Færsluflokkur: Mannfræði

Einn milljarður í viðbót

Fjölgun SÞBergljót dóttir mín á afmæli í dag, hinn 31. október. Í dag er líka dagurinn, þegar mannkynið nær tölunni sjö milljarðar, samkvæmt teljara Sameinuðu Þjóðanna. Sennilega fæðist sjömilljarða barnið í Indlandi, þar sem fimmtíu og eitt barn fæðist á mínútu hverri. Hvernig í ósköpunum hefur mannkyninu fjölgað svona ótrúlega mikið? Fyrir tíu þúsund árum voru aðeins um fimm milljón manns á allri jörðinni. Þegar Jesú Kristur fæddist, fyrir rúmum tvö þúsund árum, var mannkynið komið í tvö hundruð milljón. Við náðum fyrsta milljarðinum í kringum árið 1800. Núna er fólksfjölgunin um einn milljarður í viðbót á hverjum tólf eða þrettán árum, eins og myndin sýnir. Það hefur verið talið, að það ætti að draga úr fjölguninni, vegna þess að í löndum eins og Kína og Japan hefur mannfjöldi að mestu staðið í stað undanfarið. En fyrir nokkrum mánuðum lýstu Sameinuðu Þjóðirnar því yfir, að áætlun þeirra væri of lág, vegna þess að barneignir í Afríku og víðar væru hærri en áætlað var.  Næsta mynd er úr Economist og sýnir lengar tímabil, en þar kemur fram mjög slándi hvað fjölgunin er mikil síðustu aldir.  EconomistEins og ég hef áður bloggað um hér, þá er eðlilegt að búast við því að fjósemi minnki í Afríku og annarstaðar í þriðja heiminum ÞEGAR eða EF efnahagur og menntun í þeim þjóðum batnar verulega. En það hefur ekki gerst enn. Á sextíu árum hefur barneign kvenna lækkað frá 6 til 2,5 í heiminum.  Sameinuðu Þjóðirnar sýndu áður of mikla bjartsýni og gerðu ráð fyrir að barneign eða frjósemi kvenna mundi lækka frekar niður í 1,85 barn árið 2100.  En nú hefur sú ágiskun verið hækkuð upp í 2,1.  Það er því mikil óvissa ríkjandi með þrjóun mannfjölda á jörðu, og efri mörkin hjá Sameinuðu Þjóðunum er til dæmis 15,8 billjón manns árið 2100.  En það er auðvitað ýmislegt fleira en frjósemi sem stýrir þessu.  Eitt mikilvægasta atriðið er langlífi.  Það er ótrúlegt en satt, að ævilengd hefur aukist frá 48 árum til 68 ára frá 1950 og 2011.   Hvernig á að fæða allan þennan fjölda? Það er einkum tvennt sem vinnur nú á móti aukinni framleiðslu á akuryrkjusvæðum heims: hnattræn hlýjun og skortur á vatni og tilbúnum áburði, einkum fosfór. Það er nú lauslega áætlað að við hverja eina gráðu, sem hitinn fer yfir hagstæðustu hitamörk á ökrunum, þá fái bóndinn um tíu prósent minni kornuppskeru. Þetta feyndist rétt spá til dæmis í hitabylgjunni miklu, sem gekk yfir Rússland sumarið 2010, en þá hrundi kornuppskera landsins um 40 prósent. Peak_P_websiteVatnsskortur er líka vandamál. Á Indlandi hafa bændur nú borað um 20 milljón holur til áveitu á akra sína, og er grunnvatnsborðið nú óðum að lækka og borholur að þorna upp. Alþjóðabankinn telur, að um 175 milljón Indverjar séu nú aldir á korni sem er sprottið vegna of mikillar uppdælingar úr þverrandi grunnvantslindum. Já, en er þá ekki hægt að auka kornframleiðsluna í heiminum bara með því að nota meiri áburð? Það er eðlilegt að þú spyrjir, og að vísu er það rétt, en vandinn er sá að nú eru heimsforinn af einu helsta efni í tilbúnum áburði að verða á þrotum: fosfór. Fosfór er eitt algengasta steinefnið í mannslíkamanum, næst á eftir kalsíum. Það er um 1% fosfór í líkama okkar og efnið er okkur nauðsynlegt og svo er einnig með allar plöntur á jörðu. Það þarf um eitt tonn af fosfati til að rækta um 130 tonn af korni, og það er þess vegna, sem 170 milljón tonn af fosfati eru unnin í námum og send um allan heiminn til að halda uppskerunni í lagi á ökrum með tilbúnum áburði. Margir telja að heimurinn sé hratt að nálgast fosfórtopinn, og sennilega verður honum náð árið 2034, með framleiðslu um 28 milljón tonn af fosfór á ári. Eftir það fer að draga verulega úr framleiðslu og skortur verður áberandi. bouCraaEin stærsta fosfór náman er Bou Craa í vestur Sahara, en frá námunni liggur 150 km langt færiband (lengsta færiband í heimi, sjá mynd) þvert í gegnum Marokkó, til hafnarinnar El Ayoun við Atlantshaf. Það er Mohammed hinn sjötti, konungur Marokkó, sem á námuna og námufyrirtækið. Um 80% af öllu vinnanlegu fosfati heims er að fiinna í vestur Sahara, en birgðir í jörðu í Bandaríkjunum eru nær að þrotum komnar. Ódýr tilbúinn áburður er búinn að vera, og verðið rýkur nú upp, með 700% hækkun frá US$50/tonn til US$350/tonn á fjórtán mánuðum. Línuritið sýnir verð á fosfór á heimsmarkaðinum undanfarin ár. Fosfórskortur verður einn af þáttunum, sem munu gera lífið erfitt fyrir komandi kynslóðir, ef fólksfjölgun heldur áfram sínu striki.dollarphosphorusresized

Fíkn í betelhnetur, mannætur og Rockefeller


Tygur betelhneturÉg var á ferð á eynni Flores í Indónesíu árið 2010 og keypti þá fallegan dúk af þessari vingjarnlegu konu á förnum vegi.  Það fór ekki á milli mála, að konan er háð þeirri fíkn, sem tengd er við betelhnetur og er mjög algeng víða í frumstæðari löndum Suðaustur Asíu, einkum í Nýju Gíneu og í Indónesíu. Betelhnetufíkn felst í því að safna hnetum af plöntunni Areca, skera hnetuna í sneiðar, strá yfir um það bil einni tekseið af brenndu kalki, og vefja síðan í lítinn böggul í laufblaði af betelplöntunni, sem er síðan tugginn duglega.  Brennda kalkið veldur efnahvörfum, sem mynda blóðrauðan lit á munnvatni, og litar hann þá strax varir og góma eldrauða.  Í Nýju Gíneu ganga margir karlemnn dagsdaglega með litla tösku sem er ofin úr pálmalaufblöðum og er hún ómissandi fyrir betelhnetufíkla. Litla taskanÍ töskunni er glerkrukka með hvítu brenndu kalki, nokkrar hnetur af Aracia, búnt af grænum laufblöðum af beteljurtinni, og hnífur til að skera hneturnar. Það er alltaf greinilegt hverjir eru fiklar í betlehnetur:  eldrauður munnurinn og varir og flestar tennur eyddar niður í góm eða dottnar út.  Þið getið rétt ímyndað ykkur áhrifin af því að setja brennt kalk í munninn.  Tuggunni fylgir vellíðan, og verður betelhnetan fljótt leiður en mjög ódýr ávani, sem veldur ýmsum slæmum kvillum, þar á meðal krabbameini í munni.  Nú er því þannig háttað að fólk á þessum svæðum hitabeltisins er bæði munnstórt og með fremur þykkar varir, og blasir rauði liturinn og miklar skemmdir strax við. Þessu fylgja miklar spýtingar af blóðrauðu munnvatni.  Í sumum þorpum er nær hver einasti íbúi með beteltuggu í munni, og unglingar byrja snemma á þessum óþvera.  Ég verð því að játa að ég á mjög erfitt með að horfa framan í fólk sem tyggur betelhnetur.  Og það er einmitt þá sem ég minnist óþægilega á sögusagnir um mannætur á þessum slóðum.

          Michael Rockefeller 1961  Það er því miður staðreynd að frumbyggjar Nýju Gíneu hafa stundað mannát til skamms tíma.  Mest er þetta gert í hefndarskyni í tengslum við erjur eða stríð sem háð eru milli ættbálka landsins.  En stundum hafa Evrópumenn orðið þeim að bráð.   Michael Rockefeller  (1938-1961)  var yngsti sonur Nelsons Rockefeller, sem var einn af fremstu stjórnmálamönnum Bandaríkjanna á tuttugustu öldinni og Nelson var jafnframt ættarhöfðingi einnar ríkustu fjölskyldu landsins.  Sonurinn Michael fékk snemma áhuga á mannfræði og fór í leiðangra langt inn í frumskóga Nýju Gíneu til að kanna líf og hætti frumbyggja þar.  Árið 1961 hvarf hann á dularfullan hátt og strax fóru að myndast sögusagnir um endalok hans, einkum orðrómur um að hann hefði orðið mannætum að bráð.  Í bók sinni frá 1979 segir Paul Toohey þá sögu að móðir Michaels Rockefeller hafi sent rannsóknaleiðangur til Nýju  Gíneu í leit að syninum.   Sagan segir að leiðangursstjórinn hafi skift á utanborðsmótor og þremur hauskúpum, en þær áttu allar að vera af hvítum mönnum sem höfðu verið drepnir – og étnir.  Ein þeirra átti að vera hauskúpa Rockefellers,  en móðirin mun hafa greitt $250 þúsund fyrir leiðangurinn. 

Eldfjallalist frá Nýju Gíneu

Tavurvur gýsÉg ferðast varla svo inn á eldfjallasvæði, að ég rekist ekki á nýtt listaverk fyrir Eldfjallasafn í Stykkishólmi. Svo var einnig í ferð minni til Nýju Gíneu og til Rabaul eldstöðvarinnar í maí árið 2011.  Ég var við athuganir út á auðninni milli gíganna Tavurvur og Rabalanakaia, þegar ég hitti nokkra krakka sem voru að selja ýmsa muni.  Ungi ljóshærði kaupmaðurinn seldi mér málverk eftir föður sinn Mika.  Myndin sýnir gos í Tavurvur gígnum, en af einhverjum ástæðum er Mika sérlega hrifinn af hvítum fjallabílum og bætir þeim oft inn á myndir sínar.  Þeir búa á eynni Matupit, inni í miðri Rabaul öskjunni. Reyndar er hún ekki lengur eyja, heldur hefur hún lyftst upp um 17 metra vegna jarðhræringa og er nú komið þurrt land á milli Matupit og meginlandsins.  Eyjan heldur áfram að rísa dag frá degi um nokkra millimetra.  

Málverkasali í RabaulAnnars var ég nokkuð undrandi á því hvað það er mikið af ljóshærðum börnum og einnig ungum ljóshærðum konum í Nýju Gíneu.  Ég fékk þrjár skýringar á þessu fyrirbæri:  (a) þau þvo sér um hárið með peroxíð, (b) það er svo lítið ferskt vatn að fá á Matupit að þau fara í bað í sjónum á hverjum degi og það lýsir hárlitinn, (c) ljóshærðir Ástralir hafa farið hér um í mörg ár og skilið eftir erfðaefni sitt meðal innfæddra.  Ég veit ekki hvað er líklegasta skýringin, og ef til vill eru allar virkar. 

 


Mandela og Washington gátu það

nelson mandelaÞað er mikið rót í löndum Norður Afríku þessa dagana  og líkur á að nýir menn og nýjar stjórnir taki þar völd víða að loknum byltingum.   Hver er reynslan af byltingum yfir leitt? Það er eitt að hrinda af stað byltingu, en svo allt annað mál að stjórna á farsælan hátt á eftir, og enn meiri vandi að leyfa lýðræði að koma á í landinu síðar.  Sagan segir okkur að nær allir forsprakkar byltinga hafi tekið einræðisvöld og haldið þeim lengi eftir byltingu. Lítum á Napóleon, Lenín og Castró sem nærtæk dæmi.  georgewashingtonEinræði er spillandi og algjört einræði er algjörlega spillandi, segir sagan okkur.  Ég held að þeir Nelson Mandela og George Washington séu einu forsetarnir sem stýrðu byltingum, en gáfu svo fljótlega völdin aftur í hendur lýðræðinu á virðulegan hátt. Þeir voru báðir heiðursmenn.  Vonandi koma aðrir slíkir fram á vettvanginn í Norður Afríku. 

 

 


Endalok Vaxtar

 FjöldiVöxtur, einkum hagvöxtur, er kjörorð, einskonar trúarbrögð og sennilega eitt æðsta markmið hagfræðinga og flestra stjórnmálamanna um heim allan.  Hagvöxtur er forsenda velmegunar, segja þeir herrar. En vöxtur er af ýmsum gerðum: einn áberandi vöxtur er fjölgun mannkyns.  Annar vöxtur er aukning koltvíoxíðs og annara úrgangsefna í andrúmslofti.  Hvað getur jörð okkar borið mikinn vöxt? Hvenær eru hin ýmsu jarðefni sem nauðsynleg eru mannkyninu uppurin?  Ég byrja á þeim vexti sem er mest áberandi: fjölgun mannkyns.  Í hvert sinn sem ég sný aftur til landa í þriðja heiminum, þar sem ég starfa, þá er fjölgunin mjög áberandi og áþreifanleg, hvort sem er í Indónesíu, suður Ameríku eða Afríku. Skógar eru að hverfa, ný þorp að rísa af grunni, reykur liggur yfir landinu þar sem frumskógurinn brennur, og umferðin er ótrúleg.  Fyrsta myndin sýnir frjósemi eða mannfjöldaaukningu allrar jarðar (rauða línan), en gögnin eru frá World Bank. Í dag fæðast þrjú  börn á jörðu á hverri sekúndu.  Það hefur eitthvað aðeins dregið úr vextinum, en hann er enn langt fyrir ofan eitt prósent.  Í Bandaríkjunum er hann í kringum eða rúmlega eitt prósent, eins og bláa línan sýnir.  Hvað er þetta með Ísland? Gula línan sýnir að fjölgun hér á landi er mjög skrikkjótt, en alla vega nokkuð yfir einu prósenti. Frjósemi á Íslandi er nú 2,1 barn á hverja konu.  Ég tek eitt prósent sem sanngjarna tölu fyrir fjölgun á jörðu næstu aldir.  SpáVonandi er þetta allt of hátt áætlað, því þessar niðurstöður líta illa út.  Eitt prósent þýðir tvöföldun mannkyns á sjötíu árum, í 13 milljarða árið 2075.  Þess má geta að mannfjöldi á jörðu hefur tvöfaldast meir en 32 sinnum það sem komið er. Önnur mynd sýnir ferlið næstu aldir, reiknað með þessum forsendum. Ég hætti árið 3050, en þá erum við komin með fjarstæðukenndan fólksfjölda, sem samsvarar einum manni á hvern fermeter alls landsvæðis jarðar ofan sjávarborðs.  Séra Thomas R. Malthus benti fyrstur manna á þetta mikla vandamál varðandi fólksfjölgun strax árið 1798, og hélt því farm að hungursneyð og sjúkdómar muni seta takmörk fyrir fólksfjölgun á jörðu.  Hann spáði, reyndar rangt,  að mannkyn yrði orðið fæðulaust á miðri nítjándu öldinni. En bíðum nú við: ég notaði 70 ár sem þann tíma sem tekur að mannkyn tvöfaldist. Tvöföldunartími mannfjölda á Íslandi hefur verið um 54 ár undanfarið.  Flestir vísindamenn sem fjalla um spár um mannfjölda jarðar vilja ekki taka til greina slíkar tölur, heldur skapa þeir líkön sem spá aðeins um 10 milljörðum íbúa á jörðu árið 2050.  Við skulum vona að þeir hafi rétt fyrir sér, en það er merkilegt með slíkar spár, að ferillinn byrjar alltaf að bogna niður strax og spáin kemur inn í framtíðina. Er þetta eðlisbundin bjartsýni, óskhyggja, eða hvað?  Það er eðlilegt að búast við því að fjósemi minnki í þriðja heiminum ÞEGAR eða EF efnahagur og menntun í þeim þjóðum batnar verulega.  En þar á móti vega framfarir í heilsugæslu og hreinlæti, sem draga úr dauðsföllum.  Spurningin er: eru endalok fólksfjölgunar og þá einnig endalok vaxtar, fyrst og fremst tengd byrgðum auðlinda og jarðefna, eða ráða umhverfisáhrif af manna völdum mestu? Ég held að ég sé ekki endilega meir svartsýnismaður en gengur og gerist, en mér finnst vel þess vert að velta þessu mikilvæga máli fyrir mér frekar í seinni færslum á blogginu.

Komu sumir frumbyggjar Nýja Heimsins frá Evrópu?

ÍsröndinÞegar ísöldin stóð sem hæst fyrir um 18 til 20 þúsund árum, var heimur okkar hér í Norður Atlantshafi töluvert ólíkur því sem nú er.  Eins og myndin til hliðar sýnir, þá var hafísþekja yfir meiri hluta Norður Atlantshafs á þessum tíma, frá vestur strönd Frakklands og alla leið til Maine á austur strönd Norður Ameríku.  Ísland var langt inni í ísbreiðunni.  Á þessum tíma var þjóðflokkur í vestur hluta Evrópu sem er kenndur við fellið Solutré í Frakklandi: Solutrean menningin.  Minjar þeirra finnast einnig á Spáni og í Portúgal.  Helsta einkenni þeirra voru glæsilegir örvaroddar og spjótsoddar úr tinnu, sem gerðir voru af miklum hagleik, eins og önnur myndin sýnir.  Oddarnir líkjast mjög þeim sem Clovis menningin skildi eftir á meginlandi Norður Ameríku fyrir um þrettán til fjórtán þúsund árum, sem ég hef nýlega bloggað um hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1153257/   Eru Clovis og Solutrean menningarnar skyldar?  Fóru Solutre menn meðfram hafísröndinni, og lifðu eins og eskimóar á því sem hafið gaf, þar til þeir komust alla leið til austur strandar Norður Ameríku? Hittu þeir þar fyrir fók sem hafði komið til Nýja Heimsins frá Asíu tvö þúsund árum áður?  SolutreanÞetta eru spennandi spurningar, og margir hafa vellt þessu fyrir sér undanfarið.  Þessu til stuðnings hefur verið bent á að fundist hafa í Norður Ameríku þrjár eða fjórar hauskúpur af fólki sem hefur cro-magnon einkenni Evrópubúa, ólík einkennum Asíumanna.  Ein er til dæmis hauskúpa af konu í Minnesota, sem er talin um 15 til 20 þúsund ára. Önnur er hauskúpa af konu í Mexíkó sem er frá því um 13600 árum.  Mannfræðingar og fornleifafræðingar munu halda áfram rannsóknum á þessu sviði, og deila um niðurstöður.  En málið er sérstaklega viðkvæmt fyrir índíánana í Norður Ameríku, sem vilja alls ekki taka til greina neinar tilgátur um frumbyggja frá Evrópu á þessum tíma.  Nýlega fannst beinagrind af karlmanni í Washington fylki, um níu þúsund ára gömul: Kennewick maðurinn. Fornleifafræðingar bentu á ákveðin cro-magnon einkenni hans. Indjánar á svæðinu náðu eignarhaldi á beinagrindinni og bönnuðu frekari sýnatöku sem var nauðsynleg til að gera greiningu á erfðarefni.  Samkvæmt lögum er þessi beinagrind elsti indíáninn, en vísindin fá hvergi nærri að koma til að prófa málið. 

Fyrstir í Nýja Heiminum: Örvaroddar eldri en Clovis

ClovisÖrvarNorður Ameríka hefur lengi verið kölluð nýji heimurinn.  Þannig litu innflytjendur frá Evrópu á Ameríku, þegar þeir fluttu vestur um haf á átjándu og nítjándu öldinni, í leit að nýju lífi, nýjum ævintýrum og meiri tækifærum.   Antonin Dvorak samdi jafnvel heila symfóníu um hugmyndina.  Meginlandið ber nafn með rentu, því að mannkynið uppgötvaði það tiltölulega nýlega.  Lengi var talið, að fyrstu menn hefðu komið til Ameríku frá Asíu fyrir um það bil 13 þúsund árum, og gengið yfir Beringssund á ísöldinni þegar sjávarstaða var mun lægri en hún er í dag.  Þeir voru nefndir Clovis, og helsta einkenni þeirra voru fagurlega gerðir örvaroddar og spjótsoddar, eins og fyrsta myndin sýnir. Ef svo er, þá er það enn mikil ráðgáta að slíkir oddar hafa aldrei fundist í Síberíu eða austur hluta Asíu, þar sem Clovis  fólkið er talið eiga uppruna sinn.  En nýjar uppgötvanir, sem voru gerðar opinberar í dag,  benda til að Clovis hafi alls ekki verið fyrstu mennirnir í Nýja Heiminum.  Það var uppgröftur á fornleifum í Texas  sem kann að valda byltingu á þessu sviði. Pre Clovis Hér komu fram örvaroddar og önnur tól sem eru meir en tvö þúsund árum eldri en Clovis, eða frá því fyrir um fimmtán þúsund og fimm hundruð árum.  Neðri myndin sýnir hluta af efninu sem fannst hér í Buttermilk Creek,  elstu fornminjagröf Norður Ameríku.  Eins og sjá má við samanburð á myndunum, þá eru örvaroddarnir greinilega frumstæðari en Clovis.  Sennilega eru þeir fyrirennarar hinnar glæsilegu Clovis tækni í gerð örvarodda.  Þá er Clovis tæknin amerísk uppfynning, en ekki innflutningur frá Asíu, eins og fyrr var talið.Samanburður á myndunum sýnir að framfarir í myndun örvarodda var ótrúlega mikil á rúmlega tvö þúsund árum.

Grímshellir

Suður op GrímshellisÁrið 1928 voru fornleifar friðlýstar í Grímshelli á Snæfellsnesi.  Ekki virðist hafa verið mikil hætta á að nokkur kæmi nálægt þessum fornleifum, því hellirinn hefur verið týndur og reyndar mjög erfitt að komast í hann.  Loks tókst mér að finna Grímshelli í dag. Hann er ofarlega í austanverðu Kerlingarfjalli á Snæfellsnesi, en ekki í Grímsfjalli, eins og ætla mætti.  Það er alls ekki auðvelt að finna og komast að Grímshelli, þótt hann sé stór og myndarlegur.  Hellismunninn sést aðeins sunnan frá, þegar suðaustur hlíð Kerlingarfjalls er skoðuð frá Grímsfjalli.  Það munu vera tvær leiðir að hellinum.  UppdrátturÖnnur leiðin er upp mjög bratta og erfiða skriðu austan frá, en hin leiðin er frá Grímsskarði.  Ég valdi siðari leiðina, og fór til norðurs þegar í skarðið er komið, þræddi bratta hlíð Kerlingarfjalls, þar til komið er í bratta móbergshamra. Þar má skríða á syllu til norðurs, fyrir ofan hengiflugið, og þá niður skriðu að hellinum.  Opið kemur ekki í ljós fyrr en rétt er að kemur.   Grímshellir er sannkallaður útilegumannshellir.  Sagnir ganga um það í Helgafellssveit að sakamaður nefndur Grímur hafi fyrrum haft dvalarstað í hellinum.  Síðar sóttu menn úr sveitinni að honum þar og drápu hann.  Mér hefur hvergi tekist að finna neitt ritað um hellinn, en ef lesendur hafa séð slíkt, þá væru allar upplýsingar kærkomnar. Hleðsla og bæli

Lauslegur uppdráttur af Grímshelli fylgir hér með, en hann er í móbergshömrum, og eru móbergskúlur áberandi.  Til suðausturs snýr stórt op, sem er um 8 metrar á breidd og blasir Grímsfjall þar við.  Í norðaustri er lægra og minna op, sem horfir niður í Helgafellssveit og í átt til Stykkishólms.  Fyrir innan aðal opið í suðri er stórt bjarg.  Þegar vel er að gáð kemur í ljós 3 metra há hleðsla af móbergssteinum, og er hleðslunni þannig fyrir komið að margir munu hverfa frá og álíta að ekkert sé frekar að sjá hér.  Sennilega hefur hleðslan verið bæði til varnar gegn vindum og regni, og einnig til að fela vistarveruna fyrir innan.  En þegar farið er bak við stóra bjargið, þá kemur í ljós upphækkaður pallur eða byrgi, sem er eiginlega salur.  Þar við einn vegginn er hleðsla sem hefur sennilega verið bekkur eða svefnpláss.  Tveir mjög þröngir og mjóir skápar eða holur liggja út frá þessum bekk, sem hafa verið ágætis geymslur eða felustaðir. Hleðsla er einnig í norðaustur munnanum, og hefur hún sjálfsagt verið til að draga úr norðanáttinni og veita skjól.   Það má finna bein hér og þar í hellinum, en ekki sá ég aðrar minjar.  Í móbergið umhvefis suður munnann hafa ýmsir ferðalangar rist fangamörk sín.  Eitt það elsta sem ég sá er frá 1896 eftir OJJ frá Hrísum, sem er bær í Helgafellssveit austanverðri.   Fangamark 1896

Maður hefur það strax á tilfinningunni að hér hafi einhver dvalið um tíma og lagt mikla vinnu í að gera lífið þægilegra með hleðslu og annari vinnu í hellinum.  Einnig benda beinin til að hér hafi verið búið lengi.   En það hefur verið erfitt líf, því ekki er öllum fært að komast í hellinn.  Hann hefur því verið einstaklega góður felustaður fyrir sakamann á árum áður.     Í Árbók Hins Íslenska Fornleifafélags (39. árg. 1925-26. Bls. 46 og 47)  skrifar Þorleifur  J. Jóhannesson um Grímshelli árið 1924.  Hann heimsótti hellinn í fylgd með Kristleifi Jónssyni bónda á Kóngsbakka. Hann lýsir hellinum og telur að Grímsfjall og önnur örnefni séu kennd við mann sem verið hefur skógarmaður og haft fylgsni í hellinum. Líklega var hann uppi á söguöldinni, telur Þorleifur, því árið 1250 eru örnefnin með Grímsnafninu orðin alkunn.

 

 


Elstu Sæfararnir? - Fyrstu Túristarnir? Stórkostleg Uppgötvun eða Hvað?

Tól frá KrítNýjar uppgötvanir á eynni Krít í Miðjarðarhafi benda til að forfeður okkar sem fóru frá Afríku til að skoða heiminn fyrir nokkur hundrað þúsund árum hafi ekki endilega farið landleiðina. Uppgötvunin eru margir axarhausar úr steini sem fundust nýlega á suður hluta Krítar. Einn vísindamannanna sem gerðu þessar athuganir er Thomas Strasser hér í Rhode Island þar sem ég er staddur nú. Ef þetta reynist rétt, þá þarf að rita á ný fyrstu kaflana í sögu mannkynsins, einkum hvað varðar siglingar fornmanna. Töluvert af steintólum, um tvö þúsund að tölu, hafa fundist á Krít nýlega nálægt bænum Plakias, sem virðast vera um 130 þúsund ára gömul og frá fyrri hluta Steinaldar, en hingað til hefur verið talið að mennskar verur á þeim tíma væru fremur frumstæðir Homo erectus.  Axarhaus úr kvartzi frá KrítKrít hefur verið einangruð eyja í um fimm miljón ár og sjóleiðin var og er eina leiðin þangað. Þetta þýðir að frummenn fóru um höfin meir en eitt hundrað þúsund árum fyrr en haldið var. Elstu sðgarpar sem vitað var um fyrir þessa uppgötvun voru þeir sem fóru um Indónesíu og áfram til Ástralíu fyrir um 40 þúsund árum.Suður ströndin á Krít er beint á móti Líbíu á norður strönd Afríku, en fjarlægðin þar á milli er um 300 kílómetrar. Fóru fyrstu sægarparnir beint norður frá Afríkuströnd og til Krítar? Voru þeir á flekum eða smíðuðu þeir báta? Austur hluti MiðjarðarhafsinsEr þetta Homo erectus? Enn hafa engin mannabein fundist. Um 30 axarhausar og mörg tvíeggja tól hafa fundist í jarðlögum sem eru frá fyrri hluta Steinaldarinnar. Mikið af tólunum hafa fundist í hellum og klettaskútum. Þau voru gerð úr kvartz steinum frá Krít, en með sama handbragði og axarhausar frá Afríku. Kvartz er einmitt harðasti steinninn sem finnst á eynni.

Fjögur þúsund ára gamall Grænlendingur leysir frá Skjóðunni

SaqqaqÞað hefur lengi verið haldið af mannfræðingum að Grænlendingar hefðu komið frá norður hluta Norður Ameríku, og að forfeður þeirra hefðu átt uppruna sinn að rekja til austur hluta Asíu á ísöld. Nú hafa danskir vísindamenn í fyrsta sinn greint allt erfðamengi manns sem var uppi á Grænlandi fyrir um fjögur þúsund árum. Stóra sprengjan er að hann er ekki náskyldur Inuit, eða Grænlendingum nútímans.Saqqaq hárið  Það voru þeir Morten Rasmussen og Eske Willerslev við Kaupmannahafnar háskóla framkvæddu greiningarpróf fyrir erfðarmengi og kortlögðu gen mannsins, en grein þeirra er birt í dag í ritinu Nature. Grein um sama efni birtist í ritinu Scinece í maí árið 2008. Til rannsóknarinnar notuðu danir svartan gamlan hárlubba sem fannst við Diskóflóa á Grænlandi fyrir tuttugu árum. Hárlubbinn var svo þykkur að í fyrstu var haldið að hann væri af birni, en hann fannst á vestur strönd Grænlands árið 1986.  Myndin fyrir ofan er byggð á upplýsingum úr erfðagreiningunni, og myndin til hægri er af hárlubbanum. Þetta er í fyrsta sinn að fullkomin erfðagreining er framkvæmd á fornum mannaleifum, en erfðamengi aðeins átta lifandi einstaklinga hefur verið greint til þessa.  LandflutningarGrænlendingurinn var af Saqqaq ættbálknum, og nú kemur í ljós að næstu ættingjar hans eru Chukchi mannfélagið, en þeir búa nú á austasta hluta Síberíu. Erfðagreiningin sýnir að sennilega hafa Saqqaq klofnað út úr Chukchi og flutst til Grænlands fyrir um 5500 árum. Leifar af Saqqaq hafa aldrei fundist í Norður Ameríku, og hefur hann greinilega ekki haft langa viðdvöl þar, eða ef til vill farið sjóleiðina til Grænlands. Myndin til vinstri sýnir hugsanlegar leiðir þeirra um heimskautið.    Chukchis búa enn austast í Síberíu, en nú eru aðeins um fimmtán þúsund þeirra eftir. Myndin fyrir neðan er ljósmynd af Chukchis, tekin í b yrjun tuttugustu aldarinnar.Chukchis

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband