Færsluflokkur: Snæfellsnes

Minjar í Berserkjahrauni

BerserkjadysFrásögnin um berserkina í Eyrbyggju og Heiðarviga sögu hefur hrifið marga, en er nokkur fótur fyrir þessu?  Samkvæmt sögunni eiga að vera þrjú mannvirki af höndum berserkjanna: gatan, hagaveggur og byrgi.  Tvö þeirra eru vel þekkt (gatan og veggurinn) en menn greinir á um hið þriðja.   Gatan er alls um 1200 metrar á lengd og reyndar mikið mannvirki. Margir telja að hún sé elsta varðveitta mannvirkið á Íslandi og er það sennilegt.  Austur hluti götunnar er í landi Hrauns en vestur hlutinn í Bjarnarhafnarlandi.  Það var tvímælalaust mikið verk að ryðja stórum björgum og gjallmolum úr vegi, eins og sést á ruðningnum sem er á báða vegu meðfram götunni.  Hafur hún verið mikil samgöngubót í sveitinni. Reyndar var fært milli Hrauns og Bjarnarhafnar með því að ganga fjöruna á stórstraumsfjöru, en það er sjaldan svo.  Það er skemmtileg ganga að fara Berserkjagötu í dag og er hún ágætlega varðveitt.  Oftast hefja menn göngu sína á austur enda götunnar sem byrjar í Hraunvík.  Hraunið er allt úfið og mosavaxið umhverfis, en fast við götuna er annar gróður.  Þar er lyng, blómstrandi plöntur og janfvel einir.  Það er merkilegt hvað gróður er miklu lengra á veg kominn fast við götuna.  Sennilega á sauðkindin sem hér fer um einhvern þátt í því að útvega áburð í jarðveginn og að bera annan og fjölbreyttan  gróður inn á hraunið við götuna. 

Um miðja vegu á götunni er komið að hagagarðinum eða veggnum, sem berserkirnir hlóðu.  Hann hefur verið nenfdur Berserkjagarður.  Hann nær niður að sjó skammt fyrir austan Blámannavík og liggur nokkurn veginn beint inn í hraunið.  Veggurinn er nokkuð sérstök smíði.  Austur hlið veggsins er ávalt lóðrétt og allt að 2 metrar á hæð, en víða er vestur brún veggsins aflíðandi, með 45 til 60 gráðu halla.  Ég hef alltaf heyrt að smíði garðsins væri gerð á þennan hátt, til að hleypa sauðfé í aðra áttina (til austurs) en ekki til baka.   Ekki er mér kunnugt um annan slíkan garð á Íslandi.Garður berserkjanna

Þega Styrr og hanns menn höfðu drepið berserkina í baðinu, þá fluttu þeir lík þeirra út í hraunið.  Dys berserkjanna er í dag fast við götuna í dalverpi í miðju hrauninu.  Dalurinn er ýmist nefndur Berserkjalág eða Dysjalaut.  Dysin er um 7 metrar á lengd, meðfram götunni og um 3 metrar á breidd.  

Sigurður Vigfússon forni (1828-1892) kannaði Berserkjahraun í ágúst árið 1889 og ritaði um það í Árbók Fornleifafélagsins (1893). Ekki getur hann þess hvort hann gróf í dys berserkjanna, en Snæfellski fræðimaðurinn Þorleifur J. Jóhannesson (1878-1944) hefur það eftir Kristjáni Þorleifssyni að Sigurður forni hafi skilið við dysina sundurtætta.  Kristján var unglingur í Bjarnarhöfn þegar Sigurður forni var á ferð, en Kristján mun hafa lagfært og endurhlaðið dysina.  Kristján Þorleifsson (1876-1959) var síðar hreppstjóri og bjó á Grund í Eyrarsveit.  Ég man vel eftir honum í Stykkishólmi.

 

Gatan, garðurinn og dysin hafa nú skilað sér sem áþreifanlegar menningarminjar, en hvar er byrgið?  Eyrbyggja segir svo um þriðju þraut berserkjanna:    …… og gera byrgi hér fyrir innan hraunið.”   Hvað er byrgi þetta og hvar er það?  Sumir telja að hér sé átt við Krossrétt, sem er í hraunjaðrinum skammt fyrir norðan bæinn Hraun. Ég tel það ólíklegt, enda eru slíkar réttir algengar og þessi sker sig ekki úr um byggingu.  Sigurður forni heldur því hins vegar fram að byrgið sem berserkirnir hlóðu sé í hraunjaðrinum við bæinn Hraun.  Um það fjalla ég í næsta þætti.


Berserkirnir í Heiðarvíga sögu


BerserkjagataBerserkjagata er alls um 1200 metrar á lengd. Frá austur enda hennar að dys berserkjanna eru 440 metrar (D á loftmynd). Um 100 metrum fyrir vestan dysina er hagagarðurinn sem berserkirnir hlóðu (V á loftmynd). Þar skammt fyrir vestan er vík, sem ber hið sérkennilega nafn Blámannavík (B á loftmynd).  Ekkert er vitað um uppruna þess örnefnis, en í sögum er rætt um berserki sem blánuðu af reiði.

Heiðavíga saga er önnur heimildin um berserkina Halla og Leikni.  Eins og áður segir, þá er fyrri hluti Heiðarvíga sögu glataður, en hann var endursagður eftir minni árið 1728 af Jóni Grunnvíking.  Hún er því lakari heimild en Eyrbyggja.  Þótt lýsingin sé í stórum dráttum eins, þá víxlar Jón berserkjunum varðandi áhuga þeirra á Ásdísi,  dóttur Víga-Styrs.   Einnig minnist sagan ekkert á byrgið, sem var hin þriðja þraut berserkjanna.  Heiðarvíga saga segir svo frá berserkjunum:   Vermundur dvaldi með Hákoni jarli í Noregi. Berserkirnir tveir Halli og Leiknir voru við hirð jarls. Vorið (ca. 984) er Vermundur undirbýr ferð sína heim, þá býður jarl honum að velja sér að gjöf þann hlut sem honum leikur helst hugur á.  Vermundur biður um berserkina og veitir jarl honum það. Þegar til Íslands kemur reynist Vermundi illt að ráða við hina skapmiklu berserki.  Hann tekur þá það ráð að bjóða þá sem gjöf til bróður síns Víga-Styrrs. Verður það af að berserkirnir fara heim með Styr.  Deilur höfðu lengi verið milli Styrs og Þorbjörns kjálka í Kjálkafirði. Nú vill Styr brúka berserkina til að ná rétti sínum á Þorbirni. Þeir koma þar að á nóttu og brjóta upp dyrnar. Síðan brjóta berserkirnir einnig upp rammlega lokrekkju Þorbeins. Koma þeir að Hrauni og líður nú af veturinn.  Leiknir sat löngum á tali við Ásdísi, dóttur Styrs.  Verður nú ljóst að berserkirnir vilja kvænast.  

Um vorið (ca. 985) ríður Styr að Helgafelli til að ráðgast við Snorra goða.  Eftir heimkomuna segir Styr Leikni að nú verði hann að vinna nokkur þrekvirki áður en konumálin verði til lykta leitt.

Styr mælti: "Hér er hraun hjá bæ mínum illt yfirreiðar. Hefi eg oft hugsað að eg vildi láta gjöra veg þar um og ryðja það en mig hefur skort mannstyrk. Nú vildi eg þú gjörðir það."  Leiknir segir það þyki sér eigi mikið fyrir ef hann njóti liðs Halla bróður síns. Styr sagði hann mætti það við hann eiga.   Taka nú berserkirnir að ryðja hraunið að kvöldi dags og að þeirri sýslan eru þeir um nóttina. Vega þeir stór björg upp þar þess þurfti og færa út fyrir brautina en sumstaðar koma þeir stórum steinum í gryfjurnar en gjöra slétt yfir sem enn má sjá. Var þá á þeim hinn mesti berserksgangur. Um morguninn höfðu þeir því lokið. Er það eitt hið mesta stórvirki er menn vita og mun sá vegur æ haldast með þeim ummerkjum sem á eru meðan landið stendur.   Skulu þeir nú gjöra eitt gerði og hafa því lokið að dagmálum. Á meðan býr Styr þeim bað sem þeir skulu í fara þá þeir hafa af lokið gerðinu. En að morgni skal Leiknir hafa brullaup. Baðið var so til búið að þar var felldur stór hlemmur ofan í gólfið með einum glugga á sem vatninu var inn um hellt. Húsið var grafið í jörð og voru dyr fyrir því með sterkum stokkum og húsið allt af nýjum viðum og hið rammbyggilegasta. Skarir voru fyrir dyrunum upp að ganga.   Um morguninn þá þeir eru að gerðissmíðinni lætur Styr Ásdísi búa sig sem allra best en bannar henni að vara berserkina við hvað hann hafi í ráði. Og áður en þeir hafa lokið gerðinu gengur hún burt frá húsunum á svig við berserkina þar þeir eru að sínu starfi. Leiknir kallar til hennar og spyr hvert hún vilji. Hún svarar engu.

Nú hafa þeir af lokið þessu starfi. Gengur Styr í móti þeim, þakkar þeim með fögrum orðum fyrir starfið og segist nú hafa búið þeim bað er þeir skuli í fara. Hafi þeir nú það þrekvirki unnið er sér allvel hugnist og uppi muni verða um alla ævi.   Halli er í fyrstu eigi ráðinn að ganga í bað og spyr ef eigi skuli fleiri ganga í baðstofu með þeim. Styr svarar það muni eigi hent öðrum mönnum að ganga í bað ásamt slíkum afarmönnum sem þeir eru. En Leiknir vill gjöra það að vilja Styrs.

Nú setjast þeir í baðstofu og er hlemmurinn lagður yfir og borið grjót á. Dyrunum er og lokað og borið grjót fyrir sem rammlegast en á skarirnar er breidd blaut uxahúð. Baðstofan er gjörð ákaflega heit. En þá þeir hafa setið í baðinu litla stund lætur Styr bera sem óðast brennheitt vatn og steypa inn um glugginn. Finna nú berserkirnir að eigi er allt heilt við þá. Hamast þeir nú í baðinu og brjótast á hlemminn. Springur Leiknir inni en Halli kemst út. Og er hann kemur á skarirnar verður hönum fótaskortur og fellur á húðinni en Styr er þar fyrir með reidda öxi og höggur á háls hönum so Halli lét þar lífið.  Í næsta þæti mun ég fjalla um mannvistarminjar sem hafa verið tengdar berserkjunum.


Berserkirnir í Eyrbyggju


 

berserkurBerserkjahraun á Snæfellsnesi er óvenju úfið apalhraun og illt yfirferðar.  Það hefur því verið mikill farartálmi á landnámsöld,  sem myndaði eðlileg mörk milli Helgafellssveitar að austan og Eyrarsveitar fyrir vestan.  Mikil samgöngubót varð á Söguöld, þegar Berserkjagata var rudd.  Þessum atburði er lýst í Eyrbyggju og einnig er fjallað um hann í Heiðarvíga sögu.  Frásögnin í Eyrbyggju er mun heilsteyptari, enda er Heiðarvíga saga aðeins til í handritabrotum.  Allur fyrri hluti handrits Heiðarvíga sögu brann í Kaupmannahöfn árið 1728.  Jón Ólafsson Grunnvíkingur hafði lesið söguna fyrir brunann og endursagði þennan glataða hluta hennar eftir minni.  Það verður því tvímælalaust að taka Eyrbyggju sem traustari heimild um þennan þátt.  Ég endursegi hér frásögn Eyrbyggju og síðar Heiðarvíga sögu, en í síðari þáttum mun ég fjalla frekar um mannvirkin þrjú, sem kennd eru við berserkina.

Eyrbyggja segir frá því að Vermundur mjóvi Þorgrímsson bjó í Bjarnarhöfn.  Afi hans var Kjallekur, sem var kominn af merkum ættum í Noregi og eru Kjallekingar af honum komnir. Vermundur var um tíma í miklum kærleikum með Hákoni jarli, sem á þeim tíma réð yfir Noregi.   Með jarli voru tveir bræður af sænskri ætt, Halli og Leiknir.  Þeir voru miklir menn og sterkir og áttu sig engan jafningja af kröftum í Noregi og þótt víðar væri leitað.  Þeir gengu berserksgang í orrustu eða þegar þeir voru reiðir og voru þá eigi í mannligu eðli, fóru galnir sem hundar og óttuðust hvorki eld né járn.  En hversdagliga voru þeir eigi illir viðureignar.  Eiríkur Svíakonungur hafði sent jarli berserkina og sett varnað á, að hann skyldi gera vel til þeirra.

Um vorið bað Vermundur jarl að gefa sér fararleyfi til Íslands.  Jarl veitti leyfið, og bað Vermund þiggja að gjöf  hverja þá hluti sem væru í hans valdi. Vermundur hugsar að berserkinir muni vera miklir eftirgöngumenn fyrir hans hag á Íslandi og biður  Hákon jarl að láta þá fylgja sér til Íslands.   Berserkirnir voru fúsir til utanferðar og fékk hann samþykki jarls.  Vermundur kemur heim í Bjarnarhöfn sama sumar og Eiríkur rauði siglir til Grænlands (um 985).  Brátt kom í ljós að Vermundur réði ekki við berserkina og varð því úlfúð og illska milli þeirra. 

Bróðir Vermundar var Styrr eða Víga-Styrr, en hann bjó “undir Hrauni” eða á býlinu Berserkjahrauni, sem nú er í eyði.  Býður Vermundur nú bróður sínum berserkina og tekur hann við þeim (ca. 983). Þá fóru berserkirnir með Styr verstur um fjörð að drepa Þorbjörn kjálka og settust síðan að með Styr undir Hrauni um haustið.  Þar slóst Halli á tal við Ásdísi, dóttur Styrs, en hún var ung og mikill skörungur, en talin skapstór.  Halli biður Styr að gifta sér dóttur hans.  Styr færist undan og segist vilja ræða málið við vini sína. Næsta dag ríður Styr til Helgafells til ráðagerða með Snorra goða (ca. 963-1031).  Þeir ganga á fjallið og sátu að tali allt til kvölds.  Síðan reið Styrr heim.  Næsta dag segir Styrr við Halla:  “Nú mun ég gera sem fornir menn, at ek mun láta þik vinna til ráðhags þessa þrautir nökkurar.  Þú skalt ryðja götu yfir hraunit út til Bjarnarhafnar ok leggja hagagarð yfir hraunit milli landa várra ok gera byrgi hér fyrir innan hraunit. En at þessum hlutum fram komnum mun ek gifta þér Ásdísi, dóttur mína.”  Halli svarar:  “Eigi em ek vanr til vinnu, en þó mun ek undir þetta játtast, ef ek skal þá auðveldliga komast at ráðahagnum.” 

Eftir þetta tóku þeir at ryðja götuna, ok er þat it mesta mannvirki. Þeir lögðu ok garðinn, sem enn sér merki. Ok eftir þat gerðu þeir byrgit.  En á meðan þeir váru at þessu verki, lét Styrr gera baðstofu heima undir Hrauni og var grafin í jörð niðr, og var gluggur yfir ofninum, svá at útan mátti á gefa, ok var þat hús ákafliga heitt.

Er þeir unnu at byrginu, þá gekk Ásdís Styrsdóttir hjá þeim, en hún hafði tekit sinn besta búnað.  Að loknu verki ganga berserkirnir heim um kveldit ok váru móðir mjök, er af þeim gekk berserksgangurinn. Styrr bað þá fara í bað ok hvíla sik.  Þeir gerðu svá, en er þeir kómu í baðið, lét Styrr byrgja baðstofuna og bera grjót á hlemminn og breiða hráblauta nautshúð  hjá uppganginum.  Síðan lét hann bæta eldivið á ofninn og var þá baðit svá heitt, at berserkirnir þolðu eigi í baðinu ok hljópu á hurðirnar.  Fékk Halli brotit hlemminn og komst upp ok féll á húðinni. Veitti Styrr honum þá banasár.  Einnig drap Styrr Leikni þar.

Síðan voru lík þeirra færð út í hraunit og þeir kasaðir í dal þeim, er þar er í hrauninu, en svá er djúpr, at engan hlut sér ór nema himin yfir sik. Þat er við sjálfa götuna.  Er Snorri goði frétti þetta, reið hann út undir Hraun og sátu þeir Styrr at tali enn allan dag.  Að því loknu fastaði Styrr Snorra goða Ásdísi, dóttur sína.  Snorri eignaðist fjóra syni með Ásdísi Víga-Styrsdóttur: Þórð kausa, Þórodd, Þorstein og Guðlaug munk.   Síðar, þegar kristni var lögtekin á alþingi, létu bæði Snorri og Styrr gera kirkjur á Helgafelli og undir Hrauni.


Leiðir á Snæfellsnesi

Fornir vegir, reiðgötur og gamlir bílvegir eru menningarminjar. Sennilega eru gamlar götur elstu menningarminjar okkar og þær ber að varðveita. Myndin sýnir Berserkjagötu, sem mun vera frá söguöld. Ég birti hér lýsingu á vegum í Helgafellssveit, sem varðveitist í handriti. Mér þætti væntu m að heyra frá þeim sem þekkja aðrar fornar gönguleiðir á Snæfellsnesi.

 

Vegir í Helgafellssveit

 

Björn Jónsson (1902-1987)

Innri-Kóngsbakka

 

“Ég ætla að greina hér frá hvar voru aðal umferðarleiðir um Helgafellssveit og til Stykkishólms, áður en nokkur vegagerð þekktist eða hófst hér í sveit. En ég ætla, að fyrsta spor í þá átt hafi verið að brúa með grjóti yfir verstu fúakeldurnar, sem á leið manna voru, en þess var sérstaklega þörf í Þórsnesinu, en þar er landslagi þannig háttað, að þar skiftast á klappaholt og fúakeldur. Auk þessa mun hafa verið kastað steini úr götu, þar sem umferðin var mest. En vegagerð, sem heitið gat því nafni held ég að ekki hafi hafist fyrr en á síðasta tug nítjándu aldar.

       Berserkjagata     Leiðin frá sæluhúsinu á Kerlingarskarði til Stykkishólms, ef farið var á hestum, lá inn hjá Norðara Dysi.  Það fram undan voru Þrengslin. Það var bratt einstigi í vestur rótum Kerlingarfjalls. Brátt var þá komið niður á Sandinn, en þar var greið leið á vesturbakka Furu, sem þarna á upptök sín. Þegar komið er framhjá grjóthólum sem þarna eru er beygt til hægri og farið yfir Furu, og er þá komið yfir á Sneiðina, en í norður brún hennar liggur leiðin niður bratta sneiðinga, sem farnir eru í mörgum krókum.  Þegar komið er niður úr Sneiðinni, er greiðfær leið til austurs merð Kerlingarhlíðinni inn að Grettistaki, en þar er áningarstaður.  Þaðan liggur leiðin spottakorn inn með hlíðinni og svo niður Stórholtin. Þarna eru góðar reiðgöturniður að Bakkaá.   Yfir hana var farið á vaði við rætur á melarana, sem er fyrir ofan Gríshólslækinn.  Áfram liggur vegurinn niður með Bakkaá að austanverðu, yfir Gríshólslæk, niður Langáseyrar, og áfram með ánni niður að Bakkafossi.  Þaðan liggur gata niður Hlíðina ofan í Tungu og niður í Amtsmannsbrekku, en hún er neðan Markholts. Í Amtmannsbrekku var sjálfagður áningarstaður.  Áfram er svo haldið niður ármót og inn yfir Gríshólsá en þar greinist leiðin.  Ef háfjara er, þá er styttra að fara niður Hofsstaðavaðal ofan í Haugsnes, niður yfir Flæðilæk og áfram niður fyrir Axlir, ofan á Skálholt, yfir Norðlingabrú, inn Hádegisás, og niður fyrir innan Ögrið. Þaðan inn með Axlarhausum, fyrir ofan Skaldárvatn og inn að Nesvogsbotni.  Síðan er haldið inn með Nesvog og um Selskóg, ofan á Byrgisborg, yfir endann á Grensás og niður á Vatnsás, og mátti þá fara hvort heldur sem vildi inn Vatnsás og ofan í Maðkavík og þaðan Steinólfshöfðann niður á Pláss, eða fara af vestari Vatnsásendanum út í Ásklif niður á Húshala, þaðan niður á Lágholt, niður Silfurgötu ofan á Pláss. 

            Ef hásjávað var, þegar litast var um við Gríshólsá þá varð að fara niður Engjaskóg, inn með Berhól, inn yfir Taklæk (Saurasíki) inn Vogaskeið niður á Ambáttarholt, inn Stigamannaborg, inn með Illugabjörgum, yfir Rauðsteinalæk, upp Röngugötu, niður Munkaskörð, yfir Kýrbrú, inn með Klifsholti, niður Kvíastöðul, og þaðan inn fyrir Fell, niður Götuholt, niður fyrir Flæðilæk, niður Dældarkotsmela, fram hjá Kaupmannaborg, út fyrir Nesvogsbotn, og þar komið á veginn inn Selskóg, sem áður er lýst.  

            Leiðin innan frá Álftafirði var á svipuðum slóðum og vegurinn nú. Farið var yfir Vaðilshöfða við botn Álftafjarðar, út hjá Bólstað (bær Arnkels goða), og niður Úlfarsfellshlíð að Hrísasneiðingum.  Þaðan framan Úlfarsfells, yfir Krákunes, út fyrir Þórsá. Upp á Hrísamela. Einnig mátti fara af Vaðilshöfða, upp hjá Úlfarsfelli, út yfir Úlfarsfellsháls, niður hjá Hvammi (bæ Þórólfs bægifóts) niður yfir Þórsá út Hrísamela, út yfir Svelgsá, fyrir sunnan Svelgsártún. Út yfir Hauksá, upp Hólahvörf, út í Söðla, niður yfir Brettingsstaðalæk, niður yfir skógarásinn hjá Fögrubrekku, fram hjá Kallhamri, niður Kallhamarsbrekku, og niður á Fornastöðul hjá Saurum.  Þaðan niður Sauratögl, og niður á Vogaskeið, og komum þar á götuna sem hér að framan er lýst. 

            Ef ferðinni er heitið út Helgafellssveitina, þá var farið af Hólahvörfum, upp  Hauksdal, fyrir ofan Skálafell, og út og niður Vatnsdal, út Bólin, niður með Drápuhlíðartúnum niður hjá Akranesi, út Drápuhlíðarmela, ýfir Gríshólsá út Hlíð, yfir Bakkaá, á vaðinu fyrir ofan Bakkafoss, og þaðan út Skeið.

Leið úr Eyrarsveit lá um Tröllaháls, in yfir Árnabotn, að Fjarðarhornsá, inn Fjarðarhornsleiti inn hjá Snorrastöðum, að Hraunsfirði, niður yfir Þórsá, inn Hornsmýrar inn með hraununum að Hraunklifi. Hraunkanturinn er þarna 10-12 m hár, og varð því að laga þarna veginn, svo fært væri hestum. Þarna hafði verið klauf í hraunkantinum og þar hefir verið jafnaður botninn og flórað með hellum en þetta var svo bratt og skreift á hellunum, að fæstir kærðu sig um að sitja á hesti yfir klifið.  Leiðin lá svo inn Gagngötu inn í Kúlur, niður Smáhraun, að Berserkjahraunsbæ, yfir ………………. Með Höfðum og niður á Hraunháls,  niður Hraunhálsmelainn yfir Stafá, áfram inn fyrir ofan Kóngsbakka, inn Kóngsbakkahvörf, inn skeiðið að Kljáá, og þaðan áfram inn fyrir Kljárlæk, og þaðan inn á Skeið þangað sem komið var þegar komið var innan úr sveit. 

En nú beinum við af þessum vegi og förum niður Bringur og inn fyrir ár, og komum þá á veginn sem ápur er lýst inn Engjaskóg.  Þegar komið var inn á Kóngsbakkahvarfið, þá var litið á hvernig stæði á sjávarfalli.  Væri lágsjávað eða fjara, þá var kanski farið af hverfinu niður fyrir innan Klettenda, niður fyrir utan Sandvíkurlæk, og ofan í Sandvík.  Þaðan var haldið inn með Kljárbökkum, inn fyrir neðan Bug, og inn fyrir neðan Staðarbakkatún, og áfram inn að Sauðskeri.  Þá var farið niður Marbakka og komið ofan í Haugsnes, og þar á götum sem áður er lýst á leið í Stykkishólm.  Að vetrinum, ef þungfært var vegna snjóa, þá var oft farið um þessar fjörur.  Um litlar fjörur var stefnan tekin frá Sauðskeri á Arnarstaði og eftir að komið var af fjörunum, þá var haldið áfram fyrir neðan Arnarstaðatún, og inn með Arnarstaðavog, og niður fyrir vogsbotninn og inn á Arnarstaðagötu, á leið til Helgafells, en þegar komið var á móts við Bygghamarstún, þa´beygt niður fyrir Flæðilæk og komið á þá götu á Deildarkotsmelum, sem hér framan hefir verið lýst.”

 

 


Hvaða áhrif hefur Þverun á Kolgrafafjörð?

Skessuhorn Kolgrafafj.Nýlega barst út frétt frá Umhverfisstofnun í Morgunblaðinu hinn 16.1.2013, þar sem fjallað var aftur um Kolgrafafjörð. Þar er því haldið fram að vatnsskipti í dag séu óbreytt frá því sem var fyrir þverun fjarðarins.  Þessi staðhæfing gefur því í skyn að þverunin eigi engan þátt í dauða síldarinnar í firðinum.  Þetta er ekki rétt. Árið 2012 kom út fróðleg 23 blaðsíðna skýrsla Vegagerðarinnar um Þverun Fjarða og eru þar einkar gagnlegar mælingar á straumum um fjörðinn.

Árið 2004 var ný brú opnuð yfir Kolgrafafjörð. Vegurinn er að miklu leyti grjótvarin vegfylling þvert yfir mynni fjarðarins, sem er um 1700 metrar á lengd.  Við vestur enda grjótfyllingarinnar er brú með vatnsop, sem er um 150 metrar á lengd. Vatnsskipti inn og út úr Kolgrafafirði eru því um op sem er tæplega einn tíundi af því sem áður var.  Eitthvað af sjó mun einnig síast í gegnum grjótgarðinn.

 Í skýrslunni frá 2012 um þverun kemur í ljós, að vatnsskipti fjarðarins við úthafið eru ófullkomin og ná ekki jafnvægi milli flóðs og fjöru.    Munur á sjávarhæð á fjöru innan og utan þverunar er  9 cm í Kolgrafafirði, samkvæmt skýrslunni. Það er að segja að vatn í firðinum stendur hærra og nær aldrei að falla alveg út áður en næsta flóð hefst.  Á meðalstórstraum var mesta rennsli á útfalli áður 2710 m3/s en er nú 2830 m3/s. Sjávarfallasveiflan utan þverunar er 4,2 m.

Þessi ófullkomnu vatnsskifti í firðinum geta haft margvísleg áhrif.  Þverun fjarða hefur óhjákvæmilega áhrif á eðliseiginleika sjávar, einkum  sjávarföll, strauma, öldur, setflutning, súrefnismagn og seltu. Allir þessir þættir eru hluti af vistkerfinu í firðinum og þannig myndast samspil eðlisþátta sjávar og líffræðilegra þátta.  Það eru því til gögn, sem sýna léleg vatnsskifti í Kolgrafafirði. Hafa léleg vatnsskifti orsakað lægra súrefnismagn í sjó innan fjarðarins?  Er það skýring á síldardauðanum?  Þetta er enn tilgáta, en allt virðist benda í þá átt.


Týnda flugvélin

ál partarÍ gær komst ég loks að leifum bresku herflugvélarinnar, sem brotnaði í norður hamri Svartahnúks árið 1941. Vélarpartar og litlar tætlur af ál eru á víð og dreif í skriðunni undir hnúknum á um 100 metra breiðu svæði. Áltætlurnar er allar beyglaðar og sumar bræddar, eins og fyrsta myndin sýnir. Útlit þeirra minnir okkur rækilega á það, að sprengju- og skotfærafarmur hervélarinnar sprakk í loft upp við áreksturinn og mikið bál varð úr. Flugslysið varð hinn 28. nóvember árið 1941 og hefur Karl Smári Hreinsson skrifað ágæta grein um þennan atburð. Eftir að hafa hringsólað um norðanvert Snæfellsnes flaug vélin inn Kolgrafafjörð í afleitu veðri, en náði ekki að komast suður yfir fjallgarðinn og brotnaði í hamrinum, þar sem merkið X er á kortinu hér til hlíðar. KortÉg hef verið að leita að flakinu öðru hvoru í sumar, en það hefur verið hulið snjó þar til nú í september. Þessi Vickers Wellington tveggja hreyfla sprengjuflugvél hafði farið í eftirlitsflug á hafinu milli Íslands og Grænlands hinn 28. nóvember. Það var hvasst að suðaustan þennan dag og mjög láskýjað. Bændur í Kolgrafafirði og Eyrarsveit heyrðu flugvélagný og sáu mikinn blossa í fjallinu, eins og eldgos. En veðrið var afleitt og skyggni ekkert. Einn bóndi tók hvað mestan þátt í leit að flugvélinni, en það var Ingvar Agnarsson bóndi á Kolgröfum. Nokkrum árum síðar var ég part úr sumri sem ungur smali í sveit hjá Ingvari á Kolgröfum. Þá fræddist ég dálítið um atburðinn, en Ingvar hélt merka dagbók. Hinn 1. desember komst Ingvar loks að flakinu undir Svartahnúk, beint fyrir ofan Grenjadal. Leifar af sex líkum áhafnarinnanr fundust og voru þau flutt til byggða. Svartihnúkur er nær þverhníptur. Hann er myndaður úr blágrýtislögum, sem hafa ummyndast vegna háhita. Innskot af granófýr og díórít bergi eru mikilvæg í efri hluta hnúksins.

Aftur um Þúfurnar á Snæfellsjökli

Það hafa orðið fjörug viðbrögð við bloggi mínu í gær um berglögin sem eru að koma í ljós í Miðþúfunni á Snæfellsjökli. Ég benti á að Þúfan er nú auðari en ég hef séð áður og að bráðnun sé óvenju hröð. Aðrir halda því nú fram að þetta sé ekki óvenjulegt síðsumars á seinni árum: sem sagt “business as usual”. Sumir telja hins vegar að hér sé mjög mikil breyting á ferðinni vegna hraðari bráðnunar Jökulsins. Auðvitað er hægt að deila um slíkt, en það eina sem vert er reyndar að fjalla um í því sambandi eru beinar mælingar á Jöklinum. Það vill svo vel til að slík gögn eru til. Veðurstofa Íslands hefur fylgst með Jöklinum og birt gögn þar að lútandi. Sjá til dæmis grein Tómasar Jóhannessonar hér: http://en.vedur.is/weather/articles/nr/1618 Flatarmál Jökulsins minnkarLínuritið til hliðar sýnir breytingar á flatarmáli Snæfellsjökuls og er byggt á slíkum gögnum. Þar kemur í ljós að Jökullinn hefur minnkað um helming á einni öld. Samkvæmt spá sem er byggð á öllum mælingunum væri Jökullinn horfinn í lok þessarar aldar, eins og rauða línan sýnir.  En sennilega eru þrír nýjustu mælipúnktarnir best mældir. Ef svo er, þá væri Jökullinn horfinn um 2050. Aðrar mælingar Veðurstofunnar sýna að á tímabilinu 2000 til 2008 þynntist jökullinn um allt að 40 metra á ytri mörkum hans. Já, sjálfsagt hafa berglögin verið greinileg í Miðþúfunni fyrr á seinni hluta sumars, en hitt er samt staðreynd: Jökullinn minnkar hratt.

Þúfurnar á Snæfellsjökli

Þúfan á JónsmessunóttHæstu tindar Snæfellsjökuls eru nefndar Þúfurnar. Sú í miðju er hæst, eða 1446 metrar. Þegar ég hef klifið Jökulinn þá hefur Þúfan nær undantekningalaust verið hulin ís og fönn, eins og fyrsta myndin sýnir. Hún var tekin á Jónsmessunótt í sumar. Þá var Þúfan kleif með því að höggva spor í ísinn, en þverbratt niður undir. En þegar ég flaug í þyrlu umhverfis topp Jökulsins hinn 26. ágúst 2012 þá blasti önnur sjón við. Þúfan í miðjunni var nú nær alveg íslaus og jarðlögin komu vel í ljós, eins og kemur fram á seinni myndinni. Ég held að þetta sé ef til vill í fyrsta sinn að Þúfan er svo algjörlega afhjúpuð, enda bráðnar Jökullinn nú hratt.  Nú gefst því tækifæri til að kanna þessi jarðlög og fræðast frekar um gossögu Jökulsins. Þúfan afhjúpuðSennilega eru hér aðallega rauðleit gjall og vikurlög, en ef til vill einnig hraunlög. Lögunum hallar til suðurs, í átt frá stóra gígnum, sem er rétt fyrir norðvestan Þúfurnar. Það eru nokkur áberandi ljós lög í Þúfunni. Það er freistandi að giska á að þau séu ef til vill trakít, en sú bergkvikutegund einkennir stóru sprengigosin þrjú, sem hafa orðið í Snæfellsjökli síðan ísöld lauk.  En nú ber að hætta öllum ágiskunum og bregða sér upp á Jökul til að kanna þetta nánar.

Tagldarhellir

Vatnafell

Vatnafell er gömul eldstöð á  Vatnaleið á Snæfellsnesi,  og  skilur fjallið á milli Hraunsfjarðarvatns fyrir vestan og Baulárvallavatns fyrir austan.  Vatnafell myndaðist í basalt eldgosi fyrir um 400 þúsund árum.  Ég hef áður bloggað hér um myndun þess í sambandi við myndun þriggja stöðuvatnanna á þessu svæði. Er Vatnafell  að mestu gert úr stuðluðu basalti, með móbergskápu undir.  Basaltið er óvenjulegt fyrir að hafa risastóra kolsvarta kristalla af pyroxen, sem geta verið margir cm á lengd.  Undir hömrum austan í Vatnafelli eru þrír hellar og er sá syðsti stærstur. Staðsetning hans er sýnd með rauða hringnum á fyrstu myndinni, sem er tekin yfir Baulárvallavatn.  Til hægri á myndinni er móbergstindurinn Horn.  Hellarnir í Vatnafelli hafa myndast þar sem rof hefur fjarlægt mýkri jarðlög undir basaltberginu.  Það er fremur auðvelt að komast að öllum þessum hellum, upp brattar og mjög grýttar skriður austan í fellinu. Syðsti og stærsti hellirinn nefnist Tagldarhellir og er við hann kennd þjóðsaga.  Sögnin um hellinn er varðveitt í Illuga söguTagldarbana.  

Tagldarhellir

Ein sögupersónan er Helgi, sem bjó á Helgafelli.  Hann fékk til liðs við sig Illuga, hraustan og ungan mann sunnan af Mýrum, til að drepa tröllið Dofra, sem bjó í helli einum á Vatnsheiði og er hann nefndur Dofrahellir  Ekki er mér kunnugt um staðsetningu hans.  Illugi var Þórisson, en faðir hans var Þórir Þorfinnsson og móðir Sæunn, dóttir Skallagríms Kveldúlfssonar og er hann þá systursonur Egils Skallagrímssonar.   Er því ekki að furða að hér var á ferð mikill kappi.  Bardaginn við Dofra leiddi Helga til bana, en Illugi fékk eftir hann jörðina Helgafell og bjó þar.   Síðar háði Illugi mikla baráttu við flagðkonuna Tögld í Tagladarhelli.  Hér skýtur nokkuð skökku við í frásögnum.  Í Illugasögu Tagladarbana fer bardaginn við Tögld fram í einni utanför Illuga, en í sögn sem er varðveitt í þjóðsögum Sigfúsar Eymundssonar (1899) fer orrustan í Tagladarhelli fram á Snæfellsnesi. Illugi kom tröllskessunni fyrir kattarnef að lokum, en sumir telja að skrímslið sem sést hefur í Baulárvallavatni sé Tögld afturgengin. Það er ekki hlaupið að ríma á móti orðinu Tögld, en þessi vísa fylgir þjóðsögninni:

 

Eg er að tálga horn í högld,

hagleiksmenntin burt er sigld.

Illugi deyddi tröllið Tögld,

trúi' eg hún væri brúnaygld.


Lóndrangar

Lóndrangar

Þegar ekið er suður fyrir Snæfellsjökul, þá rísa Lóndrangar eins og seglskip úr hafinu, fast við ströndina fyrir sunnan Malarrif. Drangarnir tveir hafa lengi vakið athygli. Samkvæmt Eggert Ólafssyni og Bjarna Pálssyni (1774) er þeirra getið í Landnámu. Lóndranga er einnig getið á eftirminnilegan hátt í kvæði Helgu, dóttur Bárðar Snæfellsáss, sem hún kveður til forna þegar heimþrá sækir á hana á Grænlandi. Í kvæðinu telur hún upp helstu örnefni umhverfis fæðingarstað sinn undir Jökli: 

 

Sæl væra ek, 

ef sjá mættak  

Búrfell, Bala,

báða Lóndranga,

Aðalþegnshóla

ok Öndvert nes

Heiðarkollu  

ok Hreggnasa,

Dritvík ok möl  

fyr dyrum fóstra.

 

Lóndrangar hafa fleirum orðið yrkisefni og til dæmis orti Símon Dalaskáld:

 

Um Lóndranga yrkja má

eru þeir Snæfells prýði,

yzt við tanga út við sjá

aldan stranga lemur þá.

 

Hvaða lón er það, sem nafnið Lóndrangar vísar til? Eru það ef til vill Djúpulón, um 5 km vestar á ströndinni? Lóndrangar eru tveir gígtappar 75 og 60 m háir. Þeir eru leifar af basalt eldstöð, sem hefur verið virk hér í sjó eða fast við ströndina, sennilega í lok ísaldar. Eldvirknin hefur byrjað í sjó og samspil heitrar kviku og hafsins hafa valdið gufusprengingum, sem tættu í sundur kvikuna, mynduðu ösku og gjall, sem féll umhverfis gíginn og myndaði móberg. Í lok gossins var eftir basalt kvika í kverkum gíganna tveggja, sem storknaði og myndaði stuðlað basalt berg. Síðan hefur brimið brotið niður meiri hlutann af gígunum. Vestari drangurinn er allur úr stuðluðu basalti, en sá austari og hærri hefur flóknari innri gerð. Neðri hluti hans er stuðlað basalt og tvær æðar af því skjótast uppí móbergið fyrir ofan. Efri hluti austari drangans er eingöngu úr móbergi. Lóndrangar hafa verið stakir klettar í hafinu undan suður strönd Snæfellsjökuls. Síðan hafa þrjú hraun frá Jöklinum teygt sig suður og náð að umkringja drangana að nokkru leyti og tengja þá við meginlandið. Hærri drangurinn var klifinn af Ásgrími Böðvarssyni, Vestmannaeyingi, á Hvítasunnu árið 1735. Ásgrímur þessi var afbrotamaður.  Hann hafði áður verið sakfelldur fyrir hnupl í Eyjum og gerður brottrækur þaðan. Síðar var hann viðriðinn innbrot og þjófnað í verzlunarhúsi í Ólafsvík árið 1736. Þetta var stórþjófnaður, 200 ríkisdalir og 30 vættir af varningi. Verslunarhús stóðu löngum mannlaus að vetrinum. Þetta notfærði Ásgrímur sér veturinn 1736, braust inn í búðina og hafði þaðan stórfé.  Var hann 23 ára þegar innbrotið var framið. Ásgrímur náðist síðar í Trékyllisvík en komst aftur undan og tókst að flýja. Aldrei sást til hans síðan og hefur hann ef til vill komist um borð í erlenda duggu og sloppið úr landi. Minni drangurinn var klifinn árið 1938. Sjóbúðir voru fyrrum rétt sunnan við stóra drang. Hér gengu eitt sinn 12 skip á vorvertíð og var Drangsvogur lendingin, rétt fyrir austan drangann. Merki um útræði má enn sjá, rústir sjóbúða fiskireiti og garða í hrauninu.  

Lóndrangar KPSMyndin til hægri er eftir Kjartan Pétur Sigurðsson (2005), tekin úr fisflugvél yfir Lóndröngum. Hér sést basalt undirstaða dranganna vel og einnig brúna móbergið, sem myndar efri hluta hærri drangsins til hægri.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband