Færsluflokkur: Eyjafjallajökull
Aðdragandi gossins í Eyjafjallajökli
21.3.2010 | 05:55
Þá er gosið komið, en það hófst rétt fyrir miðnætti í gær, 20. marz á Fimmvörðuhálsi. Gosbjarminn kom á vefmyndavélina á Heklu um kl. 23:36. Við skulum aðeins líta á ferlið. Á fimmtudag, 18. marz, benti ég á hér á blogginu að Í dag hafa skjálftar færst hratt nær yfirborði og eru nú á 1 til 4 km dýpi.
Hvað hafði ég fyrir mér í því? Gögn Veðurstofunnar sýndu miklu grynnri skjálfta og samantekt sem var gerð á franskri vefsíðu hér birti línurit varðandi dýpi skjálftanna. Myndin til hliðar er af frönsku vefsíðunni, en þar kemur sveifla upptaka skjálftann uppávið mjög greinilega fram. En takið eftir að dregið hefur úr fjölda skjálfta síðustu dagana. Næsta mynd sýnir sömu skjálftagögn, en er uppfærð á klukkutíma fresti. Takið eftir að hér eru nokkuð margir skjálftar (bláu krossarnir) sem eru grynnara en 2 km. Frakkar eiga heiður skilinn fyri að gera gögnin aðgengilegri.
Þetta er eitt af þeim mörgu gosum sem ekki var opinberlega spáð, en það var gosbjarmi sem vakti fyrst athygli á gosinu, eins og kemur fram í Morgunblaðinu: Veðurstofan segist hafa fengið fréttir af gosbjarma í jöklinum en enginn gosórói kemur fram á mælum og fréttirnar hafa því ekki verið staðfestar enn.
Myndir Landhelgisgæslunnar af gosstöðvunum sýna nokkuð háa gosstróka og hraunrennsli, og virðist það haga sér sem basaltkvika.
Eyjafjallajökull | Breytt s.d. kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Miklu Grynnri Skjálftar undir Eyjafjallajökli
18.3.2010 | 16:05

Eyjafjallajökull | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Allt að verða vitlaust undir Eyjafjallajökli
4.3.2010 | 22:22
Eins og rætt er um í fjölmiðlum, þá hefur skjálftavirkni aukist mjög mikið undir Eyjafjallajökli. Þetta er með stærri hrinum, en virðist vera tengd kvikuhreyfingum í miðri jarðskorpunni. Eins og sjá má á vef Veðurstofunnar, er skjálftunum dreift undir allan Eyjafjallajökul. Fyrri myndin sýnir uppsafnaðan fjölda skjálfta undir Eyjafjallajökli (blár ferill), Goðabungu (grænn ferill), Torfajökli og Myrdalsjökli. Sjálftum hefur fjölgað stöðugt allan janúar mánuð, en keyrt hefur um þverbak í gær og í dag, 4. marz. Neðri myndin sýnir strainútlausn í skjálftum sem fall af tíma síðan í maí 2009.
Strainútlausn er mælikvarði á afmyndun jarðskorpunnar og því mælikvarði á orkuna sem felst í þessum jarðskorpuhreyfingum. Það kann að koma á óvart að uppsöfnuð strainútlausn í skjálftum hefur undanfarið verið miklu meiri í Goðabungu (græna línan) árið 2009, vegna þess að skjálftar þar hafa verið stærri þótt þeir væru færri, en nú er Eyjafjallajökull búinn að ná sama gildi af heildar strain útlausn eða orku. Þriðja myndin sýnir stærð (bláir dílar) og dýpt (rauðir) fyrir þá 250 skjálfta sem hafa orðið undir Eyjafjallajökli síðustu daga, frá 2. marz til 4. marz 2010.
Lóðrétti ásinn sýnir stærð og dýpið í kílómetrum í skorpunni á upptökum skjálftanna. Það er áberandi hvað skjálftarnir eru djúpt niðri í skorpunni, flestir á bilinu 6 til 10 km. Einnig er eftirtektarvert að skjálftarnir hafa stækkað nokkuð stöðugt í dag, eins og blái ferillinn sýnir. Enn er ekkert sem bendir til þess að gos sé í aðsigi, em mikið magn af hraunkviku er að brjótast um jarðskorpuna undir Eyjafjallajökli.
Eyjafjallajökull | Breytt 5.3.2010 kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)