Íslenska landgrunnið kortlagt af Olex
11.8.2014 | 00:08
Togarar eru útbúnir mjög góðum tækjum, sem ákvarða staðsetningu og botnlag hafsins. Skipstjórar varðveita slík gögn, sem eru að sjálfsögðu mikilvæg til að kanna miðin og finna þau aftur síðar. Undanfarin ár hafa margir skipstjórar haft það fyrir reglu, að senda inn slík gögn til norksa fyrirtækisins Olex. Þar er gögnum safnað til að gera nákvæm kort af hafsbotninum. Kortin hafa staðsetningu, sem er betri en tíu metrar og hæðartölur, sem eru á milli 0,1 til 1 meter. Þannig hefur nú verið safnað gögnum af nær öllu (80%) íslenska landgrunninu. Árið 2006 kom út ritgerð eftir Matteo Spagnolo og Chris Clark um íslenska landgrunnið. Hana má finna hér: http://www.journalofmaps.com/article_depository/europe/spagnolo_glaciallandforms_1222426647.pdf
Þeir túlka Olex kortið á þessu svæði og sýna fram á að þar ríkja áhrif jökla ísaldarinnar í myndun botnsins, ásamt myndunum sem tengjast eldvirkni og skorpuhreyfingum hafsbotnsins á gosbeltum neðansjávar. Á ísöld þakti jökulskjöldur allt landgrunnið og jökullinn var botnfastur. Sönnun þess eru jökulgarðar eða endamórenur, sem finnast úti á brún landgrunnsins, til dæmis jökulgarðurinn á Látragrunni út af Breiðafirði, sem ég hef áður fjallað um hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1400703/
Á þessum Olex kortum kemur margt fróðlegt fram, til dæmis Djúpáll út af Ísafjarðardjúpi. Hann er U-laga í þversniði og um 150 m dýpri en hafsbotninn umhverfis. Í mynni Djúpáls hefur hlaðist upp mikil keila af seti, þar sem állinn fer fram af landgrunnisbrúninni. Einnig er myndin af Jökuldjúpi í mynni Faxaflóa merkileg og fróðlegt að sjá hvað landslag á þessu svæði er mikilfenglegt undir hafinu. Myndin sem fylgir hér með er af Kolluál, norðvestur af Snæfellsnesi. Það er áberandi hvað botninn er skafinn hér og hvað jarðlögin koma greinilega fram sem línur með norðaustur stefnu. Þetta eru að öllum líkindum forn blágrýtislög, eins og bergið í grunni Snæfellsness og eyjum Breiðafjarðar. Vestast á myndinni, um 20 km norðvestur af Jökli, er svæði með allt aðra og óreglulega áferð botnsins. Er það einfaldlega framhald blágrýtismyndunarinnar eða er það ef til vill ungt gosberg, tengt gosbelti Snæfellsness? Ef til vill finna sjómenn hraun botn hér? Rauða línan á kortinu sýnir staðsetningu þversniðs, sem sýnt er efst á myndinni. Takið eftir hvað botninn er úfinn. Alun Hubbard og félagar (Quaternary Science Reviews 2006) hafa notfært sér upplýsingar um útbreiðslu jökulsins á hafsbotni þegar ísöldin náði hámarki og gert líkan af útbreiðslu jökulskjöldsins yfir og umhverfis Ísland. Það er sýnt á seinni myndinni, í líkani sem á við Íslandssvæðið fyrir um 21 þúsund árum. Á myndinni eru sýnd ytri mörk jökulsins á landgrunninu og einnig útlínur Íslands við hæð, sem samsvarar sjávarmáli þá, samkvæmt líkani þeirra. Það gefur því góða mynd af því hvað jarðskorpan seig mikið undir fargi íssins. Hvítir blettir á Tröllaskaga og Flateyjarskaga sýna svæði eða jökulsker, sem hugsanlega stóðu uppúr jöklinum.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hafið, Loftslag, Snæfellsnes | Facebook
Athugasemdir
Neðri myndin sýnir tölur í metrum. Er þetta meint þykkt jökulsins eða hæð yfirborðs hans yfir sjávarmáli (mér sýnist hið síðarnefnda líklegra)?
Brynjólfur Þorvarðsson, 11.8.2014 kl. 05:15
Þannig er myndinni lýst í greininni: The optimum LGM modelled ice sheet surface (contoured at 50m intervals) and its flow regime most compatible with the offshore evidence corresponding to a cooling of 12,5 oC and a 35% decrease in precipitation with an additional 30% suppression applied north of the 65th parallel. The isostatically adjusted bed topography is also contoured (light blue) at 0m LGM sea-level.
Haraldur Sigurðsson, 11.8.2014 kl. 07:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.