Færsluflokkur: Eyjafjallajökull

Skerin Vísa Veginn

Birgir V Óskarsson SkerinÍ gær lentum við með þyrlu á Skerjum í Eyjafjallajökli, skammt fyrir vestan hinn gjósandi toppgíg  eldkeilunnar. Það var stórfengleglegt að sjá gosmökkinn brjótast upp úr gígnum í návígi.  Lendingarstaðurinn er sýndur með litlum rauðum hring á kortinu til hliðar.  Stóri hringurinn sýnir virka gíginn. Skerin eru merkileg jarðmyndun.  Árið  2009 varði jarðfræðingurinn Birgir Vilhelm Óskarsson MSc ritgerð við Háskóla Islands um goshrygginn Skerin í vestur hluta Eyjafjallajökuls.  Það má margt læra af ritgerð hans sem snertir eldvirknina í eldkeilunni í dag, en ritgerðina er hægt að nálgast hér. 

 Það er til dæmis fróðlegt að bera saman efnagreiningar Birgis á gosefnum sem komu upp í Skerjum kringum 920 e.Kr. og efnagreiningum Níels Óskarsonar á öskunni sem nú gýs uppúr toppgíg Eyjafjallajökuls. Myndin til hliðar sýnir efnagreiningar Birgis, og ég hef sett inn rauðan hring þar sem nýja gjóskan fellur á plottið.   Kvika úr eldfjalli getur verið breytileg en innan vissra marka. Þannig er viss dreifing á efnasamsetningunni, en dreifingin fylgir oftast svipaðri stefnu gos eftir gos. Skerin og gjóskan 2010 Kvikan sem nú gýs er náskyld þeirri sem myndaði Skerin kringum 920, og fellur á  sömu  stefnu eða ferli í  línuritinu.  Það bendir til að nýja kvikan kann að koma úr sömu kvikuþró og var virk árið 920 eða alla vega af sama uppruna. 

Heldur var kuldalegt á Skerjum í gær. Norðan vindur, mikið frost og glerhált.  Gráar andesít og dasít klappir standa uppúr ísnum hér.  Annars er jökullinn alveg tandur hreinn hér vestan gígsins,  en aðeins austar byrjar brún rönd öskufallsins rétt við gígbrúnina. Aska hefur ekki enn borist til vesturs. Fyrir utan öskudreifina eru samt nokkrar djúpar holur í ísinn. Þar hafa “bombur” eða stórir og glóandi heitir steinar  kastast út úr gígnum og lent á jökulinn. Hér bræða þeir sig strax niður í ísinn og mynda holur.   Nú virðast gígarnir hafa sameinast í einn stóran gíg, og var nær stöðugt streymi af svörtum eða dökkgráum gjóskubólstrum  uppúr honum, sem risu strax upp í um 400  m hæð. Þá blandast gjóskan andrúmslofti og gufu, og breytist þá litur bólstranna í ýmis brún litaafbrigði, en þessir bólstar rísa síðan upp í allt að 3 til 4 km hæð áður en þeir berast til suðurs með norðanáttinni og demba ösku sinni niður yfir sveitina og út á sjó.  Ég þakka Reyni Péturssyni þyrluflugmanni fyrir frábært flug.


Fljúgandi Öskubakkinn og Galunggung Sprengigosið

Galungung 1982Askan sem berst frá Eyjafjallajökli til Evrópu minnir mig á atvik sem gerðist í Indónesíu hinn 24. júní árið 1982.  Þetta atvik er eitt hið allra frægasta í sögu flugsins, og markar tímamót í rannsóknum á dreifingu ösku í háloftum og áhrifum ösku á flugþotur.   Það var flug Speedbird 9  í  þotu af gerðinni Boeing 747 frá British Airways sem var á leið frá Kuala Lumpur í Malaísíu til Perth í Ástralíu.  Flugleiðin lá yfir vestur hluta eyjarinnar Jövu í Indónesíu, en um borð voru 240 manns.  Um nóttina flaug vélin óvænt  inn í öskuský frá sprengigosi í eldfjallinu Galunggung á Jövu, og var flugvélin þá um 150 km fyrir sunnan  eldfjallið.  Myndin til hliðar sýnir Galunggung gosið 1982.   Það drapst strax á öllum fjórum hreyflum þotunnar.  Án vélarafls getur Boeing 747 vél svifið í hlutfallinu 15 á móti einum, það er að segja að hún svífur áfram um 15 km fyrir hvern km sem hún hrapar, ef vel er haldið á spöðunum.  Áhöfnin reiknaði strax út að þeir gætu svifið í 23 mínútur og 169 km vegalengd frá þeirri 11,5 km hæð þar sem hreyflarnir stöðvuðust af völdum ösku. Hreyfill með öskugleri

Þá ávarpaði flugstjórinn Eric Moody farþegana og sagði þessi frægu orð:  “Ladies and gentlemen, this is your captain speaking. We have a small problem. All four engines have stopped. We are doing our damnedest to get them under control. I trust you are not in too much distress.”

Eftir hreyflalaust 4 km hrap, niður í  7,5 km hæð, þá tókst loks að starta einum hreyfli, rétt áður en vélin  var á hraðferð niður í 3,5 km há fjöllin í vestur Jövu. Þá tóku hinir hreyflarnir við sér hver af öðrum.  Moody tókst að lenda vélinni í Jakarta, höfuðborg Indónesíu, en hann varð að standa við lendinguna til að sjá út um framrúðuna, því hún var illa sandblásin af öskunni. Við rannsókn kom í ljós að askan hafði bráðnað inni í hreyflunum og myndað gler húð, sem lokaði fyrir streymi eldsneytis til hreyflanna og drap á þeim. Myndin til hliðar sýnir innri gerð eins hreyfilsins, með glerskáninni.  Síðar, þegar þotan var tekin úr umferð, fengu allir farþegarnir minjagripi sem voru partar úr vélinni, og þeir bera það hreyknir um hálsinn, sem minjagrip eftir flugið í "Fljúgandi öskubakkanum", eins og vélin var kölluð.  Eftir þennan atburð var mikil breyting á eftirliti með gjósku frá sprengigosum til að koma í veg fyrir endurtekningu á slíkum atburðum.

Ég bloggaði um þetta gos í Galunggung síðastliðinn janúar hér og einnig um þetta merkilega flug. 

 


Askan frá toppgíg efnagreind - hún er andesít!

Gosmökkur toppgígHvað er allt þetta svarta efni sem sést í gosmekkinum á myndinni?  Þetta er askan sem hefur verið að falla til jarðar á Mýrdalssandi og í Álftaveri og enn austar.  Níels Óskarsson hefur efnagreint samsetningu öskunnar sem nú gýs úr toppgíg Eyjafjallajökuls.  Efnasamsetning öskunnar sem kom upp 15. apríl  er andesít, sem einkennist af fremur háu innihaldi af kísil, eða um 57,5%.  Hún er því gjörólík kvikunni sem gaus á Fimmvörðuhálsi.  Efnagreinar þær sem Níels hefur gert má sjá hér      Þetta kemur nokkuð á óvart, og er kvikan sem nú gýs hvorki lík þeirri sem gaus árið 1821 eða lík basalt hrauninu sem byrjaði að gjósa í marz 2010 á Fimmvörðuhálsi.  Hins vegar getur hún hugsanlega verið blanda af þeim tveimur kvikugerðum. Þessar niðurstöður breyta öllu. Þessi efnasamsetning s´kírir hvers vegna askan er ekki svört, heldur aðeins brúnleit.  Nú er sennilegt að framleiðsla ösku sé ekki eingöngu vegna gufusprenginga (samspils heitrar kviku og bráðnandi jökuls), heldur geti sprengingarnar verið að hluta eða að mestu leyti vegna gasefna (vatns, koltvíoxíðs ofl.) sem berast upp með kvikunni.   Það kann að vera að þetta sprengigos sé blanda af báðum þessum kröftum: gufusprengingum sem orsakast af spili milli andesít kviku og bráðnandi jökuls, og einnig sprenginga vegna gas innihalds kvikunnar. Þá er ekkert víst að sprengingum linni þegar jökullinn í toppgíg er búinn.  Ef þetta er rétt, þá er þetta gos ef til vill það sem jarðfræðingar kalla phreatoplinian  eða phreatomagmatic gos.  (Eitt einkenni jarðfræðinga er það, að þeir hafa sérstakt nafn fyrir öll hugsanleg fyrirbæri í náttúrinni og hin aðskiljanlegu afbriði þeirra.)   Eitt er klárt:  askan er óvenjulega fíngerð, eins og púður eða duft.   Sem sagt:  sprengingar munu sennilega halda áfram þótt jökullinn í toppgígnum þverri,  og svo lengi sem þessi kvikutegund er fyrir hendi inni í Eyjafjallajökli.  Frekar hefur dregið úr jarðskjálftavirkni undir fjallinu, og óróinn er svipaður eða aðeins minni. Já, þar er rétt að bæta því við fyrir þjóðernissinnana, að andesít með hátt jarn innihald, einso gþessi kvika, er kallað icelandite, eða íslandít!  Hvað segja bretar um það?


Askan berst til meginlands Evrópu

NASA aska 15 aprílMyndin til hliðar er tekin frá einum gervihnetti NASA um hádegi í gær, 15. apríl. Þar má greinilega sjá öskudreifina frá gosinu í Eyjafjallajökli, eins og langa tungu sem teygir sig til austurs og austsuðausturs, þar sem hún sleikir strendur Bretlandseyja og Skandinavíu. Þótt öskufall sé mjög lítið, þá er askan útbreidd og mælitækin svo næm að útbreiðslan kemur vel fram. Tæknin er orðin ótrúleg!  Segið þið mér nú, kæru flugmenn:  er ekki hægt að leggja flugleið milli Evrópu og Norður Ameríku sem liggur framhjá öskuskýinu? Það litla sem fellur til jarðar af ösku á Mýrdalssandi er mjög fín aska, líkust hveiti. Hún er svo smákornótt eða fín að hún berst lítið til jarðar en dreifist með minnsta vindi til austurs.  Gufusprengingarnar sem eru nú í gangi í toppgíg Eyjafjallajökuls eru af því tagi sem mynda mjög fína ösku.  Það er alls ekki víst að vitneskja um svona gos varðveitist sem þekkjanlegt öskulag í jarðvegi.

Sjá frekar hér um þessa starfsemi NASA MODIS gervinhnattarins.  Ég er enn fastur undir Eyjafjöllum austan Markarfljóts, þar sem vegurinn er í sundur, en kemst vonandi vestur á bóginn nú eftir morgunmatinn.


Jökulhlaup í kvöld

Í dag fór ég austur til að kanna útbreiðslu öskufallsins frá gosinu í toppgíg Eyjafjallajökuls.  Komst yfir gömlu brúna á Markarfljóti, enda aðalvegurinn skorinn í sundur. Á ferð okkar um suðurland varð ösku ekki vart fyrr en komið var austur fyrir Vík í Mýrdal, og reyndar ekki fyrr en á Mýraldssandi og mest í grennd við Álftaver. Lítið um ösku á Kirkjubæjarklaustri.  Askan er mjög fín, eins og hveiti, dökk grá til svört á lit og fýkur auðveldlega.  Öskuskýið fer lágt með jörðu og berst með vestan áttinni sem hefur varið í nokkra daga.  Er þetta virkilega askan sem hefur lokað flugvöllum um alla norðanverða Evrópu?    Ferð okkar aftur til Reykjavíkur  var söguleg, því undir Eyjafjöllum bárust frétir af jökulhlaupi í vændum. Búið var að loka brúm á Markarfljóti, og við biðum hlaupsins á holnum fyrir ofan Seljaland. Hlaupið kom í ljós um kl. 8 um kvöldið. Það fór fremur hægt, seigfljótandi, með miklu magni af ískögglum i leðjukendum straumnum.  Við snérum við og héldum austur aftur, í leit að bændagistingu í sveitinni. 

Gosið í toppgíg Eyjafjallajökuls heldur áfram

Hlaup úr GígjökliEr það ekki furðulegt að engir jarðskjálftar hafa verið mældir síðan kl. 9 í morgun?  Hins vegar er órói á jarðskjálftamælum mjög mikill.  Til samanburðar var órói í gosinu á Fimmvörðuhálsi mestur um 1000 stig á mælinum á Goðabungu, en er nú um 2500 stig í gosinu sem er nýbyrjað í toppgíg Eyjafjallajökuls.  Mynd dagsins er frá því þegar hlaupvatn eða aur braust út undan Gígjökli, dökkbrúnt, leðjukennt og af svo miklum krafti að úði myndaðist. 

Nýtt gos í toppgíg?

órFregnir eru að berast af hugsanlegu gosi, jafnvel í toppgíg Eyjafjallajökuls. Órói rauk upp skyndilega í nótt á mælum Veðurstofunnar, eins og sjá má á myndinni til hliðar. Takið eftir breytingunni á línuritinu lengst til hægri.  Einnig kom upp jarðskjálftahrina undir fjallinu miðju. Í þriðja lagi var snögg breyting af rennsli í ánni sem kemur úr lóninu frá Gígjökli, en það er lónið sem ekið er hjá á leið í Þórsmörk.Rennsli hjá Gígjökli Myndin til hliðar sýnir þegar mælirinn fer út af skalanum skyndilega. Ef gosið er í toppgíg, þá er það sennilega nú að bræða jökulinn og ekki komið enn upp á yfirborð.

Er alveg að fjara út á Hálsinum?

Órói VeðurstofanHér með fylgir mynd sem sýnir óróa á Fimmvörðuhálsi, eða öllu heldur á jarðskjálftastöðinni á Goðabungu. Gögnin frá í dag eru lengst til hægri.  Nú er óróinn orðinn nokkurn veginn eins og hann var fyrir gos, sem sagt rói. Eru lok gossins að nálgast? Eða er því jafnvel lokið?  Ekki má gleyma því að eldgos geta tekið sig upp aftur. Einnig er vert að benda á að jarðskjálftavirkni er í lágmarki.  Einn skjálfti í dag og einn lítill í gær.  Skyggni er svo slæmt að ég sé ekkert marktakandi á vefmyndavélum. 


Brennisteinn frá Fimmvörðuhálsi Mældur úr Geimnum

 

Aura gervihnötturÁrið 2004 var bandaríski gervihnötturinn EOS-Aura settur á braut umhverfis jörðina. (Aura þýðir golan á latínu).  Nú mælir hann brennisteinslosun frá eldstöðvunum á Fimmvörðuhálsi.  Um borð í gervihnettinum er tæki sem mælir ýmsar lofttegundir í lofthjúp jarðar, þar á meðal brennisteinstvíoxíð, SO2. Hnötturinn er í 705 km hæð yfir jörðu. Mælingin er nákvæm,  en hver mæling nær yfir svæði sem er 13x24 km. Gervihnötturinn er yfir Eyjafjallajökli frá 1:30 til 2 :00 eh. á hverjum degi.  Ský trufla nokkuð mælinguna, en í heiðskýru veðri er hún frábær.  Daglegar mælingar yfir Íslandi má sjá á vefsíðunni hér.  Brennisteinn yfir ÍslandiMyndin til hliðar er frá 7. apríl, sem var heiðskýr dagur á Fimmvörðuhálsi.  Mælieiningin er Dobson Units (DU), sem er fjöldi mólekúla af SO2 á fersentimeter í gufuhvolfi.  Eitt DU er um það bil 0,0285 grömm af SO2 á fermeter.   Það verður fróðlegt að fylgjast með þessum daglegu mælingum, en auðvitað setur veðrið strik í reikninginn.


"Hvað er súr gúll?"

ÞversniðGK spyr um hinn svokallaða súra gúl undir Goðabungu. Fyrir nokkrum árum var mjög mikil skjálftavirkni undir Goðabungu, sem færðist hægt nær yfirborði. Ekkert gos varð, en sumir jarðvísindamenn telja að kvika hafi verið á ferðinni, og að þessi kvika hafi verið með hátt kísilinnihald, hátt SiO2. Sem sagt líparít kvika, eins og oft hefur komið upp í grennd við Kötlu. Ef sú kenning er rétt, þá er gúll eða stór blaðra af þessarri kviku undir Goðabungu. Ef til vill þarf lítið til að hleypa henni af stað í gos. Ef kvikuinnskot eða kvikuhlaup af heitri basalt kviku verður út frá "jólatrénu" undir Eyjafjallajökli, eins og ég hef sýnt á þversniðinu sem fylgir (upprunaleg mynd frá Jarðvísindastofnun), þá er hugsanlegt að gúllinn fari af stað og gos verði. En skjálftarnir undir Eyjafjallajökli eru nú fáir og smáir. Samt er sjálfsagt að taka allt inn í reikninginn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband