Nýjasta ferðin á Fimmvörðuháls

topgear-logoVegna fjaðrafoks í fjölmiðlum sem orðið hefur út af ferð minni á Fimmvörðuháls í þetta sinn, er ég ekkert viss um að hann Víðir Reynisson hjá Almannavörnum hleypi mér á Hálsinn aftur. Ferðin á Fimmvörðuháls var nokkuð söguleg í þetta sinn, enda var hún gerð í samfloti með teymi frá BBC sjónvarpsstöðinni í Bretlandi, til upptöku á efni fyrir þáttinn Top Gear. Það mun vera eitt vinsælasta efni sem BBC stöðin sendir út, með um 350 miljón manna áhorfun um heim allan (mér leiðist þetta nýyrði áhorfun… léleg bein þýðing á enska orðinu “viewership”). Undirbúning ferðarinnar annaðist Arctic Trucks í Reykjavík, með ágætum árangri og miklum dugnaði. Hér er ferðasagan, í stuttu máli:6. apríl: Ekið var frá Reykjavík rétt fyrir hádegi með sex breytta jeppa, aðallega frá Arctic Trucks. Nóttina áður höfðu starfsmenn Arcitc Trucks unnið að undirbúningi ferðarinnar. Með í ferð var sjónvarpsmaðurinn James May, sem hefur meðal annars ekið íslenskum “breyttum” jeppa til norður pólsins og víðar. Það vakti töluverða undrun mína að sjá rauða bílinn sem James ók. Ofan á hann var komin bárujárnsplata til varnar gjóskufalli, og fjórar svartar slöngur fluttu kælivatn úr stórri tunnu á pallinum til hjólbarðanna, til að kæla þá við akstur á heitu yfirborði. Alls voru um 15 manns í leiðangrinum, og þar á meðal frábært og duglegt teymi frá Hjálparsveit Kópavogs, en þeir mættu okkur á Mýrdalsjökli með tvo kraftmikla snjóbíla og tvo jeppa. Á leiðinni var stoppað hér og þar til videó myndatöku. Loks komumst við að skálanum við suður rætur Mýrdalsjökuls, skammt fyrir ofan Sólheima, þar sem ferðin á jökulinn byrjaði fyrir alvöru. Það varð strax ljóst að ferðin yrði erfið, því stórhríð og hvassvirði skall á strax og kom upp á jökulinn. Alla leið varði blindbylur á jöklinum, og skyggni var varla meir en tveir metrar á milli afturljósanna á bílunum. Ég var í farþegasætinu hjá James May, en beint fyrir framan okkur var jeppi með opinn afturglugga þar sem ein myndavélin var í gangi allan tímann á jöklinum til að mynda okkur. Þegar á leiðarlok kom var myndatökumaðurinn pikkfastur í snjóskafli sem hafði safnast fyrir innum gluggann aftan a bílnum. Þetta var einmitt veðrið sem Top Gear vildi fá: eins erfitt og hugsast getur. Ekið var eftir GPS leiðum, enda svarta myrkur og útsýni ekki neitt. Nokkrum sinnum þurftu snjóbílar Björgunarsveitarinnar að kippa okkur upp úr djúpum snjósköflum. Fyrst var ekið norður á miðjan Mýrdalsjökul, og þar snúið til vesturs, yfir Goðabungu, og á Fimmvörðuháls. Strax sjást gosbjarminn þegar kom á Hálsinn og loks um kl. 4 að morgni var komið í efri skálann (Fimmvörðuskáli, í eign Útivistar), eftir meir en tíu tíma erfiða ferð. Allir voru uppgefnir og farið var stax í bælið. 7. apríl:Ég vaknaði klukkan sjö að morgni eftir um 3 tíma svefn og fór að líta í kringum mig á Fimmvörðuhálsi. Nú var komið hið besta veður, logn og sólskin, en dálítið frost. Þegar farið var út fyrir húsvegg var eldgosið í fullum krafti og enginn tími til frekari hvíldar. Enda er BBC teymið eitt hið duglegasta sem ég hef ferðast með. Ekki var nokkurn mann að sjá hér á fjöllum þar til seinni part dagsins, og við höfðum eldstöðvarnar alveg fyrir okkur. Það var strax ljóst að “gamli gígurinn” á fyrstu sprungunni var útdauður. Engin eldvirkni var í honum, gufa reis frá toppnum. Hann var þakinn græn-gulri skán af brennisteinsútfellingum, sem leit út eins og rjómaskreyting á súkkulaðitertu. Gamli gígurinnAftur á móti var töluverð virkni á nýju sprungunni, sem myndaðist um 200 m vestar að kvöldi hinn 31. marz. Syðri hluti sprungunnar var mest virkur, og tveir gígar, aðskildir þunnu hafti, vörpuðu upp kvikuslettum og gjóskustrókum sem risu allt að 100 metra í loftið. Hraun rann frá gígunum til vesturs og norðvesturs, niður í drögin á Hvannárgili. Hraunið er úfið apalhraun, og víða meir en 10 m á þykkt. Það stafar nokkur hætta af hraunrennslinu, þar sem hraunkanturinn er mjög brattur og stór glóandi heit björg skríða fram af brúninni fyrirvralaust og geta fallið á ferðamenn sem eru að forvitnast fast við hraunbrúnina. Fólk á það til að hlaupa fast að hraunbrúninni, snúa baki í hraunið og láta taka að sér mynd. Það gæti orðið síðasta myndin fyrir einhvern… Allt svæðið í grennd við gígana er orpið svörtum vikri frá gjóskustrókunum. Ég tók eftir því að öðru hvoru rekst maður á hvíta frauðkennda steina í svarta vikrinum. FrauðlingurÖll áferð þeirra minnir helst á sykurmola sem er dálítið laus í sér, en við nánari skoðun kemur í ljós að efnið er frauðkennt hvítt gler, eins og myndin til hliðar sýnir. Þetta eru svokallaðir frauðlingar, og gamlir kunningjar mínir. Þegar Surtsey gaus, þá rakst ég á samskonar frauðlinga í svörtu gjóskunni í Surtsey og hóf rannsókn á þeim. Árið 1968 birti ég eftirfarandi grein í bresku vísindariti: Sigurdsson, H., l968. Petrology of acid xenoliths from Surtsey, Geological Magazine, l05, 5, 440-453. Frauðlyngar og skyldir hnyðlingar eru aðskotasteinar sem hafa rifnað úr jarðlögum þar sem hraunkvikan fer um á leið sinni upp á yfirborðið.  En frauðlingarnir eru hvítir vegna þess að þeir innihalda mjög mikið af kísil, SiO2, um 70%, og ekkert teljandi járn. Þannig eru þeir með svipaða efnasamsetningu og líðparít, eða granófýr. Eru frauðlingarnir á Fimmvörðuhálsi tengdir innskotum af súru bergi undir Eyjafjallajökli?  Eru þeir skyldir kvikunni sem kom upp í gosinu 1821 til 1823? Bergfræði rannsóknir munu skera úr um það.  Á meða ég var að grúska í frauðlingunum í svörtu gjóskunni og minnast Surtseyjargossins, þá var James May kominn með breytta bílinn að hraunkantinum. Ekið á hrauniðHann skellti sér með framendann upp á hraunbrúnina og lét kælivatnið streyma úr fjórum vatnsslöngum á hjólbarðana til að kæla þá. Mikið gufuský myndaðist umhverfis bílinn þegar vatnið streymdi á heitt hraunið, eins og myndin til hliðar sýnir. Hann bakkaði fljótlega aftur, en hitinn var svo mikill að eitt augnablik kviknaði í einum hjólbarðanum, en það ver stax slökkt. Ragnar Axelsson ljósmyndari Morgunblaðsins var nærri, og hann gerði þessa skemmtilegu mynd, sem sýnir gjósandi gíginn og breytta bílinn að rembast við kanntinn. Þar með var upptöku sjónvarpsefnis fyrir Top Gear lokið. Við komum aftur til Reykjavíkur um klukkan þrjú að morgni hinn 8. apríl, eftir erfitt en spennandi ferðalag. Gosið heldur áfram af svipuðum krafti og fyrr. Ekið á hraunEitt er athyglisvert og nýtt í dag, varðandi grunna skjálftavirkni, sem er nú dálítið austar en fyrr. Skjálftar eru nú mjög grunnt undir Fimmvörðuhálsi, og einnig í átt að Goðabungu. Þeir eru allir grynnra en 2 km. Órói á mælum Veðurstofunnar helst svipaður og fyrrri daga. Að lokum þetta varðandi gasið. Ég fjallaði fyrr um magnið af gasi sem berst út í andrúmsloftið frá eldgosinu á Fimmvörðuhálsi  hér.  Nú hefur hópur jarðvísindamanna gert mælingar á gasmagni og gastegundum yfir gígununum, og eru niðurstöður þeirra birtar hér á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þær eru í stórum dráttum þær sömu og ágizkanir mínar. Til dæmis taldi ég heildarmagnið af brennisteinsgasi SO2 sem losnar frá kvikunni vera um 50 miljón kg fyrstu tvær vikur gossins. Niðurstöður þeirra eru 3000 tonn af SO2 á dag, sem er 42 miljón kg SO2 fyrstu tvær vikurnar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir stórskemmtilega og fræðandi ferðasögu.

Vona að þú sleppir með áminingu !

Sigurdur Ingolfsson (IP-tala skráð) 9.4.2010 kl. 11:56

2 identicon

Takk fyrir mig nafni.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.4.2010 kl. 19:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband