Leirgos á Jövu

Sidoarjo Mud FlowÍ lok nóvember 2009 átti ég leið um eyna Jövu í Indónesíu, en hún er töluvert stærri en Ísland (um 133 þúsund ferkílómetrar) og hér búa að minnsta kosti 150 miljón manns. Eitt af mörgum furðuverkum á Jövu er leirgosið sem hefur kaffært bæinn Sidoarjo síðan 2006 og heldur stöðugt áfram að ausa út heitum leir. Myndin til vinstri er tekin úr geimfari.  Leirgosið í Sidoarjo er klassískt dæmi um hamfarir af manna völdum, orsakaðar af algjörum klaufaskap, en djúptæk spilling meðal yfirvalda Indónesíu hefur leyft sökudólgunum að sleppa til þessa. Forsagan er sú, að olíufyrirtækið og gasrisinn Lapindo Brantas boraði holu eftir jarðgasi í maí 2006 nálagt bænum Sidoarjo á austur hluta Jövu. Þegar holan var orðin rúmlega einn km á dýpt, þá fóðruðu þeir holuna með stálpípum. Borun hélt áfram og enn dýpra, en án fóðrunar á neðri hluta holunnar. Þá streymdi heitt vatn, leðja og gas upp holuna, bæði innan stálrörsins og utan þess og þeir misstu alveg stjórn á holunni.  Gos 3Auk þess byrjaði að gjósa leir og gasi 200 m frá holunni og siðar einnig í um 800 metra fjarlægð.Holan víkkaði mikið og er nú orðin stór gígur, þar sem gýs stöðugt upp heitt vatn og gufa, leðja, gas og olía. Gufustrókarnir ná nokkur hundruð metra hæð, og svartar leðjuslettur kastast tugi metra í loft upp. Talið er að um ein miljón rúmmetrar af leðju komi upp úr gígnum á degi hverjum. Allt umhverfið er þakið leðju, sem hefur myndað leirlag sem er meir en tuttugu metrar á þykkt. Leðjan hefur umlukið íbúðarhús í bænum og fært mörg þeirra í kaf. Ennig eru margar verksmiðjur farnar undir leirinn. Meir en fimmtíu þúsund manns hafa orðið að yfirgefa heimili sín og leirfjallið er nú orðið meir en tuttugu metrar á hæð, og þekur svæði sem er meir en 24 ferkílómetrar. Yfir áttatíu þúsund manns búa rétt utan við varnargarðana og eru í stöðugri hættu ef þeir bresta. Tjón og kostnaður við aðgerðir er nú metið á um $4 milljarða.Garður  Allt hefur veri reynt til að stöðva leirgosið og sumt örvæntingarfullt. Ein tilraunin var að láta þúsundir af meter-stórum steinsteyptum kúlum síga niður í gíginn, í von um að það kynni að reka tappann í gosið, en ekkert breyttist við það. Flóðgarðar hafa verið reistir allt í kringum svæðið, og eru þeir tíu til tuttugu metrar á hæð. Það er furðuleg sjón að líta á risastóra leirtjörnina liggja fast að brúnum garðanna, en íbúðarhús í næstu þorpum eru rétt við vegginn, og eru miklu lægri en varnargarðarnir.Framkoma stjórnvalda í þessu máli hefur verið mjög umdeild í Indónesíu og er gott dæmi um spillingu hér í landi. Aðal eigandi olíu og gas félagsisns Lapindo Brantas er Aburizal Bakrie, en hann er einn af fremstu ráðherrum í stjórn Indónesíu. Forseti landsins vill að Lapindo greiði allan kostnað sem hefur orðið af leirgosinu, varðandi byggingu varnargarða, aðstoð við flóttafólk og fleira.EJ20090930 overview p40  En Lapindo harðneitar og segir að hér sé um náttúruhamfarir að ræða, og að gosið hafi orsakast af jarðskjálfta sem var í meir en 300 km fjarlægð. Jarðfræðingar telja það fráleitt og hafa sýnt framá að leirgosið orsakaðist af lélegum aðferðum við borun, en yfirvöldin hafa ekki enn gengið hart á eftir Lapindo með greiðslu. Aðgangur að svæðinu er mjög takmarkaður, en flóttafólk úr þorpunum sem eru farin í kaf hafa reist búðir við þjóðveginn. Reyndar er þjóðvegurinn lokaður, þar sem um 10 km kafli er kominn undir leir. Þegar við nálguðumst svæðið, þá vorum við strax umkringdir af flóttamönnum, sem voru reiðir, illir viðureignar og heimtuðu greiðslu fyrir að hleypa okkur inn á svæðið. Þegar við nálguðumst flóðgarðinn þá tók á móti okkur öryggisverðir Lapindo Brantas félagsins og neituðu okkur um frekari inngang. Yfirmaður öryggisvarðanna var þó viljugur að fara með mig einan á mótorhjóli inná svæðið til að taka myndir, þegar hann frétti að ég væri jarðfræðingur. Við ókum eftir slóða í sleipum leirnum efst á varnargarðinum og inn á þann hluta svæðisins þar sem leirinn hefur þornað og harðnað eins og steinsteypa. Þegar nær kom gígnum þá var leirdrullan rennandi blaut, og streymdi fram 60oC heit blanda af vatni, olíu og leir. LoftmyndUSGSÞað var strek lykt af brennisteinsgasinu H2S. Mér skildist að hver fjölskylda flóttamanna af svæðinu hafi fengið um $200 í bætur, sem er skammarlega lítið. Nú hafa fjögur þorp farið undir leirinn, og fjórtán manns hafa farist. Mér var sagt að 25 verksmiðjur hefðu farið í kaf, og atvinnuleysi er mjög mikið. Ekkert lát virðist enn vera á leirgosinu og jarðfræðingar spá að það muni vara í um 30 ár. Nú er miðjan á leirfjallinu byrjuð að síga niður, vegna þess að svo mikið magn af jarðefnum hefur komið upp á yfirborðið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband