Færsluflokkur: Mannfræði

Fólksfjölgun er enn stærsta vandamálið

Lengi hefur það verið almennt haldið að draga myndi fljótlega úr hinum hraða vexti á fólksfjölda á jörðu. Nú reynist það rangt. Spár Sameinuðu Þjóðanna hafa alltaf reynst rangar. Fólksfjölgun er enn mjög mikil og hefur það bein áhrif á loftslagsbreytingar. Mannfjöldinn á jörðu tvöfaldast nú á aðeins um 40 árum. Þannig fjölgaði okkur frá 3 milljörðum árið 1960 til 6 milljarða árið 2000.   Línuritið í fyrstu mynd sýnir þróunina og það er ljóst að lítið hægir á fjölguninni. FjölgunTakið eftir að lóðrétti ásinn er logri eða logariþmi, í milljörðum. Við bætum við um 82 milljónum á hverju ári, sem er eins og eitt Þýskaland bætist við mannfólkið á jörðu á hverju ári. En fjölgun mannkyns dreifist nú öðruvísi en áður var. Viss lönd, einkum Kína, hafa náð góðri stjórn á fólksfjölda með ástundun og mikilli hörku, en í mörgum öðrum löndum, einkum í Afríku, er fjölgunin enn mjög mikil. Fjölgun á jörðu skapar mörg vandamál. Eitt er að fæða allt þetta fólk, en hitt gleymist oft að fólksfjölgun hefur bein áhrif á hnattræna hlýnun. Við brennum og borðum auðvitað í réttu hlutfalli við fólksfjöldann.   Með fólksfjölgun fylgir vaxandi losun lofttegunda, sem valda vaxandi gróðurhúsaáhrifum. Um þetta hefur Stephen G. Warren fjallað nýlega í vísindaritinu Earth´s Future.   Stóra málið á bak við fjölgun mannkyns er frjósemi kvenna, eða fjöldi barna sem hver kona ber. Í Asíu hefur frjósemi minnkað úr 5,9 börnum á hverja konu árið 1950, niður í 2,2 börn árið 2013. Í Afríku stendur frjósemin hins vegar í stað, um 4,8 börn á hverja móður. Í Evrópu og Norður Ameríku er hún aðeins 1,6 og 1,9 börn á hverja móður. Frjósemi á Íslandi hefur breyst mjög hratt á síðustu öld. Frjósemi á Íslandi var hærri en annars staðar í Evrópu á fyrri árum. Eins og línuritið sýnir, þá var frjósemi kvenna hér á landi um 4,0 í kringum 1950 til 1960, en hefur svo lækkað um helming, niður í um tvö börn á hverja konu. Frjósemi á Íslandi

Vöxtur eða fjölgun allra tegunda í lífríkinu heldur áfram þar til einhver utanað komandi áhrif stöðva hann. Það geta verið takmarkanir eins og fæðuskortur, sjúkdómar, styrjöld, eða umhverfistruflun (loftslagsbreytingar ofl.). Páskaeyja í Kyrrahafi er eitt lítið dæmi. Þessi einangraða eldfjallsey var uppgötvuð í kringum 600 e.Kr. og aðeins 20 til 30 Polynesar komu hingað í smábátum. Þeim fjölgaði og árið 1600 voru þeir orðnir um 6000 að tölu. Þá var mannþröng svo mikil á eynni að allir skógar voru höggnir, hungursneyð ríkti, styrjöld og mannaát tók við.  Mannfræðin sýnir okkur að þessi offjölgun á Páskaeyju varð vegna þess að frjósemin var um eða yfir 2,3. Það þarf ekki mikið til að koma kerfinu í algjört öngþveiti.

Kína er alveg sérstakt tilfelli, sem vísar okkur veginn í stjórn fólksfjölgunar á jörðu. Í Kína var frjósemi lengi um sex börn allt til 1970, eins og línuritið sýnir. Þá innleiddi stjórn landsins harða stefnu um eitt barn, og síðan hefur frjósemi fallið niður í 1,8.   Það er magt sem hefur áhrif á frjósemi kvenna yfir leitt. Til dæmis er frjósemi í öfugu hlutfalli við menntun. Annað mikilvægt atriði er að getnaðarvarnir séu fyrir hendi í þjóðfélaginu. Ef til vill er mikilvægasta atriðið samt einfaldlega frelsi kvenna til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Frjósemi er há á svæðum þar sem trúarofstæki er ríkjandi, eins og til dæmis meðal mormóna í Utah í Bandaríkjunum og í Ísrael. Sínasta línuritið sýnir svo frjósemina í Kína. Kína frjósemi


Flóttamenn eða ferðamenn?

BátsfylliFréttir berast um að varðskipið Týr hafi “bjargað” 320 manns á báti í Miðjarðarhafi og komu þeim í land á Ítalíu. Skyldu Ítalir nú fagna þessu framtaki íslensku Landhelgisgæslunnar?  Ég leyfi mér að efast um það. Það var fyrir rúmu ári að Ítalía hætti að líta á flóttamenn sem ólöglega innflytjendur og byrjaði að “bjarga” fjölda manna sem lögðu á hafið á litlum bátum frá norður strönd Afríku. Fréttin um að Ítalir tækju flóttafólki opnum örmum barst eins og eldur í sinu um alla Norður Afríku og öllum skekktum er nú ýtt á flot í átt til fyrirheitna landsins. Ítalía er nú orðin gáttin inn í Evrópu fyrir ólöglega innflytjendur. Það er talið að um 200 þúsund manns hafi komið frá Afríku árið 2014 til Ítalíu á þennan hátt, en þeir greiða frá eitt til tvö þúsund evrur til smyglara eða scafisti í Líbíu fyrir ferðina. Ítalska ríkið heldur þeim uppi fyrst í stað þegar þeir koma til fyrirheitna landsins, og er talið að það kosti landið um 43 evrur á hvern mann á dag, eða alls meir en fimm milljón evrur á dag! Þótt þeir hefji ferðina oftast frá Líbíu, þá er þetta fólk frá ýmsum löndum utan Afríku: Afganistan, Sýrlandi, Palestínu og Írak. Þegar til Ítalíu er komið er auðvelt að koma sér áfram í lest eftir stutta dvöl, til dæmis til Frakklands, því Schengen kerfið gerir öllum kleift að ferðast án vegabréfs, eftir að þeir eru komnir einhvers staðar inn í Evrópu. Í einfeldni okkar lítum við flest á svokallaða flóttamenn sem fólk á flótta undan pólitísku ofbeldi. Ég held að það sé rangt. Fólkið er fyrst og fremst í leit að tækifærum, atvinnu og bættum efnahag. Sumir eru einnig einfaldlega á flótta undan yfirvaldinu í heimalandinu vegna glæpastarfssemi. Hvenær verður þolinmæði ítalskra skattgreiðanda á þrotum? Þangað til hefur varðskipið Týr vinnu við þessa “björgun”.


Alþingishús er enn merkt Dönum

althingishu_769_s.jpgNú berst sú frétt að ríkisstjórn hyggist láta byggja við Alþingishús Íslendinga. Það verður þá sjálfsagt einhver glerálma, sem er jafn ósmekkleg og út úr stíl hússins, eins og álman sem var byggð fyrir nokkrum árum.  En skyldu þingmenn nokkurn tíma lyfta höfði þegar þeir ganga inn í húsið og líta á kórónu Kristjáns 9 danakonungs, sem trjónar efst á húsinu? Hvernig má það vera að Íslendingar láti við lýðast í öll þessi ár að æðsta stofnun þjóðarinnar sé merkt svo kyrfilega með merki nýlendukúgarans? Maður hefði nú haldið að einhverjir duglegir piltar hefðu klifið hér upp á þak í Búsáhldabyltingunni og fjarlægt skömmina, en svo fór ekki. Væri ekki best að minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018 með því að fjarlægja þessa skömm?


Farðu og sjáðu Leviathan

LeviathanRússneska kvikmyndin Leviathan eftir Andrei Zvyagintsev er risavaxin ádeila á Rússland í dag.   Siðleysi, ofdrykkja, lág menning, spilling: þetta er allt lagt fram á borðið og alltaf sigrar yfirvaldið í lokin. Myndin gerist í litlu úgerðarþorpi úti á Kola skaga. Stórbrotin náttúra, einangrun, villt landslag, dálítið íslensk stemning, brostin hjónabönd, þar sem samræðurnar far fram við eldhúsborðið. Og vodkadrykkjan! Drottinn minn! Er þetta satt? Ég er smátt og smátt að átta mig á hvað kirkjan hefura aftur náð miklum ítökum í rússneskri menningu og er komin innarlega í valdakerfið. Stóri brandarinn er að myndin var styrkt af Menntamálaráðuneyti Rússlands. Ég efast ekki um, að Pútin mun láta endurskoða þær reglur. Maður er eiginlega í áfalli eftir að hafa séð þessa mynd. Leviathan getur verið stóri hvalurinn, sem liggur djúpt í hafinu en getur farið að bylta sér órólega eins og rússneska þjóðin kann að gera. En Leviathan getur einnig verði dauði hvalurinn, sem er rekinn á land og liggur rotnandi í fjörunni, eins og rússneska þjóðfélagið í dag? Ykkar er valið.


Möskvastærð er ekkert mál!

fishing-in-cambodia11.jpgHort vilt þú deyja úr hungri, eða úr malaríu? Í Afríku er þetta ekkert grín, heldur alvöru mál. Í Zambíu og mörgum öðrum löndum Afríku eru moskítónet algeng vörn gegn malaríu, en nú eru margir íbúar búnir að taka netið niður fyrir ofan rúmið og farnir með það út á vatn eða út í ána, sem rennur í nágrenninu. Húsbóndinn er búinn að taka öll netin ur heimilinu, sauma þau saman og notar þau til að trolla eftir fisk í ánni eða vatninu. Það er ekkert spursmál um möskvastærð hér. Netið fangar bókstaflega allt sem lifir í vatninu, ungviði sem fullorðinn fisk og ekkert er skilið eftir. Þessi dásamlegu moskítónet, sem hjálparstofnanir færa heimamönnum ókeypis eru að bjarga þeim, ekki frá malaríunni, heldur frá hungri. Netin eru ókeypis, en þau eru menguð af permethin, sem drepur moskító flugur en einnig mikið af lífriki vatnanna. Hjálparstofnanir dreifa hundruðum milljóna moskítónetja á hverju ári í Afríku, sem öll eru menguð efnum til að fæla frá moskító flugur. En nú eru þessi efni að fara í vatnið.  En þessi aðferð er ekki bundin við Afríku.  Myndin sem fylgir er reyndar frá Kambódíu, þar sem þeir nota sömu aðferð með moskító net.


Sigurfari á haugana?

SigurfariÞegar ég heimsæki Akranes, þá kem ég gjarnan við hjá Sigurfara, síðasta kútternum á Íslandi. Ég hef alltaf litið á hann sem merkilegustu menningarminjar sem Akurnesingar hafa í sínum fórum. Hann er nú reyndar aðeins svipur hjá sjón og nú hafa yfirvöld tilkynnt að hann veri rifinn og kastað á hauga, í staðinn fyrir að ráðast í dýra viðgerð. Þetta er ótrúleg skammsýni hjá bæjarfélagi sem kastaði hins vegar um 150 milljónum króna í að semja sögu bæjarins. Ef þetta væri gamalt hús, þá væri það lögbrot að rífa það. Er engin hreyfing á Akranesi, sem hefur áhuga á að halda utan um svo merkilegan grip? Hvar er metnaður bæjarbúa í menningarmálum?


Sukk og svínarí

img_1955.jpgÉg var að ljúka vikudvöl minni í fornu borginni Marrakesh í Marokkó. Borgin er stórmerkileg, en hún var stofnuð af Berbum árið 1062. Marrakesh situr við rætur hinna fögru og snævi þöktu Atlasfjalla, sem ná meir en 4000 metra hæð. Hús, hallir og moskur borgarinnar er nær öll byggð úr rauðum sandsteini og einnig borgarmúrarnir, sem gefur borginni sérstakan rauðan lit. Berbar settu strax á laggirnar markað eða “souk” hér á elleftu öld og reyndar eru í borginni einir átján “souks” starfandi í stígum og götum, sem eru svo þröngar að engir bílar fara þar um, aðeins fótgangandi og asnakerrur með farangur á markaðinn. Karlar sitja við störf sín úti á götu eða í þröngum sundum, en konur eru lítt áberandi. Hér er hægt að kaupa bókstaflega allt sem þér dettur í hug. Krydd er áberandi, einnig fatnaður, teppi, grænmeti, ávextir. Ég rakst jafnvel á nokkra karla sem voru eingöngu að selja steingervinga og kristalla af ýmsu tagi, enda er jarðfræði Marókkó stórmerkileg. Aðrir selja forngripi frá ýmsum kynþáttum Norður Afríku, einkum Tuareg fólki. Það er enginn vandi að eyða mörgum dögum í “souk”, en maður stoppar öðru hvoru til að fá sér heitt te með mintu.   Þeir taka fersk mintublöð og hella sjóðandi vatninu yfir þau, sem gerir hinn besta drykk. Svo setja þeir tvo stóra sykurmola út í. Einn daginn, á leið í “souk” áttaði ég mig allt í einu á því að reyndar var ég að fara í sukkið! Ég tel að það sé enginn vafi á því að íslenska orðið sukkið er dregið af “souk”. Sennilega hefur það borist okkur í gegnum dönsku. Eina “souk” í Evrópu sem ég veit um er í Marseille í suður Frakklandi, enda eru Arabar í meirihluta í þeirri borg.   Að fara í sukkið getur að vissu leyti verið neikvætt, enda er maður hér til að eyða tímanum, á flækingi, og þar á meðal er hætta á að dragast út í einhverja óreglu. En það er ekki hættan í Marrakesh. Þar hjá múslimum er ekkert áfengi selt í sukkinu.


Rætur hryðjuverkamanna

hry_juverk.jpgHvað segir félagsfræðin og mannfræðin um uppruna hryðjuverkanna? Ekki mikið, en þó er ýmislegt að koma fram. Til dæmis er bent á eitt athyglisvert í sambandi við samanburð á innflytjendum í París og Bandaríkjunum. Bandaríski mannfræðingurinn Scott Atran hefur kannað þetta mál. Í Bandaríkjunum er talið að innflytjendur nái þeirri menntun og efnahag, sem einkennir meðalmanninn í landinu eftir aðeins eina kynslóð. Í Frakklandi eru innflytjendur fimm til tuttugu sinnum líklegri að vera fátækari og minna menntaðir en miðstéttin, jafnvel eftir þrjár kynslóðir í landinu. Stéttaskiftingin er, þrátt fyrir allt, miklu lífseigari í Frakklandi en í Ameríku.   Uppruni fanga í fangelsum þessara landa segir einnig sína sögu. Í Frakklandi eru múslimar á bilinu 8 til 10% af allri þjóðinni, en þeir eru um 60 til 75% af öllum föngum landsins. Það er svipað hlutfall og hjá ungum svertingjum í Bandaríkjunum.  En í Frakklandi sitja margir í steininum vegna hugmyndafræði sinnar. Í Bandaríkjunum er það öðruvísi. Þar eru svertingjarnir fangar aðallega vegna smáglæpa, tengdum neyslu og verslun með eiturlyf. Skoðanakannarnir sýna að í Frakklandi hafa 27% af öllu ungu fólki (milli 18 og 24 ára) frekar jákvæða skoðun á ISIS. Meðal þeirra eru margir atvinnulausir utangarðsmenn, sem líta á ISIS sem samtök, þar sem þeir séu velkomnir og sjá jihad sem aðferð til að breyta heiminum sér í vil.   Þannig tókst þremur fyrrum föngum í París að ná heimsathygli í síðustu viku og breyta heiminum á sinn hátt, þótt það kostaði þá lífið. Mannfræðingarnir telja að milli 7 og 14% allra múslima í heiminum styðji árás Al Quaeda á Bandaríkin árið 2001. Ef svipað hlutfall styður ISIS nú, þá er það hvorki meira né minna en um 100 milljón manns. En hve margir þeirra væru tilbúnir að berjast og deyja fyrir slíkan málstað? Það veit enginn. Slíkt hugarfar myndast aðeins við sérstakar aðstæður, eins og til dæmis í litlum klíkum múslima í fangelsi, þar sem þeim finnst að allur hinn vestræni heimur vinni á móti sér. Mannfræðingarnir telja því að klíkurnar myndist ekki í moskunum heldur fyrst og fremst í fangelsum, eða þá á fótboltavellinum. Ekki í moskum, því að þar er þögn og menn talast ekki við. Ræturnar eru fátækt, misrétti, atvinnuleysi og félagsleg vandamál, sem hafa að mestu leyti skapast vegna auðvaldsskipulagsins sem stýrir heiminum í dag.


Hvernig kóngur Marókkó tók á hryðjuverkamönnum

Marrakesh í Marokkó er góð borg. Hún er hrein, skemmtileg og hefur gömul markaðshverfi eða souk, sem eru sennilega óbreytt frá fyrri hluta miðalda. Það kemur mér ekki á óvart að Marrakesh er til fyrirmyndar. Fólk frá Marokkó hefur mjög gott orð á sér í Frakklandi, ólíkt því sem sagt er um hina fremur óvinsælu innflytjendur frá Alsír. En þótt þröngt sé í gömlu Marrakesh, þá er þrifnaður til fyrirmyndar, engir flækingshundar, og kurteist fólk. Gömlu hverfin eru svo flókin, að það þarf GPS til að komast út úr þeim auðveldlega, en yfirleitt finnur maður alltaf aftur stóra torgið Jaama el Fna. Maður gengur bara á hljómlistina eða þá í áttina þaðan sem hrossataðslyktin kemur. Hér á torginu halda nefnilega til um eitt hundrað skrautlegar hestakerrur. Torgið stóra er miðja borgarinnar á margan hátt. En undir þessu fagra yfirbragði leynist ef til vill önnur hlið á Marokkó. Hér var gert eina hryðjuverkið, sem Marokkó hefur orðið fyrir. Það var í apríl árið 2011, þegar sprengja sprakk í Argana veitingahúsinu. Hún drap 17 manns, mest túrista. Þá fylgdu handtökur og réttarhöld. Mohammed VI konungur er harður í horn að taka. Árið 2012 voru tveir dæmdir til dauða fyrir hryðjuverkið en nokkrir í viðbót settir í fangelsi. Mér hefur ekki tekist að fá beint staðfest að þeir hafi verið teknir af lífi, en mér var sagt af heimamanni hér í borginni að svo væri. Hann staðfesti einnig mýtu sem ég hafði oft heyrt í Frakklandi um þetta mál. Hún er sú, að auk sprengjuvarganna hefðu fjölskyldur þeirra einnig verið teknar af lífi, þar á meðal afar og ömmur, sem viðvörun til þeirra sem hyggjast stunda hryðjuverk í þessu konungsríki. Amnesty International hefur mótmælt því harðlega hvað allt réttarfar er fótum troðið í þessu landi, einkum er varðar mótmæli og áróður á móti ríkinu.


Eftirköst Parísargöngunnar

Göngunni miklu er lokið. Frakkar luku göngunni á þann hátt, sem þeir kunna best: að halda veizlu. Ég var gestur í einni slíkri í kvöld í 16. hverfi borgarinnar. Við vorum tólf saman og kampavín og krásir á borðum. Þá losnaði um málbeinið. Mér þótti merkilegt að af þessum tólf höfðu aðeins fimm (allt konur) farið í gönguna, en karlarnir fjórir allir setið heima. Sumir sátu heima til að lýsa mótmælum við stefnu vinstri stjórnarinnar. Almennt er stemningin sú, að ríkið þurfi að taka miklu harðar á málum sem varða hættulega einstaklinga og hreyfingar innan Frakklands. Ég varð margs vísari af því, að hlusta á spjallið yfir matborðinu. Mig grunar að það sé ef til vill að gerast grundvallarbreyting á hugarfari Frakka varðandi réttvísi. Nú vilja margir Frakkar, að það verði heimilt að taka fasta og setja í fangelsi þá, sem gætu verið grunsamlegir og hættulegir ríkinu. Hingað til hafa að sjálfsögðu aðeins þeir verið fangelsaðir, sem hafa hlotið dóm fyrir rétti. Stefna George Bush stjórnarinnar í Bandaríkjunum er nú að ná vissri fóstfestu hér í landi, sem er vagga lýðræðisins (að forn-Grikkjum ógleymdum). Bush hafði þá aðferð að varpa grunsamlegu fólki í fangelsi í Guantanamo í Kúbu án dóms og laga. Nú tala Frakkar um að setja upp fangabúðir, til dæmis í Guiana, nýlendu Frakka í Suður Ameríku, fyrir óæskilega einstaklinga. Eins og kunnugt er, þá voru öfgamennirnir, sem unnu hryðjuverkin í París í síðustu viku allir á skrá hjá lögreglu, bæði í Frakklandi og í Bandaríkjunum, sem vafasamir einstaklingar. Þeim hefið til dæmis aldrei verið hleypt inn til Bandaríkjanna. Fangelsun án laga og réttar er auðvitað eitt af fyrstu skrefum til fasisma, en margir Frakkar líta ekki á það sem stórt vandamál. Þeir vilja að ríkið geri eitthvað róttækt í málinu, til að forðast slíka atburði í framtíðinni.   Það verður spennandi að fylgjast með þróun stjórnmála í Frakklandi á þessu sviði á næstunni, en þau munu hafa áhrif um alla Evrópu.  Já, og að lokum: það tók enginn hér eftir því að forsætisráðherra Íslands vantaði í gönguna.  Þið getið því öll andað léttara þarna heima á Fróni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband