Nýja myndin í Eldfjallasafni

RosarEitt af erindum mínum til Indónesíu í nóvember var að finna nýtt listaverk af eldgosi fyrir Eldfjallasafn í Stykkishólmi. Ég var vakandi fyrir slíkum myndum alla ferðina, en leitin byrjaði fyrir alvöru þegar ég kom í bæinn Ubud á eynni Balí. Hér eru bókstaflega hundruðir listamanna og handverksmanna staðsettir, mörg gallerí og úr miklu að velja. Einn daginn kíkti ég inn á Purpa Gallery í Ubud, og viti menn: hér var stórt olíumálverk af gjósandi eldey. Málverkið er eftir B. Rosar (1946), sem er þekktur málari frá borginni Bandung á Jövu. Rosar er alltaf nokkra mánuði í Ubud og málaði þá þessa mynd, sem er um 140 sm á kannt. Ég festi kaup á myndinni og er hún nú á leið til Íslands. Takið eftir að eldeyjan er gjósandi og að hraun rennur niður hlíðint til hægri. Rosar hefur að öllum líkindum orðið fyrir áhrifum af eldgosinu sem hefur staðið yfir í nokkur ár á eynni Anak Krakatau og vekur mikla athygli. Krakatau er eldstöð í Sunda sundi, milli Jövu og Súmötru, en eitt frægasta gos sögunnar varð hér árið 1883.Rosar close up Þá sprakk Krakatau, hrundi saman, hvarf í hafið, en upp reis mikil flóðbylgja sem skall á strandir Jövu og Súmötru sem 35 metra há alda. Yfir 36 þúsund manns fórust. Mikil askja myndaðist neðansjávar, um 10 km í þvermál og yfir 250 m djúp. Eldvirkni hefur haldið áfram á hafsbotni og árið 1928 kom nýtt eldfjall upp á yfirborðið í öskjunni, sem var nefnt Anak Krakatau eða “barn Krakatau”. Anak er nú meir en 300 metrar á hæð yfir sjávarmál, og hækkar stöðugt þar sem sprengingar og hraunrensli bæta sífellt ofaná. Ég hef starfað mikið að rannsóknum á Krakatau síðan 1988 og held þangað væntanlega aftur árið 2010.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrir mig sem áhugamann um samspil eldvirkni og mannkynssögunnar þá er frábært að lesa greinar þínar.  Sá síðast þátt um Santoríni í gær í sjónvarpinu þar sem þú kemur fram.

Hvað ætli að eldsumbrot og annað þeim tengt geti skýrt út margt af þessum "yfirnáttúrulegu" hlutum sem að biblían greinir frá ? 

Hafðu þökk fyrir

Egill Þorfinnsson (IP-tala skráð) 14.12.2009 kl. 21:03

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Takk fyrir þetta. Nýlega hefur töluvert verið fjallað um hugsanleg áhrif eldgosa (einkum Santorini) á uppruna atburða sem lýst er í Biblíunni og mun ég blogga um það síðar.

Haraldur Sigurðsson, 14.12.2009 kl. 21:24

3 identicon

Bíð spenntur eftir þeirri umfjöllun.

Grein þín um Komododrekann var líka bráðskemmtileg.  Það kemur mér reyndar oft á óvart hvað fáir vita um tilvist hans.  Ég vissi um blóðeitrunina sem að hann veldur en ekki eitrið.  Tvær eðlutegundir í Mið-Ameríku og Mexíkó eru líka sagðar drepa vegna blóðeitrunar sem að þær valda en ég hef ekki heyrt að þær séu eitraðar.

Reyndar langar mig til að vita eitt.  Hefur þú ritað eitthvað um stórgosið sem varð í Indónesíu fyrir ca. 75.000 árum. Ef svo er, er hægt að nálgast það ?

Kv, Egill Þorfinnsson 

Egill Þorfinnsson (IP-tala skráð) 14.12.2009 kl. 22:24

4 identicon

Sæll Haraldur

Bestu þakkir fyrir þína fróðlegu og skemmtilegu þætti. Það er gaman að fá svolitla nasasjón af störfum þínum sem vísindamaður.Vonandi heldur þú áfram  að fræða áhugamenn eins og mig um náttúruöflin og áhrif þeirra á mannlífið.

          Kveðja.  Þorvaldur Ágústsson.

Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 14.12.2009 kl. 22:24

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Gosið mikla sem varð fyrir um 75 þúsund árum var á eynni Súmötru í Indónesíu. Ég hef ekki rannsakað það gos, en mun blogga um það samt! Þedfjallið heitir Toba, og í gosinu komu upp um 2500 rúmkílómetrar af kviku. Til samanburðar kom upp 100 rúmkílómetrar í Tambora gosinu 1815, og 15 rúmkílómetrar úr Lakagígum 1783. Enn er deilt um áhrif af gosinu mikla frá Toba, en þau hafa vafalaust verið gífurleg.

Haraldur Sigurðsson, 14.12.2009 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband