Færsluflokkur: Eldfjallalist

Myndin Eldgos eftir Kristján H. Magnússon

Eldgos eftir Kristján H. MagnússonGóður listamaður getur skapað heila sögu með einni mynd.  Ein  sérkennilegasta mynd sem við sýnum í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er stórt olíumálverk sem ber heitið Eldgos, eftir Ísfirðinginn Kristján H. Magnússon  (1903-1937).  Myndin er nær einstök í íslenskri myndlist, þar sem hún er af sviðsettum ímynduðum atburði.  Að því leyti er hún skyldari amerískri myndasögu frekar en evrópskri hefð í listum.  Myndin sýnir ung hjón á flótta, með barn í reifum og aleiguna á bakinu. Klæðnaður þeirra minnir helst á “lumpenproletariat” í Austur-Þýskalandi. Þau flýja undan eldgosi og húsin umhverfis eru að liðast í sundur vegna áhrifa jarðskjálfta. Það er greinilegt að myndin er sviðsett í Vestmannaeyjum, með norðurklettana í bakgrunni og á bakvið er Eyjafjallajökull eða Hekla gjósandi í landi og dökkur gosmökkur rís til himins.   Fjöldi fólks fylgir hjónunum á veginum sem liggur frá höfninni. Eru þau að flýja til Eyja, undan náttúruhamförum í landi?   Það eru ýmiss önnur smáatriði, eins kirkja að falla af grunni, og hestur á flótta, sem gefur okkur mikið svigrúm til að túlka verkið og byggja upp söguþráðinn, hver á sína vísu.   Þessi stóra og glæsilega mynd er í einkaeign í Mosfellsbæ.  Kristján hóf listnám árið 1920 við hinn þekkta skóla í Boston sem nefnist Massachusetts School of Art, þá aðeins sautján ára gamall. För hans til náms í Boston var tengd fjölskylduböndum, en bróðir hans, Magnús G. Magnússon skipstjóri var búsettur þar.  Magnús kemur einnig við sögu á Snæfellsnesi varðandi þáttöku hans í gullleit í Drápuhlíðarfjalli árið 1939.   Kristján lauk námi árið 1926 við mjög góðan orðstír. Ein af myndum hans var þá valin á þjóðarsafn (National Academy) í New York og árið 1927 var sú mynd send á ferðasýningu um Bandaríkin af American Federation of Art.  Hann hélt strax sína fyrstu einkasýningu í Copley Gallery í Boston 1927 og seldi mjög vel. Honum var spáð glæstri framtíð. Árið 1929 snýr Kristján aftur heim til Íslands og fer strax að mála víða um landið og er ótrúlega duglegur.  Árið 1930 hélt hann tvær einkasýningar í Reykjavík, eina á Ísafirði og eina í Lundúnum og átti auk þess stóran hlut í Landakotssýningunni í Reykjavík það ár.   Sýningin í London árið 1930  fékk frábæra dóma, til dæmis hjá listdómurum við  "The Morning Post" og "The Times".   En það var allt annar tónninn í Reykjavík.  Listmálarinn Jón Þorleifsson (sem birti pistla sína undir nafninu “Orri”) var þá áhrifamikill listdómari, sem fjallaði um málverkasýningar í Morgunblaðinu, og  hann gagnrýndi Kristján harðlega í  skrifum sínum árið  1930 og 1934 og kallar hann til dæmis glanzmyndamálara. Sumir vilja telja að í þessum innlendu skrifum hafi verið meinfýsni efst á blaði.   Á þessum tíma var það óalgengt eða jafnvel einstakt að íslenskir listamenn leiti sér menntunar í Vesturheimi, enda voru ýmsir hér vantrúaðir á listræna menningu Ameríkumanna.   Kristján var því  sniðgenginn með öllu þegar valið var úr verkum íslenskra listamanna til sýningar í Stokkhólmi árið 1932. Ekki vildi hann una því og leigði einn sal fyrir málverk sín skammt frá hinum opinbera sýningarstað.  Gagnrýnendur í Stokkhólmi tóku sýningu Kristjáns ágætlega og veltu því fyrir sér af hverju hann væri ekki með á íslensku yfirlitssýningunni.  Yfirleitt málaði Kristján með mjög natúralisku yfirbragði, og  sumum finnst hann sýna áhrif frá Cezanne. Verk has eru  gerð af mikilli leikni og skólaðri kunnáttu en viðfangsefnin einfölduð, drættirnir ljósir og litir með þíðum, áferðarfallegum blæ.   Kristján hélt áfram ótruður að mála næstu árin, þótt undirtektir á Íslandi gætu verið betri. Á þessum tíma hefur hann sennilega komið til Eyja og málað verkið Eldgos.  Sumarið 1937 fór hann í málunarferð um uppsveitir Borgarfjarðar á hestbaki. Skömmu eftir að hann kom heim lést hann skyndilega, sennilega úr garnaflækju, þá aðeins 34 ára gamall.

 


Gosmálarinn í Vestmannaeyjum: Guðni A. Hermansen

Hefnd HelgafellsFjallið hafði ekki gosið í meir en fimm þúsund ár.  Þá kom Guðni og málaði það gjósandi og  -  viti menn: tæpu ári seinna kom gos.  Eyjamenn hafa orðið meira fyrir barðinu á eldgosum en flestir aðrir íslendingar.  Fyrst var það öll taugaspennan sem fylgdi Surtseyjargosinu frá 1963 til 1968, og svo gosið árið 1973 sem hófst í útjaðri Vestmannaeyjakaupstaðar, og hlóð upp gígkeilunni Eldfelli á örstuttum tíma.   Húsamálarinn, jazzistinn og listamaðurinn Guðni A. Hermansen (1928-1989) gerði margar merkar myndir af umhverfinu í Vestmannaeyjum og sérkennilegu landslagi þar.  Það er ein mynd eftir Guðna sem er ef til vill sérkennilegust, en hún heitir Hefnd Helgafells og er hér fyrir ofan.  Um sumarið 1972 málaði Guðni þessa mynd en tilefnið var að Guðni var reiður út af því að malartaka var þá stunduð í gryfju í austurhlíð Helgafells. Helgafell og Eldfell Hér var tekin rauðamöl og gjall sem var notuð sem uppfylling í nýja flugbraut í Eyjum.  Ljósmyndin sýnir austur hlíð Helgafells, til vinstri, og Eldfell til hægri. Malargryfjan er nú að mestu gróin. Takið eftir svörtu eða dökkgráu línunni af gjallgígum í forgrunni, en það er hluti af sprungunni sem gaus árið 1973.  Guðni og margir aðrir Eyjamenn reiddust því að ljótt sár hafði myndast í fjallið helga og taldi Guðni að náttúran myndi hefna sín fyrr en síðar.  Það reyndist rétt: gosið 1973  hófst rétt norðar, rúmum sex mánuðum seinna.  Hér með fylgir ljósmynd af Guðna að vinna að gerð myndarinnar Hefnd Helgafells, tekin 24. maí 1972 af Sigurgeir.  Málverkið Hefnd Helgafells er nú í eigu Jóhönnu Hermannsdóttur í Bandaríkjunum.Guðni málar    Helgafell er 227 metrar á hæð og hefur myndast í eldsumbrotum fyrir um fimm þúsund árum.  Þetta var mikið gos, sem byrjaði sennilega í sjó en hlóð upp mikla hraundyngju.  Fyrir gosið voru hér tvær eyjar.  Þegar því lauk  hafði hraunbreiðan tengt saman norðurkletta og suðurkletta í Eyjum, og myndað þannig hina stóru Heimaey.  Helgafell og Eldfell eru gígar í megineldstöðinni sem við nefnum Vestmannaeyjar, og einnig tilheyrir Surtsey þeirri miklu eldstöð, ásamt mörgum öðrum eyjum allt í kring.  Gígar og brjóst Á vefnum Heimaslóð eru nokkrar af myndum Guðna sýndar, og sumar þeirra eru tengdar eldvirkni hér    Það er ekki laust við að sumar myndir hans séu súrrealískar og töluvert erótískar.   Sumar mynda hans, eins og þessi hér til hliðar, gera skemmtilega samlíkingu á eldfjallinu og þrýstnu konubrjósti.  Ási í Bæ minntist oft á listaverk Guðna í pistlum sínum í Morgunblaðinu, til dæmis 7. nóvember 1976:  “Guðni Hermansen er heimamálari þeirra eyjamanna og það fer ekki á milli mála að kveikjan að myndgerð Guðna er sótt í landslag og náttúruumbrot þar í eyjum. Gosið í eyjum virðist hafa haft mikil áhrif á list hans, og er það ekki nema eðlilegt. Heimaey Það eru ekki margir listamenn í veröldinni sem upplifa það að jörðin springur og eys eldi við fætur þeirra.”



 


Eldfjallið Ararat og Örkin hans Nóa


Baghdasarian1922Í Eldfjallasafni í Stykkishólmi sýnum við olíumálverk af eldfjallinu Ararat í Tyrklandi, eftir armeníumanninn H. Baghdasarian, frá 1922, en myndin er hér til hliðar.  Ararat er eitt af hinum frægu fjöllum heims, vegna orðróms sem komst á kreik á fimmtu öld um að þar hefði örkin hans Nóa strandað þegar syndaflóðinu fjaraði út.  AraratÉg tel að ég geti sannað að þetta málverk er af eldfjallinu Ararat, sem er á landamærum Armeníu, Tyrklands of Íran.  Berið málverkið saman við myndina fyrir neðan, en hún er af Ararat eldfjalli, eins og það kemur fyrir á Google Earth.  Niðurstaðan er augljós.  Ararat hefur reyndar tvo fjallstoppa. Annar, og sá hærri, nefnist  Agri Dagi á tyrknesku, sem er 5165 metrar á hæð og þar með hæsta fjall Tyrklands, en hinn toppurinn er miklu reglulegra eldfjall eða keila,  sem nefnist Kucuk Agri Dagi (Litla Ararat),  og er 3925 metra hátt.  Eftir forminu að dæma er Litla Ararat yngra og virkara eldfjall.  Sögusagnir eru um að síðast hafi gosið hér árið 1840.  Christies

Baghdasarian virðist hafa málað aðra mynd af Ararat árið 1920, en hún er sýnd hér fyrir neðan.  Hún var seld á uppboði hjá listaverkasalanum Christies í London árið 2003. Christies taldi myndina vera af Mexíkódalnum, og sýna eldfjöllin Ixtlahuacán og Popocatepetl.  Það er því rangt, eins og sýnt er hér fyrir ofan.  Við vitum öll að það er ekki alltaf hægt að treysta listaverkasölum.  

Biblían segir að örkin hans Nóa hafi strandað í landinu Ararat eða í Armeníu.  Ekki er þar minnst á fjallið Ararat. Þegar klerkurinn Philostorgius (ca. 364 – 425 e.Kr.) skráði sögu kristinnar kirkju í Konstantínópel, þá  taldi hann að örkin hefði strandað á Ararat fjalli. Það er hinn eiginlegi uppruni sagnarinnar um Ararat.  Mikill fjöldi leiðangra hefur verið gerður út til að finna leifar af örkinni á Ararat, og allar tilraunir  eru árangurslausar til þessa.  Flekarnir í TYRKLANDI

Austur hluti Tyrklands er eitt af flóknustu svæðum jarðar hvað snertir flekahreyginar og jarðfræði, eins og kortið sýnir.  Hér eru stórir jarðskjálftar tíðir, enda er jarðskorpunni skift í marga litla fleka, sem nuddast stöðugt saman eins og ísjakar á straumvatni.  Arabíuflekinn sígur undir Evrasíuflekann og Íran til norðurs, og ein afleiðing þess er eldvirknin sem hefur myndað Ararat. Fyrir um 20 árum hafði einn af ritstjórum National Geographic tímaritsins samband við mig, og vildi fá álit mitt á ljósmynd sem var tekin í grennd við Ararat. Hún sýnir fyrirbæri sem er eins og bátur í laginu.  Ég taldi að þetta væri jarðmyndun, þar sem hörðnuð setlög hafa myndað fellingu, eins og síðar kom í ljós. National Geographic ákvað að láta málið niður falla og birti ekki myndina í ritinu.  Örkin


Eldgígar eru Listaverk

Robert SmithsonÁrið 1970 skapaði Robert Smithson bryggju sem myndaði eins kílómeters langan spíral út í Saltavatn í Utah í Bandaríkjunum. Það er eitt fyrsta og þekktasta verkið sem má nefna landlist  eða jarðverk, þar sem listaverkið er stór og nátengdur hluti af landslaginu.  Auðvitað eru píramídarnir í Egyptalandi einnig stórkostleg jarðverk á sína vísu.  Annað frægt verk af þessu tagi er enn í byggingu, en það er Roden Crater eftir James Turrell.  Roden gígurHann byrjaði á því að kaupa 400 ferkílómetra af landi árið 1979 í jaðri eyðimerkurinnar sem kölluð er Painted Desert  í Arizona fylki í Bandaríkjunum.  Á landi hans eru nokkrir gígar, sem tilheyra San Francisco Peaks gígaþyrpingunni, og einn þeirra er gígurinn Roden, sem er um 390 þúsund ára gamalt og útdautt eldfjall, um 200 metrar á hæð.  James TurrellGígar eru auðvitað listaverk frá náttúrunnar hendi, en Turrell vildi gera enn betur og nota gíginn sem  umgerð fyrir listaverk sitt, en það fjallar um ljós og áhrif þess.  Turrell hafði lengi starfað sem flugmaður, og flaug meðal annars njósnavélum fyrir CIA, en varð þekktur fyrir að smygla múnkum út úr Tíbet til Indlands í lítilli flugvél sinni, þegar Kína gerði innrás í Tíbet.  Hann dáði landslagið, eins og það lítur út úr lofti, og byrjaði að velta því fyrir sér hvernig hann gæti tengt listaverk sitt nánar landslaginu.   Vinna hófst fyrir alvöru í Roden árið 1980, og enn í dag er verið að starfa að verkinu. Gestir ganga inn í eldfjallið í gegnum löng göng, þar til þeir koma í sal undir gígnum. ÞversniðÍ loftinu fyrir ofan, sem er botn gígsins, er stór sporöskjulagað gat, sem Turrell kallar auga gígsins, þar sem gestir horfa upp til himins og sjá stjörnurnar fyrir ofan.  Það er mikið tæknilegt vandamál að gera göng í gegnum vikur og gjall, sem þarf að fóðra með steinsteypu. Kostnaður hefur orðið gífulegur  og er kominn langt yfir 10 miljón dollara.   Erfitt hefur reynst að fá fjármagn til að ljúka verkinu og er Roden gígur ekki enn opinn almenningi.  Tur 10

Bakkus og Spartakus á Vesúvíusi

Vesúvíus 1800Frægasta eldfjall heims er tvímælalaust Vesúvíus á Ítalíu. Þar varð frægasta gosið í mannkynssögunni, er borgirnar Pompeii og Herkúlaneum grófust undir gjóskuflóðum, ösku og vikri í miklu þeytigosi hinn 24. ágúst árið 79 e.Kr.  Ég byrjaði að rannsaka jarðlögin frá þessu merka gosi árið 1976, og birti mína fyrstu grein um það í ritinu American Journal of Archaeology árið 1979.  Síðan hef ég starfað mikið á Vesúvíusi og við uppgröft í rómversku borgunum sem fóru í kaf, og ritað um þau störf.   Ein grein mín, sem er hentug almenningi til lestrar varðandi þetta merka eldgos, fylgir hér með sem PDF skrá fyrir neðan þessa bloggfærslu. Hér með fylgir gouache mynd af Vesúvíusi sem er úr Eldfjallasafni í Stykkishólmi, en hjá okkur eru tugir gosmynda af Vesúvíusi frá ýmsum tímum. BakkusHér er rjúkandi eldfjallið séð yfir rústirnar í Pompeii, en myndin er máluð á átjándu öldinni.  Það er af miklu að taka þegar maður byrjar að fjalla um Vesúvíus og borgir hans, en ég vil byrja á að fjalla hér aðeins um ástand fjallsins fyrir gosið.   Upplýsingar um Vesúvíus FYRIR gosið mikla árið 79 eftir Krist koma frá ólíklegustu stöðum.  Í fyrsta lagi eru það tvær myndir varðveittar frá dögum rómverja, sem eru taldar sýna fjallið.  Í öðru lagi eru það sögulegar heimildir tengdar uppreisn skylmingarþræla á Ítalíu undir stjórn Spartakusar.  Í þriðja lagi eru upplýsingarnar sem við fáum við jarðfræðiathuganir á fjallinu og nágrenni.    Hér til hliðar er mynd sem fannst í rústunum í glæsilegu húsi í borginni Pompeii, og er talið að hún sýni eldfjallið Vesúvíus og guðinn Bakkus.  Húsið er ávalt kallað  Casa de Centenario eða Aldarhúsið, þar sem það var grafið upp einni öld eftir að borgin Pompeii var aftur “uppgötvuð” og uppgröftur hófst.Kort af Pompeii    Húsið var grafið upp árin 1879, 1881 og 1902. Reyndar eru þetta tvær byggingar, sem eru tengdar og má vera að ér hafi búið tvær fjölskyldur þeirra  Rusti og Tiberíusar: Domus A Rustii Veri e Tiberius Claudi Veri.  Húsið er í miðri borginni  (Regio  IX. Insula 8. Casa 3 og 6), eins og kortið af Pompeii sýnir.  Á vegg í einum ganginum eða atríum er myndin máluð sem allstórt freskó, en eftir fundinn var myndin tekin af veggnum og flutt í Fornminjasafnið í Napólíborg.  Hér er eldfjallið Vesúvíus sýnt með fremur reglulegri lögun og einum toppi.  Í dag hefur fjallið hins vegar tvo toppa, síðan form þess breyttist við gosið mikla 79 e. Kr.  Neðri hluti fjallsins er vafinn vínekrum á myndinni. lacryma w Einnig sýnir myndin guðinn Bakkus, og ef til vill hefur hann verið höfuð ástæðan fyrir því að myndin var gerð. Bakkus var grísk-rómverskur guð víns og lífsnautna og mikið dýrkaður í Pompeii.  Bakkus er hlaðinn stórum kippum af vínberjum. Fyrir framan hann eru fléttur úr gróðri, og snákur nálgast frá altarinu til vinstri. Bakkus gefur hlébarðanum vín að drekka.     Vínmenning er enn í dag stór þáttur í lífi íbúa héraðsins Campania, umhverfis Vesúvíus.  Eitt þekktasta og besta vín Ítalíu ber nafnið Lacryma Christi, eða tár Krists, og það er vínið sem er einungis ræktað í hlíðum Vesúvíusar,  þar sem vínekrur með vínberjategundunum Coda di Volpe, Caprettone,  Falanghina og Piedirosso vaxa og þrífast vel í vikrinum og öskunni. Spartacus eftir Kubrick    Einn sá fyrsti sem getur um Vesúvíus var arkitektinn Vitrúvíus um 16 fyrir Krist:  “Hér með er skráð að mikill hiti var undir Vesúvíusi í fornöld, og þar kom upp eldur sem breiddist yfir landið.”   Árið 62 f.Kr. varð mikill jarðskjálfti undir fjallinu og kann að vera að hann merki forspil fyrir gosið mikla 17 árum síðar.  Fræðimaðurinn Seneka ritaði mikið verk, Naturales Questiones, eða Spurningar um náttúruna, árið 65 e. Kr. Þar segir: “Við höfum frétt að Pompeii, fjöruga borgin í Campaníu, hafi orðið fyrir miklu tjóni vegna jarðskjálfta sem hafði áhrif á allar sveitir umhverfis. “   CaeciliusÍ húsi bánkastjórans í Pompeii, Lucius Caecilius Jucundus, er musteri með veggmynd úr marmara sem sýnir á kátlegan hátt áhrif jarðskjálftans, eins og myndin til hiðar sýnir.  Hús eru að hrynja og jafnvel riddarinn á styttunni er að detta af baki!  Viðgerðum á húsum var ekki lokið þegar gosið mikla reið yfir Pompeii sautján árum síðar.  Frekari upplýsingar um Vesúvíus koma fram í sambandi við þrælauppreisn á Ítalíu árið 73 f. Kr. Til 71 f.Kr., en forsprakki þrælanna var skylmingaþrællinn Spartakus.  Kvikmyndin Spartacus, sem Stanley Kubrick gerði árið 1960, segir söguna mjög vel og hún er ein af mínum mestu uppáhaldskvikmyndum.  Forum Uppreisnarher Spartakusar gerði virki sitt í gígnum á Vesúvíusi.  Samtíma sagnir segja að þá var aðeins ein leið upp fjallið. Uppreisnarmenn notuðu reiði til að komast aðarar leiðir niður hamrana og komu rómverska hernum á óvart og sigruðu þá.  Sögnin um Spartakus, um 150 árum fyrir gosið mikla 79 e. Kr. bendir til þess að fjallið hafi verið  vel gróið og skógur náð langt upp hlíðarnar. Spartakus var frá Grikklandi, en á nítjándu öldinni varð hann ein af stóru hetjunum fyrir Karl Marx og tákn fyrir marxista í baráttu gegn harðræði og einveldi.     Íslendingar hafa lengi vanið komur sínar til Vesúvíusar og næsta nágrennis.  Ég tel víst að Hrafn Sveinbjarnarson (1166 -1213)  annálaðasti læknir  Íslands á þjóðveldisöld, hafi séð Vesúvíus á leið sinni suður frá Rómarborg. Talið er að Hrafn hafi sótt heim háskólann og lækningasetrið í Salernóborg á Ítalíu, sem er skammt fyrir sunnan Vesúvíus.  Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson ferðaðist um Ítalíu árið 1833 og dvaldi í Napólí um skeið.   Hann segir frá eldfjallinu og ferð sinni í Skírni:  “Þannig hagar landi fyrir vestan og norðan Napoli, en í austri þaðan er einstakt á sléttunni eldfjallið Vesúvíus, og er úr borginni til fjallsrótanna svo sem vegarstika en meira en helmingi  lengra upp á það. Það er nokkuð lægra en Hekla og í lögun áþekkt og önnur eldfjöll, ávalt að ofan með eldvörpu í kollinn, bratt  nokkuð niður til miðs, en þaðan af aflíðandi til allra hliða, hvar hrauneðjan og vikurinn hefir staðar numið. Kringum alt fjallið eru nú fagrar bygðir  og vaxa langt upp eftir því ber, sem af sér gefa hin ágætustu vín. Vesúvíus1631Sunnanvert við það lá forðum Pompeji   en vestanvert og á sjávarbakkanum Hercúlanum ; liggur þar nú  hraun yfir og er nú bygt ofan á hraunleðjunni, hvar borgin var  undir, og slitnar ei húsarunan með sjónum þaðan til Napoliborgar.  Eldfjallið er til ógnunar og þær  byltingar, sem jarðeldarnir hafa til leiðar komið, gera héruð þessi  enn fýsilegri og eftirtektaverðari fyrir hvern þann, sem ann skoðun náttúrunnar, og þeim sem fræðast vill um fornaldirnar, getur  ekkert verið betur að skapi, eu að líta svo margar menjar þeirra,  sem hér bera fyrir augu, er jafnvel heilar borgir, sem týndar hafa  verið fram undir 2000 ár, koma upp úr jörðunni.”   Síðast en ekki síst ber að geta þess að Einar Magnússon, skemmtilegasti kennari Menntaskólans í Reykjavik, gekk á Vesúvíus árið 1921 og ritaði þar um.  Ég lýk þessum pistli um Vesúvíus með mynd úr Eldfjallasafni, sem sýnir gosið mikla 1631, stærsta gosið eftir 79 e.Kr.  Meira um þetta merka fjall síðar. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Parícutín Eldfjall og David Alfaro Siqueiros

SiqueirosEin uppáhaldsmyndin mín í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er “Eldgos í Paricutín” eftir mexíkanska málarann og byltingarsegginn David Alfaro Siqueiros (1896 - 1974). Eins og mörg verk Siqueiros, þá er myndin máluð með pyroxilin litum. Þessir litir eru mjög sérstakir, og einnig hættulegir. Aðal uppistaðan er nítrósellulós, en pyroxilin efnið var fundið upp af Du Pont fyrir Ford bílaverksmiðurnar og nefnt Duco. Þetta lakk hefur þá eiginleika að þorna mjög hratt en var hættulega eldfimt og óhollt. Myndin er máluð 1962, en hún er af eldgosinu í Parícutín, en það er eldfjallið sem spratt upp í akri bóndans Dionisio Pulido árið 1943 og hét áfram að gjósa í níu ár.  Siqueiros í steininumÉg hef áður bloggað um þeta gos og Dr. Atl, sem einnig málaði margar myndir af gosinu, í pistli mínum hinn 6. október 2009.Siqueiros (1896-1974), ásamt Diego Rivera og Jose Clemente Orozco eru taldir fremstu málarar í múralista hreyfingunni í Mexíkó. Siqueiros var innan við tvítugt þegar hann var skipaður liðsforingi í Byltingarher Mexíkó, og síðar var hann hátt settur í Borgarastyrjöldinni á Spáni. Hann var mjög virkur í verkalýðshreyfingunni í Mexíkó og vegna afskipta hans af stjórnmálum dvali hann mörg ár í fangelsum eða flúði land. Það var einmitt í fangelsinu sem hann málaði flest verk sín, og þar á meðal þetta sem hér er sýnt. Siqueiros byrjaði snemma að taka þátt í byltingarhreyfingunni í Mexíkó, en árið 1911 voru helstu leiðtogar byltingarinnar þeir Pancho Villa, Emiliano Zapata og Pascual Orozco. Baráttan hélt áfram og hann var orðinn kapteinn í byltingarhernum þegar barátunni lauk árið 1918. En hann hélt áfram að vera mjög virkur í stjórnmálum og verkalýðsmálum, enda harður Marxisti allt sitt líf. Árið 1930 var hann fyrst settur í steininn vegna stjórnmálaskoðana, en slapp til Bandaríkjanna árið 1932. Hann snéri aftur til Mexíkó 1934 þegar mildari stjórn tók völdin. siquier 1sStrax og borgarastyrjöldin brautst út á Spáni árið 1936 þá var Siqueiros mættur á staðinn, og var mjög virkur þáttakandi og barðist á móti fasistahreyfingu harðstjórans Francisco Francos þar til 1938. Siqueiros hafði alla tíð verið mikill fylgismaður stalínista í Sovíetríkjunum. Á þessum tíma klofnai Leon Trotsky út úr kommúnistaflokknum og flúði Sovétríkin, en settist að í Mexíkó. Siqueiros reyndi að fá mexíkönsk yfirvöld til að vísa Trotsky úr landi, en árangurslaust. Hann taldi veru Trotskys svo hættulega í Mexíkó að hann skipulagði morðtilraun á hendur honum í maí 1940. Siqueiros safnaði saman 25 listamönnum, verkalýðsleiðtogum og vinum sínum til að gera árás á heimil Trotskýs í Mexíkóborg. Trotsky og eiginkona hans földust undir rúmi og sluppu í þetta sinn. Siqueiros var vísað úr landi og settist að í Suður Ameríku þar til 1943, er hann snéri aftur til Mexíkó. Alltaf hélt hann áfram að mála, en gekk aftur í kommúnistaflokkinn.  siqueiros55Hann var aftur tekinn fastur í Mexíkó árið 1960 og sat inni til 1964. Það var einmitt á þessu tímabili sem hann málaði myndina af Parícutín, sem er sýnd í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Siqueiros undirritaði öll verk sem hann gerði í fangelsi C.P., sem er skammsetning á "Carcel Presidiario" eða fangi í fangelsi. Myndin í Eldfjallasafni er einmitt undirrituð “Siqueiros C.P. 62”.

Eldfjöll sem Mótíf í Arkitektúr

Vulcano BuonoStundum finnst manni að ástandið sé svipað í dag með þá sem stunda arkitektúr eða byggingalist og með nútíma listamenn: það er búið að prófa allar mögulegar leiðir í listum undanfarnar aldir, og í örvæntigarfullum tilraunum sínum til að vera frumlegir eru sumir í þessum hóp komnir út í vitleysu og öfgar í dag. En nú hefur komið fram hreyfing meðal arkitekta sem mér líst nokkuð vel á, og það er hreyfing sem notar eldfjöll sem mótíf. Þetta er ekki bara hreyfing heldur hreint og beint alda, og arkitektar virðast nú keppa um að líkja eftir eldfjöllum. MíluturninnHér með fylgja nokkur dæmi. Það fyrsta sem ég vil benda ykkur á er bygging í grennd við Vesúvíus, en hún er komin í gagnið. Byggingin ber nafnið “Il Vulcano Buono” eða góða eldfjallið, og er staðsett í bænum Nola nálægt Napólíborg á Ítalíu. Það er sjálfur Renzo Piano sem hefur skapað þetta skemmtilega verk. Gígurinn er 150 metrar í þvermál. Stærsta bygging heims gæti litið út eins og eldfjall. Arkitektinn og boxarinn Eugene Tsui hefur nú stungið uppá þriggja kílómetra hárri ofurbyggingu fyrir San Francisco borg, sem nefnist Ultima Tower og getur hýst um eina miljón manns. Munið eftir Mount Doom eldfjallinu í Hringadrottinssögu?Taichung  Ætli Tsui hafi fengið hugmyndina þar?Nú er í byggingu Taichung ráðstefnubyggingin í Taívan, en hún er mynduð eins og þyrping af eldfjöllum eða gígum, hlið við hlið. Byggingin er skemmtilega létt og opin, en hún er hönnuð af MAD Architekts í Beijing í Kína. Njiric Arhitekti í Króatíu hafa hannað blátt eldfjall sem íþróttaleikvang. Í stað þess að hafa öskuský fyrir ofan eldfjallið, þá hafa þeir komið fyrir skýi sem er reyndar sólarsellur. Bláa eldfjalliðAð lokum er það Vulcania, eldfjallasafnið í Auvergne héraði í Frakklandi. Þar hafa þeir í frekar smáum stíl reist lítið eldfjall á smekklegan hátt.Er ekki kominn tími til að arkitektar reisi okkur eldfjall á Íslandi, til dæmis veglega byggingu undir Eldfjallasafn í Stykkishólmi?  Vulcania jpgEf til vill hefði sú hugmynd fengið góðan hljómgrunn fyrir 2008, en sennilega eru undirtektir ekki alveg eins góðar í dag. Við lifum í voninni…

Ástir og Eldgos í Bíó

Vulkano 1950Það er Valentínusadagur í dag, og viðeigandi að fjalla um ástir, bíó og eldgos, allt í einum pakka. Í Miðjarðarhafi, milli Sikileyjar og Ítalíu, eru nokkrar eldfjallaeyjar, en tvær þeirra komu mikið við sögu kvikmyndanna árið 1950. Það var á eyjunum Stromboli og Vulkano sem leikkonurnar Ingrid Bergman og Anna Magnani börðust um ást ítalsks leikstjóra og gerðu samnefndar kvikmyndir þetta ár. Ég vil sérstaklega benda ykkur á bíóplaköt frá þessum kvikmyndum, sem eru til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Anna og RosannoSagan byrjar dag einn árið 1948 þegar Roberto Rosselini situr í Róm og er að opna póstinn sinn. Hann les þá eftirfarandi sendibréf frá Ameríku: “Kæri herra Rosselini: Ég sá myndir þínar "Open City" og "Paisan" – – og ég varð mjög hrifin. Ef þig vantar sænska leikkonu sem talar mjög góða ensku, og líka þýsku, og er líka sæmileg í frönsku, en kann aðeins “ti amo” á ítölsku, þá er ég reiðubúin að koma og vinna með þér. Bestu kveðjur, Ingrid Bergman.”Svona einfalt var það í þá daga. Rosselini, sem hafði verið í ástarsambandi við Önnu Magnani í nokkur ár og stýrt henni í kvikmyndum (“L´Amore” 1948), flaug strax til Ameríku til að hitta sænsku leikkonuna sem var nýbúin að hljóta Óskarsverðlaunin og var þá tvímælalausr frægasta kvikmyndastjarna heims. Anna MagnaniHann fór til Hollywood og fundaði með stærsta framleiðandanum, David O. Selznick, og innan skamms var kominn samingur um að gera myndina “Stromboli” á Ítalíu árið 1950 með Ingrid í aðalhlutverki. Þegar Anna fær fréttir af þessu fer allt uppíloft. Upphaflega átti hún að fá þetta hlutverk, og nú er hún líka að missa elskhugann í klærnar á sænsku stjörnunni. Anna er alls ekki af baki dottin, og byrjar að gera sína eigin eldfjallsmynd með leikstjóranum William Dieterle, ásamt leikurunum Rossano Brazzi og Geraldine Brooks. Það er kvikmyndin “Vulkano” sem kom einnig út árið 1950. Eins og kortið sýnir, þá er ekki langt á milli Stromboli og Vulkano eyjanna, aðeins um 50 kílómetrar. En þarna störfuðu þau, nýju elskhugarnir Ingrid og Roberto á sínu eldfjalli, og Anna og hennar lið á Vulkano sumarið 1949. Myndin Vulkano fjallar um gleðikonuna Maddalena Natoli, sem er leikin af Önnu Magnani, sem er dæmd í útlegð frá Napólí, til að eyða æfinni heima í þorpinu sínu á eldfjallseynni Vulkano. Vulkano eyjaÞegar hún kemur heim, þá er henni ekki vel tekið af systkinum sínum. Eini vinurinn er elskuginn, og kafarinn Donato, sem Rosanno Brazzi leikur. Á þeim dögum var litið á kafara eins og við lítum á geimfara í dag: einskonar ofurmenni. Anna fær vinnu á bát kafarans, en hann fær áhuga á yngri systur Önnu. Hún vill bjarga systur sinni frá smabandi við þennan hættulega mann, og einn daginn, þegar hann er í kafi djúpt á hafsbotni, hættir hún að dæla til hans lofti og drepur hann. Í örvæntingu sinni gengur Anna upp fjallið og niður í gíginn þegar gosið hefst. Þetta var ekki besta mynd Önnu, en árið 1956 hlaut hún Óskarsverðlaunin fyrir myndina “Rose Tattoo” með Burt Lancaster, en handritið var samið sérstaklega fyrir hana af sjálfum Tennessee Williams.Stromboli1950  Anna var sögð afskaplega skapmikil og jafnvel stórir karlar á við stjörnurnar Burt Lancaster og Anthony Quinn, sem léku á móti henni, voru sagðir vera dauðhræddir við hana. En hún var ein allra vinsælasta leikkonan um miðja tuttugustu öldina og talin jafnast á við sjálfa Gretu Garbo. Til dæmis má geta þess að það fyrsta sem rússneski geimfarinn Yuri Gagarin sagði þegar hann útvarpaði úr geimnum til jarðar fyrstur mann árið 1961 var þetta: “Ég sendi kveðjur mínar til mannkynsins á jörðu, til heims listanna og til Önnu Magnani.” Eyjan Vulkano er stórmerkilegt eldfjall, en þar búa nú um 500 manns. Síðasta gosið var árið 1888, en Vulkano var mjög virkt á átjándu öldinni. IngridÞað eru þrír gígar, sá yngsti er Vulcanello sem myndaðist í gosi 183 f. Kr., næst er Fossa sem var virk 1888, og elst er Il Piano askjan. Eyjan er mjög vinsæl meðal ferðamanna, og í næsta gosi verður stórtjón fyrir þá sem hafa byggt hér fjölda af hótelum undanfarið. Gríski guðinn Æolus, guð vindanna, hafði aðsetur sitt í eldfjöllunum á Isole Eolie, Vindeyjum, og þar var að finna uppruna vindanna, samkvæmt grísku goðatrúnni. Reydar er það alveg lógiskt og mjög skiljanlegt, þar sem kenning forngrikkja um eldgos var sú, að þau væru afleiðing þess þegar vindur brýst út úr jörðinni út um lítið op, sem er gígur eldfjallsins. Það var sjálfur Aristóteles sem setti fram þessa kenningu. Um leið og Anna Magnani var að kæfa Rosanno Brazzi í hafinu rétt hjá Vulkano, þá voru þau hjúin Ingrid Bergman og Roberto Rosselini að hafa það gott á Stromboli rétt hjá. Ferðamönnum sem koma til Strombolí er sýnt fallega litla rauða steinhúsið þar sem hjúin bjuggu saman, og marmaraskilti á útvegg lýsir ástarsambandinu. Afrakstur af því var kvikmyndin “Stromboli” (1950) og svo litla barnið Robertino Rosselini. Kvikmyndin fjallar um unga flóttakonu, Karin, frá Litháen sem giftist ítölskum sjómanni til að sleppa út úr flóttamannabúðum. Hann fer með hana heim til Stromboli. Ingrid á eldfjallinuÞað fyrsta sem hún segir þegar til eyjarinar kemur er: “Er það alltaf gjósandi?” Svarið er já. Hún er mjög óhamingjusöm og reynir að komast í burt með því að ganga yfir eldfjallið til að reyna að komast í annað þorp og sleppa burt frá Stromboli eyju. Kvikmyndin endar þegar hun er að nálgast gíginn, en við vitum ekki um endanleg örlög hennar. Myndin Stromboli orsakaði eitt mesta hneyksli í sögu kvikmyndanna. Bæði Rosselini og Bergman voru gift öðrum þegar ástarsamband þeirra hófst á eynni, og þegar hún fæddi son þeirra Robertino. Casa IngridHinn 14. marz árið 1950 tók senator Edwin C. Johnson frá Kolóradó til máls í efri deild bandaríska þingsins. Hann flutti þá langa ræðu um Ingrid Bergman, og spillingu þá sem hún breiddi nú út með hegðun sinni. Kosning í þinginu gerði Ingrid persona non grata í Bandaríkjunum og hún flúði land og settist að á Ítalíu. Loks snéri hún aftur til Bandaríkjanna sjö árum síðar og tók upp þráðinn aftur þar í Hollywood. En Stromboli heldur áfram að gjósa og það má segja að þetta eldfjall sé það virkasta á jörðu. Ekki er að furða að Stromboli eyja sé oft kölluð “viti Miðjraðarhafsins”, en her hefur gosið stöðugt í meir en 2500 ár. Gosin eru flest mjög lítil, og gera lítinn usla. 

StomboliRosi

 Tvö þorp sjómanna hafa þvi þrifist í hlíðum fjallsins í alda raðir.  Upphafið á sögunni um Vulkano og Stromboli kvikmyndirnar var það, að fjórir aðalsmenn á Sikiley fundu upp aðferð til að taka kvikmyndir neðansjávar og vildu gera mynd um kafara. Þeir fengu Rosselini og Önnu Magnani í lið með sér til að vinna að kvikmyndinni. 

Stromboli Olía

En svo sveik Roberto Önnu sína, og svo framvegis.  Hér fyrir neðan fylgja tvö málverk sem ég eignaðist þegar ég heimsótti Strombólí árið 1990 og 1997.  

Stromboli á gler

Þær má báðar sjá í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, ásamt fleiri myndum af Strombóli eldeyju. 

 

Eldgosið á Eynni Montserrat

Montserrat 2009Árið 1980 starfaði ég við eldfjallarannsóknir í Vestur Indíum, en það er eyjaklasinn sem skilur Atlantshaf frá Karíbahafi. Flestar eru þessar eyjar eldfjöll sem hafa risið úr hafi vegna flekahreyfinga milli Atlantshafsflekans í austri og Karíbaflekans fyrir vestan. Þá bárust fregnir um dularfulla atburði í Soufriere Hills eldfjalli á eynni Montserrat og ég fór þangað til athugana og kynntist þessari fögru eyju, en hún er nú eina nýlendan sem eftir er af breska heimsveldinu. Ég kannaði hlíðar eldfjallsins Soufriere Hills á suður hluta eyjarinnar, og rakst á hverasvæði þar sem bráðinn brennisteinn rann niður úr fjallinu eins og hraun. Það var greinilegt að hiti var að færast í fjallið, eins og kom vel fram fimmtán árum síðar.Gosið í Soufriere Hills hófst árið 1995, eftir fimm hundruð ára dvala eldfjallsins. Strax var ljóst að allur suður helmingur eyjarinnar var í hættu, og þar á meðal höfuðborgin Plymouth, með um 4000 íbúa. Ég snéri aftur til Montserrat árið 1996, en þá var hafinn mikill flótti íbúanna frá eynni. Gosið hélt áfram, en það var með þeim hætti, að mjög seig hraunkvika kreistist upp úr gosopinu og myndaði stóran hraungúl efst á fjallinu. Montserrat 1997Öðru hvoru hrundu stór björg úr hraungúlnum og mynduðu glóandi heitar skirður eða gjóskuflóð niður brattar híðarnar. Árið 1997 hrundi mikill hluti hraungúlsins sem hafði safnast fyrir ofan á gígnum, og myndaði það stórt gjóskuflóð sem drap 19 manns. Skömmu síðar var um 80% af byggðinni í Plymouth eyðilögð af gjóskuflóðum og borgin þá yfirgefin fyrir fullt og allt. Árið 1998 starfaði ég við rannsókn á hafsbotninum umhverfis Montserrat. Yolanda WoodberryÍ þeim leiðangri kom ég við á nágrannaeynni Antigua. Þar hitti ég fyrir tilviljun svörtu listakonuna Yolanda Woodberry sem býr þar. Við ræddum um gosið og hún sagðist hafa glóandi fjallið fyrir augunum daglega, og væri byrjuð að mála gosið. Þannig eignaðist ég olíumálverkið af gosinu í Soufriere Hills eftir Woodberry, sem hangir uppi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, og er hér til hliðar. Myndin sýnir eldvirknina að nóttu til, þar sem glóandi heitir og eldrauðir straumar af grjóti og ösku streymir niður hlíðarnar, þegar hraungúllinn hrynur. Ljósmyndin hér fyrir neðan sýnir samskonar fyrirbæri. Á daginn sést glóðin lítt eða ekki, þar sem gjóskuflóðin hylja hlíðarnar og fela glóðina. Soufrier Hills heldur áfram að gjósa, og í gær fór gjóskustrókurinn í 16 km hæð og gjóskufall truflaði flugsamgöngur í Karíbahafi.Soufriere Hills á nóttinni

Elsta Myndin af Heklu er eftir Sebastian Münster

Munster HeklaElsta myndin í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er sennilega frá árinu 1544. Hún er trérista af Heklugosi, úr ritinu Cosmografia eftir þjóðverjann Sebastian Münster. Myndin er sýnd hér fyrir ofan og er þar með elsta myndin af íslensku eldgosi. Það er fróðlegt að fylgjast með hugmyndum manna um eldfjöll á Íslandi, með því að skoða myndir af Heklu og öðrum eldfjöllum landsins eins og þær birtast okkur í landafræðiritum og á landakortum. Fyrst og þekktasta verk Sebastians Münster er Cosmographia universalis (1544) sem er einskonar landafræðirit, lýsing á löndum og þjóðum. Bókin er eitt þekktasta ritið frá byrjun bókaútgáfu í Evrópu. Münster var stórmerkilegur maður. Hann var múnkur í Fransísku reglunni, en eftir siðaskiftin fylgdi hann Marteini Lúter, og stundaði kennslu í Heidleberg og síðar í Basel. Münster sparaði ekki myndir í rit sitt, og fékk frábæra listamenn, eins og Hans Holbein yngri, Urs Graf, Hans Rudolph Manuel Deutsch, og David Kandel til að myndskreyta verkið með tréristum.Etna eftir Munster  Heklumyndin fyrir ofan er því eftir einn af þeim. Auðvitað hefur enginn þeirra séð Heklu, en haft vissa hugmynd um hvernig gjósandi eldfjall ætti að líta út. Í Cosmographia er einnig frábær trérista af eldgosi í Etnu á Sikiley, með borgina Kataníu í forgrunni, eins og sjá má hér til hægri. Reyndar var Hekla komin á prent rétt áður en Münster sýndi henni áhuga. Hekla kemur fyrst fram á landakorti af Norðurlöndum eftir þýska farandlærdómsmanninn Jakob Ziegler árið 1532. Kortið var í bók Zieglers sem ber heitið Schondia, eða Norðurlönd.  Ziegler 1532Ísland er sýnt aflangt frá norðri til suðurs á korti Zieglers, og nær öðrum endanum er ritað: “Hekelfol Promont”. Stækkuð mynd úr korti Zieglers er sýnd hér til vinstri. Árið 1536 gaf Sebastian Münster út landakort af allri Evrópu, þar sem hann sýnir Ísland og Heklu eða Hekl´berg, eins og sýnt er hér fyrir neðan. Eiginlega er þetta mikið bætt endurútgáfa á verki grikkjans Kládíusar Ptolemeusar (90 til 168), en landafræði hans var grundvallarrit allt fram á miðaldir. Næst kemur Hekla fyrir á landakorti því sem Olaus Magnus gaf út af öllum Norðurlöndum árið 1539. Munster 1539Magnus var síðasti kaþólski biskupinn í Svíþjóð, og var í útlegð í Feneyjum á Ítalíu eftir siðaskiftin. Kort hans er stórmekilegt, þótt ekki séu útlínur Íslands nálægt lagi. Hann dregur upp mynd af þremur miklum eldfjöllum á Íslandi, með eldtungur við rætur þeirra. Eitt fjallanna er merkt Mons Hekla og er þetta í fyrsta sinn sem eldur er sýndur í eða undir fjallinu á korti. Myndin fyrir neðan er úr Íslandskorti frakkans Hieronymus Gourmont frá 1548, sem er eftirmynd af korti Olaus Magnus. Olaus Magnus 1539Takið eftir orðinu “saxa” á milli Heklu og Skálholts á kortinu. Saxa er hamrar eða berg á latínu og sennilega er hér átt við stuðlaberg á Íslandi. Á sumum kortum frá þessum tíma eru “saxa” sýnd sem þrír háir turnar, eða skýjakljúfar. Hekla birtist aftur sem Mons Heklfiel á Íslandskorti Fernando Bertelli frá árinu 1566 og er jarðeldur undir fjallinu, og einnig Caos merkt við. Það er greinilega byggt á korti Magnusar frá 1539, en “saxa” turnarnir þrír eru enn greinilegri en áður. Íslandskort Giovanni Camocio í Feneyjum var gefið út árið 1571, en hann tekur upp eftir Bertelli að öllu leyti, þar á meðal Heklu sem Mons Heclafiel, og hér er jarðeldur og chaos undir fjallinu. Stökkbreyting varð í kortagerð Íslands árið 1587, þegar kort Guðbrands Þorláksonar biskups á Hólum birtist. Það var gefið út af Abraham Ortelius í Antwerpen.  Ortelius 1587Þetta er fysrta kortið sem gefur nokkurn veginn raunsanna mynd af Íslandi, og speglar það vel þekkingu Guðbrandar biskups á landinu. Eins og myndin til hægri sýnir, þá er Hekla gjósandi hér í allri sinni dýrð. Dökkur mökkur hvílir á toppi fjallsins, grjóthnullungar kastast í allar áttir, og eldur er bæði í rótum þess, sem mun sennilega tákna hraunrennsli, og í toppnum. Kortið er handlitað sem gerir Heklumyndina enn áhrifameiri. Mörg síari kort, eins og Íslandskort Matthias Quad frá 1600 taka upp eftir Ortelíusi og Guðbrandi Þorlákssyni biskupi, og sýna Heklu gjósandi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband