Færsluflokkur: Menning og listir

Erindaflokkur Eldfjallasafns um Grænland er að hefjast

Haraldur go RAXNæsta laugardag, hinn 29. september, hefst nýr erindaflokkur í Eldfjallasafni í Stykkishólmi kl. 14, og heldur áfram alla laugardaga í október. Aðgangur er öllum ókeypis. Auk mín mun Ragnar Axelsson flytja erindi. Grænland hefur verið mikið í fréttum undanfarið og af nógu er að taka varðandi efni til umfjöllunar: bráðnun Grænlandsjökuls, hopun hafisins umhverfis Grænland, mikil auðæfi í jörðu á Grænlandi og olíuleit á hafsbotni umhverfis, tengsl Grænlands við uppruna heita reitsins sem nú er undir Íslandi, söguna um elsta berg á jörðu, sem finnst á Grænlandi, landnám íslendinga á Grænlandi. Ragnar Axelsson hefur kannað Grænland í meir en tvo áratugi og ljósmyndir hans þaðan eru heimsþekkt listaverk. Hann mun segja okkur frá sýn sinni af Grænlandi og íbúum þess í vel myndskreyttu erindi hinn 6. október.

Hneykslið um Náttúruminjasafn Íslands

Í öllum menningarlöndum eru náttúrufræðasöfn og vísindasöfn mikilvægur þáttur í menningarstarfsemi þjóðar. Þau eru einn meginn tengiliðurinn milli hins forvitna almennings og vísindamanna eða sérfræðinga, sem vilja veita fólkinu fróðleik og aðgang að furðum og dásemdum vísindanna. Á Íslandi er náttúruminjasafni svo lítið sinnt að það er reyndar þjóðarskömm. Ef til vill er þetta ástand aðeins ein sönnunin í viðbót að íslensk stjórnvöld virðast ekki telja vísindi vera hluta af menningarstarfsemi. Að nafninu til og samkvæmt lögum eigum við þrjú svokölluð höfuðsöfn: Þjóðminjasafn, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands. Vel hefur verið hlúið að Þjóðminjasafni, sem er með um 50 starfsmenn og veglegt húsnæði. Einnig fer nokkuð vel um Listasafn Íslands með um 17 starfsmenn. Hins vegar virðist nú búið að gefast upp með hugmyndina um Náttúruminjasafn Íslands, sem hafði tvo starfsmenn og hafði reyndar ekkert opið sýningarsvæði. Nú hefur verið ákveðið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu að skipa ekki í stöðu safnstjóra Náttúruminjasafns Íslands. Þar með er safnhugmyndin komin í algjöran dvala. Tilkynning um þetta efni barst út á netinu nú í vikunni frá fyrrum safnstjóra, en það vekur furðu að ekkert hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum. Það er því vel þess vert að rifja upp dálitla sögu. Árið 1947 færði Hið Íslenska Náttúrufræðifélag ríkinu að gjöf mikið safn af gripum og skjölum sem félagið hafði eignast. Þetta var kjarninn að Náttúrugripasafni Íslands, sem fyrst var til húsa í Safnhúsinu á Hverfisgötu og síðar lengi inni á Hlemmi í Reykjavík, þar til því var endanlega lokað vorið 2008. Á meðan hafði starfsemi þróast þannig að Náttúrufræðistofnun Íslands var mynduð og heyrir hún undir umhverfisráðuneyti. Virðist svo sem að sú stofnun hafi haldið nær öllum gripum þeim sem fyrrum voru í vörslu gamla Náttúrugripasafnsins og einnig starfsmönnum. En nú byrjar vitleysan. Árið 2007 voru gerð lög um Náttúruminjasafn Íslands, sem heyrir undir menntamálaráðherra. Þetta átti að verða eitt af þremur höfuðsöfnum þjóðarinnar. Á meðan hefur Náttúrufræðistofnun blómgast, en nær ekkert var hafist að við uppbyggingu Náttúrufræðasafns Íslands. Safneign Náttúrufræðistofnunar er hins vegar orðin mikil. Nú eru til dæmis talin rúmlega 260 þúsund tegundasýni í dýrasafni þess, steina- og steingervingasafnið hefur að geyma um 30 þúsund sýni, borkjarnasafnið geymir um 20 þúsund lengdarmetra af borkjörnum og í plöntu- og sveppasöfnum Náttúrufræðistofnunar Íslands eru samtals um 160 þúsund eintök af íslenskum plöntum. Auk þess var Náttúrufræðistofnun falið í lögum frá 1993 að varðveita náttúrugripi, ritsmíðar og önnur gögn í vísindalegum heimildasöfnum og byggja upp aðgengilegt gagnasafn með sem fyllstum heimildum um íslenska náttúru. En þótt Náttúrufræðistofnun hafi verðmætt safn íslenskrar náttúru, þá er hér ekki safn sem almenningur hefur aðgang að, né sýningarsalir og annað húsnæði sem gera kleift að flytja boðskapinn og upplýsingar um íslenska náttúru til skólabarna, áhugamanna og alþýðu. Það er fyllilega ljóst að stjórnvöld hafa algjörlega klúðrað þessu máli og gert stór mistök í skipulagningu við myndun á þessum tveimur stofnunum. Önnur þeirra er virk og blómgast, en hin er nú nær dauð. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Náttúruminjasafnið uppfyllir hvorki lögbundnar skyldur sínar sem safn né höfuðsafn.
Ef Ísland ætlar að státa af því að vera menningarland í nútíma skilningi, þá er greinilega þörf á því, enn einu sinni, að skapa heilsteypta stefnu um náttúruminjasafn, eða sambærilega stofnun sem myndar tengilið milli vísindanna og almennings og miðlar vísindaþekkingu. En það er alls ekki ljóst að hefðbundið náttúruminjasafn sé lausnin, þar sem fjallað er um öll eða flest svið náttúrunnar. Ef til vill er skynsamara að skapa sérhæft safn, sem vísar til sérstöðu íslenskrar náttúru og umhverfis okkar. Hér á ég einkum við eldfjöllin, loftslagsbreytingar, hafið og jökla. Við þurfum safn þar sem börn, erlendir ferðamenn og aðrir gestir verða hrifin af sérstökum og oft einstökum þáttum íslenskrar náttúru, og sækja sér frekari fróðleik um mikilvæga þætti í umhverfi okkar.
Ég hef áður fjallað um klofninginn milli vísinda, lista og annara þátta menningar, og má lesa um það hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1092887/ Við verðum að efla þátt vísindanna í menningarþjóðfélagi okkar, og styrkja tengslin milli almennings og vísindastofnana, eins og söfn geta gert best.

Erindi um Hveri á Hafsbotni

Hver á hafsbotniNæsta erindi í Eldfjallasafni fjallar um hveri á hafsbotni í grennd við Nýju Gíneu í Suðurhöfum. Hér á 1700 metra dýpi er hitinn 306 stig og svartur mökkur streymir upp úr hverunum, með mikið magna af gulli. Einstakt lífríki þróast umhverfis hverina í dýpinu.  Laugardaginn 5. maí 2012, kl. 14, aðgangur ókeypis.

Frægir jarðfræðingar í stjórnmálum

Herbert Hoover jarðfræðingurNú berast fréttir þess efnis að jarðfræðingur hyggist bjóða sig fram til forsetakjörs. Áður en við byrjum að fárast yfir því að maðurinn er hvorki hagfræðingur né lögfræðingur, sem eru hinar hefðbundnu leiðir inn í pólitíkina á Íslandi, þá skulum við líta á nokkra fræga stjórnmálamenn sem byrjuðu “bara” sem jarðfræðingar. Einn sá þekktasti var forseti Bandaríkjanna frá 1929 til 1933, Herbert Hoover.  Mynd af honum er hér til hliðar. Hann hlaut jarðfræðimenntun við Stanford háskóla í Kaliforníu árið 1895 og starfaði sem jarðfræðingur við námurekstur bæði í Ástralíu og í heimalandi sínu. Bók hans as Principles of Mining er fræg kennslubók á þessu sviði. Einnig þýddi hann og gaf út merka bók eftir Georgius Agricola: De re metallica, sem enn er á prenti. Hoover var repúblikani, en aðeins átta mánuðum eftir að hann tók við embætti forseta varð algjört efnahagshrun og kreppan mikla í Ameríku. Af þeim sökum tapaði hann kosninu árið 1933 fyrir demókratanum Franklin D. Roosevelt. Herbert Hoover hefur ávalt verið talinn versti forseti Bandaríkjanna. Bandaríski hershöfðinginn Colin Powell útskrifaðist frá New York háskóla með jarðfræðigráðu en fékk aðeins “C” á lokaprófinu. Ekki varð mikið úr jarðfræðistörfum hans og snéri hann sér að herþjónustu í staðinn. Lengi var talið að hann yriði forsetaefni repúblikana en svo fór ekki eftir hrakfarir hans í Írak. Jarðfræðingurinn Emil Constantinescu varð forseti Rúmaníu frá 1996 til 2000. Hann var prófessor í jarðfræði við háskólann í Búkarest. Um tíma stýrði hann áróðri fyrir kommúnistaflokkinn í Rúmaníu, en söðlaði síðan um, og tók virkan þátt í frelsisbaráttunni uppfrá því. Wen Jiabao forsætisráðherraAnnar merkur stjórnmálamaður er jarðfræðingurinn Wen Jiabao, núverandi forsætisráðherra Kína. Hann útskrifaðist frá Jarðfræðistofnun Beijing háskóla og hlaut mikinn frama innan jarðvísindanna í Kína. Hann hefur verið forsætisráðherra síðan árið 2002. Jiabao mun hafa rætt um varmaorku í jarðskorpunni við forseta Ólaf Ragnar Grímsson. Árin 1970 til 1974 starfaði ég í Vestur Indíum, og þá kynntist ég jarðfræðingnum Patrick Manning. Hann starfaði lengi við olíuleit í Trínidad, en varð síðan forsætisráðherra þar í landi árið 1991 og þar til 2010. Olía og jarðgas eru miklar auðlindir í Trínidad og hafði Manning mikil áhrif á nýtingu þeirra. Síðast en ekki síst skal getið Steingríms J Sigfússonar, en hann tók B.Sc.-próf í jarðfræði árið 1981 og starfaði um tíma við jarðfræðirannsóknir. Það er óðþarfi að rekja stjórnmálaferil hans, en hann hefur verið í einum eða öðrum ráðherrastól alltaf öðru hvoru frá 1988 til þessa árs.

Félagslegt Réttlæti

Getur þetta verið? Að Ísland sé á toppnum, hvað varðar félagslegt réttlæti í heiminum? Stofnunin Bertelsmann Stiftung hefur gert mikla könnun á ýmsum þáttum þjóðfélgagsins, sem varða félagslegt réttlæti í öllum 31 OECD löndunum. Þar lendir Ísland á toppnum og Tyrkland á botninum, eða númer 31. Hin Norðurlöndin eru að sjálfsögðu einnig nálægt toppnum. Hins vegar eru Bandaríkin mjög neðalega, númer 27, og er síðasta stórveldið lítið betra en Mexíkó, sem er númer 30. Hinis ýmsu þættir sem eru kannaðir eru fátækt (Ísland númer 4), menntun (1), atvinnuhorfur (1), jafnrétti (10) og heilsufar (1). Á einu sviði stendur Ísland sig mjög illa, og er mjög nærri botninum (númer 28). Það er á sviði skulda, en það eru skuldir sem næsta kynslóð verður ábyrg fyrir. Þar er Ísland í góðum félagsskap, með Grikklandi, Ítalíu og Japan. Sjálfsagt má deila um þær aðferðir, sem notaðar hafa verið til að mæla hina ýmsu þætti varðandi félagslegt réttarfar, en það kemur mér satt að segja mjög á óvart hvað Frón stendur sig vel í þessari könnun. Stórblaðið New York Times hefur tekið saman helstu þætti skýrslunnar, og set þá upp í myndformi, eins og sjá má hér fyrir neðan. Skýrsluna má lesa í heild sinni hér http://www.bertelsmann-stiftung.de/cps/rde/xchg/SID-7475996A-0738890B/bst/hs.xsl/nachrichten_110193.htm  29blow-ch-popup-v2

Útibú Eldfjallasafns í Arion banka

Hinn 5. maí 2011 flutti ég fyrirlestur í Arion banka í Reykjavík um eldgos og áhrif þeirra á viðskifti.  Í því sambandi var sett upp sýning á um tuttugu listaverkum úr Eldfjallasafni í anddyri bankans.  Það eru flest verk sem ekki hafa verið sýnd áður í Eldfjallasafni í Stykkishólmi vegna takmarkaðra húsakynna safnsins.

Eldur Niðri fær fimm stjörnur!

FréttatíminnHinn 13. maí 2011 birtist grein í Fréttatímanum, bls. 44, sem fjallar um bók mína, Eldur Niðri. Það er óneitanlega fróðlegt og forvitnilegt fyrir höfund að lesa hvað öðrum sýnist um verk hans.  Ég er alveg sáttur við að fá fimm stjörnur hjá Páli Baldvin Baldvinssyni.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Santorini og Atlantis á BBC TV

BBC TVÉg tók þátt í gerð heimildarmyndar fyrir sjónvarp um stórgosið á Santorini eyju í Eyjahafi á bronzöld, og uppruna þjóðsagnarinnar um meginlandið horfna, Atlantis.  Leikna útgáfan af myndinni ber nafnið Atlantis - End of a World. Birth of a Legend.  Myndin verður endursýnd næsta sunnudag 8. maí kl. 21 á BBC One.  Einnig verður heimildamynd okkar um Atlantis: The Evindence, sýnd 9. maí, mánudag, kl. 19 á BBC Two. Ég er staddur á Santorini þegar þetta er ritað.


Mandela og Washington gátu það

nelson mandelaÞað er mikið rót í löndum Norður Afríku þessa dagana  og líkur á að nýir menn og nýjar stjórnir taki þar völd víða að loknum byltingum.   Hver er reynslan af byltingum yfir leitt? Það er eitt að hrinda af stað byltingu, en svo allt annað mál að stjórna á farsælan hátt á eftir, og enn meiri vandi að leyfa lýðræði að koma á í landinu síðar.  Sagan segir okkur að nær allir forsprakkar byltinga hafi tekið einræðisvöld og haldið þeim lengi eftir byltingu. Lítum á Napóleon, Lenín og Castró sem nærtæk dæmi.  georgewashingtonEinræði er spillandi og algjört einræði er algjörlega spillandi, segir sagan okkur.  Ég held að þeir Nelson Mandela og George Washington séu einu forsetarnir sem stýrðu byltingum, en gáfu svo fljótlega völdin aftur í hendur lýðræðinu á virðulegan hátt. Þeir voru báðir heiðursmenn.  Vonandi koma aðrir slíkir fram á vettvanginn í Norður Afríku. 

 

 


Eldur Niðri kemur út!

Vulkan ehf og Eldfjallasafn í Stykkishólmi gefa út bókina Eldur Niðri eftir Harald Sigurðsson eldfjallafræðing.  Útgáfudagur er 10. apríl 2011.  Bókin er 336 síður, skreytt fjölda mynda. 

Vulkan ehf, Bókhlöðustíg 10,  340 StykkishólmiEldur Niðri  vulkan@simnet.is  Dreifing og pantanir: Árni Þór Kristjánsson  arsig@simnet.is    Sími: 862 8551 eða 841 1912

Úr bókarkynningu:  „Eldur Niðri lýsir ferli eins þekktasta vísindamanns Íslands, eldfjallafræðingsins Haraldar Sigurðssonar. Bókin er einstök heimild um uppeldi, sköpun og þróun jarðvísindamanns, sem hefur unnið brautryðjendastörf á rannsóknum á eldfjöllum víðs vegar um heiminn.  Hér fjallar Haraldur á hispurslausan hátt  um spennandi og oft lífshættuleg rannsóknaverkefni, um ástir, sigra, áföll og margt annað sem hefur gerst á nær fimmtíu ára ferli.  Í frásögn sinni kemur Haraldur til dyra eins og hann er klæddur, þegar hann greinir frá leiðöngrum sínum í Indónesíu, Ítalíu, Haítí, Vestur Indíum, Grikklandi, Afríku og víðar.  Brenndandi áhugi hans á leyndardómum jarðar kviknar á æskustöðvunum á Snæfellsnesi og leiðir af sér ævilangt ferðalag um flest stórvirkustu eldfjöll heims, þar til hann lokar hringnum með stofnun Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Eftir atburðaríkan feril við eldfjallarannsóknir um heim allan hefur Haraldur Sigurðsson frá mörgu að segja.”

Efnisyfirlit:

Réttlætingin .................................................... 7

Þingeyingurinn ................................................ 11

Oddur Val ...................................................... 35

Hjónin í Norska Húsinu ...................................... 47

Fyrstu minningar .............................................. 55

Áfallið ........................................................... 67

Táningur í Reykjavík .......................................... 75

Ameríkuferð hin fyrri ......................................... 81

Sumar á Sigöldu ............................................... 89

Námsárin erlendis ............................................. 95

Doktorsverkefnið .............................................. 105

Vestur Indíur ................................................... 113

Á sundi í eldfjallinu ........................................... 129

Neðansjávargígurinn Kick’em Jenny ........................ 139

Ameríkuferð hin síðari ........................................ 147

Kvikuhlaup ..................................................... 157

Aska á hafsbotni ............................................... 163

Vesúvíus og Pompeii .......................................... 175

Banvæn gjóskuflóð ............................................ 189

Gígvötnin í Afríku ............................................. 207

Tambora ....................................................... 215

Eldeyjan Krakatau ............................................ 249

Galapagos – Ísland framtíðar? ................................ 261

Loftsteinninn ................................................... 271

Vísindin og klofin menning .................................. 285

Erfiðir tímar .................................................... 291

Að duga eða drepast ........................................... 297

Eldfjallasafn .................................................... 317

Aðrar hliðar á lífinu ........................................... 327

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband