Rostungstennur voru Fílabein Norðursins

 

RostungurÍ fyrrasumar fór eg í gönguferð út á Hítarnes á Mýrum og gekk alla leið suður að Akraósi. Þetta er falleg og skemmtileg gönguleið.  En erindi mitt var mjög markvisst: ég var að leita að rostungstönnum.  Ekki fann ég nú annað merkilegt í fjörunni en myndarlegt hvalbein, en ástæðan fyrir ferð minni á þessar slóðir var lýsing á skipsbroti í Kongungsannál frá árinu 1266.  Þar segir svo: 1266 IV. Konungsannáll: Þá braut Grænlandsfar á Hítarnesi, xli menn létust.”  Ég geri ráð fyrir að þetta séu 41 menn, sem fórust.  Aðrar heimildir telja að hér hafi verið biskupsskip á ferð, hlaðið dýrmætum farmi frá Grænlandi og að lengi á eftir hafi fundist rostungstennur í fjörunni í grennd við Hítarnes.   

Rostungstennur frá Grænlandi urðu snemma dýr og eftirsótt verslunarvara, en þær voru taldar gersemar á miðöldum. Þá er sýna átti erlendum þjóðhöfðingjum og höfðingjum mikla sæmd voru þeim færðar rostungstennur að gjöf. Bæði Hákon konungur gamli og Magnús lagabætir sendu til dæmis Englakonungi slíkar gjafir.  Hrafn Sveinbjarnarson færði hinum heilaga Tómasi Becket  í Kantaraborg á Englandi rostungstönn að gjöf á ferð sinni til suðurlanda í byrjun þrettándu aldar.   Rostungstennur eru einnig nefndar sem útflutningsvörur í réttarbót Hákonar konungs frá árinu 1316.  Verðið var talið um hálf mörk silfurs hver rostungstönn.  Mörk silfurs er talin um 214 grömm, en til samanburðar má geta þess að árslaun vinnumanns voru 1 mörk silfurs. Auk rostungstanna voru auðvitað ýmsar aðrar dýmætar vörur frá Grænlandi, sem verslað var með á miðöldum. Þar á meðal feldir hvítabjarndýra, fálkar og tennur náhvela, sem sumir Evrópumenn töldu vera horn einhyrninga. 

Á Grænlandi munu norrænir menn hafa fangað rostung fyrst og fremst í Norðursetu, sem er svæðið umhverfis og fyrir norðan Diskóeyju.  Þessi frægi veiðistaður er allangt fyrir norðan Vestribyggð, en þar fengu þeir rostung eða romshval, nærri ísröndinni.  Hér munu norrænir menn hafa stundað veiðar í grennd við inúíta eða eskimóa, sem veiddu hér sel á ísröndinni. 

Rostungar koma fyrir við strendur Íslands, en rostungalátur hafa ekki verið mikilvæg hér við land. Síðast kom rostungur inn í Rifshöfn á Snæfellsnesi árið 1983.  Þá finnast tennur öðru hvoru hér, einkum á ströndum Snæfellsness.  Þrjár rostungstennur fundust við fornminjauppgröft í skálanum í Aðalstræti 14-16  í Reykjavík og sennilega voru þær verslunarvara. Brimill

Romshvalur eða rostungur var greinilega mjög mikilvægur fyrir norræna menn á Grænlandi og sennilega hafa sumir þeirra safnað auði vegna verslunar með þetta fílabein norðursins. Þar voru veglegar og vandaðar steinkirkjur reistar, eins og til dæmis dómkirkjan að Görðum og Hvalseyjarkirkja.  Engar slíkar kirkjur voru reistar á Íslandi á miðöldum. Tíundin fyrir kristna menn á Grænlandi var greidd í Páfagarð í rostungstönnum, selskinnum og húðum. Árið 1327 veitir til dæmis páfalegur legáti móttöku 260 rostungstönnum úr Garðabiskupsdæmi.

Á fyrri hluta miðalda kom rostungstönnin í stað hins eiginlega fílabeins.  Fílabein hefur verið í miklum metum meðal hástéttarinnar alla tíð frá Egyptum til forna og sennilega enn lengra aftur í tímann. En efnið sem við köllum ivoire, ivory eða fílabein er tannvara, sem kom ekki eingöngu frá fílum. Tennur náhvela, rostunga, flóðhesta og jafnvel svína voru einnig seldar sem fílabein. Einnig tennur háhyrninga og búrhvela. Besta fílabeinið er talið koma úr flóðhestatönnum. 

Í Kína er saga fílabeinsins enn lengri, eða aftur til um 5000 f.Kr.  og einnig á Indlandi.  Til forna voru það Fönikíumenn sem fluttu fílabein frá Indlandi til Evrópu. Eftir fall Rómarveldis lagðist þessi verslun af og í nokkur hundruð ár var erfitt að fá fílabein í Evrópu.  Á þessu tímabili kom rostungstönnin þá í stað fílabeins og naut strax mikilla vinsælda allar miðaldirnar.  Þetta kunna að hafa verið uppgripatímar fyrir norræna menn á Grænlandi í nokkur hundruð ár. Þeir gátu komist yfir mjög dýrmæta vöru, sem þeir versluðu með suður í Evrópu.

Það var ekki fyrr en á fimmtándu öld að Feneyjakaupmenn hófu viðskifti við þjóðflokka í austur Afríku og í löndum sunnan Sahara. Þá dró úr eftirspurn eftir rostungstönnum, enda samband við Grænland orðið mjög slitrótt vegna loftslagsbreytinga á norðurslóðum: litla ísöldin var gengin í garð. Á sautjándu öldinni hófst svo verslun Evrópumanna í vestur Afríku, á Fílabeinsströndinni.  Á nítjándu öldinni var fílabein orðið mikilvægt hráefni fyrir vissan iðnað.  Aðal eftirspurnin fyrir fílabein var sem hráefni til að framleiða billiardkúlur, hvíta píanólykla, hnappa, hnífsköft og hárkamba og greiður.  Þetta var fyrir daga plastíksins og eftirspurnin eftir fílabein var nú gífurleg. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Nú telur danskur fornleifafræðingur, Jette Arneborg, að efnahagsleg lægð hafi orðið á Grænlandi vegna þess að framboð á ekta fílabeini varð meira í Norður-Evrópu. Grænlendingar hinir fornu, sem Danir kalla ávallt Nordboere, fóru sem sagt á hausinn með þennan mikilvæga útflutning sinn og það var skv. Arneborg ástæðan til þess að byggð lagðist af á Grænlandi.

Ég er nú ekki að kaupa þessa kenningu hráa, eins og ungmennin segja í dag og mun einhvern tíman á næstunni skrifa gagnrýnið um þetta nýja upphlaup í Grænlandsfræðum.

Steinkirkjurnar á Grænlandi voru langt frá því að vera "veglegar" og meiru var í raun kostað til bygginar íslensku kirknanna. Til Grænlands var hættulegt og jafnvel ómögulegt að flytja byggingar timbur í eins miklum mæli og hægt var til Íslands og reki var ekki eins hagstæður á Grænlandi og á Íslandi. Mýrlendi og undirlendi var lítið á Grænlandi og því var torf notað í minna mæli og fyrst og fremst í bæjarhús. Það er nú skýringin á steinkirkjum Grænlendinga. Umhverfið réð efninu, tæknin var hins vegar að mestu arfleifð. Það heitir adaption, þar sem þú starfaðir lengstum.

FORNLEIFUR, 2.2.2013 kl. 06:12

2 Smámynd: FORNLEIFUR

 Wallie Dürer

Albrecht Dürer teiknaði þennan rostungshaus í Niðurlandaför sinni árið 1521. Hann gerði sér sérstaka ferð til Zeelands, því þar lá hræ af dýri sem fangað hafði verið í Hollandshafi (Norðursjó). Í þessari sömu ferð teiknaði hann einnig furðulegar kerlingar frá Íslandi, sjá hér .  Það var því ekki aðeins við Rosmhvalsnes eða í Norðursetu að menn gátu fundið fyrir þetta merka dýr.

"Das dosig thyr von dem Ich do das haubt contrefett hab, ist gefange worden in die niderländischen See und mas XII ellen lang brabendisch mit für füssen."

FORNLEIFUR, 2.2.2013 kl. 06:29

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Wallie Dürer

Albrecht Dürer teiknaði þennan rostungshaus í Niðurlandaför sinni árið 1521. Hann gerði sér sérstaka ferð til Zeelands, því þar lá hræ af dýri sem fangað hafði verið í Hollandshafi (Norðursjó). Í þessari sömu ferð teiknaði hann einnig furðulegar kerlingar frá Íslandi, sjá hér .  Það var því ekki aðeins við Rosmhvalsnes eða í Norðursetu að menn gátu fundið fyrir þetta merka dýr.

"Das dosig thyr von dem Ich do das haubt contrefett hab, ist gefange worden in die niderländischen See und mas XII ellen lang brabendisch mit für füssen."

FORNLEIFUR, 2.2.2013 kl. 06:41

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Þetta stóð eitthvað á sér, þú eyðir bara einni af athugasemdunum um rostung Dürers.

FORNLEIFUR, 2.2.2013 kl. 06:43

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Mig langar einnig að benda þér og öðrum áhugamönnum um rosmhval á lítið hefti eftir fyrrverandi kennara minn í víkingafræðum í Árósum, Else Roesdahl, sem ber heitið: Hvalrostand, elfenben og norboerne i Grønland, Syddansk Universitetsforlag 1995. 

FORNLEIFUR, 2.2.2013 kl. 06:55

6 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Haraldur

Mig grunar að rostungurinn leiki mun stærra hlutverk en þú útlistar hér. Vil benda þér á ritið 871+/-3 sem hægt er að kaupa í safninu undir Aðalstræti. Þar er lögð fram sú kenning annars vegar að rostungur hafi verið útbreiddur um allt norðanvert Atlantshaf, norður með ströndum Noregs, við Ísland Svalbarða og Grænland og hins vegar að sókn Dönskumælandi manna í rostunga haf í raun ráðið því að þeir sóttu norður eftir ströndum Noregs, þaðan yfir til Íslands og loks til Grænlands.

Sóknin í rostungin eyddi honum á hverju svæðinu eftir öðru, líkt og gerst hefur við veiðar á öðrum hvalategundum. Minningar um rostunga hér við land lifa þó enn, t.d. í gamla nafninu Rosmhvalanes (yst á Reykjanesinu ef mér skilst rétt) og önnur svipuð.

Hugsanlega hafa það ekki bara verið tennurnar sem voru eftirsóttar, í einum fornmannaþætti segir að kappi einn hafi gefið Danakonungi að gjöf hvítabjarnarskinn, tennur og rengi. Hið síðastnefnda er víst reipi unnin úr skinni rostungsins. (Ég er ekki með neinar heimildir hér við hendina, sit í hótelherbergi í Istanbul). Nú er ég ekki sérfræðingur í einu eða neinu er þessu viðkemur en mig grunar að sterk og létt reipi, t.d. til notkunar í skipsreiða, hafi verið erfitt að framleiða úr þeim efnum sem aðgengileg voru á miðöldum. En af hveru rostungsskinn hafi verið talin betri efniviður veit ég ekki.

Rostungstennur voru seldar til Býsans, ég er eimitt að lesa mjög skemmtilega bók eftir Judith Herrin, "Byzantium", og þar nefnir hún að rostungstennur hafi komið í stað fílabeins þegar hið síðarnefnda varð of dýrt.

Fílabein var algeng verslunarvara við Miðjarðarhafið, hvenær og hvers vegna verður það þá "of dýrt"? Það er ljóst að mikill efnahagsuppgangur var á 8. og 9. öld (væntanlega samhliða fólksfjölgun, plágurnar miklu sem hófust á 6. öld voru að mestu úr sögunni um miðja þá 8., hlýskeið miðalda er að hefjast á sama tíma og loks eiga sér stað byltingar í landbúnaði um allt áhrifasvæðið, einkum plógurinn og þriggja akra kerfið).

Landvinningar Araba hafa misst talsverðan mátt um miðja 8. öld og þrátt fyrir illvigar innri deilur jókst efnahagslegur styrkur þeirra gríðarlega. Þeir hafa væntanlega haft fyrsta forgang að fílabeini (bjuggu nær hráefninu) og valdið mikilli aukningu í eftirspurn almennt.

Býsans er einnig í sókn, eftir að hafa barið af sér Búlgara í byrun 9. aldar hefst mikill efnahagslegur uppgangur samhliða landvinningum (einkum á Balkan gegn Slövum). Eftirspurn eftir hvers kyns varningi hefur stóraukist á 8. og einkum 9. öld.

Kenningin er sem sagt að Noregur, Ísland og Grænland byggist vegna sóknar í rostungstennur til að mæta eftirspurn í Býsans. Ágætis kenning að mínu mati þótt erfitt sé að "sanna" neitt í þessum efnum.

Brynjólfur Þorvarðsson, 2.2.2013 kl. 08:40

7 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Takk fyrir stórkostlega rostungsmynd eftir meistarann Durer.  Varðandi rostungsreipi munu þau hafa verið kölluð svaðreipi. Eftir að maður hefur tekið á rostungshúð, þá skilur maður hvers vegna þau voru svo sterk og verðmæt. Reipi skorin úr rostungshúð gátu haldið skipi og reiða betur en nokkur önnur. Varðandi rengi: þegar ég ólst upp í Stykkishólmi var oft rengi á borðum, framreitt kalt með soðnum kartöflum. Rengi þetta var súrsað hvalspik og mér þótti það ágætur matur.  Hef ekki séð það lengi á markaði. Takki fyrir ágætar upplýsingar varðandi Býsans og fleira.

Haraldur Sigurðsson, 2.2.2013 kl. 11:44

8 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Víkingar voru grunaðir um að halda siglingaleiðum leyndum til að tryggja "einokun" sína á vörum frá norrænum slóðum. Sumir telja að nafnaruglingur á Íslandi og Grænlandi sé tilkominn vegna þessa. Af hverju heitir Ísland ekki Eissland á þýsku? Heitir þar Island, sem hefur raunar enga merkingu, en hefur skírskotun til eld/sól guðsins Ísarr sem á auðvitað ekkert skylt við okkar ís.

Hér í Tromsö, þar sem ég bý nú, er lítið safn um tengsl rússa og norðmanna. Þar er að finna muni úr beinum dýra af norðurslóð. Álitin gersemi. Hef séð svona gripi heima, en grófari.

Rengi hefur fengist á Húsavík í febrúar svo lengi sem ég man.

Reyndar er það orðið svo árið 2013 að ef norðmenn heyra Artic og norðrið nefnt á nafn þá opnast peningagáttir ótrúlegar. Þeir gera ekki aftur mistökin eftir Kalmar- sambansslitin.

Skemmtilegt

Sigurjón Benediktsson, 2.2.2013 kl. 20:00

9 identicon

Fróðlegt Brynjólfur en smá athugasemd, það sló mig að þú telur rostunga til hvala sem er ekki rét. Rostungar eru af ætt hreifadýra (Pinnipedia) og tilheyra ættbálknum rándýra (Carnivora) ásamt selum og sæljónum. Ég hef heldur aldrei heyrt talað um rengi af selum heldur selspil. Spik sela er ágætt í lýsi og saltað en henntar ekki í súr mér vitanlega.

Reinhold Richter (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 10:41

10 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Reinhold, þakka þér fyrir leiðréttinguna - auðvitað gat maður hafa sagt sér þetta sjálfur ...

Nokkrir hafa nefnt að rengi er auðvitað í dag notað yfir súrsað hvalspik. Fyrir um 5 árum var ég á Íslandi og las í fornritunum mér til gamans, rakst þá á lýsingu af gjöfum sem fornmaður færði (Dana)konungi. Þrennt var talið upp, skinn af hvítabirni, tennur og rengi. Mér þótti einmitt skrýtið að konungi skyldi fært hvalspik og kíkti í orðabækur og komst að því að rengi gat einnig þýtt reipi úr hvalshúð. En hér og nú finn ég engar heimildir fyrir þessu! Það er svo sem ekkert ólíklegt að orðið hafi skipt um merkingu, spikið liggur undir renginu (ef ég hef rétt fyrir mér).

Eina sem ég finn á netinu er úr Ordbog over det gamle norske Sprog frá 19. öld þar sem stendur, um rengi: " ... hlasshvalr skal nu vera í átta fjórdunga vettir, halft hvort spik ok rengi", þ.e.a.s. spik og rengi er ekki það sama (þetta fann ég illlæsilegt á Internetinu á http://www.archive.org/stream/ordbogoverdetga00bugggoog/ordbogoverdetga00bugggoog_djvu.txt)

Í Króka-Refs sögu sendir Haraldur konungur Bárð nokkurn til Grænlands með orðunum: "Skaltu nú sigla út til Grænlands og flyt til vor tönn og svörð." (10. kafli). Ekki var það rengi heldur svörður, merkir væntanlega það sama? Ef svo er staðfestir það verðmæti skinnsins. En auðvitað væri gaman að rannsaka þetta almennilega!

Skipin skiptu auðvitað gríðarlega miklu máli á þessum öldum. Skrokkinn mátti smíða úr heimafengnum efnum, greni og jafnvel eik í Danmörku og suður Svíþjóð. Reipin voru erfiðari eins og ég hef þegar nefnt, hráefnin í létt og sterk reipi voru ekki við hendina. Seglin voru úr ull, styrkt með leðurböndum. Ullina var ekki svo einfalt að fá, Skandínavía (og Danmörk þar meðtalin) henta illa til sauðfjárræktar, sem er aftur einn aðal kostur Íslands og gæti vel verið það sem dróg landnámsmenn hingað.

Kenningin í bókinni eða sýningaskránni sem ég nefni í fyrri færstlu er á þessa leið: (skrána má nálgast á http://www.reykjavik871.is/, undir Miðlun/Media) Rostungsveiðimenn koma til Íslands einhverjum áratugum fyrir eiginlegt landnám. Markmiðið er að veiða rostung. Þeir hafa með sér sauðfé sem þeir sleppa í eyjar, t.d. Vestmannaeyjar, eyjar á Faxaflóa og í Breiðafirði. Þetta er gamalt og velþekkt bragð veiðimanna, sauðféð lifir af veturinn og fjölgar sér, næsta sumar bíður "forðabúrið" í eyjunni.

En kindur eru syndar eins og bændur vita og fljótlega fara þær að sleppa upp á meginlandið sem var á þessum tíma þakið "víði" (væntanlega birki) milli fjalls og fjöru. Kindur og birki fer ekki vel saman, birkið hefur meðalaldur upp á 80 ár og sauðfé kemur í veg fyrir endurnýjun með því að naga nýgræðlinga. Villt sauðfé í birkiskógunum fjölgar sér samkvæmt veldisfalli, með 20% fjölgun á ári verða 10 kindur að milljón á 65 árum.

Undir lok 9. aldar er skv. kenningunni villt sauðfé orðið það algengt að menn eru farnir að taka eftir. Skógur eyðist enda mjög hratt og mjög skyndilega á Suðurlandi nánas um landnám, sem bendir til mjög mikils fjölda sauðfjár. Landnám verður þar af leiðandi tiltölulega auðvelt (þarf ekki að hafa með sér eins mikið af forða fyrir veturinn) og verðmætið í ullinni ásamt stærð landsins hefur skapað gullgrafarastemningu ...

Kannski hef ég aðeins bætt í kenningar sagnfræðinganna hérna, mæli endilega með því að menn lesi sýningarskrána, hún er virkilega þess virði!

Brynjólfur Þorvarðsson, 8.2.2013 kl. 09:52

11 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Þetta er merkilegt með orðið rengi. Ég get alveg trúað því að merkingin hafi breyttst með árunum. Að upprunalega hafi rengi verið notað sem heiti á húð rostungs, sem var skorin í lengjur eða ræmur og notuð í reipi. Síðar var nafnorðið notað sem heiti á húð hvala, sem var einnig skorin.  Alla vega borðuðum við rengi af hvölum með góðri íst í Stykkishólmi á tuttugustu öldinni.

Haraldur Sigurðsson, 8.2.2013 kl. 10:22

12 identicon

Já þetta er ansi líkleg kenning að hafi sauðfé fjölgað sér villt á Íslandi fyrir eiginlegt landnám hafi það rutt brautina fyrir mansskepnuna.

Það er staðreynd að grasbítar álíta nýgræðing Víðis og annara trjátegunda hið mesta lostæti og því verður nýliðun trjágróðus lítil sem enginn þar sem stíf beit er. Þetta ástand þ.e.a.s. trjáleysi snýst við með friðun.

Þegar úthagi er friðaður fyrir beit líður ekki á löngu þar til víði og birkikjarr sprettur upp. Tveim til sex áratugum síðar, eftir landgæðum og skjólsæld, verður illfært tvífætlingum að ferðast um kjarrbeðjuna því víðast hvar er Gulvíðir til staðar þó hann nái ekki vexti vegna beitar og vilt Birki og Fjalldrapi fjölgar sér ótrúlega hratt með fræjum.

Ég hef fylgst með gróðurbreytingum á landi sem var friðað fyrir aldarfjórðiung (Sturlureykir Borgarfirði) þar má glöggt sjá þennan viðsnúning sérstaklega hvað Gulvíðir snertir en einnig hefur viltt Birki  farið að sá sér hin síðari ár.

Reinhold Richter (IP-tala skráð) 10.2.2013 kl. 12:06

13 identicon

kannski minntist þú á taflmennina

http://skalholt.is/2011/08/18/malthing-um-taflmennina-fra-ljodhusum-19-agust-nk/

Margrét (IP-tala skráð) 14.2.2013 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband