Færsluflokkur: Menning og listir

Magnús Blöndal og Surtseyjargosið

MagnúsÞar sem ég fjallaði nýlega um eldgosatónlist Jóns Leifs í bloggi mínu http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1142495/, þá ber mér skylda til að minnast á frábæt verk Magnúsar Blöndal Jóhannssonar í tilefni Surtseyjargossins. Þegar Osvaldur Knudsen setti saman fyrstu heimildarkvikmynd sína um Surtseyargosið (1963-1967), þá fékk hann Magnús til að semja tónlist fyrir myndverkið. Myndin nefnist Surtur fer sunnan (1965, 23 mín.), en enska útgáfan ber heitið Birth of an island.   Magnús beitti hljóðum úr gosinu sjálfu og blandaði þeim saman við raftónlist sína.  Ef til vill er þetta í fyrsta sinn þar sem hljóð úr náttúrunni eru sett inn í tónverk. Magnús Blöndal (1925-2005) er sennilega fyrsti Íslendingurinn sem samdi raftónlist og er því frumkvöður á sviði raf- og tölvutónlistar á Íslandi. Sagt hefur verið að tónverk Magnúsar hafi valdið  straumhvörfum í umfjöllun um raftónlist hér á landi.  Hann sagði þetta um verkið:  "Ég samdi tónlistina með náttúruhamfarirnar í huga og skyndilega gat fólk tengt hana við eitthvað, bæði hljóðrænt og myndrænt."  Brot úr tónverkinu og kvikmyndinni má sjá og heyra hér: http://www.youtube.com/watch?v=42H2znxGyhgOsvaldur

Mynd Osvaldar Knudsen er stórkostleg á margan hátt og merkileg heimild um mikilvægt gos.  Hér koma fram nokkrir karakterar sem voru nátengdir rannsóknum á gosinu. Sigurður Þórarinsson samdi textann og má sjá honum bregða fyrir öðru hvoru í myndinni, með sitt vörumerki á höfði: rauðu skotthúfuna.  Einnig kemur Þorleifur Einarsson fram, til dæmis að fá sér sígarettu úti á eynni, eða að borða kex um borð í varðskipinu á meðan gosið geysar í bakgrunni.  Sennilega hefur Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur verið sá sem gladdist mest yfir þessu gosi, þar sem Surtsey færði sönnun á móbergskenningu hans.  SyrtlingurÁ myndinn hér til hliðar er Ósvaldur lengst til hægri, en lengst til vinstri er Guðmundur Kjartansson og Þorleifur Einarsson í bakgrunni fyrir miðju.  Ég var erlendis við jarðfræðinám þegar gosið hófst, en komst á vígvöllinn í desember 1963 á varðskipi umhverfis Surtsey í nokkrar ógleymanlegar ferðir. Það var fyrsta eldgosið sem ég kannaði. Árið 1965 tók ég þessa mynd af gosinu í Syrtlingi, en hann var ein af  eldeyjunum sem mynduðust umhverfis Surtsey. Syrtlingur hætti að gjósa eftir nokkra mánuði og hvarf skömmu síðar fyrir áhrif hafrótsins. 


Fimm hundruð ára gömul eldgosamynd frá Mexíkó

codexMexíkó er mikið eldfjallaland og Mexíkanar hafa lengi gert frábærar myndir af eldgosum.  Árið 1519 kom spánski hershöfðinginn Hernan Cortes til austurstrandar Mexíkó með flota sinn, 11 skip, 500 hermenn, 13 hesta, og nokkrar fallbyssur.    Í ágúst sama ár skundaði hann inn í Mexókóborg, sem þá hét Tenochtitlan og var höfuðborg Aztecríkisins.  Þetta voru fyrstu alvarlegu kynni Mexíkana af Evrópubúum.  Spánverjar gjöreyddu menningu Aztecanna og aðeins brot af fornri frægð eru eftir.  Eitt af þeim er handrit, sem er í eftirriti, og ber heitið Codex Telleriano Remensis.  Í þessu handriti er merkileg mynd og texti sem varðar tímabilið frá 1507 til 1509. Myndin er hér til hliðar.  Textinn sem fylgir lýsir miklu ljósi eða birtu, sem reis upp frá jörðu og til himins.  Birtan varði í meir en fjörutíu daga og sást um allt Mexíkó.  Sennilega er þetta lýsing á eldgosi í fjallinu Popocateptl eða Orizaba.Montanus  Annað listaverk frá Mexíkó sem sýnir eldgos er frá árinu 1671, og er það í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.  Árið 1671 gaf  Arnoldus Montanus út merka bók í Amsterdam: Die nieuwe en onbekende Weereld, eða Nýji og óþekkti heimurinn.   Ameríka var þá sannarlega nýji heimurinn, enda uppgötvuð aðeins um 77 árum áður.  John Ogilby “stal” verkinu og prentaði aðra útgáfu af bókinni sama ár undir sínu nafni.   BörkurMyndin sýnir  viðbrögð hinna innfæddu Mexíkana við því þegar tvö eldfjöll gjósa í einu, en Spánverjar horfa undrandi á hátterni hinna innfæddu.  Þriðja myndin her frá Mexíkó er máluð á trébörk, og er hugmynd Mexíkanans í dag af eldgosi. Hún er einnig í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. 

 


Jón Leifs og eldgosið

blog 19 Helka elsta ljosmynd 1947Stórkostlegir náttúruviðburðir hvetja listamenn til dáða.  Það á einnig við í tónlist og hér fjalla ég um eitt slíkt dæmi:  Jón Leifs og Heklugosði árið 1947. Þetta stórkostlega gos byrjaði með mikilli sprengingu, sem sendi öskumökk í allt að 27 km hæð. Þá tók Sæmundur A. Þórðarson á Storu Vatnsleysu á norðanverðu Reykjanesi þessa mynd í marz 1947, á einfalda kassavél, þar sem sólin skín á bakvið mökkinn.  Jón Leifs (1899-1968) hreifst af gosinu og samdi tónljóð sem hann nefndi Hekla Opus 52. JonLeifs Jón, sem var tvímælalaust fyrsta stóra íslenska tónskáldið, samdi hér háværasta verk tónsögunnar. Þegar það var frumflutt í Finnlandi árið 1964, þá vakti verkið strax mikla undrun og deilur, sem voru álika og viðbrögðin við hinu fræga verki Stravinskys: Vorblóti.  Það hafði enginn nokkurn tíma heyrt annað eins og Heklu Jóns Leifs.  Hávaðinn var svo mikill, að margir í hljómsveitinni settu bómull í eyrun.  Jón  beitti nítján manns með ýmiss ásláttarhljóðfæri. Sumir lömdu steina, járnstóla, járnkeðjur, og fleira.  Með tímanum höfum við lært að meta Heklu hans Jóns Leifs að verðleikum. Hann túlkar tvímælalaust á áhrifamikinn hátt hin stórkostlegu öfl – og hávaða – sem fylgir miklu eldgosi. Hekla má vera háværasta tónverk tónlistasögunnar, en það er stórkostlegt.

u91136 Iceland SC942Gosið var svo tignarlegt að gefin var út heil syrpa af fallegum frímerkjum. Eitt þeirra, sýnt hjér sem 50 aura frímerkið, var byggt á ágætri ljósmynd sem Pálmi Hannesson tók af gosinu hinn 29. marz 1947. Þá var mökkurinn í tíu km hæð. 


Fyrirlestrar Eldfjallasafns

Nú eru haldnir fyrirlestrar vikulega í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Þeir eru á laugardögum kl. 13, og aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir.  Haraldur Sigurðsson flytur fyrirlestrana. Fyrirlestrar hafa verið þessir:

1. Sprengigos og áhrif þeirra,  29. janúar, 2011Komodo dreki

2. Þrjú gos mynda þrjú vötn: myndun Baulárvallavatns, Hraunsfjarðarvatns og Selvallavatns,  5. febrúar, 2011

3. Drekarnir á Komodo,  12. febrúar 2011

4. Leyndardómar Kerlingarfjalls, 19. febrúar 2011

 


Haraldur Heiðursdoktor

Haraldur og dæturHinn 22. janúar 2011 veitti Háskóli Íslands mér nafnbótina heiðursdoktor, sem ég tók við úr hendi Magnúsar Tuma Guðmundssonar, forseta Jarðvísindadeildar. Hér fyrir neðan er upphaf erindis þess, sem ég flutti við þessa hátíðlegu athöfn í Hátíðarsal Háskólans.  Erindi mitt fjallaði um:  Orsakir sprengigosa og gjóskuflóða.

„Kærar þakkir, Rektor Kristín Ingólfsdóttir og sviðsforseti Kristín Vala Ragnarsdóttir.  Ég vil þakka þennan mikla heiður sem mér er sýndur hér í dag.  Um leið vil ég óska Háskóla Íslands til hamingju með aldarafmælið! Áður en ég flyt erindi mitt, þá langar mig til að minnast stuttlega á þá jarðvísindamenn, sem hafa verið heiðraðir á sama hátt: Þorvaldur Thoroddsen 1921, Sigurður Þórarinsson 1961, Þorbjörn Sigurgeirsson 1986, Gunnar Böðvarsson 1988, GPL Walker 1988, Guðmundur E. Sigvaldason 2000, Kristján Sæmundsson 2006, Sigfús Johnsen 2010. Þeir hafa allir komið nærri eldfjallafræðum.  Það mun hafa verið Groucho Marx, sem sagði: Ég vill ekki vera í klúbb,  sem veitir mönnum eins og mér inngöngu.  En þetta er vissulega félagsskapur sem ég er mjög hreykinn af að taka þátt í.  Þegar ég fór í nám í jarðfræði árið 1962 varð ég að halda til útlanda, þar sem jarðfræði var ekki kennd við Haskóla Íslands, nema sem aukanám innan Verkfræðideildar. Jarðvísindin þróuðust seint, og að mestu leyti innan Verkfræðisviðs Háskólans.  Atvinnudeild Háskólans var stofnuð árið 1937  og er það fyrsta bygging á Háskólalóðinni.  Hún þróaðist síðar í Rannsóknastofnun Iðnaðarins 1965, þar sem ég starfaði á námsárum mínum.    Það tók Háskólann meir en sextíu ár að stofna deild í Jarðvísindum (1968).”  Síðan flutti ég erindi mitt um sprengigos og áhrif þeirra. Það var mikið tekið af myndum við athöfnina, en uppáhaldsmyndin mín er með dætrum mínum, Bergljótu Önnu og Áshildi.  Það kom mér skemmtilega á óvart að Áshildur  tók ríkan þátt í athöfninni með frábærum flautleik.  Sjá frekar um athöfnina á vefsíðu Háskólans hér: http://www.hi.is/verkfraedi_og_natturuvisindasvid_deildir/jardvisindadeild/jardfraedi_og_jardedlisfraedi

 

 

 


Á siglingu með heimsskipinu The World

The WorldÉg hef ekki haft mikið samband við auðmenn um ævina, en en í sumar var ég á sjó í grennd við Ísland á tveimur og mjög einstökum skipum auðmanna.  Hér áður fyrr, á mínum róttæku árum, hefði það ekki komið til mála að vera í slíkum félagsskap örgustu kapítalista, en þar er víst rétt sem sagt er, að maður mildast með árunum.  Fyrri ferðin var tólf daga sigling á glæsisnekkjunni M/Y Octopus, frá 30. júlí til 12. ágúst, en varðandi þá ferð er ég bundinn þagnarskyldu.  Síðari siglingin var á  M/V The World, og hér er stutt frásögn af þeirri sjóferð, sem var dagana 26. til 30. ágúst.    Fyrir um einu ári var mér boðið að halda fyrirlestra um Ísland og eldfjöll á The World.  Ég tók þessu fálega, af því að ég hef alltaf haft lítið álit á svokölluðum skemmtiferðaskipum, sem eru flest fljótandi spilavíti þar sem allt er á floti í áfengi um borð.  Ég afþakkaði því boðið.   Eftir stöðugar hringingar og mikinn straum af upplýsingum var ég loks sannfærður um, að hér væri ekkert venjulegt skemmtiferðaskip, já, reyndar ekki skemmtiferðaskip, heldur eiginlega fljótandi þorp eða samfélag.  The World er í eigu um eitt hundrað manna og kvenna, frá um 40 löndum.  Eigendurnir ráða rekstrinum, ferðaáætlun og öllu skipulagi. Skipið siglir um öll heimsins höf, og hefur öðru hvoru um 2 til 5 daga viðdvöl í höfnum hér og þar.  Ferðaáætlun 2010Landakortið til hliðar sýnir ferðaáætlun þeirra fyrir árið 2010.  Um borð í þessu risastóra skipi, sem er vel yfir 200 metrar á lengd, eru 165 íbúðir sem eru allar í einkaeign. Þær dýrustu og stærstu eru 300 fermetrar, og kostar ein slík íbúð um $13.5 miljónir.  Mánaðargjöld fyrir hverja íbúð eru um $20 þúsund.  Það er því ekki á færi hvers sem er að taka þátt í búskap, lífinu og siglingum  með The World.  Yfirleitt eru um 200 manns um borð, en nokkrir eigendur, einkum kamlir og einhleypir karlar á níræðisaldri, búa um borð allt árið, nema þegar skipið fer í þurrkví einn mánuð á ári.   Skipið var smíðað í Noregi árið 2001 og því var hleypt af stokkunum ári síðar.  Skipstjórinn er norskur, en annars er meiri hluti af áhöfninni, um 200 manns, frá Filippseyjum og Bretlandi.  Um borð er allt sem mann getur dreymt um til að gera lífið þægilegt.  Það var gleðilegt að sjá hvað bókasafnið var stórt og vel skipulagt og greinilega mikið notað.  Fimm veitingahús hafa uppá að bjóða besta mat sem ég hef komist í.  Fólkið var einstaklega viðkunnanlegt og hafði mikinn áhuga á að fræðast um Ísland, um eldfjöll, jarðfræði og reyndar allt sem ég hafði uppá að bjóða, en um borð er auðvitað fyrsta flokks fyrirlestrasalur.  Það vakti sérstaklega eftirtekt mína, að allir kynna sig einungis með fornafni, en eftirnöfn eru ekki notuð.   Ég sá mörg andlit sem ég þóttist kannast við sem frægt fólk úr blöðum og fjölmiðlum, og fékk aðeins að heyra fornafnið,  en á þennan hátt reyna auðmennirnir að vernda sitt einkalíf.  Hér er á ferðinni fólk sem lifir eingöngu í sínum verndaða og vel varða heimi, líður áfram um heimsins höf, situr úti á svölum fyrir utan íbúðina sína og sér Öræfajökul og Surtsey líða framhjá þessa vikuna en síðar grænu eyjarnar í Karíbahafi í næstu viku, um leið og þjónninn kemur með annað glas af kampavíni.  Um leið og ég fer í land við Skarfaklett í Reykjavík þá reyni ég að telja mér trú um, að svona líf  hljóti nú að vera ósköp leiðinlegt til lengdar, en ég er nú bara ekkert svo viss…


Haroun Tazieff og Stefnumót með Djöflinum


Les Rendez-vous du DiableÍ Eldfjallasafni í Stykkishólmi er fallegt plakat eða auglýsing fyrir heimildakvikmynd um eldgos.  Það er reyndar gert í gömlu Sovíetríkjunum, en auglýsir myndina “Les Rendez-vous du Diable” eða Fundur með Djöflinum, eftir Haroun Tazieff.  Hann Haroun Tazieff var mjög sérstakur maður.  Þegar ég var stúdent í kringum 1964, og starfandi með Sigurði Þórarinssyni og öðrum íslenskum eldfjallafræðingum, þá var stundum kvíslað á göngunum:  “Tazieff er að koma!”   Þá birtist þessi goðsögn, og sópaði af honum.   Þá var hann á ferð til að kvikmynda Surtseyjargosið, og önnur merk eldfjöll á Íslandi.  Ég átti eftir að hitta hann nokkrum sinnum á ýmsum fundum, og síðast í vestur Afríku, eins og ég kem að síðar.  Ekki vorum við þá alltaf sammála.  Tazieff var sannur heimsborgari sem var fæddur í Varsjá í Pólandi árið 1914 og lést í París árið 1998.  Í æsku fluttist Tazieff til Belgíu þar sem hann var við nám í landbúnaðarfræðum og einnig í jarðfræði, og síðar settist hann að í Frakklandi.   Árið 1984 var hann gerður að sérstökum ráðherra til að fjalla um náttúruvá og umhverfismál.  Hann varð svo frægur í Frakklandi að þeir gáfu út frímerki með honum við andlát hans.  Annars var hann frekar óheppinn í yfirlýsingum sínum.  Eitt sinn spáði hann því að stór jarðskjálfti myndi skella á Frakkland,  en ekki hefur sú spá ræst.   Tazieff var ekki sannfærður um hlýnun jarðar, þvert á móti.  Hann lýsti því yfir að kenningin um hlýnun jarðar væri hreinn uppspuni, og væru tómar lygar.   Einnig hélt hann því fram að gatið í ózón laginu hefði ekkert með flúrokarbon efni að gera, heldur hefði gatið verið þegar komið á himinn árið 1926, laungu áður en flúrókarbon efni voru fundin upp.  Þetta var auðvitað vitleysa.   En samt sem áður var Tazieff áhrifamikill og vinsæll meðal almennings, sökum þess að hann hélt áfram að framleiða mjög vinsælar heimildamyndir af eldfjöllum sem voru sýndar um heim allan.   Það er ekki oft sem jarðfræðingar eða eldfjallafræðingar ná hylli lýðsins eða verða frægir, en það gerði Tazieff. Sennilega hefur hann lært af meistaranum sjálfum, Jacques Cousteau, en þeir unnu sman á sextugasta áratugnum.  Einn af lærisveinum Tazieffs var Maurice Krafft, sem ég mun fjalla um síðar. Tazieff á frímerki

Síðasta sinn sem ég hitti Tazieff var í lyftu í hóteli í Yaounde, höfuðborg Kameroon í vestur Afríku.  Við vorum á alþjóðafundi jarðfræðinga, þar sem fjallað var um dularfullar gas sprengingar sem gerðust í gígvötnum í Kameroon  árin 1984 og 1986.  Ég var sá fyrsti til að rannsaka þessi fyrirbæri og þá kom ég fram með þá kenningu að sprengingarnar væru ekki af völdum eldgosa, heldur vegna koltvíoxíðs sem safnaðist fyrir í botni gígvatnanna. Tazieff var algjörlega ósammála, taldi að sprengingarnar væru venjuleg eldgos, og leit mig illum augum í lyftunni.  Hann sagði að ég væri svikari eldfjallafræðinga, að  láta mér detta í hug að halda fram að þetta væri ekki eiginlegt eldgos.  Síðan hafa aðrir jarðfræðingar samhyllst mína skoðun,  og eru sprengingarnar fyrstu og einu tilfellin sem við vitum um af þessu tagi.  Hvað sem öðru líður, þá var Tazieff ágætur kvikmyndaframleiðandi og gerði mikið til að vekja athygli almennings á stórbrotinni fegurð og tign mikilla eldgosa -- en hann var ekki mikill vísindamaður.

 


Klofin menning – Vísindi og Listir

Menning er öll sú skapandi starfsemi sem hefur hafið mannkynið á æðra plan.  Menning nær því yfir mjög umfangsmikið svið,  og þar á meðal auðvitað ritverk, listir, vísindi og tækni.  Síðan ég fluttist aftur heim til Íslands hef ég velt fyrir mér æ oftar hvað vísindi og tækni virðast reyndar lágt skrifuð á yfirborðinu í hinum íslenska menningarheimi.  Hvað er það oft sem þið heyrið fréttir eða umfjöllun um vísindalegt efni í fjölmiðlum hér á landi?  Ríkisútvarpið, oft nendur mesti menningarviti þjóðarinnar, er svo upptekið af bókmenntum og listum að vísindin finna það nær ekkert pláss.  Ég tala nú ekki um tækni!  Minnist þess, góði lesandi, að nær öll þjóðin situr fyrir framan tölvu einhvern hluta dagsins, en aldrei er fjallað um slík tæknileg málefni í fjölmiðlum hér.  Hin “opinbera” menning okkar hefur þróast á vissan hátt, en ekki af tilviljun, og þar hafa reyndar fjölmiðlar eins og Ríkisútvarpið spilað stórt hlutverk.  Þannig hefur Ríkisútvarpið lyft miklu Grettistaki í að gera klassíska tónlist aðgengilega og aðlaðandi.  Eldri kynslóðin man sennilega vel eftir því, fyrir um fimmtíu eða sextíu árum, þegar klassísk tónlist eða jafnvel heilar symfóníur voru fyrst leiknar í útvarpinu.  “Æ, nú byrjar þetta helvítis garg!  Góða slökktu á þessu” sagði bóndinn stundum við húsfreyjuna þar sem ég var einu sinni í sveit.   En smátt og smátt síaðist klassíska tónlistinn inn í íslensku sálina, var kennd í barnaskólanum, og þjóðin menntaðist og lærði að kunna að meta og njóta tónlistarinnar.  Nú er “kool” að fara til útlanda til að stunda nám í klassískri list, en alls ekki “kool” að fara erlendis til náms á sviði vísinda og tækni. Þeir krakkar eru jafnvel kallaðir “nördar” og þykja frekar púkalegir.  Þannig heldur klofningurinn milli vísinda og listar áfram og dýpkvar.  CP Snow

Klofningurinn í menningu  byrjaði að koma í ljós á sextándu öldinni.  Allt fram á sextándu öld var litið á allar rannsóknir sem snerta náttúru og eðli heimsins sem einn part af hinni umfangsmiklu og alvitru heimsspeki.  Þannig voru þeir nefndir “natural philosophers” eða heimspekinagr náttúrunnar sem sýndu sérstakan áhuga á vandamálum og spurningum varðandi umhverfið, efni jarðar, eðli hluta, lífíkið og náttúruna í heild.    Það var árið 1959 að breski vísindamaðurinn og rithöfundurinn C.P. Snow flutti stórmerkilegt erindi  í Cambridge háskóla undir titlinum “The Two Cultures and the Scientific Revolution”.   Myndin til hliðar er af Snow, sem síðar varð lávarður og barón af Leicester borg.  Aðal boðskapur hans var sá, að hinn vestræni heimur væri að klofna meir og meir í tvo andstæða menningarheima: raunvísindi annars vegar og listir og hugvísindi hins vegar.  Snow benti á að sambandið milli þessara tveggja menningarheima færi stöðugt versnandi í nútímaþjóðfélagi.  Heimar vísindanna og listanna skiftust ekki lengur á skoðunum og skildu reyndar ekki hvorn annan og það gæti staðið þróun heimsmenningar fyrir þrifum. Það er algjör misskilningur á líta á hugmyndir C.P. Snow sem tilraun vísindanna eða húmanismans að ná yfirhöndinni.  Heldur er þetta viðleitni til að brúa hina miklu gjá, vantraust, grunsemd og  skilningsleysi, sem hefur mjög slæm áhrif á viðleitni okkar til að beita vísindum og tækni til betrunar mannkynsins. 

Hver er orsök fyrir klofningnum, og hvað er hægt að taka til bragðs til að sameina frekar hina tvo heima menningarinnar?    Mér sýnist að það sé  ekki gott jafnvægi í viðhorfum til vísinda og lista.  Það virðist vera boðlegt fyrir rithöfundinn eða listamanninn að vita ekkert um vísindi, og jafnvel státa sig af því, en  hins vegar er búist við að vísindamaðurinn fylgist með því helsta sem er að gerast í listum.  Í menntaskóla hjálpar það ekki til að nemendum hefur verið skift í fremur andstæðar stærðfræði- og máladeildir.   En ef til vill er sökin að nokkru leyti vísindunum að kenna. Vísindamenn eru yfirleitt ekki sérlega lagnir við að ræða almenning um sín störf og gildi vísindanna, heldur láta það nægja að birta niðurstöður af sínum rannsóknum á ensku í erlendum alþjóðaritum.  En  það þarf stórt átak til að flytja boðskað vísindanna til almennings, alveg eins og Ríkisútvarpið kenndi okkur að elska klassíska tónlist.  Til frekari umhugsunar, þá vísa ég  á skemmtilega ritgerð eftir Richard King um vandann mikla að brúa bilið milli vísinda og listar: http://richardjking.blogspot.com/2010/07/flesh-and-stardust-meanjin-volume-69.html


Er Alxar-Björn kominn á dvalarheimilið?


Graffíti eftir Pöbel á ÖxlÉg hef átt leið um Breiðuvík á Snæfellsnesi nokkrum sinnum í sumar, og alltaf hugsað til Axlar-Bjarnar í hvert sinn.  Eins og vel er kunnugt, þá er Axlar-Björn mesti raðmorðingi Íslandssögunnar, og myrti hann að minnsta kosti 18 manns.  Að lokum var hann dæmdur til dauða á Laugarbrekku undir Jökli, árið 1596, síðan voru bein í útlimum hans  brotin með sleggju á meðan hann var enn á lífi, og hann því næst afhöfðaður og brytjaður niður. Aðskiljanlegir partar hans voru síðan dysjaðir undir þremur dysjum, til að koma í veg fyrir að hann gengi aftur.  Dysjarnar voru lengi áberandi á Laugarholti, skammt fyrir  sunnan Bárðarlaug,  en nú stendur þar aðeins Dreplakolludys ein stök eftir.  Dysjarnar þrjár hans Axlar-Bjarnar munu hafa verið eyðilagðar við vegagerð og grjótnám, samkvæmt grein er Kristinn Kristjánsson kennari ritaði í Morgunblaðinu árið 1998.  Sonur Alxar-Bjarnar var Sveinn skotti, einnig afbrotamaður sem hengdur var árið 1648.  

Þegar keyrt er yfir holtið hjá Öxl, þá blasir við skúr sem er tengdur fjarskiftamastri.  Nú er komið listaverk á vestur vegg skúrsins, eins og myndin sýnir.  Ég sé ekki betur, en hér sé Axlar-Björn kominn í hjólastólinn, og Sveinn skotti keyrir.  Verkið er eftir Pöbel, sem mun vera norskur stensil-graffíti listamaður.  Skyldi Pöbel nokkuð vita um Axlar-Björn?


Skriðu-Fúsi er enn í Kerlingarskarði

Fúsaskurðir

Í bernsku man ég eftir mörgum ferðum yfir Kerlingaskarð á Snæfellsnesi í rútubílnum.  Þegar komið var að sunnan var oftast stanzað í Efri Sneið, þar sem útsýnið yfir Breiðafjörð birtist eins og svift væri frá blæju.  “Hvílík fegurð!”  sagði móðir mín.  Karlarnir tóku upp vasapelana og jafnvel sjálfur bílstjórinn fékk alltaf einn vel útilátinn brennivínssnaps, áður en það var rennt niður í Stykkishólm.  En nú er leiðin um Kerlingarskarð lögð af, og fólkið ekur í staðinn yfir fremur sviplitla Vatnaleið, tekur ekki eftir neinu, og missir alveg af þeirri fegurð og sögu sem Kerlingarskarð hefur að geyma.  Á miðju Kerlingarskarði eru skorningar eða lækjadrög sem bera nafnið Fúsaskurðir. Ég man að faðir minn minntist oft á draugagang á þessum slóðum, en það var miklu seinna að ég fékk alla draugasöguna.  FúsaskurðirÁ seinni hluta 18. aldar varð óreiðumaður og förukarl, sem Vigfús hét, úti hér í skorningunum, sem síðan bera nafnið Fúsaskurðir.  Af einhverjum sökum var Fúsi illa liðinn af samtíðarmönnum.  Fyrir afbrot eitt var hann dæmdur til þess að skríða ávalt á fjórum fótum í annarra viðurvist og hlaut þannig viðurnefnið Skriðu-Fúsi. Hann mátti þó ganga uppréttur, þar sem ekki var mannavon, og gat hann því farið í sendiferðir og verið selsmali.  Ef hann sá til manna, þá varð hann að kasta sér á fjóra fætur.  Oft lá Skriðu-Fúsi á alfaravegum og veinaði eins og hann væri í nauðum staddur.  Þannig tældi hann til sín brjóstgóðar konur.  Þegar þær komu nær þá tók hann þær með valdi.  Eitt sumar starfaði hann í Selgili við Húsafell, ásamt tveimur dætrum  séra Sigvalda Halldórssonar (1706-1756). Talið er að hann hafi skriðið heldur nærri systrunum, því  báðar urðu ófrískar af hans völdum.  Eitt sinn var Skriðu-Fúsi á ferð yfir Kerlingarskarð að vetri til, þegar óveður mikið skall á. Þá varð hann úti þar sem nú heita Fúsaskurðir. Um nóttina var komið á gluga á Hjarðarfelli og vísa kveðin:

                                    Skriðu-Fúsi hreppti hel,

                                    hálfu fyrr en varði.

                                    Úti dó það ei fór vel,

                                    á Kerlingarskarði.

 

Þegar farið er um Kerlingarskarð í dag má enn sjá Skriðu-Fúsa, eins og myndirnar tvær sýna, sem fylgja hér með.  Þetta mun vera listaverk sem nemendur í Grundarfirði hafa skapað til minningar um ólánsmanninn.  Verkið var gert fyrir nokkrum árum og er orðið anzi mikið veðrað.  Nú fer hver að verða síðastur að sjá Skriðu-Fúsa, áður en hann fýkur út í veður og vind.  Skáldið Þorsteinn frá Hamri hefur ort eftirfandi kvæði um Skriðu-Fúsa:

 

Ég sem aldrei

uppréttur mátti ganga,

aðeins brölta á fjórum

og sleikja ruður

með áfellisskuld

og skelfingu aldalanga –

skelli mér suður.

 

Í farartækinu

fyrnist glæpur minn stórum.

Ég flyt af Kerlingarskarði

í borgarhallir.

Mér fer að skiljast

hve gott er að ganga á fjórum.

Það gera nú allir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband