Færsluflokkur: Mannfræði
Stjórnarmorðin í Grenada voru fyrir 40 árum
30.11.2023 | 13:04
Hinn 19. oktober, 1983 var Maurice Bishop, forsætisráðherra eyjarinnar Grenada í Karíbahafi, tekinn af lífi ásamt sjö öðrum starfsmönnum í ríkisstjórn eyjarinnar. Þessi hryllilegi atburður hafði mikil áhrif á mig, þar sem ég þekkti persónulega ýmsa aðila sem stóðu báðum megin í þessu máli.
Árin 1970 til 1974 starfaði ég sem eldfjallafræðingur við University of the West Indies, en háskólinn var staðsettur í Trinidad. Fyrir norðan mig var löng keðja af eldfjallaeyjum, þar á meðal Grenada, sem voru flestar virkar og þar var aðal starfssvið mitt. En í háskólanum kynntist ég ýmsu fólki, og þar á meðal var hópur af Marxiskt-Leninistum, sem voru innfæddir Karíbahafsmenn að uppruna, en höfðu allir verið í háskólanámi á Bretlandi. Þar höfðu þeir drukkið í sig þá hörðu vinstri stefnu, sem réði allri stjórnmálaumræðu innan breskra háskóla á þeim tíma og færðu nú þessar róttæku kenningar með sér heim til Karíbahafsins. Ekki má gleyma því í þessu sambandi að þessi vel menntaði hópur innfæddra manna og kvenna þurfti yfir leitt ekki að rekja ættir sínar meir en tvær eða þrjár kynslóðir aftur í tíma, en þá var komið að forfeðrum sem voru þrælar í ánauð. Byltingarandinn sauð og kraumaði undir niðri og einnig Black Power hreyfingin. Myndin er af Maurice Bishop.
Þegar ég kem fyrst til Grenada, þá er þar einræðisherra við völd, sem hét Eric Gairy. Hann stýrði landinu með harðri hendi og beitti óspart hópi af glæpamönnum, sem nefndist Mongoose Gang, til að myrða fólk eða þvinga til síns máls. Gairy var í miklu uppáhaldi hjá Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna, vegna þess að hann barði niður allar hreyfingar sem prédikuðu sósíalisma. Maður gat ekki hugsað sér betri blöndu til þess að hleypa af stað byltingu á þessum tíma, en að hræra saman Marxiskt-Leninistum eins og þeim sem höfðu sig mikið frammi í háskólum í Vestur Indíum og harðstjórum eins og Eric Gairy í Grenada.
Maurice Bishop og kunningi minn Bernard Coard voru báðir komnir heim og sestir að á Grenada um það leyti er ég flyt frá Trinidad 1974. Þeir stofna samtök sem heita New Jewel Movement, en var í raun pólitískur flokkur með hreina Marxist-Leninist stefnu. Þeir tóku þátt í kosningum í Grenada, en harðstjórinn Gairy stjórnaði atkvæðatalningu og réði úrslitum allra kosninga.
Þeir létu til skarar skríða í mars 1979, þegar Gairy var fjarverandi í Bandaríkjunum. Sveitir sem tilheyrðu New Jewel Movement tóku ríkisstofnanir, herstöðvar, lögreglustöðvar og helstu byggingar, án þess að mótstaða væri gerð. Byltingunni var lokið. En vandinn var sá, að þetta voru flestir theóretískir Marxistar, sem höfðu enga reynslu af því að sjórna heilu ríki. Bishop var skipaður forsætisráðherra, en hann hafði mikið persónulegt fylgi í landinu.
Það ríkti mikil gleði og góður andi í Grenada strax eftir byltinguna. Frelsissinnar og Marxist-Leninist fólk þyrptist til Grenada til að vinna fyrir byltinguna. Þar á meðal var fyrverandi eiginkona mín, Carol Davis frá Guyana, en hún var hagfræðingur að menntun og tók nú þatt í myndun nýs hagkerfis fyrir Grenada.
Ég var starfandi í Bandaríkjunum á þessum tíma, en hafði mörg rannsóknarverkefni í Karíbahafi og á eldfjallaeyjunum. Þar á meðal vann ég mikið við athuganir á virku neðansjávareldfjalli rétt norðan Grenada, sem heitir Kickém-Jenny. Í einni ferð minni árið 1981 ferjaði vinur minn mig í einkaflugvél sinni frá eynni Mustique til Carriacou, sem er rétt norðan við Grenada. Þar fékk ég litla trillu til að komast á eynna Isle de Caille. Eyjan er mjög ungt eldfjall og var þá ókönnuð. Eftir störf mín þar hélt bátsferðin áfram til norður strandar Grenada.
Ég átti góða daga á Grenada. Við Carol hittumst og hún lýsti fyrir mér því mikla starfi sem nýji forsætisráðherrann Maurice Bishop og hans fólk væri að gera eftir byltinguna. Hún var á kafi í hagfræðimálum hins nýja ríkis og hægri hönd Bishops á því sviði. En samt fékk ég það á tilfinningunni að hún mundi ekki ílengjast á Grenada. Sem reyndist raunin, því hún flutti til Jamaika ári síðar í lögfræðinám.
Einn daginn er ég staddur á veitingahúsi í höfuðstaðnum St. Georges að snæða máltíð. Allt í einu er kallað hárri röddu fyrir aftan mig; ´Haraldur! Are you here working for the CIA!´ Ég snéri mér við í sætinu og horfði á stóran, þrekvaxinn og skeggjaðan mann. Þarna var sjálfur Bernard Coard kominn, varaforsætisráðherra landsins og harðlínumaðurinn.
Við heilsuðumst hlýlega og drukku nokkra bjóra saman. Hann vissi alt um jaðfræðistörf mín á Grenada og á hafsbotninum umhverfis. Sennilega tókst mér að sannfæra hann um, að ég væri ekki að njósna fyrir CIA, en viðbrögð hans voru alveg eðlileg undir þessum kringumstæðum. Bernard hafði haft fregnir af ferðum mínum og vissi að ég hafði komið inn bakdyramegin til Grenada.
Mín fyrverandi eiginkona Carol rétt slapp frá Grenada, því skömmu eftir brottför hennar sprakk allt í loft upp. Það er oft sagt að byltingin éti börnin sín, og á það vel við hér. Deilur höfðu komið upp innan byltingarstjórnarinnar, einkum milli Maurice Bishop og Bernard Coard. Það er enn óljóst hvað gerðist vegna þess að miðstjórn flokksins var lokuð og nær engar upplýsingar bárust af fundum hennar. Um miðjan október 1983 gerðu Bernard Coard og fylgismenn hans tilraun til að taka öll völd úr höndum Bishops og hnepptu hann í stofufangelsi. Fylgismenn Bishops streymdu út á götur borgarinnar í tugþúsundatali 19. október, og náðu að frelsa hann úr fangavist. Í raun snéri Bernard Coard nú frá hinni Marxist-Leninist stefnu og tók upp hreinan Stalínisma.
En hersveitir sem voru undir stjórn Bernard Coard snéru vopnum sínum á mótmælendur, skutu marga til dauða og særðu fjölda manns. Hersveitin tók Bishop og sjö helstu samstarfsmenn hans fasta, færðu þá í gamalt virki í borginni, stilltu þeim upp við vegg og skutu þá til bana. Lík þeirra hafa aldrei fundist.
Ríkisstjórnir í öllum nágrannaríkjum voru agndofa yfir þessu hryðjuverki en brugðu skjótt við og undirbjuggu strax innrás í Grenada undir stjórn Bandaríkjanna, sem hófst 25. október 1983. Bernard Coard var tekinn fastur, dæmdur til dauða, en siðar var því breytt í fangelsisvist fyrir hann og sjö ódáðamenn hans. Hann sat alls 26 ár í fangelsi, en er nú laus og dvelur á Jamaika.
Bandaríkin, undir stjórn Ronalds Reagan, höfðu alltaf horn í síðu byltingarmanna á Grenada og óttuðust að kommúnista áhrif kynnu að breiðast út umhverfis Karíbahaf. En byltingin át börnin sín og Ameríkanar þurftu ekki fyrir neinu að hafa, nema að gera hreint í lokin.
Mannfræði | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðustu Inuitarnir á norðaustur Grænlandi
25.11.2022 | 22:47
Í ágúst 2014 var ég á siglingu um Scoresbysund á norðaustur Grænlandi, ásamt félaga mínum Ragnari Axelssyni, ljósmyndara. Einn daginn, hinn 31.
ágúst, vörpum við akkerum í Rypefjord, eða Rjúpufirði, sem er mjög innarlega í Scoresbysundi. Hér er vinalegt umhverfi, og dálítill gróður upp brattar hlíðar. Skammt frá sjáum við sauðnaut á beit. Við göngum í land rétt við árósa, og rekum strax augun í grjóthleðslu á árbakkanum, sem er einhverskonar mannvirki, en er nú vafið runnum og grasi. Áin er að naga í brún hleðslunnar og senn verða þessar fornu menningarleifar horfnar. Þetta eru greinilega rústir af vetrarhúsi, þar sem Inuítar dvöldu í yfir kaldasta tíma ársins, en annars dvöldu þeir í tjöldum nærri veiðistað í mynni Scoresbysunds, við ísilagða strönd Atlantshafsins. Húsrústin er hringlaga, með upphækkuðum palli úr steinhleðslu sem tekur um helming rýmisins. Á pallinum hefur fjölskyldan dvalið og sofið, sitið þétt til að halda á sér hita. Hleðsla af stórum steinhellum myndar nokkurra metra löng göng, þar sem hægt er að skríða inn í byrgið. Við forðumst að hreyfa neitt og vildum ekki róta í þessari rúst. Það munu fornleifingar væntanlega gera síðar.
Rétt vestan við húsið, um hálfan meter frá steinhleðslunni, sjáum við að bein stendur upp úr moldinni. Það er rifbein, sem hefur verið tálgað til einhvers brúks. Í grennd er töluvert af öðrum beinum, en þau eru öll brot af leggjum, sem hafa verið vel mergsogin, sennilega bein af sauðnautum. Ég kippi rifbeininu upp og þá kemur í ljós að hinn endinn er einnig tilskorinn. Mér virðist líklegast að þetta sé rif úr kajak, en Inúítar notuðu bein í stað trjáviðar til að setja saman kajakgrindur og strekktu svo skinni utanum. Sennilega var hér kajak uppi á þaki á vetrarhúsinu, en með tímanum hefur skinnið fúnað og kajakinn dottið í sundur.
Ég fór síðar með rifbeinið í aldursgreiningu í Woods Hole í Bandaríkjunum. Bein inniheldur mikið kolefni. Kolefni af gerðinni C-14 er geislavirkt og geislakol klofnar með tímanum og myndar köfnunarefni. Á því byggist aldursgreining efna sem eru rík af kolefni, eins og bein. Hlutfall geislakola í efninu gefur því aldur þess. En eins og myndin sýnir eru lykkjur á kvörðunarferlinum fyrir C-14 aldur og almanaksaldur. Ef C-14 sem mælist fellur í slíka lykkju, þá getur almanaksaldur gefið tvær mögulegar niðurstöður. Þannig er því miður með rifbeinið frá Rypefiord. Það er annað hvort frá því um 1670 e.Kr. eða það er frá um 1790 e.Kr. Eg hallast fremur að yngri tölunni, frá um 1790 e.Kr. en hef engin sterk rök til að styðja það.
Víðtækar rannsóknir sýna að Inuítar námu fyrst land á norðaustur Grænlandi um 1400 e.Kr. en búseta þeirra var fremur stutt á þessum slóðum vegna loftslagsbreytinga. Síðustu Inuítarnir sáust á þessu svæði í ágúst árið 1823, þegar breski vísindamaðurinn Douglas Clavering rakst á tólf Ínúíta á lítilli eyju sem nú ber hans nafn, skammt fyrir norðan Scoresbysund. Síðan hvarf þessi ættbálkur Ínúíta algjörlega frá norðaustur Grænlandi, sennilega vegna harðinda og kólnandi veðurfars. Ekki er ljóst hvort þeir dóu út í grennd við Scoresbysund eða fluttust suður á bóginn, í átt að Kulusuk. Mér þykir líklegt að veturseta Inúíta hafi haldist við Rypefiord til hins síðasta, eða alt að aldamótunum 1800 e.Kr. þar sem sveitin hér er hlýlegri, grösugri og veðurfar betra en utar í Scoresbysundi. Þess vegna hallast ég að C-14 1790 e.Kr. fyrir rifbeinið góða.
Grímur Jónsson Thorkelin og Bjólfskviða
18.11.2019 | 03:56
Grímur Jónsson Thorkelín og Bjólfskviða
Grímur Jónsson Thorkelin er fæddur í Bæ í Hrútafirði í október árið 1752. Hann deyr í Kaupmannahöfn í mars árið 1829 eftir merkilegan feril. Sendur ungur í nám í Skálholtsskóla árið 1765. Þar sýndi hann mikla námshfileika og var sendur til frekara náms í Kaupinhöfn árið 1770. Útskrifast áið 1773 en hélt áfram námi og rannsóknum varðandi lögfræði og norræn handrit. Árið 1777 er hann skipaður ritari Arnamagnæanske Kommisions, handritastofnun Árna Magnússonar. og síðan prófessor við Kaupinhafnarháskóla árið 1783. Þá varð hann umsjónarmaður skjalasafns Danakonungs.
Árið 1785 fer hann í tveggja ára ferð til Bretlandseyja til að leita að skjölum og fróðleik varðandi vist norrænna manna þar í landi. Næstu fimm árin var hann erlendis og lærði góða ensku og kom upp sterkum samböndum við fræðimenn.
Merkasta afrek Gríms var að uppgötva handrit með fornkvæðinu Bjólfskviðu í British Museum áeið 1785. Gamla kálfskinnshandritið er enn á sínum stað í British Museum í London, gulnað og brennt eða sviðið á köntum. Þess er fyrst getið árið 1563 en síðar eignast Sir Robert V-Cotton handritið. Í safni hans var handritið með Bjólfskviðu þekkt sem Vitellus A. xv. eða fimmtánda bindi á hillunni undir brjóstmynd Vitelliusar. Árið 1700 varð bókasafn Cottons hluti af British Museum og flutt til Westminster. En árið 1731 kviknaði eldur í safnhúsinu. Fjöldi handrita eyðilagðist en Bjólfskviða var í þéttu bandi og sviðnaði því aðeins og brenndist á köntum.
Ekki fór betur með afrit Gríms af Bjólkfskviðu í Kaupmannahöfn. Bretar gerðu árás á borgina árið 1807 með hríð af fallbyssysprengjum og Kaupmannahöfn logaði. Þá brann heimili Gríms og uppskriftir hans af Bjólfskviðu og önnur skjöl eyddust. En hann var ekki af baki dottinn og tók saman aðra uppskrift af hinu forna kvæði, sem kom loksins á prent árið 1815.
Árið 1788 var hann gerður doktor við St Andrews háskóla í Skotlandi. Næstu 40 árin bar hann titilinn skjalavörður Danakonungs og gerði merkar rannsóknir á skjalasafni og sögu Danaveldis. Þýðing Torkelins á Bjólfskviðu er mjög umdeild fyrir gæði og nákvæmni en samt mun nafni hans haldið á lofti þar sem hann uppgötvar þetta stórverk fornritanna.
En hann kom víða við. Árið 1788 kom á prent eftir hann í London rit sem heitir An essay on the slave trade. Þar rekur hann sögu þrælahalds meðal mannkyns og setur fram merkilegar tillögur til að leggja af þrælahald með öllu. Það er greinilegt að hér er á ferðinni fræðimaður sem fjallar um fjölda rannsóknaverkefna í sínu fagi.
Síðari fræðimenn héldu áfram að rannsaka Bjólfskviðu og einn þeirra var Prófessor J.R.R. Tolkien í Oxfordháskóla. Kvæðið Bjólfskviða og Íslendingasögur höfðu mjög sterk áhrif á Tolkien, sem ritaði heila röð af skáldsögum í anda hinna fornu sagna, þar á meðal The Hobbit og The Lord of the Rings.
Mannfræði | Breytt s.d. kl. 03:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Harmleikurinn í Norður Kóreu
26.9.2017 | 08:53
Þegar við fylgjumst með fáránlegum samskiftum Trumps og Kim Jong-il, þá gleymum við því oft að það er venjulegt fólk sem býr í Norður Kóreu og þessi almenningur ber miklar þjáningar. Samanburðurinn á milli þjóðanna í dag gefur merkilega innsýn í áhrif tveggja mismunandi stjórnkerfa. Landinu var skipt í tvennt árið 1948 og síðan hafa tvær þjóðir þróast hver á sinn hátt, undir einræðisstjórn annars vegar og lýðveldi hins vegar. Áhrifin á efnahag hafa verið sláandi. Línuritið sýnir verga þjóðarframleiðslu í löndunum tveimur, í US$. Þróunin var svipuð allt til 1973 en síðan hefur hagur í Norður Kóreu staðið í stað eða versnað. Þeir í suðri hafa á mean byggt upp þjóð, sem er einn af stærstu útflytjendum á iðnaðar- og tæknivörum á jörðu. Á meðan Suður Kórea flytur út Samsung and Hyundai, þá eru kol nær eina útflutningsvara Norður Kóreu. En það er annað sem hefur mikil áhrif á afkomu í Norður Kóreu: hervæðing. Þótt Norður Kórea sé númer 52 í heiminum hvað snertir fólksfjölda, þá eru þeir númer fjögur í heiminum hvað varðar stærð hersins. Um fjórðungur af allri vergri þjóðarframleiðslu fer í herbúnað, og nær hver einasti maður hefur hlotið einhverja herþjálfun.
Er gullgrafaraæðinu að ljúka?
19.9.2017 | 10:38
Það hófst árið 1966, er íslenska ríkið samdi við svissneska fyrirtækið Alusuisse um lýgilega ódýrt orkuverð til álbræðsluvers í Straumsvík. Þar með var alheim gert kunnugt að á Íslandi væri hægt að semja við ríkisstjórn um hræódýra orku og að það væri ríkisstjórn sem hefði engar áhyggjur af mengun og náttúruspjöllum, allt í þágu stóriðjustefnu. Í kjölfarið fylgdu álver Fjarðaál í Reyðarfirði og Norðurál á Grundartanga, en í heild taka álverin um 75% af allri orkuframleiðslu á Íslandi. Græðgin í ódýra orku var svo mikil, að orkuframleiðsla Íslands tvöfaldaðist á aðeins fimm árum, frá 2002 til 2007. En á meðan fóru öll viðskiptin við álframleiðendur fram á leyndu orkuverði, sem ríkistjórnin ein veit um.
Nú berast okkur fregnir að áform um enn eitt stóriðjuver séu að renna út í sandinn: það er fyrirhuguð sólarkísilverksmiðja Silicor Materials á Grundartanga. Á sama tíma er búið að loka kísilveri United Silicon í Helguvík vegna stórfelldar mengunar. Íslendingar eru loksins að átta sig á að hemjulaus stóriðja er ekki endilega rétta lausnin til velferðar. Það eru ýmsar aðrar og ómengandi leiðir til efnahagslegrar þróunar, eins og ferðaiðnaðurinn hefur bent sterkelga á. Vonandi erum við nú að hætta þessu gullgrafaraæði sem hófst í Straumsvík, enda tími til kominn.
Maðurinn sem mældi aldur Íslands
15.9.2017 | 14:22
Vinur minn Stephen Moorbath er látinn. Ég kynntist Stephen þegar ég var við doktorsnám í Bretlandi og það leiddi til þess að við gerðum út leiðangur til Íslands til að ákvarða hvað íslenska blágrýtismyndunin væri gömul. Stephen rak merkilega rannsóknastofu við Oxfordháskóla, þar sem aðstæður voru frábærar til að mæla aldur bergs með því að ákvarða magn geislavirkra efna í berginu. Hann hafði hlotið heimsfrægð vegna aldursgreininga hans á elsta bergi Grænlands, sem er nærri fjórir miljarðar ára að aldri, og var langi vel talið elsta berg á jörðu (nú finnst enn eldra berg í Kanada).
Þegar við Stephen byrjuðum verkefnið á Íslandi, þá var augljóst að elstu hraunlögin í blágrýtisstaflanum væri að hitta fyrir austast og vestast á landinu, ef dæma má út frá legu og halla jarðlaganna. Við stefndum því á Vestfirði sumarið 1967 og tókum mörg sýnishorn af blágrýti einkum á Breiðdalsheiði, en þar reyndist bergið mjög ferskt og ekki ummyndað af jarðhita. Þá var næst stefnt á Austfirðina og þar fylgdum við jarðlögunum þar til við vorum komnir neðst í staflann við Gerpi á Austfjörðum. Auk þess tókum við sýni úr klettum bak við naglaverksmiðjuna í Borgarnesi, en jarðlagahallinn benti til að þar ætti að vera tiltölulega fornt berg (Borganes andhverfan). Ári síðar birtust niðurstöður okkar í vísindaritinu Earth and Planetary Science Letters. Það kom í ljós að elsta bergið á Vestfjörðum ern nokkurn veginn jafn gamalt og á Austfjörðum, eða um 16 milljón ára, og að beglögin yngjast inn til landsins í báðar áttir. Andhverfan í Borgarnesi reyndist vera um 12.5 milljón ára. Þetta voru spennandi tímar, því grundvöllur þekkingar okkar á uppbyggingu Íslands var að fæast, einkum með tilliti til Mið-Atlantshafshryggjarins.
Stephen Moorbath var tvímælalaust í fremstu röð jarðvísindamanna í Bretlandi. Hann starfaði í mörg ár við rannsóknir á geislavirkum efnum í jörðu og þróaði tækni til að kanna og mæla þau. En hann var fæddur í gyðingafjölskyldu í Þýskalandi árið 1929. Hann slapp naumlega frá Þýskalandi nasista árið 1939, en móðir hans og systir voru brenndar í helförinni miklu í herbúðum nasista árið 1942. Hann fékk vinnu sem aðstoðarmaður í lífefnafræðideild Oxfordháskóla sem unglingur, en einstakir hæfileikar hans komu fljótt í ljós og kjarnorkustofnunin Harwell sendi hann beint á skólabekk í Oxford til framhaldsnáms árið 1948. Ferill hans sem vísindamanns var glæsilegur, en það voru margar aðrar merkilegar hliðar á þessum gáfaða sérvitring: tónlist, listir, bókmenntir og allt hitt var á hans valdi, en kímnigáfan meiri og betri en hjá nokkrum öðrum sem ég hef kynnst.
Sprengja plús eldflaug = mikil hætta
3.9.2017 | 19:22
Á laugardag sprengdu yfirvöld í Norður Kóreu fyrstu vetnissprengju sína í neðanjarðarbyrgi í Punggye-ri tilraunastöðinni í norðaustur Kóreu. Þetta er sjötta kjarnorkusprengjutilraun Kóreumanna og sú langstærsta. Bylgjur sem bárust í gegnum jarðskorpuna frá sprengingunni komu fram sem skjálfti af stærð 6.3, sem er jafnt og stærstu skjálftar á Íslandi. Átta mínutum seinna kom annar minni skjálfti, sem var um 4 stig, og myndaðist sennilega þegar hellirinn hrundi, þar sem sprengjan var sett af stað. Talið er að orkan í þessari sprengingu hafi verið 100 til 150 kílótonn, en til samanaburðar voru sprengingarnar í Hiroshima og Nakasagi í Japan um 15 kílótonn. Síðasta sprengja Norður Kóreu árið 2016 var til samanburðar aðeins 10 til 30 kílótonn, svo þeim Kim forseta og félögum fer hratt fram í vopnagerð á þessu tíu árum, síðan Norður Kórea hóf starfssemi að væðast kjarnavopnum.
Stöðvar sem fylgjast með kjarnorkusprengingum um alla heim skrá skjálftabylgjur og einnig hljóðbylgjur, en átta stöðvar skrá auk þess geislavirk efni sem berast út í lofthjúp jarðar við sprengingar. Jarðskjálftafræðingar geta auðveldlega aðgreint skjálfta sem stafa af náttúrulegum jarðskorpuhreygingum, og skjálfta frá sprengingum. Það eru tvenskonar bylgjur, sem myndast: P bylgjur og S bylgjur. Í venjulegum jarðskjálftum er P bylgjan lítil en S bylgjan stór. Sprengingar mynda hins vegar stóra P bylgju og minni S bylgju. Stórar kjarnorkusprengingar hafa miklu hærra P/S hlutfall en jarðskjálftar.
Norður Kórea er því búin að sýna fram á að þeir hafa sprengjuna klára og einnig að þeir hafa langdrægar eldflaugar sem geta borið hana alla leið til stórborga í Norður Ameríku. Ástandið er vægast sagt eldfimt!
Mannfræði | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Kraftverkið í Los Alamos
1.9.2017 | 20:36
Það er ekki svo langt síðan að þessi stóratburður gerðist. Ég var að verða fjögurra ára. Það var í apríl árið 1943 að hópur vísindamanna kom saman í Los Alamos í Nýju Mexíkó. Markmið þeirra var einfalt: að búa til fyrstu kjarnorkusprengjuna. Flestir höfðu þeir unnið við rannsóknir á kjarnaklofningi, en sú uppgötvun var gerð aðeins fjórum árum áður.
Aðeins tuttugu og átta mánuðum síðar kom sönnun um þeirra grúsk í Los Alamos: kjarnorksprengjur sem varpað var á borgirnar Hiroshima (6. áugust 1945) og Nagasaki í Japan. Þar með lauk seinni heimsstyrjöldinni og kalda stríðið milli stórveldanna hófst. Myndin sýnir sprengjurnar tvær, Little Boy (með 60 kg af geislavirku úran) og Fat Man.
Einn af þeim sem störfuðu í Los Alamos var hinn 34 ára gamli Robert Serber, sem ritaði bókina The Los Alamos Primer. Í frægu sendibréfi til Franklin D. Roosevelt forseta Bandaríkjanna í október 1939, benti eðlisfræðingurinn Albert Einstein á hættuna sem stafaði af kjarnorkuvopnum, en þá var þegar ljóst að kjarnorkan væri gífurleg orkulind, ef hægt væri að beizla hana. Forsetinn setti málið í nefnd. Það vildi svo vel til, að nefndarformaðurinn yfir báðum þessum nefndum var Vannevar Bush, prófessor í rafverkfræði við MIT háskóla. Hjólin byrjuðu að snúast hraðar í vísindaheiminum og árás Japana á Pearl Harbor í desember, 1941 setti enn meiri kraft í leitina af kjarnorkuvopni. Hvað var okran mikil í þessu sjaldgæfa efni? Í mars árið 1940 komust Otto Frisch og Rudolf Peierls að þeirri niðurstöðu að það þyrfti amk. hálft kíló af málminum uranium-235 til að búa til sprengju, en seinni rannsóknir sýndu að þú þarft reyndar amk. 52 kíló til að búa til sprengju. En orkan er óskapleg. Orkan í einu kílógrammi af hreinu 235Uranium er jafnt og 20 kílotonn af TNT ( TNT er venjulegt sprengiefni, eins og dýnamít). Tvær risastórar verksmiðjur voru strax reistar, önnur á Oak Ridge, Tennessee, en hin í Hanford, Washington, en hér unnu hundruðir þúsunda starfsmanna. Kostnaður var um $2 milljarður í 1945 gengi. Það er erfitt að ímynda sér hvað starfsmenn Los Alamos voru fljótir til verksins: aðeins tuttugu og átta mánuði frá byrjun til sprengju. Afleiðingarnar af sprengigunum í Japan voru hræðilegar, en þetta batt þó endi á heimsstyrjöldina.
Eru afkomendur Thule fólksins í Ammassalik?
24.7.2017 | 05:46
Í síðasta bloggi fjallaði ég um hvernig heill þjóðflokkur af Thule fólki á norðaustur Grænlandi hvaf árið 1823. Breski skipstjórinn Clovering hitti tólf manna hóp þeirra á eyju þar sem skilyrði til veiða voru best. Næsta dag voru þeir allir horfnir. Héraðið var mannlaust á eftir, í nákvæmlega eitt hundrað ár, þar til Danir fluttu 85 manna hóp af Inuitum, nauðuga -- viljuga, 70 frá Ammasalik og 15 frá vestur Grænlandi, til Scoresbysunds og settu á laggirnar nýja þorpið Ittoqqortomiit.
Hvert fóru þeir, eða dó stofninn hreinlega út vegna sjúkdóma, við smit frá evrópskum hvalföngurum? Fundur á nokkraum dauðahúsum (rústir þar sem mannaleifar finnast innan húss, ógrafnar) bendir til mikilla sjúkdóma eða sults.
Suður mörk þessa svæðis Thule fólksins á norðaustur Grænlandi eru eins og jökulveggurinn í Game of Thrones: nær algjörlega ófær. Þetta er fjallgarður úr blágrýti eða gömlum basalt hraunlögum. Hann ber nafnið Geikie Plateau, og er þar hvergi lendingu að fá. Austur oddi á Geikie Plateau fjallgarðinum er Kap Brewster. Það beygir ströndin skarpt til suðurs, en samfellt hamrabelti kallað Blosseville ströndin, tekur við í mörg hundruð kílómetra til suðurs. Hvergi er lendingu aða skjól að fá á þeirri strönd. Thule fólk fór þá yfirleitt lítið eða ekkert sunnar en Scoresbysund. Fólksflutningar fóru fram á sjónum eða á hafís, ekki yfir fjöll og firnindi.
Það eru samt heimildir sem sýna að Thulefólk fór búferlum frá Scoresbysundi og alla leið til Ammassalik (Tasiilaq), 850 kílómetra langa leið, og á afkomendur þar í dag. Það var árið 1884 að kaptainn Gustav Holm kom til Ammassalik, fyrstur evrópumanna, en leiðangur hans fór á konubátum (umiaq) frá vestur Grænlandi og fyrir suður odda Grænlands og réru þeir síðan up með norðaustur ströndinni þar til þeir koma til Ammassalik. Þar uppgötvar Holm byggð Inuita sem höfðu verið algjörlega einangraðir frá Evrópumönnum um aldur og ævi. Þetta var og hafði lengi verið eina byggðin á allri austurströnd Grænlands þar til Ittooqortomit nýlendan var stofnuð í Scoresbysundi árið 1924. Það kom strax í ljós að íbúar Ammassalik voru sérstæðir. Þeir höfðu til dæmis ólíkan framburð Grænlenskunnar.
Trúboðar setja upp búðir í byggðinni árið 1894 og byrjuðu að kristna fólkið. Einnig kemur danska stjórnin upp verslunardtöð það ár. Það var árið 1905 sem danski mannfræðingurinn William Tahlbitzer kemur til Ammassalik og dvelur yfir eitt ár í þorpinu. Þá voru 470 íbúar á Ammassalik svæðinu og nær allir hétu þeir heiðnum nöfnum. Fólkið var enn á steinöldinni hvað snertir menningu og tækni. Verslunarmiðstöð danska ríksins og kirkjan urðu smátt og smátt miðpúnktar þjóðlífsins fyrir íbúana.
Tahlbitzer sýndi fram á að í Ammassaliq ríkir mállýska sem er mjög ólík þeirri sem ríkir á vestur strönd Grænlands. Tahlbitzer gerði mjög merkar athuganir á íbúum og skráði hina ýmsu þætti í menningu þeirra. En hann tók líka myndir. Hér með fylgir ein af myndum Tahlblitzers, sem er tekin af fjölskyldu í sumarbúðum á Kap Dan, á suður enda Kulusuk eyjar. Það er angakokinn eða galdramaðurinn Ajukutoq sem stendur hér fyrir miðju, ber að ofan, með konu sinni Söru til vinstri og hinni konu sinni Helenu og fimm börnum þeirra. Hárgreiðsla kvennana, með stóran topphnút og strengi af hvítum og lituðum glerperlum, er sérstök og einkennandi fyrir þetta svæði. Hnúturinn er mikið tískufyrirbæri, sem hækkar konurnar og gerir þær tignarlegri, eins og íslenski skautbúningurinn gerði. Myndin er algjörlega klassísk sem listræn ljósmynd, en hún gefur einnig innsýn í horfna menningu, sem heyrði steinöldinni til. Galdrakarlinn Mitsuarnianga sagði Tahlbitzer sögur af ferðum forfeðra sinna frá norðaustur Grænlandi og suður til Ammassalik, en langafi hans tók þátt í þeirri ferð, þegar hópar Inuita fóru frá Scoresbysund svæðinu og all leið suður til Ammassalik í lok átjandu aldar eða í byrjun nítjándu aldar. Sennilega sigldu þeir þessa leið á umiaq eða konubátum. Tunu er Grænlenskt orð sem þýðir hin hliðin, og vísar það til austur Grænlands, en íbúar austurstrandarinnar eru oft kallaðir Tunumiuts. Ég þakka Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni fyrir aðstoð með myndefni.
Þegar síðasti maðurinn hvarf frá Scoresbysundi
20.7.2017 | 21:47
Hinn 18. ágúst árið 1823 hittust Evrópubúar og Thule fólk eða Inuitar í síðasta sinn á Norðaustur Grænlandi. Þessi fundur varð þegar skipstjórinn á HMS Griper, Charles Douglas Clavering að nafni, hitti tólf Inuita í sumarbúðum þeirra á suður hluta eyjarinnar, sem nú ber nafn skipstjórans: Claveringö. Clavering var fyrsti Evrópubúinn sem sigldi í gegnum hafísinn og komst í land á norðaustur Grænlandi. Eftir þennan fund hafa margir Evrópumenn farið um þessar slóðir, en enginn hefur hitt fyrir neina Inuita eða Thule fólk hér síðan. Sá kynþáttur er því talinn útdauður á norðaustur Grænlandi. Hreindýrin hurfu frá norðaustur Grænlandi um aldamótin 1900.
Árið 1925 fluttu Danir hóp af Grænlendingum , 85 talsins, til Scoresbysunds, til að stofna nýlendu þar. Þetta var gert í þeim tilgangi að helga svæðið danska ríkinu, en Norðmenn gerðu einnig tilkall til norðaustur Grænlands á þessum tíma. Þessi nýlenda er nú þorpið Ittoqqortoormiit við Scoresbysund, með um 450 íbúa.
En hvaðan kom fólkið, sem var hér fyrir árið 1823? Og hvað varð um það? Nú er vitað að Thule fólkið kom upprunalega norðurleiðina, frá Thule á norðvestur Grænlandi, til norðaustur Grænlands. Sennilega hefur fólkið farið þessa ferð að mestu í umiaq bátum. Í byrjun fimmtándu aldar voru miklir mannflutningar á Grænlandi. Þá birtist Thule fólkið fyrst á norðaustur Grænlandi, umhverfis Scoresbysund. Sennilega var þetta landnám tengt loftslags- og umhverfisbreytingum. Rannsóknir á borkjörnum úr vatnaseti benda til þess að fyrir komu Thule fóksins til austur Grænlands hafi ríkt hlýrra loftslag og meiri snjór. En frá 13 öld og fram á nítjándu öldina hafi veðurfar verið kaldara, þurrara, en fremur sveiflukennt. Þegar landnámið gerist, á fimmtándu öldinni, var mikill hafís ríkjandi en minni snjókoma, einkum á því tímabili sem við nefnum Litlu Ísöldina frá fimmtándu öld og fram á nítjándu öldina. Á þessum tíma gerði samfelld hafísbreiða og tiltölulega lítil snjókoma Thule fólkinu kleift að ferðast um og nýta sér stórt svæði austur og norðaustur Grænlands með þeirri einstöku tækni sem þeir höfðu þróað: léttum sleðum, snjóhúsum, kayak og sela- og hvalaskutlum. Ef til vill var tækni og kunnátta þeirra við að skutla sel niður um ís mikilvægust, en til þess þurfti að þróa sérstaka skutla og annan sérútbúnað. Við gerum okkur yfir leitt ekki neina grein fyrir því, að fólkið sem forfeður okkar kölluðu skrælingja, hafði þróað mikla tækni sem gerði þeim kleift að lifa og komast sæmilega af á heimskautssvæðinu, miklu betur en forfeður okkar Eiríkur rauði og Grænlandsfararnir frá Breiðafirði, sem réðu ekkert við Litlu Ísöldina og dóu út í Eystribyggð og Vestribyggð á miðöldum.
Fornleifarannsoknir sýna að Thule fólkið hafðist við hluta ársins á annesjum norðaustur Grænlands, þar sem stutt var á miðinn til að taka sel undir ísnum eða í grend við polynyas eða stórar vakir, sem haldast opnar árið um kring og gefa kost á veiðum hvala. En greining á beinum Thule fólksins og leifum í byggðum þeirra sýna að hreindýr voru líka mikilvægur þáttur í matarræði þeirra og jafnvel mikilvægari en selur. Hreindýr þrífast í heimskautaumhvefi þar sem úrkoma (snjókoma) er í lágmarki. Bestu skilyrði fyrir hreindýr á norðaustur Grænlandi ríktu frá um 1600 til um 1850. Fornleifarannsóknir sýna að byggð Thule fólksins var eftir allri norðaustur ströndinni, eins og kortið sýnir. Það kemur í ljós út frá rannsóknum Mikkel Sørensen og Hans Christian Gulløv (2012) að fjöldi torfkofa er meðfram ströndinni og einnig í innfjörðum. Á þessu svæði lifði Thule fólkið í um 450 ár, um það bil átján kynslóðir. Í nokkrum hluta af torfkofunum finnast mannabein, eins og fjölskyldan hafi dáið inni, annað hvort af sulti eða sjukdómum. Slík hús eru nefnd dauðahús. Ef til vill er örnefnið Dödemandsbugten á Claveringö af þessum uppruna.
Upplýsingar um norðaustur Grænland koma fyrst frá hvalföngurum sem sigldu frá Evrópu. Breskir hvalfangarar komu fyrst í grennd við norðaustur Grænland árið 1608, á leið sinni til hvalveiða umhverfis Svalbarða. Árið 1612 voru Hollendingar á þessum slóðum og svo skömmu síðar Frakkar, Spánverjar og Danir á hvalveiðum. Hvalfangararnir sáu til lands á norðaustur Grænlandi, en ekki er vitað um lendingar þar. Árið 1822 gerði enski hvalfangarinn William Scoresby furðu nákvæmt kort af þessari strönd. En það er mjög líklegt að hvalfangarar hafi farið í land í norðaustur Grænlandi og haft samneyti við Thule fólkið. Sönnun þess eru einstaka munir úr málmum og gleri og brenndum leir, sem finnast við uppgröft í byggðum Thule fólksins. Fyrst Evrópumenn skiftust á gjöfum og gripum við innfædda, þá hafa þeir einnig skilið eftir smitnæma sjúkdóma. Sennilega hefur orðið mikil fólksfækkun meðal Thule fólksins af þeim sökum, en sú saga er algjörlega óþekkt. Skýrir það að hluta til þessa miklu fólksfækkun og hvarf Thule fólksins á svæðinu?
Árið 2014 sigldi ég um Scorebysund og kom í mynnið á firði, sem ber nafnið Rypefjörd eða Rjúpufjörður. Mér leist vel á svæðið og velti fyrir mér hvort Thule fólk hefði ef til vill haft aðsetur hér. Best leist mér á grasbala og móa við litla á nálægt mynni fjarðarins (sjá kort). Við fórum í land og, viti menn, þarna gengum við beint á rúst við árbakkann. Hér voru leifar af torfkofa, með hlaðna stein- og torf veggi, svipað því og þekktist á Íslandi fram á tuttugustu öldina. Myndin sýnir skissu af slíkum Thule kofa. Þar er pallur innst inni, sennilega til hvílu, lægra svæði sem hefur verið notað við eldamennsku og svo hlaðin, þröng göng, um tveir metrar á lengd, sem skriðið var út um. Göngin eru hlaðin með steinhellum, sem eru reistar á rönd.
Utan í vegg sá ég standa út úr jarðveginum eitt fallegt bein, sem hafði greinilega verið tálgað til og notað í smíði, sennilega sem rif í kajak. Smiðurinn hafði borað göt í beinið til að binda það við grind kajaksins. Ég stóðst ekki mátið og tók beinið til aldursgreiningar með geislakola- eða C14 aðferðinni. Aldursgreining á þesu rifbeini gefur aldur um 1660 AD eða um 1780 AD. Það er um tvo möguleika að ræða hvað snertir aldur, vegna þess að kúrvan fyrir C14 tekur lykkju á þessu tímabili, eins og myndin sýnir. Sennilega er yngri aldurinn líklegri, sem bendir til að hér hafi búið Thule fólk um fjörutíu árum áður en kynstofninn þurkaðist út.
Mannfræði | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)