Askan berst til meginlands Evrópu

NASA aska 15 aprílMyndin til hliðar er tekin frá einum gervihnetti NASA um hádegi í gær, 15. apríl. Þar má greinilega sjá öskudreifina frá gosinu í Eyjafjallajökli, eins og langa tungu sem teygir sig til austurs og austsuðausturs, þar sem hún sleikir strendur Bretlandseyja og Skandinavíu. Þótt öskufall sé mjög lítið, þá er askan útbreidd og mælitækin svo næm að útbreiðslan kemur vel fram. Tæknin er orðin ótrúleg!  Segið þið mér nú, kæru flugmenn:  er ekki hægt að leggja flugleið milli Evrópu og Norður Ameríku sem liggur framhjá öskuskýinu? Það litla sem fellur til jarðar af ösku á Mýrdalssandi er mjög fín aska, líkust hveiti. Hún er svo smákornótt eða fín að hún berst lítið til jarðar en dreifist með minnsta vindi til austurs.  Gufusprengingarnar sem eru nú í gangi í toppgíg Eyjafjallajökuls eru af því tagi sem mynda mjög fína ösku.  Það er alls ekki víst að vitneskja um svona gos varðveitist sem þekkjanlegt öskulag í jarðvegi.

Sjá frekar hér um þessa starfsemi NASA MODIS gervinhnattarins.  Ég er enn fastur undir Eyjafjöllum austan Markarfljóts, þar sem vegurinn er í sundur, en kemst vonandi vestur á bóginn nú eftir morgunmatinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Undanfarna áratugi hafa "vísindamenn" verið að safna í gagnabanka upplýsingum um eldgos - hegðan þeirra og samsetningu -

Svo þegar næsta gos kemur - eins og núna - er eins og einhver hafi rænt þennan gagnabanka sem þjóðin er búin að leggja óhemju fé í . Allt kemur ykkur á óvart -

Hvað varð um allar upplýsingarnar - þekkinguna og reynsluna sem búið er að tala svo fjálglega um a.m.k. frá því í Eyjagosinu 73?

Ólafur Ingi Hrólfsson, 16.4.2010 kl. 07:15

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Mér er ekki ljóst hvað það er sem þú tleur koma okkur á óvart.  En auðvitað lærum við eitthvað nýtt af hverju gosi.  Eg mundi nú ekki samþykkja að "þjóðin sé búin að setja óhemju fé" í eldfjallarannsóknir.

Haraldur Sigurðsson, 16.4.2010 kl. 07:21

3 identicon

Sæll Haraldur, sem flugmaður ætla ég að reyna að bregðast við spurningu þinn.  Vandamálið er ekki sem slíkt að finna leið á milli Evrópu og N-Ameríku, heldur að finna einhvern af stærri flugvöllum Evrópu sem er opinn!  Í gær flaug ég annað af 2 millilandaflugum Icelandair, við vorum rétt tæpa 5 tíma frá Frankfurt til Keflavíkur sem er venjulega liðlega 3ja tíma flug, frá Frankfurt til suðvesturs, yfir norður Frakkland, út Bretagneskagann og síðan útá hafið vestur fyrir Írland og vinkilbeygja þar til Íslands.  Ég heyrði í Finnair á leið frá Helsinki til New York sem kom suður um Þýskaland og sömu leið og við útá hafið, hefur líklega lengt þeirra flug um a.m.k. 2 klst.

Hafið er stórt og ekki vandamál að taka á sig króka þar, t.d. þegar líður á daginn, eða næstu nótt, ættu flugleiðir að opnast yfir hafið um norðanvert Ísland og til Skandinavíu og norður Evrópu.  Með sama hætti finna menn leiðir um suðurhlutann, en vandamálið er fyrst fremst innanlandsloftrýmin í Evrópu sem loka aðkomu að flugvöllunum.

Ég hef ekki áður lent að á stórum hluta Atlantshafsins í gær voru bara 2 vélar á ferðinni, við og félagar okkar á leið frá Amsterdam.  Skrýtnir tímar, en smám saman mun flugheimurinn læra að lifa með þessu frá degi til dags.

August Hakansson (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 10:30

4 identicon

Vil þakka þér kærlega fyrir þetta frábæra blogg Haraldur. Tel nú að þið vísindamenn gegnið mjög mikilvægu starfi fyrir þjóðina og sé ekki eftir einni einustu krónu sem hefur farið í ykkar starf. Held líka að það sé alveg ljóst að vísindin hafa gert okkur kleift að sjá fyrir hugsanlega atburðarrás.

Hulda (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 10:30

5 identicon

Já, það gengur á ýmsu þessa dagana og jarðfræðilegir álitsgjafar búnir að leysa af hólmi peninglega. Er það vel. En hvar er kvikuhólfið Haraldur?  Okkur er sagt að kvika sé af tvennum toga. Annars vegar frumstæð basísk kvika sem eigi upprunna í kvikuþróm á mörkum möttuls og skorpu og hins vegar kvika megineldstöðva sem stoppi við í kvikuhólfum og "súrni" og þróist þar. Slík fjöll gjósi þá súrum eða ísúrum (sprengi)gosum. Ekkert hef ég séð kvikuhólfið undir Eyjafjallajökli. Er það á svona miklu dýpi eða eru þessi ferli flóknari en segir í kennslbókum?

Kv.

Kristinn

Kristinn Guðjónsson (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 11:14

6 identicon

Ég eina spurningu tengda þessu varðandi flugið. Gosin í Vatnajökli 1998 og 2004 voru þau annars eðlis en sprengigos? þ.e. var engin aska í þeim sem hafði svona víðtæk áhrif á flugumferð eins og gosið núna hefur.

Man vel að ég sá gosmökkin í desember 1998 úr Dölunum þaðan sem ég og er það þónokkur vegalengd frá Vatnajökli.

Eyjólfur (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 14:06

7 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Vandinn er sá. að þessi aska er óvenjulega fíngerð, eins og púður eða hveiti. Af þeim sökum berst askan víðar og bókstaflega fellur ítið eða ekki til jarðar á Fróni. Hún fer beint út yfir Atlantshafið og til Norður Evrópu.

Haraldur Sigurðsson, 16.4.2010 kl. 19:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband