Glereldfjallið og Móses

GlereldfjalliðEitt af listaverkunum sýnt í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er litríkur steindur gluggi af gjósandi eldfjalli. Listaverkið á langa sögu, en ég sá það fyrst fyrir um sex árum, þegar vinur minn Mike Westman ók í hlað hjá mér í Rhode Island veð myndina í skottinu á bílnum. Hann hafði rekist á verkið norðarlega í New York fylki og þar sem honum var vel kunnugt um áhuga minn á myndum af eldgosum, þá sló hann til og keypti myndina. Auðvitað varð ég að kaupa hana af Mike, því maður eyðileggur ekki svona sambönd í antík bransanum. Það sem vitað er um myndina er, að hún er einn af steindum gluggum sem voru í bænarhúsi eða synagogue gyðinga í New York fylki. Bænarhúsið var rifið, og myndin fór á flakk. Myndin er sennilegTiffanya frá um aldamótin 1900 og gerð í New York borg, af öllum líkindum af hinum fræga glersmið Louis Comfort Tiffany.   En hvað eru annars gyðingar að gera með mynd af eldgosi í bænarhúsinu?  Ástæðan er einföld: þetta er mynd af Sínaí fjalli, þar sem Móses tók á móti boðorðunum tíu frá guði, samkvæmt Gamla Testamentinu. Ég veit um aðra mynd af steindum glugga sem sýnir gjósandi eldfjall í bænarhúsi gyðinga í Bandaríkjunum (hún er sýnd hér til vinstri), og sennilega eru slíkar myndir nokkuð algengar í bænarhúsum þeirra. Sú mynd er í Ahabah gyðingamusterinu í Richmond í Virginíu, í Bandaríkjunum, og er saga þeirrar myndar vel skráð en hún er frá 1923 og einnig eftir Tiffany. En hvers vegna er Sínaí fjall sýnt sem gjósandi eldfjall í báðum myndunum? Við verðum að lesa Gamla Testamentið frekar til að skilja það, og reyndar einnig að athuga hvað sjálfur Sigmund Feud hefur að segja. Árið 1939 kom út merk bók eftir hinn fræga austurríska sálfræðing og faðir sálgreiningarinnar, Sigmund Freud: Der Mann Moses und die monotheistische Religion (“Móses og trúin á einn guð”). Freud var gyðingur, en eins og kunnugt er þá leikur Móses lykilhlutverk í Gamla Testamentinu (Torah) og er því mikilvæg persóna fyrir bæði gyðinga og kristna.  SinaíÁ bls. 55 setur Freud fram þá kenningu að eftir flóttann frá Egyptalandi hafi gyðingar tekið sér guðinn Jahve eða Jéhóva, sem hafi verið eldfjallsguð. Eins og kunnugt er, þá fékk Móses boðorðin tíu frá guðshendi á Sínaífjalli, en athöfnin ber mörg einkenni sem líkjast eldgosi, eins og Freud og fleiri hafa bent á. Önnur Mósesbók (19) í Gamla Testamentinu hefur þetta að segja um atburðinn:“Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil koma til þín í dimmu skýi, svo að fólkið heyri, er ég tala við þig, og trúi þér ævinlega." “Á þriðja degi mun Drottinn ofan stíga á Sínaífjall í augsýn alls lýðsins. En þú skalt marka fólkinu svið umhverfis og segja: ,Varist að ganga upp á fjallið eða snerta fjallsræturnar.' Hver sem snertir fjallið, skal vissulega láta líf sitt.” “Á þriðja degi, þegar ljóst var orðið, gengu reiðarþrumur og eldingar, og þykkt ský lá á fjallinu, og heyrðist mjög sterkur lúðurþytur. Skelfdist þá allt fólkið, sem var í búðunum. Þá leiddi Móse fólkið út úr búðunum til móts við Guð, og tóku menn sér stöðu undir fjallinu. “Sínaífjall var allt í einum reyk, fyrir því að Drottinn sté niður á það í eldinum. Mökkurinn stóð upp af því, eins og reykur úr ofni, og allt fjallið lék á reiðiskjálfi.”En vandinn er sá að enginn hefur nokkra hugmynd um hvar Sínaífjall Gamla Testamentisins er raunverulega staðsett! Fjallið sem er kallað Sínaí í dag er ekki eldfjall, heldur úr graníti. Freud hélt því fram að atburðurinn hefði gerst í Meribat-Qades í noðrvestur hluta Arabíu, við austur strönd Aqaba flóa, þar sem Midianitar búa, en Móses var hér fyrrum í útlegð í 40 ár. Eitt af eldfjöllunum sem hafa verið nefnd í þessu sambandi er Hala-'l Badr í norðvestur hluta Saudi Arabíu. Harral KhaybarÞað eru átján eldfjöll í Arabíu og sum þeirr hafa verið virk nýlega. Það má til dæmis benda á Harrat Lunayyir, sem gaus í kringum 1000 AD, og Harrat Khaybar, sem myndin er af til vinstri. Engin alvarleg rannsókn hefur verið gerð ennþá á því, hvaða eldfjall í Arabíu gæti passað við þjóðsöguna um Sínaí. Er það ekki dálítil kaldhæðni að gyðingar – og margir kristnir – séu að gera sína pílagrímsferð á vitlaust fjall í Egyptalandi, en rétta fjallið er í Arabíu?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband