Færsluflokkur: Snæfellsnes

Maðurinn sem kleif Kerlinguna

KerlinginÁður fyrr lá bílvegurinn norður fyrir Snæfellsnes um Kerlingarskarð. Það var margt ógleymanlegt sem maður sá á þeirri leið, en ef til vill var það ætið mest spennandi að koma auga á Kerlinguna, sem trjónaði efst í Kerlingarfjalli, austan skarðsins. Hún er einstakur móbergsdrangur, sem er tengdur vinsælli þjóðsögu. Þetta kventröll mun hafa verið við veiðar í Baulárvallavatni alla nóttina, enda er hún með stóra silungakippu á bakinu. Á leið sinni heim eftir veiðitúrinn mun hún hafa tafist nokkuð og dagaði þá uppi í orðsins fyllstu merkingu. Hún varð að steini strax og fyrstu sólargeislarnir náðu að skína á hana á háfjallinu. Hér með fylgir ljósmynd af Kerlingunni, sem RAX tók nýlega. Ég stend þar við pilsfaldinn, hægra megin við Kerlinguna og má hér greina út frá stærðarhlutföllunum að Kerlingin er um 21 meter á hæð. Margir hafa klifið upp að rótum kerlingarinnar, efst á Kerlingarfjalli, enda er það nokkuð greiðfær leið beint upp af Kerlingarskarði. En aðeins einn maður hefur klifið Kerlinguna sjálfa. Það var árið 1948, sem Ágúst Bjartmarz fór úr Stykkishólmi með félögum sínum og upp í Kerlingarfjall. Þar tókst Ágústi að kasta reipi upp yfir hausinn á Kerlingunni, og kleif síðan alla leið upp. Þetta hefur enginn leikið eftir síðan, enda sérstakt afrek. En Ágúst er einginn venjulegur fjallgöngumaður, heldur mikill íþróttamaður.  Ágúst BjartmarzHann var til dæmis sex sinnum Íslandsmeistari í badminton, enda átti Stykkihólmur heiðurinn af því að innleiða þessa íþrótt á Íslandi. Ágúst er enn vel ern, þótt hann sé orðinn 88 ára. Hér með fylgir mynd af Ágústi, tekin í heimsókn hans í Eldfjallasafn í Stykkishólmi í dag.

Hraunkúlur

Hraunkúla RauðakúlaÖðru hvoru rekst maður á risastórar kúlur í grennd við eldfjöll, eins og þessa myndarlegu kúlu á myndinni til hliðar. Þessi kúla, sem er um 5 metrar á hæð og um 10 metra löng, er rétt sunnan við gjallgíginn Rauðukúlu (917 m) eða Miðhraunskúlu í Ljósufjöllum á Snæfellsnesi. Lengi var haldið, jafnvel meðal jarðfræðinga, að slíkar kúlur hefðu kastast eins og risavaxnar fallbyssukúlur upp úr gígum, borist langa leið í loftinu og skollið síðan til jarðar. Einn þekktur eldfjallafræðingur benti á slíkar kúlur í grennd við eldfjallið Arenal í Costa Rica eftir gosið mikla 1968, og reiknaði út að krafturinn sem þurfti til að skjóta þeim út úr gíginum var ótrúlegur. Hann beitti þeim reikningum til að sýna að kúlurnar hefðu verið á hraða sem nemur 600 m á sekúndu, og reyndi að sanna út frá þessu stærð gossins. En þetta er einfaldlega rangt. Kúlur sem þessi í grennd við Rauðukúlu fljúga ekki frá eldfjallinu eins og fallbyssukúlur, vegna sprengikrafts gossins, heldur rúlla þær niður hlíðarnar og er hreyfikraftur þeirra því aðeins þyngdarlögmál jarðar.  Hraunkúla LjósufjöllÞegar líða tók á gosið var gígurinn orðinn mjög hár, en hraun safnaðist saman í gígnum þar til það tók að renna yfir gígbrúnina. Hlíðin sem hraunið rann niður var þá svo brött að hraunið festist lítt eða ekki við hlíðina heldur tók að hrynja niður brattann. Þá tóku hraunflygsur að hlaða meira hrauni utan á sig, alveg á sama hátt og snjóbolti stækkar við að rúlla niður brekku. Að lokum var kúlan orðin risastór þegar hún stöðvaðist við rætur gígsins fyrir utan. Samanburðurinn við rúllandi snjóbolta er einmitt ágætur og skýrir fyrirbærið mjög vel. En stundum rekst maður á tilfelli í hlíðum eldfjalla þar sem risastórar rúllur eru algengari en kúlur af þessu tagi. Besta dæmið um hraunrúllur, sem ég hef séð á jörðu er í hlíðum Hestöldu fyrir norðaustan Heklu. Hér eru risastórar rúllur, í laginu eins og rúllutertur, undir hlíðum öldunnar, og hafa myndast á sama hátt og kúlan á myndinni. Sem sagt: kúlur og rúllur hafa ekkert að gera með sprengikraft gossins, heldur eru tengdar því að hraun berst niður mjög brattar hlíðar gígsins. Reyndar geta þær skoppað og hoppað ef hraði þeirra verður mikill, og þannig myndað litlar dældir eða gígi í landslagið, en þetta eru ekki fallbyssukúlur sem skjótast upp úr gígnum.

Jarðhiti í Kerlingarskarði


HitastigullSamkvæmt mælingum Orkustofnunar liggur jarðhitasvæði í norðaustur átt, frá Snæfellsnesi og yfir Breiðafjörð, eins og myndin sýnir.   Hér á kortinu er sýndur hitastigull jarðskorpunnar, þ.e.a.s. hversu hratt hitinn vex með dýpi, byggt á jarðborunum.  Þannig er hitastigull á rauða svæðinu um og yfir 100 stig á hvern kílómeter í dýpinu. Þetta er lághitasvæði, en er þó vel vinnanlegt fyrir byggðarfélögin, eins og hitaveitan í Stykkishólmi sýnir vel.  Á nokkrum stöðum sést hitinn  á yfirborði, og einn af þeim er í Kerlingarskarði.  Í mynni Ófærugils, á eystri bakka Köldukvíslar er jarðhitasvæði sem er um eitt hundrað metrar á lengd, og stefnir í norðaustur.  Svæðið er rétt austan við gamla veginn um Kerlingarskarð, fast sunnan við Gæshólamýri. Hér eru nokkrar volgrur, þar sem vatn streymir upp og er hitinn í flestum um 13 til 18 stig, en sú heitasta er 21.9 stig.  Umhverfis heitu augun er marglitt og skrautlegt slý, sem einkennir flest jarðhitasvæði, en einnig er töluvert um hverahrúður, sem erJarðhiti Ófærugil sennilega kísilhrúður að mestu leyti.  Hafa myndast lágar bungur af hverahrúðri umhverfis volgrurnar. Þetta hverasvæði er sennilega í landi Hjarðarfells, en ekki er mér kunnugt um að hér hafi verið gerð ítarleg rannsókn né jarðboranir.  

Nýtt erindi: Skjálftavirkni undir Snæfellsjökli

ErindiLaugardaginn 28. apríl kl. 14 held ég erindi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Efnið eru nýar niðurstöður um jarðskjálftavirkni undir Snæfellsjökli. Aðgangur er ókeypis.

Dýpi skjálfta undir Jöklinum

Styrkleiki jarðskorpunnarFyrstu niðurstöður um dreifingu jarðskjálfta undir Snæfellsjökli sýna, að þeir eru aðallega á dýpinu 9 til 13 km og mest 28 km. Þetta er tiltölulega djúpt og þess vert að velta fyrir sér frekar hvað kann að vera að gerast undir Jöklinum. Jarðskjálftar gerast fyrst og fremst þegar berg eða jarðskorpa brotnar, en einnig kunna þeir að vera af völdum kvikuhreyfinga, alveg eins og titringur sem verður stundum í vatnslögnum í húsinu hjá þér. Styrkleiki jarðskorpunnar er breytilegur eftir dýpi. Fyrsta myndin sýnir styrk jarðskorpu, ekki endilega undir Íslandi, en þetta er gott dæmi. Styrkurinn eykst með dýpinu að vissu marki. Þessi aukning á styrk er tengd þrýstingi, sem þjappar og gerir bergið þéttara og sterkara, lokar glufum og sprungum. En fyrir neðan viss mörk (brittle-ductile transition) verður bergið veikara, fyrir neðan 15 km dýpi í þessu tilfelli. Styrkleiki bergsins minnkar hér vegna vaxandi hita, og heldur áfram að minnka með dýpinu þar til bergið byrjar að bráðna. Það er viðbúið að mikið af skjálftum eigi upptök sín á því svæði þar sem bergið er sterkast. Það er búið að brotna fyrir ofan og neðan, en harðasti parturinn heldur lengst, þar til hann brestur líka. Á þetta við um Snæfellsjökul? Eru þessir skjálftar á 9 til 13 km dýpi einmitt á þessum púnkti í jarðskorpunni? Eða eru þeir vegna kvikuhreyfinga? Skjálftinn sem mældist á 28 km dýpi er sennilega of djúpur til að orsakast af því að skorpa brotnar, og ef til vill vegna kvikuhreyfinga í dýpinu. Jarðefnafræðingar hafa rannsakað hraunin úr Snæfellsjökli, og eru þær rannsóknir komnar miklu lengra á veg heldur en könnun á jarðeðlisfræði Jökulsins. Sjá blogg mitt um það efni hér. http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/991763/  Kvikuhólf undir JöklinumGögnin um jarðefnafræðina sýna að það er eða hefur verið þar til nýlega ein eða fleiri kvikuþrær undir Jöklinum, eins og myndin sýnir. Hugsanlega verður hægt í framtíðinni að áætla dýpið á kvikuþrónni út frá bergfræðirannsóknum á hraununum, en efnasamsetning þeirra er nokkuð háð dýpinu þar sem kvikan myndast eða þar sem kvikan dvaldist síðast í jarðskorpunni.

Jarðskjálftar undir Snæfellsjökli kalla á skjálftamælanet

Ég hef fjallað áður hér um nauðsyn þess að setja upp jarðskjáftanet á Snæfellsnesi http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1198670/

Nú eru komin fram gögn sem sýna að það er skjálftavirkni í gangi undir Jöklinum og við vitum bókstaflega ekkert um hvað er að gerast hér í jarðskorpunni, hvorki undir Ljósufjöllum né undir Snæfellsjökli. Gögnin koma frá nokkrum jarðskjálftamælum sem Matteo  Lupi and Florian Fuchs frá Bonn háskóla í Þýskalandi settu upp í um tveggja mánaða bil á nesinu í fyrra sumar. Þá kom fram jarðskjálfavirkni bæði undir Ljósufjöllum og Jöklinum. Rauðu hringirnir á myndinni fyrir ofan sýna staðsetningu jarðskjálfta á þessum tíma.  Þeir eru dreifðir mest á um 9 til 13 km dýpi, og flestir beint undir jöklinum. Nú er ljóst að Veðurstofu Íslands ber skylda til að setja upp varanlegt net af jarðskjálftamælum á Snæfellsnesi, sem nær bæði yfir Ljósufjöll og Snæfellsjökul.  Það er rétt að benda á rétt einu sinni í viðbót, að Ljósufjöll hafa verið virk eldstöð eftir landnám (Rauðhálsahraun um 900), en Jökullinn hefur sennilega ekki gosið í um 1750 ár.  


Vantar Jarðskjálftamæla á Snæfellsnesi

10jul2011Það er stórt gat í jarðskjálftamælaneti Íslands. Gatið eru Vestfirðir og allt Snæfellsnes, en hér eru engir mælar. Við vitum nær ekkert um skjálftavirkni á svæðinu, og aðeins skjálftar sem eru af stærðinni 2 eða stærri mælast nú inn á landsnetið sem Veðurstofan rekur. Næsta varanlega jarðskjálftastöðin sem Veðurstofan rekur er í Ásbjarnarstöðum í Borgafirði. Í sumar var gerð fyrsta tilraun með fimm skjálftamæla á Snæfellsnesi af jarðeðlisfræðingnum Matteo Lupi við háskólann í Bonn í Þýskalandi. Hann mældi skjálfta á Snæfellsnesi frá 20. júní til 25. júlí 2011. Hann setti upp fjórar stöðvar umhverfis Snæfellsjökul, og eina í Álftarfirði, í grennd við megineldstöðina Ljósufjöll. Lupi og félagar eru enn að vinna úr gögnunum, en það kom strax í ljós, að staðbundnir skjálftar mældust, sem eiga upptök sín undir Snæfellsnesi, bæði í Álftafjarðarstöðinni og umhverfis Jökul. Myndin sem fylgir sýnir til dæmis staðbundinn skjálfta sem varð undir Snæfellsjökli hinn 10. júlí. Slíkir smáskjálftar geta veitt okkur miklar upploýsingar um eðli og hegðun eldfjalla á Nesinu. Sjá hér varðandi fyrra blogg mitt um þetta mikilvæga mál: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1051312/

Jarðvangur á Snæfellsnesi

Frá nátturunnar hendi er Snæfellsnes kjörið til þess að þar verði stofnaður jarðvangur. Á Nesinu er ótrúleg fjölbreytni jarðmyndana og náttúrufyrirbæra af ýmsu tagi, og má með réttu segja að hér finnist á tiltölulega vel afmörkuðu svæði nær allar tegundir bergtegunda sem Ísland hefur uppá að bjóða. Á undanförnum árum hafa jarðvangar (jarðminjagarðar eða geoparks) verið stofnaðir um allan heim. Það eru nú 77 jarðvangar í 25 löndum, og þeim fer stöðugt fjölgandi. Jarðvangur er svæði, sem nær yfir merkilega jarðfræðilega arfleifð og sýnir þætti í náttúru, sögu og menningu, sem eru mikilvægir fyrir sjálfbæra þróun lands. Aðal tilgangur jarðvangs er að benda á mikilvægi svæðis, að beina náttúruunnendum inn á svæðið og þar með að styrkja ferðaþjónustu. Jarðvangur er ekki verndað svæði, en telja má, að með viðurkenningu á mikilvægi svæðisins fylgi betri umgengni og aukin virðing fyrir gæðum þess. Forgöngumennirnir fyrir hugmyndinni um jarðvang voru jarðfræðingar og þeir fyrstu voru stofnaðir í Evrópu. Innan Evrópu eru sérstök samtök – European Geopark Netvork. Utan um alþjóðlega þróun jarðminjagarða heldur Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNESCO). Nú er búið að stofna fyrsta jarðvanginn á Íslandi: Katla Geopark Project á Suðurlandi og hann hefur þegar fengið aðild að Evrópusamtökunum og vottun UNESCO. LjósufjöllHér leggjum við fram tillögu um þróun jarðvangs á Snæfellsnesi. Hugmyndin um jarðvang á Snæfellsnesi getur verið einn mikilvægur þáttur í varnaráætlun til að stemma stigu við fólksfækkun í þessum byggðakjörnum. Á Snæfellsnesi búa um fjögur þúsund manns, en fólksfækkun á svæðinu var um 5% á tímabilinu 2001–2010. Ekki er þó þróun mannfjölda alveg eins í öllum bæjarfélögum á Nesinu. Á tímabilinu 1994 til 2003 var til dæmis breyting á mannfjölda í einstökum bæjarfélögum á Snæfellsnesi sem hér segir: Kolbeinsstaðahreppur -11,0% , Grundarfjarðarbær 3,9%, Helgafellssveit -30,7%, Stykkishólmur -7,8% , Eyja- og Miklaholtshreppur -12,2% , Snæfellsbær -5,7%. Nú er brýn nauðsyn að vinna að þróun svæðisins í heild ogleita nýrra leiða til þess að stemma stigu við hinni miklu fólksfækkun sem hér er greinilega í gangi. Líklega er enginn atvinnuvegur sem getur vaxið jafnhratt á Snæfellsnesi og skapað jafnmörg ný störf á næstu misserum eins og ferðaþjónustan. Sem gjaldeyrisskapandigrein, þá er ferðaþjónustan og tekjur af erlendum ferðamönnum mikilvægur þáttur í efnahag landsins. Í dag skapar íslensk ferðaþjónusta meir en 20% gjaldeyristekna þjóðarbúsins, og undanfarin ár hefur hlutur ferðaþjónustu verið á bilinu 15 til 22% af heildarútflutningstekjum Íslands. Alls vinna nú um 9000 íslendingar við ferðaþjóustu eða í tengdum störfum. Skoðanakannanir sýna, að langvinsælasta afþreying erlendra ferðamanna á Íslandi er náttúruskoðun, gönguferðir og fjallgöngur, og einnig að minnisstæðasti þáttur dvalar þeirra hér á landi er náttúran og landslagið. Á Vesturlandi hefur ferðaþjónustan vaxið undanfarin ár. Á níu ára tímabilinu frá 1998 til 2008 hefur gistinóttum til dæmis fjölgað um meir en 200% á öllu Vesturlandi. Þessi fjölgun er töluvert yfir landsmeðaltali og lofar góðu um framtíðina, en ekki er enn ljóst hvort fjölgunin á Snæfellsnesi er sambærileg við þá sem mælst hefur á öllu Vesturlandi. Það má segja að undirbúningur fyrir vistvæna og sjálfbæra ferðaþjónustu á Snæfellsnesi sé þegar kominn í góðan farveg. Eins og kunnugt er hefur Snæfellsnes hlotið nýlega vottun frá hinum alþjóðlegu vottunarsamtökum Green Globe sem votta sjálfbæra ferðaþjónustu um allan heim. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull dregur stöðugt fleiri ferðamenn inn á svæðið. Einnig er nú rekin fræðandi ferðaþjónusta (educational tourism) umhverfis allt Nesið sumar hvert, en það eru eins dags fræðsluferðir í jarðfræði og sögu á vegum Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Jarðvangur er svæði, sem nær yfir merkilega jarðfræðilega arfleifð og þætti í náttúru og menningu, sem eru mikilvægir fyrir sjálfbæra þróun lands. Jarðvangur skal ná yfir svæði, sem er nægilega stórt til að leyfa hagnýta þróun þess. Innan jarðvangs skal vera nægilegur fjöldi af jarðfræðifyrirbærum, hvað snertir mikilvægi fyrir vísindin, eru sjaldgæf, og túlka til fegurðarskyns og mikilvægis fyrir menntun. Mikilvægi jarðvangs getur einnig verið tengt fornminjum, vistfræði, sögu eða menningu. Jarðvangur skal vinna samhliða að verndun svæðis og hagnýtri þróun þess í sjálfbæru jafnvægi, einkum fyrir ferðaþjónustu. Rekstur jarðvangs skal fara fram á þann hátt, að verndun, sjálfbær og hagnýt þróun sé í fyrirrúmi. Hvorki rýrnun, sala eða eyðilegging jarðminja og náttúrulegra verðmæta skal á nokkurn hátt vera leyfileg. Jarðvangur skal taka virkan þátt í efnahagslegri þróun svæðisins með því að styrkja ímynd sína og tengsl við ferðaþjónustu. Jarðvangur hefur bein áhrif á svæðið með því að bæta afkomu íbúa þess og umhverfið, en stofnun jarðvangs gerir ekki kröfur um lagalega verndun. Það er eðlilegt frá náttúrunnar hendi að allt Snæfellsnes myndi einn jarðvang. Á Snæfellsnesi mun Eyja- og Miklaholtshreppur gera ráð fyrir jarðvangi í aðalskipulagi sem nú er í auglýsingaferli og verður bráðlega staðfest. Helgafellssveit mun væntanlega einnig gera ráð fyrir því í fyrirhuguðu aðalskipulagi að jarðvangur geti verið innan marka hennar. Landfræðilega kemur einnig til greina að nærliggjandi svæði s.s. fyrrum Skógarstrandarhreppur, nú í Dalabyggð, fyrrum Kolbeinsstaðahreppur, nú í Borgarbyggð og Stykkishólmsbær, verði innan marka hugsanlegs jarðvangs á Snæfellsnesi og fleiri svæði koma einnig til greina. Tenging Jarðvangs við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul er fullkomlega eðlileg og raunar æskileg. Í Stykkishólmi eru stofnanir eins og Náttúrustofa Vesturlands, Háskólasetrið og Eldfjallasafn, sem munu hafa mikla þýðingu fyrir starfssemi jarðvangs. Þessi sveitarfélög á innanverðu Snæfellsnesi gætu í góðu samstarfi við nærliggjandi byggðir, byggt upp áhugaverðan jarðvang að fyrirmynd European Geopark Network og stuðlað þar með að aukinni ferðamennsku innan svæðisins. Á Snæfellsnesi er að finna mjög fjölbreyttar jarðminjar og aðrar náttúruminjar. Fjölbreytileikinn felst í mismunandi gerð eldstöðva og hrauna, ölkeldum og áhugaverðri jarðsögu, fornum býlum og landnámsjörðum. Þrjár megineldstöðvar hafa skapað fjallgarðinn sem liggur eftir Snæfellsnesi endilöngu, frá austri til vesturs. Austast er megineldstöðin Ljósufjöll, sem reyndar nær alla leið frá Grábrók, um Hnappadal og vestur til Berserkjahrauns, alls 90 km leið. Myndin af Ljósufjöllum hér fyrir ofan er tekin af Söndru Dögg Björnsdóttur. Um mitt Nesið er lítt þekkt megineldstöð sem hefur verið nefnd Lýsuskarð, og vestast er sjálfur Snæfellsjökull, sem hefur fengið verðskuldaða viðurkenningu sem þjóðgarður. Auk þess er þetta skrifar eru meðlimir í vinnuhópi um stofnun jarðvangs á Snæfellsnesi þessir: Reynir Ingibjartsson frá Hraunholtum í Hnappadal, Sturla Böðvarsson, Stykkishólmi og Skúli Alexandersson, Hellissandi.

Sprungukerfið í móbergi Kerlingarfjalls

Hamrar KerlingarfjallsKerlingarfjall á Snæfellsnesi er móbergsfjall, sem er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Ég hef áður bloggað um útilegumannshellin Grímshellir í austanverðu Kerlingarfjalli hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1090938/  Einnig hef ég bloggað um einstakar móbergskúlur, sem koma fyrir víða í fjallinu, hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/951989/ Fjallið er myndað við eldgos undir jökli, sennilega á síðasta jökulskeiði, og þá um fimmtíu þúsund ára að aldri.  Þegar gengið er upp í fjallið frá gamla þjóðveginum í Kerlingarskarði er oftast farið upp gil, sem opnast í víðan og hringlaga dal, umgirtan lóðréttum hömrum að austan verðu. Við norður enda hamranna er mjög þröngt gil, þar sem hægt er að klifra upp til kerlingarinnar, sem gefur fjallinu nafn.  Einnig er besta svæðið til að skoða móbergskúlurnar fyrir ofan gilið. Í gilinu eru nokkrir basalt gangar, og hefur gilið skorist niður með göngunum. Hamrarnir í dalnum fyrir neðan gilið eru mjög sérkennilegir, eins og myndin til hliðar sýnir. Hamarinn er nærri eitt hundrað metrar á hæð og lóðréttur.  Sprungukerfi KerlingarfjallsÞað sem vekur strax athygli er, að hamarinn er þakinn þéttu neti af sprungum í móberginu.  Nærmyndin sýnir sprungunetið vel. Þar kemur fram, að sprungurnar hafa tvær höfuðstefnur: nær lóðréttar og nálagt því láréttar.  Þriðja sprungustefnan er ólósari, og ligur skáhallt niður. Einnig er ljóst, að eftir sprungumyndunina hefur móbergið í sprungunum harðnað meir en móbergið í kring.  Þess vegna stendur sprungunetið út úr hamrinum, og er upphleypt.  Það er ekki óvenjulegt að bergið harðni meir í og umhverfis sprungur. Það sem er óvenjulegt hér er hvað netið af sprungum er þétt og einstaklega reglulegt.  Bilið milli sprungna er aðeins nokkrir cm eða tugir cm.  Ég hef hvergi séð slíkt sprungunet í móbergi eða öðru bergi og er ekki ljóst hvað veldur myndun þess. Ef til vill er það tengt því, að hamarinn er rétt við aðalgíg Kerlingarfjalls og kann að vera, að sprengingar samfara gosum í gígnum hafi valdið sprungumynduninni. Allavega er hér einstakt og mjög óvenjulegt fyrirbæri sem ferðalangar þurfa að taka eftir og skoða náið.

Djúpalónsperlur og Benmorít

DjúpalónEinn af vinsælustu viðkomustöðum ferðamanna  undir Snæfellsjökli er Djúpalón.  Þar er náttúrufegurð, sérstakt og stórbrotið landslag – og einn af fáum stöðum umhverfis Jökul þar sem ferðamenn komast á klósett! Djúpalón hefur myndast í dalverpi, þar sem tvö hraun frá Snæfellsjökli hafa runnið saman. Loftmyndin, sem er frá kortasjá Landmælinga Íslands, sýnir Djúpalón, og hraunin tvö. Það eldra er fyrir austan, vel gróið, mjög þykkt og gamalt hraun.  Það yngra er fyrir vestan og norðan, þynnra, og mun minna gróið.  Þetta basalthraun nefnist Beruvíkurhraun, og er talið um 2000 ára, runnið úr toppgíg Snæfellsjökuls.  Hraunið fyrir austan Djúpalón er Einarslónshraun, og er talið vera um 7000 ára gamalt.  Sennilega hefur það einnig runnið úr toppgíg.  Það er þetta hraun sem Atlantshafið brýtur og molar niður við ströndina og slípar í fagurgerða möl, sem ber nafnið Djúpalónsperlur.  DjúpalónsperlaÞær eru nú orðnar vinsælt hráefni í skartgripi, eins og myndin sýnir. Það eru góðar og gildar jarðfræðilegar ástæður fyrir því, að Djúpalónsperlur myndast. Efri hluti hraunsins er kolsvartur, þar sem hann hefur kólnað hratt og orðið glerkenndur. Hinsvegar er innri hluti hraunsins gráleitur og fullkristallaður.  Þetta sérstaka hraun er mjög líkt Hellnahrauni, sem rann úr gíg á Jökulhálsi fyrir um 3900 árum.  Þessi hraun hafa sérstaka efnasamsetningu sem bergfræðinar nefna benmorít.  Það er eitt af mörgum bergtegundum sem hafa runnið sem hraun frá Snæfellsjökli, en eru mjög sjaldgæfar í öðrum eldfjallalöndum. Jarðfræðingar flokka hrauntegundir eftir efnasamsetningu þeirra, og hefur hver tegund vel afmörkuð einkenni. Flokkun bergtegundaLínuritið sem fylgir hér með sýnir  innihald af alkalí málmum (natríum og kalíum oxíð) og kísil (SiO2)  í hraunum frá Snæfellsjökli. Hér eru hraunin flokkuð eftir því í hvaða „kassa‟ þau falla á myndinni samkvæmt efnagreiningu.  Hraunin mynda röð af tegundum, sem byrjar með alkali basalti, þá  hawaíit (trakíbasalt), síðan mugearit og benmorit og að lokum trakít, með hæst kísilmagn.  Háahraun í grennd við Dagverðará er dæmi um trakít, og einnig Ljósuskriður. Eins og að ofan getur er Hellnahraun dæmi um benmorít, Klifhraun í grennd við Arnarstapa er mugearít, Hnausahraun er hawaíit, og Búðahraun er alkalí basalt.   Sum þessi óvenjulegu nöfn á tegundum hraunanna  koma frá Skotlandi, sem var vagga bergfræðinnar í byrjun tuttugustu aldarinnar.  Nafnið mugearít var gefið bergtegundinni árið 1904 af Alfred Harker (1859-1939) eftir þorpinu Mugeary á skosku eynni Skye, þar sem bergtegundin er algeng. Nafnið á bergtegundinni benmorít var hins vegar eftir forna eldfjallinu Ben More á skosku eynni Mull.  Það er enn ráðgáta hvernig hraunkvikan, sem storknar á yfirborði Snæfellsjökuls í þessar bergtegundir, myndast, en þessar kvikur eru greinilega náskyldar.  Jarðefnafræðingurinn Thomas Kokfelt og félagar hans hafa sýnt fram á árið 2009, að hraunkvikan sem hefur hæst magn af kísil og alkalí málmum (trakít, benmorít og mugearít kvika) gýs frá toppgíg eða gígum mjög ofarlega á Snæfellsjökli.  Líkön af SnæfellsjökliHins vegar gýs alkalí basalt kvikan á láglendi umhverfis Jökulinn.  Þeir hafa stungið upp á tveimur líkönum um innri gerð Jökulsins til að skýra þetta merkilega fyrirbæri, eins og sýnt er á þversniðinu í gegnum Snæfellsjökul. Í öðru líkaninu (til vinstri) er sýnd ein stór og lagskift kvikuþró undir Jöklinum.  Þá væru kísilríkari kvikan efst, og alkalí basalt kvikan neðst í þrónni. Þetta líkan verður að teljast sennilegra.  Í hinu líkaninu, (til hægri á myndinni) eru margar litlar kvikuþrær, með mismunandi kviku.  Nú er svo komið, að við vitum töluvert mikið um jarðefnafræði kvikunnar undir Snæfellsjökli, og uppruna hennar.  Hins vegar er nær ekkert vitað um jarðeðlisfræði þessa mikla eldfjalls. Það er mikil þörf á að bæta úr því og setja upp varanlegt kerfi af jarðskjálftamælum og öðrum skynjurum til að fylgjast með innri gerð eldfjallsins.  Það eru um 1750 ár, og ef til vill aðeins 1500 ár, síðan síðast gaus í Jöklinum, og verður það því að teljast virk eldstöð.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband