Færsluflokkur: Eyjafjallajökull
Skjálftar að læðast í austur?
9.4.2010 | 13:58
Nýjasta ferðin á Fimmvörðuháls
9.4.2010 | 11:17
Eyjafjallajökull | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
haraldur i toppgir
6.4.2010 | 16:44
Útbreiðsla Hraunsins á Fimmvörðuhálsi
4.4.2010 | 13:49
Eyjafjallajökull | Breytt 5.4.2010 kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Gjóskustrókarnir sem dansa í gígunum á Fimmvörðuhálsi myndast vegna mikils gasútstreymis ásamt kvikunni sem er kringum 1200 stiga heit, eins og ég hef bloggað um hér.
En hvaða gas er þetta og hvert er magnið af gasi sem streymir hér út í andrúmsloftið? Það er eitt erfiðasta verkefni eldfjallafræðinga og jarðefnafræðinga að svara slíkum spurningum. Eins og sjá má af fréttamyndum, þá er ekki auðvelt og alls ekki hætulaust að komast að gjóskustrókum og ná í sýni af gasinu. Auk þess er kerfið svo dýnamískt eða breytilegt að gasið er að breytast mikið og blandast strax andrúmslofti á uppleið. Samt sem áður má koma með nokkuð gáfulegar getgætur um gasið og efnasamsetningu þess.
Þegar ég var ungur jarðfræðistúdent, þá starfaði ég á Atvinnudeild Háskólans, sem síðar varð Rannsóknarstofnun Iðnaðarins í grennd við Háskóla Íslands. Þar voru ágætir jarðfræðingar að störfum, svo sem Sigurður Þórarinsson, Þorleifur Einarsson, Tómas Tryggvason og Guðmundur E. Sigvaldason. Ég var aðstoðarmaður þeirra meðal annars í ferðum út í Surtsey, strax og hægt var að lenda á eynni eftir gosið sem hófst 1963. Meðal annars var unnið við söfnun og greiningu á gasinu sem kom upp úr gígnum og hrauni í Surtsey. Hér til hliðar er mynd af Guðmundi við sýnatöku á eynni. Oft var þetta hættulegt og erfitt starf vegna hitans og lofts sem blandað var miklu magni af brennisteinsgasi, en ég spyr: hvað gera menn ekki fyrir vísindin?
Með Guðmundi starfaði Gunnlaugur Elísson efnafræðingur. Árið 1968 birtu þeir félagarnir grein í vísindaritinu Geochemica and Cosmochemica Acta um gasið í Surtsey. Þetta var lengi ein merkasta vísindagreinin um eldfjallagas og Surtseyjargasið varð heimsfrægt --- meðal vísindamanna.
Gasið í kvikunni í Surtsey hefur eftirfarandi efnasamsetningu: 8090% H2O, 110% CO2, 24% SO2, 1.53% H2 0.10.7% CO, 0.10.9% H2S and 0.010.25% S2. Sem sagt: vatnsgufa er láng hæst. Ef til vill er hluti af henni þó kominn úr hafinu umhverfis, inn í möbergið sem myndar eynna, og sogast inn í kvikuna í gígnum. Koltvíoxíð virtist minnka þegar dró á gosið, eftir 1964 til 1967. En þessi efnagreining er ágæt til að sýna okkur hlutföllin milli hinna ýmsu gastegunda í kvikunni. Hins vegar segir þetta okkur ekki neitt um MAGN af þessum gastegundum í kvikunni eða heildarmagn gassins. Er gasið 1 eða 10% af þunga kvikunnar? Upplýsingar um slíkt hafa komið úr öðrum áttum frá öðrum eldfjöllum. Ein aðferð, sem ég hef sjálfur beitt mikið, er að efnagreina gastegundirnar í örsmáum glerdropum sem berast upp á yfirborðið innan í steindum eða kristöllum af ólivín, pyroxen eða feldspati í kvikunni. Hér fyrir neðan er ein mynd af slíku, tekin í gegnum smásjá, en þetta er grænleit pyroxen steind eða kristall frá gosinu í Tambora í Indónesíu árið 1815. Þarna má sjá fallega brúnleita glerdropa inni í kristallinum. Glerdroparnir voru áður kvikudropar, sem lokuðust inni í steindinni þegar steindin kristallaðist í kringum kvikudropann í kvikuþrónni fyrir gosið. Um leið og steindin kastaðist upp á yfirborð jarðar í gosinu fraus heitur kvikudropinn í gler við snögga kólnun. En glerdropinn varðveitir mjög vel gas innihald eins og það var í kvikunni á miklu dýpi. Síðan greinum við efnasamsetningu gler dropans með tæki sem nefnist örgreinir. Þannig höfum við greint til dæmis brennisteinsmagn kvikunnar sem barst upp í Skaftáreldum árið 1783 og mörg önnur gos frá eldfjöllum víðsvegar um heim. Slíkar greiningar sýna að úthafsbasalt (sem kemur upp við eldgos á úthafshryggjum eins og Mið-Atlantshafshrygg) inniheldur um 0.10.2 % H2O, um 0.01 til 0.1 CO2 (allar tölur eru prósent af þunga), og um 0.01 til 0.03 % SO2. Einnig er vottur af H2, HF og HC tegundum. Basalt sem gýs í eldfjöllum fyrir ofan sigbeltin á jörðu hefur allt annað gasinnihald. Þar er vatn til dæmis miklu hærra (H2O allt að 6 til 8 %). Enda eru gos í sigbeltunum miklu meiri sprengigos af þeim sökum. En kvikan á Fimmvörðuhálsi er alkalí ólivín basalt, og þvi hvorki lík úthafsbasalti né basalti sem gýs í sigbeltum. Hins vegar er hún svipuð og kvikan sem kemur upp í sumum eldfjöllum á Havaíí eyjum, og á eldfjallinu Loihi á hafsbotni rétt hjá Havaíí. Þar inniheldur kvikan 0.38 til 1.01 % H2O og 0.001 til 0.63% CO2. Einnig er kvikan í eldfjallinu Kilauea á Havaíí með um 0.65 % CO2. Ég álít að nýja kvikan á Fimmvörðuhálsi hafi því svipaða efnasamsetningu gastegunda og sú á Havaíí: Vatn um 1% af kvikunni, koltvíoxíð um 0.1%, og brennisteinsoxíð SO2 um 0.1% af þunga.
Við skulum þá líta á hvað mikið af gasi berst frá gosinu á Fimmvörðuhálsi út í andrúmsloftið, samkvæmt þessum ágizkunum um efnasamsetninguna. Hraunið í dag þekur um einn ferkílómeter lands. Ég áætla að meðal þykkt þess sé um 20 metrar. Þá er heildarmagn kvikunnar sem hefur borist upp á yfirborð um 0.02 km3 eða tuttugu miljón rúmmetrar. Eðlisþyngd kvikunnar er senilega nálægt 2700 kg á hvern rúmmeter (getur verið allt að 2900 kg), og er þá heildarmassinn um 54 miljarðar kílógramma. Koltvíoxíð CO2 í kvikunni í mesta lagi 1000 ppm eða 0,1 % af þunga kvikunnar. Þá er losun gossins til þessa orðin um 54 miljón kg af CO2. Eins og ég fjallaði hér um í pistli mínum um efnið Hvað Kemur Mikið Koltvíoxíð upp í Eldgosum? þá er heildarlosun allra íslendinga, bíla og álvera þeirra um 5200 miljón kg á ári.
Gosið er því á þessu stigi búið að menga jafn mikið af koltvíoxíði og eitt prósent af árslosun alls iðnaðar og mannlífs á Íslandi. En þetta er ekki mengun, heldur er náttúran sjálf að verki, og hún má gera allt. Sennilega er magnið af brennisteini sem berst út í gufuholf frá gosinu svipað, eða um 50 miljón kg. Það kemur út sem SO2 gas, en myndar fljótlega örsmáar agnir eða ryk af H2SO4 brennisteinssýru sem svífa í loftinu. Að lokum falla agnirnar til jarðar sem súrt regn. Hætt er við að bílar ryðgi nú fyrr á Suðurlandi en á öðrum landshlutum, og ef til vill hefur súra regnið áhrif á gróður á meðan á gosinu stendur.
Eyjafjallajökull | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Órói vex mikið á Hálsinum
3.4.2010 | 21:38
Nú er einhver hinn mesti órói sem ég hef séð á mælinum sem er á Goðabungu, einkum á tíðninni 1-2 Hz. Sjá línuritið frá Veðurstofunni hér. Sennilega hefur hraunrennsli aukist í kvöld.
Gossaga á Fimmvörðuhálsi
2.4.2010 | 13:06
Allir þeir sem gengið hafa Fimmvörðuháls hafa tekið eftir því að slóðin er eins og risavaxin bárujárnsplata, með gárurnar þvert á leið. Maður gengur upp einn hrygginn, niður í dæld, upp næsta hrygg og svo framvegis. Landslag einkennist af miklum fjölda goshryggja sem liggja frá austri til vesturs og hafa flestir þeirra gosið undir jökli, eða fyrir meir en um tíu þúsund árum. Þetta er mjög óvenjuleg stefna jarðmyndana á Íslandi, þar sem flestar gígaraðir og móbergshryggir liggja frá norðaustri til suðvesturs, eða frá norðri til suðurs (ein undantekning er á Snæfellsnesi, þar sem vest-norðvestur stefna er algeng). Auk hryggjanna eru nokkur yngri basalt hraun, lík því hrauni sem er að renna í dag. Kíkjum því aðeins á jarðfræði og jarðsögu í Fimmvörðuhálsi og athugum hvort við getum lært af þvi eitthvað um gosið sem nú stendur yfir. Það er gamall málsháttur eða regla í jarðfræðinni að nútiminn sé lykillinn af fortíðinni. Þannig getum við túlkað og skilið best það sem gerðist á fyrri skeiðum jarðsögunnar með því að notfæra okkur upplýsingar eða fróðleik á því sem er að gerast í dag. Þetta á vel við um Fimmvörðuháls, en einnig má nýta hið andstæða: við getum lært heilmikið um gang gossins í dag með því að skoða fornu eldstöðvarnar á hálsinum. Oftast er það einmitt þannig í jarðfræðinni að sagan endurtekur sig.
Árið 2005 birtu Helgi Torfason og Höskuldur Búi Jónsson grein um jarðfræði við norðvestanverðan Mýrdalsjökul. Þar er jarðfræðikort af Fimmvörðuhálsi, og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands nú birt kortið á ný á vefsíðu sinni hér, þar sem nýju eldstöðvarnar eru kærkomin viðbót á kortið. Reyndar eru upplýsingarnar um úbreiðslu nýja hraunsins nokkra daga gamlar, og sýna því ekki litlu gossprunguna sem opnaðist 31. marz.
Eitt höfuðeinkenni jarðmyndana á hálsinum eru fjórir eða fimm móbergshryggir sem stefna austur-vestur, eins og kortið sýnir. Þeir hafa myndast við sprungugos undir jökli. Milli þeirra eru tíu eða tólf basalt hraun, lítil að flatarmáli, sem hafa komið uppúr stökum gígum eða mjög stuttum gígaröðum. Drefing gíganna er óregluleg en það virðist einmitt vera einkenni nýju eldstöðvarinnar, þar sem tvær gossprungur með misvísandi stefnu hafa opnast. Þetta er því ekki eiginlegt sprungugos, eins og þau sem við eigum að venjast í aðalgosbeltum landsins. Slík sprungugos koma upp úr sprungum sem geta verið tugir kílómetra á lengd, eins og t.d. Lakagígar, sem eru amk. 25 km á lengd.
Hver verður framtíð gossins á Fimmvörðuhálsi? Ég vil benda á tvo möguleika sem eru jafn líklegir að mínu áliti, og ekki hægt að velja þar á milli á þessu stigi. Annar er þessi: Endar það fljótt og myndar þá fremur lítið hraun eins og eldri hraungos á hálsinum? Eða heldur gosið áfram og hleður þá upp myndarlegri nýrri dyngju? Hraundyngjur eru mjög mikilvæg fyrirbæri í íslenskri jarðfræði, og nægir að benda til dæmis á Skjaldbreið. Einkenni þeirra er að gosið kemur aðallega upp um eina gosrás, og hraun rennur til allra átta til að mynda dyngjuna sem er auðvitað í laginu eins og skjöldur á hvolfi. Á sínum tíma, árin 1963 til 1968, var því haldið fram að Surtsey væri dyngjugos. Reyndar byrjaði gosið á stuttri sprungu og fjórir gígar eða litlar eyjar spruttu upp: Surstsey, Syrtlingur, Jólnir og Surtla. Eins og sjá má á kortinu af hafsbotninum umhverfis Surtsey voru virku gígarnir nokkrir, en aðeins Surtsey sjálf varð varanleg. Ef Surtsey hefði gosið á landi, þá hefði gosið sennilega hlaðið upp dæmigerðri dyngju. Kvikan sem nú gýs á Fimmvörðuhálsi er einmitt mjög lík þeirri sem kom upp í Surtsey. Framhaldið heldur áfram að vera mjög spennandi!
Eyjafjallajökull | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Gjóskustrókarnir á Fimmvörðuhálsi
31.3.2010 | 07:23
Allir þeir sem hafa komist í návígi við eldgosið á Fimmvörðuhálsi hafa tekið eftir hávaðanum í gosinu. Það er eins og tíu risastórir þotuhreyflar séu sífellt í gangi. Tætlur af glóandi bráðinni kviku þeytast 100 til 200 metra upp í loftið í strókunum. Hins vegar sést ekki hraun renna beint frá gígunum, heldur kemur hraunið fram rétt utan gíganna. Slettur, kleprar og heitt rautt gjall sem fellur niður úr gjóskustrókunum hleðst upp og safnast saman þar til það byrjar að renna sem mjög úfið og þykkt apalhraun. Hvers vegna er ekki samfellt hraunrennsli beint frá gígunum, eins og til dæmis í Kröflugosunum frá 1975 til 1984? Gjóskustrókarnir eru bein afleiðing af háu gasinnihaldi kvikunnar. Við skulum athuga hvernig þeir myndast, en í því felst einn lykillinn að þessu gosi. Hugsum okkur að við séum í litlum og eldtraustum kafbát niðri í upptökum kvikunnar. Við byrjum með kvikunni í möttlinum, á um 30 km dýpi undir Eyjafjallajökli. Hér fjallaði ég í bloggi mínu um möttulin undir Íslandi.
Á þessu dýpi er möttullinn eins og svampur, og hraunbráðin eða kvikan streymir upp í gegnum hann. Basalt kvikan er um 1200 stiga heit C, og leitar upp á við vegna þess að hún er dálítið eðlisléttari en möttullinn umhverfis. Frá því í byrjun janúar 2010 hefur kvikan safnast saman á um 5 til 12 km dýpi beint undir Eyjafjallajökli. Þar hafa orðið mörg kvikuinnskot, þegar kvikan treðst inn lárétt á milli jarðlaga og myndar lagganga. Þeir eru sennilega einn til fimm metrar á breidd, og á heildina litið er kvikukerfið þarna sennilega í laginu eins og jólatré, með ótal greinum útfrá einum stofni. Það er töluvert gas í kvikunni, sennilega um eitt prósent af þunga hennar, en við háan þrýsting er gasið uppleyst í kvikunni. Þið kannist við gasið sem kemur fram sem bólur þegar þið opnið kampavínsflösku eða gosdrykk? Í drykknum er gasið undir þrýstingi þar til þið opnið flöskuna, en þá losnar það úr læingi og myndar gasbólur. Einn fleygurinn af kviku skautst upp til norðausturs og náði yfirborði um nóttina 20. marz. Þar byrjaði gosið sem um 250 m löng sprunga, og allt að 15 gjóskustrókar þeyttu kvikunni og gasi hátt í loft.
Hér er mynd sem sýnir hegðun kviku sem inniheldur gas. Lóðrétti ásinn er að sjálfsögðu dýpi í jarðskorpunni, í km. Myndin er dálítið flókin fyrir þá sem ekki hafa stundað eðlisfræði eða efnafræði, en hún er vel þess virði að skoða nánar. Aðal atriðið er, að kvikan breytist algjörlega rétt áður en hún kemur upp á yfirborðið. Í dýpinu er kvikan samfelldur vökvi, en þegar þrýstingur minnkar þá kemur gasið út úr kvikunni, fyrst sem litlar bólur, en þær vaxa hratt og breyta kvikunni fyrst í einskonar froðu, og síðan springa bólurnar rétt áður en kvikan er kominn upp í gíginn, en þá tætist kvikan í sundur og myndar glóandi heitt gjall og kvikuslettur, sem eru á stærð við pönnukökur, strigapoka eða rúmdýnur. Slettugangurinn fer hátt í loft áður en sletur og heitt gjall fellur til jarðar á gígbarminum. Það er enn svo heitt að þegar slettur og gjall safnast saman byrjar það að renna sem hraun.
Á mynd (a) efst til vinstri sést hvernig rúmmál gassins (volume fraction gas) eykst frá núlli á um 1,8 km dýpi og upp undir 65% við yfirborð. Þessi gífurlega aukning á rúmmáli gassins er einfaldlega vegna minnkandi þrýstings á kerfinu. Þegar rúmmálið vex, þá getur gasið bara farið í eina átt: beint upp gosrásina og upp í loftið. Þannig myndast gjóskustrókurinn. Um leið hrapar eðlisþyngd gosefnisins (gas plús kvika) eins og mynd (b) sýnir, frá um 2500 niður í um 500 kg á rúmmeter á gígbrúninni í þessu tilfelli. Myndir (c) og (d) sýna breytingar á þrýstingi og bylgjuhraða á sama máta.
Þessi mynd er gerð fyrir ákveðið gasmagn, en því miður vitum við ekki enn gasmagn kvikunnar sem gýs á Fimmvörðuhálsi, og ekki heldur hvaða gastegundir eru ríkjandi. Ég held að CO2 sé ef til vill aðal gastegundin, en einnig er töluvert af SO2 og H2O. Sennilega er heildar gasmagn í kvikunni um 1% af þyngd. Rannsóknir bergfræðinga og jarðefnafræðinga munu vonandi skera úr því á næstunni hvað gasið er mikið og ákvarða efnasamsetningu þess.
Eyjafjallajökull | Breytt s.d. kl. 07:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Er samband við Kötlu?
29.3.2010 | 16:50
Nú í byrjun árs 2010 birti Erik Sturkell og félagar við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands grein um Kötlu og Eyjafjallajökul í merku vísindariti. Í henni er fjallað um niðurstöður jarðeðlisfræðilegra rannsókna á þessum miklu eldstöðvum. Með greininni fylgir teikning sem sýnir hugmyndir höfunda um innri gerð eldfjallanna. Slík þversnið í jarðfræðinni eru byggð á öllum fáanlegum upplýsingum og dálitlu hugmyndaflugi, en þau eru mjög gagnleg sem byrjun eða útgangspúnktur fyrir frekari umfjöllun. Undir Eyjafjallajökli er kvikukerfið sýnt sem einskonar jólatré með nokkrum greinum, en stór kvikuþró er hins vegar sýnd grunnt undir Kötlu. Nú eftir að gosið hófst hefur Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur aukið við myndina til að sýna hugsanleg tengsl nýju gosrásarinnar á Fimmvörðuhálsi við jólatréð undir Eyjafjallajökli. Teikningin birtist á vefsíðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, og er sýnd hér fyrir ofan, en hún er fyrst og fremst bygð á dreifingu jarðskjálfta, eins og þeir hafa verið staðsettir af Veðurstofunni. Hinn fjórða mars fjallaði ég hér um dreifingu skjálfta undir Eyjafjallajökli, en þá teiknuðu skjálftarnir vel útlínur jólatrésins á um 5 til 12 km dýpi undir fjallinu.
Í grein Sturkels og félaga er bent á hugsanleg tengsl milli Eyjafjallajökuls og Kötlu, og hefur þetta atriði fengið töluverða umræðu nú þegar gos er hafið. Kemur þá Kötlugos rétt á eftir? Það er bent á, að eftir sum eða jafnvel öll gos í Eyjafjallajökli hefur Katla gosið skömmu síðar. Þannig hófst Kötlugos árið 1823, um einu og hálfu ári eftir að Eyjafjallajökull byrjaði að gjósa. Ég læt fylgja hér með mynd sem sýnir gossögu Kötlu og Eyjafjallajökuls á hentugan hátt, en myndin er af vefsíðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Mig grunar að upprunalegu gögnin komi að mestu leyti frá Guðrúnu Larsen. Nú er gott að bera saman gossögu eldfjallanna tveggja og leita að hugsanlegu sambandi þeirra á milli. Þeir sem eru fullir efasemdar og ekki sannfærðir um sambandið milli eldfjallrisanna benda á að Katla gýs svo oft (um 23 gos síðan land byggðist) og að það komi alltaf Kötlugos hvort sem er fyrr eða síðar á eftir Eyjafjallajökulsgosum. Þá er þetta bara tilviljun í þeirra augum. En aðrir telja að það sé eitthvað óþekkt samband milli þessara stóru eldfjalla. Sagan sýnir að Kötlugos eru stórhættuleg og skaðleg og við verðum hreinlega að taka þennan möguleika mjög alvarlega. Málið er sambærilegt við deiluna um loftslagsbreytingar: við höfum ekki efni á að láta sem ekkert sé, því ef breytingarnar eru í gangi, þá verður að bregðast við strax nú til að draga úr skaðanum sem bíður okkar í framtíðinni.
En ef það er samband milli Kötlu og Eyjafjallajökuls, í hverju felst það þá? Geta kvikuinnskot eða laggangar rekist eins og fleygar af kvikubráð frá jólatrénu undir Eyjafjallajökli og til austurs um 15 km inni í skorpunni, þar til kvikuinnskotið brýst inn í kvikuþró Kötlu? Árið 1977 birtum við þrír félagar grein í vísindaritinu Nature þar sem við stungum fyrstir manna uppá að kvikuinnskot í kvikuþró getur hleypt af stað miklu eldgosi, en þessi grein var afleiðing af störfum okkar í eldstöðinni Öskju. Hér er tilvitnunin: Sparks, R.S.J., H. Sigurdsson and L. Wilson, l977. Magma mixing: a mechanism for triggering acid explosive eruptions. Nature 267, 3l5-3l8.
Annar möguleiki er sá, að þegar kvika streymir upp í Eyjafjallajökul, þá sé einnig kvikustreymi upp undir rótum Kötlu rétt í nágrenninu. Það kann að vera, en þá er rétt að benda á að nú er engin skjálftavirkni undir Kötlu amk. ekki ennþá. Því er fyrri möguleikinn sennilegri að mínu viti, ef eitthvað samband er mili eldfjallanna. Að lokum er rétt að geta þess að gosin í Kötlu sem hafa orðið skömmu eftir gos í Eyjafjallajökli hafa verið fremur lítil.
Minnkandi órói í gosinu á Fimmvörðuhálsi
28.3.2010 | 19:17
Ég hef verið fjarverandi og ekki bloggað undanfarið, en hér eru frekari bollaleggingar varðandi Eyjafjallajökul og gosið á Fimmvörðuhálsi. Línuritið sem fylgir með sýnir óróa á stöðinni á Goðabungu, skammt fyrir austan eldgosið. Takið eftir að órói fer minnkandi síðustu tvo dagana. Ég tel að órói sé einn besti mælikvarði á gang gossins. Órói orskast af flæði eða straumi hraunkvikunnar upp gosrásina og er nokkurn veginn í beinu hlutfalli við magn kviku sem streymir upp á yfirborðið. Mér sýnist að órói hafi minnkað um 10% síðustu tvo dagana. Það er ekki mikið, en það kann að benda til að gosið sé búið að ná toppnum og fari nú að minnka verulega.
Einnig læt ég fylgja með merkilegt kort, sem er reiknilíkan frá Veðurstofunni. Það sýnir hugsanlega dreifingu hraunsins, EF gosið heldur áfram, þá mun hraunið flæða niður í Þórsmörk, eins og kortið sýnir. Ég var í Hvannárgili í gær en kommst ekki að hrauninu fyrir myrkur.
Eyjafjallajökull | Breytt 29.3.2010 kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)