Færsluflokkur: Menning og listir

Eldfjallið Ararat og Örkin hans Nóa


Baghdasarian1922Í Eldfjallasafni í Stykkishólmi sýnum við olíumálverk af eldfjallinu Ararat í Tyrklandi, eftir armeníumanninn H. Baghdasarian, frá 1922, en myndin er hér til hliðar.  Ararat er eitt af hinum frægu fjöllum heims, vegna orðróms sem komst á kreik á fimmtu öld um að þar hefði örkin hans Nóa strandað þegar syndaflóðinu fjaraði út.  AraratÉg tel að ég geti sannað að þetta málverk er af eldfjallinu Ararat, sem er á landamærum Armeníu, Tyrklands of Íran.  Berið málverkið saman við myndina fyrir neðan, en hún er af Ararat eldfjalli, eins og það kemur fyrir á Google Earth.  Niðurstaðan er augljós.  Ararat hefur reyndar tvo fjallstoppa. Annar, og sá hærri, nefnist  Agri Dagi á tyrknesku, sem er 5165 metrar á hæð og þar með hæsta fjall Tyrklands, en hinn toppurinn er miklu reglulegra eldfjall eða keila,  sem nefnist Kucuk Agri Dagi (Litla Ararat),  og er 3925 metra hátt.  Eftir forminu að dæma er Litla Ararat yngra og virkara eldfjall.  Sögusagnir eru um að síðast hafi gosið hér árið 1840.  Christies

Baghdasarian virðist hafa málað aðra mynd af Ararat árið 1920, en hún er sýnd hér fyrir neðan.  Hún var seld á uppboði hjá listaverkasalanum Christies í London árið 2003. Christies taldi myndina vera af Mexíkódalnum, og sýna eldfjöllin Ixtlahuacán og Popocatepetl.  Það er því rangt, eins og sýnt er hér fyrir ofan.  Við vitum öll að það er ekki alltaf hægt að treysta listaverkasölum.  

Biblían segir að örkin hans Nóa hafi strandað í landinu Ararat eða í Armeníu.  Ekki er þar minnst á fjallið Ararat. Þegar klerkurinn Philostorgius (ca. 364 – 425 e.Kr.) skráði sögu kristinnar kirkju í Konstantínópel, þá  taldi hann að örkin hefði strandað á Ararat fjalli. Það er hinn eiginlegi uppruni sagnarinnar um Ararat.  Mikill fjöldi leiðangra hefur verið gerður út til að finna leifar af örkinni á Ararat, og allar tilraunir  eru árangurslausar til þessa.  Flekarnir í TYRKLANDI

Austur hluti Tyrklands er eitt af flóknustu svæðum jarðar hvað snertir flekahreyginar og jarðfræði, eins og kortið sýnir.  Hér eru stórir jarðskjálftar tíðir, enda er jarðskorpunni skift í marga litla fleka, sem nuddast stöðugt saman eins og ísjakar á straumvatni.  Arabíuflekinn sígur undir Evrasíuflekann og Íran til norðurs, og ein afleiðing þess er eldvirknin sem hefur myndað Ararat. Fyrir um 20 árum hafði einn af ritstjórum National Geographic tímaritsins samband við mig, og vildi fá álit mitt á ljósmynd sem var tekin í grennd við Ararat. Hún sýnir fyrirbæri sem er eins og bátur í laginu.  Ég taldi að þetta væri jarðmyndun, þar sem hörðnuð setlög hafa myndað fellingu, eins og síðar kom í ljós. National Geographic ákvað að láta málið niður falla og birti ekki myndina í ritinu.  Örkin


Saga Sementsins

Kalkofn í Indónesíu Tvö elstu gerviefnin hafa breytt sögu mannkynsins. Það gerðist með uppgötvun glersins og sements.  Hvar væri íslenskur arkitektúr staddur ef steinsteypan hefði ekki verið uppgötvuð?  Ennþá í torkofunum?  Ég fjalla hér um sögu sementsins, sem byrjar reyndar með uppfyndingunni á aðferð til að búa til kalk.   Árið 2008 var ég að vinna við rannsóknir á norður strönd eyjarinnar Krítar í Miðjarðarhafi, ásamt grískum fornleifafræðingi.  Ströndin er nokkur hundruð kílómetrar á lengd og fjölbreytt.  Öðru hvoru rakst ég á leifar af fornum byggingum frá Bronzöld við ströndina,  sem voru reistar fyrir um þjú til fjögur þúsund árum fyrir Krists burð.  Þetta voru litlir turnar eða hringlaga ker, sem líktust helst gömlum súrheysturnum á Íslandi.  Litlu turnarnir eru rústir af kalkofnum, þar sem forn-Grikkir brenndu kalkstein til að búa til kalk.   Ofnarnir voru yfirleitt um 4 metrar í þvermál, sívalir og fjórir til fimm metrar á hæð.  Þegar ég var á ferð í Indónesíu í nóvember 2009 rakst ég á nokkra kalkofna sem enn eru virkir, eins og þessi hér fyrir ofan á eynni Sumbawa.    Eins og oft gerist, þá hefur aðferðin til að búa til kalk sennilega verið hrein tilviljun eða slys. Kalksteinn er mjög alengur víða um heim, þótt hann sé ekki til í neinu magni á Íslandi.  Kalksteinn myndast aðallega úr leifum skeldýra  og kórals á hafsbotni, en efnasamsetning hans er að mestu leyti CaCO3. Stundum er töluvert af Mg í stað Ca, en þá nefnist steinninn dólómít.  Ef kalksteinn er malaður niður og  hitaður allt að 1000 stig C verða eftirfarandi efnahvörf CaCO3 + hiti  ----- CaO + CO2Parthenon í Róm

Kalksteinninn hverfur við brennsluna en eftir verður kalkduft (CaO) og koldíoxíð rýkur út í loftið.  Kalkið tekur strax í sig vatnsraka úr andrúmsloftinu og myndar steindina portlandít eða Ca(OH)2.  Þegar kalkduftinu er blandað saman við vatn þá myndast leðja sem harðnar í stein vegna efnhvarfa og virkar sem ágætt steinlím.   Bæði forngrikkir á Krít og Egyptar voru byrjaðir að brenna kalk og nota sement  fyrir um 2500 fyrir Krist, en það voru rómverjar sem gerðu sement og notuðu steinsteypu í stórum stíl um og eftir 300 fyrir Krist.  Ein elsta og merkasta bygging úr steinsteypu er Pantheon musterið í Róm á Ítalíu, en mynd af steinsteyptu hvelfingunni er hér til hliðar.  Það var byggt árið 27 fyrir Krist, og loftið er steinsteypt hvelfing sem er um 43 metrar í þvermál.Eftirspurn Þetta er enn í dag stærsta hvelfing á jörðu sem gerð var úr steinsteypu sem ekki er járnbundin. Í miðri hvelfingunni er gat sem er níu metrar í þvermál, og það er ógleymanleg tilfinning að standa inní Pantheon á rigningardegi í Róm, og leita skjóls um leið og regnið streymir niður um mitt gatið, niður á gólfið.  Steypan í hvelfingunni er um 6 metrar á þykkt á jöðrunum en um 1,2 metrar við gatið í miðri hvelfingunni.   Rómverjar uppgötvuðu að þegar eldfjallaösku var blandað út í kalkið og hrært með vatni, þá myndaðist frábær steinsteypa sem var miklu sterkari.   Öskuna fengur þeir í grennd við Vesúvíus og önnur eldfjöll nálægt Napólí, einkum nálægt bænum Puteoli, sem í dag nefnist Pozzuoli (fæðingarstaður leikkonunar  Sofíu Loren).  Af þeim sökum nefnist slík steypa pozzolana, en rómverjar gátu jafnvel beitt henni við byggingu á mannvirkjum neðansjávar, eins og höfnina í Ostia. 

Hvað gerist þegar kalk og sement mynda steinsteypu?  Algengasta sementið í dag er svokallað portland sement.  Það er einnig framleytt  við brennslu á kalksteini í blöndu við steinefni sem inniheldur kísil.  Þegar sementsdufti er blandað við vatn þá myndast steypa, sem harðnar vegna efnahvarfa í einhverskonar kalsíum sílikat hydrat: Ca –Si - OH. En það var ekki fyrr en alveg nýlega að menn uppgötvuðu hvað virkilega er að gerast við hörðnun steinsteypunnar.  Steindin sem myndast þegar sement harðnar er sýnd í myndinni til hliðar, þar sem atóm skipan eða innri bygging efnisins kemur vel fram.  Sement strúktúrHér eru vetnisatóm sýnd hvít á lit, súrefni fjólublá,  kalsíum grá, kísilatóm gul og súrefni rauð.  Nú þegar að innri gerð sementsins er orðin þekkt, þá má gera ráð fyrir að í framtíðinni verði miklar framfarir í gerð nýrra og betri sementstegunda.  Framleiðsla sements á jörðinni er um 3 miljarðar tonna á ári og fer nær öll framleiðslan til Kína, eins og myndin fyrir ofan sýnir.  En sementsframleiðslan hefur mikil neikvæð umhverfisáhrif.  Eins og efnajafnan efst í pistlinum sýnir, þá myndast koldíoxíð þegar kalk er brennt, og rýkur  það út í andrúmsloftið.  Sementsiðnaðurinn í heiminum myndar um 5% af allri losun á koldíoxíði, bæði vegna gas myndunarinnar og vegna koldíoxíðs frá eldsneytinu sem er notað við brennsluna.  Við hvert tonn af sementi myndast um 222 kg af kolefni sem rýkur út í loftið. Þannig er sementsframleiðsla  nokkuð stór þáttur í loftslagsbreytingum. 

Rautt er Kalkofninn við AusturhöfnKalk er til á Íslandi en er fremur sjaldgæft. Flestir kannast við silfurberg, sem er afbrigði af steindinni kalsít.  Hvítar æðar af kalsíti myndast í sprungum í blágrýtismynduninni  víða um land, vegna forns jarðhita, og geta slíkar æðar veriða allt að 50 sm á breidd.  Það mun hafa verið um 1863 að kalkæðar fundust í Esjunni hjá Mógilsá, og framkvæmdir hófust til að vinna kalksteininn og brenna hann í kalk.  Þetta var tilraun til að koma Reykvíkingum út úr torfbæjunum og í hús sem væru hlaðin úr steini sem var límdur saman með kalki.   Egill Egilsson kaupmaður  í verzluninni Glasgow  stýrði verkinu,  og lét byggja kalkofn í Reykjavík 1876.Kalkofninn í Reykjavík bakvið Siemsenshús Hann var reistur nálægt ósnum á Læknum sem rann frá Tjörninni, og við Batteríið. Slóðinn sem lá að kalkofninum varð Kalkofnsvegur.  Sjö menn störfuðu í námunni í Esjunni, hestar fluttu grjótið til sjávar og bátur kom því til Reykjavíkur í kalkofninn.  Myndin til hliðar sýnir gamla kalkofninn,  við fjöruna á bak við hús Siemsens kaupmanns.  Ekki þótti íslenska kalkið samkeppnisfært og kalkvinnslan lagðist niður árið 1879.  Nú er kalkofninn horfinn fyrir löngu, en þessum merkilegu menningarminjum var sennilega rutt á brott þegar hús Seðlabanka Íslands var byggt.  Hin forna staðsetning kalkofnsins var þar sem rauði díllinn er á myndinni fyrir ofan. Hér fyrir neðan er gamalt Reykjavíkurkort frá 1876, þar sem kalkofninn er merktur inn (rauður hringur) fyrir neðan Arnarhól.  Kort 1876


Parícutín Eldfjall og David Alfaro Siqueiros

SiqueirosEin uppáhaldsmyndin mín í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er “Eldgos í Paricutín” eftir mexíkanska málarann og byltingarsegginn David Alfaro Siqueiros (1896 - 1974). Eins og mörg verk Siqueiros, þá er myndin máluð með pyroxilin litum. Þessir litir eru mjög sérstakir, og einnig hættulegir. Aðal uppistaðan er nítrósellulós, en pyroxilin efnið var fundið upp af Du Pont fyrir Ford bílaverksmiðurnar og nefnt Duco. Þetta lakk hefur þá eiginleika að þorna mjög hratt en var hættulega eldfimt og óhollt. Myndin er máluð 1962, en hún er af eldgosinu í Parícutín, en það er eldfjallið sem spratt upp í akri bóndans Dionisio Pulido árið 1943 og hét áfram að gjósa í níu ár.  Siqueiros í steininumÉg hef áður bloggað um þeta gos og Dr. Atl, sem einnig málaði margar myndir af gosinu, í pistli mínum hinn 6. október 2009.Siqueiros (1896-1974), ásamt Diego Rivera og Jose Clemente Orozco eru taldir fremstu málarar í múralista hreyfingunni í Mexíkó. Siqueiros var innan við tvítugt þegar hann var skipaður liðsforingi í Byltingarher Mexíkó, og síðar var hann hátt settur í Borgarastyrjöldinni á Spáni. Hann var mjög virkur í verkalýðshreyfingunni í Mexíkó og vegna afskipta hans af stjórnmálum dvali hann mörg ár í fangelsum eða flúði land. Það var einmitt í fangelsinu sem hann málaði flest verk sín, og þar á meðal þetta sem hér er sýnt. Siqueiros byrjaði snemma að taka þátt í byltingarhreyfingunni í Mexíkó, en árið 1911 voru helstu leiðtogar byltingarinnar þeir Pancho Villa, Emiliano Zapata og Pascual Orozco. Baráttan hélt áfram og hann var orðinn kapteinn í byltingarhernum þegar barátunni lauk árið 1918. En hann hélt áfram að vera mjög virkur í stjórnmálum og verkalýðsmálum, enda harður Marxisti allt sitt líf. Árið 1930 var hann fyrst settur í steininn vegna stjórnmálaskoðana, en slapp til Bandaríkjanna árið 1932. Hann snéri aftur til Mexíkó 1934 þegar mildari stjórn tók völdin. siquier 1sStrax og borgarastyrjöldin brautst út á Spáni árið 1936 þá var Siqueiros mættur á staðinn, og var mjög virkur þáttakandi og barðist á móti fasistahreyfingu harðstjórans Francisco Francos þar til 1938. Siqueiros hafði alla tíð verið mikill fylgismaður stalínista í Sovíetríkjunum. Á þessum tíma klofnai Leon Trotsky út úr kommúnistaflokknum og flúði Sovétríkin, en settist að í Mexíkó. Siqueiros reyndi að fá mexíkönsk yfirvöld til að vísa Trotsky úr landi, en árangurslaust. Hann taldi veru Trotskys svo hættulega í Mexíkó að hann skipulagði morðtilraun á hendur honum í maí 1940. Siqueiros safnaði saman 25 listamönnum, verkalýðsleiðtogum og vinum sínum til að gera árás á heimil Trotskýs í Mexíkóborg. Trotsky og eiginkona hans földust undir rúmi og sluppu í þetta sinn. Siqueiros var vísað úr landi og settist að í Suður Ameríku þar til 1943, er hann snéri aftur til Mexíkó. Alltaf hélt hann áfram að mála, en gekk aftur í kommúnistaflokkinn.  siqueiros55Hann var aftur tekinn fastur í Mexíkó árið 1960 og sat inni til 1964. Það var einmitt á þessu tímabili sem hann málaði myndina af Parícutín, sem er sýnd í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Siqueiros undirritaði öll verk sem hann gerði í fangelsi C.P., sem er skammsetning á "Carcel Presidiario" eða fangi í fangelsi. Myndin í Eldfjallasafni er einmitt undirrituð “Siqueiros C.P. 62”.

Eldfjöll sem Mótíf í Arkitektúr

Vulcano BuonoStundum finnst manni að ástandið sé svipað í dag með þá sem stunda arkitektúr eða byggingalist og með nútíma listamenn: það er búið að prófa allar mögulegar leiðir í listum undanfarnar aldir, og í örvæntigarfullum tilraunum sínum til að vera frumlegir eru sumir í þessum hóp komnir út í vitleysu og öfgar í dag. En nú hefur komið fram hreyfing meðal arkitekta sem mér líst nokkuð vel á, og það er hreyfing sem notar eldfjöll sem mótíf. Þetta er ekki bara hreyfing heldur hreint og beint alda, og arkitektar virðast nú keppa um að líkja eftir eldfjöllum. MíluturninnHér með fylgja nokkur dæmi. Það fyrsta sem ég vil benda ykkur á er bygging í grennd við Vesúvíus, en hún er komin í gagnið. Byggingin ber nafnið “Il Vulcano Buono” eða góða eldfjallið, og er staðsett í bænum Nola nálægt Napólíborg á Ítalíu. Það er sjálfur Renzo Piano sem hefur skapað þetta skemmtilega verk. Gígurinn er 150 metrar í þvermál. Stærsta bygging heims gæti litið út eins og eldfjall. Arkitektinn og boxarinn Eugene Tsui hefur nú stungið uppá þriggja kílómetra hárri ofurbyggingu fyrir San Francisco borg, sem nefnist Ultima Tower og getur hýst um eina miljón manns. Munið eftir Mount Doom eldfjallinu í Hringadrottinssögu?Taichung  Ætli Tsui hafi fengið hugmyndina þar?Nú er í byggingu Taichung ráðstefnubyggingin í Taívan, en hún er mynduð eins og þyrping af eldfjöllum eða gígum, hlið við hlið. Byggingin er skemmtilega létt og opin, en hún er hönnuð af MAD Architekts í Beijing í Kína. Njiric Arhitekti í Króatíu hafa hannað blátt eldfjall sem íþróttaleikvang. Í stað þess að hafa öskuský fyrir ofan eldfjallið, þá hafa þeir komið fyrir skýi sem er reyndar sólarsellur. Bláa eldfjalliðAð lokum er það Vulcania, eldfjallasafnið í Auvergne héraði í Frakklandi. Þar hafa þeir í frekar smáum stíl reist lítið eldfjall á smekklegan hátt.Er ekki kominn tími til að arkitektar reisi okkur eldfjall á Íslandi, til dæmis veglega byggingu undir Eldfjallasafn í Stykkishólmi?  Vulcania jpgEf til vill hefði sú hugmynd fengið góðan hljómgrunn fyrir 2008, en sennilega eru undirtektir ekki alveg eins góðar í dag. Við lifum í voninni…

Ástir og Eldgos í Bíó

Vulkano 1950Það er Valentínusadagur í dag, og viðeigandi að fjalla um ástir, bíó og eldgos, allt í einum pakka. Í Miðjarðarhafi, milli Sikileyjar og Ítalíu, eru nokkrar eldfjallaeyjar, en tvær þeirra komu mikið við sögu kvikmyndanna árið 1950. Það var á eyjunum Stromboli og Vulkano sem leikkonurnar Ingrid Bergman og Anna Magnani börðust um ást ítalsks leikstjóra og gerðu samnefndar kvikmyndir þetta ár. Ég vil sérstaklega benda ykkur á bíóplaköt frá þessum kvikmyndum, sem eru til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Anna og RosannoSagan byrjar dag einn árið 1948 þegar Roberto Rosselini situr í Róm og er að opna póstinn sinn. Hann les þá eftirfarandi sendibréf frá Ameríku: “Kæri herra Rosselini: Ég sá myndir þínar "Open City" og "Paisan" – – og ég varð mjög hrifin. Ef þig vantar sænska leikkonu sem talar mjög góða ensku, og líka þýsku, og er líka sæmileg í frönsku, en kann aðeins “ti amo” á ítölsku, þá er ég reiðubúin að koma og vinna með þér. Bestu kveðjur, Ingrid Bergman.”Svona einfalt var það í þá daga. Rosselini, sem hafði verið í ástarsambandi við Önnu Magnani í nokkur ár og stýrt henni í kvikmyndum (“L´Amore” 1948), flaug strax til Ameríku til að hitta sænsku leikkonuna sem var nýbúin að hljóta Óskarsverðlaunin og var þá tvímælalausr frægasta kvikmyndastjarna heims. Anna MagnaniHann fór til Hollywood og fundaði með stærsta framleiðandanum, David O. Selznick, og innan skamms var kominn samingur um að gera myndina “Stromboli” á Ítalíu árið 1950 með Ingrid í aðalhlutverki. Þegar Anna fær fréttir af þessu fer allt uppíloft. Upphaflega átti hún að fá þetta hlutverk, og nú er hún líka að missa elskhugann í klærnar á sænsku stjörnunni. Anna er alls ekki af baki dottin, og byrjar að gera sína eigin eldfjallsmynd með leikstjóranum William Dieterle, ásamt leikurunum Rossano Brazzi og Geraldine Brooks. Það er kvikmyndin “Vulkano” sem kom einnig út árið 1950. Eins og kortið sýnir, þá er ekki langt á milli Stromboli og Vulkano eyjanna, aðeins um 50 kílómetrar. En þarna störfuðu þau, nýju elskhugarnir Ingrid og Roberto á sínu eldfjalli, og Anna og hennar lið á Vulkano sumarið 1949. Myndin Vulkano fjallar um gleðikonuna Maddalena Natoli, sem er leikin af Önnu Magnani, sem er dæmd í útlegð frá Napólí, til að eyða æfinni heima í þorpinu sínu á eldfjallseynni Vulkano. Vulkano eyjaÞegar hún kemur heim, þá er henni ekki vel tekið af systkinum sínum. Eini vinurinn er elskuginn, og kafarinn Donato, sem Rosanno Brazzi leikur. Á þeim dögum var litið á kafara eins og við lítum á geimfara í dag: einskonar ofurmenni. Anna fær vinnu á bát kafarans, en hann fær áhuga á yngri systur Önnu. Hún vill bjarga systur sinni frá smabandi við þennan hættulega mann, og einn daginn, þegar hann er í kafi djúpt á hafsbotni, hættir hún að dæla til hans lofti og drepur hann. Í örvæntingu sinni gengur Anna upp fjallið og niður í gíginn þegar gosið hefst. Þetta var ekki besta mynd Önnu, en árið 1956 hlaut hún Óskarsverðlaunin fyrir myndina “Rose Tattoo” með Burt Lancaster, en handritið var samið sérstaklega fyrir hana af sjálfum Tennessee Williams.Stromboli1950  Anna var sögð afskaplega skapmikil og jafnvel stórir karlar á við stjörnurnar Burt Lancaster og Anthony Quinn, sem léku á móti henni, voru sagðir vera dauðhræddir við hana. En hún var ein allra vinsælasta leikkonan um miðja tuttugustu öldina og talin jafnast á við sjálfa Gretu Garbo. Til dæmis má geta þess að það fyrsta sem rússneski geimfarinn Yuri Gagarin sagði þegar hann útvarpaði úr geimnum til jarðar fyrstur mann árið 1961 var þetta: “Ég sendi kveðjur mínar til mannkynsins á jörðu, til heims listanna og til Önnu Magnani.” Eyjan Vulkano er stórmerkilegt eldfjall, en þar búa nú um 500 manns. Síðasta gosið var árið 1888, en Vulkano var mjög virkt á átjándu öldinni. IngridÞað eru þrír gígar, sá yngsti er Vulcanello sem myndaðist í gosi 183 f. Kr., næst er Fossa sem var virk 1888, og elst er Il Piano askjan. Eyjan er mjög vinsæl meðal ferðamanna, og í næsta gosi verður stórtjón fyrir þá sem hafa byggt hér fjölda af hótelum undanfarið. Gríski guðinn Æolus, guð vindanna, hafði aðsetur sitt í eldfjöllunum á Isole Eolie, Vindeyjum, og þar var að finna uppruna vindanna, samkvæmt grísku goðatrúnni. Reydar er það alveg lógiskt og mjög skiljanlegt, þar sem kenning forngrikkja um eldgos var sú, að þau væru afleiðing þess þegar vindur brýst út úr jörðinni út um lítið op, sem er gígur eldfjallsins. Það var sjálfur Aristóteles sem setti fram þessa kenningu. Um leið og Anna Magnani var að kæfa Rosanno Brazzi í hafinu rétt hjá Vulkano, þá voru þau hjúin Ingrid Bergman og Roberto Rosselini að hafa það gott á Stromboli rétt hjá. Ferðamönnum sem koma til Strombolí er sýnt fallega litla rauða steinhúsið þar sem hjúin bjuggu saman, og marmaraskilti á útvegg lýsir ástarsambandinu. Afrakstur af því var kvikmyndin “Stromboli” (1950) og svo litla barnið Robertino Rosselini. Kvikmyndin fjallar um unga flóttakonu, Karin, frá Litháen sem giftist ítölskum sjómanni til að sleppa út úr flóttamannabúðum. Hann fer með hana heim til Stromboli. Ingrid á eldfjallinuÞað fyrsta sem hún segir þegar til eyjarinar kemur er: “Er það alltaf gjósandi?” Svarið er já. Hún er mjög óhamingjusöm og reynir að komast í burt með því að ganga yfir eldfjallið til að reyna að komast í annað þorp og sleppa burt frá Stromboli eyju. Kvikmyndin endar þegar hun er að nálgast gíginn, en við vitum ekki um endanleg örlög hennar. Myndin Stromboli orsakaði eitt mesta hneyksli í sögu kvikmyndanna. Bæði Rosselini og Bergman voru gift öðrum þegar ástarsamband þeirra hófst á eynni, og þegar hún fæddi son þeirra Robertino. Casa IngridHinn 14. marz árið 1950 tók senator Edwin C. Johnson frá Kolóradó til máls í efri deild bandaríska þingsins. Hann flutti þá langa ræðu um Ingrid Bergman, og spillingu þá sem hún breiddi nú út með hegðun sinni. Kosning í þinginu gerði Ingrid persona non grata í Bandaríkjunum og hún flúði land og settist að á Ítalíu. Loks snéri hún aftur til Bandaríkjanna sjö árum síðar og tók upp þráðinn aftur þar í Hollywood. En Stromboli heldur áfram að gjósa og það má segja að þetta eldfjall sé það virkasta á jörðu. Ekki er að furða að Stromboli eyja sé oft kölluð “viti Miðjraðarhafsins”, en her hefur gosið stöðugt í meir en 2500 ár. Gosin eru flest mjög lítil, og gera lítinn usla. 

StomboliRosi

 Tvö þorp sjómanna hafa þvi þrifist í hlíðum fjallsins í alda raðir.  Upphafið á sögunni um Vulkano og Stromboli kvikmyndirnar var það, að fjórir aðalsmenn á Sikiley fundu upp aðferð til að taka kvikmyndir neðansjávar og vildu gera mynd um kafara. Þeir fengu Rosselini og Önnu Magnani í lið með sér til að vinna að kvikmyndinni. 

Stromboli Olía

En svo sveik Roberto Önnu sína, og svo framvegis.  Hér fyrir neðan fylgja tvö málverk sem ég eignaðist þegar ég heimsótti Strombólí árið 1990 og 1997.  

Stromboli á gler

Þær má báðar sjá í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, ásamt fleiri myndum af Strombóli eldeyju. 

 

Eldgosið á Eynni Montserrat

Montserrat 2009Árið 1980 starfaði ég við eldfjallarannsóknir í Vestur Indíum, en það er eyjaklasinn sem skilur Atlantshaf frá Karíbahafi. Flestar eru þessar eyjar eldfjöll sem hafa risið úr hafi vegna flekahreyfinga milli Atlantshafsflekans í austri og Karíbaflekans fyrir vestan. Þá bárust fregnir um dularfulla atburði í Soufriere Hills eldfjalli á eynni Montserrat og ég fór þangað til athugana og kynntist þessari fögru eyju, en hún er nú eina nýlendan sem eftir er af breska heimsveldinu. Ég kannaði hlíðar eldfjallsins Soufriere Hills á suður hluta eyjarinnar, og rakst á hverasvæði þar sem bráðinn brennisteinn rann niður úr fjallinu eins og hraun. Það var greinilegt að hiti var að færast í fjallið, eins og kom vel fram fimmtán árum síðar.Gosið í Soufriere Hills hófst árið 1995, eftir fimm hundruð ára dvala eldfjallsins. Strax var ljóst að allur suður helmingur eyjarinnar var í hættu, og þar á meðal höfuðborgin Plymouth, með um 4000 íbúa. Ég snéri aftur til Montserrat árið 1996, en þá var hafinn mikill flótti íbúanna frá eynni. Gosið hélt áfram, en það var með þeim hætti, að mjög seig hraunkvika kreistist upp úr gosopinu og myndaði stóran hraungúl efst á fjallinu. Montserrat 1997Öðru hvoru hrundu stór björg úr hraungúlnum og mynduðu glóandi heitar skirður eða gjóskuflóð niður brattar híðarnar. Árið 1997 hrundi mikill hluti hraungúlsins sem hafði safnast fyrir ofan á gígnum, og myndaði það stórt gjóskuflóð sem drap 19 manns. Skömmu síðar var um 80% af byggðinni í Plymouth eyðilögð af gjóskuflóðum og borgin þá yfirgefin fyrir fullt og allt. Árið 1998 starfaði ég við rannsókn á hafsbotninum umhverfis Montserrat. Yolanda WoodberryÍ þeim leiðangri kom ég við á nágrannaeynni Antigua. Þar hitti ég fyrir tilviljun svörtu listakonuna Yolanda Woodberry sem býr þar. Við ræddum um gosið og hún sagðist hafa glóandi fjallið fyrir augunum daglega, og væri byrjuð að mála gosið. Þannig eignaðist ég olíumálverkið af gosinu í Soufriere Hills eftir Woodberry, sem hangir uppi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, og er hér til hliðar. Myndin sýnir eldvirknina að nóttu til, þar sem glóandi heitir og eldrauðir straumar af grjóti og ösku streymir niður hlíðarnar, þegar hraungúllinn hrynur. Ljósmyndin hér fyrir neðan sýnir samskonar fyrirbæri. Á daginn sést glóðin lítt eða ekki, þar sem gjóskuflóðin hylja hlíðarnar og fela glóðina. Soufrier Hills heldur áfram að gjósa, og í gær fór gjóskustrókurinn í 16 km hæð og gjóskufall truflaði flugsamgöngur í Karíbahafi.Soufriere Hills á nóttinni

Jarðskjálftar undir Arnarvatnsheiði

JarðskjálftarUndanfarna daga hefur verið í gangi fremur óvenjuleg jarðskjálftahrina undir Arnarvatnsheiði, vestan Langjökuls. Þetta eru litlir skjálftar, og á takmörkuðu svæði á Tvídægru heiði. Eins og myndin frá Veðurstofu Íslands sýnir, þá eru skjálftaupptökin rétt við brotalínu eða misgengi sem liggur aust-norð-austur um Arnarvatnsheiði. Þetta er nokkuð óvenjuleg stefna á misgengjum á Íslandi, en gæti hugsanlega verið tengt Snæfellsnes beltinu fyrir vestan.  Árið 2001 varð einnig jarðskjálftahrina á svipuðum slóðum, en eilítið vestar.  Enn meiri virkni varð hér á þessum slóðum árið 1974, eins og Páll Einarsson hefur ítarlega fjallað um. Það verður því fróðlegt að fylgjast með þessarri skjálftavirkni næstu daga. Yfirlit yfir jarðfræði svæðisins er sýnt á seinni myndinni, og upptök skjálftanna eru flest innan rauða hringsins.  Svarta brotna línan er stefna misgengja. Jarðmyndanir á svæðinu þar sem skjálftarnir gerast eru aðallega blágrýrismyndun frá lokum Tertíera tímans.  ArnarvatnsheiðiUm 20 km austar er Hallmundarhraun, sem rann sennilega skömmu eftir Landnám eða eftir árið 900, samkvæmt aldursgreiningu Kristjáns Sæmundssonar og Hauks Jóhennessonar. Það er talið eina hraunið sem hefur runnnið í Vesturgosbeltinu (Langjökull og gosbeltið suður að Þingvallavatni) síðan land byggðist, en Hallmundarhraun rann úr þremur gígum við vesturbrún Langjökuls. Þetta basalthraun er um 50 km á lengd og nær yfir um 205 ferkílómetra, en rúmmál þess er 3,4 rúmkílómetrar.  Hæget er einnig að fylgjast með skjálftavirkni á Arnarvatnsheiði með því að skoða gögn úr skjálftamæli Jóns Frímann hér  http://www.jonfr.com/

Surtsey Miðjarðarhafsins var Ferdinandea árið 1831

Sikileyrarsund og FerdinandeaÁrið 1831 hófst eldgos í sjó í Miðjarðarhafi, um 50 kílómetrum fyrir sunnan Sikiley. Þessi atburður hafði merkileg áhrif á milliríkjamál Evrópuveldanna, og einnig beinlínis á þróun eldfjallafræðinnar. Þetta var gosið í Ferdinandeu, eða Graham Island, eða Giula, eða í eynni sem hvarf, en þetta neðansjávareldfjall hefur langa sögu. Á dögum Púnverjastríðsins (264 til 241 fyrir Krist) er fyrst getið um eldgos í hafinu fyrir sunnan Sikiley. Síðan hefur eyja risið og horfið í hafið aftur á þessu svæði fjórum eða fimm sinnum, og síðast á sautjándu öld. Sökum þess hlaut eyjan dularfulla nafnið “L´isola che non c´é piu” eða eyjan sem er ekki lengur. Ferdinandea er staðsett á hafsbotni í Sikileyjarsundi, milli Sikileyjar og Túnis, eins og kortið fyrir ofan sýnir. Hér í næsta nágrenni er eldfjallseyjan Pantelleria og einnig eyjan Linosa.  Ferdinandea bretannaHér er það sem við vitum um gang mála árið 1831:28. júní 1831: Breska herskipið HMS Rapid var statt undan suður strönd Sikileyjar, þegar skipið hristist og skalf í miklum jarðskjálfta og áhöfnin heyrði sprengingar sem þeir töldu vera eldgos.19. Júlí 1831: HMS Rapid nálgast svæðið og Kapteinn Swinburne og áhöfn hans sjá gos í hafinu, uppúr gíg sem er aðeins nokkrir metrar fyrir ofan sjávarborð. júlí 1831: Frakkar frétta af gosinu og senda jarðfræðinginn Constant Prevost og listmálarann Edouard Joinville til eyjarinnar og gefa eynni nafnið Giulia, þar sem hún var uppgötvuð í júlí. Um þetta leyti heimsækir rithöfundurinn Sir Walter Scott eynna.1. ágúst 1831: Sjóliðar af breska herskipinu St Vincent lenda á eynnit til landmælinga. Einnig koma herskipin Ganges, Hind, og Melville við á eynni í ágúst og gefa bretar henni nafnið Graham Island, í höfuð á fyrsta lávarði breska flotans, Sir James Graham.Þá var eyjan um 50 metrar á hæð. Þeir reisa stöng með breska fánanum á hæsta toppnum.6. ágúst 1831: Breska herskipið St Vincent er enn við eldeynna. Einn af áhöfninni teiknaði gosið, og eftir þeirri teikningu var gerð eirstunga af R. Ackermann. Sú mynd er til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, en hún er sýnd hér fyrir ofan. 17. ágúst 1831: Konungur Sikileyjar og Napólí, Ferdinand II sendir freigátuna Etnu gefur eynni nafn sitt, Ferdinandea, lætur fjarlægja breska fánann og reisa sinn fána upp á eynni. Ítölsk eirstunga af gosinu var gerð á þessum tíma, með titlinum “Isla Volcanica”, og er hún einnig sýnd í Eldfjallasafni í Stykkishólmi og sést hér fyrir neðan. Ferdinandea ítalannaUm þetta leyti sýna spánverjar eynni einnig áhuga og hyggjast nema land. 17. december 1831: Tveir sjóliðar í þjónustu konungs Sikileyjar og Napólí leita eyjarinnar en finna ekki. Öldur hafsins hafa brotið hana alveg niður og eftir eru aðeins grynningar. Það er greinilegt að Evrópuveldin höfðu mikinn áhuga á eynni, og hann var ekki vísindalegur, heldur tengdur ástandi þjóðmála innan Evrópu. Á þessum tíma gekk mikil byltingaralda yfir Evrópu, og íhaldssömum kóngum eins og Karli X í Frakklandi, var steypt af stóli af lýðræðissinnum, frjálslyndum og byltingarseggjum. Það var mikil ólga enn í álfunni eftir Napóleonsstyrjaldirnar. Miðjarðarhafið var hernaðarlega mikilvæt. Eyja í miðju hafinu, mitt á milli Möltu (sem var bresk), Spánar og Frakklands gat verið mjög mikilvæg fyrir breska heimsveldið, sem vildi ráða ríkjum í höfum heims á þeim tíma. En konungsríki Bourbonans, Ferdinands II, Sikiley og Napólí, varð fokreitt þear bretar helguðu sér eynna, og brugðu skjótt við. Það var viðeigandi að Ferdinand II sendi freigatuna Etnu á staðinn, lét fjarlægja breska fánann og reisa fána sinn á eynni og gefa henni ítalsk nafn: Ferdinandea. Til allrar hamingju hvarf eyjan fljótlega, en annars hefði sennilega komið til alvarlegra átaka hér. Það voru önnur átök sem áttu sér stað um Ferdiandeu á þessum tíma, en þau voru milli vísindamanna um upruna eldfjalla. Í byrjun nítjándu aldar var í gangi mikil deila um uppruna eldfjalla sem landslagsmyndunar eða landforms. Hvernig mynduðust þessi einstöku, háu og bröttu fjöll? Hér voru tvær kenningar ríkjandi. Önnur var Upplyftingarkenningin (Erhebungstheorie), sem var einkum ríkjandi í Þýskalandi og Frakklandi. Samkvæmt henni myndast eldfjöll sem einskonar bóla eða bunga, þar sem þrýstingur neðan frá lyftir upp jarðskorpunni. Frumkvöðull kenningarinnar var sjálfur Alexander von Humboldt, en þekktustu fylgisveinar hans voru Leopold von Buch og Elie de Beaumont, og einnig Charles Darwin. Hin kenningin var sú, að eldfjöll myndist vegna þess að hraun og gjall hleðst upp umhverfis gíginn eða gosrásina. Þeir sem einkum fylgdu þeirri kenningu, sem má kalla Goskenninguna, voru bretarnir Poulett-Scrope, Charles Lyell, og frakkinn Constant Prevost.Þegar Ferdinandea gaus, þá var greinilegt að eyjan hlóðst upp smátt og smátt, við það að öskulög lögðust hvert ofan á annað og þannig smáhækkaði hún. Upplyftingarkenningin var dauð eftir þetta gos. Eins og myndirnar sýna, þá var gosið nauðalíkt Surtseyjargosinu árið 1963. Hér var það aftur samspil kviku og vatnsins sem orsakaði sprengingar, alveg eins og í Surtsey og reyndar einnig í Grímsvötnum.

Guðmundur Einarsson frá Miðdal málar Grímsvatnagos 1934

Grímsvatnagos 1934Eitt fyrsta gosið sem kannað var í Grímsötnumí Vatnajökli var árið 1934, en þó hefur þessi eldstöð gosið í margar aldir. Þá fóru þeir Guðmundur Einarsson frá Miðdal og Jóhannes Áskelsson, jarðfræðingur, þangað og fundu þeir eldstöðvarnar við norður brún Grímsfjallss. Jóhannes gaf fyrstu lýsingu á gosinu í grein árið 1936 í riti Vísindafélags Íslendinga og færði rök að því, að þarna væru hin einu og sönnu Grímsvötn, sem áður voru kennd sagnablæ. Gosið í apríl 1934 stóð yfir í meir en tvær vikur, en þar voru þrír gígar virkir innan öskjunnar og eyja myndaðist í Grímsvötnum. Um Grímsvötn og Grímsvatnagos hefur verið ítarlega fjallað af Magnúsi Tuma Guðmundssyni og félögum á vefsíðunni http://www.jardvis.hi.is/page/jhgrimsvotn Guðmundur frá Miðdal hefur orðið fyrir miklum áhrifum af ferð sinni inn á jökulinn og af gosinu sem blasti við þeim Jóhannesi. Mér er kunnugt um tvö olíumálverk sem Guðmundur hefur málað af gosinu, ssennilega á staðnum. Annað þeirra er mynd í eigu Listasafns Íslands, sem er sýnd hér fyrir ofan, en hún hefur lengi hangið uppi í skrifstofu á Ríkisútvarpinu. Það má nú sjá þessa mynd á Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Þetta er einstaklega kraftmikil mynd og nær mjög vel stemmningunni í sprengigosi. Grímsvatnagos GlitnirHún er sögulega mikilvægt verk, sem lýsing og túlkun listamanns af náttúruhamforum sem hann var vitni af. Gígurinn þeytir upp brúnni og svartri ösku og vikri upp úr jöklinum af miklum krafti, en bólstrar af gufu blandinni brúnni ösku bólgna upp í kringum strókinn. Hér er mynd gerð af listamanni sem varð vitni af atburðinum, og myndin er þess vegna skemmtileg andstæða við mynd Finns Jónssonar af Surtseyjargosi, sem ég sýndi og bloggaði um hinn 27. desember 2009. En sennilega sá Finnur ekki eldgosið sjálfur. Guðmundur málaði aðra mynd af Grímsvatnagosinu 1934 og hún er einnig sýnd hér. Sú mynd er olíumálverk sem er eða var í eigu Glitnis (nú Íslandsbanki). Hér er Guðmundur fjær eldstöðvunum, og myndin er meira færð í stílinn. Strókurinn uppúr gígnum er glóandi, og gjóskuskýið myndar reglulegri bólstra en í hinni mynd Guðmundar. Jökullinn er mikið sprunginn og brotinn í forgrunni. Litavalið er allt annað hér, og myndin er ekki nærri því eins dramatísk og sú fyrri. Hún er fremur vinaleg, með roða sólsetursins umhverfis gjóskuskýið, en ekki ógnandi, eins og fyrri myndin. Grímsvatnagosið 1934 var sprengigos vegna þess að kvikan kom upp undir jökli. Ef gosið hefði gerst  á auðu landi, utan jökulsins, hefði runnið basalt hraun. Þannig er Grímsvatnagos náskylt Surtseyjargosinu 1963 og öðrum gosum, þar sem kvikan leitar upp í vatn eða undir bráðinn ís.  Áhrif heitrar kvikunnar á vatnið er suða og breyting í gufu sem þenst út og tætir sundur kvikuna í sífelldum og miklum sprengingum, sem mynda ösku og gjall.  Grímsvatnagos og Surtsey hafa á þennan hátt kennt okkur mikið um myndun móbergs á Íslandi. 


Ásgrímur og Eldgosin

SkjaldbreiðurFyrsti íslenski listmálarinn sem reyndi í alvöru að mála eldgos var Ásgrímur Jónsson. Við sýnum þrjár myndir efir hann í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, sem fylgja hér með, en þær eru frá Listasafni Íslands. Í skrá Listasafns Íslands eru samtals 2082 verk talin eftir Ásgrím Jónsson. Þar af eru að minnsta kosti þrjátíu og fimm verk sem eru beinlínis af eldgosum eða áhrifum þeirra. Í viðbót eru allmargar landslagsmyndir eftir hann af eldfjöllum, einkum af Heklu og Öræfajökli, en myndin hér fyrir ofan er af Skjaldbreið frá 1922. Þannig hafa eldgos og eldfjöllin átt ótrúlega ríkan þátt í myndsköpun Ásgríms.  Flótti frá EldgosiÞað er merkilegt að eldgosamyndirnar voru flestar gerðar á tveimur tímabilum. Það fyrra var frá um 1904 til 1908, og síðar á árunum 1945 til 1955. Ásgrímur Jónsson (1876-1958) hefur lengi verið talinn meðal ágætustu málara Íslands. Reyndar er ferill hann ævintýri líkastur, en hann fæddist á bænum Rútsstaðahjáleigu í Flóanum. Sagan segir að hann sá Heklu gjósa þegar hann var tveggja ára og mundi alla ævi eftir eldglæringunum. Það getur nú ekki verið rétt, þar sem Hekla gaus 1845, 1913 og 1947. Katla gaus 1918, Eyjafjallajökull 1823, svo það er ekki ljóst hvaða gos Ásgrímur kann að hafa séð, ef nokkur, en auðvitað hefur hann heyrt mikið talað um fyrri eldgos, einkum Heklugosið 1845 og Skaftárelda 1783.  Skaftáreldar eftir ÁsgrímHann byrjar sem fátækur bóndasonur og sjómaður, og heldur út til Danmerkur til að helga sig listinni. Fyrst vann hann á verkstæði og málaði húsgögn en síðar fer hann í nám í Konunglega listaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1899. Hann kynnist einnig listinni í Þýskalandi á þessum tíma. Hann komst alla leið suður til Ítalíu árið 1908 og málaði þar sínar fyrstu eldgosmyndir. Er hann snýr aftur heim 1909 hjálpar hann Íslendingum að sjá land sitt í nýju ljósi, og hann verður fljótt af einum mestu jötnum íslenskrar listasögu, og fyrsti málarinn sem gerði myndlistina að aðalstarfi hér á landi. Einnig var hann virkur kennari og Jóhannes Kjarval var í tímum hjá Ásgrími. Naturalismi og raunsæisstefna eru efst í myndsköpun hans, en það er oft rætt um að Ásgrímur hafi fengið stíl sinn að hluta til frá franska málaranum Jean-Baptiste-Camille Corot (1796-1875). Corot var frægur landslagsmálari af Barbizon skólanum, og er oft talinn forfaðir Impressionismans. Þekktasta eldgosamynd Ásgríms er kölluð Flótti undan Eldgosi, og er máluð frá um 1945 til 1950 (LI-AJ-0017). Tveir menn eru á ferð með hesta og mikill jarðeldur er í bakgrunni. Eru þeir á flótta undan hrauninu í Skaftáreldum? Ásgrímur gerði tvær vatnslitamyndir af eldgosum þegar hann var á ferð á Ítalíu 1908. Mörg eru eldfjöllin á Ítalíu, og Vesúvíus þeirra frægast.  Hann gaus 1906 og hefur enn verið rjúkandi ef Ásgrímur fór þar um. Önnur vatnslitamyndin (LI-ÁJ-527, Eldgos) sem var gerð á Ítalíu árið 1908 er vafalítið byggð á hugmynd Ásgríms um Skaftárelda og þann fræga atburð þegar séra Jón Steingrímsson hélt eldmessuna hinn 20. júlí 1783 sem sagan segir að hafi stöðvað framrás Skaftáreldahrauns og þar með bjargað Kirkjubæjarklaustri. Það er heilmargt að gerast í þessarri vatnslitamynd og mikil hreyfing. Söfnuðurinn stendur óttasleginn við kirkjudyrnar. Séra Jón er hempuklæddur og með bíblíuna undir hendi. Bláklædd kona í skautbúningi stendur í kirkjudyrum og ber hönd að enni, eins og það sé að líða yfir hana. Allir horfa til fjalls, þar sem eldar geisa, væntanlega frá Lakagígum. Mér finnst hin vatnslitamyndin sem var gerð á Ítalíu 1908 (LI-ÁJ-403 Eldgos) vera besta gosmyndin hans Ásgríms og sú djarfasta. Eldský rís yfir fjallinu, og furðulegir bjartir geislar stafa frá því til himins. Snævi þakin sléttan skilur eldfjallið frá fólkinu í forgrunni. Konur með skuplur eða klúta bundna yfir höfuð halda á ungum börnum, og allir stara í áttina til eldfjallsins. Ég hef sett fram hér aðeins nokkra púnkta varðandi eldgosamyndir Ásgríms, en áhugi hans á eldgosum og túlkunin sem kemur fram í myndum hans er mikilvægt verkefni sem er verðugt fyrir listfræðinga að kanna frekar.Eldgos eftir Ásgrím

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband