Barst Jaspis frá Íslandi til Grænlands og Vínlands?

jaspis SnæfellsnesGengu allir fornmenn á Íslandi með jaspis í vasanum eða pyngjunni til að kveikja með eld?  Steinninn jaspis er fremur algengur á Íslandi.  Hann myndast þegar jarðhitavatn berst upp sprungur í jarðskorpunni og ber með sér mikið magn af kísil (SiO2) í upplausn í vatninu.  Við vissar aðstæður fellur kísillinn út úr heita vatninu og myndar jaspis í sprungum og holum í berginu.  Jaspis er nær hreinn kísill, en með dálitlu af þrígildu járni, sem gefur því rauða, brúnleita eða græna litinn.  Jaspis er mjög þétt efni, sem brotnar næstum eins og gler og er með gljáandi og fallega brotfleti.  Hann er mjög harður og mun jaspis hafa hörkuna 7 á Mohs skalanum.   Jaspis er alls ekki gegnsær.  jaspisEf slíkur steinn er gegnsær, þ.e.a.s. hleypir einhverju ljósi í gegn, þá er hann nefndur agat, sem hefur nokkuð sömu efnasamsetningu og jaspis.   Það er margt sem bendir til að jaspis hafi verið notaður áður fyrr til að kveikja eld  hér á landi.  Sennilega er það jaspis sem átt er við, þegar tinna er nefnd.  Til dæmis skrifa Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson (1772) um jaspis í Ferðabókinni og segja hann líkjast  „tinnu að hörku, og eins hrökkva auðveldlega neistar úr honum.“  Jaspis var sleginn með eldjárninu til að mynda neista og kveikja eld.  Árið 2000 kom út mikil bók í Bandaríkjunum (Vikings, the North Atlantic Saga), sem fjallaði um víkingana og ferðir þeirra  til Grænlands og Vínlands. Þar kom Kevin Smith fram með upplýsingar um jaspis mola, sem höfðu fundist í víkingabúðum í L´Anse aux Meadows á Nýfundnalandi í Kanada.  Samkvæmt efnagreiningu taldi hann að fimm þeirra væru frá Íslandi, en fjórir frá bergi á Nýfundnalandi.  Því miður hafa gögnin um þessa efnagreiningu aldrei verið birt, svo við hin getum ekki metið hvaða rök Smith og félagar hafa fyrir því að sumir jaspis steinarnir í L´Anse aux Meadows séu íslenskir.  En það er vissulega spennandi að velta því fyrir sér hvort norrænir menn hafi flutt með sér í vasanum jaspis frá Íslandi, til Grænlands og svo síðar til Vínlands.  En leyfið okkur lesendum að sjá gögnin sem eru á bak við slíkar staðhæfingar!  Árið 2004 fannst fornt eldstæði í Surtshelli.  Hellirinn er í hrauni, sem rann sennilega á tíundu öld. Við eldstóna fundust brot af jaspisflögum, sem er sennilega vitneskja um að jaspis hafi verið notaður við að kveikja eld í stónni.   jaspis KanadaÁrið 2008 fundust fleiri jaspis steinar skammt frá rústum norrænna manna í  L’Anse aux Meadows.  Þeir reyndust vera frá bergi í Notre Dame Bay, þar skammt frá.  Seinni myndin sýnir þann jaspis stein.  Jaspis er nokkuð algengur í elstu bergmyndunum Íslands, eða blágrýtismynduninni frá Tertíer tíma. Jaspisinn myndar holufyllingar í gömlum basalt hraunlögum og finnst oft á Vesturlandi og víðar.  Sumir jaspis steinar geta verið allstórir eða allt að 50 kg, eins og sjá má til dæmis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Þakka þér fyrir þessar hugleiðingar, Haraldur.

Kevin Smith verður að fara að birta það sem hann hefur. Það eina sem ég hef séð um þetta er þetta:

http://www.canadianmysteries.ca/sites/vinland/lanseauxmeadows/ancillary/4071en.html 

sem ég vitnaði í hér: http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1267933/

Auðvitað er ekki lokum fyrir það skotið að jaspis frá Íslandi hafi borist til Vinlands. Til Íslands barst t.a.m. muscovit, staeatit, lithisk arenit, grænn og rauður porfyr, o.s.fr.

Menn voru ekki með vasa á þessum tíma, þótt þeir hafi vasast í ýmsu.

FORNLEIFUR, 14.8.2014 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband