Vatn í Heiðhvolfi og Áhrif þess á Loftslag

Mynd 1Þrátt fyrir alla umræðuna undanfarið varðandi koldíoxíð og loftslagsbreytingar, þé hefur það lengi verið vitað, að gufa eða H2O er sú gastegund sem hefur mest gróðurhúsaáhrif. Sumir telja að gufa valdi um 50 til 60% af gróðurhúsaáhrifunum, koldíoxíð um 30% og metan og nokkrar aðrar gastegundir sjá um afganginn. Ef til vill er rifrildið mest útaf koldíoxíði vegna þess að við getum haft áhrif á það gas, en varðandi vatnið í andrúmsloftinu getum við gert hreint ekki neitt. En við getum alla vega fylgst með hvað er að gerast. Fyrsta myndin hér sýnir breytingu fyrir jörðina í heild á vatnsmagni í veðrahvolfi, sem er sá hluti lofthjúpsins sem nær frá yfirborði jarðar og upp í um 10 til 15 kílómetra hæð. Ferlarnir eru fyrir 700 millibör (um 3050 metra hæð), 600 (um 4000 metrar), 500 (5000 m), 400 (7000 m) og 300 millibör (um 9100 metra hæð). Það er nokkuð greinilegt að neðri hluti lofthjúps jarðar hefur tapað vatni stöðugt frá 1948 til 2008. Þetta er meir en 20% minnkun á vatni í efri hluta veðrahvolfsins (300 mb eða 9000 m) á þessum tíma, sem er stórkostleg breyting. Nú í vikunni hafa Susan Solomon og félagar hjá NOAA birt nýjar niðurstöður í ritinu Science varðandi vatnsmagn í heiðhvolfi, og mun sú grein vekja mikla athygli. Mund 2Niðurstöður þeirra eru þær, að undanfarin tíu ár hefur magnið af gufu eða vatni í neðra borði heiðhvolfs, um 16 km fyrir ofan jörðu, minnkað um tíu prósent. Þau telja að þessi lækkun á vatnsmagni í heiðhvolfi hafi dregið töluvert úr hlýun sem hefði orðið ella. Gervihnöturinn URLS hefur fylgst með vatnsmagni í heiðhvolfi frá 1993 til 2005 yfir hitabeltinu, og mynd 2 sýnir niðurstöður úr því verkefni. Litirnir sýna vatnsmagnið, en rautt er blautast og blátt er þurrast, eins og kvarðinn lengst til hægri sýnir. Neðra borð myndarinnar er í um 13 km hæð, en efra borð er í um 31 km hæð í heiðhvolfi. Takið eftir hvað blái bletturinn myndast og vex eftir 2000 og heldur áfram að stækka, en það sýnir þurrara og þurrara loft í neðri mörkum heiðhvolfsins. Solomon og félagar telja nú að þessi mikla minnkun á vatnsgufu í neðri hluta heiðhvolfs hafi dregið úr gróðurhúsaáhrifum sem nemur allt að 30%. Nú er stóra spurningin hvernig vatn berist upp í heiðhvolf og hvað verður svo um það þarna uppi? Það er ljóst að loftslagsmálin eru lóknari en menn grunaði, en það er einmitt það sem gerir vísindin svo spennandi: alltaf eitthvað nýtt að koma fram, og alltaf nóg af verkefnum fyrir barnabörn okkar að vinna að í framtíðinni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Heyrði einmitt af þessu í dag - um þetta verður eflaust mikið rætt á næstu vikum.

Annars segja loftslagsfræðingar almennt um vatnsgufu (þá er ég ekki að tala um í heiðhvolfinu) að þó að vatnsgufa sé sterk gróðurhúsalofttegund, þá sé styrkur vatnsgufu frekar afleiðing af gróðurhúsaáhrifum hinna lofttegundanna - þ.e. þegar hlýnar af völdum þeirra, þá eykst vatnsgufa í andrúmsloftinu - því sé vatnsgufan meira yfir í að vera partur af magnandi svörun (positive feedback) heldur en lofttegund sem er ein af frumorsökum gróðurhúsaáhrifa. Þannig skil ég það allavega.

Höskuldur Búi Jónsson, 29.1.2010 kl. 23:23

2 identicon

Já, einmitt. Mikill hluti vatnsgufu hlýtur að vera svokallað positive feedback, en hér virðist eitthvað annað vera í gangi. Ef hlýnun verður, þá ætti magn vatnsgufu að aukast, en nú virðist það fara minnkandi í heiðhvolfi. Við skulum fylfjast með framvindu þessa spennandi máls!

haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 29.1.2010 kl. 23:48

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hefurðu heyrt af Realclimate? Það er blogg sem haldið er út af loftslagssérfræðingum - meðal annarra er Gavin Schmidt hjá NASA. Þeir eru búnir að koma með smá færslu um málið og lofa meiri umfjöllun síðar: http://www.realclimate.org/index.php/archives/2010/01/the-wisdom-of-solomon/

Höskuldur Búi Jónsson, 30.1.2010 kl. 11:45

4 identicon

Realclimate er ágætt blogg. Annað sem ég kíki oft á er Wunderblog á http://www.wunderground.com/blog/

haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband