Færsluflokkur: Eldfjallalist

Eldur Niðri fær fimm stjörnur!

FréttatíminnHinn 13. maí 2011 birtist grein í Fréttatímanum, bls. 44, sem fjallar um bók mína, Eldur Niðri. Það er óneitanlega fróðlegt og forvitnilegt fyrir höfund að lesa hvað öðrum sýnist um verk hans.  Ég er alveg sáttur við að fá fimm stjörnur hjá Páli Baldvin Baldvinssyni.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eldur Niðri kemur út!

Vulkan ehf og Eldfjallasafn í Stykkishólmi gefa út bókina Eldur Niðri eftir Harald Sigurðsson eldfjallafræðing.  Útgáfudagur er 10. apríl 2011.  Bókin er 336 síður, skreytt fjölda mynda. 

Vulkan ehf, Bókhlöðustíg 10,  340 StykkishólmiEldur Niðri  vulkan@simnet.is  Dreifing og pantanir: Árni Þór Kristjánsson  arsig@simnet.is    Sími: 862 8551 eða 841 1912

Úr bókarkynningu:  „Eldur Niðri lýsir ferli eins þekktasta vísindamanns Íslands, eldfjallafræðingsins Haraldar Sigurðssonar. Bókin er einstök heimild um uppeldi, sköpun og þróun jarðvísindamanns, sem hefur unnið brautryðjendastörf á rannsóknum á eldfjöllum víðs vegar um heiminn.  Hér fjallar Haraldur á hispurslausan hátt  um spennandi og oft lífshættuleg rannsóknaverkefni, um ástir, sigra, áföll og margt annað sem hefur gerst á nær fimmtíu ára ferli.  Í frásögn sinni kemur Haraldur til dyra eins og hann er klæddur, þegar hann greinir frá leiðöngrum sínum í Indónesíu, Ítalíu, Haítí, Vestur Indíum, Grikklandi, Afríku og víðar.  Brenndandi áhugi hans á leyndardómum jarðar kviknar á æskustöðvunum á Snæfellsnesi og leiðir af sér ævilangt ferðalag um flest stórvirkustu eldfjöll heims, þar til hann lokar hringnum með stofnun Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Eftir atburðaríkan feril við eldfjallarannsóknir um heim allan hefur Haraldur Sigurðsson frá mörgu að segja.”

Efnisyfirlit:

Réttlætingin .................................................... 7

Þingeyingurinn ................................................ 11

Oddur Val ...................................................... 35

Hjónin í Norska Húsinu ...................................... 47

Fyrstu minningar .............................................. 55

Áfallið ........................................................... 67

Táningur í Reykjavík .......................................... 75

Ameríkuferð hin fyrri ......................................... 81

Sumar á Sigöldu ............................................... 89

Námsárin erlendis ............................................. 95

Doktorsverkefnið .............................................. 105

Vestur Indíur ................................................... 113

Á sundi í eldfjallinu ........................................... 129

Neðansjávargígurinn Kick’em Jenny ........................ 139

Ameríkuferð hin síðari ........................................ 147

Kvikuhlaup ..................................................... 157

Aska á hafsbotni ............................................... 163

Vesúvíus og Pompeii .......................................... 175

Banvæn gjóskuflóð ............................................ 189

Gígvötnin í Afríku ............................................. 207

Tambora ....................................................... 215

Eldeyjan Krakatau ............................................ 249

Galapagos – Ísland framtíðar? ................................ 261

Loftsteinninn ................................................... 271

Vísindin og klofin menning .................................. 285

Erfiðir tímar .................................................... 291

Að duga eða drepast ........................................... 297

Eldfjallasafn .................................................... 317

Aðrar hliðar á lífinu ........................................... 327

 

 

 


Fimm hundruð ára gömul eldgosamynd frá Mexíkó

codexMexíkó er mikið eldfjallaland og Mexíkanar hafa lengi gert frábærar myndir af eldgosum.  Árið 1519 kom spánski hershöfðinginn Hernan Cortes til austurstrandar Mexíkó með flota sinn, 11 skip, 500 hermenn, 13 hesta, og nokkrar fallbyssur.    Í ágúst sama ár skundaði hann inn í Mexókóborg, sem þá hét Tenochtitlan og var höfuðborg Aztecríkisins.  Þetta voru fyrstu alvarlegu kynni Mexíkana af Evrópubúum.  Spánverjar gjöreyddu menningu Aztecanna og aðeins brot af fornri frægð eru eftir.  Eitt af þeim er handrit, sem er í eftirriti, og ber heitið Codex Telleriano Remensis.  Í þessu handriti er merkileg mynd og texti sem varðar tímabilið frá 1507 til 1509. Myndin er hér til hliðar.  Textinn sem fylgir lýsir miklu ljósi eða birtu, sem reis upp frá jörðu og til himins.  Birtan varði í meir en fjörutíu daga og sást um allt Mexíkó.  Sennilega er þetta lýsing á eldgosi í fjallinu Popocateptl eða Orizaba.Montanus  Annað listaverk frá Mexíkó sem sýnir eldgos er frá árinu 1671, og er það í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.  Árið 1671 gaf  Arnoldus Montanus út merka bók í Amsterdam: Die nieuwe en onbekende Weereld, eða Nýji og óþekkti heimurinn.   Ameríka var þá sannarlega nýji heimurinn, enda uppgötvuð aðeins um 77 árum áður.  John Ogilby “stal” verkinu og prentaði aðra útgáfu af bókinni sama ár undir sínu nafni.   BörkurMyndin sýnir  viðbrögð hinna innfæddu Mexíkana við því þegar tvö eldfjöll gjósa í einu, en Spánverjar horfa undrandi á hátterni hinna innfæddu.  Þriðja myndin her frá Mexíkó er máluð á trébörk, og er hugmynd Mexíkanans í dag af eldgosi. Hún er einnig í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. 

 


Jón Leifs og eldgosið

blog 19 Helka elsta ljosmynd 1947Stórkostlegir náttúruviðburðir hvetja listamenn til dáða.  Það á einnig við í tónlist og hér fjalla ég um eitt slíkt dæmi:  Jón Leifs og Heklugosði árið 1947. Þetta stórkostlega gos byrjaði með mikilli sprengingu, sem sendi öskumökk í allt að 27 km hæð. Þá tók Sæmundur A. Þórðarson á Storu Vatnsleysu á norðanverðu Reykjanesi þessa mynd í marz 1947, á einfalda kassavél, þar sem sólin skín á bakvið mökkinn.  Jón Leifs (1899-1968) hreifst af gosinu og samdi tónljóð sem hann nefndi Hekla Opus 52. JonLeifs Jón, sem var tvímælalaust fyrsta stóra íslenska tónskáldið, samdi hér háværasta verk tónsögunnar. Þegar það var frumflutt í Finnlandi árið 1964, þá vakti verkið strax mikla undrun og deilur, sem voru álika og viðbrögðin við hinu fræga verki Stravinskys: Vorblóti.  Það hafði enginn nokkurn tíma heyrt annað eins og Heklu Jóns Leifs.  Hávaðinn var svo mikill, að margir í hljómsveitinni settu bómull í eyrun.  Jón  beitti nítján manns með ýmiss ásláttarhljóðfæri. Sumir lömdu steina, járnstóla, járnkeðjur, og fleira.  Með tímanum höfum við lært að meta Heklu hans Jóns Leifs að verðleikum. Hann túlkar tvímælalaust á áhrifamikinn hátt hin stórkostlegu öfl – og hávaða – sem fylgir miklu eldgosi. Hekla má vera háværasta tónverk tónlistasögunnar, en það er stórkostlegt.

u91136 Iceland SC942Gosið var svo tignarlegt að gefin var út heil syrpa af fallegum frímerkjum. Eitt þeirra, sýnt hjér sem 50 aura frímerkið, var byggt á ágætri ljósmynd sem Pálmi Hannesson tók af gosinu hinn 29. marz 1947. Þá var mökkurinn í tíu km hæð. 


Haroun Tazieff og Stefnumót með Djöflinum


Les Rendez-vous du DiableÍ Eldfjallasafni í Stykkishólmi er fallegt plakat eða auglýsing fyrir heimildakvikmynd um eldgos.  Það er reyndar gert í gömlu Sovíetríkjunum, en auglýsir myndina “Les Rendez-vous du Diable” eða Fundur með Djöflinum, eftir Haroun Tazieff.  Hann Haroun Tazieff var mjög sérstakur maður.  Þegar ég var stúdent í kringum 1964, og starfandi með Sigurði Þórarinssyni og öðrum íslenskum eldfjallafræðingum, þá var stundum kvíslað á göngunum:  “Tazieff er að koma!”   Þá birtist þessi goðsögn, og sópaði af honum.   Þá var hann á ferð til að kvikmynda Surtseyjargosið, og önnur merk eldfjöll á Íslandi.  Ég átti eftir að hitta hann nokkrum sinnum á ýmsum fundum, og síðast í vestur Afríku, eins og ég kem að síðar.  Ekki vorum við þá alltaf sammála.  Tazieff var sannur heimsborgari sem var fæddur í Varsjá í Pólandi árið 1914 og lést í París árið 1998.  Í æsku fluttist Tazieff til Belgíu þar sem hann var við nám í landbúnaðarfræðum og einnig í jarðfræði, og síðar settist hann að í Frakklandi.   Árið 1984 var hann gerður að sérstökum ráðherra til að fjalla um náttúruvá og umhverfismál.  Hann varð svo frægur í Frakklandi að þeir gáfu út frímerki með honum við andlát hans.  Annars var hann frekar óheppinn í yfirlýsingum sínum.  Eitt sinn spáði hann því að stór jarðskjálfti myndi skella á Frakkland,  en ekki hefur sú spá ræst.   Tazieff var ekki sannfærður um hlýnun jarðar, þvert á móti.  Hann lýsti því yfir að kenningin um hlýnun jarðar væri hreinn uppspuni, og væru tómar lygar.   Einnig hélt hann því fram að gatið í ózón laginu hefði ekkert með flúrokarbon efni að gera, heldur hefði gatið verið þegar komið á himinn árið 1926, laungu áður en flúrókarbon efni voru fundin upp.  Þetta var auðvitað vitleysa.   En samt sem áður var Tazieff áhrifamikill og vinsæll meðal almennings, sökum þess að hann hélt áfram að framleiða mjög vinsælar heimildamyndir af eldfjöllum sem voru sýndar um heim allan.   Það er ekki oft sem jarðfræðingar eða eldfjallafræðingar ná hylli lýðsins eða verða frægir, en það gerði Tazieff. Sennilega hefur hann lært af meistaranum sjálfum, Jacques Cousteau, en þeir unnu sman á sextugasta áratugnum.  Einn af lærisveinum Tazieffs var Maurice Krafft, sem ég mun fjalla um síðar. Tazieff á frímerki

Síðasta sinn sem ég hitti Tazieff var í lyftu í hóteli í Yaounde, höfuðborg Kameroon í vestur Afríku.  Við vorum á alþjóðafundi jarðfræðinga, þar sem fjallað var um dularfullar gas sprengingar sem gerðust í gígvötnum í Kameroon  árin 1984 og 1986.  Ég var sá fyrsti til að rannsaka þessi fyrirbæri og þá kom ég fram með þá kenningu að sprengingarnar væru ekki af völdum eldgosa, heldur vegna koltvíoxíðs sem safnaðist fyrir í botni gígvatnanna. Tazieff var algjörlega ósammála, taldi að sprengingarnar væru venjuleg eldgos, og leit mig illum augum í lyftunni.  Hann sagði að ég væri svikari eldfjallafræðinga, að  láta mér detta í hug að halda fram að þetta væri ekki eiginlegt eldgos.  Síðan hafa aðrir jarðfræðingar samhyllst mína skoðun,  og eru sprengingarnar fyrstu og einu tilfellin sem við vitum um af þessu tagi.  Hvað sem öðru líður, þá var Tazieff ágætur kvikmyndaframleiðandi og gerði mikið til að vekja athygli almennings á stórbrotinni fegurð og tign mikilla eldgosa -- en hann var ekki mikill vísindamaður.

 


Kort Helland af Lakagígum er merkilegt listaverk

 

Kort Hellands af LakagígumEitt af fyrstu listaverkum tengdum eldfjöllum Íslands er kort norska jarðfræðingsins Amund Helland af Lakagígum, sem var árangur af ferð hans til Íslands árið  1881.  Lakagígar  er 25 km löng sprunga þar sem yfir eitt hundrað gígar gusu miklu hrauni árið 1783, þegar Skaftáreldar geisuðu og mynduðu stærsta hraun sem hefur runnið á jörðu síðan sögur hófust.  Áhrif gossins voru óskapleg, bæði á Íslandi og í Evrópu.  Lakagígar nærmyndAllir þekkja Móðuharðindin sem komu í kjölfar gossins, en þá var 24%  mannfækkun á Íslandi og um 75% af öllum búpening landsmanna fórst.  Ekki fór mikið fyrir rannsóknum á gosinu, en Sveinn Pálsson læknir kom fyrstur manna að Lakagígum árið 1794, rúmum tíu árum eftir gosið.   Tæpum eitt hundrað árum eftir gosið gerði norski jarðfræðingurinn  Amund Theodor Helland (1846-1918) út leiðangur til eldstöðvanna. Bræðurnir Leó og Kristján Kristjánssynir hafa fjallað um heimsókn Hellands til Íslands í grein í Náttúrufræðingnum árið 1996.    Helland kom til Seyðisfjarðar snemma sumars árið 1881, og komst svo loks til Lakagíga síðar um sumarið. Árangurinn af ferð hans var kort af eldsprungunni Lakagígar, en kortið eitt er meir en tveir metrar á lengd.   Kortið teiknaði norski málarinn Knud Gergslien undir leiðsögn Hellands.  Það er til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.   Hann áætlaði að gosið hefði myndað hraun sem væri 27 rúmkílómetrar, en það er nokkuð hærri tala en síðari rannsóknir telja: eða um 15 km3.   Eftir ferð sína til Íslands birti Helland merka grein með heitinu “Lakis kratere og lavastromme”, og kom hún út í  Kristiania (nú Osló) árið 1886.  Ekki eru allir hrifnir af framtaki Hellands. Sigurður Þórarinsson (1969) fer til dæmis frekar niðrandi orðum um Íslandsför Hellands og telur að hann hafi aðeins verið tvo daga við Lakagíga í ágúst árið 1881. Ef litið er á kortið, þá virðist ótrúlegt að Helland hafi afkastað þessu mikla verki á tveim dögum.   Grein Hellands sýnir reyndar að hann var í eina viku í ferðinni.  Hann mældi hæð og breidd flestra gíganna, og eru hæðartölur á flestum gígunum sýndar á kortinu.   Samkvæmt kortinu eru 56 gígar fyrir norðaustan Laka, og 49 gígar fyrir suðvestan Laka.  Hér eru sýnd smáatriði í byggingu jarðsprungunnar og gígana sýnd og vafalaust hefur þetta verk tekið töluverðan tíma.  Á kortinu koma fram alveg ný atriði í jarðfræði Íslands.  HellandTil dæmis notar hann alþjóðaheitið “palagonit” fyrir móbergsmyndunina.  Í öðru lagi er hann fyrstur til að kenna gossprunguna við móbergsfjallið Laka, en það heiti hefur fylgt gosinu ætíð síðan.  Komið í Eldfjallasafn og sjáið þetta einstæða og merkilega kort af mestu gossprungu jarðar. Helland var sérstakur persónuleiki og skopmyndin sem fylgir gefur nokkra hugmynd um það.


Myndir af gosinu í Eyjafjallajökli árið 1821-23

 

E BruhnGamlar myndir geta veitt einstakar upplýsingar um eldgos fyrr á tímum.  Árið 1986 gaf bandaríski listfræðingurinn Frank Ponzi út merka bók um Ísland á 19. öld.   Þar er að finna stórmerkilega mynd af gosinu í Eyjafjallajökli árið 1822.  Nafn listamannsins hefur verið ýmist ritað sem E. Bruhn eða Erik Bruun. Undirskriftin á listaverkinu er örugglega E. Bruhn og verkið er dagsett hinn 8. júlí 1822. Hann var sennilega liðsforingi í strandmælingadeild danska flotans.  Jóhann ÍsbergVatnslitateikningin er  21 x 33.5 cm og mun vera í eigu Det Kongelige  Bibliotek, Köbenhavn.  Myndin er gerð úr mikilli fjarlægð,  í grennd við Vestmannaeyjar, og sennilega af sjó.  Þetta er nákvæm teiknun reykjabólstranna og rísandi öskumakkarins og önnur atriði sýna að hann er að festa á blað sjónarspil sem han varð vitni af.  Emil Hannes Valgeirson hefur áður bloggað um þessa mynd hér    Það er sláandi að bera þessa mynd saman við myndir af gosmökknum yfir Eyjafjallajökli  árið 2010.  Graah 1823Ég læt fylgja hér með ljósmynd Jóhanns Ísberg af sprengigosinu í apríl til samanburðar.  Önnur mynd af gosinu er teiknuð af Graah inn á landakort af Íslandi sem gert var árið 1823. Graah kann einnig hafa verið í strandmælingadeild danska flotans.  Þessi mynd er einnig af  Eyjafjallajökli eins og hann ber við frá Vestmannaeyjum, en myndin er sýnd hér til hliðar.  Gosið sem hófst í desember árið 1821 stóð yfir þar til í janúar 1823. Guðrún Larsen telur gosið hafa verið fremur lítið, og er áætlað að aðeins um 0.004 km3 hafi komið upp.  Sprengigosið dreifði fremur fíngerðri ljósri ösku  umhverfis fjallið, en askan er fremur kísilrík, eða milli 60 og 70% SiO2.  Einnig orsakaði gosið jökulhlaup sem braust fram úr Gígjökli.  Sjá blogg um gosið og einkum um jökulhlaupið eftir Sigríði Magneu Óskarsdóttur hjá Veðurstofu Íslands hér


Má bjóða þér gos? Eldfjöll sem aðdráttarafl í ferðamennsku

Anthony RussoÍ dag flutti ég þetta erindi á ráðstefnu Ferðamálaþings í Reykjavík:

Atburðir tengdir eldgosunum í Eyjafjallajökli hafa minnt okkur rækilega á að eldfjöll og eldgos geta haft áhrif á ferðamennsku á ýmsan hátt.  Það er ljóst að þessi miklu sjónarspil náttúrunnar eru sterkt aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en einnig hefur komið í ljós að mistök í fréttamiðlun og kynningu á slíkum hamförum hafa haft neikvæð áhrif á ferðaiðnaðinn í landinu í heild.   Aska í háloftum frá Eyjafjallajökli hefur beint eða óbeint orsakað það að eitt hundrað þúsund flugferðum var aflýst milli 15. og 21. apríl, miljónir ferðamanna fóru í strand og kostnaður og tekjutap flugfélaga mun vera meir en 1.7 miljarðar dollara eða um 220 miljarðar króna.    Athygli alheims beindist nú að Íslandi sem aldrei fyrr í tengslum við gosið.  Erlendir fjölmiðlar streymdu til landsins í leit að fréttum.  Hver voru viðbrögðin hér heima?  Ég var staðsettur suður í sveitum á þessum krítiska tíma og varð vitni af því þegar erlendir fréttamenn reyndu að safna einhverju efni tengdu gosinu á allan mögulegan máta.  Fókus heimspressunnar var allur á Íslandi.  Hér var besta tækifæri Íslands til að koma  upplýsingum og áróðri um landið til alheims.  En engin skipuleg fjölmiðlaveita var til.  Hið opinbera og þar á meðal Iðnaðarráðuneytið, brást.  Ísland missti af  stærsta tækifærinu, sem hefði getað verið algjörlega ókeypis áróður um land og þjóð  og lyftistöng fyrir ferðamál landsins.  Einu upplýsingar til fjölmiðla virtust vera frá Almannavörnum, til dæmis um að stærsta samgönguleið landsins, Highway 1, væri rofinn í sundur, brúm lokað og hundruðir manna fluttir á brott.  Auðvitað er það hlutverk Almannavarna að aðstoða og vernda gegn jarðvá, en það fór lítið fyrir  tilkynningum eða fréttaveitu frá hinu opinbera varðandi það jákvæða, að nú væri búið að opna aftur.  Strax og gosið á Fimmvörðuhálsi hófst bárust mér póstur og fjöldi símhringinga frá ferðamönnum erlendis sem vildu koma til að sjá gosið, og enn fleiri þegar sprengigosið hófst.  Því miður gat ég ekki sinnt þeim vegna annara verkefna.   Ég vil segja ykkur lítið eitt frá starfsemi sem ég hef rekið í um 30 ár sem er tengd ferðum til eldfjallasvæða víðs vegar um heiminn.   Hér var aðallega um að ræða landsvæði þar sem ég hef unnið við eldfjallarannsóknir.  Ég rak starfsemina í gegnum fyrirtæki mitt Volcano Tours, en þar sem þetta var aukavinna, var ég yfir leitt með aðeins tvær til þrjár ferðir á ári hverju.  Þetta eru 10 til 15 daga ferðir, og þáttaka takmörkuð við 25 manns í hverri ferð.  Viðbrögðin hafa verið stórkostleg.  Ég hef skipulagt og stýrt ferðum á eldfjallasvæði Ítalíu (Vesúvíus, Stromboli, Etnu, Líparí), með blöndu af rómverskri sögu og menningu eins og hún kemur fram í borgunum Pompeii og Herkúlaneum sem urðu undir ösku og vikri frá gosinu í Vesúvíusi árið 79 eKr.   Einnig hefur gríska eldeyjan Santóríni í Eyjahafi verið vinsæl, þar sem er að finna stórkostlega blöndu af spennandi eldfjallafræði, fornleifum frá Bronzöld, menningu og sögu.  Þá vil ég nefna eyjaklasann Galapagos í Kyrrahafi.  Þar hef ég þann máta að hópurinn býr um borð í bát sem fer milli eyjanna á nóttinni, en farið  er í land á nýrri eyju á hverjum morgni og hún könnuð, ásamt sundi og köfun í hafinu umhverfis.  Á svipaðan hátt könnum við eldeyjarnar í Indónesíu, og notum bát sem fljótandi bækistöð hópsins.   Fræðsla er mikilvæg, og við höldum fyrirlestur á hvrjum morgni um jarðfræði, sögu, áður en farið er í gönguferðir.  Eldfjöllin í Mið-Ameríku, einkum í Costa Rica, hafa einnig verið könnuð með slíka hópa áhugasamra ferðamanna.   Einig má nefna ferðir okkar til Ekvador, Guatemala og Vestur Indía.  Ísland hefur uppá mjög mikið að bjóða fyrir ferðamenn sem þyrstir í fróðleik um land og sögu, eldfjöll, náttúruöfl og útivist.   Nýja Íslandskortið fyrir ferðamenn á að vera jarðfræðikortið.  Eldfjallasafn í Stykkishólmi býður nú upp  á eins dags fræðsluferðir umhverfis Snæfellsnes, og hefur því verið mjög vel tekið.  Nýja ferðafólkið er  duglegt, þráir útivist, vill fræðast á skipulegan hátt, vill hafa fullt prógram fyrir daginn til að njóta ferðarinnar til hins ýtrasta.  Leyfið fólkinu að koma til eldfjallsins. 

 

 

 

 


Fyrsta Listaverkið af Gosinu í Eyjafjallajökli

Vignir Jóhannsson vatnslitamyndÞegar Eldfjallasafn í Stykkishómi opnar 1. maí, þá verður meðal annars efnis sýnd ný vatnslitamynd sem Vignir Jóhannsson hefur gert af sprengigosinu í Eyjafjallajökli.  Hún sést hér til hliðar.  Vignir hefur náð einstaklega vel forminu á öskustróknum uppaf toppgíg fjallsins, en einnig jökulhlaupi í forgrunni og öskufallinu til hægri eða til suðurs.   Myndin er merkilegt framlag í þann fáliðaða hóp af íslenskum  listaverkum sem sýna eldgos.  Tengsl Vignis við eldgos og eldgosalist eru orðin nokkuð löng, en hann vann við að setja upp Eldfjallasafn í Stykkishólmi vorið 2009 og nú í vor setti hann upp sérstaka sýningu um gosið í Eldfjallajökli árið 2010.


Eldfjallasafn Opnar 1. maí með Sýningu um Eyjafjallajökul

RAXEldfjallasafn í Stykkishólmi hefur annað ár sitt með opnun hinn 1. maí 2010.  Sérstök sýning hefur verið sett upp í safninu varðandi gosin í Eyjafjallajökli árið 2010. Þar á meðal eru stórbrotin listaverk eftir Ragnar Axelsson ljósmyndara af gosunum á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli.  Einnig ljósmyndir eftir Jóhann Ísberg og vatnslitamynd af sprengigosinu í Eyjafjallajökli eftir Vignir Jóhannsson.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband