Elsta Landslagsmyndin: Er þetta Gjósandi Eldfjall eða Hlébarðafeldur?

Catal Hoyuk og eldfjalliðÞegar maður flettir grundvallarritum um listasögu, eins og til dæmis bókinni “Janson´s History of Art”, þá er ein mynd oft meðal allra fyrstu myndanna í slíkum yfirlitsritum. Það er mynd frá Tyrklandi, frá því um 6300 árum fyrir Krist, sem hefur verið talin fyrsta landslagsmyndin, fyrsta landakortið og einnig fyrsta myndin af gjósandi eldfjalli. Það er vel kunnugt að elstu myndir sem vitað er um eru í hellum suður Frakklands og Spánar, en þær eru gerðar á Steinöld, fyrir rúmlega tíu þúsund árum. Hellamyndirnar eru allar af dýrum og mönnum, en landslag kemur aldrei þar fram sem myndefni. Elsta landslagsmyndin er sennilega af gjósandi eldfjalli, en hún er frá um 6300 árum fyrir Krist. Það var árið 1965 að fornleifafræðingurinn James Mellaart uppgötvaði veggmynd eða freskó við uppgröft á Steinaldarþorpinu Catal Hoyuk í Anatólíu á Tyrklandi. Hasan Dagi eldfjallMyndin er löng, eða yfir 5 metrar, og virðist sýna byggingar þorpsins í forgrunni og gjósandi eldfjall í bakgrunni. Catal Hoyuk og Anatólía virðast vera meðal svæða þar sem akuryrkja og húsdýrahald var fyrst stundað og þar þróaðist greinilega ein allra fyrsta mening mannkynsins. Hrafntinna var mikilvægt hráefni til að smíða tól úr, og íbúar virðast hafa sótt hrafntinnuna til eldfjallanna Karaca Dagi og Hasan Dagi. Örvaroddar og spjótsoddar úr hrafntinnu finnast enn í uppgreftri í þorpinu og er talið að þessi framleðsla þorpsins hafi verið mikilvæg verzlunarvara. Málverkið fræga er á norður og austur vegg musteris í þorpinu, og hefur vakið gífurlega athygli – og deilur – varðandi túlkun á eldfjallinu með tvo toppa. Mellaart stakk uppá að myndin sýndi eldfjallið Hasan Dagi, en það er 3253 metrar á hæð, fyrir norðaustan þorpið, og hefur einmitt tvo toppa, eins og ljósmyndin hér sýnir. Hann túlkaði línur og depla fyrir ofan efri toppinn sem vitneskju um eldgos. Að lokum stakk Mellaart uppá því að íbúar Catal Hoyuk hafi dýrkað eldfjallið, sem veitti þeim verðmæta hrafntinnu, og ógnaði þeim með eyðingu og dauða öðru hvoru í hættulegum eldgosum. Í forgrunni á málverkinu er myndefni sem hefur ætið verið túlkað sem húsin í þorpinu.  ÞorpiðHér eru þau sýnd þétt saman, sem er einmitt skipan húsa í Catal Hoyuk samkvæmt uppgreftrinum. Myndin hér sýnir hvernig þorpið mun hafa lítið út. Stígar eða götur voru ekki á milli húsa, heldur var gengið um þökin, og farið niður um þakop til að komast inn. Þetta hefur gert íbúum mun auðveldara að verja þorpið fyrir árásum utan frá. En nú eru fornleifafræðingar ekki allir sammála um þessa túlkun. Stephanie Meece við Cambridge Háskóla hefur nýlega sett fram þá kenningu að þetta sé ekki eldfjall, heldur hlébarðaskinn. Hún bendir á rauða litinn og litlu svörtu dílana á myndinni máli sínu til stuðnings. Sennilega fæst aldrei úr þessu skorið, en ég held mig nú við kömlu kenninguna að þessi mynd sé fyrsta málverkið af gjósandi eldfjalli.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband