Færsluflokkur: Mannfræði

Týnda flugvélin

ál partarÍ gær komst ég loks að leifum bresku herflugvélarinnar, sem brotnaði í norður hamri Svartahnúks árið 1941. Vélarpartar og litlar tætlur af ál eru á víð og dreif í skriðunni undir hnúknum á um 100 metra breiðu svæði. Áltætlurnar er allar beyglaðar og sumar bræddar, eins og fyrsta myndin sýnir. Útlit þeirra minnir okkur rækilega á það, að sprengju- og skotfærafarmur hervélarinnar sprakk í loft upp við áreksturinn og mikið bál varð úr. Flugslysið varð hinn 28. nóvember árið 1941 og hefur Karl Smári Hreinsson skrifað ágæta grein um þennan atburð. Eftir að hafa hringsólað um norðanvert Snæfellsnes flaug vélin inn Kolgrafafjörð í afleitu veðri, en náði ekki að komast suður yfir fjallgarðinn og brotnaði í hamrinum, þar sem merkið X er á kortinu hér til hlíðar. KortÉg hef verið að leita að flakinu öðru hvoru í sumar, en það hefur verið hulið snjó þar til nú í september. Þessi Vickers Wellington tveggja hreyfla sprengjuflugvél hafði farið í eftirlitsflug á hafinu milli Íslands og Grænlands hinn 28. nóvember. Það var hvasst að suðaustan þennan dag og mjög láskýjað. Bændur í Kolgrafafirði og Eyrarsveit heyrðu flugvélagný og sáu mikinn blossa í fjallinu, eins og eldgos. En veðrið var afleitt og skyggni ekkert. Einn bóndi tók hvað mestan þátt í leit að flugvélinni, en það var Ingvar Agnarsson bóndi á Kolgröfum. Nokkrum árum síðar var ég part úr sumri sem ungur smali í sveit hjá Ingvari á Kolgröfum. Þá fræddist ég dálítið um atburðinn, en Ingvar hélt merka dagbók. Hinn 1. desember komst Ingvar loks að flakinu undir Svartahnúk, beint fyrir ofan Grenjadal. Leifar af sex líkum áhafnarinnanr fundust og voru þau flutt til byggða. Svartihnúkur er nær þverhníptur. Hann er myndaður úr blágrýtislögum, sem hafa ummyndast vegna háhita. Innskot af granófýr og díórít bergi eru mikilvæg í efri hluta hnúksins.

Skipsbjallan á HMS Hood

HMS HoodÍ águst 2012 var ég um borð í snekkjunni M/Y Octopus, þegar fjarstýrður kafbátur var sendur niður á flakið af breska herskipinu HMS Hood í Grænlandssundi. Flakið hvílir á um 2848 metra dýpi og þar um borð og á hafsbotninum umhverfis er nær öll 1418 manna áhöfnin. Aðeins þrír komust af þegar stærsta herskipi breta var sökkt hér á örfáum mínútum í orustu við þýska herskipið Bismarck hinn 24. maí árið 1941. Það sökk um 500 km beint vestur af Reykjanesi. Markmið okkar var að kanna flakið og að færa upp á yfirborðið skipsbjölluna, eitt helsta einkenni skipsins. Bygging á HMS Hood hófst í fyrri heimstyrjöldinni árið 1916 og það var fullbúið árið 1920. Hood var hvorki meira né minna en 48 þúsund tonn, og 262 metrar á lengd. Þrátt fyrir stærðina gat þetta tröllvaxna skip samt siglt um heimshöfin á 28 til 31 hnúta hraða. Utan á skrokk skipsins var tólf tommu þykk brynvörn úr stáli, og fallbyssur þess skutu sprengikúlum sem voru fimmtán tommur í þvermál. Bretar vissu að þjóðverjar höfðu hleypt af stokkunum öðru risavöxnu skipi í Hamborg, sem skírt var Bismarck, eftir kanslaranum fræga. Hinn 5. maí 1941 kom sjálfur Adolf Hitler til Hamborgar til að skoða þetta nýja vopn, sem átti að granda skipalestunum milli Norður Ameríku og Rússlands. Aðal hlutverk Bismarck var að ráðast á skipalestirnar sem fóru milli Norður Ameríku og Norður Evrópu. Bretar gerðu sér þetta ljóst og vissu að Bismarck myndi stefna út í Norður Atlantshafið um eitt af þremur sundum í grennd við Ísland, annað hvort Grænlandssund, eða þá sundið milli Færeyja og Íslands eða sundið milli Skotlands og Íslands. Breski sjóherinn vissi þvi ekki hvaða sunds þeir ættu að gæta. Á meðan sigilir Bismarck óséður frá Bergen hinn 21. maí á ofsa hraða 25 til 30 hnútum (56 km á klst.), út á Atlantshafið undan vestur strönd Noregs og beint norður fyrir Ísland. Bismarck kemur inn á Grænlandssund um kl 10 að morgni hinn 23. maí. Það var hér sem breska herskipið Suffolk fyrst sá Bismarck á siglingu. Suffolk hafði verið inni á Ísafirði en var nú kominn út á sundið. Skömmu síðar sá Bismarck breska herskipið Norfolk birtast út úr þokunni og skaut á það en hæfði ekki. Norfolk slapp aftur inn í þokuna og tilkynnti strax flotastjórninni í London um að Bismarck væri fundinn. Nú hófst eltingarleikurinn fyrir alvöru. Hood og fleiri skip sigldu fyrir sunnan Ísland og stefnu á Grænlandssund til að hefja sjórustuna. Hlutverk Bismarcks var að sökkva fragtskipum skipalestanna, en ekki að há orustu við bresk herskip. Bismarck og hitt þýska skipið Prinz Eugen héldu því beint áfram til suðurs og í átt að skipalestunum, en Suffolk elti fast á eftir. Það var skömmu eftir miðnætti hinn 24. maí að Hood sá Bismarck í um 17 sjómílna fjarlægð. Klukkan 0552 var fjarlægðin 23 kílómetrar milli skipanna og fallbysur Hood og breaska skipsins Prince of Wales byrjuðu að skjóta á óvininn. Þessi fyrstu skot höfðu engin áhrif. En fyrstu skotin frá Bismarck lentu hins vegar mjög nærri Hood. Auk þess var aðstaðan erfiðari fyrir breta, sem sigldu beint upp í vindinn. Skot frá Prinz Eugen hæfði Hood og það kviknaði í á þilfari um miðju skipsins. Bjallan á þilfariNú var klukkan 0555 og aðeins þrjár mínútur liðnar frá því að orustan hófst. Það hafði kviknað í birgðum af púðri af þeirri tegund sem nefnist cordite. Fljótlega breiddist eldurinn út og skotfærabirgðir byrjuðu að springa á dekkinu. Nú var bilið milli skipanna um 12 mílur. Þá breytti Hood um stefnu og sigldi nú samhliða Bismarck svo að hægt væri að skjóta af öllum fallbyssum í einu á þjóðverjana. En einmitt þá kemur fallbyssuskothríð frá Bismarck og hittir alveg í mark. Þessar sprengikúlur eru hvorki meira né minna en 38 cm í þvermál.  Myndin fyrir neðan sýnir þversnið af einni slíkri. Risastór sprenging verður nú um miðju á Hood og eldsúlan stendur upp meir en fjórum sinnum hærra en miðmastrið, upp til himins. Skipið veltur strax og skuturinn byrjar að sökkva. Stuttu síðar stendur stafninn beint upp, og Hood hverfur í hafið. Orustunni er lokið. Fjórtan hundrað menn farast og aðeins þrír af áhöfninni komast af. Allt bendir til þess að skotið frá Bismarck hafi farið niður í gegnum þilfarið og beint ofan í skotfærageymslu Hood. Klukkan 0613 siglir Prince of Wales á brott á flótta, aðeins 21 mínútu eftir að orustan hófst. Breska sjóhersstjórnin fær svohljóðandi skeyti: Hood hefur sprungið í loft upp. Þremur sjóliðum af 1418-manna áhöfn Hood var bjargað. Þeir komu til Reykjavíkur með bresku skipi seinni part dags hinn 24. maí.  Fallbyssukúla af þeirri tegund sem grandar HoodAð tapa HMS Hood, flaggskipi breska flotans, var ótrúlega mikið áfall fyrir breska herinn og reyndar þjóðina alla. Churchill forsætisráðherra áttaði sig strax á þessu og skipaði: Sink the Bismarck! Sökkvið Bismarck. Allur sjóherinn var nú gerður út til að ná hefndum. Bismarck hafði orðið fyrir lítilsháttar skemmdum í átökunum á Grænlandssundi og var að tapa töluverðri olíu í hafið. Bismarck stefndi því beint í áttina til Brest í Frakklandi til viðgerðar. Tveimur dögum síðar tókst breskum herflugvélum að varpa tundurskeytum á þýska risann, sem var 251 meter á lengd. Fljótlega tókst að skemma stýri skipsins og var það nú nær stjórnlaust. Önnur tundurskeyti hæfðu í beint mark og Bismarck sökk í hafið hinn 27. maí um 650 km fyrir vestan Brest í Frakklandi. Bismarck hafði verið aðeins 9 daga í þjónustu þýska hersins frá þvi skipið var tekið í notkun og þar til það sökk. Árið 2001 fannst flakið af HMS Hood á Grænlandssundi á um 2849 metra dýpi. Í ágúst 2012 var gerður út leiðangur á M/Y Octopus til að ná upp skipsbjöllunni af Hood, með samþykki og þátttöku breska sjóhersins. Hugmyndin Bjallan á hafsbotnivar að færa bjölluna til minjasafns sjóhersins í Bretlandi. Skipsbjallan hafði verið upphaflega á þilfari skipsins, eins og gamla myndin sýnri. Við sendum fjarstýrðan kafbát niður og fljótlega fannst bjallan, en hún var ofan á haug af miklu rusli úr skipinu og hvíldi undir stálþili, sem slútti yfir. Þetta gerði okkur erfitt að ná til hennar. Kafbáturinn hefur tvo vélarma, sem geta verið furðu fimir. Það tókst að koma járnkrók í gatið efst á bjölluni, en þegar átakið kom á krókinn, þá réttist úr honum og bjallan slapp af og seig lengra niður í ruslið. Nú fór veður versnandi og varð því að hætta fekari köfun þegar vindur fór yfir 30 hnúta og sjór var orðinn nokkuð mikill. Við skildum því við bjölluna á botninum, eins og myndin sýnir. Örin rauða bendir á bjölluna á hliðinni.  Af kafbátnum er það að segja, að hann er tengdur við skipið með rúmlega 3 km löngum kapli, sem sendir rafmagn niður og sendir síðan rafræn gögn, myndefni og annað upp til skipsins. Kafbáturinn hefur tvo arma og ýmiss önnur tæki.  Fylgst er nákvæmlega með staðsetningu kafbátsins um borð í skipinu og reyndar furðulegt hvað kafbátsstjórinn getur stýrt honum nákvæmlega í gegnum allar þær hættur sem verða á vegi hans í grennd við og jafnvel inni í þessu risastóra skipsflaki, þar sem stálvírar, járnbitar og annað brak eru alltaf fyrir hendi sem hættulegar gildrur.

Tagldarhellir

Vatnafell

Vatnafell er gömul eldstöð á  Vatnaleið á Snæfellsnesi,  og  skilur fjallið á milli Hraunsfjarðarvatns fyrir vestan og Baulárvallavatns fyrir austan.  Vatnafell myndaðist í basalt eldgosi fyrir um 400 þúsund árum.  Ég hef áður bloggað hér um myndun þess í sambandi við myndun þriggja stöðuvatnanna á þessu svæði. Er Vatnafell  að mestu gert úr stuðluðu basalti, með móbergskápu undir.  Basaltið er óvenjulegt fyrir að hafa risastóra kolsvarta kristalla af pyroxen, sem geta verið margir cm á lengd.  Undir hömrum austan í Vatnafelli eru þrír hellar og er sá syðsti stærstur. Staðsetning hans er sýnd með rauða hringnum á fyrstu myndinni, sem er tekin yfir Baulárvallavatn.  Til hægri á myndinni er móbergstindurinn Horn.  Hellarnir í Vatnafelli hafa myndast þar sem rof hefur fjarlægt mýkri jarðlög undir basaltberginu.  Það er fremur auðvelt að komast að öllum þessum hellum, upp brattar og mjög grýttar skriður austan í fellinu. Syðsti og stærsti hellirinn nefnist Tagldarhellir og er við hann kennd þjóðsaga.  Sögnin um hellinn er varðveitt í Illuga söguTagldarbana.  

Tagldarhellir

Ein sögupersónan er Helgi, sem bjó á Helgafelli.  Hann fékk til liðs við sig Illuga, hraustan og ungan mann sunnan af Mýrum, til að drepa tröllið Dofra, sem bjó í helli einum á Vatnsheiði og er hann nefndur Dofrahellir  Ekki er mér kunnugt um staðsetningu hans.  Illugi var Þórisson, en faðir hans var Þórir Þorfinnsson og móðir Sæunn, dóttir Skallagríms Kveldúlfssonar og er hann þá systursonur Egils Skallagrímssonar.   Er því ekki að furða að hér var á ferð mikill kappi.  Bardaginn við Dofra leiddi Helga til bana, en Illugi fékk eftir hann jörðina Helgafell og bjó þar.   Síðar háði Illugi mikla baráttu við flagðkonuna Tögld í Tagladarhelli.  Hér skýtur nokkuð skökku við í frásögnum.  Í Illugasögu Tagladarbana fer bardaginn við Tögld fram í einni utanför Illuga, en í sögn sem er varðveitt í þjóðsögum Sigfúsar Eymundssonar (1899) fer orrustan í Tagladarhelli fram á Snæfellsnesi. Illugi kom tröllskessunni fyrir kattarnef að lokum, en sumir telja að skrímslið sem sést hefur í Baulárvallavatni sé Tögld afturgengin. Það er ekki hlaupið að ríma á móti orðinu Tögld, en þessi vísa fylgir þjóðsögninni:

 

Eg er að tálga horn í högld,

hagleiksmenntin burt er sigld.

Illugi deyddi tröllið Tögld,

trúi' eg hún væri brúnaygld.


Mesti Fjársjóður Heims

Sri Padmanabhaswamy musteriSem börn lesum við ævintýri og sögur um mikla fjársjóði af gulli og gersemum falda í jörðu eða í hirslum auðugra konunga. Þegar við þroskumst gerum við okkur grein fyrir því að slíkur auður tilheyrir aðeins ævintýrum til. En er það alveg satt? Kannske er eitthvað til í þessu! Nýlega hefur fundist einn mesti fjársjóður sögunnar í indversku musteri. Það er Sri Padmanabhaswamy musterið í Kerala héraði í suðvestur Indlandi, en það var fyrst reist á áttundu öldinni. Siðan var það endurbyggt á sextándu öld, sem sjö hæða stórhýsi úr graníti. Musterið er helgað hindu guðnum Vishnu, og hvílir stórt líknesi af Vishnu inni í musterinu, gert úr hreinu gulli. Enda er talið að Vishnu búi í þessu musteri, og er það þar með eitt hið allra mikilvægasta í Indlandi. Fjölskylda maharaja eða konungsins í Kerala héraði hefur um alda raðir varðveitt og séð um musterið, en Travancore konungsríkið réði lengi yfir öllum syðri hluta Indlands. Það var lengi siður að konungsfjölskyldur gáfu musterinu gull öðru hvoru þegar ungir prinsar fengu meiri tign, og þá var magnið af gulli jafnt og þyngd prinsins.  MusteriAlmúginn hefur stöðugt fært musterinu gjafir, og um alda raðir hefur því ógrynni af gulli og gersemum safnast fyrir hér. Musterin á Indlandi hafa lengi safnað fé. Árið 77 fyrir Krist ritaði Plinius Eldri að til Indlands bærist að lokum allt gull jarðar. Á miðöldum streymdi gull til Indlands einkum vegna kryddverslunarinnar við vesturlönd. En nýlega komst orðrómur á kreik um að konungsfjölskyldan hefði gengið í fjársjóð musterisins og selt gull, silfur og gimsteina. Þá hófst opinber rannsókn á musterinu og þeim sex hirslum eða kjallörum þar sem fjársóðurinn er geymdur. Hirslur þessar eða steinhvelfingar nefnast kallaras á Hindu tungu, og dettur manni þá strax í hug að hér sé kominn fram uppruni íslenska orðsins kjallari (kelder á hollensku og källare á sænsku). Flestar af steinhvelfingunum hafa ekki verið opnaðar í hundruðir ára, en þessar steinhvelfingar eru lokaðar af voldugum og margföldum járndyrum og stálgrindum. Fimm af sex kjallörum musterisins hafa nú verið opnaðir af sérstakri rannsóknarnefnd. Þegar voldugar stálgrindur og járnhurðir voru opnaðar, þá kom í ljós haugar af gulli og gimsteinum á gólfinu.Guðinn Vishnu  Fjársjóurinn hafði verði í trékistum, sem höfðu fúnað og rotnað í sundur og eftir var aðeins mylsna á gólfinu en gullið flóði út um allt. Hefur fjársjóðurinn nú verið metinn sem að minnsta kosti $22 milljarðar dala, eða um 2750 milljarðar króna. Nú hefur hafist vörutalning á fjársjóðnum í fimm af sex kjöllurum, en sá sjötti er enn læstur. Tvö hundruð vopnaðir verðir gæta nú musterisins, til að vernda stærsta fjársjóð jarðar frá frekara hnupli af konugsfjölskyldunni og prestum.

Frægir jarðfræðingar í stjórnmálum

Herbert Hoover jarðfræðingurNú berast fréttir þess efnis að jarðfræðingur hyggist bjóða sig fram til forsetakjörs. Áður en við byrjum að fárast yfir því að maðurinn er hvorki hagfræðingur né lögfræðingur, sem eru hinar hefðbundnu leiðir inn í pólitíkina á Íslandi, þá skulum við líta á nokkra fræga stjórnmálamenn sem byrjuðu “bara” sem jarðfræðingar. Einn sá þekktasti var forseti Bandaríkjanna frá 1929 til 1933, Herbert Hoover.  Mynd af honum er hér til hliðar. Hann hlaut jarðfræðimenntun við Stanford háskóla í Kaliforníu árið 1895 og starfaði sem jarðfræðingur við námurekstur bæði í Ástralíu og í heimalandi sínu. Bók hans as Principles of Mining er fræg kennslubók á þessu sviði. Einnig þýddi hann og gaf út merka bók eftir Georgius Agricola: De re metallica, sem enn er á prenti. Hoover var repúblikani, en aðeins átta mánuðum eftir að hann tók við embætti forseta varð algjört efnahagshrun og kreppan mikla í Ameríku. Af þeim sökum tapaði hann kosninu árið 1933 fyrir demókratanum Franklin D. Roosevelt. Herbert Hoover hefur ávalt verið talinn versti forseti Bandaríkjanna. Bandaríski hershöfðinginn Colin Powell útskrifaðist frá New York háskóla með jarðfræðigráðu en fékk aðeins “C” á lokaprófinu. Ekki varð mikið úr jarðfræðistörfum hans og snéri hann sér að herþjónustu í staðinn. Lengi var talið að hann yriði forsetaefni repúblikana en svo fór ekki eftir hrakfarir hans í Írak. Jarðfræðingurinn Emil Constantinescu varð forseti Rúmaníu frá 1996 til 2000. Hann var prófessor í jarðfræði við háskólann í Búkarest. Um tíma stýrði hann áróðri fyrir kommúnistaflokkinn í Rúmaníu, en söðlaði síðan um, og tók virkan þátt í frelsisbaráttunni uppfrá því. Wen Jiabao forsætisráðherraAnnar merkur stjórnmálamaður er jarðfræðingurinn Wen Jiabao, núverandi forsætisráðherra Kína. Hann útskrifaðist frá Jarðfræðistofnun Beijing háskóla og hlaut mikinn frama innan jarðvísindanna í Kína. Hann hefur verið forsætisráðherra síðan árið 2002. Jiabao mun hafa rætt um varmaorku í jarðskorpunni við forseta Ólaf Ragnar Grímsson. Árin 1970 til 1974 starfaði ég í Vestur Indíum, og þá kynntist ég jarðfræðingnum Patrick Manning. Hann starfaði lengi við olíuleit í Trínidad, en varð síðan forsætisráðherra þar í landi árið 1991 og þar til 2010. Olía og jarðgas eru miklar auðlindir í Trínidad og hafði Manning mikil áhrif á nýtingu þeirra. Síðast en ekki síst skal getið Steingríms J Sigfússonar, en hann tók B.Sc.-próf í jarðfræði árið 1981 og starfaði um tíma við jarðfræðirannsóknir. Það er óðþarfi að rekja stjórnmálaferil hans, en hann hefur verið í einum eða öðrum ráðherrastól alltaf öðru hvoru frá 1988 til þessa árs.

Kafað í Járnbotnasundi

USS AtlantaÍ nótt fór ég í átta manna kafbáti niður á flakið af herksipinu Atlanta hér í Járnbotnasundi við eynna Guadalcanal í Salómonseyjum. Flakið er á um 150 til 200 metra dýpi. Við vorum tvo tíma í kafi og fórum hringinn í kringum flakið, sem er mjög illa farið. Atlanta var mjög voldugt herskip, 541 fet eða 165 metrar á lengd og 6000 tonn, með 673 manna áhöfn. Hámarkshraði var 33 hnútar. Hún var vopnuð sextán fimm tommu fallbyssum, níu byssum til aðUSS Atlanta verjast herflugvélum og með átta hólka fyrir tundurskeyti. Hinn 12. Nóvember árið 1942 réðust tuttugu og fimm japanskar herflugvélar og ellefu herskip á ameríska herflotann í Járnbotnasundi. Aðmíráll Scott var um borð í flaggskipi sínu, Atlanta og fórst þar um borð ásamt fjðlda sjóliða. Á hafsbotni liggur járnadrasl úr skipinu í miklum bing, en skrokkurinn er í tvennu lagi. Við skoðuðum stafnið vel, og sáum risavaxnar akkeriskeðjur, og vindurnar sem draga upp akkerin. Einnig voru fallbyssur mjög greinilegar, reykháfarnir og svo brúin. Á botninum er einnig dreif af ósprendum fallbyssukúlum öðrum skotfærum. Tvær myndir fylgja hér með, sem ég tók í ferðinni. Atlanta hvílir á klettabrún hér á botninum, og eru klettarnir gamalt hraunlag, sem myndar grunnbergið fyrir eyjunna Guadalcanal. Allt lífríkið hér niðri fe´kk strax áhuga á ljósum kafbátsins, og innan skamms vorum við umkringdir af tíu til þrjátíu punda túnfiskum, smokkfisk og ýmsu fleira.

Í Járnbotnasundi

JárnbotnasundÉg var rétt í þessu að sigla inn í flóa milli tveggja eyja í Salómonseyjum, sem ber hið sérkennilega nafn Járnbotnasund, eða Iron Bottom Sound. Sundið ber nafnið með rentu, því hér á botninum eru 111 ryðguð flök af ótrúlegum fjölda herskipa frá seinni heimsstyrjöldinni, alls um fimm hundruð þúsund tonn. Það var í ágúst 1942 að fyrsta orrustan varð milli stórveldanna, en alls voru það fimm orrustur, sem í heild stóðu yfir í aðeins 188 mínútur. Í viðbót eru hér á botninum 1450 herflugvélar, og lík yfir tuttugu þúsund hermanna. Japanir högðu byggt herstöð hér á eynni Guadalcanal, sem ameríkanar réðust á í ágúst 1942 og tóku.  HerskipsflakÞá komu japanir til baka með herflugvélar frá herstöð sinni í Rabaul, með enn meira herlið, en þá voru ameríkanar komnir með sextíu skip inn í sundið. Næst gerði stór japanskur herfloti árás í sundinu að nóttu til, og sökkti miklum fjölda skipa ameríska flotans.  Þá var her amerískulandgönguliðanna orðið algjörlega einangrað á eynni.  Enn sendu japanir sjóhertil að taka eynna, en amerískur sjóher er fyrir í sundinu og veitir miklamótstöðu í einni mestu sjórrustu okkar tíma.  Orrustunni lauk með sigri ameríkumanna.  Í dag er margt sem minnir okkur á þessar óskaplegu hamfarir.  Hér eru enn stór og ryðguð flök skipa áströndinni, allskonar fallbyssuvirki á landi og svo auðvitað allt járnadrasliðá  botni Járnbotnasunds.  Þetta var fyrsti sigur bandamanna á Japan og markaði ein mikilvægustu tímamótin í seinni heymsstyrjöldinni.

Kopar og Gull á Bougainville eyju

Uppreisnarmenn BougainvilleÉg hef áður fjallað um kvikmyndina Avatar eftir James Cameron hér í þessu bloggi http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/998231/ Þetta er eiginlega dæmisaga um baráttu milli gráðugra vesturlandabúa og friðsælla frumbyggja. Í kvikmyndinni Avatar ræðst vel vopnað lið námugrafara inn í friðsælt og fagurt land, til að hefja námugröft. Græðgi, rányrkju og grófustu náttúruspjöllum er hér stillt upp andspænis innfæddum þjóðflokki, en þeir lifa í sátt og samlyndi við náttúruna.  Francis OnaMyndin er listaverk og er mjög áhrifamikið áróðurstól sem mun marka tímamót, að mínu áliti. Boðskapur hennar er hreinn og tær, einmitt nú þegar almenningur um allan heim er að vakna af vondum draumi varðandi spillingu á umhverfi okkar af gráðugum útrásavíkingum. Ég er nú á leið til eyjarinnar þaðan sem James Cameron fékk hugmyndina fyrir kvikmyndina Avatar, en það er eyjan Bougainville, sem er sú nyrsta af Sólomonseyjum. Rio Tinto Zinc hóf námurekstur hér árið 1972, og á örstuttum tíma var Panguna náman orðin ein af þemur stærstu koparnámum á Jörðu. Innan skamms voru opnu námupyttirnir orðnir 600 til 800 metrar á dýpt. Á sautján árum skilaði námugröfturinn 3 milljón tonnum af kopar, 306 tonnum af gulli og 784 tonnum af silfri. En náman gat einungis verið rekin með vernd vel vopnaðs herliðs málaliða, sem Rio Tinto fékk frá heimalandi sínu, Ástralíu. Innfæddum íbúum eyjarinnar Bougainville varð strax ljóst að námurekstrinum fylgdi stórfelld spilling á umhverfi og náttúru eyjarinnar, og að námufyrirtækið var að ræna þá miklum auðæfum án þess að stuðla á nokkurn hátt að þróun og velferð eyjarskeggja. Þeir stofnuðu því byltingarsamtök undir forystu Francis Ona, og hófu skæruhernað á hendur Rio Tinto. Panguna koparnámanÁrið 1989 tókst byltingarsinnum að loka námunni eftir mikinn hernað, með því að sprengja upp möstur og turna sem báru raflínur til námunnar. Talið er að meir en tíu þúsund innfæddra hafi fallið í þessum hernaði. Þar með dró Rio Tinto sig til baka frá Bougainville og náman hefur staðið auð og óvirk síðan. En á meðan hefur verð á kopar og gulli margfaldast á heimsmarkaðinum. Bougainville er því á leið með að verða eitt auðugasta landsvæði jarðar -- strax og þeir hefja námureksturinn aftur. Nú er Ona fallin frá vegna malaríuveiki og miklar líkur eru á að námurekstur hefjist nú aftur að nýju.

Silfurberg -- sólarsteinn?

IcelandSparÞegar ég var að alast upp, þá man ég eftir þvi að það var stór og vænn kristall af tæru silfurbergi í stofuglugganum á mörgum heimilum. Í hinum stofuglugganum var oft stytta af rjúpu eftir Guðmund frá Miðdal, sem fullkomnun af íslenskri gluggalist. Silfurberg er merkilegur steinn, enda ber þessi kristall nafn Íslands á alþjóðamáli vísindanna og heitir þar Iceland spar. Nú má vera, að silfurberg hafi verið enn merkilegra á söguöld en nokkurn hefur grunað og er það tengt siglingafræðinni. Leiðarsteinn eða seguljárn var þekktur á þrettándu öld, samkvæmt Hauksbók, sem er rituð um 1300. Seguljárn áttavitans var því þekkt á söguöld um 1300 en óþekkt á landnámsöld. Hverju beittu landnámsmenn til að finna áttir á leið sinni yfir Atlantshaf þegar ekki naut sólar? Í fornbókmenntum er nokkrum sinnum getið um sólarstein í sambandi við siglingar. Þekktast er tilfellið í Ólafs sögu helga, en einnig er getið um sólarstein í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar og í Biskupasögum. Árið 1956 birti Kristján Eldjárn grein í Tímanum um sólarstein. Hann benti á að í máldögum kirknanna í Saurbæ í Eyjafirði, Haukadal, Hofi í Öræfum, Reykholti, Hrafngili og Reynistaðarklaustri, að þær ættu sólarstein og hefur hann greinilega verið dýrmætur kirkjugripur. Elzti máldaginn sem fjallar um sólarstein er frá 1313, en hinn ymgsti frá 1408. Ekki er ljóst hvernig eða hvers vegna sólarsteinn varð kirkjugripur á Íslandi á miðöldum, en Kristján Eldjárn telur að sólarsteinn hafi verið brennigler, nýtt til þess að safna sólargeislum og kveikja þannig eld. Í Ólafs sögu helga er þess getið hins vegar að með sólarsteini væri hægt að finna sólina þótt himinn væri hulinn skýjum. Sólin er auðvitað besti áttavitinn, en hvað gerir maður ef himinn er hulinn miklu skýjaþykkni? Árið 1967 stakk danski fornleifafræðingurinn Thorkild Ramskou upp á að sólarsteinn víkinga hefði verið kristall sem skautar sólarljós.  F1.mediumLjós frá skýjuðum himni er skautað („pólaríserað“) og skautunin er breytileg eftir því hve nærri sólu er horft. Skautun ljóssins getur því gefið upplýsingar um hvar sólin er á bak við skýin. Er hægt að greina hvar á himni sólin er bak við skýin með því að horfa í gegnum sólarstein? Margar tegundir kristalla skauta ljós, og þar á meðal er kordíerít, sem er nokkuð algengt á Norðurlöndunum, einnig feldspat og svo silfurberg. Nýlega birtu frakkinn Guy Ropars og félagar hans grein í riti breska Vísindafélagsins, þar sem þeir fjalla um rannsókn á silfurbergi og notkun þess sem sólarsteinn. Þeir sýna framá að með silfurbergi er hægt að ákvarða átt til sólarinnar þegar skýjað er, og að skekkjan er um eða innan við fimm gráður. Nú hefur merkilegur fundur í skipsflaki frá sextándu öld aftur vakið umræðu á silfurbergi og siglingalistinni. Það gerðist þegar fallegur silfubergskristall fannst í flaki frá bresku skipi við Alderney, sem er nyrsta eyjan í Ermasundi.  alderneySkipið mun hafa sokkið hér árið 1592, og er talið að silfurbergið hafi verið notað sem sólarsteinn. Skipið er frá dögum Elísabetar I drottningar, og var vel vopnað með stórum fallbyssum. En fallbyssur orsaka segulskekkju á áttavitum sem er allt að 90 gráður, og er talið að sólarsteinn hafi verið mikilvægur til siglinga á skipum vopnuðum fallbyssum, þar sem áttavitinn var gagnlaus. Sólarsteinninn frá Alderney er á myndinni hér til hliðar. Silfurbergsnáman að Helgustöðum í Reyðarfirði er frægasti fundarstaður silfurbergs á Íslandi, en einnig hefur silfurberg verið unnið í Hoffellslandi í Hornafirði. Silfurberg er afbrigði af kalkspati, og er algent í gömlum blágrýtislögum á Íslandi þar sem jarðhiti hefur myndað kristallana sem útfellingar úr heitu vatni. Silfurberg er einnig algengt í öðrum löndum og ef þetta er sólarsteinnin frægi, þá var hann fáanlegur víða í Evrópu.

Félagslegt Réttlæti

Getur þetta verið? Að Ísland sé á toppnum, hvað varðar félagslegt réttlæti í heiminum? Stofnunin Bertelsmann Stiftung hefur gert mikla könnun á ýmsum þáttum þjóðfélgagsins, sem varða félagslegt réttlæti í öllum 31 OECD löndunum. Þar lendir Ísland á toppnum og Tyrkland á botninum, eða númer 31. Hin Norðurlöndin eru að sjálfsögðu einnig nálægt toppnum. Hins vegar eru Bandaríkin mjög neðalega, númer 27, og er síðasta stórveldið lítið betra en Mexíkó, sem er númer 30. Hinis ýmsu þættir sem eru kannaðir eru fátækt (Ísland númer 4), menntun (1), atvinnuhorfur (1), jafnrétti (10) og heilsufar (1). Á einu sviði stendur Ísland sig mjög illa, og er mjög nærri botninum (númer 28). Það er á sviði skulda, en það eru skuldir sem næsta kynslóð verður ábyrg fyrir. Þar er Ísland í góðum félagsskap, með Grikklandi, Ítalíu og Japan. Sjálfsagt má deila um þær aðferðir, sem notaðar hafa verið til að mæla hina ýmsu þætti varðandi félagslegt réttarfar, en það kemur mér satt að segja mjög á óvart hvað Frón stendur sig vel í þessari könnun. Stórblaðið New York Times hefur tekið saman helstu þætti skýrslunnar, og set þá upp í myndformi, eins og sjá má hér fyrir neðan. Skýrsluna má lesa í heild sinni hér http://www.bertelsmann-stiftung.de/cps/rde/xchg/SID-7475996A-0738890B/bst/hs.xsl/nachrichten_110193.htm  29blow-ch-popup-v2

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband