Frá nátturunnar hendi er Snæfellsnes kjörið til þess að þar verði stofnaður jarðvangur. Á Nesinu er ótrúleg fjölbreytni jarðmyndana og náttúrufyrirbæra af ýmsu tagi, og má með réttu segja að hér finnist á tiltölulega vel afmörkuðu svæði nær allar tegundir bergtegunda sem Ísland hefur uppá að bjóða. Á undanförnum árum hafa jarðvangar (jarðminjagarðar eða geoparks) verið stofnaðir um allan heim. Það eru nú 77 jarðvangar í 25 löndum, og þeim fer stöðugt fjölgandi. Jarðvangur er svæði, sem nær yfir merkilega jarðfræðilega arfleifð og sýnir þætti í náttúru, sögu og menningu, sem eru mikilvægir fyrir sjálfbæra þróun lands. Aðal tilgangur jarðvangs er að benda á mikilvægi svæðis, að beina náttúruunnendum inn á svæðið og þar með að styrkja ferðaþjónustu. Jarðvangur er ekki verndað svæði, en telja má, að með viðurkenningu á mikilvægi svæðisins fylgi betri umgengni og aukin virðing fyrir gæðum þess. Forgöngumennirnir fyrir hugmyndinni um jarðvang voru jarðfræðingar og þeir fyrstu voru stofnaðir í Evrópu. Innan Evrópu eru sérstök samtök European Geopark Netvork. Utan um alþjóðlega þróun jarðminjagarða heldur Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNESCO). Nú er búið að stofna fyrsta jarðvanginn á Íslandi: Katla Geopark Project á Suðurlandi og hann hefur þegar fengið aðild að Evrópusamtökunum og vottun UNESCO.
Hér leggjum við fram tillögu um þróun jarðvangs á Snæfellsnesi. Hugmyndin um jarðvang á Snæfellsnesi getur verið einn mikilvægur þáttur í varnaráætlun til að stemma stigu við fólksfækkun í þessum byggðakjörnum. Á Snæfellsnesi búa um fjögur þúsund manns, en fólksfækkun á svæðinu var um 5% á tímabilinu 20012010. Ekki er þó þróun mannfjölda alveg eins í öllum bæjarfélögum á Nesinu. Á tímabilinu 1994 til 2003 var til dæmis breyting á mannfjölda í einstökum bæjarfélögum á Snæfellsnesi sem hér segir: Kolbeinsstaðahreppur -11,0% , Grundarfjarðarbær 3,9%, Helgafellssveit -30,7%, Stykkishólmur -7,8% , Eyja- og Miklaholtshreppur -12,2% , Snæfellsbær -5,7%. Nú er brýn nauðsyn að vinna að þróun svæðisins í heild ogleita nýrra leiða til þess að stemma stigu við hinni miklu fólksfækkun sem hér er greinilega í gangi. Líklega er enginn atvinnuvegur sem getur vaxið jafnhratt á Snæfellsnesi og skapað jafnmörg ný störf á næstu misserum eins og ferðaþjónustan. Sem gjaldeyrisskapandigrein, þá er ferðaþjónustan og tekjur af erlendum ferðamönnum mikilvægur þáttur í efnahag landsins. Í dag skapar íslensk ferðaþjónusta meir en 20% gjaldeyristekna þjóðarbúsins, og undanfarin ár hefur hlutur ferðaþjónustu verið á bilinu 15 til 22% af heildarútflutningstekjum Íslands. Alls vinna nú um 9000 íslendingar við ferðaþjóustu eða í tengdum störfum. Skoðanakannanir sýna, að langvinsælasta afþreying erlendra ferðamanna á Íslandi er náttúruskoðun, gönguferðir og fjallgöngur, og einnig að minnisstæðasti þáttur dvalar þeirra hér á landi er náttúran og landslagið. Á Vesturlandi hefur ferðaþjónustan vaxið undanfarin ár. Á níu ára tímabilinu frá 1998 til 2008 hefur gistinóttum til dæmis fjölgað um meir en 200% á öllu Vesturlandi. Þessi fjölgun er töluvert yfir landsmeðaltali og lofar góðu um framtíðina, en ekki er enn ljóst hvort fjölgunin á Snæfellsnesi er sambærileg við þá sem mælst hefur á öllu Vesturlandi. Það má segja að undirbúningur fyrir vistvæna og sjálfbæra ferðaþjónustu á Snæfellsnesi sé þegar kominn í góðan farveg. Eins og kunnugt er hefur Snæfellsnes hlotið nýlega vottun frá hinum alþjóðlegu vottunarsamtökum Green Globe sem votta sjálfbæra ferðaþjónustu um allan heim. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull dregur stöðugt fleiri ferðamenn inn á svæðið. Einnig er nú rekin fræðandi ferðaþjónusta (educational tourism) umhverfis allt Nesið sumar hvert, en það eru eins dags fræðsluferðir í jarðfræði og sögu á vegum Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Jarðvangur er svæði, sem nær yfir merkilega jarðfræðilega arfleifð og þætti í náttúru og menningu, sem eru mikilvægir fyrir sjálfbæra þróun lands. Jarðvangur skal ná yfir svæði, sem er nægilega stórt til að leyfa hagnýta þróun þess. Innan jarðvangs skal vera nægilegur fjöldi af jarðfræðifyrirbærum, hvað snertir mikilvægi fyrir vísindin, eru sjaldgæf, og túlka til fegurðarskyns og mikilvægis fyrir menntun. Mikilvægi jarðvangs getur einnig verið tengt fornminjum, vistfræði, sögu eða menningu. Jarðvangur skal vinna samhliða að verndun svæðis og hagnýtri þróun þess í sjálfbæru jafnvægi, einkum fyrir ferðaþjónustu. Rekstur jarðvangs skal fara fram á þann hátt, að verndun, sjálfbær og hagnýt þróun sé í fyrirrúmi. Hvorki rýrnun, sala eða eyðilegging jarðminja og náttúrulegra verðmæta skal á nokkurn hátt vera leyfileg. Jarðvangur skal taka virkan þátt í efnahagslegri þróun svæðisins með því að styrkja ímynd sína og tengsl við ferðaþjónustu. Jarðvangur hefur bein áhrif á svæðið með því að bæta afkomu íbúa þess og umhverfið, en stofnun jarðvangs gerir ekki kröfur um lagalega verndun. Það er eðlilegt frá náttúrunnar hendi að allt Snæfellsnes myndi einn jarðvang. Á Snæfellsnesi mun Eyja- og Miklaholtshreppur gera ráð fyrir jarðvangi í aðalskipulagi sem nú er í auglýsingaferli og verður bráðlega staðfest. Helgafellssveit mun væntanlega einnig gera ráð fyrir því í fyrirhuguðu aðalskipulagi að jarðvangur geti verið innan marka hennar. Landfræðilega kemur einnig til greina að nærliggjandi svæði s.s. fyrrum Skógarstrandarhreppur, nú í Dalabyggð, fyrrum Kolbeinsstaðahreppur, nú í Borgarbyggð og Stykkishólmsbær, verði innan marka hugsanlegs jarðvangs á Snæfellsnesi og fleiri svæði koma einnig til greina. Tenging Jarðvangs við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul er fullkomlega eðlileg og raunar æskileg. Í Stykkishólmi eru stofnanir eins og Náttúrustofa Vesturlands, Háskólasetrið og Eldfjallasafn, sem munu hafa mikla þýðingu fyrir starfssemi jarðvangs. Þessi sveitarfélög á innanverðu Snæfellsnesi gætu í góðu samstarfi við nærliggjandi byggðir, byggt upp áhugaverðan jarðvang að fyrirmynd European Geopark Network og stuðlað þar með að aukinni ferðamennsku innan svæðisins. Á Snæfellsnesi er að finna mjög fjölbreyttar jarðminjar og aðrar náttúruminjar. Fjölbreytileikinn felst í mismunandi gerð eldstöðva og hrauna, ölkeldum og áhugaverðri jarðsögu, fornum býlum og landnámsjörðum. Þrjár megineldstöðvar hafa skapað fjallgarðinn sem liggur eftir Snæfellsnesi endilöngu, frá austri til vesturs. Austast er megineldstöðin Ljósufjöll, sem reyndar nær alla leið frá Grábrók, um Hnappadal og vestur til Berserkjahrauns, alls 90 km leið. Myndin af Ljósufjöllum hér fyrir ofan er tekin af Söndru Dögg Björnsdóttur. Um mitt Nesið er lítt þekkt megineldstöð sem hefur verið nefnd Lýsuskarð, og vestast er sjálfur Snæfellsjökull, sem hefur fengið verðskuldaða viðurkenningu sem þjóðgarður. Auk þess er þetta skrifar eru meðlimir í vinnuhópi um stofnun jarðvangs á Snæfellsnesi þessir: Reynir Ingibjartsson frá Hraunholtum í Hnappadal, Sturla Böðvarsson, Stykkishólmi og Skúli Alexandersson, Hellissandi.