Færsluflokkur: Eldgos

Mesti útdauði jarðar markar uppruna Íslenska heita reitsins.

 

 

útdauðiEins og ég hef fjallað um hér í pistlum á undan, þá er það álit margra jarðvísindamanna að heiti reiturinn sem nú er virkur undir Íslandi eigi sér langa sögu, sem byrjar undir Síberíu fyrir um 250 milljón árum. Hann er þá langlifasti heiti reiturinn á jörðinni í dag. Enn merkilegra er sú kenning að þegar heiti reiturinn fyrst kom upp á yfirborðið í Síberíu, þá hafi hann orskað mesta útdauða lífríkis á jörðu, á mótum Perm og Trías timabila í jarðsögunni. Það er almennt talið að heitir reitir séu kraftmestir í fyrstu en síðan dragi úr gosmagninu og raftinum. Það getur vel passað í þessu tilfelli.

Lífríki jarðar hefur verið að þróast í um 500 milljón ár. En það hefur ekki alltaf verið dans á rósum, því á þessum tíma hafa orðið fimm stóratburðir, sem hafa eytt nær öllu lífríki á jörðu í hvert sinn. Sá þekktasti varð fyrir um 65 milljón árum, þegar risaeðlurnar og mest allt lífríki jarðar dó út í risastórum loftsteinsárekstri. Fyrsta mynd sýnir fjölda tegunda sem dóu út við hvern útdauða jarðsögunnar. En stærsti og mesti útdauði lífríkis jarðar varð fyrir um 252 milljón árum, þegar um 96% af öllu lífríki fórst. Áhrifin voru svo djúptæk að jafnvel kóralrifin í hafinu dóu og engir kórallar þrifust í um tíu milljón ár á eftir. Allt lífríki sem nú lifir á jörðu eru afkomendur hinna útvöldu 4% sem lifðu þessar hamfarir af. Þessi mikli útdauði markar skilin milli Perm og Trías tímabila í jarðsögunni.

Hvað er það sem gerðist í jarðsögunni á þessum tíma, sem kynni að hafa valdið þessum mikla útdauða? Var það stórkostlegur loftsteinsárekstur, mikil eldgos eða einhverjar aðrar náttúruhamfarir? Vísindamenn hafa lengi velt því fyrir sér og ekki enn komið með nægilega sannfærandi svör.

Það hefur ekki fundist nein vitneskja um stóran loftsteinsárekstur á þessum tíma, en hins vegar verður útdauðinn eiginlega nákvæmlega á sama tíma og mesta eldgosatímabil jarðar tekur yfir, þ.e.a.s. gos blágrýtismyndunarinnar í Síberíu. Þessi blágrýtismyndun nær yfir meir en 2,5 ferkílómetra, er víða meir en 3 km á þykkt og með rúmmál um eða yfir 4 milljonir rúmkílómetra. Myndin til vinstri sýnir hraunstaflann. Ofan á allt saman bætist að þetta ótrúlega magn af basaltkviku gubbaðist upp á mjög stuttum tíma. Steingervingafræðin sýnir að útdauðinn varð á mjög stuttum tíma, sennilega innan 200 þúsund ára. Um 90% af öllum tegundum í   hafinu fórst og um 70% af öllum tegundum á landi. Sömu leiðis sýna steingervingarnir að útdauðinn varð samtíma eldgosunum. Það tók meir en 5 milljón ár áður en lífríkið tók að ná sér.

Siberian trapsÞetta er nú gott og blessað, en hver eru þá tengslin milli eyðingu lífríkis og eldgosanna ? Eða er það einungis tilviljun? Hraunrennslið hefur auðvitað haft engin áhrif, en þá er að leita skýringa í sambandi við magn og tegundir af gasi, sem kom upp í þessum gosum. Það eru fyrst og fremst gastegundirnar CO2, H2O, SO2 HF og HCl. B,A, Black og félagar (2012) hafa mælt magn þessara gastegunda í kvikunni sem gaus í Síberíu á þessum tíma.

Þeir finna að kvikan sem kom upp í sumum gosunum hefur ótrúlega hátt magn af gastegundum, með allt að 0,5% S (brennistein), upp undir 1% Cl (klór), og nær 2% F (flúór). Magnið af þessum gastegundum sem kann að hafa borist út í andrúmsloftið skiftir þúsundum gígatonna (Gt), en eitt Gt er einn milljarður tonna. Þeir telja að magnið af brennisteinsgasi hafi verið um 5300 til 6100 Gt S, af klóri 100 til 2700 Gt Cl og af flúóri á bilinu 3800 til 5400 Gt Cl. Brennisteinn veldur kólnun á loftslagi jarðar ef gasið berst hátt upp í heiðhvolf. Klór gasið gæti eytt ósón laginu í heiðhvolfi, sem ver jörðina fyrir hættulegum geimgeislum. Það kann þá að orskaka stökkbreytingar og ill áhrif á erfðefni í öllu lífríki. Flúór orsakar gadd eða flúorósis og fall búpenings, eins og við þekkjum vel hér eftir Skaftárelda 1783.  Það er því af nógu að taka í þessu dæmi varðandi hugsanlegar hættur út af þessum stórgosum.


Holuhraun í hnattrænu samhengi

HoluhraunKvikan, sem hefur komið upp í Holuhrauni til þessa er nú vel yfir einn rúmkílometri að magni. Þetta er því ef til vill stærsta gosið á Íslandi síðan Skaftáreldar geisuðu árið 1783. En hvar er gosið í alþjóðlegu samhengi? Árið 1991 var stórgos í eldfjallinu Pinatubo á Filippseyjum, með um 5 rúmkílómetra af kviku. Nokkrum mánuðum síðar gaus Cerro Hudson í Síle og þá komu upp um tveir rúmkílómetrar. Kilauea á Hawaií hefur gosið stöðugt í meir en þrjátíu ár (síaðn 1983) og upp er komið um 4 rúmkílómetrar í því gosi, sem enn stendur yfir. Síðasta stórgosið var í Puyehue-Cordon Caulle eldfjalli í Síle á Suður Ameriku árið 2011, en þar kom upp um 2 rúmkílómetrar af hrauni og gjósku.  Gosið í Holuhrauni skipar sér nú í hóp með þessum stórgosum á tuttugustu og tuttugu og fyrstu öldinni. Þessar rúmmálstölur vísa allar á magn kvikunnar.


Hvað gerist milli gosa?

TkacicÞrátt fyrir alla spennuna í sambandi við gosið í Holuhrauni, þá er reyndar mikilvægast að reyna að skilja hvað gerist undir Bárðarbungu.   Einkum er mikilvægt að skilja þróun mála undir eldstöðinni milli gosa, sem er forvari þess sem koma skal. Strax í upphafi umbrotanna í Bárðarbungu benti ég að grein, sem þau Meredith Nettles og Göran Ekström skrifuðu árið 1998. Þar fjölluðu þau um mjög óvenjulega en stóra jarðskjálfta, sem orðið hafa undir Bárðarbungu frá 1976 til 1996. Skjálftarnir voru af stærðargráðunni 5 eins og skjálftarnir, sem þar verða nú, en það er samt grundavallar munur á þessum skjálftum. Nú eru skjálftarnir skýrðir sem hreyfing á lóðréttu misgengi þegar öskjubotninn sígur niður (“double-couple” eða sniðgengi). Skjálftarnir frá 1976 til 1996 voru hins vegar af allt annari gerð. Þeir eru það sem skjálftafræðingar kalla “highly non-double-couple” skjálftar, með sterkan lóðréttan ás.

Það er nú ekki á færi venjulegs jarðfræðings að skilja allt í sambandi við þessa flóknu skjálfta, en samt sem áður hef ég reynt að rýna í gögnin, því ég held að ef til vill geti fundist hér mikilvægar upplýsingar um, hvað gerist undir Bárðarbungu fyrir gos og milli gosa og þar með hvað mun gerast undir eldstöðinni þegar þessu gosi lýkur. Nettles og Ekström leggja til að skjálftarnir frá 1976 til 1996 hafi orsakast vegna þrýstings uppá við, annað hvort vegna vaxandi kvikuþrýstings eða lóðréttra skorpuhreyfinga á tappa undir kvikuþró.

Í annari grein árið 2009 fjölluðu þau Hrvoje Tkalčić, Íslandsvinurinn Gillian R. Foulger og félagar aftur um þessa sérstöku skjálfta. Þau skýra skjálftana sem afleiðingu á streymi af kviku milli tveggja kvikuhólfa á um 3,5 km dýpi, eða streymi á kviku úr hólfi og inn í sprungu. Hugmynd þeirra af þversniði jarðskorpunnar undir Bárðarbungu fylgir hér með.   Það er ljóst af rannsóknum á þessum stóru skjálftum, að eitthvað verulega óvenjulegt gerist undir Bárðarbungu milli gosa, eða á áratugunum fyrir gos. Eru slíkar kvokuhreyfingar tengdar flæði kviku upp úr möttli og í kvíkuþró undir bungunni? Eru slíkir skjálftar ef til vill tengdir vaxandi þrýstingi í kvikuþrónni og þá einnig ef til vill risi öskjubotnsins? Ef öskjubotninn sígur við minnkandi kvikuþrýsting í eldgosi (eins og nú gerist), þá er líklegt að hann rísi milli gosa vegna vaxandi kvikuþrýstings.


Rennur jökull Bárðarbungu niður í skálina?

Viðbragðstími jöklaHalldór Björnsson hefur stungið uppá hér fyrir neðan að sigið í Bárðarbungu sé ekki að hægja á sér, eins og ég hef haldið fram hér í síðasta bloggi, heldur sé jökullinn að renna inn í sigdældina. Ég sting uppá að sigið sé að hægt á sér, vegna þess að kvikuþrýstingur inni í kvikuþrónni undir öskjunni sé að dvína og þá sígur botn öskjunnar hægar niður. Við skulum líta á þetta og bera hegðun skálarinnar saman við hegðun annara jökla.   Sigið nemur nú um 45 metrum í miðri skálinni. Radíus hennar er um 5 km. Þá er hallinn 1:110, eða um 0,5 gráður. Jöklar bregðast lítt eða ekki við í svo litlum halla. Myndin sem fylgir (frá Haeberli 1995) sýnir halla jökla á Suðurskautinu á móti viðbragðstíma. Lítill halli eins og 0,15 gráður kemst ekki einu sinni á blað hér. Viðbragðstími í minnsta halla (5 gráður) á línuritinu er um hundrað ár. Á þessum rökum er hægt að álykta að sennilega sé lítið eða ekkert rennsli á jöklinum inn í skálina. Þá álykta ég að breytingar á síginu orsakist af breytingum í kvikuhólfinu undir.


Þróun Bárðarbungu og Holuhrauns

Sig BárðarbunguVísindaheimurinn hefur aldrei orðið vitni af slíku fyrirbæri, eins og því sem nú er að gerast undir Bárðarbungu og mælt og skráð það jafn vel. Athygli margra Íslendinga beinist nú mest að Holuhrauni af eðlilegum ástæðum. Nú er hraunið orðið rúmlega 70 ferkílómetrar að flatarmáli, ef til vill um einn rúmkílómeter (það er óvissa um þykkt hraunsins) og slagar því hátt upp í það magn af kviku, sem Surtsey gaus frá 1963 til 1965. Þetta er stórgos.   En gosið sjálft er eiginlega hálfgerð blekking náttúrunnar, því aðal sjónarspilið fyrir vísindin er ekki í Holuhrauni, heldur í eldstöðinni Bárðarbungu. En þar er sjónarspilið hulið augum okkar undir 600 til 800 metra þykkum jökli. Ég held að enginn jarðvísindamaður geti verið í vafa um að sigið, sem mælist á íshellunni á Bárðarbungu er beint tengt gosinu í Holuhrauni. Frá 16. ágúst til 29. september urðum við öll vitni af myndun kvikugangs, sem tengdi Bárðarbungu í suðri við sprungugosið í Holuhrauni um 50 km fyrir norðan. Síðan hefur gosið látlaust í Holuhrauni og Bárðarbunga sigið að sama skapi. Sennilega hefur sigið hafist strax og gangurinn byrjaði að myndast um miðjan ágúst, en nákvæmar mælingar á sigi hefjast hinn 14. september. Þá var sigdældin í jöklinum orðin 22 metra djúp, en síðan hefur sigið numið um 23 metrum í viðbót, eða heildarsig alls um 45 metrar í dag. Sig er nú um 20 cm á dag, en var áður allt að 50 cm á dag og það hefur hægt stöðugt á því.

Ég hef áður bent á hér í bloggi mínu, að sigið í Bárðarbungu fylgir ótrúlega vel kúrfu eða ferli, eins og sýnt er á línurítinu hér fyrir ofan (gögn af vef Veðurstofunnar). Kúrfunni er best lýst sem “polynomial” fylgni með þessa jöfnu: y = -0.0012x2 + 0.4321x. Innbyrðis fylgni kúrfunnar er R² = 0.99946. Þetta er reyndar ótrúlega góð fylgni. Ef allir púnktarnir liggja á kúrfunni, þá væri R² = 1.0000.   Það er mjög óvenjulegt að atburðir í jarðfræðinni fylgi svo vel og reglulega einhverri þróunarlínu. Sennilega gerist það aðeins þegar um mjög stóra atburði er um að ræða, eins og nú þegar botninn á öskju Bárðarbungu sígur reglulega niður í kvikuþróna djúpt undir í jarðskorpunni.   Sennilega er þetta landspilda, sem er um 10 km í þvermál og um 8 km á þykkt, sem sígur, eða meir en 600 rúmkílómetrar af bergi!

Það er athyglisvert að þessi reglulega kúrfa beygir af, þ.e. það hefur verið að draga úr siginu frá upphafi. Þetta gefur okkur einstakt tækifæri til að áætla hvenær sig hættir, sem er sennilega einnig sá tímapúnktur þegar kvika hættir að stryma út úr kvikuhólfinu og gos hættir í Holuhrauni. Ég hef því framlengt kúrfuna á þróunarlínunni, með jöfnunni fyrir ofan, þar til hún verður lárétt, þegar sig hættir. Það gerist eftir um 170 daga frá því að mælingar hófust, hinn 14. september. Kúrfan spáir því um goslok í lok febrúar eða byrjun mars 2015. En það eru margir þættir, sem geta haft áhrif á kvikurennslið þegar dregur úr kraftinum, einkum viðnám í kvikuganginum undir Holuhrauni og fleira. Allir þessir þættir virka í þá átt að goslok yrðu eitthvað fyrr.

Eins og ég benti á í síðasta bloggi, þá er ljóst að virka gossprungan er mjög nærri gígaröðinni, sem gaus í Holuhrauni árið 1797. Gosið í dag virðist vera nokkuð nákvæm endurtekning á gosinu í lok átjándu aldarinnar. Það er hughreystandi og styrkir þá skoðun að sennilega haldi eldvirknin sig við Holuhraun og ólíklegt að nokkur kvika komi upp í Bárðarbungu sjálfri.

Gosið í Holuhrauni er þegar oríð frægt í vísindaheiminum, en það er samt ekki stærsta gosið, sem er í gangi í dag. Kilauea á Hawaii hefur gosið stöðugt síðan 1983 og nú hefur komið upp á yfirborðið alls um 4 km3 af hraunkviku í því gosi, eða um fjórum sinnum meira en í Holuhrauni.


Haraldur á frímerki

frímerkiEnn og einu sinni í viðbót fæ ég fullnægt hégómagirnd minni! Ríkið Mozambique í Afríku hefur gefið út frímerki með mynd minni og eldfjallinu Krakatau í Indónesíu. Þetta er hlut af heilli örk sex frímerkja, sem sýna eldfjöll og eldfjallafræðinga víðs vegar um heiminn. Í fyrstu hélt ég að þetta væri gabb og eitthvað Photoshop grín, en svo virðist ekki vera.


Enn ein ferð í Holuhraun

7 okt radarÞað var afar fróðlegt að koma inn á gosstöðvarnar í Holuhrauni dagana 7. til 10. nóvember. Ég hafði þá ekki séð gígana og hraunið síðan hinn 3. október. Nú var ég á ferð með Grími Björnssyni, ásamt tveim frábærum fjallamönum frá Akureyri, þeim Smára Sigurðssyni og Anton Erni Brynjarssyni. Það var afar þung færð frá Möðrudal og inn að Drekagili í Dyngjufjöllum vegna mikilla snjóa, en breyttir jeppar þeirra Antons og Smára komu okkur á leiðarenda. Það tók til dæmis 7,5 tíma að aka þessa 85 km leið. Færð batnaði mikið þegar við komum á sandana sunnan Vaðöldu og á Flæðurnar í grennd við Holuhrun hið nýja.  Virku gosstöðvarnar eru nú í um 400 metra langri gosrás, sem er allt að 100 metrar á breidd. Fyrsta myndin er radarmynd frá Fjarkönnun ehf, tekin 7. október, sem sýnir gosrásina mjög vel. Þar kemur einnig fram hraunáin, sem streymir út um skarð í norðaustur hluta rásarinnar. Fyrir neðan er nýrri mynd af gosrásinni frá 21. október, tekin úr lofti af Milan Nykodym. Gosrásin er samruni nokkura gíga og videó tekið úr lofti af Jóni Gústafssyni (sjá hér http://vimeo.com/111344670) sýnir vel að uppstreymi kviku er aðallega á fjórum eða fimm stöðum í gosrásinni. Það kraumar í allri gosrásinni, en kvikan skvettist lítið upp og sjaldan upp fyrir gígbrúnirnar. Hraunáin streymir út um skarð til norðausturs og langt út yfir nýja hraunið. Það er mikill hraði á hraunrennsli í ánni, með flúðum og busli og gusur af kviku kastast upp í loft í nokkra metra hæð. Allt bendir til að seigja kvikunnar sé mjög lág, eins og ég hef fjallað um hér áður. Hraunið virðist nú breiðast út aðallega til austur og suðausturs, en tvær tungur eru virkar til norðvesturs og mjakast nú í áttina að þjóðveginum F910, sem fer yfir Flæðurnar. Hraunið er hætt að breiðast út til norðausturs og hefur ekki enn náð mótum Jökulsár og Svartár. Fossinn Skínandi er því ekki í beinni hættu í augnablikinu. En hraunrennsli til suðausturs út í farveg Jökulsár er virkt og myndar mikinn gufumökk, sem rís hátt og sameinast gosmekkinum efra. Við vorum útbúnir gasgrímum og gasmælum, en aldrei skráðu mælar okkar annað en núll, allt í kringum gosstöðvarnar. Uppstreymi var mikið og því enginn gosmökkur nærri jörðu. Gosmökkurinn yfir gosrásinni er áberandi bláleitur eða sannkölluð blámóða, vegna brennisteins tvíoxíðs. Ekki urðum við heldur varir við koldíoxíð.

Nov 2014Við suður enda nýju gígaraðarinnar rákumst við á nýjar sprungur með NNA stefnu. Á þeim er gliðnun um 40 til 80 cm á hvorri. Þær geta því verið hættulegar fyrir bæði gangandi og akandi. Suður endi virku gossprungunnar er fast við gjall og klepragíga, sem eru frá 1797, þegar Holuhraun eldra rann. Þessir eldri gígar eru þaktir snjó á neðri myndinni. Það er því greinilegt að nýja gosið er í sprungu eða yfir gangi, sem er samhliða og mjög nærri sprungunni sem gaus árið 1797. Ferð okkar til byggða gekk mjög vel, enda slóðin nú vel troðin.


Ris í Bárðarbungu?

Síðan á hádegi hefur sigið snúsit við í Bárðarbungu og nú er ris. Eru þetta truflanir eða sveiflur í GPS mælinum, eða er hér breyting í hegðun Bárðarbungu?  Ef til vill krítiskur tími fram undan. Risið virðist vera meir en 1.5 metrar. Ekki er svo að sjá að nein breyting hafi orðið í skjálftavirkni. Ef til vill er þetta aðeins hreyfing í íshellunni, en ekki á botni öskjunnar. Ef til till eru ísflekar að haggast og vagga í öskjunni.

 

OK.  Skyringin er komin: Veðurstofan hækkaði loftnet GPS mælisins um 1,5 metra.  Ekkert að óttast. Engin breyting.Ris


Hraun í garðinum á Hawaíi

PahoaÁ Hawaií eru þeir einnig að glíma við eldgos og hraun, en þar eru áhrif hraunsins  vel áþreifanleg.  Kilauea eldfjall, sem hefur verið í nær stöðugu gosi í 31 ár, síðan 1983.  Nú stefnir hraunið á bæinn Pahoa, með um 900 íbúa.  Hraunið er þegar búið að renna yfir grafreit Búddista, og er nú aðeins um 30 metra frá næstu íbúðarhúsum, eins og myndin sýnir.  Þetta er basalthraun af helluhraunsgerð, ólíkt apalhrauninu, sem nú rennur í Holuhrauni. Hraunið á Hawaíi mjakast áfram um tíu metra á klukkustund.  Yfirvöld hafa klætt rafmgnsstaura með steinsteypu til að verjast hrauninu og hvatt íbúa til að yfirgefa heimili sín.


Sviðsmynd af gosi undir jökli

gos undir vatniÉg tel líklegast að gosið í Holuhraun haldi áfram, þar til þrýstingsjafnvægi er komið í kvikuþró Bárðarbungu og í kvikuganginum.  Þá lýkur gosinu.  En það er samt vert að velta fyrir sér annari sviðsmynd um framhaldið.  Sú sviðsmynd er að gos hefjist undir jökli,  á botni öskju Bárðarbungu, eins og margir virðast óttast.  Þar er nú yfir íshella, sem er um 600 til 800 metrar á þykkt.  Við skulum því setja upp þá sviðsmynd, að kvika komi upp í botni öskjunnar á þessu dýpi.  Það er þó ekkert nú í skjálftagögnunum sem bendir til að svo sé, til dæmis enginn aukinn órói.  Samspil kviku og vatns undir jökli er yfirleitt þannig, að vatnið breytist snögglega í gufu, sem þenst út mörg hundruð eða þúsund sinnum að rúmmáli.  Við þessa skyndilegu þenslu gufunnar, sem er sprengingu lík, þá tætist upp kvikan og aska (tephra á mynd) myndast.  Sífelldar gufusprengingar af þessu tagi halda áfram á meðan kvikan og vatnið eru í snertingu. En þessi lýsing hér fyrir ofan á við um samspil kviku og jökuls á litlu dýpi, eða undir lágum þrýstingi.  

bólstrabergsgosÞegar kvika, sem er um 1175 oC heit  mætir jökulís á dýpinu 600 til 800 metrar, eins og til dæmis á botni öskju Bárðarbungu, þá mætti einnig halda, að gufusprenging verði.  En svo er ekki, því þrýstingurinn er mjög hár.  Fyrsta myndin sýnir hvernig hlutfallið milli vatnsgufu og vatns breytist með þrýstingi eða dýpi við suðumark. Hlutfall vatns og gufu fylgir gulu kúrvunni.    Gula kúrvan sýnir okkur að á um 600 til 800 metra dýpi  er gufan aðeins tíu til tuttugu sinnum meiri að rúmmáli en vatnið.  Gufan þenst að vísu út á því dýpi, en rúmmálsaukningin er of lítil til að valda gufusprengingum.  Kvikan heldur því áfram að flæða út í vatnið og storknar. Þá myndast sú bergtegund, sem við köllum bólstraberg (pillow lava á mynd).   Kvikan storknar í kúlulaga bólstra, sem eru um einn meter í þvermál, oft aflangir eins og bjúgu. Utan um bólstrana er glerskán, vegna snöggrar kælingar kviku í snertingu við kalt vatnið.  Bólstrarnir hlaðast upp á þann hátt sem sýnt er á annari mynd.  Slíkar bólstrabergsmyndanir eru ríkjandi á úthafshryggjum, þar sem eldgos verða á hafsbotni á nokkra kílómetra dýpi.  Þess vegna er bólstraberg algengasta tegund af gosbergi, sem finnst á jörðu.  En við sjáum það sjaldan á yfirborði, nema hér á Íslandi.  Hér á landi hefur bólstraberg myndast á ísöld, einkum við gos á eldfjöllum, sem við nefnum stapa. Það eru fjöll eins og Herðubreið, sem hafa byrjað gos djúpt undir jökli, ef til vill á 1000 metra dýpi, þar sem þrýstingur er hár og gufusprengingar verða ekki. 

gos í jökliEn bólstrabergseldfjallið hleðst upp undir jökli, eða öllu heldur í vatnsfylltri geil, sem gosið hefur myndað við bráðnun í jökulinn.  Þegar gígurinn hefur vaxið og er kominn á dýpi sem nemur um 200 til 300 metrum undir yfirborði, þá breytist hegðun gossins (ástand milli rauðu og bláu brotalínanna á fyrstu mynd). Á því dýpi er þrýstingur það lágur að rúmmál gufu við suðu er orðið meir en hundrað sinnum meira en rúmmál vatnsins.  Þá byrja gufusprengingar, sem tæta upp kvikuna og mynda ösku.  Askan fellur til jarðar, harðnar skjótt og myndar móberg.  Slíkar sprengingar ná upp á yfirborð og senda öskuský  upp í lofthjúp jarðar.

Þessi sviðsmynd er sett upp samkvæmt þekkingu okkar á gosum undir jöklum Íslands og er því hugsanleg.  En á einn hátt er sviðsmyndin ósennileg og það er staðsetning gígsins í miðri öskjunni, eins og sýnt er á myndinni.  Reynslan sýnir að gos verða yfirleitt ekki inni í miðjum öskjum á Íslandi, heldur fyrst og fremst á öskjubrúnum, fyrir ofan misgengi sem liggja meðfram öskjuröndinni.  Þannig er málum háttað í Grímsvötnum og einnig í Öskju. 

Gos undir jökli er flókið ferli, sem tekur nokkurn tíma áður en gosið kemur upp á yfirborð.  En vísbendingar um gos undir jökli munu sennilega koma strax í ljós á óróa og skjálftamælum.  Svo er ekki enn, enda hefur kvikan úr Bárðarbungu greiða útrás um ganginn til norðurs og út í Holuhraun. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband