Færsluflokkur: Eldfjallalist

Surtsey Miðjarðarhafsins var Ferdinandea árið 1831

Sikileyrarsund og FerdinandeaÁrið 1831 hófst eldgos í sjó í Miðjarðarhafi, um 50 kílómetrum fyrir sunnan Sikiley. Þessi atburður hafði merkileg áhrif á milliríkjamál Evrópuveldanna, og einnig beinlínis á þróun eldfjallafræðinnar. Þetta var gosið í Ferdinandeu, eða Graham Island, eða Giula, eða í eynni sem hvarf, en þetta neðansjávareldfjall hefur langa sögu. Á dögum Púnverjastríðsins (264 til 241 fyrir Krist) er fyrst getið um eldgos í hafinu fyrir sunnan Sikiley. Síðan hefur eyja risið og horfið í hafið aftur á þessu svæði fjórum eða fimm sinnum, og síðast á sautjándu öld. Sökum þess hlaut eyjan dularfulla nafnið “L´isola che non c´é piu” eða eyjan sem er ekki lengur. Ferdinandea er staðsett á hafsbotni í Sikileyjarsundi, milli Sikileyjar og Túnis, eins og kortið fyrir ofan sýnir. Hér í næsta nágrenni er eldfjallseyjan Pantelleria og einnig eyjan Linosa.  Ferdinandea bretannaHér er það sem við vitum um gang mála árið 1831:28. júní 1831: Breska herskipið HMS Rapid var statt undan suður strönd Sikileyjar, þegar skipið hristist og skalf í miklum jarðskjálfta og áhöfnin heyrði sprengingar sem þeir töldu vera eldgos.19. Júlí 1831: HMS Rapid nálgast svæðið og Kapteinn Swinburne og áhöfn hans sjá gos í hafinu, uppúr gíg sem er aðeins nokkrir metrar fyrir ofan sjávarborð. júlí 1831: Frakkar frétta af gosinu og senda jarðfræðinginn Constant Prevost og listmálarann Edouard Joinville til eyjarinnar og gefa eynni nafnið Giulia, þar sem hún var uppgötvuð í júlí. Um þetta leyti heimsækir rithöfundurinn Sir Walter Scott eynna.1. ágúst 1831: Sjóliðar af breska herskipinu St Vincent lenda á eynnit til landmælinga. Einnig koma herskipin Ganges, Hind, og Melville við á eynni í ágúst og gefa bretar henni nafnið Graham Island, í höfuð á fyrsta lávarði breska flotans, Sir James Graham.Þá var eyjan um 50 metrar á hæð. Þeir reisa stöng með breska fánanum á hæsta toppnum.6. ágúst 1831: Breska herskipið St Vincent er enn við eldeynna. Einn af áhöfninni teiknaði gosið, og eftir þeirri teikningu var gerð eirstunga af R. Ackermann. Sú mynd er til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, en hún er sýnd hér fyrir ofan. 17. ágúst 1831: Konungur Sikileyjar og Napólí, Ferdinand II sendir freigátuna Etnu gefur eynni nafn sitt, Ferdinandea, lætur fjarlægja breska fánann og reisa sinn fána upp á eynni. Ítölsk eirstunga af gosinu var gerð á þessum tíma, með titlinum “Isla Volcanica”, og er hún einnig sýnd í Eldfjallasafni í Stykkishólmi og sést hér fyrir neðan. Ferdinandea ítalannaUm þetta leyti sýna spánverjar eynni einnig áhuga og hyggjast nema land. 17. december 1831: Tveir sjóliðar í þjónustu konungs Sikileyjar og Napólí leita eyjarinnar en finna ekki. Öldur hafsins hafa brotið hana alveg niður og eftir eru aðeins grynningar. Það er greinilegt að Evrópuveldin höfðu mikinn áhuga á eynni, og hann var ekki vísindalegur, heldur tengdur ástandi þjóðmála innan Evrópu. Á þessum tíma gekk mikil byltingaralda yfir Evrópu, og íhaldssömum kóngum eins og Karli X í Frakklandi, var steypt af stóli af lýðræðissinnum, frjálslyndum og byltingarseggjum. Það var mikil ólga enn í álfunni eftir Napóleonsstyrjaldirnar. Miðjarðarhafið var hernaðarlega mikilvæt. Eyja í miðju hafinu, mitt á milli Möltu (sem var bresk), Spánar og Frakklands gat verið mjög mikilvæg fyrir breska heimsveldið, sem vildi ráða ríkjum í höfum heims á þeim tíma. En konungsríki Bourbonans, Ferdinands II, Sikiley og Napólí, varð fokreitt þear bretar helguðu sér eynna, og brugðu skjótt við. Það var viðeigandi að Ferdinand II sendi freigatuna Etnu á staðinn, lét fjarlægja breska fánann og reisa fána sinn á eynni og gefa henni ítalsk nafn: Ferdinandea. Til allrar hamingju hvarf eyjan fljótlega, en annars hefði sennilega komið til alvarlegra átaka hér. Það voru önnur átök sem áttu sér stað um Ferdiandeu á þessum tíma, en þau voru milli vísindamanna um upruna eldfjalla. Í byrjun nítjándu aldar var í gangi mikil deila um uppruna eldfjalla sem landslagsmyndunar eða landforms. Hvernig mynduðust þessi einstöku, háu og bröttu fjöll? Hér voru tvær kenningar ríkjandi. Önnur var Upplyftingarkenningin (Erhebungstheorie), sem var einkum ríkjandi í Þýskalandi og Frakklandi. Samkvæmt henni myndast eldfjöll sem einskonar bóla eða bunga, þar sem þrýstingur neðan frá lyftir upp jarðskorpunni. Frumkvöðull kenningarinnar var sjálfur Alexander von Humboldt, en þekktustu fylgisveinar hans voru Leopold von Buch og Elie de Beaumont, og einnig Charles Darwin. Hin kenningin var sú, að eldfjöll myndist vegna þess að hraun og gjall hleðst upp umhverfis gíginn eða gosrásina. Þeir sem einkum fylgdu þeirri kenningu, sem má kalla Goskenninguna, voru bretarnir Poulett-Scrope, Charles Lyell, og frakkinn Constant Prevost.Þegar Ferdinandea gaus, þá var greinilegt að eyjan hlóðst upp smátt og smátt, við það að öskulög lögðust hvert ofan á annað og þannig smáhækkaði hún. Upplyftingarkenningin var dauð eftir þetta gos. Eins og myndirnar sýna, þá var gosið nauðalíkt Surtseyjargosinu árið 1963. Hér var það aftur samspil kviku og vatnsins sem orsakaði sprengingar, alveg eins og í Surtsey og reyndar einnig í Grímsvötnum.

Guðmundur Einarsson frá Miðdal málar Grímsvatnagos 1934

Grímsvatnagos 1934Eitt fyrsta gosið sem kannað var í Grímsötnumí Vatnajökli var árið 1934, en þó hefur þessi eldstöð gosið í margar aldir. Þá fóru þeir Guðmundur Einarsson frá Miðdal og Jóhannes Áskelsson, jarðfræðingur, þangað og fundu þeir eldstöðvarnar við norður brún Grímsfjallss. Jóhannes gaf fyrstu lýsingu á gosinu í grein árið 1936 í riti Vísindafélags Íslendinga og færði rök að því, að þarna væru hin einu og sönnu Grímsvötn, sem áður voru kennd sagnablæ. Gosið í apríl 1934 stóð yfir í meir en tvær vikur, en þar voru þrír gígar virkir innan öskjunnar og eyja myndaðist í Grímsvötnum. Um Grímsvötn og Grímsvatnagos hefur verið ítarlega fjallað af Magnúsi Tuma Guðmundssyni og félögum á vefsíðunni http://www.jardvis.hi.is/page/jhgrimsvotn Guðmundur frá Miðdal hefur orðið fyrir miklum áhrifum af ferð sinni inn á jökulinn og af gosinu sem blasti við þeim Jóhannesi. Mér er kunnugt um tvö olíumálverk sem Guðmundur hefur málað af gosinu, ssennilega á staðnum. Annað þeirra er mynd í eigu Listasafns Íslands, sem er sýnd hér fyrir ofan, en hún hefur lengi hangið uppi í skrifstofu á Ríkisútvarpinu. Það má nú sjá þessa mynd á Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Þetta er einstaklega kraftmikil mynd og nær mjög vel stemmningunni í sprengigosi. Grímsvatnagos GlitnirHún er sögulega mikilvægt verk, sem lýsing og túlkun listamanns af náttúruhamforum sem hann var vitni af. Gígurinn þeytir upp brúnni og svartri ösku og vikri upp úr jöklinum af miklum krafti, en bólstrar af gufu blandinni brúnni ösku bólgna upp í kringum strókinn. Hér er mynd gerð af listamanni sem varð vitni af atburðinum, og myndin er þess vegna skemmtileg andstæða við mynd Finns Jónssonar af Surtseyjargosi, sem ég sýndi og bloggaði um hinn 27. desember 2009. En sennilega sá Finnur ekki eldgosið sjálfur. Guðmundur málaði aðra mynd af Grímsvatnagosinu 1934 og hún er einnig sýnd hér. Sú mynd er olíumálverk sem er eða var í eigu Glitnis (nú Íslandsbanki). Hér er Guðmundur fjær eldstöðvunum, og myndin er meira færð í stílinn. Strókurinn uppúr gígnum er glóandi, og gjóskuskýið myndar reglulegri bólstra en í hinni mynd Guðmundar. Jökullinn er mikið sprunginn og brotinn í forgrunni. Litavalið er allt annað hér, og myndin er ekki nærri því eins dramatísk og sú fyrri. Hún er fremur vinaleg, með roða sólsetursins umhverfis gjóskuskýið, en ekki ógnandi, eins og fyrri myndin. Grímsvatnagosið 1934 var sprengigos vegna þess að kvikan kom upp undir jökli. Ef gosið hefði gerst  á auðu landi, utan jökulsins, hefði runnið basalt hraun. Þannig er Grímsvatnagos náskylt Surtseyjargosinu 1963 og öðrum gosum, þar sem kvikan leitar upp í vatn eða undir bráðinn ís.  Áhrif heitrar kvikunnar á vatnið er suða og breyting í gufu sem þenst út og tætir sundur kvikuna í sífelldum og miklum sprengingum, sem mynda ösku og gjall.  Grímsvatnagos og Surtsey hafa á þennan hátt kennt okkur mikið um myndun móbergs á Íslandi. 


Elsta Landslagsmyndin: Er þetta Gjósandi Eldfjall eða Hlébarðafeldur?

Catal Hoyuk og eldfjalliðÞegar maður flettir grundvallarritum um listasögu, eins og til dæmis bókinni “Janson´s History of Art”, þá er ein mynd oft meðal allra fyrstu myndanna í slíkum yfirlitsritum. Það er mynd frá Tyrklandi, frá því um 6300 árum fyrir Krist, sem hefur verið talin fyrsta landslagsmyndin, fyrsta landakortið og einnig fyrsta myndin af gjósandi eldfjalli. Það er vel kunnugt að elstu myndir sem vitað er um eru í hellum suður Frakklands og Spánar, en þær eru gerðar á Steinöld, fyrir rúmlega tíu þúsund árum. Hellamyndirnar eru allar af dýrum og mönnum, en landslag kemur aldrei þar fram sem myndefni. Elsta landslagsmyndin er sennilega af gjósandi eldfjalli, en hún er frá um 6300 árum fyrir Krist. Það var árið 1965 að fornleifafræðingurinn James Mellaart uppgötvaði veggmynd eða freskó við uppgröft á Steinaldarþorpinu Catal Hoyuk í Anatólíu á Tyrklandi. Hasan Dagi eldfjallMyndin er löng, eða yfir 5 metrar, og virðist sýna byggingar þorpsins í forgrunni og gjósandi eldfjall í bakgrunni. Catal Hoyuk og Anatólía virðast vera meðal svæða þar sem akuryrkja og húsdýrahald var fyrst stundað og þar þróaðist greinilega ein allra fyrsta mening mannkynsins. Hrafntinna var mikilvægt hráefni til að smíða tól úr, og íbúar virðast hafa sótt hrafntinnuna til eldfjallanna Karaca Dagi og Hasan Dagi. Örvaroddar og spjótsoddar úr hrafntinnu finnast enn í uppgreftri í þorpinu og er talið að þessi framleðsla þorpsins hafi verið mikilvæg verzlunarvara. Málverkið fræga er á norður og austur vegg musteris í þorpinu, og hefur vakið gífurlega athygli – og deilur – varðandi túlkun á eldfjallinu með tvo toppa. Mellaart stakk uppá að myndin sýndi eldfjallið Hasan Dagi, en það er 3253 metrar á hæð, fyrir norðaustan þorpið, og hefur einmitt tvo toppa, eins og ljósmyndin hér sýnir. Hann túlkaði línur og depla fyrir ofan efri toppinn sem vitneskju um eldgos. Að lokum stakk Mellaart uppá því að íbúar Catal Hoyuk hafi dýrkað eldfjallið, sem veitti þeim verðmæta hrafntinnu, og ógnaði þeim með eyðingu og dauða öðru hvoru í hættulegum eldgosum. Í forgrunni á málverkinu er myndefni sem hefur ætið verið túlkað sem húsin í þorpinu.  ÞorpiðHér eru þau sýnd þétt saman, sem er einmitt skipan húsa í Catal Hoyuk samkvæmt uppgreftrinum. Myndin hér sýnir hvernig þorpið mun hafa lítið út. Stígar eða götur voru ekki á milli húsa, heldur var gengið um þökin, og farið niður um þakop til að komast inn. Þetta hefur gert íbúum mun auðveldara að verja þorpið fyrir árásum utan frá. En nú eru fornleifafræðingar ekki allir sammála um þessa túlkun. Stephanie Meece við Cambridge Háskóla hefur nýlega sett fram þá kenningu að þetta sé ekki eldfjall, heldur hlébarðaskinn. Hún bendir á rauða litinn og litlu svörtu dílana á myndinni máli sínu til stuðnings. Sennilega fæst aldrei úr þessu skorið, en ég held mig nú við kömlu kenninguna að þessi mynd sé fyrsta málverkið af gjósandi eldfjalli.

Ásgrímur og Eldgosin

SkjaldbreiðurFyrsti íslenski listmálarinn sem reyndi í alvöru að mála eldgos var Ásgrímur Jónsson. Við sýnum þrjár myndir efir hann í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, sem fylgja hér með, en þær eru frá Listasafni Íslands. Í skrá Listasafns Íslands eru samtals 2082 verk talin eftir Ásgrím Jónsson. Þar af eru að minnsta kosti þrjátíu og fimm verk sem eru beinlínis af eldgosum eða áhrifum þeirra. Í viðbót eru allmargar landslagsmyndir eftir hann af eldfjöllum, einkum af Heklu og Öræfajökli, en myndin hér fyrir ofan er af Skjaldbreið frá 1922. Þannig hafa eldgos og eldfjöllin átt ótrúlega ríkan þátt í myndsköpun Ásgríms.  Flótti frá EldgosiÞað er merkilegt að eldgosamyndirnar voru flestar gerðar á tveimur tímabilum. Það fyrra var frá um 1904 til 1908, og síðar á árunum 1945 til 1955. Ásgrímur Jónsson (1876-1958) hefur lengi verið talinn meðal ágætustu málara Íslands. Reyndar er ferill hann ævintýri líkastur, en hann fæddist á bænum Rútsstaðahjáleigu í Flóanum. Sagan segir að hann sá Heklu gjósa þegar hann var tveggja ára og mundi alla ævi eftir eldglæringunum. Það getur nú ekki verið rétt, þar sem Hekla gaus 1845, 1913 og 1947. Katla gaus 1918, Eyjafjallajökull 1823, svo það er ekki ljóst hvaða gos Ásgrímur kann að hafa séð, ef nokkur, en auðvitað hefur hann heyrt mikið talað um fyrri eldgos, einkum Heklugosið 1845 og Skaftárelda 1783.  Skaftáreldar eftir ÁsgrímHann byrjar sem fátækur bóndasonur og sjómaður, og heldur út til Danmerkur til að helga sig listinni. Fyrst vann hann á verkstæði og málaði húsgögn en síðar fer hann í nám í Konunglega listaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1899. Hann kynnist einnig listinni í Þýskalandi á þessum tíma. Hann komst alla leið suður til Ítalíu árið 1908 og málaði þar sínar fyrstu eldgosmyndir. Er hann snýr aftur heim 1909 hjálpar hann Íslendingum að sjá land sitt í nýju ljósi, og hann verður fljótt af einum mestu jötnum íslenskrar listasögu, og fyrsti málarinn sem gerði myndlistina að aðalstarfi hér á landi. Einnig var hann virkur kennari og Jóhannes Kjarval var í tímum hjá Ásgrími. Naturalismi og raunsæisstefna eru efst í myndsköpun hans, en það er oft rætt um að Ásgrímur hafi fengið stíl sinn að hluta til frá franska málaranum Jean-Baptiste-Camille Corot (1796-1875). Corot var frægur landslagsmálari af Barbizon skólanum, og er oft talinn forfaðir Impressionismans. Þekktasta eldgosamynd Ásgríms er kölluð Flótti undan Eldgosi, og er máluð frá um 1945 til 1950 (LI-AJ-0017). Tveir menn eru á ferð með hesta og mikill jarðeldur er í bakgrunni. Eru þeir á flótta undan hrauninu í Skaftáreldum? Ásgrímur gerði tvær vatnslitamyndir af eldgosum þegar hann var á ferð á Ítalíu 1908. Mörg eru eldfjöllin á Ítalíu, og Vesúvíus þeirra frægast.  Hann gaus 1906 og hefur enn verið rjúkandi ef Ásgrímur fór þar um. Önnur vatnslitamyndin (LI-ÁJ-527, Eldgos) sem var gerð á Ítalíu árið 1908 er vafalítið byggð á hugmynd Ásgríms um Skaftárelda og þann fræga atburð þegar séra Jón Steingrímsson hélt eldmessuna hinn 20. júlí 1783 sem sagan segir að hafi stöðvað framrás Skaftáreldahrauns og þar með bjargað Kirkjubæjarklaustri. Það er heilmargt að gerast í þessarri vatnslitamynd og mikil hreyfing. Söfnuðurinn stendur óttasleginn við kirkjudyrnar. Séra Jón er hempuklæddur og með bíblíuna undir hendi. Bláklædd kona í skautbúningi stendur í kirkjudyrum og ber hönd að enni, eins og það sé að líða yfir hana. Allir horfa til fjalls, þar sem eldar geisa, væntanlega frá Lakagígum. Mér finnst hin vatnslitamyndin sem var gerð á Ítalíu 1908 (LI-ÁJ-403 Eldgos) vera besta gosmyndin hans Ásgríms og sú djarfasta. Eldský rís yfir fjallinu, og furðulegir bjartir geislar stafa frá því til himins. Snævi þakin sléttan skilur eldfjallið frá fólkinu í forgrunni. Konur með skuplur eða klúta bundna yfir höfuð halda á ungum börnum, og allir stara í áttina til eldfjallsins. Ég hef sett fram hér aðeins nokkra púnkta varðandi eldgosamyndir Ásgríms, en áhugi hans á eldgosum og túlkunin sem kemur fram í myndum hans er mikilvægt verkefni sem er verðugt fyrir listfræðinga að kanna frekar.Eldgos eftir Ásgrím

Nýja myndin í Eldfjallasafni

RosarEitt af erindum mínum til Indónesíu í nóvember var að finna nýtt listaverk af eldgosi fyrir Eldfjallasafn í Stykkishólmi. Ég var vakandi fyrir slíkum myndum alla ferðina, en leitin byrjaði fyrir alvöru þegar ég kom í bæinn Ubud á eynni Balí. Hér eru bókstaflega hundruðir listamanna og handverksmanna staðsettir, mörg gallerí og úr miklu að velja. Einn daginn kíkti ég inn á Purpa Gallery í Ubud, og viti menn: hér var stórt olíumálverk af gjósandi eldey. Málverkið er eftir B. Rosar (1946), sem er þekktur málari frá borginni Bandung á Jövu. Rosar er alltaf nokkra mánuði í Ubud og málaði þá þessa mynd, sem er um 140 sm á kannt. Ég festi kaup á myndinni og er hún nú á leið til Íslands. Takið eftir að eldeyjan er gjósandi og að hraun rennur niður hlíðint til hægri. Rosar hefur að öllum líkindum orðið fyrir áhrifum af eldgosinu sem hefur staðið yfir í nokkur ár á eynni Anak Krakatau og vekur mikla athygli. Krakatau er eldstöð í Sunda sundi, milli Jövu og Súmötru, en eitt frægasta gos sögunnar varð hér árið 1883.Rosar close up Þá sprakk Krakatau, hrundi saman, hvarf í hafið, en upp reis mikil flóðbylgja sem skall á strandir Jövu og Súmötru sem 35 metra há alda. Yfir 36 þúsund manns fórust. Mikil askja myndaðist neðansjávar, um 10 km í þvermál og yfir 250 m djúp. Eldvirkni hefur haldið áfram á hafsbotni og árið 1928 kom nýtt eldfjall upp á yfirborðið í öskjunni, sem var nefnt Anak Krakatau eða “barn Krakatau”. Anak er nú meir en 300 metrar á hæð yfir sjávarmál, og hækkar stöðugt þar sem sprengingar og hraunrensli bæta sífellt ofaná. Ég hef starfað mikið að rannsóknum á Krakatau síðan 1988 og held þangað væntanlega aftur árið 2010.

Glereldfjallið og Móses

GlereldfjalliðEitt af listaverkunum sýnt í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er litríkur steindur gluggi af gjósandi eldfjalli. Listaverkið á langa sögu, en ég sá það fyrst fyrir um sex árum, þegar vinur minn Mike Westman ók í hlað hjá mér í Rhode Island veð myndina í skottinu á bílnum. Hann hafði rekist á verkið norðarlega í New York fylki og þar sem honum var vel kunnugt um áhuga minn á myndum af eldgosum, þá sló hann til og keypti myndina. Auðvitað varð ég að kaupa hana af Mike, því maður eyðileggur ekki svona sambönd í antík bransanum. Það sem vitað er um myndina er, að hún er einn af steindum gluggum sem voru í bænarhúsi eða synagogue gyðinga í New York fylki. Bænarhúsið var rifið, og myndin fór á flakk. Myndin er sennilegTiffanya frá um aldamótin 1900 og gerð í New York borg, af öllum líkindum af hinum fræga glersmið Louis Comfort Tiffany.   En hvað eru annars gyðingar að gera með mynd af eldgosi í bænarhúsinu?  Ástæðan er einföld: þetta er mynd af Sínaí fjalli, þar sem Móses tók á móti boðorðunum tíu frá guði, samkvæmt Gamla Testamentinu. Ég veit um aðra mynd af steindum glugga sem sýnir gjósandi eldfjall í bænarhúsi gyðinga í Bandaríkjunum (hún er sýnd hér til vinstri), og sennilega eru slíkar myndir nokkuð algengar í bænarhúsum þeirra. Sú mynd er í Ahabah gyðingamusterinu í Richmond í Virginíu, í Bandaríkjunum, og er saga þeirrar myndar vel skráð en hún er frá 1923 og einnig eftir Tiffany. En hvers vegna er Sínaí fjall sýnt sem gjósandi eldfjall í báðum myndunum? Við verðum að lesa Gamla Testamentið frekar til að skilja það, og reyndar einnig að athuga hvað sjálfur Sigmund Feud hefur að segja. Árið 1939 kom út merk bók eftir hinn fræga austurríska sálfræðing og faðir sálgreiningarinnar, Sigmund Freud: Der Mann Moses und die monotheistische Religion (“Móses og trúin á einn guð”). Freud var gyðingur, en eins og kunnugt er þá leikur Móses lykilhlutverk í Gamla Testamentinu (Torah) og er því mikilvæg persóna fyrir bæði gyðinga og kristna.  SinaíÁ bls. 55 setur Freud fram þá kenningu að eftir flóttann frá Egyptalandi hafi gyðingar tekið sér guðinn Jahve eða Jéhóva, sem hafi verið eldfjallsguð. Eins og kunnugt er, þá fékk Móses boðorðin tíu frá guðshendi á Sínaífjalli, en athöfnin ber mörg einkenni sem líkjast eldgosi, eins og Freud og fleiri hafa bent á. Önnur Mósesbók (19) í Gamla Testamentinu hefur þetta að segja um atburðinn:“Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil koma til þín í dimmu skýi, svo að fólkið heyri, er ég tala við þig, og trúi þér ævinlega." “Á þriðja degi mun Drottinn ofan stíga á Sínaífjall í augsýn alls lýðsins. En þú skalt marka fólkinu svið umhverfis og segja: ,Varist að ganga upp á fjallið eða snerta fjallsræturnar.' Hver sem snertir fjallið, skal vissulega láta líf sitt.” “Á þriðja degi, þegar ljóst var orðið, gengu reiðarþrumur og eldingar, og þykkt ský lá á fjallinu, og heyrðist mjög sterkur lúðurþytur. Skelfdist þá allt fólkið, sem var í búðunum. Þá leiddi Móse fólkið út úr búðunum til móts við Guð, og tóku menn sér stöðu undir fjallinu. “Sínaífjall var allt í einum reyk, fyrir því að Drottinn sté niður á það í eldinum. Mökkurinn stóð upp af því, eins og reykur úr ofni, og allt fjallið lék á reiðiskjálfi.”En vandinn er sá að enginn hefur nokkra hugmynd um hvar Sínaífjall Gamla Testamentisins er raunverulega staðsett! Fjallið sem er kallað Sínaí í dag er ekki eldfjall, heldur úr graníti. Freud hélt því fram að atburðurinn hefði gerst í Meribat-Qades í noðrvestur hluta Arabíu, við austur strönd Aqaba flóa, þar sem Midianitar búa, en Móses var hér fyrrum í útlegð í 40 ár. Eitt af eldfjöllunum sem hafa verið nefnd í þessu sambandi er Hala-'l Badr í norðvestur hluta Saudi Arabíu. Harral KhaybarÞað eru átján eldfjöll í Arabíu og sum þeirr hafa verið virk nýlega. Það má til dæmis benda á Harrat Lunayyir, sem gaus í kringum 1000 AD, og Harrat Khaybar, sem myndin er af til vinstri. Engin alvarleg rannsókn hefur verið gerð ennþá á því, hvaða eldfjall í Arabíu gæti passað við þjóðsöguna um Sínaí. Er það ekki dálítil kaldhæðni að gyðingar – og margir kristnir – séu að gera sína pílagrímsferð á vitlaust fjall í Egyptalandi, en rétta fjallið er í Arabíu?

Dr Atl – Eldfjallafræðingur, byltingarsinni og listmálari

 

DrAtlSketch

 

Einn vinur minn á litla málmstungu eftir Rembrandt. Hún er ekki stór, svona eins og eitt blað í bók, en myndin er samt mesti fjársjóður hans. Auðvitað eru málverk eftir Meistarann langt fyrir utan efnahag hans, en alla vega á hann sína Rembrandt mynd, þótt lítil sé. Ég á eina litla mynd sem er líka gömul og gulnuð, og hún er í álíka uppáhaldi hjá mér. Sú mynd er pennateikning eftir Dr Atl eða Gerardo Murillo frá Mexíkó. Myndin, sem er sýnd hér fyrir ofan, er nú í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Hún er frá því þegar Parícutin eldfjall gaus í Mexíkó árið 1943. Mig langar til að segja ykkur frá honum Dr Atl, en hann er meðal merkustu listamanna Mexíkó, og auk þess var hann eldfjallafræðingur! 

DrAtlLjósmynd

Mexíkó er land mikilla eldfjalla og landskjálfta, en skorpuhreyfingar þar orsakast af því að Cocos flekinn í Kyrrahafi mjakast til austurs, og sígur undir meginlandsskorpuna í Mexíkó á um 8 sm hraða á ári. Það er því fjöldi virkra eldfjalla í landinu, og sprengigos algeng, en hér verða líka oft sprengingar af öðru tagi, sem sagt af pólítískum uppruna. Dr Atl var sérfræðingur í fremstu röð á báðum þessum sviðum, eldfjallafræðingur og byltingasinni og einnig framúrskarandi málari. Þegar hann fæddist í Guadalajara árið 1875 þá hlaut hann nafnið Gerardo Murillo. Hann var flótt þjóðernissinni og dáði forna menningu innfæddra mexíkana, en hataði allt sem minnti á nýlendustjórn spánverja. Strax í æsku losaði hann sig því við spánska nafnið, og tók að kalla sig Dr Atl, en atl þýðir vatn í Nahuatl, sem er tungumál Aztec indíánanna í Mexíkó. Það var strax ljóst að hann hafði óvenju mikla hæfileika sem listamaður og árið 1896 var hann kominn til náms á Ítalíu. Árið 1904 snéri hann heim til að taka þátt í baráttunni gegn spillta einvaldinum Porfirio Diaz. Á þeim tíma stofnaði hann fyrstu akademíu listamanna í Mexíkó, Centro Artistico. Í akademíunni hélt hann fyrirlestra um listastefnur sem hann hafði fræðst um á Evrópuferð sinni, og hvatti nemendur sína til að fara út í náttúruna og mála, þar á meðal sjálfan Diego Rivera, e meðal annara nemenda hans voru margir fremstu listamenn Mexíkó, svo sem David Alfaro Siqueiros og José Clemente Orozco. En brátt varð Dr Atl að flæmast úr landi vegna stjórnmálaskoðanna sinna árið 1911 og hélt nú aftur til Ítalíu, í þetta sinn til að hefja nám í eldfjallafræði. Á ferðum sínum um heimalandið hafði Dr Atl orðið hugfanginn af eldfjöllunum í Mexíkó og ásetti sér að fræðast nú meir um eðli þeirra. En Ítalía var einmitt vagga eldfjallafræðinnar á þessum tíma. Hér var hann við nám í eldfjallafræði hjá Immannuel Friedlander og Frank A. Perret við háskólann í Napólí. Hann ferðaðist mikið um Evrópu á þessum tíma, hitti Vladimir Lenin, og gaf út blað sósíalista með Benito Mussolini. 

Atl Paricution 1948

Dr Atl var brautryðjandi og hinn sanni frumkvöðull mexíkanskar listar, sem var í senn innfædd og fjarlæg evrópskri hefð og árifum. Hann var ekki aðeins mjög virkur í stjórnmálabaráttunni, til að frelsa þjóð sína frá tengslum við einræðisstjórn og neikvæð áhrif nýlendustjórnarinnar, heldur vann hann að því að skapa nýja og einstaka mexíkanska list. Hann gekk svo langt, að hann bjó til nýja liti sem hentuðu betur litrofi og landslagi heimalandsins. Í fjallgöngum og á ferðum sínum um Mexíkó þótti Dr Atl oft óþjált að fást við venjulegan útbúnað landslagsmálarans, eins og trönur og olíuliti. Til að gera málið einfaldara þá fann hann upp nýja liti, sem hafa verið nefndir Atlcolors. Þeir eru stífir litir, sem hægt er að mála með beint á hvaða efni sem er, og gerðir úr blöndu af vaxi, benzíni, olíulit og kvoðu, en úr varð stykki eða stöng sem málað var með. Langflest verk Dr Atls eru gerð með þessum litum.Dr Atl skipulagði hóp nemenda sinna og annarra ungra listamanna til að hrinda af stað herferð í fjölmiðlum og í veggplakötum í þágu byltingarinnar. Þeir gáfu út tímarit, bæklinga og gerðu veggmálverk, sem deildu hart á einveldið og hvöttu almenning til átaka í þágu byltingarinnar. Skerfur þeirra var mikill við að koma á auknu lýðræði í Mexíkó á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar, en vegna mikillar spillingar meðal stjórnmálamanna hefur orðið afturför á þessu sviði hin síðari árin. 

Paricutin2

Á tímum byltingarinnar, á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar, má segja að eldgos hafi verið einskonar tákn byltingarinnar, einkum sem tákn stórkostlegra breytinga. Einn byltingarsinna sagði: “Ég elska byltinguna eins og ég elska eldgos; ég elska eldfjallið af því að það er eldfjall, og byltinguna af því að hún er bylting!”Það gerist öðru hvoru, að eldgos brýst út á auðu landi og nýtt eldfjall rís. Við þekkjum þetta fyrirbæri vel á Íslandi, en einnig eru ný eldfjöll nokkuð tíð í Mexíkó. Það var í febrúar 1943 að nýtt eldfjall varð til í Michoacan fylki í Mexíkó. Það var um fjögur leytið einn daginn að bóndinn Dionisio Pulido var að ljúka að plægja akur sinn, þegar hann tók eftir því að aska og reykur gusu upp úr plógfarinu og gjall fór að safnast fyrir í hrauk umhverfis sprunguna. Næsta dag var gígurinn orðinn 8 metra hár, og 60 m eftir þrjá daga. Síðan tók hraun að renna, en gjallkeilan hækkaði stöðugt þar til gosinu lauk árið 1952 en þá var eldfjallið 424 m á hæð yfir umhverfið. Undir hraunið fóru þorpin Paricutin (733 íbúar) og San Juan Parangaricutiro (1895 manns), og auðvitað allir maísakrarnir hans Dionisio Pulido, en enginn lét lífið. Dr Atl fór strax á staðinn og var mörg ár við Parícutín við rannsóknir og sköpun listaverka. Árangurinn var fjöldi listaverka og merkileg bók eftir hann, sem lýsir sköpun eldfjallsins: Como nace y crece un volcan? sem kom út árið 1950. Hann gerði alls 130 teikningar og 11 málverk af gosinu. 

Paricutin3

 Í bókinni setur Dr Atl fram hugmyndir sínar um uppruna eldgosa. Hann afskrifar úreltar hugmyndir um að hitinn í jörðinni stafi af efnahvörfum milli járns og brennisteins, sem Isaac Newton hafði set fram, eða vegna bruna eldfimar efna í jörðinni. Í staðinn legur hann til að eldvirkni séu leifar af upprunalegum hita jarðar, en við það bætist hiti frá geislavirkum efnum í iðrum jarðar. Hann hlynntist kenningu Alfred Wgeners um landarek og taldi að eldvirkni í Mexíkó væri afleiðing af hreyfingum mikilla skorpufleka. Þannig voru skoðanir hans mjög í stíl við það sem við vitum í dag.Á efri árum, þegar hetjan var orðin slitin og búinn að missa annan fótinn, þá tók Dr Atl upp þá aðferð að mála eldfjöllin sín úr lofti. Hann fékk lánaðar þyrlur hjá mexíkanska olíufélaginu PEMEX og málaði stórkostleg verk þar sem hann sveif yfir eldfjöllunum. Þessa nýjung kallaði hann aeropainting. Hann var kominn svo hátt að sjóndeildarhringurinn er boginn, og eldfjöllin koma fram sem vel aðgreind jarðfræðileg fyrirbæri. Sumar myndirnar voru gerðar að nóttu til og sýna jörðina sem hluta af himingeimnum og sólkerfinu. Um tíma átti Dr Atl í eldheitu ástarsambandi við fögru listakonuna Carmen Mondragon, og gaf henni innfædda nafnið Nahui Olin. Samband þeirra einkenndist af ofsalegum tilfinningum, ofbeldi og dramatískum atburðum, en í lokin kallaði Dr Atl hana græn-eygða snákinn. Dr Atl dó árið 1964. Nemandi hans, frægi málarinn Diego Rivera, sagði að hann hefði verið einn merkasti og sérkennilegasti maður sem fæðst hefði á meginlandi Ameríku. 

Dratl

Andy Warhol lætur Vesúvíus gjósa

Warhol

Hér fyrir ofan er ein uppáhalds myndin mín í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, sem ég keypti í Bandaríkjunum árið 1999. Hún er eftir Andy Warhol, og sýnir Vesúvíus gjósandi. Hér er stutt lýsing á því hvernig myndin varð til. Árið 1985 var haldin sýning á verkum Andy Warhol (1928-1987) í borgini Napólí á Ítalíu, sem hlaut nafnið “Sterminator Vesevo” eða Ógnvaldurinn Vesúvíus. Napólí er við rætur eldfjallsins fræga. 

Andy

Andy var þá þegar orðinn heimsfrægur. Hann var listamaðurinn sem tók eitthvað auðkennt og vel þekkt myndrænt efni, eins og miðann utan á súpudós, eða ljósmynd af Marilyn Monroe eða Mao Tse Tung, og vann úr því ógleymanlegt listaverk á einfaldan máta. Þannig urðu mörg verk hans strax hluti af nútímamenningunni og birtust reglulega í fjölmiðlum sem eins konar vörumerki, íkon eða stimplar sem voru æðstu fullrúar Pop Art hreyfingarinnar. Höfuðeinkenni Pop Art hreyfingar Andy Warhols var að taka þekkta mynd úr fjölmiðlum og veita henni nýtt gildi. Í því sambandi er mynd af eldgosi alþekkt fyrirbæri úr fjölmiðlum og Andy vildi notfæra sér það, en þetta var í fyrsta og eina sinn sem hann valdi landslag sem myndefni sitt, og tókst stórkostlega að leysa verkefnið.

MSH1980

 Árið 1980 var Andy í Napólí á Ítalíu um tíma og snéri aftur til borgarinnar árið 1985 til að vinna að myndinni af Vesúvíusi. Í viðtali frá þessum tíma segir Andy: “eldgos er algjörlega yfirþyrmandi myndefni, sem einstakt og stórkostlegt fyrirbæri sem jafnast á við stórkostlega höggmynd.”Árið 1980, þegar Andy var að vinna að Vesúvíusi, varð einmitt mikið sprengigos í Sánkti Helenu eldfjalli í Washington fylki í Bandaríkjunum, og varð Andy tvímælalaust fyrir áhrifum af því mikla gosi. Allir fjölmiðlar voru fullir af myndefni frá Sánkti Helenu og gjóskustrókurinn upp úr fjallinu var ógleymanleg sjón. Ýmsir listamenn brugðu strax við og máluðu ameríska gosið, og þar á meðal Roger Brown (1941-1997) í Chicago, sem nefndi sýna mynd First Continental Eruption, eða Fyrsta meginlandsgosið. Titillinn er mikilvægur, og vísar til þess að ameríkanar voru ekki vanir því að eiga við eldgos svo að segja heima hjá sér, heldur sem eitthvað fjarlægt fyrirbæri langt úti í heimi eða í Hawaii eyjum. 

BrownRoger

Myndin eftir Roger Brown er sýnd hér til vinstri, en hún er í Art Institute of Chicago.Afköst Andy Warhol í Napólí voru mikil. Hann lauk við sextán málverk og tuttugu og sex silkiþrykk myndir af Vesúvíusi gjósandi, og var hver mynd með mjög sérstakt litaval. Grundvallarmynin er mjög lík í flestum útgáfunum af silkiþrykkinu, þar sem formföst eldkeila Vesúvíusar rís upp yfir rústir gamla eldfjallsins Monte Somma, sem sést lengst til vinstri á myndinni. Við lítum hér til eldfjallsins frá vestri til austurs. Andy sá aldrei gos í Vesúvíusi, þar sem síðasta gosið þar var árið 1944, eins og sýnt er á ljósmyndinni fyrir neðan frá stríðsárunum.  

Vesuvius 1944  WWII

En honum tókst samt sem áður að skapa mjög kraftmikið sprengigos. Hann notaði tímann vel í Napólí og byrjaði á því að skoða mikið af málverkum af eldgosum Vesúvíusar frá sautjándu og átjándu öldinni, sem eru til í hundraða vís á söfnum borgarinnar, og notaði þau sem fyrirmynd af gosinu. Listamaðurinn Martin Creed tók þátt í að setja upp sýningu á verkum Warhols í Napólí og hafði þetta að segja: "Mér datt strax í hug Mozart og Andy Warhol. Þeir eru tveir uppáhaldslistamenn mínir, og mér finnst verk þeirra vera mjög lík. Í verkum þeirra beggja er allt á yfirborðinu. Þau eru stórkostlega grunn, og yfirborðskennd í besta skilningi. Ég gleymi því aldrei þegar ég sá fyrst málverk Andy Warhol af Vesúvíus gjósandi, en mér fannst það fallegt eins og rjómaís. Það var upplyftandi og léttir að dást að því.”Það er freistandi að bera mynd Warhol saman við verk annara stórmeistara sem hafa málað Vesúvíus gjósandi. Einn þeirra er sjálfur Joseph Mallord William Turner (1775-1851), en hann gerði gosmynd af Vesúvíusi árið 1817. Myndin, sem er í Yale Center for British Art, er hér fyrir neðan, en hún er ekki ein af bestu myndum Turners. Hún ber samt með sér höfuðeinkenni listamannsins, mikið ljós og birtu. Alveg það sama má einmitt segja um mynd Warhols af eldfjallinu. 

Turner

Besta Eldgosamyndin árið 2009

ISS020-E-09048_lrg

Stórkostlegasta mynd ársins af eldgosi var tekin 12. júní úr geimfari yfir Sarychev eldfjalli í Kúrileyjum. Kúril eyjar eru eitt afskekktasta svæði Rússlands.  Eldfjallaeyjarnar eru 56 að tölu og mynda 1300 km langa keðju sem teygir sig suður frá Kamchatkaskaga, austast í Rússlandi, og alla leið til Japan. Rússar hertóku eyjarnar í seinni heimsstyrjöldinni og neita að láta þær af hendi, þótt frumbyggjar hafi verið frá Japan.  Þessar eldfjallaeyjar hafa myndast í miklu sigbelti á flekamótum, þar sem Kyrrahafsflekinn sígur niður til norðvesturs undir Asíuflekann á hraða sem nemur um 9 sm á ári.  

Alþjóða geimstöðin var á sveimi í 354 km hæð yfir Kyrrahafi  hinn 12. júní,  þegar geimfarar urðu vitni af því að risavaxinn gjóskustrókur þeyttist upp í loftið og rauf mikið gat á skýjaþykknið.  Gatið í skýin hefur sennilega myndast vegna þrýstingsbylgju frá sprengingunni. Í miðju er hár og brúnn strókur af ösku og gasi frá gígnum. Takið eftir snjóhvíta skýinu sem er eins og höttur efst á gjóskustróknum. Þetta er að öllum líkindum hluti af rökum lofthjúp sem strókurinn hefur lyft hátt í loft upp og við það þéttist raki í loftinu og myndar hvítt ský. Þetta nefna veðurfræðingar pileus ský. 

FyrirSarychev_ast_2007146_lrg

En niðri á jörðu er einnig margt að gerast, eins og sjá má á myndinni. Grá og brún gjóskuflóð streyma með jörðu frá eldfjallinu, en þau geta verið alt að 500 stiga heit og á 200 km hraða á klukkustund.  Eyjan Matua er ekki byggð, en nokkrum dögum síðar könnuðu rússneskir eldfjallafræðingar gjóskuflóðslögin, sem höfðu farið alla leið út í sjó.

 Gosið í Sarychev gjörbreytti eynni Matua, eins og sjá má af meðfylgjandi myndum frá NASA gervihnetti og hitaskynjara. Fyrri myndin til hægri af Matua er frá 26. maí 2007, en hin fyrir neðan er eftir gosið, frá 30. júní 2009.  Hér er gróður sýndur í rauðum lit, vatn dökkblátt og  ský, gufa og ís hvítt. Gjóska og hraun eru grá og dökkbrún á myndunum.  Það er augljóst af neðri myndinni að gjóskuflóð hafa þakið allan norður hluta eyjarinnar og eytt öllum gróðri, en gróður lifir enn á suður hlutanum.

EftirSarychev_ast_2009181_lrg

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband