ríkjandi. Lukman var mjög hrifinn að þessari nýju kenningu minni varðandi hugsanleg áhrif drekans á arkitektúr. Ég benti honum á að skrifstofan á þjóðgarðsstöðinni, þar sem einn starfsmaður Lukmans varð nýlega fyrir árás, er eina húsið í stöðinni sem er ekki á staurum.Komodo drekinn er algjör kjötæta og étur annað hvort hræ, eða veiðir sér í matinn, sem er algengara. Aðal fæðan eru dádýr, sem eru mjög algeng á Komodo, viltur buffalo, villisvín, villtir hestar, fuglar, apar (einig mjög algengir hér), og reyndar allt sem hreyfist. Hann er svo gráðugur að hann étur einnig afkvæmi sín. Af þeim sökum forða ungu drekarnir sér strax upp í tré, um leið og þeir skríða úr egginu. Þeir eru óhultir í trjánum, og lifa fyrstu árin á skordýrum og öðrum smádýrum sem þeir finna í trjánum. Eftir tvö til þrjú ár dirfast þeir að stíga niður til jarðar en eru varir um sig fyrst í stað gagnvart fullorðnum drekum. Lukman sagði mér að drekinn sé alveg stórkostlegur veiðimaður. Hann er mjög vel falinn, þolinmóður að bíða við vatnsbólið og ótrúlega snöggur í hreyfingum þegar bráðin er komin í færi. “Hann er miklu hættulegri en krókódílarnir” fullyrti Lukman, og hann ætti að vita það, eftir margra ára dvöl á eynni Borneó. Komodo drekinn er tegundin Varanus komodoensis og er kallaður ora á máli hinna innfæddu. Hann getur verið allt að 170 kg. Þessi eðlutegund er reyndar fjarskyld risaeðlunum, en tilheyrir monitor eðlutegundinni. Drekarnir drepa bráð sína á tvennan hátt. Ef þeir komast í nágvígi þá geta þeir klippt af útlimi með einu biti, eða rifið dýrið á hold. Hin aðferðin sem þeir nota er að sýkja bráðina með blóðeitrun og éta hana síðar þegar bráðin drepst af sýkingunni eftir um það bil eina viku. Komodo 3Munnvatnið er eitt aðal vopn drekans. Það er oftast blóðlitur á slefanum eða munnvatninu, vegna þess að mikil sár myndast í kjaftinum af brotnum beinum á meðan á matarhöldum stendur. Þetta myndar frábærar aðstæður fyrir bakteríugróður í kjaftinum og er þar að finna að minnsta kosti 57 tegundir. Þar eru til dæmis bakteríurnar Escherichia coli, Staphylococcus, Providencia, Proteus morgani, Pasteurella multocida og P. mirabilis. Bakteríurnar eru svo skæðar að það tekur ekki nema átta tíma að valda blóðeitrun í líkamanum eftir bit. En það er ekki nóg með það. Nýjustu rannsóknir sýna að munnvatnið inniheldur einnig eiturefni sem geta leitt til dauða. Tennurnar er margar og flugbeittar eins og rakvélablöð og einnig eru klærnar langar og hættulegar.Drekarnir eru vel syndir og hafa sést á sundi allt að 1 kílómeter frá landi, og geta kafað niður á amk. 2 m dýpi, þar sem þeir ná sér í fisk í matinn. Sporðurinn er mjög kraftmikill til sunds, og einnig sem vopn á landi. Þeir verpa oftast í september, og eru hreiðrin miklar holur sem þeir grafa í jarðveginn. Þeir verpa um tuttugu til þrjátíu eggjum, sem ungast út eftir um 7 til 8 mánuði, oftast í apríl, þegar einmitt er mest af skordýrum, en ungviðið lifir í fyrstu aðallega á skordýrum. Mikill hluti af eggjunum er étinn af villisvínum og viltum hundum og jafnvel móðurinni sjálfri. Drekarnir lifa í meir en 50 ár, og er talið að aðeins um 3000 drekar séu nú á lífi á Komodo eyjum. Stofninn er því lítill og í mikilli hættu.Það er furðulegt að Komodo drekinn var ekki uppgötvaður af vísindamönnum fyrr en 1910, en það sýnir hversu afskekktar Komodo eyjar eru. Auðvitað hafa innfæddir þekkt ora í margar aldir, en byggð hefur aldrei verið fjölmenn á eyjunum, vegna vatnsskorts. Þorpið á Komodo var stofnað fyrir um þrjú hundruð árum sem fanganýlenda, og voru afbrotamenn frá Sumbawa og Flores sendir þangað til refsingar. Vafalaust hefur mannkynið komist í tæri við Komodo drekann í mörg þúsund ár, þegar hann var miklu útbreiddari í Austur Indíum. Í kínverskri menningu er til dæmis drekinn mjög mikilvægt fyrirbæri, bæði í myndlist og sögnum, og hafa menn velt því fyrir sér að Komodo drekinn sé fyrirmynd kínverska drekans.Mér létti þegar Lukman stakk uppá því fyrsta kvöldið að við svæfum á þilfari bátsins, frekar en að tjalda í landi. Næsta dag könnuðum við eyna Komodo, sem er töluvert stærri og hálend. Íbúar þorpsins lifa nær eingöngu á fiskveiðum og þurrka aflann í sólinni. Þefurinn var ótrúlegur og er spursmál hvort fiskurinn rotni ekki áður en hann þornar. Hér rákumst við á stærsta drekann, sem var einn á ferð í fjörunni. Mér fannst hann varla geta verið mikið minna en tæp 200 kg og vel yfir 3 metrar á lengd. Hann var á hraðferð og sennilega vel saddur því hann leit ekki við okkur í þetta sinn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband