Mayon á Filipseyjum

Mayon 1915Undanfarna daga hefur Mayon eldfjall á Filipseyjum verið í fréttum. Fjallið byrjaði að gjósa 10. ágúst 2009, og virðist krafurinn fara sívaxandi. Mayon, sem er á eynni Luzon, er 2460 metrar á hæð og er sennilega formfegursta eldfjallskeila á jörðu, jafnvel reglulegri en Fuji í Japan. Sjá myndina til vinstri úr Eldfjallasafni, en hún er tekin af Mayon árið 1915. Hér hafa orðið 48 gos síðan sögur hófust (þ.e. eftir að spánverjar komu til Filipseyja). Stærsta gosið var 1814 en þá fórust 1200 manns í gjóskuflóðum. Myndin til hægri sýnir gjóskuflóð í gosinu 1984. Mayon er virkasta eldfjall Filipseyja og gaus síðast 2006. GjóskuflóðNær öll gosin hafa verið út toppgíg fjallsins, og mynda oftast hraunstrauma niður hlíðarnar, en einnig myndast hraungúll í toppgígnum. Gúllinn verður stór og hrynur úr honum mikið af glóandi heitu bergi, sem myndar mjög skaðleg gjóskuflóð niður hlíðarnar og jafnvel niður í byggð, eins og sýnt er á myndinni frá 1984. Gjóskuflóðin eru lang hættulegust, vegna þess að þau fara hratt, eru glóandi heit og ná fjær fjallinu en hraunstraumar. Auk þess verða heitir eðjustraumar eða lahar, þegar mikið rignir á fjallinu. Mayon er aðeins 16 km frá borginni Legaspi. Nú síðustu daga hafa hafist sprenginar og lítil öskugos, sem senda mökk upp í allt að 1 km hæð yfir fjallinu. Hraunstrumurinn nær nú 3 km niður hlíðarnar. Fjöldi jarðskjálfta hefur aukist í um 248 á dag, og sumir þeirra benda til að hraunkvika sé á uppleið í fjallinu. Nú dælir Mayon um 1000 tonnum af brennisteini út í andrúmsloftið á dag. Eldfjallastofnun Filipseyja, PHIVOLC, hefur lagt bann við allri umverð innan 7 km frá fjallinu og vill færa það út til 8 km. 

Filipseyjar  Alls hafa nú um 50 þúsund manns verið fluttir frá hættusvæðinu, en margir bændur hafa snúið aftur til að sinna ökrum sínum og búpeningi. Það er engin leið að spá um framvindu mála, en goskraftur getur vaxið, og stórgos kann að verða á borð við það sem skall yfir byggðina 1814. Nú er mun fleira fólk í þéttbýli sem er í hættu. Þegar Mayon byrjaði að gjósa, þá hvarf hugur minn til gamals vinar míns, Raymundo Punongbayan, sem var forstöðumaður PHIVOLC í mörg ár. Árið 2005 fórst Raymundo í þyrluslysi á einu eldfjallanna í heimalandi sínu, ásamt 4 öðrum eldfjallafræðingum. Það var mikið áfall fyrir rannsóknir á eldfjöllum í Filipseyjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Sæll Haraldur.

Það er mikill fengur af þessu pistlum þínum um eldfjöll í fjarlægum löndum. Ég tek mér það bessaleyfi að skjóta þeim inn á Fésbólkina mína.

Mbk,

Ómar Bjarki

Ómar Bjarki Smárason, 24.12.2009 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband