Færsluflokkur: Mannfræði

Sviðsmenn Carnegie Hall fá 40 milljónir í árslaun

labour-unions.jpgÉg hef verið í verkalýðsfélagi í Bandaríkjunum frá 1974 (AAUP, stofnað 1915) og hef notið góðs af því, en ef til vill valdi ég ekki rétt! Ef ég væri að velja mér verkalýðsfélag í dag, þá væri það tvímælalaust félag sviðsmanna í Carnegie Hall í New York. Einn trésmiðurinn er með $441,223 í árslaun, einn rafvirkinn með $425,872 og aðrir eftir því. Carnegie Hall er að sjálfsögðu einn fremsta hljómleikahöll í heimi, en fyrr má nú vera! Eins og gefur að skilja þá ganga stöður oftast frá föður til sonar í þessu verkalýðsfélagi.   Fyrsta konan fékk loks inngang í félagið árið 1975. Ein kona sem starfaði í hljómsveit á sviðinu sagði mér að það hefði kostað $2000 að fá einn hljóðnema fluttan um fimm metra á sviðinu. Svona mafíu-háttarlag hefur yfirleitt eyðilagt mikið fyrir verkalýðsfélögum í Bandaríkjunum og hafa þau því verið sprengd upp hvert á fætur öðru. En á Íslandi er þessu öðruvísi háttað. Mér sýnist helst að atvinnurekendur ráði mestu hér í verkalýðsfélögunum?


Kjarnorkuvetur og útdauði tegundanna

vopnabúrÞað var á tímum kalda stríðsins, um 1980, að vísindamenn fóru að rannsaka hvaða hnattræn áhrif gætu orðið af kjarnorkustríði milli heimsveldanna, aðallega þá Sovíetríkjanna og Bandaríkjanna. Á þeim tíma voru kjarnorkuvopnabirgðir stórveldanna gífurlegar, en hvort þeirr átti þá tugir þúsunda kjarnavopna í búrum sínum, eins og fyrsta myndin sýnir. Megin uppistaðan í hugmyndinni um kjarnorkuvetur er sú, að í kjarnorkustyrjöld myndi kvikna mikið eldhaf í stórborgum heimsveldanna. Lítil dæmi um slíkt gerðust í lok seinni heimsstyrjladar, árið 1945, þegar Hiroshima og Nakasaki brunnu. Magnið af eldsneyti í stórborg er gífurlegt og slíkt eldhaf, sem varir dögum og vikum saman, framleiðir mikið magn af fínu sóti, sem lyftist upp í heiðhvolf, fyrir ofan 10 til 15 km hæð. Það safnast sótið fyrir en sót hefur þann eiginleika að það endurkastar sólargeislum burt frá jörðu betur en nokkuð annað þekkt efni. Slíkt sót getur varið í heiðhvolfi árum saman og á meðan kælir það jörðina um margar gráður. Loftslagsáhrifin eru því miklu verri en áhrif geislavirkra efna í kjarnorkustríði og þessi áhrif eru hnattræn: þau eru jafn slæm fyrir sigurvegarann og hina sigruðu. Þessi uppgötvun hafði mjög mikið áróðursgildi á dögum kalda stríðsins og hjálpaði til að samfæra almenning og jafnvel suma leiðtoga um að kjarnorkustríð væri fáviska ein.cold-dark-ehrlich-sagan-5183m7htmql_ss500.jpg

Nokkrar mikilvægar spurningar koma fram þegar rætt er um kjarnorkuvetur: 1) Hvað er magnið af vopnum, sem beitt er? 2) Hver verður kólnunin og hve lengi varir hún? Árið 1983 birtu þeir Richard Turco, Carl Sagan og félagar í Bandaríkjunum merka grein í tímaritinu Science, þar sem hugtakið “nuclear winter” eða kjarnorkuvetur kom fyrst fram.  Líkön þeirra Turco og félaga sýna eftirfarandi: Í styrjöld með 5000 MT af kjarnorkuvopnum og bruna eitt þúsund borga mun myndast svart ský af sóti í heiðhvolfi að magni um einn milljarður tonna. Þá mun ekki sjást til sólar og myrkur mun ríkja. Kólnun væri 15 til 42 °C yfir 14 til 35 daga eftir styrjöldina. Vísindamenn bæði í austri og vestri voru sannfærðir um hættuna, kynntu niðurstöður sínar fyrir almenningi og reyndu að hafa áhrif á stjórnir stórveldanna. Ekki virtist það gera mikið gagn, en þó er talið að Mikail Gorbachev hafi áttað sig á hættunni, sem getur stafað af slíkum kjarnorkuvetri. Árið 1984 kom út bók eftir Carl Sagan og félaga: “The Cold and the Dark”, sem fjallaði um hættuna á mannamáli. Myndin er af forsíðu hennar. Reyndar var Carl Sagan aðal hugmyndafræðingur bak við málið um kjarnorkuvetur. Richard Turco og hinir voru flestir stúdentar, sem höfði lært hjá honum. Árið 1990 gerður Turco og félagar enn meira þróuð líkön, með svipuðum niðurstöðum. En svo kom styrjöldin í Kúvait árið 1991 og setti mikið strik í reikninginn hjá vísindamönnum. Olíulindir í Kúvait brunnu stjórnlaust dögum og vikum saman og sót barst út um allt nágrennið sem svartur reykur. Vísindamenn spáðu mikilli kólnun, en sótið náði lítt eða ekki til heiðhvolfs og áhrifin urðu því lítil eða engin. Að vísu voru olíueldarnir ekki alveg sambærilegir við kjarnorkustríð, en þetta hafði samt neikvæð áhrif á þróun hugmyndarinnar.  Árið 2007 var önnur mikil rannsókn gerð á hugsanlegum áhrifum kjarnorkustyrjaldar, með raunsæjum vopnabirgðum. Þetta líkan sýndi að yfirborð jarðar myndi kólna að meðaltali um –7 °C til –8 °C og kólnun mundi vara í nokkur ár. Eftir tíu ár væri yfirborðshiti jarðar enn aðeins um–4 °C samkvæmt þessu líkani.   Áhrifin væru því lík og þegar ísöld gengi yfir jörðina.   Þannig standa málin í dag, en eftir að þiðna tók í kalda stríðinu hefur dregið úr spennu varðandi kjarnorkuvetur. Hann er samt alvarlegur raunveruleiki, jafnvel í kjarnorkustyrjöld tveggja ríkja eins og Indlands og Pakistan.   Ég held að í grundvallaratriðum séu fyrstu niðurstöðurnar nokkuð nærri lagi: kjarnorkustyrjöld stórveldanna getur orsakað kjarnorkuvetur, sem kann að vara árum saman og valda ótrúlegri truflun á lífríki. Nú í dag, þegar samskifti austurs og vesturs virðast aftur vera að versna, er ekki úr ráði að dusta rykið af gömlum kenningum og hugsa aftur um hið óhugsanlega: kjarnorkuvetur. Á síðastliðnu ári hafa Rússar framleitt marga nýja kjarnokuknúna kafbáta, sem eru vopnaðir langdrægum eldflaugum með kjarnorkusprengjur um borð. Ekki er útilokað að Bandarikjamenn fari nú aftur að hugsa til Keflavíkurflugvallar, sem lengi var aðal eftirlitsstöð þeirra varðandi ferðir rússneskra kafbáta inn í Atlantshafið úr norðri.  Enn líklegra er kjarnorkustríð milli Indlands og Pakistan. Ég mun fjalla um hugsanleg áhrif þess á loftslag í seinni pistli.


Það sem enginn þorir að tala upphátt um í Frakklandi

Það er enginn vandi að dvelja nokkra daga í Frakklandi án þess að hafa neinar áhyggjur af innflytjendamálum. En samt sem áður kemur að því fyrr eða síðar að maður fer að taka eftir fólkinu, oft hjónum, sem er að koma sér fyrir úti í skúmaskotum á kvöldin, liggur á tómum pappakössum og breiðir yfir sig og nokkur börnin einhverjar plastdruslur fyrir nóttina. Innflytjendamálin eru stóra málið í þessu landi. Fyrrum forseti Nicolas Sarkosy sagði í ræðu nýlega að innflytjendur væru í þann veginn að eyðileggja hinn franska lífsstíl. Rithöfundurinn Michel Houellebecq, í nýrri skáldsögu sinni Soumission, gerir Frakkland að múslimaríki árið 2022. Þetta er auðvitað pólitík og skáldskapur. Hverjar eru staðreyndirnar? Það er margt rangt í hinum almennu skoðunum um innflytjendur í Frakklandi. Aðeins níu prósent af Frökkum eru innflytjendur, en þeir streyma nú inn í vaxandi mæli um 200 þúsund á ári. Eru þeir allir múslimar frá Afríku? Rangt. Nær helmingur innflytjenda til Frakklands eru Evrópubúar (46%), ekki Afríkubúar (30%), eins og margir kynnu að halda. Portúgalar eru reyndar stærsti hópurinn af innflytjendum til Frakklands (8%), þá næst Marokkó og síðan Alsírbúar.  Þrátt fyrir þessar staðreyndir er andúð á móti innflytjendum mjög útbreidd.  Eða er kannske ekkert mark takandi á þessum opinberu tölum um innflytjendur? Enginn veit hvað margir smjúga inn bakdyramegin yfir landamærin.  Skoðannakannanir sýna að um 60% af Frökkum eru á móti því að veita útlendingum kosningarétt. En mótstaðan er fyrst og fremt gegn múslimum. Skoðanakönnun blaðsins Le Monde sýnir að 74% af Frökkum telja Islam vera trú, sem virðir engin önnur trúarbrögð (intolerant) og er því ekki gjaldgeng trúrbrögð í Frönsku samfélagi. Það veit reyndar enginn hve margir músimar búa í Frakklandi, því það er á móti lögum að spyrja um trúarbrögð og kynþátt í opinberum skoðanakönnunum eða manntali. En almennt er talið að nú séu um 10% þjóðarinnar múslimar. Með mannfjölda sem er um 66 milljónir, þá hefur því Frakkland fleiri múslima en nokkur önnur þjóð í Evrópubandalaginu. Í sumum borgum eru múslimar mjög fjölmennir. Til dæmis í Marseille eru þeir taldir milli 30 og 40% og er sú borg talin hin hættulegasta allra borga í Evrópu. Það vakti mikla athygli nýega að í einni skoðanakönnun kom í ljós að einn af hverjum sex íbúum Frakklands hefur samúð með ISIS skæruliðum, sem eru að berjast í Sýrlandi. Hver er framtíðin? Þeim fjölgar hraðar en okkur hinum. Múslimar eru taldir ná 26,4% af mannfjölda jarðarinnar árið 2030, en voru 23,4% árið 2010. Talið er að Frakkar nái 70 milljónum árið 2030 og þar af verða 28 milljón þeirra múslimar, eða um 40%. Kannske er Michel Houellebecq á réttu róli?


Þegar síðasta skipið sigldi frá Grænlandi

hvalsey2_copy.jpgAfdrif íslensku nýlendunnar á Grænlandi á miðöldum er og verður áfram stærsta ráðgátan í sögu norðurslóða.   Því miður eru heimildir af mjög skornum skammti. Það síðasta sem við vitum með vissu var íslenskt brúðkaup í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi hinn 16. september árið 1408 (sjá mynd). Brúðurin var Sigríður Björnsdóttir, en brúðguminn Þorsteinn Ólafsson. Árið 1406 var Þorsteinn á ferð frá Noregi til Íslands ásamt nokkrum merkum Íslendingum og bar skip þeirra af leið þar til það braut við Grænland. Íslendingarnir voru nú tepptir á Grænlandi um fjögurra ára skeið. Hjónin sigla loks frá Grænlandi á Norsku kaupfari til Noregs árið 1410, og komast að lokum til Íslands árið 1413. Þorsteinn varð síðar lögmaður og hirðstjóri. Þrjú vottorð um brúðkaup þeirra á Grænlandi hafa varðveist og eru þau síðustu skjölin frá norrænum mönnum á Grænlandi. Þar á eftir slær á algjörri þögn eftir búsetu um fimm til sjö þúsund norrænna manna á Grænlandi í meir en fjögur hundruð ár. Einhverjir hafa tórað eftir búðkaupið því aldursgreiningar á minjum í fornleifauppgreftri benda til starfsemi norrænna manna hér allt til um 1450.  Ef til vill týndi sá síðasti lífinu rétt fyrir um 1540, ef marka má frásögn Jóns Grænlendings.   Hann var íslenskur sjómaður, sem sigldi út á Atlantshaf með kaupmönnum frá Hamborg í Þýskalandi. Þá hrakti af leið og komu loks til Grænlands um 1540. Þeir fóru á land á eyðiey, þar sem fyrir voru kofar og fiskihjallar, eins og á Íslandi. Þar finna þeir látinn mann sem liggur á grúfu. Á höfði hafði hann hettu, vel saumaða, og klæði úr vaðmáli og selskinnum. Hjá honum lá tálguhnífur úr járni, mjög slitinn. Var þessi einsetumaður ef til vill síðasti víkingurinn?

Næstu ferðir til Grænlands, sem heimildir eru til um, er leiðangur Martins Frobisher, en hann kemur að suðvestur Grænlandi í júní árið 1578. Hér lendir hann og finnur kassa með járnnöglum í, sem kunna að hafa verið leifar frá norrænum Grænlendingum. Nokkrum árum síðar, árið 1586, siglir John Davis upp með vesturströnd Grænlands, og kemur víða við en sér engin ummerki eftir norræna menn. Hins vegar kvartar hann yfir því að Eskimóar eru sífellt að stela frá þeim ýmsum járnmunum. Kristján IV konungur Dana fer nú að hafa áhyggjur af þessum áhuga Breta á Grænlandi og geriri út leiðangra árin 1605 og 1606, meðal annars til að leita uppi Eystribyggð, sem þá var haldið að væri á austur strönd Grænlands. Þar fundu þeir enga norræna menn. Trúboðinn Hans Egede var líka á þeirri skoðun að Eystribyggð væri á austur ströndinni og tilgangur Grænlandsferðar hans árið 1721 var fyrst og fremst að bera boðskap krists til norrænna manna þar og afkomenda þeirra. Þegar enginn af hinum fornu hetjum var heima, þá snéri hann sér að því að kristna Inúítana. Sumir hafa ályktað að norræna fólkið hafi haft mikil samskifti á miðöldum við sæfara frá Bretlandi, sem stunduðu fiskveiðar á vestanverðu Atlantshafi og einnig hvalveiðar á þessum slóðum. Mér er ekki kunnugt um neinar heimildir sem styrkja þá kenningu.


Súðir á Grænlandssiglingu

Afi minn, Oddur Val, lóðs eða hafnsögumaður, stýrði oft strandferðaskipinu Súðinni inn Breiðafjörð og til hafnar í Stykkishólmi. Ég hafði ekki mikið velt fyrir mér þessu sérstaka nafni súðin, fyrr en ég fór að grúska í Grænlandsferðum á miðöldum. Súð er auðvitað gamalt norrænt nafn fyrir skip, sem sum bestu skáld okkar hafa nýtt sér í kveðskap á nítjándu öldinni eins og til dæmis Einar Benediktsson í siglingavísum:

 

Siglir dýra súðin mín,

sveipuð himinbjarma,

yfir heimsins höf til þín,

hrundin bjartra arma.

 

Strandferðaskipið Súðin var seld úr landi árið 1949 og var um tíma við Grænland. Það á einkar vel við, því á miðöldum sigldu mörg skip milli Noregs og Grænlands, sem báru súðarnafnið. Sagt er að Ólafssúðin hafi verið stærsta skip sem til Íslands kom á miðöldum, en hún fórst í hafi á leið til Noregs árið 1361 og með henni Gyrðir Ívarsson Skálholtsbiskup. Enn eitt skip sem bar nafnið Ólafssúðin sigldi til Grænlands árið 1381 og sneri aftur til Noregs 1383. Það var meðal síðustu siglinga sem þekktar eru til Grænlands um þær mundir.   Nafnið Ólafssúð kemur einnig fram fyrir eldra herskip. Í sjóorustu í Sogni milli Sverris konungs (1151-1202) og Magnúsar konungs voru það Birkibeinar Sverris konungs sem mönnuðu Ólafssúðina. Það mun hafa verið stærsta skipið í þeirri orustu en þá féll Magnús og um 2000 af hans mönnum. Súðarnafnið var því mjög vinsælt á miðöldum. Maríusúðin sem Sverrir konungur lét smíða í Niðarósi veturinn 1182-1183 var með 33 rúm eða áraraðir á borð.


Hverjum var það að kenna að þessar fornminjar glatast?

Í dag lesum við í Fréttablaðinu um að fornminjar hafi glatast við Gufuskála á utanverðu Snæfellsnesi vegna ágangs sjávar. Það er dapurt að frétta af þessum skaða, en er ekki rétt að kanna málið frekar?  Uppgröftur á þessu svæði hefur afhjúpað fornminjar, sem síðan voru skildar eftir óvarnar. Ef aldrei hefði verið ráðist í þessar aðgerðir þá hefðu þessar minjar varðveist í jörðu. Jörðin geymir best. Það er algjörlega á ábygð fornleifafræðinganna að þessar minjar spilltust og fóru í hafið. Ég fór um þetta svæði í haust og furðaði mig á hvernig rústirnar voru skildar eftir, auðar og óvarnar. Skammist ykkar!


Barst Jaspis frá Íslandi til Grænlands og Vínlands?

jaspis SnæfellsnesGengu allir fornmenn á Íslandi með jaspis í vasanum eða pyngjunni til að kveikja með eld?  Steinninn jaspis er fremur algengur á Íslandi.  Hann myndast þegar jarðhitavatn berst upp sprungur í jarðskorpunni og ber með sér mikið magn af kísil (SiO2) í upplausn í vatninu.  Við vissar aðstæður fellur kísillinn út úr heita vatninu og myndar jaspis í sprungum og holum í berginu.  Jaspis er nær hreinn kísill, en með dálitlu af þrígildu járni, sem gefur því rauða, brúnleita eða græna litinn.  Jaspis er mjög þétt efni, sem brotnar næstum eins og gler og er með gljáandi og fallega brotfleti.  Hann er mjög harður og mun jaspis hafa hörkuna 7 á Mohs skalanum.   Jaspis er alls ekki gegnsær.  jaspisEf slíkur steinn er gegnsær, þ.e.a.s. hleypir einhverju ljósi í gegn, þá er hann nefndur agat, sem hefur nokkuð sömu efnasamsetningu og jaspis.   Það er margt sem bendir til að jaspis hafi verið notaður áður fyrr til að kveikja eld  hér á landi.  Sennilega er það jaspis sem átt er við, þegar tinna er nefnd.  Til dæmis skrifa Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson (1772) um jaspis í Ferðabókinni og segja hann líkjast  „tinnu að hörku, og eins hrökkva auðveldlega neistar úr honum.“  Jaspis var sleginn með eldjárninu til að mynda neista og kveikja eld.  Árið 2000 kom út mikil bók í Bandaríkjunum (Vikings, the North Atlantic Saga), sem fjallaði um víkingana og ferðir þeirra  til Grænlands og Vínlands. Þar kom Kevin Smith fram með upplýsingar um jaspis mola, sem höfðu fundist í víkingabúðum í L´Anse aux Meadows á Nýfundnalandi í Kanada.  Samkvæmt efnagreiningu taldi hann að fimm þeirra væru frá Íslandi, en fjórir frá bergi á Nýfundnalandi.  Því miður hafa gögnin um þessa efnagreiningu aldrei verið birt, svo við hin getum ekki metið hvaða rök Smith og félagar hafa fyrir því að sumir jaspis steinarnir í L´Anse aux Meadows séu íslenskir.  En það er vissulega spennandi að velta því fyrir sér hvort norrænir menn hafi flutt með sér í vasanum jaspis frá Íslandi, til Grænlands og svo síðar til Vínlands.  En leyfið okkur lesendum að sjá gögnin sem eru á bak við slíkar staðhæfingar!  Árið 2004 fannst fornt eldstæði í Surtshelli.  Hellirinn er í hrauni, sem rann sennilega á tíundu öld. Við eldstóna fundust brot af jaspisflögum, sem er sennilega vitneskja um að jaspis hafi verið notaður við að kveikja eld í stónni.   jaspis KanadaÁrið 2008 fundust fleiri jaspis steinar skammt frá rústum norrænna manna í  L’Anse aux Meadows.  Þeir reyndust vera frá bergi í Notre Dame Bay, þar skammt frá.  Seinni myndin sýnir þann jaspis stein.  Jaspis er nokkuð algengur í elstu bergmyndunum Íslands, eða blágrýtismynduninni frá Tertíer tíma. Jaspisinn myndar holufyllingar í gömlum basalt hraunlögum og finnst oft á Vesturlandi og víðar.  Sumir jaspis steinar geta verið allstórir eða allt að 50 kg, eins og sjá má til dæmis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. 


Vatnsmelónan og hnattræn hlýnun

vatnsmelónanÉg hef fjallað töluvert um hnattræna hlýnun hér og fengið margskonar viðbrögð, sum beinlínis dónaleg.   Hvers vegna eru sumir svo harðir í afneitun á náttúrufyrirbæri sem er reyndar fremur augljóst?  Ef til vill er ein skýringin sú, að margir andstæðingar kenningarinnar um hnattræna hlýnun trúi á vatnsmelónukenninguna. Hún er sú, að allir þeir sem hafi áhyggjur af hnattrænni hlýnun séu umhverfisverndarsinnar: þeir eru grænir að utan en rauðir sósíalistar að innan. Að hnattræn hlýnun sé bara ein aðferðin í viðbót til að leiða yfir okkur sósíalismann. Svo eru þeir, sem trúa að hnattræn hlýnun sé aðeins tískufyrirbæri, sem vísindamenn hafi gert mikið úr til þess að fá meira fé til rannsókna sinna.  Nú, svo eru það þeir, sem eru tengdir við, eða hafa fjárfest í olíubransanum á einn veg eða annan og vija af þeim sökum alls ekki viðurkenna að hér sé mikið vandamál á ferðinni fyrir allan heiminn. 


Kalda stríðið

Kalda stríðiðÉg var staddur í Bandaríkjunum sem skiftinemi í menntaskóla árið 1957, þegar Sovíetríkin settu á loft gervihnöttinn Sputnik.  Hann sveif umhverfis jörðina og sendi frá sér stöðugt beep-beep hljóð, sem var útvarpað um öll Bandaríkin.  Ég gleymi því aldrei hvað ameríkanar höfðu miklar áhyggjur af þessu framtaki rússa og voru reyndar dálítið óttaslegnir.  Þar fræddist ég um kalda stríðið, sem mótaði heimspólitíkina allan seinni helming tuttugust aldarinnar.  Þetta hefst eiginlega í Evrópu árið 1947, þar sem ójafnvægi ríkti milli stórveldanna tveggja.  Þá voru aðeins eitt hundrað þúsund bandarískir hermenn staðsettir í Þýskalandi, en 1,2 milljón rússneskir hermenn.  Hér skorti jafnvægi og ameríkanar hugsuðu málið.  Harry Truman, forseti Bandaríkjanna,  kom þá fram með þá hugmynd að láta í það skína við Sovíetríkin  að Ameríka myndi beita kjarnorkuvopnum ef rússar væru ekki stilltir í Vestur Evrópu.  Síðar komst Truman að því, að ameríkanar áttu aðeins eina kjarnorkusprengju í vopnabúri sínu og að það var ekki enn búið að setja hana saman.  Árið 1949 sprengdu rússar sína fyrstu kjarnorkusprengju og ameríkanar voru slegnir og undrandi að rússar væru komnir þetta langt.  Það var þó  Eisenhower forseti sem hóf kapphlaupið með kjarnorkuvopn fyrir alvöru.  Hann áleit að venjuleg vopn og allur rekstur hersins væri alltof dýr og taldi að kjarnorkuvopn væri ódýrari aðferð til að halda rússum á mottunni.  Ameríkanar sprengdu fyrstu vetnissprengjuna árið 1952 og rússar svöruðu í sömu mynt ári síðar.  Kennedy vann forsetakosninguna árið 1960 með því að telja almenningi trú um að Sovíetríkin vðru komin langt framúr Ameríku með kjarnvopnaframleiðslu. Það var ekki satt, því það ár áttu rússar aðeins fjórar eldflaugar vopnaðar kjarnorkusprengjum. Árið 1962 voru Ameríkanar komnir með 27 þúsund kjarnorkuvopn en rússar “aðeins”  3300.   Línuritið sýnir kjarnvopnabúnað stórveldanna.  Leyniþjónusta Bandaríkjanna ýkti alltaf styrk Sovíetríkjanna og þingið hélt áfram að dæla dollurum í kjarnorkuiðnaðinn og byggingu langdrægra eldflauga.  Í kringum árið 1970 voru rússar loks komnir með fleiri eldflaugar og ástandið var vægast sagt stórhættulegt.  VopnakapphlaupMesta hættan var vegna slysni.  Eitt slys gæti auðveldlega komið af stað heimsstyrjöld sem ætti engan sinn líka.  Slys í meðferð kjarnavopna gerðust oft. Eric Schlosser hefur nýlega gefið út merka bók um þessi slys: Command and Control.  Ekki má gleyma Dr. Strangelove.  Margir halda að kalda stríðinu hafi lokið með fundinum í Reykjavík árið 1986, en það er ekki svo einfalt því slysin héldu áfram.  Eitt stærsta slysið varð næstum að raunveruleika reyndar árið 1995, þegar Boris Yeltsin var við völd í Moskvu. Einn morguninn afhendir aðstoðarmaður hans Yeltsin kassa, sem sýnir að eldflaug er komin á loft fyrir fjórum mínútum frá Noregshafi og stefnir í átt til Moskvu.  Allur her Rússlands var settur í viðbragðsstöðu og eldflaugar með 4700 kjarnorkuvopn voru tilbúnar.  Óþekkta eldflaugin virtist vera frá kafbát og Yeltsin hafði aðeins innan við sex mínútur til að taka ákvörðun. Skömmu síðar kom í ljós að eldflaugin stefndi ekki á Moskvu og menn önduðu léttara. Þetta reyndist eftir allt saman vera eldflaug sem Norðmenn höfðu skotið upp til að rannsaka norðurljósin.  Sérfræðingarnir telja að þetta atvik hafi verið hættulegasta augnablikið í öllu kalda stríðinu. 

Gongshi - Steinar fræðimannsins

GongshiUm 200 f. Kr. tóku kínverjar að nota sérkennilega steina til að skreyta garða sína.  Fyrir suma táknuðu steinarnir fjöllin, og voru þannig mikilvægur þáttur í hugleiðingum.  Stundum voru smærri en sérstakir steinar færðir inn í stofu og stillt upp sem listaverki, eða þá  til að færa fjallið inn í húsið.     Nafnið Gongshi má þýða sem steinn andans, en það vísar að sjálfsögðu  til hugleiðingar.  Japanir tóku upp þennan sið frá kínverjum, en í Japan er steinninn nefndur Suiseki.  Á ensku er Gongshi kallaður scholar´s rock, eða steinn fræðimannsins eða þá spirit stone.   Upphaflega voru Gongshi steinar valdir valdir úti í náttúrunni vegna sérkennilegs forms steinsins. Oftast voru þeir kalksteinar eða marmari, sem hafði fengið á sig fantatískt form vegna veðrunar og rofs yfir langan tíma.  Kínverjar líta á slíka steina sem gersemar og setja þá á stall í heimili sínu.  GongshiÞað skiftir öllu máli að steinninn hafi skapast úti í náttúrunni og að honum hafi ekki verið breytt af mannshöndinni á neinn hátt.  Á síðari árum hefur risið upp heill iðnaður í Kína við að falsa slíka steina með slípun og öðrum aðferðum, til að líkja eftir hinum fornu náttúrusteinum, og nú eru eftirlíkingarnar allstaðar boðnar fram til sölu.  Það fer ekki framhjá neinum íslending, að Gongshi steinar eru nauðalíkir íslenskum hraunsteinum eða gjalli. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband