Endalok Vaxtar

 FjöldiVöxtur, einkum hagvöxtur, er kjörorð, einskonar trúarbrögð og sennilega eitt æðsta markmið hagfræðinga og flestra stjórnmálamanna um heim allan.  Hagvöxtur er forsenda velmegunar, segja þeir herrar. En vöxtur er af ýmsum gerðum: einn áberandi vöxtur er fjölgun mannkyns.  Annar vöxtur er aukning koltvíoxíðs og annara úrgangsefna í andrúmslofti.  Hvað getur jörð okkar borið mikinn vöxt? Hvenær eru hin ýmsu jarðefni sem nauðsynleg eru mannkyninu uppurin?  Ég byrja á þeim vexti sem er mest áberandi: fjölgun mannkyns.  Í hvert sinn sem ég sný aftur til landa í þriðja heiminum, þar sem ég starfa, þá er fjölgunin mjög áberandi og áþreifanleg, hvort sem er í Indónesíu, suður Ameríku eða Afríku. Skógar eru að hverfa, ný þorp að rísa af grunni, reykur liggur yfir landinu þar sem frumskógurinn brennur, og umferðin er ótrúleg.  Fyrsta myndin sýnir frjósemi eða mannfjöldaaukningu allrar jarðar (rauða línan), en gögnin eru frá World Bank. Í dag fæðast þrjú  börn á jörðu á hverri sekúndu.  Það hefur eitthvað aðeins dregið úr vextinum, en hann er enn langt fyrir ofan eitt prósent.  Í Bandaríkjunum er hann í kringum eða rúmlega eitt prósent, eins og bláa línan sýnir.  Hvað er þetta með Ísland? Gula línan sýnir að fjölgun hér á landi er mjög skrikkjótt, en alla vega nokkuð yfir einu prósenti. Frjósemi á Íslandi er nú 2,1 barn á hverja konu.  Ég tek eitt prósent sem sanngjarna tölu fyrir fjölgun á jörðu næstu aldir.  SpáVonandi er þetta allt of hátt áætlað, því þessar niðurstöður líta illa út.  Eitt prósent þýðir tvöföldun mannkyns á sjötíu árum, í 13 milljarða árið 2075.  Þess má geta að mannfjöldi á jörðu hefur tvöfaldast meir en 32 sinnum það sem komið er. Önnur mynd sýnir ferlið næstu aldir, reiknað með þessum forsendum. Ég hætti árið 3050, en þá erum við komin með fjarstæðukenndan fólksfjölda, sem samsvarar einum manni á hvern fermeter alls landsvæðis jarðar ofan sjávarborðs.  Séra Thomas R. Malthus benti fyrstur manna á þetta mikla vandamál varðandi fólksfjölgun strax árið 1798, og hélt því farm að hungursneyð og sjúkdómar muni seta takmörk fyrir fólksfjölgun á jörðu.  Hann spáði, reyndar rangt,  að mannkyn yrði orðið fæðulaust á miðri nítjándu öldinni. En bíðum nú við: ég notaði 70 ár sem þann tíma sem tekur að mannkyn tvöfaldist. Tvöföldunartími mannfjölda á Íslandi hefur verið um 54 ár undanfarið.  Flestir vísindamenn sem fjalla um spár um mannfjölda jarðar vilja ekki taka til greina slíkar tölur, heldur skapa þeir líkön sem spá aðeins um 10 milljörðum íbúa á jörðu árið 2050.  Við skulum vona að þeir hafi rétt fyrir sér, en það er merkilegt með slíkar spár, að ferillinn byrjar alltaf að bogna niður strax og spáin kemur inn í framtíðina. Er þetta eðlisbundin bjartsýni, óskhyggja, eða hvað?  Það er eðlilegt að búast við því að fjósemi minnki í þriðja heiminum ÞEGAR eða EF efnahagur og menntun í þeim þjóðum batnar verulega.  En þar á móti vega framfarir í heilsugæslu og hreinlæti, sem draga úr dauðsföllum.  Spurningin er: eru endalok fólksfjölgunar og þá einnig endalok vaxtar, fyrst og fremst tengd byrgðum auðlinda og jarðefna, eða ráða umhverfisáhrif af manna völdum mestu? Ég held að ég sé ekki endilega meir svartsýnismaður en gengur og gerist, en mér finnst vel þess vert að velta þessu mikilvæga máli fyrir mér frekar í seinni færslum á blogginu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Ef fólksfjölgun er 2% á ári en hagvöxtur aðeins 1%, þá rýrnar hagur fólks. Ef fólki fækkar um 2% á ári og hagvöxtur er neikvæður um 1%, þá batnar hagurinn. Þetta snýst allt um það hvað kakan er stór og hvað eru margir um kökuna.

Sagt hefur verið 500 milljón manns sé um það bil sá fjöldi sem jörðin getur borið ef við viljum vernda umhverfið og við viljum að allir hafi góða heilsugæslu, menntun, fæði og húsnæði. Núverandi ástand, mengun, hungur, sjúkdómar, styrjaldur og fáfræði er það sem við uppskerum vegna þess að við erum allt of mörg.

Ef fólki fækkar eru "endalok vaxtar" í góðu lagi. 

Hörður Þórðarson, 28.3.2011 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband