Færsluflokkur: Mannfræði

Er OK að nota útrunnin lyf?

pillurSumir spyrja sig af hverju lyf renni út. Ástæðan er að lyf hafa síðasta söludag, rétt eins og matvara. Sum virk efni lyfjanna eru óstöðug og þau geta misst virkni sína með tíma og óæskileg niðurbrotsefni geta einnig myndast. Lyf eru einnig mismunandi hvarfgjörn en niðurbrot getur verið vegna oxunar, ljóss eða raka.
Endingartími lyfja er misjafn og hann er einnig háður geymsluaðferð: það er best að geyma lyf á köldum, þurrum og dimmum stað (kæliskápur er góður, en ekki má rugla lyfjum saman við matvæli). Útrunnin lyf eru skilgreind þannig: síðasti neysludagur sem gefinn er upp á umbúðum lyfja er sá tími sem framleiðandi lyfsins ábyrgist 100% virkni. Sá tími er oftast gefinn sem 2 til 3 ár. Í Bandaríkjunum er talið að útrunnum lyfjum sé kastað, með verðmæti sem nemur $765 milljarðar á ári hverju, sem er fjórði hluti af allri sjúkrasamlagsstrafsemi landsins.

Nú telja margir að útrunnin lyf sé mýta, trú eða skoðun sem hefur ekki við góð rök að styðjast, mýta sem lyfjaframleiðendur koma fram með til að fá fók til að kasta lyfjum og kaupa ný. Það er margt sem bendir til að lyfjaframleiðendur séu að plata okkur.

Tökum dæmi frá Kaliforníu. Stór kassi fullur af gömlum lyfjum (sum voru eldri en jafnvel tunglfarið árið 1969) fannst í geymslu í lyfjaverslun í Kaliforníu nýlega. Flest eða öll lyfin voru meir en 30 til 40 ára gömul og því löngu útrunnin samkvæmt reglum lyfsala. Tveir lyfjafræðingar tóku kassann og byrjuðu mælingar á efnainnihaldi lyfjanna. Það voru 14 tegundir lyfja í kassanum. Efnagreinigar sýndu að 12 af 14 voru í fínu ástandi og jafngóð og ný lyf. Aðeins tvö reyndust hafa misst eitthvað af lækningakraftinum.

Ég er ekki beint að hvetja fólk til að taka inn útrunnin lyf (þótt ég geri slíkt sjálfur), heldur að benda á að það þarf að fylgjast mun betur með lyfjaframleiðendum og endurskoða aðferðir þeirra við að setja tímamörk á útrunnin lyf. Læknasamtök í Bandaríkjunum (AMA) hafa gert sér grein fyrir því að mörg útrunnin lyf eru ágæt og þafa því reynt að fá FDA, bandarísku lyfjastofnunina, til að breyta reglunum. Ekkert hefur enn gerst í því máli, en hreyfing er nú að vakna.


Ferðamönnum fjölgar enn

brottförHeyrst hafa raddir um, að ferðamönnum muni fækka á Íslandi á næstunni. Hér er tafla með merkilegar tölur frá Ferðamálastofu, sem sýna fjölgun þvert á móti. Í júní 2017 voru brottfarir ferðamanna frá Norður Ameríku 23% fleiri en í þeim mánuði árið áður. Yfir tímabilið janúar til júní voru brottfarir ferðamanna frá Norður Ameríku frá Íslandi 58% fleiri árið 2017 en árið áður. Það merkilega við þessar tölur eru breytingarnar fyrir ýmiss þjóðerni. Það eru ekki bara kanar, sem eru á ferðinni hér. Það er gífurleg aukning í fjölda ferðamanna frá Spáni, Rússlandi, Ítalíu og Kína. Ef til vill er aðeins að draga úr fjölguninni, enda væri það allt í lagi. Þetta er gott svona. Við ráðum ekki við meiri átroðning í þessu viðkvæma landi. Ísland er eins og mosinn: eitt skref útaf leið skilur eftir sig spor, sem tekur tugi ára að hverfa.


Hvernig er best að raða fólki inn í flugvél?

Það versta við flugferðir er biðin á flugstöðinni. Það næstversta er þröngin við innganginn þegar kallið kemur að fara um borð. Flugfélög hafa ýmsar aðferðir við að fylla vélina, en engin þeirra leysir vandann um troðninginn, bæði í ganginum inn og síðan í flugvélinni, áður en fólk kemst í sæti. Hér eru nokkrar aðferðir sem eru í gangi.

Fyrst aftast: Fólki er hleypt inn í hópum, fyrst þeir sem sitja eiga í fimm öftustu röðunum í vélinni og svo koll af kolli, fimm raðir í senn. Þetta er langalgengasta aðferðin og notuð til dæmis hjá Virgin, American Airlines, JetBlue Airways og US Airways. Mythbusters gerði tilraunir með ýmsar aðferðir varðandi sætaskipan og með þessari aðferð tók það 24 mín. 29. sek. að fylla vélina.

Glugginn fyrst: Þessi aðferð byggist á því að hleypa gluggaröðunum in fyrst, síðan miðsætunum og svo síðast þeim sem sitja við ganginn. Aðferðin er kölluð WilMA í bransanum (window, middle, aisle). United beitir henni og einnig WOW. Ég flaug með WOW nýlega og þessi aðferð virkaði vel. Í tilraun Mythbusters tók aðeins 14 mín. 55 sek. að fylla vélina með WilMA aðferðinni. Vandamálið með WilMA er að fók, sem vill sitja saman fer ekki saman inn í vélina. Það gengur því ekki vel með foreldra og börn.

Frjálst val: Einnig mætti kalla þessa aðferð örtröð, en henni er beitt f Southwest Airlines. Sætin eru ekki númeruð og afleiðingin er algjört öngþveiti, en hún virkar samt nokkuð vel. Fók er ekki að eyða tíma í að leita að sætanúmeri, heldur sest beint í fyrsta laust sæti. Í tilraun Mythbuster tók þessi aðferð aðeins 17 mín. 15 sek. og í annari tilraun 14 mín. 7 sek.

tilraunirAð lokum eru hér niðurstöður úr tilraunum sem Carmona og félagar gerðu (2014), sýndar í línuriti. Tíminn er í sekúndum á lóðrétta ásnum, fyrir átta tilraunir sýndar á lárétta ásnum. Það er greinilegt að frjálst val (“random”) er fljótasta og ef til vill leiðin.

Örtröðin sem ríkir í flugvélinni við sætisleit er afleit, en flugfélög gefa aðeins einn kost til að losna við hana: að borga meira og kaupa sæti i fyrsta farrrymi eða business class.  Það er greinilega mjög í hag flugfélaga að spara tímann. Könnun sýnir að með því að stytta tímann sem fer í að fylla vélina af fólki um eina mínútu, þá sparast 22 evrur á hvert flug. Flugfélag með 300 flug á dag sparar sér þannig 2.409.00 evrur á ári.  En hvernig væri að byrja á því að smíða flugvélar með inngang í miðju? á er hægt að fylla í báðar áttir.  Einföld lausn.

 


Dollarinn ríkir enn í Ekvador

GN! 2017Ríki Suður Ameríku hafa mörg verið að mjakast til hægri í stjórnmálum (t.d. Brazilía, Perú, Argentína), en undantekningin er litla ríkið (13 milljón) Ekvador, sem er að mestum hluta í Andesfjöllum.   Það eru yfirleitt góðar fréttir nú frá Ekvador, enda ríkir þar gott lýðræði. Mikið hefur dregið úr fátækt í landinu og framlag til menntunar er hæst í rómönsku Ameríku. Rafael Correa var kosinn forseti Ekvador árið 2007 og hefur verið við völd í tíu ár. Nú tekur við ný vinstristjórn, sennilega með svipaða stefnu, með Lenin Moreno í fararbroddi. En að sumu leyti voru hendur Correa bundnar þegar hann tók við völdum, vegna þess að landið tók upp amerískan dollar sem gjaldmiðil árið 2000 og lagði niður gömlu myntina sucre, sem hefur reynst þeim jafn illa og krónan íslendingum. Hann gat ekkert fiktað við gengið til að stýra efnahagsmálum, gengisfellingar voru útilokaðar og nokkuð óvenjulegt efnahagsástand tók því við, sem ríkir enn. Eitt af nýjum lögum landsins er að bankar verði að koma aftur heim til Ekvador með 80% af eignum sínum. Með þessu og öðrum aðgerðum tókst að ná miklu magni af dollurtum aftur heim, sem kom sér vel í kreppunni árin 2008 og 2009. Ekki bætti úr skák að olíuverð á heimsmarkaði féll mikið en Ekvador framleiðir mikið magn af olíu frá lindum undir Amazonskóginum. Það hjálpaði sjálfsagt til að Correa er með doktorsgráðu í hagfræði frá Harvard skóla.

Línuritið sýnir GNI (Gross National Income per person) eða þjóðartekjur á mann í dollurum. Rauða línan markar breytinguna frá sucre sem gjldmiðil, yfir á ameríska dollarann. Vaxandi velgengni undanfarinn sautján ár má að nokkru leyti þakka olíu, en ef til vill einnig stöðugri hagtjórn, sem hefur verið að nokkru leyti bundin í stakk af dollaranum.

Með því að taka upp dollarann missti Ekvdor að nokkru leyti stjórn á gjaldeyrismálum, -- það var til dæmis ekki lengur hægt að prenta peningaseðla til að örva hagvöxt eða til að standa undir opinberum verkefnum eða þá til að bjarga gjaldþrota bönkum úr vanda. Eina ríkið sem hafði reynt dollarinn á undan var Panama, en þar ríkir allt annað efnahagsástand. En olíuverð hefur stöðugt lækkað og efnahagur Ekvador er í nokkurri óvissu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hinn nýi forseti tekur á málunum, án þess að geta fiktað neitt við gengi og gjaldeyri landsins.


Fyrstu landnemar Ameríku?

cc_CMS-Excavation-17_16x9Mannkyn átti uppruna sinn í Afríku fyrir meir en milljón árum og geislaði síðan í allar áttir. Það er merkilegt að Ameríka virðist hafa verið síðasta meginlandið sem menn námu land á. Það er almennt talið að fyrstu mennirnir hafi komist til Ameríku fyrir um 14 þúsund árum, þegar sjávarstaða var lægri um allan heim og þá var fært fyrir fótgangandi frá austur Asíu yfir Beringsund til Norður Ameríku.  Jafnvel Ástralía var mönnuð miklu fyrr, eða fyrir um 40 þúsund árum.

En þessi kenning er ef til vill að breytast á mjög róttækan hátt, ef taka má mark á fornleifarannsóknum á minjum sem komu fram við vegavinnu nærri San Diego í Kaliforníu. Bein af mastodon (skyldur loðfílum) komu fram í vegavinnunni árið 1992. Frekari rannsókn hefur leitt í ljós að mikið af beinunum eru brotin. Þetta er engin smábein og þarf mikið afl til að brjóta slíkt, sennilege stórar steinsleggjur bundnar á trjágreinar. Þá hafa fundist steinar (15 kg) í uppgreftrinum, sem gætu verið verkfæri. Það sem gerir þetta hugsanlega mjög mikilvæga uppgötvun er aldursgreining beinanna, 130 þúsund ár. Ef beinin hafa verið brotin af mönnum, eins og nú er haldið fram, þá komust menn með einhverjum leiðum alla leið til Ameríku löngu fyrr en áætlað var. Ef þetta er rétt, þá er hér elsti fornleifafundur í Ameríku. Hvernig voru aðstæður í heiminum á þeim tíma? Fyrir um 120 til 140 þúsund árum var hlýskeið, með loftslag á jörðu mjög líkt því sem ríkir í dag.

Hingað til hafa ekki fundist nein mannabein á staðnum. Þar til slíkar minjar finnast þá verður að taka þessa kenningu með miklum fyrirvara, en nú er unnið af kappi á staðnum við að leita frekari minja.  En það er athyglisvert að ef hér er um menn að ræða, þá voru þeir sennilega Neanderthal, því nútúmamaðurinn kom seinna út úr Afríku.

 


Nú er von fyrir fílinn!

 fi_769_ll.jpgÁrið 1800 er taliðað 26 milljón fílar hafi verið á lífi á jörðu.  Í dag eru ekki einu sinni 50 þúsund fílar eftir á Indlandi og í Afríku eru um hálf milljón. Það er auðvitað fílabeinið, sem er að drepa fílinn, eða réttara sagt græðgi mannkyns að ná sér í fílabein til skrauts. Í Kína er langstærsti markaðurinn fyrir fílabein, en einnig í öðrum austurlöndum fjær. Í dag tilkynnti Kína að öll verzlun með fílabein verði ólögleg í lok ársins 2017. Þetta er algjör “game changer” fyrir verndun fílsins og getur bjargað honum frá algjörum útdauða. Bandaríkin hafa einnig bannað alla fílabeinsverzlun fyrr á þessu ári. Við getum glatt okkur á þessari skynsamlegu hegðun stórveldanna og vonandi fagnað því að fílnum fari að fjölga aftur.


Nýjar rústir Norrænna manna í Ameríku?

point_rosee_settlement_site_map.jpgEins og öllum er kunnugt, þá fundust rústir norrænna manna á L’Anse aux Meadows á norður odda Nýfundnalands árið 1961. Nú virðist sem önnur norræn byggð sé hugsanlega að koma í ljós nærri suðvestur odda Nýfundnalands. Fyrsta myndin sýnir staðsetningar þeirra. Þessi umdeilda forna byggð fannst fyrst á Google Earth, í skaga sem vefnist Point Roose. Hér með fylgir mynd, sem ég hef tekið af Google Earth. Rauði hringurinn umlykur svæðið, sem er athyglisvert og til rannsóknaar. Þar má sjá á myndinni útlínur, sem kunna að vera gamlir torveggir eða garðar. Einnig hefur fundist eldstó, mýrarrauði og vísbendingar um járnvinnslu. En engar aldursgreiningar hafa verið gerðar, og engin örugg merki hafa komið í ljós enn sem benda öruggt á vist norrænna manna á þessum stað. point_rosee.jpg


Fyrstu norðurfararnir

untitled_1291704.jpgHvenær komu menn fyrst inn á Norðurheimskautssvæðið? Á Ísöldinni var þetta vægast sagt erfitt svæði til að búa á, kalt, dimmt og erfitt yfirferðar. Það er vitað að menn voru fyrst á ferðinni á Ísöldinni frá Síberíu til Norður Ameríku fyrir um 18 þúsund árum, en nú hefur komið í ljós vitneskja um að maðurinn hafi farið á norðurslóðir miklu fyrr á Ísöldinni, eða fyrir um 45 þúsund árum. Árið 2004 fundust tól úr steini og beini í Uralfjöllum í Rússlandi sem reyndust vera 35 þúsund ára, og einnig hafa fundist nýlega leifar af slátruðum mammútum eða loðfílum frá sama tíma.  En merksti fundurinn til þessa varð árið 2012, þegar 11 ára rússneskur snáði, Zhenya að nafni, rakst á leggi af hálfrosnum loðfíl, sem stóðu út úr árbakkanum við Yenisei flóa í norður Síberíu, um 2000 km fyrir sunnan norðurpólinn. Rannsókn leiddi í ljós að fílnum hafði verið sátrað af mönnum fyrir um 45 þúsund árum. Þetta sýnir að maðurinn hefur snemma aðlagað sig að helkulda Ísaldarinnar í norðri, sennileg með góðum skinnklæðum og vel vopnaður spjótum til að eiga við stór dýr eins og loðfíla.  Loðfílar og önnur mjög stór dýr voru algeng á steppunum við jökulröndina á Ísöld. Maðurinn hefur sótt inn á þetta svæði til að afla sér fæðu frá hinum stóru dýrum, en það þurfti mikið vit og mikla samvinnu margra veiðimanna að ná að drepa slík dýr með fremur frumstæðum spjótum með steinoddi. En þarna úr einu dýri eru komin á matarborðið mörg tonn af kjöti, sem getur haldið lífinu í heilu þorpi í marga mánuði. Á ferðum sínum um Síberíu leitaði maðurinn meðal annars enn austar, þar sem hann komst þurrum fótum frá Síberíu og til Alaska fyrir um 18 þúsund árum og hóf að nema land í Ameríku.


Eru Íslendingar aumingjar?

althingishu_769_s_1289112.jpg

Nýr forseti var vígður í vikunni og kom að vanda fram á svalir Alþingishússins til að láta lýðinn hylla sig. En skyldi hann nokkurn tíma lyfta höfði þegar hann gengur inn í húsið og líta á skjaldarmerki og kórónu Kristjáns 9 danakonungs, sem trjóna efst á húsinu? Hvernig má það vera að Íslendingar láti við lýðast í öll þessi ár að æðsta stofnun þjóðarinnar sé merkt svo kyrfilega með merki nýlendukúgarans? Maður hefði nú haldið að einhverjir duglegir piltar hefðu klifið hér upp á þak í Búsáhaldabyltingunni og fjarlægt skömmina, en svo fór ekki. Væri ekki best að minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018 með því að fjarlægja þessa skömm?


Nation-building er orsök hryðjuverkanna

Ég var í París hinn 7. janúar 2015, daginn sem hryðjuverkin voru framin í Charlie Hebdo. Ég var EKKI í París nú á föstudaginn, þegar nýju hryðjuverkin voru framin, þar á meðal í Bataclan hljómleikasalnum, aðeins um 300 metrum frá Charlie Hebdo.   Reyndar var vettvangur hryðjuverkanna nú á svæði í austur hluta borgarinnar, sem mér finnst lítt spenandi, fyrir utan hinn einstaka Père Lachaise kirkjugarð, þar sem finna má leiði Jim Morrison (The Doors), Maria Callas, Oscar Wilde, Balzac, Delacroix ofl. Í París ríkir nú mikil sorg og allt er nú gert til að komast til rótar í þessu máli. En að mínu áliti eiga hryðjuverkin í París og víðar í heiminum undanfarið rót að rekja til aðgerða heimsveldanna á tuttugustu öldinni og í byrjun hinnar tuttugustu og fyrstu. Uppúr 1990 kom fram ein tegund af heimsveldisstefnu í Bandaríkjunum, sem fékk hið virðulega nafn “nation-building”. Það voru hugmyndafræðingar, sem störfuðu á vegum George W. Bush, George H W Bush og Tony Blair, sem voru helstu áróðursmenn fyrir nation-building og þeir eru oftast nefndir “neocons”, eða neo-conservatives.  Fremstir þar í flokki voru Paul Wolfowitz, Dick Cheney og Donald Rumsfeld. Æðsta markmið neocons var að reisa Amerískt heimsveldi, þar sem ríkti Pax Americana eða Ameríski friðurinn. Einkum höfðu neocons augastað á mið-austurlöndum, þar sem auðlindir af olíu og gasi eru miklar. Það kemur ekki á óvart að margir neocons og einnig Bush fjölskyldan hafa sterk tengsl í olíufyrirtækjum og félögum tengdum olíuleit, eins og Haliburton, Schlumberger og Hughes Tool Co.

            Já, en þú gengur bara ekki inn og tekur yfir landið og allar auðlindir þess? Nei, þeir höfðu aðra og smekklegri aðferð, sem þeir kalla “nation-building”. Í nær öllum miðausturlöndum var fólkið þá undir hælnum á harðstjóra eða herforingjaráði og lýðræði var af skornum skammti eða ekki neitt. Nú sáu neocons sér leik á borði: þeir lögðu til að Bandaríkin (og fylgifiskar þeirra, þar á meðal Bretar og einnig Ísland undir merki Davíðs og Halldórs í Irak) gerðust einskonar frelsarar eða brautryðjendur í “nation-building” eða þjóðarreisn, steyptu af stóli harðstjórn, kollvörpuðu mönnum eins og Saddam Hussein og stilltu upp stjórn auðsveipra heimamanna, sem væri þeim velviljuð og boðaði einnig lýðræði að nafninu til meðal fólksins. Við vitum vel hvernig þetta hefur mistekist í Írak, Afghanistan, Libýu og nær alls staðar, þar sem nation-building aðferðinni hefur verið beitt. Það hefur orsakað algjöra upplausn þjóðfélagsins, margra alda gamlar hefðir eru fótum troðnar, þjóðfélagið leysist upp. Undir stjórn harðstjóranna og herforingjaráðsins ríkti áður viss stöðugleiki í þessum löndum. Auðvitað voru mannrétindi þá fótum troðin, en samfélagið virkaði og naglar eins og Hussein gættu þess, að klerkastéttinni væri haldið í skefjum. Nú er efnahagur flestra þessara landa í rústum og öfgahópar múslima hafa náð fótfestu, stjórnin er veikburða og hefur ekki fylgi almennings. Því miður virðist svo að íbúar mið-austur landa séu ekki tilbúnir að leggja út í lýðræðislegt þjóðfélagskerfi. Heimsspekin og hugarfarið sem lýðræði byggir á virðist láta strax í minni pokann, þegar klerkarnir kalla fólkið til bæna, fimm sinnum á dag. Múhammeð trompar allt. Sama sagan er nú að endurtaka sig í Sýrlandi. Bashar al-Assad hafði nokkurn veginn stjórn á landinu, en vegna afskipta vesturlanda og annara erlendra áhrifa er stjórn hans í molum. Enn og einu sinni skapast þá ríkur jarðvegur fyrir hryðjuverkahópa, þegar gamla stjórnarkerfið er hrunið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband