Færsluflokkur: Eldfjallalist
Myndin Eldgos eftir Kristján H. Magnússon
15.3.2010 | 22:54
Góður listamaður getur skapað heila sögu með einni mynd. Ein sérkennilegasta mynd sem við sýnum í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er stórt olíumálverk sem ber heitið Eldgos, eftir Ísfirðinginn Kristján H. Magnússon (1903-1937). Myndin er nær einstök í íslenskri myndlist, þar sem hún er af sviðsettum ímynduðum atburði. Að því leyti er hún skyldari amerískri myndasögu frekar en evrópskri hefð í listum. Myndin sýnir ung hjón á flótta, með barn í reifum og aleiguna á bakinu. Klæðnaður þeirra minnir helst á lumpenproletariat í Austur-Þýskalandi. Þau flýja undan eldgosi og húsin umhverfis eru að liðast í sundur vegna áhrifa jarðskjálfta. Það er greinilegt að myndin er sviðsett í Vestmannaeyjum, með norðurklettana í bakgrunni og á bakvið er Eyjafjallajökull eða Hekla gjósandi í landi og dökkur gosmökkur rís til himins. Fjöldi fólks fylgir hjónunum á veginum sem liggur frá höfninni. Eru þau að flýja til Eyja, undan náttúruhamförum í landi? Það eru ýmiss önnur smáatriði, eins kirkja að falla af grunni, og hestur á flótta, sem gefur okkur mikið svigrúm til að túlka verkið og byggja upp söguþráðinn, hver á sína vísu. Þessi stóra og glæsilega mynd er í einkaeign í Mosfellsbæ. Kristján hóf listnám árið 1920 við hinn þekkta skóla í Boston sem nefnist Massachusetts School of Art, þá aðeins sautján ára gamall. För hans til náms í Boston var tengd fjölskylduböndum, en bróðir hans, Magnús G. Magnússon skipstjóri var búsettur þar. Magnús kemur einnig við sögu á Snæfellsnesi varðandi þáttöku hans í gullleit í Drápuhlíðarfjalli árið 1939. Kristján lauk námi árið 1926 við mjög góðan orðstír. Ein af myndum hans var þá valin á þjóðarsafn (National Academy) í New York og árið 1927 var sú mynd send á ferðasýningu um Bandaríkin af American Federation of Art. Hann hélt strax sína fyrstu einkasýningu í Copley Gallery í Boston 1927 og seldi mjög vel. Honum var spáð glæstri framtíð. Árið 1929 snýr Kristján aftur heim til Íslands og fer strax að mála víða um landið og er ótrúlega duglegur. Árið 1930 hélt hann tvær einkasýningar í Reykjavík, eina á Ísafirði og eina í Lundúnum og átti auk þess stóran hlut í Landakotssýningunni í Reykjavík það ár. Sýningin í London árið 1930 fékk frábæra dóma, til dæmis hjá listdómurum við "The Morning Post" og "The Times". En það var allt annar tónninn í Reykjavík. Listmálarinn Jón Þorleifsson (sem birti pistla sína undir nafninu Orri) var þá áhrifamikill listdómari, sem fjallaði um málverkasýningar í Morgunblaðinu, og hann gagnrýndi Kristján harðlega í skrifum sínum árið 1930 og 1934 og kallar hann til dæmis glanzmyndamálara. Sumir vilja telja að í þessum innlendu skrifum hafi verið meinfýsni efst á blaði. Á þessum tíma var það óalgengt eða jafnvel einstakt að íslenskir listamenn leiti sér menntunar í Vesturheimi, enda voru ýmsir hér vantrúaðir á listræna menningu Ameríkumanna. Kristján var því sniðgenginn með öllu þegar valið var úr verkum íslenskra listamanna til sýningar í Stokkhólmi árið 1932. Ekki vildi hann una því og leigði einn sal fyrir málverk sín skammt frá hinum opinbera sýningarstað. Gagnrýnendur í Stokkhólmi tóku sýningu Kristjáns ágætlega og veltu því fyrir sér af hverju hann væri ekki með á íslensku yfirlitssýningunni. Yfirleitt málaði Kristján með mjög natúralisku yfirbragði, og sumum finnst hann sýna áhrif frá Cezanne. Verk has eru gerð af mikilli leikni og skólaðri kunnáttu en viðfangsefnin einfölduð, drættirnir ljósir og litir með þíðum, áferðarfallegum blæ. Kristján hélt áfram ótruður að mála næstu árin, þótt undirtektir á Íslandi gætu verið betri. Á þessum tíma hefur hann sennilega komið til Eyja og málað verkið Eldgos. Sumarið 1937 fór hann í málunarferð um uppsveitir Borgarfjarðar á hestbaki. Skömmu eftir að hann kom heim lést hann skyndilega, sennilega úr garnaflækju, þá aðeins 34 ára gamall.
Gosmálarinn í Vestmannaeyjum: Guðni A. Hermansen
14.3.2010 | 17:44
Eldfjallalist | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldfjallið Ararat og Örkin hans Nóa
13.3.2010 | 14:43
Í Eldfjallasafni í Stykkishólmi sýnum við olíumálverk af eldfjallinu Ararat í Tyrklandi, eftir armeníumanninn H. Baghdasarian, frá 1922, en myndin er hér til hliðar. Ararat er eitt af hinum frægu fjöllum heims, vegna orðróms sem komst á kreik á fimmtu öld um að þar hefði örkin hans Nóa strandað þegar syndaflóðinu fjaraði út. Ég tel að ég geti sannað að þetta málverk er af eldfjallinu Ararat, sem er á landamærum Armeníu, Tyrklands of Íran. Berið málverkið saman við myndina fyrir neðan, en hún er af Ararat eldfjalli, eins og það kemur fyrir á Google Earth. Niðurstaðan er augljós. Ararat hefur reyndar tvo fjallstoppa. Annar, og sá hærri, nefnist Agri Dagi á tyrknesku, sem er 5165 metrar á hæð og þar með hæsta fjall Tyrklands, en hinn toppurinn er miklu reglulegra eldfjall eða keila, sem nefnist Kucuk Agri Dagi (Litla Ararat), og er 3925 metra hátt. Eftir forminu að dæma er Litla Ararat yngra og virkara eldfjall. Sögusagnir eru um að síðast hafi gosið hér árið 1840.
Baghdasarian virðist hafa málað aðra mynd af Ararat árið 1920, en hún er sýnd hér fyrir neðan. Hún var seld á uppboði hjá listaverkasalanum Christies í London árið 2003. Christies taldi myndina vera af Mexíkódalnum, og sýna eldfjöllin Ixtlahuacán og Popocatepetl. Það er því rangt, eins og sýnt er hér fyrir ofan. Við vitum öll að það er ekki alltaf hægt að treysta listaverkasölum.
Biblían segir að örkin hans Nóa hafi strandað í landinu Ararat eða í Armeníu. Ekki er þar minnst á fjallið Ararat. Þegar klerkurinn Philostorgius (ca. 364 425 e.Kr.) skráði sögu kristinnar kirkju í Konstantínópel, þá taldi hann að örkin hefði strandað á Ararat fjalli. Það er hinn eiginlegi uppruni sagnarinnar um Ararat. Mikill fjöldi leiðangra hefur verið gerður út til að finna leifar af örkinni á Ararat, og allar tilraunir eru árangurslausar til þessa.
Austur hluti Tyrklands er eitt af flóknustu svæðum jarðar hvað snertir flekahreyginar og jarðfræði, eins og kortið sýnir. Hér eru stórir jarðskjálftar tíðir, enda er jarðskorpunni skift í marga litla fleka, sem nuddast stöðugt saman eins og ísjakar á straumvatni. Arabíuflekinn sígur undir Evrasíuflekann og Íran til norðurs, og ein afleiðing þess er eldvirknin sem hefur myndað Ararat. Fyrir um 20 árum hafði einn af ritstjórum National Geographic tímaritsins samband við mig, og vildi fá álit mitt á ljósmynd sem var tekin í grennd við Ararat. Hún sýnir fyrirbæri sem er eins og bátur í laginu. Ég taldi að þetta væri jarðmyndun, þar sem hörðnuð setlög hafa myndað fellingu, eins og síðar kom í ljós. National Geographic ákvað að láta málið niður falla og birti ekki myndina í ritinu.
Eldfjallalist | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Eldgígar eru Listaverk
2.3.2010 | 22:07
Eldfjallalist | Breytt 3.3.2010 kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bakkus og Spartakus á Vesúvíusi
28.2.2010 | 12:20
Eldfjallalist | Breytt 21.3.2010 kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Parícutín Eldfjall og David Alfaro Siqueiros
22.2.2010 | 02:55
Eldfjallalist | Breytt 3.3.2010 kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldfjöll sem Mótíf í Arkitektúr
17.2.2010 | 19:59
Eldfjallalist | Breytt 3.3.2010 kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ástir og Eldgos í Bíó
14.2.2010 | 17:26
Það er Valentínusadagur í dag, og viðeigandi að fjalla um ástir, bíó og eldgos, allt í einum pakka. Í Miðjarðarhafi, milli Sikileyjar og Ítalíu, eru nokkrar eldfjallaeyjar, en tvær þeirra komu mikið við sögu kvikmyndanna árið 1950. Það var á eyjunum Stromboli og Vulkano sem leikkonurnar Ingrid Bergman og Anna Magnani börðust um ást ítalsks leikstjóra og gerðu samnefndar kvikmyndir þetta ár. Ég vil sérstaklega benda ykkur á bíóplaköt frá þessum kvikmyndum, sem eru til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Sagan byrjar dag einn árið 1948 þegar Roberto Rosselini situr í Róm og er að opna póstinn sinn. Hann les þá eftirfarandi sendibréf frá Ameríku: Kæri herra Rosselini: Ég sá myndir þínar "Open City" og "Paisan" og ég varð mjög hrifin. Ef þig vantar sænska leikkonu sem talar mjög góða ensku, og líka þýsku, og er líka sæmileg í frönsku, en kann aðeins ti amo á ítölsku, þá er ég reiðubúin að koma og vinna með þér. Bestu kveðjur, Ingrid Bergman.Svona einfalt var það í þá daga. Rosselini, sem hafði verið í ástarsambandi við Önnu Magnani í nokkur ár og stýrt henni í kvikmyndum (L´Amore 1948), flaug strax til Ameríku til að hitta sænsku leikkonuna sem var nýbúin að hljóta Óskarsverðlaunin og var þá tvímælalausr frægasta kvikmyndastjarna heims. Hann fór til Hollywood og fundaði með stærsta framleiðandanum, David O. Selznick, og innan skamms var kominn samingur um að gera myndina Stromboli á Ítalíu árið 1950 með Ingrid í aðalhlutverki. Þegar Anna fær fréttir af þessu fer allt uppíloft. Upphaflega átti hún að fá þetta hlutverk, og nú er hún líka að missa elskhugann í klærnar á sænsku stjörnunni. Anna er alls ekki af baki dottin, og byrjar að gera sína eigin eldfjallsmynd með leikstjóranum William Dieterle, ásamt leikurunum Rossano Brazzi og Geraldine Brooks. Það er kvikmyndin Vulkano sem kom einnig út árið 1950. Eins og kortið sýnir, þá er ekki langt á milli Stromboli og Vulkano eyjanna, aðeins um 50 kílómetrar. En þarna störfuðu þau, nýju elskhugarnir Ingrid og Roberto á sínu eldfjalli, og Anna og hennar lið á Vulkano sumarið 1949. Myndin Vulkano fjallar um gleðikonuna Maddalena Natoli, sem er leikin af Önnu Magnani, sem er dæmd í útlegð frá Napólí, til að eyða æfinni heima í þorpinu sínu á eldfjallseynni Vulkano. Þegar hún kemur heim, þá er henni ekki vel tekið af systkinum sínum. Eini vinurinn er elskuginn, og kafarinn Donato, sem Rosanno Brazzi leikur. Á þeim dögum var litið á kafara eins og við lítum á geimfara í dag: einskonar ofurmenni. Anna fær vinnu á bát kafarans, en hann fær áhuga á yngri systur Önnu. Hún vill bjarga systur sinni frá smabandi við þennan hættulega mann, og einn daginn, þegar hann er í kafi djúpt á hafsbotni, hættir hún að dæla til hans lofti og drepur hann. Í örvæntingu sinni gengur Anna upp fjallið og niður í gíginn þegar gosið hefst. Þetta var ekki besta mynd Önnu, en árið 1956 hlaut hún Óskarsverðlaunin fyrir myndina Rose Tattoo með Burt Lancaster, en handritið var samið sérstaklega fyrir hana af sjálfum Tennessee Williams. Anna var sögð afskaplega skapmikil og jafnvel stórir karlar á við stjörnurnar Burt Lancaster og Anthony Quinn, sem léku á móti henni, voru sagðir vera dauðhræddir við hana. En hún var ein allra vinsælasta leikkonan um miðja tuttugustu öldina og talin jafnast á við sjálfa Gretu Garbo. Til dæmis má geta þess að það fyrsta sem rússneski geimfarinn Yuri Gagarin sagði þegar hann útvarpaði úr geimnum til jarðar fyrstur mann árið 1961 var þetta: Ég sendi kveðjur mínar til mannkynsins á jörðu, til heims listanna og til Önnu Magnani. Eyjan Vulkano er stórmerkilegt eldfjall, en þar búa nú um 500 manns. Síðasta gosið var árið 1888, en Vulkano var mjög virkt á átjándu öldinni. Það eru þrír gígar, sá yngsti er Vulcanello sem myndaðist í gosi 183 f. Kr., næst er Fossa sem var virk 1888, og elst er Il Piano askjan. Eyjan er mjög vinsæl meðal ferðamanna, og í næsta gosi verður stórtjón fyrir þá sem hafa byggt hér fjölda af hótelum undanfarið. Gríski guðinn Æolus, guð vindanna, hafði aðsetur sitt í eldfjöllunum á Isole Eolie, Vindeyjum, og þar var að finna uppruna vindanna, samkvæmt grísku goðatrúnni. Reydar er það alveg lógiskt og mjög skiljanlegt, þar sem kenning forngrikkja um eldgos var sú, að þau væru afleiðing þess þegar vindur brýst út úr jörðinni út um lítið op, sem er gígur eldfjallsins. Það var sjálfur Aristóteles sem setti fram þessa kenningu. Um leið og Anna Magnani var að kæfa Rosanno Brazzi í hafinu rétt hjá Vulkano, þá voru þau hjúin Ingrid Bergman og Roberto Rosselini að hafa það gott á Stromboli rétt hjá. Ferðamönnum sem koma til Strombolí er sýnt fallega litla rauða steinhúsið þar sem hjúin bjuggu saman, og marmaraskilti á útvegg lýsir ástarsambandinu. Afrakstur af því var kvikmyndin Stromboli (1950) og svo litla barnið Robertino Rosselini. Kvikmyndin fjallar um unga flóttakonu, Karin, frá Litháen sem giftist ítölskum sjómanni til að sleppa út úr flóttamannabúðum. Hann fer með hana heim til Stromboli. Það fyrsta sem hún segir þegar til eyjarinar kemur er: Er það alltaf gjósandi? Svarið er já. Hún er mjög óhamingjusöm og reynir að komast í burt með því að ganga yfir eldfjallið til að reyna að komast í annað þorp og sleppa burt frá Stromboli eyju. Kvikmyndin endar þegar hun er að nálgast gíginn, en við vitum ekki um endanleg örlög hennar. Myndin Stromboli orsakaði eitt mesta hneyksli í sögu kvikmyndanna. Bæði Rosselini og Bergman voru gift öðrum þegar ástarsamband þeirra hófst á eynni, og þegar hún fæddi son þeirra Robertino. Hinn 14. marz árið 1950 tók senator Edwin C. Johnson frá Kolóradó til máls í efri deild bandaríska þingsins. Hann flutti þá langa ræðu um Ingrid Bergman, og spillingu þá sem hún breiddi nú út með hegðun sinni. Kosning í þinginu gerði Ingrid persona non grata í Bandaríkjunum og hún flúði land og settist að á Ítalíu. Loks snéri hún aftur til Bandaríkjanna sjö árum síðar og tók upp þráðinn aftur þar í Hollywood. En Stromboli heldur áfram að gjósa og það má segja að þetta eldfjall sé það virkasta á jörðu. Ekki er að furða að Stromboli eyja sé oft kölluð viti Miðjraðarhafsins, en her hefur gosið stöðugt í meir en 2500 ár. Gosin eru flest mjög lítil, og gera lítinn usla.
Tvö þorp sjómanna hafa þvi þrifist í hlíðum fjallsins í alda raðir. Upphafið á sögunni um Vulkano og Stromboli kvikmyndirnar var það, að fjórir aðalsmenn á Sikiley fundu upp aðferð til að taka kvikmyndir neðansjávar og vildu gera mynd um kafara. Þeir fengu Rosselini og Önnu Magnani í lið með sér til að vinna að kvikmyndinni.
En svo sveik Roberto Önnu sína, og svo framvegis. Hér fyrir neðan fylgja tvö málverk sem ég eignaðist þegar ég heimsótti Strombólí árið 1990 og 1997.
Þær má báðar sjá í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, ásamt fleiri myndum af Strombóli eldeyju.
Eldfjallalist | Breytt 3.3.2010 kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldgosið á Eynni Montserrat
13.2.2010 | 16:42
Eldfjallalist | Breytt 3.3.2010 kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Elsta Myndin af Heklu er eftir Sebastian Münster
12.2.2010 | 21:58
Eldfjallalist | Breytt 3.3.2010 kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)