Færsluflokkur: Snæfellsnes

Íslenska landgrunnið kortlagt af Olex

KolluállTogarar eru útbúnir mjög góðum tækjum, sem ákvarða staðsetningu og botnlag hafsins.  Skipstjórar varðveita slík gögn, sem eru að sjálfsögðu mikilvæg til að kanna miðin og finna þau aftur síðar.  Undanfarin ár hafa margir skipstjórar haft það fyrir reglu, að senda inn slík gögn til norksa fyrirtækisins Olex.  Þar er gögnum safnað til að gera nákvæm kort af hafsbotninum.  Kortin hafa staðsetningu, sem er betri en tíu metrar og hæðartölur, sem eru á milli 0,1 til 1 meter.  Þannig hefur nú verið safnað gögnum af nær öllu (80%)  íslenska landgrunninu.  Árið 2006 kom út ritgerð eftir Matteo Spagnolo og  Chris Clark um íslenska landgrunnið.  Hana má finna hér:  http://www.journalofmaps.com/article_depository/europe/spagnolo_glaciallandforms_1222426647.pdf

Þeir túlka Olex kortið á þessu svæði og sýna fram á að  þar ríkja áhrif jökla ísaldarinnar í myndun botnsins, ásamt myndunum sem tengjast eldvirkni og skorpuhreyfingum hafsbotnsins á gosbeltum neðansjávar. Á ísöld þakti jökulskjöldur allt landgrunnið og jökullinn var botnfastur. Sönnun þess eru jökulgarðar eða endamórenur, sem finnast úti á brún landgrunnsins, til dæmis jökulgarðurinn á Látragrunni út af Breiðafirði, sem ég hef áður fjallað um hér:  http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1400703/

Á þessum Olex kortum kemur margt fróðlegt fram, til dæmis Djúpáll út af Ísafjarðardjúpi. Hann er U-laga í þversniði og um 150 m dýpri en hafsbotninn umhverfis.  Í mynni Djúpáls hefur hlaðist upp mikil keila af seti, þar sem állinn fer fram af landgrunnisbrúninni.  Einnig er myndin af Jökuldjúpi í mynni Faxaflóa merkileg og fróðlegt að sjá hvað landslag á þessu svæði er mikilfenglegt undir hafinu.  Myndin sem fylgir hér með er af Kolluál, norðvestur af Snæfellsnesi. Það er áberandi hvað botninn er skafinn hér og hvað jarðlögin koma greinilega fram sem línur með norðaustur stefnu.  Þetta eru að öllum líkindum forn blágrýtislög, eins og bergið í grunni Snæfellsness og eyjum Breiðafjarðar.  Vestast á myndinni, um 20 km norðvestur af Jökli, er svæði með allt aðra og óreglulega áferð botnsins.  Er það  einfaldlega framhald blágrýtismyndunarinnar eða er það ef til vill ungt gosberg, tengt gosbelti Snæfellsness?  LGM kortEf til vill finna sjómenn “hraun” botn hér?  Rauða línan á kortinu sýnir staðsetningu þversniðs, sem sýnt er efst á myndinni.  Takið eftir hvað botninn er úfinn. Alun Hubbard og félagar (Quaternary Science Reviews 2006) hafa notfært sér upplýsingar um útbreiðslu jökulsins á hafsbotni þegar ísöldin náði hámarki og gert líkan af útbreiðslu jökulskjöldsins yfir og umhverfis Ísland.  Það er sýnt á seinni myndinni, í líkani sem á við Íslandssvæðið fyrir um 21 þúsund árum.  Á myndinni eru sýnd ytri mörk jökulsins á landgrunninu og einnig útlínur Íslands við hæð, sem samsvarar sjávarmáli þá, samkvæmt líkani þeirra.  Það gefur því góða mynd af því hvað jarðskorpan seig mikið undir fargi íssins.  Hvítir blettir á Tröllaskaga og Flateyjarskaga sýna svæði eða jökulsker, sem hugsanlega stóðu uppúr jöklinum.


Hetjan mín er Árni Thorlacius

ÁrniÉg er fæddur í Norska Húsinu í Stykkishólmi og þar ólst ég upp.  Forvitni mín um ævi og störf Árna Thorlacíus (1802-1891) er því eðlileg, en hann reisti þetta merka hús milli 1828 og 1832 og bjó þar til dauðadags. Það er elsta tvílyfta húsið á Íslandi.  Árni var af ætt útgerðarmanna og kaupmanna.   Faðir hans, Ólafur Thorlacíus, var einn umfangsmesti kaupmaður á Íslandi í lok átjándu aldar.  Einnig stundaði hann stórútgerð. Hann lét til dæmis eitt skipa sinna sigla beint með saltfiskfarm til Spánar en hin sigldu með kaupstaðavörur til Kaupinhafnar.  Vegna dugnaðar hans hófst Bíldudalsfiskur til vegs og virðingar á mörkuðum erlendis.   Árið 1807 festi Ólafur kaup á Stykkishólmsverslun og reiddi kaupverðið út í hönd: 5622 ríkisdali.  Hann lést skyndilega árið 1815 á besta aldri.  Þá voru eignir hans taldar 100,000 ríkisdalir silfurverðs.  Tveir synir hans, ómyndugir, tóku nú við auðnum.  Bogi Benedictsen hafði starfað sem factor fyrir Ólaf Thorlacíus og eftir andlát Ólafs tók hann við rekstrinum fyrir hönd ekkjunnar og hinna ungu sona.  Árni var því kaupmannssonur, sem hafði úr miklum auði að spila. Hann var settur til mennta í Danmörku og Noregi, í tungumálum, verslunarmennsku og skipstjórnar- og siglingafræðum.  Hann var því menntaður sem endurreisnarmaður og vel falinn til að stýra verklegum framförum.  Árni var sendur fyrst til náms í menntaskóla í Kaupmannahöfn árið sem faðir hans deyr, 1815.  Í þessum sama skóla var spekingurinn Georg Brandes síðar við nám.  Árni útskrifast árið 1818, aðeins 16 ára.  Þá snýr hann til Björginar í nám í sjómannafræðum og tók stöðu sem sjómaður í siglingum milli Noregs og Danmerkur um tíma.  Árið 1821 er hann kominn með skipstjóraréttindi, einn af mjög fáum Íslendingum á þeim tíma. Árni var nú fær að stýra sínum eigin hafskipum milli Íslands og Evrópu.  En hann var einnig bæði vísindamaður, heimsborgari, kaupmaður, bóndi, farmaður og áhugamaður um fornminjar og sögu landsins.  Þarna togast á sjómennskan, fræðin og bóndinn.   Árni var talinn hreystimenni, sægarpur og mikill á velli.  Myndin sem fylgir er tekin á efri árum hans.  Hann var skotfimur  og einnig skutlari, sem var flínkur við selveiðar og í návígi við hvali.   Hann var einn af stofnendum lestrarfélags í Stykkishólmi árið 1841 og síðar varð úr því Amtsbókasafn árið 1847 eða Bókasafn Vesturamtsins.  Bókasafnið var til húsa fyrst um sinn í Norska Húsinu.  Árni var einnig öflugur í sjálfstæðisbaráttunni og starfsemi hans var hluti af félagsvakningu og sjálfstæðishrefingu Jóns Sigurðssonar.   Milli Árna og Jóns barst mikill fjöldi sendibréfa um ýmiss málefni.   Hann studdi einnig við skáld og rithöfunda, sem áttu erfitt uppdráttar, einkum þau Sigurð Breiðfjörð og Júlíönu Jónsdóttur.  Í nóvember árið 1845 hefur Árni veðurathuganir og byrjar að halda veðurbók sína, sem nú er á Þjóðminjasafni.   Hann mældi í fyrstu bæði hita og loftþrýsting nokkurm sinnum á dag, en  árið 1856 hóf hann einnig úrkomumælingar og sjávarhitamælingar ári síðar.  Það er almennt talið að mælingar Árna í Stykkishólmi mega réttilega teljast hornsteinn íslenska veðurstöðvakerfisins.  Þær eru einnig ómetanlegur þáttur í heildarmynd veðurlags á Norður Atlantshafi til lengri tíma.  Árni hélt áfram reglubundnum veðurathugunum til ársins 1889, en þá tók sonur hans við.  Síðan hafa veðurathuganir verið gerðar í Stykkishólmi óslitið.


Steinblómin í Drápuhlíðarfjalli

dendrítÞegar ég var að alast upp í Stykkishólmi gafst mér stundum tækifæri til að sjá stein, sem átti hug minn allan. Þetta var nokkuð stór steinn úr Drápuhlíðarfjalli, sem stillt var upp í stofu þeirra hjóna Sigurðar Ágústssonar og Ingibjargar Helgadóttur í Clausenshúsi.  Yfirborð steinsins var eins og heill blómagarður, þar sem brúnar greinar kvíslast og breiðast út.  Allir sem skoðuðu steininn voru á einu máli um að hér væru steingerðar plöntur.  Að vísu finnast plöntusteingervingar í Drápuhlíðarfjalli, og jafnvel steinrunnin tré, 4 milljón ára gömul.  En steinblómin þeirra Sigurðar og Ingibjargar eru ekki steingervingar, heldur kristallar af mángan oxíði.  dendrítSteinninn er alveg jafn fagur og merkilegur fyrir það, en skreytingin er ekki af lífrænum uppruna.  Steinninn mun hafa fundist þegar gullleitin var gerð í Drápuhlíðarfjalli árið 1939.  Síðan hef ég rekist á nokkra steina af svipaðri gerð í fjallinu, en þó engan jafn stóran og fagran. Hér með fylgja nokkrar myndir af þeim.  Mángan oxíð kristallar með þetta form eru nefndir dendrítar vegna þess að þeir skifta sér sífellt í ýmsar greinar í vexti.  Með því myndar kristallinn einskonar blað, sem líkist helst margskiftu laufblaði af burkna.  dendrítSennilega berst mángan oxíð upp í sprungur í berginu með jarðhita og við vissar aðstæður fellur vökvinn út MnO2 og myndar kristalla af ýmsum tegundum af mangan oxíði, eins og hollandít, romanechit, cryptomelan og todorokít. 


Þegar Bjarnarhafnarfjall var eyja

BjarnarhafnarfjallBjarnarhafnarfjall (574 m) stendur stakt á norðanverðu Snæfellsnesi. Meiri hluti fjallsins er myndaður á Tertíer tíma, mest úr blágrýti eða stafla af basalt hraunlögum, sem eru um 5 til 6 miljón ára gömul.  Í suðvestur hluta fjallsins eru myndanir úr líparíti og andesíti, sem tilheyra hinni fornu Setbergseldstöð í Eyrarsveit fyri vestan. Utan í Bjarnarhafnarfjalli er allstór móbergsmyndun í Kothraunskistu. Hún hefur myndast mun síðar, við gos undir jökli á ísöld. Bjarnarhafnarfjall var áður hluti af samfelldri háslettu blágrytismyndana, sem náðu um Breiðafjörð og Snæfellsnes.  Ísaldarjöklarnir skáru þessa hásléttu í sundur og mótuðu það landslag, sem einkennir svæðið í dag. Þegar ísöldinni lauk var sjávarstaða mun hærri en nú og þá mun Bjarnarhafnarfjall hafa verið eyja, eins og fyrsta mynd sýnir. Það var þá með hæstu og ef til vill stærstu eyjum landsins, yfir 20 ferkílómetrar að flatarmáli.  Fyrir um 3800 árum  opnaðist gossprunga með VNV-ASA stefnu og Berserkjahraun rann, aðallega úr fjórum gígum: Rauðukúlu austast, þá Gráukúlu, Smáhraunskúlum og Kothraunskúlu vestast.  Ekki er vitað hvað gosið stóð lengi, en sennilega var það samfellt. Þó má greina fjögur vel aðskilin hraun. Það fyrsta rann frá Rauðukúlu ( númer 1 á annari mynd)  og er það hraun þynnst, mest þunnfljótandi og ef til vill heitast.  Samkvæmt efnagreiningu virðist Rauðukúluhraun vera mun frumstæðara en yngri hraunin, til dæmis með yfir 13.7% MgO, en hin seinni hraunin eru með um 9.8% MgO.  Næst rann hraun frá Kothraunskúlu, sem er vestast (#2). Það er mun úfnara apalhraun og illt yfirferðar.  Þá rann hraun úr Smáhraunskúlum og fór til vesturs (#3).  Rann það út í Hraunsfjörð og myndaði þrengslin í firðinum, sem nefnd eru Mjósund. Loks kom hraun úr Gráukúlu (#4) og á suður jaðri þess myndaðist Selvallavatn.   Að öllum líkindum var eldvikrni á allri sprungunni frá Rauðukúlu og til Kothraunskúlu í upphafi goss, en síðan þrengdist sprungan og virkni takmarkaðist við þessa fjóra gíga. 

BerserkjahraunÉg tel líklegt að Bjarnarhafnarfjall hafi verið eyja áður en Berserkjahraun rann.  Sennilega var sundið milli fjallsins og Snæfellsness fremur mjótt og mjög grunnt og landslag kann hafa verið líkt og sýnt er á fyrstu myndinni.  


Hvað var jökullinn þykkur?

Þykkt jökulsinsÉg fjallaði hér fyrir neðan um jökulgarðinn á Látragrunni á ísöld.  Íshellan, sem myndaði hann hefur náð allt að 130 km frá landi og líkist því íshellum þeim, sem streyma frá Suðurheimskautinu í dag.  En þessi íshella út úr Breiðafirðinum var botnföst og ekki fljótandi.  Líkön af ísþykktinni byggjast á því að ísinn hagi sér eins og parabóla,  en þykktin er mikið háð því hvað viðnám er mikið milli jökulsins og landsins sem hann fer yfir.  Myndin sýnir nokkrar niðurstöður um ísþykkt, sem Eggert Lárusson (1983) hefur sett fram fyrir Vestfirði.  Hér er jökullinn inn á landi allt að 2 km þykkur, en sennilega um 1,2 km.  Síðan þynnist hann jafnt og þétt úti á landgrunninu, en er alltaf meir en nokkur hundruð metrar (lárétti ásinn er km).


Jökulgarðurinn á Látragrunni segir merka sögu

KattarhryggurÁrið 1975 uppgötvaði Þórdís Ólafsdóttir stóran jökulgarð á Látragrunni.  Garðurinn er um 120 km út af Bjargtöngum, en liggur í boga, sem umlýkur mynni Breiðafjarðar, eins og myndin sýnir (bláa svæðið). Ekki hefur garðurinn fengið formlegt nafn, en hefur ýmist verið kallaður Kattarhryggur eða “brjálaði hryggurinn”.  Sjómenn þekkja hann vel, enda er hryggurinn eitt aðal hrygningarsvæði steinbítsins.  Hryggurinn hefur myndast af risastórum skriðjökli, sem fyllti allan Breiðafjörð og skreið út til vesturs.  Til að hlaða upp slíkum hrygg, þá þarf jökullinn að vera botnfastur. Kattarhryggur er um 100 km á lengd og nær allt suður af Kolluál. Þar endar hann og er það sennilega vísbending um, að þar hafi skriðjökullinn flotið í sjó, enda mikið dýpi hér.  Hryggurinn er um 20—30 m hár og 800-1000  m breiður.  Dýpi umhverfis hrygginn er um 200 m að norðan verðu en dýpkar til suðurs í 250 m skammt frá Kolluál.  Myndin sýnir þversnið af garðinum, sem er brattari að vestan en að austan.

ÞversniðLátragrunn og reyndar nær allt landgrunnið hefur verið myndað á einn hátt eða annan af skriði jökla til hafsins á ísöld.  Garðurinn er ein skýrasta sönnun um það.  En hann minnir okkur vel á hvað ísaldarjökullinn hefur verið duglegur að grafa út landið og móta það landslag, sem við köllum firði í dag. Sjálfsagt hafa verið stór fjöll og sennilega samfelld háslétta fyrir ísöld milli Vestfjarða og Snæfellsness. Stöðug hreyfing skriðjökulsins og útgröftur hans hefur fært ógrynni efnis út á brún landgrunns, þar sem því var sturtað niður í hafdjúpin.  Þessi tröllvaxna jarðýta hefur unnið hægt og stöðugt, en gleymum því ekki, að hún hafði þrjár milljónir ára (alla ísöldina) til að klára verkið og moka út Breiðafjörð.


Gagngata og vörður í Berserkjahrauni


 

GagngataÞrjár götur liggja um Bererkjahraun: Skollagata, Berserkjagata og Gagngata. Síu síðarnefnda liggur frá Hraunsfirði og þvert yfir hraunið til austurs fyrir norðan Gráukúlu.  Forna gatan er nokkurn veginn eins og þjóðvegur  númer 558, sem nú nefnist Berserkjahraunsvegur.  Við vestur jaðar hraunsins hefur verið hlaðið upp töluvert mannvirki fyrr á öldum, til að gera kleift að komast upp í bratt hraunið.   BerserkjavarðaVörður eru mjög áberandi í Berserkjahrauni, enda getur hér legið yfir þoka og slæmt skyggni. En eitt er mjög merkilegt við þessar vörður: þær hafa flestar einskonar vegvísi.  Það er langur og mjór steinn, sem skagar út úr vörðunni miðri og vísar veginn í áttina að næstu vörðu.  Þetta er reyndar mjög skynsamlegt fyrirkomulag.  Í blindbyl er ekki nægilegt að komast bara til næstu vörðu. Ferðamaðurinn þarf einnig að vita í hvaða átt hann á að fara til að finna næstu vörðu.  Þetta er einkum mikilvægt þar sem vegurinn er krókóttur eins og hér.

            Ég hef ekki séð svo merkar vörður annars staðar á ferðum mínum. En vil þó geta þess, að vörður á Skógaströnd hafa einnig vegvísi, til dæmis í grennd við Hvallátur.  Þessi vegvísir er á annan hátt.  Það er ferhyrnt gat í miðri vörðunni, og með því að sigta í gegnum gatið sér maður næstu vörðu, eða alla vega áttina til hennar.

 


Ljósmynd Howells af Hrauni


Howell HraunÉg hef fjallað töluvert um Berserkjahraun hér í blogginu, en hér er ein frábær mynd af gamla bænum.  Um aldamótin 1900 tók breski ljósmyndarinn Frederick W.W. Howell  yfir 400 myndir á Íslandi. Þær eru nú í safni Cornell Háskóla í Bandaríkjunum og aðgengilegar á netinu.  Ein þeirra er merkt þannig í safni Cornell:  “Hraun. Styr's home.  Howell, Frederick W. W.  ca. 1900.”  Styr er að sjálfsögðu Víga-Styrr, sem bjó undir Hrauni eða í Berserkjahrauni.   Fjölskyldan raðar sér upp fyrir ljósmyndarann, með pabba og strákinn á aðra hönd og mæðgurnar við bæjardyrnar.  Húsmóðirin er búin að setja á sig tandurhreina og hvíta svuntu.  Gamli bærinn er að sjálfsögðu alveg eins og á teikningu Collingwoods frá 1897.


Rótað í dys berserkjanna


 

Að öllum líkindum hefur verið grafið einhvern tíma í flestar ef ekki allar fornar grafir, dysjar og hauga á Íslandi.  Á mestu niðurlæginartímum þjóðarinnar hafa heimamenn sjálfsagt leitað í  fornar grafir í von um fjársjóði eða haugfé.  Á síðari tímum var það rómantíkin um fornmenn og sögutímann, sem kynti undir, einkum meðal erlendra ferðamanna.  Þannig rótaði bretinn W Collingwood í ýmsum gröfum á sögustöðum í lok nítjándu aldar og með fulltingi dr. Jóns Stefánssonar.

Dys berserkjanna hefur einnig orðið fyrir mörgum árásum.   Sú fyrsta sem við vitum um er í lok átjándu aldar, þegar Hallgrímur læknir Bachmann (1740-1811) í Bjarnarhöfn  fór í dys berserkjanna og kom heim með mannabein.  Bachmann, sem var rúmar 3 álnir (yfir 190 cm) á hæð, mældi einn lærlegginn við sig og taldi að berserkurinn hefði ekki verið eins hár og hann.  Þetta hefur Ólafur Thorlacíus í Stykkishólmi eftir kerlingunni Prjóna-Siggu, sem var í vist hjá Hallgrími í Bjarnarhöfn.

Ólafur Thorlacius “observator” (1837-1920) lýsir dys berserkjanna sem 3 álna hárri, og rétt við götuna. Vani er að allir sem ríða framhjá kasta steini í dysina og þessi vegur var mjög fjölfarinn þegar kauptún var í Kumbaravogi hjá Bjarnarhöfn.  Sumarið 1875 fór Ólafur frá Stykkishólmi við áttunda mann út í hraun og byrjuðu þeir að rjúfa dysina. Þegar þeir voru um það bil hálfnaðir gerði sunnan rok og rigningu og verkinu var því hætt.   Ólafur fór aftur að dysinni og gróf frekar og þá fundu þeir bein, sem Hjörtur Jónsson læknir sagði vera hvalbein. Síðan var dysin hlaðin upp. 

Sigurður Vigfússon forni (1828-1892) kannaði Berserkjahraun í ágúst árið 1889. Snæfellski fræðimaðurinn Þorleifur J. Jóhannesson (1878-1944) hefur það eftir Kristjáni Þorleifssyni að Sigurður forni hafi skilið við dysina sundurtætta.  Kristján var unglingur í Bjarnarhöfn þegar Sigurður forni var á ferð, en Kristján mun hafa lagfært og endurhlaðið dysina.  

Árið 1897 fór W.G. Collingwood hér um, en ekki eru heimildir um hvort hann gróf í dysina. Hins vegar rifu hann og dr. Jón Stefánsson upp gröf Guðrúnar Ósvífursdóttur  á Helgafelli í júní 1897 og voru fyrir vonbrigðum með að  finna aðeins fúnar spýtur og gömul bein. 


Byrgi í Berserkjahrauni

 

Undir Hrauni

Eyrbyggja segir svo um þriðju þraut berserkjanna:    … og gera byrgi hér fyrir innan hraunið.”   Hvað er byrgi þetta og hvar er það?  Björn Jónsson (1902-1987)  bóndi á Innri-Kóngsbakka var fróður maður og skráði örnefni í sinni sveit.  Björn taldi Krossrétt vera byrgi berserkjanna.  Ég tel að svo sé ekki, enda hafði Sigurður forni áður bent á  aðrar og miklu líklegri rústir sem hið forna byrgi.

Eyðibýlið Berserkjahraun eða “undir Hrauni” stendur við austur jaðar Berserkjahrauns, en það hefur verið í eyði síðan árið 1953.  Íbúðarhúsið er steypt árið 1944 en er nú komið að hruni.  Spörfuglar gera sér nú hreiður uppi í hillum og skápum.  Til er teikning frá 1897 af bænum undir Hrauni eftir W.G. Collingwood (1854-1932), sem sýnd er hér fyrir ofan.  Bæjarhúsin standa þá á hól við hraunjaðarinn, og umhverfis eru fjögur eða fimm útihús. Í bakgrunni er Bjarnarhafnarfjall, svo myndin er gerð í norðvestur átt.  Collingwood var  hér í för með dr. Jóni Stefánssyni lækni.  Um dys berserkjanna segir Collingwood: “Hún var opnuð fyrir nokkrum árum og þar fundust mjög stór bein.”   Gamli torfbærinn var í notkun allt til 1944.

Á undan Collingwood ferðaðist hér um hraunið sá sérkennilegi maður Sigurður forni Vigfússon (1828-1892).  Hann var sjálfmenntaður fornleifafræðingur, sem sá um ForSigurður forningripasafnið á lofti Dómkirkjunnar í Reykjavík.  Hann átti til að bregða sér í fornmannabúning, eins og myndin sýnir.  Af hverju gera starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands ekki slíkt hið sama í dag?  Of mikill Disney World stíll fyrir þeirra smekk?

Í Árbók Fornleifafélagsins sem kom út árið 1893 skrifar Sigurður um Berserkjahraun.  Hann lýsir stórum tóftum (67 og 47 fet á lengd) í grennd við bæinn undir Hrauni og telur aðra þeirra vera kirkju sem Styrr lét reisa og hina rústina af fornum skála.  Handan við Hraunlæk er stór kriki inn í hraunið og nefnist krikinn Tröð.  Hér telur Sigurður að finna megi “gerði” berserkjanna.   Sennilega á hann hér við byrgið, sem minnst er á í Eyrbyggju.  Gerðið telur Sigurður vera meir en 50 faðmar á kannt og ferskeytt.  Veggir, sem nú eru fallnir, voru ákaflega breiðir og hlaðnir úr grjóti og torfi.  

En Sigurður tekur einnig eftir mikilli “grjóttóft” í suðaustur horni gerðisins og vil ég draga athygli lesendans einkum að henni.   Hún er hlaðin í hraunbrúninni og nýtir að nokkru leyti stór björg í hrauninu sem vegg.  Tóftin er um 7 m á lengd og um 4 m á breidd.  En tveir veggir tóftarinnar eru hlaðnir úr óvenju stórum hraunbjörgum, eins og myndin sýnir.  Ljósa stikan er 1 m á lengd.  Hér eru björg sem eru meir en meter í þvermál og hefur þeim verið lyft upp í vegg á einhvern hátt. Er þessi svokallaða grjóttóft í reynd byrgið sem nefnt er í Eyrbyggju?  Það er ekki ólíklegt, en Sigurður forni segir að lokum: “Hér  er auðsjáanlega stórkostlegt mannvirki frá fornöld, og getur enginn efi á verið, að það sé gerði berserkjanna.”   Var þetta stórskorna byrgi notað sem fiskibyrgi, og hver var tilgangur með hinum miklu hlöðnu veggjum, sem Sigurður greinir frá?  Fræðimaðurinn Þorleifur Jóhannesson er sammála Sigurði forna um þessa túlkun í skýrslu, sem hann samdi fyrir Örnefnastofnun.

BerserkjabirgiÞað er fleira sem vert er að minnast á í sambandi við býlið undir Hrauni.  Uppi á hraunbrúninni rétt fyrir vestan bæinn eru fimm eða sex gömul fiskibirgi.  Þau eru hlaðin úr stórum hraunstykkjum, og gisið á milli, eins og venja var í gerð fiskibyrgja. Slík byrgi eru vel þekkt hjá Gufuskálum undir Jökli, þar sem á annað hundrað birgi hafa fundist, og einnig víða á Reykjanesi, til dæmis við Ísólfsskála, Grindarvík og víðar.  Fiskibyrgi eiga eitt sameiginlegt: þau eru öll hlaðin á hrauni, þar sem sótt var til sjávar.   Svo var einnig hér, því fyrir norðan býlið Hraun er Hraunsvík. Þaðan var róið frá Hrauni á Breiðafjörð til fiskjar.  Fiskur var fyrrum verkaður og þurkaður á staðnum.  Fiskurinn var flattur eins og saltfiskur, en síðan lagður til þerris á þurrkgarða, helst á hrauni. Síðan var fiskurinn lagður í byrgi og geymdur þannig yfir veturinn. Á vori var fiskurinn tekinn úr byrgjunum og lagður á garðana þar til honum var pakkað til að flytja í skútur sem komu erlendis frá til að kaupa fisk eða skreið.  Sennilega hafa slíkar enskar skútur legið í Kumbaravogi (Cumberland Bay?), sem er fyrir framan Bjarnarhöfn. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband