Færsluflokkur: Mannfræði

Vísindi og Trúarbrögð

SólinSólin er að hækka, skína bjartar, heitara og lengur. Stjarnan okkar, þessi kjarnorkuofn af vetni og helíum, sem er í 150 miljón kílómetra fjarlægð, gefur okkur líf og færir okkur nær alla orku. Ég held því uppá vetrarhvörf, og minnist þess um leið að jólin eru sólstöðuhátíð sem á uppruna sinn að rekja langt aftur í heiðni. Eins og flestir íslendingar, þá ólst ég upp við kristnihald yfir jólin í bernsku, en fljótt tók að draga úr áhuga mínum á trúnni. Boðskapurinn var fallegur en jafnvel barn gat séð að margar grundvallarstaðhæfingar biblíunnar gátu ekki staðist. Síðar áttaði ég mig á því hvað trúarbrögðin hafa verið og eru enn beinlínis skaðleg mannkyninu. Við þetta tækifæri kemst ég ekki hjá því að velta fyrir mér andstæðunum í vísindum og trúarbrögðum. Fyrst vil ég minnast á ofsókn kirkjunnar á hendur fræðimönnum sem dirfðust að fara nýjar slóðir. Ítalski vísindamaðurinn Giordano Bruno var bundinn við staur að skipan páfa og brenndur á báli í Róm árið 1600. Kirkjan sá einnig til þess að landi hans Galileo Galilei, einn mesti vísindamaður allra tíma, eyddi tíu síðustu árum ævi sinnar í fangelsi, þar sem hann dó árið 1642. Þeir eru aðeins tveir af fjölda fræðimanna sem þjáðust eða misstu lífið vegna þess að þeir leyfðu sér að leita sannleikans. Giordano BrunoSvona mætti lengi telja, en reynsla mannkynsins af einguðstrúarbrögðunum þremur, kristni, múhameðstrú og gyðingsdómi, sem má öll rekja til Gamla Testamentsins, er vægast sagt afleit. Kristin kirkja staðhæfði að jörðin væri miðja alheimsins og hefði verið sköpuð fyrir manninn. Sköpunarsagan segir að guð gaf manninum vald til að drottna yfir öllum lifandi verum. Það væri þýðingarlaust, og jafnvel brot á reglum kirkjunnar að velta frekar fyrir sér uppruna jarðar, sólkerfisins eða lífs. Aðdáun á náttúru og umhverfi okkar væri einungis truflun frá iðkun kristilegrar trúar. Ítalska skáldið og munkurinn Francesco Petrarch (1304-74) var undantekning, en hann kann að vera sá fyrsti sem kleif fjöll sér til upplyftingar og til að dást að fegurð umhverfisins. En dag einn, er hann stóð á tindi í Ölpunum, skammaðist hann sín yfir því að vera að njóta nátturunnar í stað þess að iðka bænir í klaustrinu og flýtti sér niður aftur. Það er enginn vafi að snjallasta hugmynd tengd trúarbrögðunum þremur er loforðið um eilíft líf eða meðvitund eftir dauðann ef þú gengur í söfnuðinn. Hver getur staðist slíka freistingu? Þetta er mesta blekking og sterkasta auglýsingabrella mannkynsins. Og það snjallasta við hana er að það getur enginn tékkað á því hvort hún er sönn eða ekki. Allir geta lifað í voninni…þar til þeir deyja. Og múhameðstrúarmenn gera einum betur: þér er lofað eilíft líf í himnaríki með 72 hreinum meyjum, ef þú ert einn af píslarvottunum sem missir líf sitt í baráttunni fyrir trúna. Er það von að strákar standi í biðröðum í miðausturlöndum til að fremja sjálfsmorðsárásir? Vitur maður orðaði það svo, að þegar einn maður er á valdi blekkingar, þá er það kallað geðveiki, en þegar fjöldi fólks lætur blekkjast, þá er það nefnt trúarbrögð.Það hefur lengi verið von hugsandi manna, að áhrif trúarbragðanna dofni og hverfi smátt og smátt þegar upplýsing og menntun breiðist út meðal þjóða. Auðvitað er eðlilegt og mannlegt að kalla til yfirnáttúruleg öfl þegar menn standa frammi fyrir fyrirbærum eða atburðum sem þeir skilja ekki. Ég hef áður minnst á í bloggi mínu í september 2009 hvernig stórgosið á eynni Santóríni í Eyjahafi á Bronzöld varð að goðsögn, eins og kemur fram í kvæðinu Theógóníu eftir gríska skáldið Hesiod. Stórkostlegur atburður virðist yfirnáttúrulegur, og kallar á guðlega skýringu. En með tímanum eykst skilningur okkar, og við áttum okkur á að slíkir atburðir eru hluti af jarðkerfinu. Er þá ekki kominn tími til að losa sig við kreddurnar og allt sem fylgir trúnni? Vísindin hafa frelsað okkur frá þeirri blekkingu að örlögum okkar sé stýrt af einhverju æðra valdi. Við erum sjálf við stýri hvað varðar framtíðina.Á Íslandi er sá sem ekki trúir á guð flokkaður sem trúleysingi, aþeisti eða vantrúaður. Þetta eru vægast sagt vandræðaleg og neikvæð heiti, þar sem orðið eða hugtakið er byggt á því sem vantar. Hommar í Bandaríkjunum áttuðu sig á því fyrir nokkrum tugum ára að hommi eða homosexual var ef til vill ekki besta heitið á þeirra ástandi, og kusu að kalla sig gays, eða glaða. Það var ágætt hjá þeim og mjög vel heppnað; mér virðist hommar líka vera oft kátari en hinir. Á svipaðan hátt hafa margir trúleysingjar kosið að kalla sig og samfélaga sína brights, eða snjalla, og myndað sitt samfélag. Því ekki það? Ég er alveg sammála því að sá sem hafnar trúarbrögðum sé sennilega snjallari! Ég þekki mann sem var kallaður Siggi bright í menntaskóla og átti hann það skilið. Ég er næstum því viss um að hann er líka trúlaus.Það er enginn vafi að vísindi og trúarbrögð stangast á í þjóðfélaginu, en í því sambandi er fróðlegt að bera saman aðferðafræði þessa tveggja mikilvægu þátta í þjóðfélaginu í dag. Aðferðir vísindanna og trúbragðanna eru allt aðrar í grundvallaratriðum. Trúarbrögðin gera ráð fyrir að við trúum bókstaflega, án þess að nein rök eða sannanir séu bornar fram. Þetta er einmitt kjarni trúarinnar. Vísindin hvetja okkur til að trúa engu að fyrra bragði og forðast alla sjálfsblekkingu. Að vera skeptískur eða vantrúaður er reyndar einn höfuðkostur góðs vísindamanns. Það er óþarfi að blanda inn efni sem kemur málinu ekkert við. Napóleon keisari las bók franska vísindamannsins Pierre-Simon Laplace. Þegar þeir hittust spyr keisarinn hvernig stærðfræðingurinn frægi hefði getað skrifað heila bók án þess að minnast einu orði á guð. Laplace svarar: “Herra, ég hafði enga þörf fyrir þá keningu.” Nú ríkir millibilsástand á jörðu. Vísindi, tækni og þekking er að þróast mjög ört og eru að gjörbreyta lífi okkar á einni öld. Trúarbrögðin standa í stað, og eru annað hvort að deyja út í mörgum löndum, eða er haldið uppi í þjónustu valdhafa sem sjá sér hag í því. Á meðan við erum að fara í gegnum þetta millibilsástand, þar til vísindin verða allsráðandi, þá verðum við að sýna mátulega mikla þolinmæði. Við verðum þrátt fyrir allt að bera virðingu fyrir trúarbrögðum annars manns, alveg á sama hátt og við berum virðingu fyrir þeirri skoðun hans að konan hans sé einstaklega fögur og að börnin þeirra séu stórvelgefin. En við eigum enn nokkuð langt í land. Fyrverandi forseti Banaríkjanna, George Bush eldri, sagði í ræðu: “Nei, ég held ekki að við eigum að telja trúleysingja meðal borgara, og ekki heldur sem þjóðvini.” En hver skiftir sér nú af skoðunum hans?

Liang Bua og Hobbitarnir á Flores

HomosÉg var ákveðinn í því að komast alla leið austur til eyjarinnar Flores á ferð minni um Indónesíu í nóvember 2009. Hvað er svona spennandi við Flores? Eyjan er um 375 km á lengd, hálend, og full af eldfjöllum. Eini vegurinn sem nær eftir eynni endilangri er ótrúlega krókóttur, holóttur og seinfarinn, en samt þurfti ég að fara austur til Flores. Jú, þar bjuggu hobbitarnir áður fyrr. Ég skal skýra þetta frekar. Þangað til í september árið 2003 var það álit vísindamanna að mannkynið, þ.e. fólk eins og við, Homo sapiens, hefðum verið ein í heiminum síðan Neanderthal maðurinn (Homo neanderthalensis) varð útdauður fyrir um 30 þúsund árum.Hellir Í september 2003 breyttist allt þetta, þegar leifar af áður óþekktum mannverum fundust í hellinum Liang Bua á Flores. Hellirinn var fyrst rannsakaður í kringum 1955 af hollenskum kaþólskum presti sem bjó lengi á Flores, Theodor Verhoeven að nafni. Hellirinn er í kalksteini frá Tertíera tímanum, en hann er um 14 km fyrir norðan bæinn Ruteng, þar sem ég fékk ágæta næturgistingu hjá nunnum í kaþólska klaustrinu. Það eru um 25 km frá hellinum og til strandar fyrir norðan Flores. Frá hellisopinu er litið yfir fagran dal, sem er þakinn hrísökrum, og yfir Wae Racang ána, í um 500 metra hæð yfir sjó. Hlið við hliðHellirinn er um 30 m á breidd, 25 m á hæð og 40 m langur. Það er um 12 metra þykkt lag af sandi, leir og mannvistarleifum í hellisgólfinu í Liang Bua og enn er aðeins lítill hluti þess kannaður. Beinagrindin sem fannst árið 2003 er af konu, sem var rétt um einn meter á hæð, en síðan hafa fundist leifar af alls 14 einstaklingum í hellisgólfinu. Yngstu beinin eru um 17 þúsund ára gömul, og ofan á þeim hvílir ljóst lag af eldfjallsösku. Fornleifafræðingarnir hafa gizkað á, að útdauði hobbitanna hafi ef til vill orsakast af áhrifum frá þessu eldgosi. Einnig fundust steinaldar tól af ýmsu tagi við uppgröftinn, sem flest voru unnin úr tinnu eða hraunsteini. Það er ljóst að hobbitarnir voru gáfaðir og hagir og bjuggu til og notuðu verkfæri, og nýttu sér einnig eldinn til matreiðslu. Þeir voru því greinilega þróaður kynþáttur. KortSamt var heilabú þeirra mjög smátt, eða aðeins um 400 rúmsentimetrar. Til samanburðar er heilinn hjá okkur Homo sapiens í kringum 1100 rúmsentimetrar. Ferðalagið var strembið. Fyrst tók það okkur tvo daga að komast til bæjarins Ruteng, eftir krókóttum vegum. Síðan var ekið norður um hálendi, og þá niður í fagran dal þar sem hellirinn er. Það er áhrifarík stund þegar maður kemur inn í Liang Bua hellinn. Hvelfingin yfir höði manns virðist risastór, en niður úr henni hanga hundruðir af leirsteinskertum, sem gefa hellinum skrautlegt útlit. Gólfið er nokkuð slétt, en góð birta fellur inn í hellinn innum stóra opið. Afmarkaðir reitir á gólfinu sýna hvar fornleifafræðingar hafa grafið, og svæðin eru ferhyrnd, um 2 til 4 metrar á kannt. Að loknum uppgreftri er mokað ofaní aftur. Það er ljóst að mikið svæði er enn ókannað, og er spennandi að bíða frekari uppgötvana hér. Aðgangur var greiður, og ekkert eftirlit var haft með því hvort við værum að grúska, grafa eða bara taka myndir. En samt er byrjað að undirbúa Liang Bua sem ferðamannasvæði og er líklegt að fjöldi fólks leggi leið sína hingað í framtíðinni. Ferðin er vel þess virði, ekki bara fyrir landslagið og dalinn fagra. TólÍbúar Flores eyjar hafa þjóðsögur og sögusagnir um lítið fólk sem býr í frumskógum eyjarinnar. Umsjónarmaður Liang Bua sagði mér að hann gæti farið með mig heim til lifandi fólks í þorpinu sem væri alveg eins og hobbitarnir, og aðeins rúmlega meter á hæð. Þegar ég sýndi málinu áhuga, þá tjáði hann mér að það myndi kosta mig $20 að sjá konuna og $30 manninn. Ég áttaði mið þá á að ferðaiðnaðurinn er kominn vel af stað í Liang Bua, og hætt við að hér verði kominn sirkus eftir nokkur ár. Ég afþakkaði boðið.Í fyrstu var deilt mikið um eðli og uppruna hobbitanna meðal mannfræðinga og fornleifafræðinga. Sumir héldu því fram að þeir væru bara dvergvaxnir menn, Homo sapiens, og ekki ný tegund. Þeir sem voru á þessari skoðun bentu á að dvergvaxið fólk og dýr kunna að þróast á eyjum þar sem framboð fæðu er takmarkað og þar sem litlir einstaklingar komast betur af en stórt fólk - þeir þurfa minna í matinn. Nú virðast langflestir vera hins vegar á þeirri skoðun að hobbitarnir séu ný og óþekkt tegund, Homo floresiensis, sem á engan sinn líka. Það er því fróðlegt að skoða hobbitana í samhengi við Homo sapiens og aðra fjarskylda ættingja okkar manna, eins og myndin fyrir neðan sýnir:Ættingjarnir 1: Homo habilis (verkamaðurinn), var uppi fyrir 1.6 til 2.4 miljón árum.2: Homo sapiens (nútímamaðurinn), hefur ríkt á jörðu sl. 200 þúsund ár.3: Homo floresiensis (hobbitinn), var uppi frða um 95 þúsund til 13 þúsund árum.4: Homo erectus (uppréttur maður), var uppi fyrir 1.8 miljón til 100 þúsund árum.5: Paranthopus boisei (hnetubrjóturinn), var uppi fyrir 2.3 til 1.4 miljón árum.6: Homo heidelbergensis (Golíat), var uppi fyrir 700 til 300 þúsund árum.7: Homo neanderthalensis (Neanderthal), var uppi frá um 250 þúsund til 30 þúsund árum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband