Færsluflokkur: Mannfræði
Flúoríð mengun
12.7.2014 | 09:02
Það kemur alltaf betur og betur í ljós, að opinbert eftirlit á Íslandi með matvælum, vörum, umhvefi, mengun og bókstaflega öllum atriðum sem snerta neytandann og hinn almenna bogara er sérstaklega veikt og lélegt og því fer hrakandi. Bæði Ólafur Stephensen og Stefán Ólafsson hafa bent nýlega á þetta vandamál á prenti varðandi stjórnsýslu landsins. Áður fyrr voru Neytendasamtökin mjög virkur aðli, sem bar hag almenning í brjósti, en nú virðist mér að við heyrum miklu minna úr því horni. Landvernd hefur hins vegar verið dugleg við að fjalla um náttúruverndarmál, en hefur ekki undan í dag, þar sem krafturinn í virkjanamálum og stóriðnaði virðist fara sívaxandi.
Öðru hvoru heyrum við um flúoríð mengun umhverfis álver á Íslandi og er það áhyggjuefni. Flúor er eitt efnahvarfgjarnasta frumefni á jörðu og þess vegna er það nauðsynlegt við álbræðslu. Þá er blandað saman krýólíti (Na3AlF6) eða sviðuðum hvata og álríkum jarðefnum (báxít eða súrál Al2O3) í rafknúnum bræðsluofnum og við það myndast eða skilst frá málmurinn ál. Fúór-ríku íblöndunarefnin lækka bræðslumarkið frá yfir 2000 og niður að um 1000 gráðum C. Við bræðsluna losna mengandi efni út í andrúmsloftið og er rætt um að fyrir hvert tonn af ál berist út 0,6 kg af flúoríði út í loftið og einnig um 0,6 kg af flúor-ryki. Mér skilst að Alcoa Fjarðarál noti um 5450 tonn af álfúorið á ári og fer mikill hluti þess flúors út í andrúmsloftið. Kortið sýnir staðsetningu verksmiðju Alcoa Fjarðarál á ströndinni rétt fyrir austan byggðina í Reyðarfirði. Almennt er talið að óæskilegt sé að flúor fari yfir 30 til 50 míkróg/g í heyi eða grasi. Eins og glöggt kemur fram á kortinu, þá er gildi flúors í grasi víða yfir 50 míkróg/g (rauðu blettirnir) og sex mælingar eru jafnvel yfir 100 míkróg/g. Mér er ekki kunnugt um hvað mikið magn af flúor Alcoa er leyfilegt að dæla út, en hér er hættulegt ástand að þróast.
Er Bigfoot til?
3.7.2014 | 10:43
Með tilkomu vísindalegra aðferða má segja, að ekki er lengur hægt að komast upp með það að gera hvaða yfirlýsingar sem manni dettur í hug, því nú eru til aðferðir til að prófa sanngildi þeirra. Í mög ár hafa menn þóttst sjá bregða fyrir í skóginum furðuveru, sem líkist stórum og loðnum manni. Myndin sem fylgir er tilbúin og ekki raunveruleiki. Í Norður Ameríku er hann kallaður Sasquatch eða Bigfoot. Í Himalayafjöllum kallast hann yeti. Rússar kalla hann Almasty. Stundum sést honum bregða fyrir og stundum finnast risastór fótspor hans í jarðveginum. Stundum skilur hann eftir hár á trjágreinum. Fyrir tveimur árum sendu vísindamenn í Oxford og Lausanne út boð til heimsins, að safna saman einhverjum leifum sem finnast af bigfoot til rannsóknar. Þeim bárust 57 sýni víðsvegar að úr heiminum, sem voru flest af einhverskonar hárum. Reyndar reyndust sjö vera af gróðri. Vísindamennirnir, sem voru flestir erfðafræðingar, greindu erfðamengi eða DNA í hinum sýnunum, en aðeins 30 voru nothæf til rannsókna. Tíu þeirra reyndust vera af björnum, fjögur af hestum, fjögur af úlfum eða hundum, eitt af manni, og hin af kúm, dádýrum, og eitt af ísbirni. Ekkert af sýnunum var því frábrugðið vel þekktum dýrategundum. Bigfoot er bara plat, eins og aðrar sögusagnir um öll hin skrímslin. Vel á minnst: hvað er að frétta af opinberu rannsóknarnefndinni, sem á að fjall um tilvist ormsins í Lagarfljóti? Setur hið opinbera pening í slíka vitleysu?
Fracking: niðurdæling sem mengar
2.7.2014 | 07:05
Fyrir 70 árum komu nokkrir jarðfræðingar og verkfræðingar saman umhverfis borholu í Kansas og gerðu tilraun. Þeir dældu niður á 700 metra dýpi blöndu af benzíni og sandi undir miklum þrýstingi í þeirri von, að blandan myndaði sprungur í berginu og losaði þannig um jarðgas. Borholan fer fyrst niður lóðrétt, en síðan tekur hún boga og gengur lárétt inn í jarðlögin, sem innihalda gasið. Þetta var byrjunin á aðferð sem nefnist hydraulic fracturing eða fracking og hefur hún valdið byltingu í olíu og gas iðnaðinum. Með þessari aðferð er nú hægt að ná út gasi og olíu úr jarðlögum, sem áður voru talin orðin þurr. Bókstaflega að kreista gas og olíu út úr steininum. Fracking hefur síðan verið beitt við gas og olíuvinnslu í þúsundum borhola í Pennsylvaníu, Texas og Norður Dakóta. Myndin sýnir að borholum er þétt dreift yfir stór svæði og allt berg er þar undir þrýstingi. Enn er þessari tækni nær eingöngu beitt í Bandaríkjunum og gasið er nefnt shale gas. Allt í einu eru Bandaríkin orðin fremsti jarðgas framleiðandi heims! Framleiðsla af shale gasi hefur aukist um 700% í Bandaríkjunum síðan 2007. Þar með hefur verð á jarðgasi fallið mikið, eins og línurítið sýnir. Jákvæðar hliðar á fracking eru þær að gasið er ódýrt og dregið hefur mikið úr brennslu kola í raforkuverum í Bandaríkjunum og gas hefur tekið við. Við það hefur minnkað verulega útblástur af koltvíoxíði og einnig brennisteinsgösum.
En neikvæðu áhrifin eru risastórt vandamál. Umhverfisáhrif vegna fracking eru margskonar. Efnasamseting vökvans, sem dælt er niður í borholur er iðnaðarleyndamál og hvert gasfyrirtæki hefur sína formúlu. Rannsóknir sýna að vökvinn er oft einhverskonar díselolía, með ýmsum aukaefnum. Það á meðal er benzen, sem veldur krabbameini. Hingað til hefur gasiðnaðurinn haft frjálsar hendur með fracking og af þeim sökum mengað jarðvatn í mjög stórum svæðum í Ameríku. Hér er listi yfir nokkur af þeim 600 efnum, sem hefur verið dælt niður í sambandi við fracking: benzene, ethylbenzene, toluene, xylene, naphthalene, methanol, formaldehyð, ethylene glycol, saltsýra, og einnig kemur fram í þessum blöndum efni eins og blý, úran, radon, kvikasilfur. Auk þess er vatnsþörf fyrir fracking gífurleg. Ein borhola tekur um 15 milljón litra af vatni og það hefur því mikil áhrif á vatnsbúskap á yfirborði jarðar. Hin hliðin er að fracking er að menga og eyðileggja jarðvatn á stórum svæðum. Oft er þetta jarðvatn, sem er aðal uppspretta drykkjarvatns á þessum svæðum. Þegar skrúfað er frá krananum í eldhúsinu streymir stundum út froða af metan, vatni og drullu. Eitt af því versta varðandi nýfundna gasið er, a' það mun seinka þróun sjálfbæra og endurnýjanlegra orkulinda í landinu. Í viðbót við allt þetta, þá veldur fracking einnig jarðskjálftum. En gas og olíuiðnaðurinn er sterkur og hefur góð sambönd í þinginu í Washington DC. Enn er því löggjöf um fracking á frumstæðu stigi. Hvílíkt böl, að eiga slík auðæfi í jörðu, sem gera menn viti fjær af græðgi.
Mannfræði | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Ljósmynd Howells af Hrauni
13.6.2014 | 16:10
Ég hef fjallað töluvert um Berserkjahraun hér í blogginu, en hér er ein frábær mynd af gamla bænum. Um aldamótin 1900 tók breski ljósmyndarinn Frederick W.W. Howell yfir 400 myndir á Íslandi. Þær eru nú í safni Cornell Háskóla í Bandaríkjunum og aðgengilegar á netinu. Ein þeirra er merkt þannig í safni Cornell: Hraun. Styr's home. Howell, Frederick W. W. ca. 1900. Styr er að sjálfsögðu Víga-Styrr, sem bjó undir Hrauni eða í Berserkjahrauni. Fjölskyldan raðar sér upp fyrir ljósmyndarann, með pabba og strákinn á aðra hönd og mæðgurnar við bæjardyrnar. Húsmóðirin er búin að setja á sig tandurhreina og hvíta svuntu. Gamli bærinn er að sjálfsögðu alveg eins og á teikningu Collingwoods frá 1897.
Mannfræði | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Rótað í dys berserkjanna
11.6.2014 | 16:01
Að öllum líkindum hefur verið grafið einhvern tíma í flestar ef ekki allar fornar grafir, dysjar og hauga á Íslandi. Á mestu niðurlæginartímum þjóðarinnar hafa heimamenn sjálfsagt leitað í fornar grafir í von um fjársjóði eða haugfé. Á síðari tímum var það rómantíkin um fornmenn og sögutímann, sem kynti undir, einkum meðal erlendra ferðamanna. Þannig rótaði bretinn W Collingwood í ýmsum gröfum á sögustöðum í lok nítjándu aldar og með fulltingi dr. Jóns Stefánssonar.
Dys berserkjanna hefur einnig orðið fyrir mörgum árásum. Sú fyrsta sem við vitum um er í lok átjándu aldar, þegar Hallgrímur læknir Bachmann (1740-1811) í Bjarnarhöfn fór í dys berserkjanna og kom heim með mannabein. Bachmann, sem var rúmar 3 álnir (yfir 190 cm) á hæð, mældi einn lærlegginn við sig og taldi að berserkurinn hefði ekki verið eins hár og hann. Þetta hefur Ólafur Thorlacíus í Stykkishólmi eftir kerlingunni Prjóna-Siggu, sem var í vist hjá Hallgrími í Bjarnarhöfn.
Ólafur Thorlacius observator (1837-1920) lýsir dys berserkjanna sem 3 álna hárri, og rétt við götuna. Vani er að allir sem ríða framhjá kasta steini í dysina og þessi vegur var mjög fjölfarinn þegar kauptún var í Kumbaravogi hjá Bjarnarhöfn. Sumarið 1875 fór Ólafur frá Stykkishólmi við áttunda mann út í hraun og byrjuðu þeir að rjúfa dysina. Þegar þeir voru um það bil hálfnaðir gerði sunnan rok og rigningu og verkinu var því hætt. Ólafur fór aftur að dysinni og gróf frekar og þá fundu þeir bein, sem Hjörtur Jónsson læknir sagði vera hvalbein. Síðan var dysin hlaðin upp.
Sigurður Vigfússon forni (1828-1892) kannaði Berserkjahraun í ágúst árið 1889. Snæfellski fræðimaðurinn Þorleifur J. Jóhannesson (1878-1944) hefur það eftir Kristjáni Þorleifssyni að Sigurður forni hafi skilið við dysina sundurtætta. Kristján var unglingur í Bjarnarhöfn þegar Sigurður forni var á ferð, en Kristján mun hafa lagfært og endurhlaðið dysina.
Árið 1897 fór W.G. Collingwood hér um, en ekki eru heimildir um hvort hann gróf í dysina. Hins vegar rifu hann og dr. Jón Stefánsson upp gröf Guðrúnar Ósvífursdóttur á Helgafelli í júní 1897 og voru fyrir vonbrigðum með að finna aðeins fúnar spýtur og gömul bein.
Byrgi í Berserkjahrauni
9.6.2014 | 16:49
Eyrbyggja segir svo um þriðju þraut berserkjanna: og gera byrgi hér fyrir innan hraunið. Hvað er byrgi þetta og hvar er það? Björn Jónsson (1902-1987) bóndi á Innri-Kóngsbakka var fróður maður og skráði örnefni í sinni sveit. Björn taldi Krossrétt vera byrgi berserkjanna. Ég tel að svo sé ekki, enda hafði Sigurður forni áður bent á aðrar og miklu líklegri rústir sem hið forna byrgi.
Eyðibýlið Berserkjahraun eða undir Hrauni stendur við austur jaðar Berserkjahrauns, en það hefur verið í eyði síðan árið 1953. Íbúðarhúsið er steypt árið 1944 en er nú komið að hruni. Spörfuglar gera sér nú hreiður uppi í hillum og skápum. Til er teikning frá 1897 af bænum undir Hrauni eftir W.G. Collingwood (1854-1932), sem sýnd er hér fyrir ofan. Bæjarhúsin standa þá á hól við hraunjaðarinn, og umhverfis eru fjögur eða fimm útihús. Í bakgrunni er Bjarnarhafnarfjall, svo myndin er gerð í norðvestur átt. Collingwood var hér í för með dr. Jóni Stefánssyni lækni. Um dys berserkjanna segir Collingwood: Hún var opnuð fyrir nokkrum árum og þar fundust mjög stór bein. Gamli torfbærinn var í notkun allt til 1944.
Á undan Collingwood ferðaðist hér um hraunið sá sérkennilegi maður Sigurður forni Vigfússon (1828-1892). Hann var sjálfmenntaður fornleifafræðingur, sem sá um Forngripasafnið á lofti Dómkirkjunnar í Reykjavík. Hann átti til að bregða sér í fornmannabúning, eins og myndin sýnir. Af hverju gera starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands ekki slíkt hið sama í dag? Of mikill Disney World stíll fyrir þeirra smekk?
Í Árbók Fornleifafélagsins sem kom út árið 1893 skrifar Sigurður um Berserkjahraun. Hann lýsir stórum tóftum (67 og 47 fet á lengd) í grennd við bæinn undir Hrauni og telur aðra þeirra vera kirkju sem Styrr lét reisa og hina rústina af fornum skála. Handan við Hraunlæk er stór kriki inn í hraunið og nefnist krikinn Tröð. Hér telur Sigurður að finna megi gerði berserkjanna. Sennilega á hann hér við byrgið, sem minnst er á í Eyrbyggju. Gerðið telur Sigurður vera meir en 50 faðmar á kannt og ferskeytt. Veggir, sem nú eru fallnir, voru ákaflega breiðir og hlaðnir úr grjóti og torfi.
En Sigurður tekur einnig eftir mikilli grjóttóft í suðaustur horni gerðisins og vil ég draga athygli lesendans einkum að henni. Hún er hlaðin í hraunbrúninni og nýtir að nokkru leyti stór björg í hrauninu sem vegg. Tóftin er um 7 m á lengd og um 4 m á breidd. En tveir veggir tóftarinnar eru hlaðnir úr óvenju stórum hraunbjörgum, eins og myndin sýnir. Ljósa stikan er 1 m á lengd. Hér eru björg sem eru meir en meter í þvermál og hefur þeim verið lyft upp í vegg á einhvern hátt. Er þessi svokallaða grjóttóft í reynd byrgið sem nefnt er í Eyrbyggju? Það er ekki ólíklegt, en Sigurður forni segir að lokum: Hér er auðsjáanlega stórkostlegt mannvirki frá fornöld, og getur enginn efi á verið, að það sé gerði berserkjanna. Var þetta stórskorna byrgi notað sem fiskibyrgi, og hver var tilgangur með hinum miklu hlöðnu veggjum, sem Sigurður greinir frá? Fræðimaðurinn Þorleifur Jóhannesson er sammála Sigurði forna um þessa túlkun í skýrslu, sem hann samdi fyrir Örnefnastofnun.
Það er fleira sem vert er að minnast á í sambandi við býlið undir Hrauni. Uppi á hraunbrúninni rétt fyrir vestan bæinn eru fimm eða sex gömul fiskibirgi. Þau eru hlaðin úr stórum hraunstykkjum, og gisið á milli, eins og venja var í gerð fiskibyrgja. Slík byrgi eru vel þekkt hjá Gufuskálum undir Jökli, þar sem á annað hundrað birgi hafa fundist, og einnig víða á Reykjanesi, til dæmis við Ísólfsskála, Grindarvík og víðar. Fiskibyrgi eiga eitt sameiginlegt: þau eru öll hlaðin á hrauni, þar sem sótt var til sjávar. Svo var einnig hér, því fyrir norðan býlið Hraun er Hraunsvík. Þaðan var róið frá Hrauni á Breiðafjörð til fiskjar. Fiskur var fyrrum verkaður og þurkaður á staðnum. Fiskurinn var flattur eins og saltfiskur, en síðan lagður til þerris á þurrkgarða, helst á hrauni. Síðan var fiskurinn lagður í byrgi og geymdur þannig yfir veturinn. Á vori var fiskurinn tekinn úr byrgjunum og lagður á garðana þar til honum var pakkað til að flytja í skútur sem komu erlendis frá til að kaupa fisk eða skreið. Sennilega hafa slíkar enskar skútur legið í Kumbaravogi (Cumberland Bay?), sem er fyrir framan Bjarnarhöfn.
Minjar í Berserkjahrauni
8.6.2014 | 08:10
Frásögnin um berserkina í Eyrbyggju og Heiðarviga sögu hefur hrifið marga, en er nokkur fótur fyrir þessu? Samkvæmt sögunni eiga að vera þrjú mannvirki af höndum berserkjanna: gatan, hagaveggur og byrgi. Tvö þeirra eru vel þekkt (gatan og veggurinn) en menn greinir á um hið þriðja. Gatan er alls um 1200 metrar á lengd og reyndar mikið mannvirki. Margir telja að hún sé elsta varðveitta mannvirkið á Íslandi og er það sennilegt. Austur hluti götunnar er í landi Hrauns en vestur hlutinn í Bjarnarhafnarlandi. Það var tvímælalaust mikið verk að ryðja stórum björgum og gjallmolum úr vegi, eins og sést á ruðningnum sem er á báða vegu meðfram götunni. Hafur hún verið mikil samgöngubót í sveitinni. Reyndar var fært milli Hrauns og Bjarnarhafnar með því að ganga fjöruna á stórstraumsfjöru, en það er sjaldan svo. Það er skemmtileg ganga að fara Berserkjagötu í dag og er hún ágætlega varðveitt. Oftast hefja menn göngu sína á austur enda götunnar sem byrjar í Hraunvík. Hraunið er allt úfið og mosavaxið umhverfis, en fast við götuna er annar gróður. Þar er lyng, blómstrandi plöntur og janfvel einir. Það er merkilegt hvað gróður er miklu lengra á veg kominn fast við götuna. Sennilega á sauðkindin sem hér fer um einhvern þátt í því að útvega áburð í jarðveginn og að bera annan og fjölbreyttan gróður inn á hraunið við götuna.
Um miðja vegu á götunni er komið að hagagarðinum eða veggnum, sem berserkirnir hlóðu. Hann hefur verið nenfdur Berserkjagarður. Hann nær niður að sjó skammt fyrir austan Blámannavík og liggur nokkurn veginn beint inn í hraunið. Veggurinn er nokkuð sérstök smíði. Austur hlið veggsins er ávalt lóðrétt og allt að 2 metrar á hæð, en víða er vestur brún veggsins aflíðandi, með 45 til 60 gráðu halla. Ég hef alltaf heyrt að smíði garðsins væri gerð á þennan hátt, til að hleypa sauðfé í aðra áttina (til austurs) en ekki til baka. Ekki er mér kunnugt um annan slíkan garð á Íslandi.
Þega Styrr og hanns menn höfðu drepið berserkina í baðinu, þá fluttu þeir lík þeirra út í hraunið. Dys berserkjanna er í dag fast við götuna í dalverpi í miðju hrauninu. Dalurinn er ýmist nefndur Berserkjalág eða Dysjalaut. Dysin er um 7 metrar á lengd, meðfram götunni og um 3 metrar á breidd.
Sigurður Vigfússon forni (1828-1892) kannaði Berserkjahraun í ágúst árið 1889 og ritaði um það í Árbók Fornleifafélagsins (1893). Ekki getur hann þess hvort hann gróf í dys berserkjanna, en Snæfellski fræðimaðurinn Þorleifur J. Jóhannesson (1878-1944) hefur það eftir Kristjáni Þorleifssyni að Sigurður forni hafi skilið við dysina sundurtætta. Kristján var unglingur í Bjarnarhöfn þegar Sigurður forni var á ferð, en Kristján mun hafa lagfært og endurhlaðið dysina. Kristján Þorleifsson (1876-1959) var síðar hreppstjóri og bjó á Grund í Eyrarsveit. Ég man vel eftir honum í Stykkishólmi.
Gatan, garðurinn og dysin hafa nú skilað sér sem áþreifanlegar menningarminjar, en hvar er byrgið? Eyrbyggja segir svo um þriðju þraut berserkjanna: og gera byrgi hér fyrir innan hraunið. Hvað er byrgi þetta og hvar er það? Sumir telja að hér sé átt við Krossrétt, sem er í hraunjaðrinum skammt fyrir norðan bæinn Hraun. Ég tel það ólíklegt, enda eru slíkar réttir algengar og þessi sker sig ekki úr um byggingu. Sigurður forni heldur því hins vegar fram að byrgið sem berserkirnir hlóðu sé í hraunjaðrinum við bæinn Hraun. Um það fjalla ég í næsta þætti.
Berserkirnir í Heiðarvíga sögu
7.6.2014 | 17:27
Berserkjagata er alls um 1200 metrar á lengd. Frá austur enda hennar að dys berserkjanna eru 440 metrar (D á loftmynd). Um 100 metrum fyrir vestan dysina er hagagarðurinn sem berserkirnir hlóðu (V á loftmynd). Þar skammt fyrir vestan er vík, sem ber hið sérkennilega nafn Blámannavík (B á loftmynd). Ekkert er vitað um uppruna þess örnefnis, en í sögum er rætt um berserki sem blánuðu af reiði.
Heiðavíga saga er önnur heimildin um berserkina Halla og Leikni. Eins og áður segir, þá er fyrri hluti Heiðarvíga sögu glataður, en hann var endursagður eftir minni árið 1728 af Jóni Grunnvíking. Hún er því lakari heimild en Eyrbyggja. Þótt lýsingin sé í stórum dráttum eins, þá víxlar Jón berserkjunum varðandi áhuga þeirra á Ásdísi, dóttur Víga-Styrs. Einnig minnist sagan ekkert á byrgið, sem var hin þriðja þraut berserkjanna. Heiðarvíga saga segir svo frá berserkjunum: Vermundur dvaldi með Hákoni jarli í Noregi. Berserkirnir tveir Halli og Leiknir voru við hirð jarls. Vorið (ca. 984) er Vermundur undirbýr ferð sína heim, þá býður jarl honum að velja sér að gjöf þann hlut sem honum leikur helst hugur á. Vermundur biður um berserkina og veitir jarl honum það. Þegar til Íslands kemur reynist Vermundi illt að ráða við hina skapmiklu berserki. Hann tekur þá það ráð að bjóða þá sem gjöf til bróður síns Víga-Styrrs. Verður það af að berserkirnir fara heim með Styr. Deilur höfðu lengi verið milli Styrs og Þorbjörns kjálka í Kjálkafirði. Nú vill Styr brúka berserkina til að ná rétti sínum á Þorbirni. Þeir koma þar að á nóttu og brjóta upp dyrnar. Síðan brjóta berserkirnir einnig upp rammlega lokrekkju Þorbeins. Koma þeir að Hrauni og líður nú af veturinn. Leiknir sat löngum á tali við Ásdísi, dóttur Styrs. Verður nú ljóst að berserkirnir vilja kvænast.
Um vorið (ca. 985) ríður Styr að Helgafelli til að ráðgast við Snorra goða. Eftir heimkomuna segir Styr Leikni að nú verði hann að vinna nokkur þrekvirki áður en konumálin verði til lykta leitt.
Styr mælti: "Hér er hraun hjá bæ mínum illt yfirreiðar. Hefi eg oft hugsað að eg vildi láta gjöra veg þar um og ryðja það en mig hefur skort mannstyrk. Nú vildi eg þú gjörðir það." Leiknir segir það þyki sér eigi mikið fyrir ef hann njóti liðs Halla bróður síns. Styr sagði hann mætti það við hann eiga. Taka nú berserkirnir að ryðja hraunið að kvöldi dags og að þeirri sýslan eru þeir um nóttina. Vega þeir stór björg upp þar þess þurfti og færa út fyrir brautina en sumstaðar koma þeir stórum steinum í gryfjurnar en gjöra slétt yfir sem enn má sjá. Var þá á þeim hinn mesti berserksgangur. Um morguninn höfðu þeir því lokið. Er það eitt hið mesta stórvirki er menn vita og mun sá vegur æ haldast með þeim ummerkjum sem á eru meðan landið stendur. Skulu þeir nú gjöra eitt gerði og hafa því lokið að dagmálum. Á meðan býr Styr þeim bað sem þeir skulu í fara þá þeir hafa af lokið gerðinu. En að morgni skal Leiknir hafa brullaup. Baðið var so til búið að þar var felldur stór hlemmur ofan í gólfið með einum glugga á sem vatninu var inn um hellt. Húsið var grafið í jörð og voru dyr fyrir því með sterkum stokkum og húsið allt af nýjum viðum og hið rammbyggilegasta. Skarir voru fyrir dyrunum upp að ganga. Um morguninn þá þeir eru að gerðissmíðinni lætur Styr Ásdísi búa sig sem allra best en bannar henni að vara berserkina við hvað hann hafi í ráði. Og áður en þeir hafa lokið gerðinu gengur hún burt frá húsunum á svig við berserkina þar þeir eru að sínu starfi. Leiknir kallar til hennar og spyr hvert hún vilji. Hún svarar engu.
Nú hafa þeir af lokið þessu starfi. Gengur Styr í móti þeim, þakkar þeim með fögrum orðum fyrir starfið og segist nú hafa búið þeim bað er þeir skuli í fara. Hafi þeir nú það þrekvirki unnið er sér allvel hugnist og uppi muni verða um alla ævi. Halli er í fyrstu eigi ráðinn að ganga í bað og spyr ef eigi skuli fleiri ganga í baðstofu með þeim. Styr svarar það muni eigi hent öðrum mönnum að ganga í bað ásamt slíkum afarmönnum sem þeir eru. En Leiknir vill gjöra það að vilja Styrs.
Nú setjast þeir í baðstofu og er hlemmurinn lagður yfir og borið grjót á. Dyrunum er og lokað og borið grjót fyrir sem rammlegast en á skarirnar er breidd blaut uxahúð. Baðstofan er gjörð ákaflega heit. En þá þeir hafa setið í baðinu litla stund lætur Styr bera sem óðast brennheitt vatn og steypa inn um glugginn. Finna nú berserkirnir að eigi er allt heilt við þá. Hamast þeir nú í baðinu og brjótast á hlemminn. Springur Leiknir inni en Halli kemst út. Og er hann kemur á skarirnar verður hönum fótaskortur og fellur á húðinni en Styr er þar fyrir með reidda öxi og höggur á háls hönum so Halli lét þar lífið. Í næsta þæti mun ég fjalla um mannvistarminjar sem hafa verið tengdar berserkjunum.
Mannfræði | Breytt 8.6.2014 kl. 07:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Berserkirnir í Eyrbyggju
7.6.2014 | 07:12
Berserkjahraun á Snæfellsnesi er óvenju úfið apalhraun og illt yfirferðar. Það hefur því verið mikill farartálmi á landnámsöld, sem myndaði eðlileg mörk milli Helgafellssveitar að austan og Eyrarsveitar fyrir vestan. Mikil samgöngubót varð á Söguöld, þegar Berserkjagata var rudd. Þessum atburði er lýst í Eyrbyggju og einnig er fjallað um hann í Heiðarvíga sögu. Frásögnin í Eyrbyggju er mun heilsteyptari, enda er Heiðarvíga saga aðeins til í handritabrotum. Allur fyrri hluti handrits Heiðarvíga sögu brann í Kaupmannahöfn árið 1728. Jón Ólafsson Grunnvíkingur hafði lesið söguna fyrir brunann og endursagði þennan glataða hluta hennar eftir minni. Það verður því tvímælalaust að taka Eyrbyggju sem traustari heimild um þennan þátt. Ég endursegi hér frásögn Eyrbyggju og síðar Heiðarvíga sögu, en í síðari þáttum mun ég fjalla frekar um mannvirkin þrjú, sem kennd eru við berserkina.
Eyrbyggja segir frá því að Vermundur mjóvi Þorgrímsson bjó í Bjarnarhöfn. Afi hans var Kjallekur, sem var kominn af merkum ættum í Noregi og eru Kjallekingar af honum komnir. Vermundur var um tíma í miklum kærleikum með Hákoni jarli, sem á þeim tíma réð yfir Noregi. Með jarli voru tveir bræður af sænskri ætt, Halli og Leiknir. Þeir voru miklir menn og sterkir og áttu sig engan jafningja af kröftum í Noregi og þótt víðar væri leitað. Þeir gengu berserksgang í orrustu eða þegar þeir voru reiðir og voru þá eigi í mannligu eðli, fóru galnir sem hundar og óttuðust hvorki eld né járn. En hversdagliga voru þeir eigi illir viðureignar. Eiríkur Svíakonungur hafði sent jarli berserkina og sett varnað á, að hann skyldi gera vel til þeirra.
Um vorið bað Vermundur jarl að gefa sér fararleyfi til Íslands. Jarl veitti leyfið, og bað Vermund þiggja að gjöf hverja þá hluti sem væru í hans valdi. Vermundur hugsar að berserkinir muni vera miklir eftirgöngumenn fyrir hans hag á Íslandi og biður Hákon jarl að láta þá fylgja sér til Íslands. Berserkirnir voru fúsir til utanferðar og fékk hann samþykki jarls. Vermundur kemur heim í Bjarnarhöfn sama sumar og Eiríkur rauði siglir til Grænlands (um 985). Brátt kom í ljós að Vermundur réði ekki við berserkina og varð því úlfúð og illska milli þeirra.
Bróðir Vermundar var Styrr eða Víga-Styrr, en hann bjó undir Hrauni eða á býlinu Berserkjahrauni, sem nú er í eyði. Býður Vermundur nú bróður sínum berserkina og tekur hann við þeim (ca. 983). Þá fóru berserkirnir með Styr verstur um fjörð að drepa Þorbjörn kjálka og settust síðan að með Styr undir Hrauni um haustið. Þar slóst Halli á tal við Ásdísi, dóttur Styrs, en hún var ung og mikill skörungur, en talin skapstór. Halli biður Styr að gifta sér dóttur hans. Styr færist undan og segist vilja ræða málið við vini sína. Næsta dag ríður Styr til Helgafells til ráðagerða með Snorra goða (ca. 963-1031). Þeir ganga á fjallið og sátu að tali allt til kvölds. Síðan reið Styrr heim. Næsta dag segir Styrr við Halla: Nú mun ég gera sem fornir menn, at ek mun láta þik vinna til ráðhags þessa þrautir nökkurar. Þú skalt ryðja götu yfir hraunit út til Bjarnarhafnar ok leggja hagagarð yfir hraunit milli landa várra ok gera byrgi hér fyrir innan hraunit. En at þessum hlutum fram komnum mun ek gifta þér Ásdísi, dóttur mína. Halli svarar: Eigi em ek vanr til vinnu, en þó mun ek undir þetta játtast, ef ek skal þá auðveldliga komast at ráðahagnum.
Eftir þetta tóku þeir at ryðja götuna, ok er þat it mesta mannvirki. Þeir lögðu ok garðinn, sem enn sér merki. Ok eftir þat gerðu þeir byrgit. En á meðan þeir váru at þessu verki, lét Styrr gera baðstofu heima undir Hrauni og var grafin í jörð niðr, og var gluggur yfir ofninum, svá at útan mátti á gefa, ok var þat hús ákafliga heitt.
Er þeir unnu at byrginu, þá gekk Ásdís Styrsdóttir hjá þeim, en hún hafði tekit sinn besta búnað. Að loknu verki ganga berserkirnir heim um kveldit ok váru móðir mjök, er af þeim gekk berserksgangurinn. Styrr bað þá fara í bað ok hvíla sik. Þeir gerðu svá, en er þeir kómu í baðið, lét Styrr byrgja baðstofuna og bera grjót á hlemminn og breiða hráblauta nautshúð hjá uppganginum. Síðan lét hann bæta eldivið á ofninn og var þá baðit svá heitt, at berserkirnir þolðu eigi í baðinu ok hljópu á hurðirnar. Fékk Halli brotit hlemminn og komst upp ok féll á húðinni. Veitti Styrr honum þá banasár. Einnig drap Styrr Leikni þar.
Síðan voru lík þeirra færð út í hraunit og þeir kasaðir í dal þeim, er þar er í hrauninu, en svá er djúpr, at engan hlut sér ór nema himin yfir sik. Þat er við sjálfa götuna. Er Snorri goði frétti þetta, reið hann út undir Hraun og sátu þeir Styrr at tali enn allan dag. Að því loknu fastaði Styrr Snorra goða Ásdísi, dóttur sína. Snorri eignaðist fjóra syni með Ásdísi Víga-Styrsdóttur: Þórð kausa, Þórodd, Þorstein og Guðlaug munk. Síðar, þegar kristni var lögtekin á alþingi, létu bæði Snorri og Styrr gera kirkjur á Helgafelli og undir Hrauni.
Ekvador valdi dollarann$
21.5.2014 | 08:18
Árið 2000 kaus ríkið Ekvador í Suður Ameríku að taka upp einhliða ameríska dollarann sem opinbera mynt landsins. Íbúum var gefið eitt ár til að skila inn sinni gömlu mynt. Ekvador hafði barist við mikla spillingu og verðbólgan var um 60% árið fyrir umskiftin.
Hver er reynslan og getum við lært eitthvað af þessu, í sambandi við umræðu varðandi íslensku krónuna? Aðstæðurnar eru að vísu allt aðrar en hér, en samt er fróðlegt að skoða hvað hefur gerst eftir dollarvæðingu landsins. Í Ekvador eru um 16 milljón íbúar, sem flytja út banana, olíu, rækjur, gull og bóm. Árið fyrir dollaravæðinguna hafði efnahagur dregist saman um 7.3% og algjört hrun blasti við. Árið 2000 snérist þetta við og efnahagur óx um 2.3%, 5.6% árið á eftir, 6.9% árið 2004 og svo framleiðis.
Önnur jákvæð hlið er sú, að Ekvador getur ekki leyst sig út úr efnahagsvanda í framtíðinni eingöngu með því að prenta peningaseðla. En því fylgir sú neikvæða hlið að ríksistjórn Ekvador ræður ekki að öllu leyti yfir mikilvægum ákvörðunum um mynt sína, heldur er sú stjórn í ríkisbanka Bandaríkjanna í Washington DC.
Hvernig tóku íbúar Ekvador nýja dollaranum? Hé kom í spilið alveg ótrúleg tilviljun. Það vildi svo vel til, að sama árið, 2000, gaf ameríski bankinn út gullpening, sem er eins dollara virði og á honum er greypt mynd af indíánakonu, með barn sitt á bakinu. Þetta er hin fræga Sacagawea, sem veitti landkönnuðunum Lewis og Clark leiðsögn vestur yfir Klettafjöllin og að strönd Kyrrahafsins árið 1804. Hinir innfæddu í Ekvador sáu strax andlit sem þeir þekktu og vildu helst engan annan pening nema gullpeninginn með mynd Sacagawea. Síðan hefur nær allur forðinn af þessum gullpening flutst frá Bandaríkjunum til Ekvador.