Færsluflokkur: Mannfræði

Thomas Piketty gerir árás á frjálshyggjustefnuna: Arftaki Karls Marx?


 

PikettyBókin  “Capital in the Twenty-first Century” eftir franska hagfræðinginn Thomas Piketty er að setja allt á annan endan.  Hver hefði getað ímyndað sér að bók um hagfræði væri nú “top seller” hjá Amazon.com?  Áhrif hennar geta orðið sambærileg við hið fræga verk “Das Kapital”, sem Karl Marx gaf út árið 1867.  En að sjálfsögðu valdi Piketty titil sinnar bókar nú til að minna á þetta klassíska verk kommúnistans Marx. Það skal þó tekið strax fram, að Piketty er alls ekki marxisti.chart-01.jpg

Piketty fjallar fyrst og fremst um það í bók sinni hvernig auði er deilt í þjóðfélaginu.  Auðvitað er það sama gamla sagan, en munurinn er sá, að hann og félagar hans hafa  nú lagt sig í líma við að safna hagtölum og nýjum gögnum um dreifingu og skiftingu auðs í heiminum sem nær yfir meir en þrjár aldir.   Rannsóknir þeirra leiða margt nýstárlegt í ljós, til dæmis að tuttugasta öldin er algjörlega frábrugðin venjulegri þróun um dreifingu auðs, sennilega vegna áhrifa heimsstyrjaldanna tveggja.  Það sem Piketty bendir hvað mest á, er að ójöfn skifting auðs fer mjög vaxandi í þjóðum heims, sem er bein afleiðing frjálshyggjustefnunnar.  Meðal lokaorða hans í bókinni er þetta:  “Market economy, based on private property, if left to itself, …. is potentially threatening to democratic societies and to the values of social justice on which they are based.”

Hingað til hafa fræðimenn aðallega fjallað um meðaltekjur og sögulega þróun þeirra, en Piketty og félagar fara aðra leið.  Fyrsta línuritið sýnir ójöfnuð í tekjum í Bandaríkjunum.  Það sýnir að tekjur hjá auðugustu 10% þjóðarinnar í eitt hundrað ár eru á bilinu  35 til 50%.  Ójöfnuðurinn var mikill í byrjun tuttugustu aldar, og svo aftur nú í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar. Línurit fyrir önnur lönd segja sömu sögu.  Ójöfnuðurinn er gífurlegur og fer vaxandi.  chart-06.jpg

En það sem veldur Piketty mestum áhyggjum (hann kallar það “hræðilegt ástand”) er síðasta línuritið.  Það sýnir að tekjurnar af ávöxtun eigin fjár og ávöxtun fjárfestingar (rauða línan) er nú langt yfir hagvexti (“growth rate of world output”), og bilið fer sívaxandi. 


Everest er sirkus

 

Mikið er rætt um fjallgöngur á Everest þessa dagana.  Dauði 16 burðarmanna frá Nepal í snjóflóði við rætur fjallsins hefur endurvakið umræðu um siðfræði þá, sem ríkir á fjallinu og um sport sem sumir nefna “extreme tourism”. Hvað vilt þú kosta miklu fé til að komast á toppinn? Vilt þú stefna lífi fátækra burðarmanna í vísa lífshættu, einungis til að koma þér á toppinn?  Burðarmenn á fjallinu eru allir Sherpar, og starfa í hálfgerðum þrældómi við  að koma  auðugum túristum frá vesturlöndum upp á toppinn, hvað sem það kostar.  Göran Kropp

Sagan sýnir, að það eru nokkra hetjur, sem hafa klifið Everest, einir, án aðstoðar, án súrefnis, og eru Reinhold Messner og Göran Kropp þar í fremstu röð. Árið 1996 kleif svíinn Göran Kropp tindinn Everest aleinn, án súrefnis og án aðstoðar.  Hann kleif fjallið eftir að hafa ferðast á reiðhjóli með allan farangur sinn frá Eskiltuna í Svíþjóð. Síðan hjólaði hann aftur heim.  Myndin sýnir Göran og reiðhjólið góða. En á sama tíma þegar Göran var á leið niður af fjallinu í miklum stormi, þá voru nokkrir hópar óreyndra fjallgöngumanna á ferðinni, alls 34, og fórust átta manns í storminum, þrátt fyrir allar tilraunir Sherpanna til að koma þeim niður.   

Sherparnir bera upp nær allan farangur, tjöld, birgðir, reipi, stiga, súrefniskúta og annað, sem gerir óreyndum túristum færat að komast á fjallið. Síðan er það oft hlutskipti Sherpanna að bókstaflega draga fjallgöngufólkið á toppinn og bera það niður örmagna.  Jafnvel sjáfum Sir Edmund Hillary ofbýður nú:  “Ég held að ástandið varðandi klifur fjallsins Everest sé komið á hryllilegt stig.  Fólk vill bara komast á toppinn, hvað sem það kostar.  Það sinnir engu varðandi ástand og vandræði annara, sem kunna að vera í lífshættu.”  Aðrir reyndir fjallamenn segja að nú sé Everst eins og sirkus, og fari stig versnandi.

En þetta er dýrt sport. Þeir sem nú vilja klífa syðri leiðina frá Nepal þurfa að greiða allt að $65 þúsund á mann fyrir ferðina.  Hins vegar eru nú í boði klifurferðir upp norður leiðina,  undir stjórn Kína,  sem kosta “aðeins” um $10 þúsund. 


Neyðarlegt símtal í hjólhýsi

 

 

ForsetarObama forseti kom því til leiðar í gær að Netanyahu forseti Ísraels hringdi í Erdogan forseta Tyrklands og barst afsökunar á framkomu ísraelshers.  Eins og kunnugt er, þá skutu og drápu ísraelar marga tyrki á skipi í Miðjarðarhafi, sem voru í mótmælaaðgerðum árið 2010.

En það eru sennilega fáir, sem hafa áttað sig á því hvað símtalið var neyðarlegt. Obama bókstaflega neyddi Netanyahu forseta til að hringja úti á flugvelli, á meðan þota Bandaríkjaforseta beið á brautinni í lok heimsóknarinnar.  Obama og Netanyahu fóru inn í hjólhýsi á flugvellinum og þar hringdi Netanyahu til Tyrklands.  Hvað skyldi Obama hafa beðið oft um símtalið, á meðan heimsóknin til Ísrael stóð yfir?

Þessi litla mynd gefur góða hugmynd um þann mikla þrýsting, sem Obama hefur þurft að beita Netanyahu til að fá afsökunina fram.  Þannig reynir hann að halda utan um starfsemi NATO fyrir botni Miðjarðarhafsins.  Hann gafst ekki upp. Vonandi verður hann jafn farsæll í lausn kjarnorkuvopnadeilunnar við Íran.


Hornin á hjálmi víkingsins

 

 5051269524_f3d4d7d985_z.jpg

Það er hvimleitt þegar menn taka upp á því að þykjast búa til hefð þar sem engin var fyrir. Þetta þekkjum við tildæmis í sambandi við íslensku lopapeysuna, með útprjónuðum kraga.  Hvað sem við reynum að telja útlendingum trú um, þá er sú staðreyndin sú, að útprjónaði stíllinn er stolinn frá glerperlumunstri á krögum grænlenskra kvenna.  Útprjónaða lopapeysan er því “hefð” sem er aðeins um fimmtíu ára gömul.  

Svipaða sögu má segja um víkingshjálminn sem er skreyttur kýrhornum. Reyndar eru það plasthorn á hjálminum, sem seldur er í túristabúðum.   Talið er að hjálmurinn með hornum á hafi fyrst komið fram á sviðið árið 1876.  Þá hannaði Carl Emil Doepler búninga fyrir óperu Richards Wagner,  Hringur Niflungsins, sem byggð er á Völsungasögu.  Myndin til hliðar sýnir víking Doeplers, með sinn hyrnda hjálm.  Mýtan um hjálminn er því algjörlega byggð á rómantískum bollaleggingum þýsks leikbúningahönnuðar og eiga engar rætur í norrænni menningu, frekar en prjónaði kraginn á íslensku lopapeysunni.  Slíkar mýtur tilheyra ímyndaðri veröld Walt Disneys en ekki fornnorrænni menningu.


Rostungstennur voru Fílabein Norðursins

 

RostungurÍ fyrrasumar fór eg í gönguferð út á Hítarnes á Mýrum og gekk alla leið suður að Akraósi. Þetta er falleg og skemmtileg gönguleið.  En erindi mitt var mjög markvisst: ég var að leita að rostungstönnum.  Ekki fann ég nú annað merkilegt í fjörunni en myndarlegt hvalbein, en ástæðan fyrir ferð minni á þessar slóðir var lýsing á skipsbroti í Kongungsannál frá árinu 1266.  Þar segir svo: 1266 IV. Konungsannáll: Þá braut Grænlandsfar á Hítarnesi, xli menn létust.”  Ég geri ráð fyrir að þetta séu 41 menn, sem fórust.  Aðrar heimildir telja að hér hafi verið biskupsskip á ferð, hlaðið dýrmætum farmi frá Grænlandi og að lengi á eftir hafi fundist rostungstennur í fjörunni í grennd við Hítarnes.   

Rostungstennur frá Grænlandi urðu snemma dýr og eftirsótt verslunarvara, en þær voru taldar gersemar á miðöldum. Þá er sýna átti erlendum þjóðhöfðingjum og höfðingjum mikla sæmd voru þeim færðar rostungstennur að gjöf. Bæði Hákon konungur gamli og Magnús lagabætir sendu til dæmis Englakonungi slíkar gjafir.  Hrafn Sveinbjarnarson færði hinum heilaga Tómasi Becket  í Kantaraborg á Englandi rostungstönn að gjöf á ferð sinni til suðurlanda í byrjun þrettándu aldar.   Rostungstennur eru einnig nefndar sem útflutningsvörur í réttarbót Hákonar konungs frá árinu 1316.  Verðið var talið um hálf mörk silfurs hver rostungstönn.  Mörk silfurs er talin um 214 grömm, en til samanburðar má geta þess að árslaun vinnumanns voru 1 mörk silfurs. Auk rostungstanna voru auðvitað ýmsar aðrar dýmætar vörur frá Grænlandi, sem verslað var með á miðöldum. Þar á meðal feldir hvítabjarndýra, fálkar og tennur náhvela, sem sumir Evrópumenn töldu vera horn einhyrninga. 

Á Grænlandi munu norrænir menn hafa fangað rostung fyrst og fremst í Norðursetu, sem er svæðið umhverfis og fyrir norðan Diskóeyju.  Þessi frægi veiðistaður er allangt fyrir norðan Vestribyggð, en þar fengu þeir rostung eða romshval, nærri ísröndinni.  Hér munu norrænir menn hafa stundað veiðar í grennd við inúíta eða eskimóa, sem veiddu hér sel á ísröndinni. 

Rostungar koma fyrir við strendur Íslands, en rostungalátur hafa ekki verið mikilvæg hér við land. Síðast kom rostungur inn í Rifshöfn á Snæfellsnesi árið 1983.  Þá finnast tennur öðru hvoru hér, einkum á ströndum Snæfellsness.  Þrjár rostungstennur fundust við fornminjauppgröft í skálanum í Aðalstræti 14-16  í Reykjavík og sennilega voru þær verslunarvara. Brimill

Romshvalur eða rostungur var greinilega mjög mikilvægur fyrir norræna menn á Grænlandi og sennilega hafa sumir þeirra safnað auði vegna verslunar með þetta fílabein norðursins. Þar voru veglegar og vandaðar steinkirkjur reistar, eins og til dæmis dómkirkjan að Görðum og Hvalseyjarkirkja.  Engar slíkar kirkjur voru reistar á Íslandi á miðöldum. Tíundin fyrir kristna menn á Grænlandi var greidd í Páfagarð í rostungstönnum, selskinnum og húðum. Árið 1327 veitir til dæmis páfalegur legáti móttöku 260 rostungstönnum úr Garðabiskupsdæmi.

Á fyrri hluta miðalda kom rostungstönnin í stað hins eiginlega fílabeins.  Fílabein hefur verið í miklum metum meðal hástéttarinnar alla tíð frá Egyptum til forna og sennilega enn lengra aftur í tímann. En efnið sem við köllum ivoire, ivory eða fílabein er tannvara, sem kom ekki eingöngu frá fílum. Tennur náhvela, rostunga, flóðhesta og jafnvel svína voru einnig seldar sem fílabein. Einnig tennur háhyrninga og búrhvela. Besta fílabeinið er talið koma úr flóðhestatönnum. 

Í Kína er saga fílabeinsins enn lengri, eða aftur til um 5000 f.Kr.  og einnig á Indlandi.  Til forna voru það Fönikíumenn sem fluttu fílabein frá Indlandi til Evrópu. Eftir fall Rómarveldis lagðist þessi verslun af og í nokkur hundruð ár var erfitt að fá fílabein í Evrópu.  Á þessu tímabili kom rostungstönnin þá í stað fílabeins og naut strax mikilla vinsælda allar miðaldirnar.  Þetta kunna að hafa verið uppgripatímar fyrir norræna menn á Grænlandi í nokkur hundruð ár. Þeir gátu komist yfir mjög dýrmæta vöru, sem þeir versluðu með suður í Evrópu.

Það var ekki fyrr en á fimmtándu öld að Feneyjakaupmenn hófu viðskifti við þjóðflokka í austur Afríku og í löndum sunnan Sahara. Þá dró úr eftirspurn eftir rostungstönnum, enda samband við Grænland orðið mjög slitrótt vegna loftslagsbreytinga á norðurslóðum: litla ísöldin var gengin í garð. Á sautjándu öldinni hófst svo verslun Evrópumanna í vestur Afríku, á Fílabeinsströndinni.  Á nítjándu öldinni var fílabein orðið mikilvægt hráefni fyrir vissan iðnað.  Aðal eftirspurnin fyrir fílabein var sem hráefni til að framleiða billiardkúlur, hvíta píanólykla, hnappa, hnífsköft og hárkamba og greiður.  Þetta var fyrir daga plastíksins og eftirspurnin eftir fílabein var nú gífurleg. 


Bráðnunin mikla á Grænlandi

 

Bráðnun Grænlands júlí 2012Dagurinn 12. júlí árið 2012 var merkisdagur á Grænlandi. Þá í fyrsta sinn bráðnaði yfirborðið á um 98,6% af íshellunni, sem þekur Grænland.  Fyrsta myndin sýnir Grænland eins og bráðnunin kom fram á mælingum frá gervihnetti NASA.  Ég kom til Grænlands þrisvar á síðastliðnu sumri og var vitni af stórkostlegum atburðum, sem fylgdu í kjölfar bráðnuninnar: stór stöðuvötn voru á víð og dreif um yfirborð jökulsins, stórfljót runnu yfir jökulinn milli vatnanna og steyptust niður í hyldjúpar jökulsprungur, jökulhlaup brutust út undan jöklinum og eyddu brúm og vegum. Bráðnun af  þessu tagi hefur ekki gerst síðan árið 1889, og þar á undan fyrir um 700 árum.  Jöklafræðingar sjá vitnesku um slíka bráðnun í ískjörnum við borun í jökulinn. Í kjörnunum koma gömul bráðnunarlög fram mjög greinilega, sem lag af hreinum og tærum ís, alveg eins og sá ís, sem þú færð út úr kæliskápnum og inniheldur enga loftbólur.  Bráðnunin fyrir 700 árum gerðist á hlýskeiði. Loftslag Grænlands

Eins og önnur mynd sýnir, þá hafa verið miklar sveiflur á loftslagi á Grænlandi í gegnum aldirnar. Skömmu eftir Krists burð var hlýskeið, sem er kennt við Rómverja (Roman Warm Period RWP). Því fylgdi kuldatími, sem varði í nokkur hundruð ár (DACP á myndinni).  Þá í kringum 800 til 900 eKr. tók við annað hlýskeið sem kennt er við Miðaldir (MWP).  Í byrjun þessa hlýskeiðs hófst landnám á Íslandi  og íslendingar settust að á Grænlandi í kjölfar landnáms Eiríks Rauða. Þetta hlýskeið gerði löndum okkar fært að nema land hér á Grænlandi. En seint á miðöldum kólnaði aftur og í kringum 1450 var byggðin komin í eyði vegna loftslagsbreytinga.  Litla ísöldin gekk nú í garð (LIA á myndinni).

Það þarf ekki að leita lengra til að fá skýringu á hvarfi byggðar norrænna manna á Grænlandi. Hnignandi veðurfar gerði þeim illmögulegt að heyja fyrir sauðfé og annan búpening og forfeður okkar vildu ekki aðlaga sig að háttum eskimóa, sem kunnu að nýta sér sel, hval og annað sem hafið hefur uppá að bjóða.  Af þeim sökum varð einangrun, hnignun samfélagsins, samdráttur, fólksfækkun og að lokum útdauði og endir á hinni merkilegu tilraun Eiríks Rauða að gera bólfestu hér á nyrsta útjaðri hins byggilega heims.


Þegar Vilhjálmur Stefánsson stakk af

 

Ferð KarluksFyrir um eitt hundrað árum, árin 1913 og 1914, urðu þáttarskil í sögu heimskautarannsókna. Þessi ár lögðu af stað tveir síðustu leiðangrarnir í tréskipum, fyrir daga loftskeyta, sendistöðva og flugvéla. Annar leiðangurinn var á skipinu Endurance, undir Stjórn Ernest Shackleton.  Hann stýrði í átt að Suðurpólnum, og veitti mönnum sínum frábæra forystu í gegnum skipsbrot og aðrar miklar hörmungar, en honum tókst að koma þeim öllum aftur heim, heilu og höldnu. Hinn leiðangurinn var á skipinu Karluk í átt að Norðurskauti, undir stjórn Vilhjálms Stefánssonar.  Vestur Íslendingurinn stakk af:  hann yfirgaf bæði skip og áhöfn þegar á reyndi.  Ellefu af tuttugu og fimm þátttakendum leiðangurs hans fórust.  

Að minnsta kosti þrjár bækur hafa nú komið út, þar sem fjallað er um Karluk leiðangurinn. Ein þeirra er eftir skotann William Laird McKinlay (1976) sem var einn af vísindamönnum leiðangursins. Önnur bókin er eftir sjálfan skipstjóra Karluks, Robert Bartlett (1916, 2007), og sú þriðja eftir Jennifer Niven (2000).  Ég las nokkuð af þessu merkilega efni nú yfir hátíðirnar. Þessar áreiðanlegu heimildir um afdrif leiðangursins, áhafnarinnar á Karluk  og undarlega framkomu Vilhjálms Stefánssonar er ekki fallegur lestur.   

Karluk var 39 metra langt tréskip, með 13 manna áhöfn. Um borð voru auk þeirra voru 10 vísindamenn og 7 eskimóar, sem voru veiðimenn leiðangurins.  Þeir sigldu frá Alaska og síðan inn á Íshafið um Beringssund. Í byrjun ágúst voru þeir komnir í lausan og gisinn rekís, en Vilhjálmur gaf skipun um að sigla norður, inn í ísinn. Hann var að leita að nýju og áður óþekktu meginlandi, sem hann taldi vera í grennd við Norðurpólinn.  Skipið sat nær strax fast í ísnum, sem teygðist eins langt og augað eygði.  Vilhjálmur varð fljótlega órólegur um borð og þoldi ekki biðina.  Hinn 20. september yfirgefur hann skipið Karluk og lýsir yfir að hann ætli að skreppa í veiðiferð á hafísnum í nokkra daga. Hann tekur með sér tvo eskimóa veiðimenn, nokkra hundasleða, þrjá vísindamenn og miklar birgðir. Vilhjálmur sagðist munu koma til baka eftir viku til tíu daga.

Karluk var enn fastur í  ísnum og rak fyrst til austurs en síðar nokkuð hratt til vesturs. Á meðan hélt Vilhjálmur yfir ísinn til suðurs og tók land í Alaska með fámennt lið sitt. Hann gerði  enga tilraun til að hafa aftur samband við skipið Karluk.  Næstu mánuði rak skipið með hafísnum stöðugt til vesturs. Úti var hörkufrost, vetur og myrkur. Stöðugt óx óttinn um, að skipið myndi brotna vegna hins gýfurlega þrýstings.  Ísinn kreisti skipsskrokkinn og miklir brestir dundu yfir öðru hvoru. Bartlett skipstjóri gerði sér grein fyrir að innan skamms myndi skipið brotna og flakið sökkva í hafið. Hann skipaði því áhöfninni að fytja birgðir út á ísinn og reisa þar búðir skammt frá skipinu. Karluk í ísnumEftir nokkra daga var kominn stór bingur af birgðum á ísnum: 250 kolapokar, 6 kassar af saltfisk, 114 kassar af kexi, 9 hundasleðar, 3 kolaofnar, 33 kassar af benzíni, 2000 fet af timbri og fleira.  Jólin gengu í gar og enn var áhöfnin um borð, en tilbúin að yfirgefa Karluk ef hættu bæri að garði. Enn rak skipið til vesturs, í átt til Wrangeleyjar í Íshafinu fyrir norðan Síberíu.  

Hinn 10. janúar braut ísinn að lokum skipið og áhöfnin flutti í búðirnar á ísbreiðunni, sem voru á um 73oN breiddargráðu. Á meðan skipið sökk tóku þeir þá ákvörðun að ganga yfir ísinn með hundasleða og birgðir til Wrangeleyjar, sem var nú í um 200 km fjarlægð.  En fyrst var standrað við í búðunum á ísnum og ferðin vel undirbúin.  Fyrsta tilraun til að gang yfir ísinn til Wrangel hófst hinn 21. janúar.  Hópurinn lenti strax í mikilli ófærð, þar sem ísinn hafði hrannast upp í mikla hryggi og á milli voru stórar vakir.  Sumir sneru aftur til ísbúðanna. Næstu daga fóru fleiri hópar af stað yfir ísinn og árangurinn var svipaður: miklar svaðilfarir, kal á fingrum og tám, slys og dauði. Smátt og smátt tókst þeim að merkja færa leið og nálgast eynna. 

Loks var landi náð á Wrangel hinn 12. mars.  Þar er alger auðn, óbyggð eyja, en nokkuð af rekaviði, selveiði og fuglabjarg.  Bartlett skipstjóri gerði sér strax ljóst að nú væri nauðsynlegt að koma boðum til byggða í Síberíu. Hann sá að enginn af áhöfninni var fær um slíka þolraun nema hann sjálfur og einn eskimóinn. Þeir lögðu af stað frá Wrangel yfir ísinn hinn 18. mars og eftir miklar raunir náði Bartlett til Síberíu í byrjun apríl og komst til byggða innfæddra. Það tók nú Bartlett skipstjóra einn mánuð í viðbót að komast yfir Síberíu til hafna í austri, þar sem von var á að fá bát til Alaska.  Hann var staðráðinn í að gera út björgunarleiðangur til hjálpar mönum sínum, sem eftir sátu á Wrangeleyju. 

Þegar Bartlett komst loks til Alaska hinn 28. maí hóf hann strax undirbúning til að senda bát til Wrangel. Á meðan kom í ljós að Vilhjálmur hafði ekkert aðhafst varðandi leit að hinni horfnu ahöfn og skipinu Karluk.  Á meðan versnaði ástandið á Wrangel. Sumir létu nú lífið af næringarskorti og einn skipbrotsmannanna var myrtur. Allir mannasiðir og siðfræði var nú farin land og leið meðal áhafnarinnar og deilur um matarleifar urðu heiftúðlegar.  Aðeins eskimóarnir héldu sönsum og héldu reyndar lífinu í mannskapnum með veiðum. 

Meðal hinna sjö eskimóa sem Vilhjálmur valdi í leiðangurinn á Karluk var ein fjölskylda: faðirinn Kuraluk, kona hans Kiruk og dæturnar Helen (8 ára) og Mugpi (3 ára).  Fjölskyðdan komst öll af, en Mugpi lifði lengst allra leiðangursmanna. Hún létst í Alaska árið 2008, 97 ára að aldri.    Kurruluk fjölskyldanLoks kom sumar á eynni en það var kalt og í byrjun ágúst gekk vetur aftur í garð.  Það var loks hinn 7. september að hjálp barst þegar skip frá Alaska náði loks til eyjarinnar í gegnum ísinn. Ellefu höfðu nú farist af þeim 31 sem upphaflega tóku þátt í leiðangrinum.  

Fréttin um björgun áhafnarinnar af Karluk barst út um allan heim inn 14. september 1914, á sama tíma og fyrstu stórorustur fyrri heimsstyrjaldarinnar byrjuðu að geisa í Evrópu. Fjórtán mánuðir höfðu nú liðið frá því að Karluk sigldi fyrst úr höfn.  Vilhjálm Stefánsson var hvergi að sjá, en ritari hans reyndi að taka viðtöl við skipbrotsmennina með það fyrir augum að birta birta greinar í blöðum og ritum, sem Vilhjálmur hafði samband við. Andúð áhafnarinnar á Vilhjálmi var nú svo mikil, að enginn þeirra féllst á að veita sendimanni Vilhjálms viðtal. 

En Vilhjálmur var ekki af baki dottinn. Árið 1922 gerði hann út leiðangur til Wrangeleyjar í þeim tilgangi að eigna Kanada eynna. Í þennan leiðangur sendi hann fjóra menn og eina eskimóakonu, en hætti sjálfur við þáttöku á síðustu stundu. Allir mennirnir fórust en eskimóakonan Ada Blackjack komst ein af úr þeirri ferð tveim árum síðar.  

Hver er nú arfleifð Vilhjálms? Eftir hörmungarnar á Karluk og á Wrangeleyju varð Vilhjálmur strax mjög umdeildur.  Einn nefndi hann “an explorer-cum-swindler”.  Norski landkönnuðurinn Roald Amundsen hafði ekki mikið álit  á honum og kallaði Vilhjálm “the greatest humbug alive”.   Einnig var gert grín af fullyrðingu hans að hann hefði uppgötvað  “ljóshærðu eskimóana”.  En á Íslandi er minningu Vilhjálms hampað þeð því að setja á laggirnar árið 1998 rannsóknastofnun sem ber hans nafn, af því að hann var frægur.  Rannsóknir síðari tíma sýna nú að hann er frægur að endemum.    


Stytturnar á Páskaeyju "gengu" á staðinn

 

Páskaeyja Páskaeyja er mjög afskekkt eldfjallaeyja í miðju Kyrrahafinu. Á eynni finnast meir en eitt þúsund styttur, sem hafa verið höggnar til úr hraungrýti og síðan fluttar langar leiðir og stillt upp sem útverðir eyjarinnar.  Þær eru kallaðar Moai á máli innfæddra. Sumar stytturnar eru allt að 74 tonn að þýngd og um tíu metrar á hæð.  Þær eru höggnar til úr einum steini. Hvernig í ósköpunum komu eyjabúar þeim frá námunni og á staðinn, um margra kílómetra veg?  Nú er komin fram ný kenning um hverngi moai komust leiðar sinnar -- þær fóru gangandi. Myndbandið sýnir tilraun sem var gerð nýlega til að sannprófa þessa kenningu.  Með því að binda þrjú reipi í toppinn á styttunni og toga í sitt á hvað, þá er hægt að fá moai til að ganga eða rugga sér áfram. Þetta má sjá hér:  http://www.dailymail.co.uk/sciencetech/article-2222376/Did-Easter-Islands-statues-walk-place-Controversial-theory-suggests-megaliths-moved-position-fridge.html#ixzz2Ac1s8I7B

Moai gangandi Þetta er eithvað það snjallasta, sem ég hef lengi séð og mjög sannfærandi um uppruna styttnanna.  Þær eru höggnar úr gosmyndun, sem er að mestu harðnað basalt gjall, einskonar móberg eða fremur blöðrótt basalt hraun og því ekki eins þétt og blágrýti.  Enn er þó gátan um uppruna þjóðflokksins sem gerði stytturnar óleyst.


Norrænir Menn á Grænlandi: Fyrirlestur

Síðasti fyrirlestur Eldfjallasafns í Stykkishólmi að sinni verður laugardaginn 27. október kl. 14. Þar verður fjallað um norræna menn á Grænlandi.  Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Skálin í Hrossatungum

Hrossatungur gígurÞað hefur aldrei fundist gígur eftir loftstein á Íslandi - ekki enn.  Ég var því spenntur fyrir að kanna skálina sem er sunnan til í Hafnarfjalli, í Hrossatungum.  Skálin er sýnd á fyrstu myndinni, með Skarðsheiði á bak við. Myndirnar tók Ragnar Axelsson einnig í dag.   Hér er greinileg skál eða gígur, á svæði, þar sem ekki hefur gosið eftir ísöld.  Auðvitað hafa loftsteinar fallið á Íslandi, en rof jökla hafa þurrkað út öll vegsummerki eftir þá. Var hér góður kandídat? Ég fór þvi upp í Hafnarfjall í dag, ásamt Birgi Jóhannessyni og fjölskyldu hans. Skálin er mjög falleg og vel þess virði að skoða.  Hún er um 200 m löng frá SV til NA og um 150 m á vídd. Mesta dýpi hennar er um 50 m.  Botninn er sléttur og klæddur mjúkum og þykkum mosa.  Ekkert gil skerst niður í skálina og er hún því mjög regluleg í laginu og reyndar ungleg.  Brúnir skálarinnar eru úr basalti.  Þetta er fremur þykkt basaltlag, og víða með stóra stuðla, sem liggja láréttir, eins og sjést oft í berggöngum. Eystri brún skálarinnar er hæst og þar hefur basaltið verið rofið töluvert, sennilega af yfirgangs skriðjökuls. Það er ekkert að finna hér, sem bendir til loftsteinsáreksturs.  HrossatungurLoftsteinsgígar sýna viss einkenni sem greina þá frá gosgígum. Þar á meðal má nefna sérkennilega sprungumyndun í berginu umhverfis, myndun af tinnu-líku gleri sem verður til vegna bráðnunar, og einnig lag af urð og grjóti, sem hefur kastast upp úr gígnum.  Hér er ekki slíkt að finna.  Skálin er því gosgígur, en hvað er hann gamall? Eldstöðin sem myndaði Hafnarfjall er um 4 milljón ára gömul og hefur Hjalti Franzson meðal annara kannað hana. Gígurinn er því mun yngri en virkni í Hafnarfjallseldstöðinni.  Hann er sennilega tengdur myndun af móbergi og þursabergi, sem finnst her í grennd. Þá er aldur hans sennielga frá lokum ísaldar eða innan við  eitt hundrað þúsund ára.  Á seinni myndinni má sjá hópinn á gígbrúninni,  inni í rauða hringnum. Leitin af loftsteinsgíg á Íslandi heldur því áfram.......

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband