Enn ein ferð í Holuhraun

7 okt radarÞað var afar fróðlegt að koma inn á gosstöðvarnar í Holuhrauni dagana 7. til 10. nóvember. Ég hafði þá ekki séð gígana og hraunið síðan hinn 3. október. Nú var ég á ferð með Grími Björnssyni, ásamt tveim frábærum fjallamönum frá Akureyri, þeim Smára Sigurðssyni og Anton Erni Brynjarssyni. Það var afar þung færð frá Möðrudal og inn að Drekagili í Dyngjufjöllum vegna mikilla snjóa, en breyttir jeppar þeirra Antons og Smára komu okkur á leiðarenda. Það tók til dæmis 7,5 tíma að aka þessa 85 km leið. Færð batnaði mikið þegar við komum á sandana sunnan Vaðöldu og á Flæðurnar í grennd við Holuhrun hið nýja.  Virku gosstöðvarnar eru nú í um 400 metra langri gosrás, sem er allt að 100 metrar á breidd. Fyrsta myndin er radarmynd frá Fjarkönnun ehf, tekin 7. október, sem sýnir gosrásina mjög vel. Þar kemur einnig fram hraunáin, sem streymir út um skarð í norðaustur hluta rásarinnar. Fyrir neðan er nýrri mynd af gosrásinni frá 21. október, tekin úr lofti af Milan Nykodym. Gosrásin er samruni nokkura gíga og videó tekið úr lofti af Jóni Gústafssyni (sjá hér http://vimeo.com/111344670) sýnir vel að uppstreymi kviku er aðallega á fjórum eða fimm stöðum í gosrásinni. Það kraumar í allri gosrásinni, en kvikan skvettist lítið upp og sjaldan upp fyrir gígbrúnirnar. Hraunáin streymir út um skarð til norðausturs og langt út yfir nýja hraunið. Það er mikill hraði á hraunrennsli í ánni, með flúðum og busli og gusur af kviku kastast upp í loft í nokkra metra hæð. Allt bendir til að seigja kvikunnar sé mjög lág, eins og ég hef fjallað um hér áður. Hraunið virðist nú breiðast út aðallega til austur og suðausturs, en tvær tungur eru virkar til norðvesturs og mjakast nú í áttina að þjóðveginum F910, sem fer yfir Flæðurnar. Hraunið er hætt að breiðast út til norðausturs og hefur ekki enn náð mótum Jökulsár og Svartár. Fossinn Skínandi er því ekki í beinni hættu í augnablikinu. En hraunrennsli til suðausturs út í farveg Jökulsár er virkt og myndar mikinn gufumökk, sem rís hátt og sameinast gosmekkinum efra. Við vorum útbúnir gasgrímum og gasmælum, en aldrei skráðu mælar okkar annað en núll, allt í kringum gosstöðvarnar. Uppstreymi var mikið og því enginn gosmökkur nærri jörðu. Gosmökkurinn yfir gosrásinni er áberandi bláleitur eða sannkölluð blámóða, vegna brennisteins tvíoxíðs. Ekki urðum við heldur varir við koldíoxíð.

Nov 2014Við suður enda nýju gígaraðarinnar rákumst við á nýjar sprungur með NNA stefnu. Á þeim er gliðnun um 40 til 80 cm á hvorri. Þær geta því verið hættulegar fyrir bæði gangandi og akandi. Suður endi virku gossprungunnar er fast við gjall og klepragíga, sem eru frá 1797, þegar Holuhraun eldra rann. Þessir eldri gígar eru þaktir snjó á neðri myndinni. Það er því greinilegt að nýja gosið er í sprungu eða yfir gangi, sem er samhliða og mjög nærri sprungunni sem gaus árið 1797. Ferð okkar til byggða gekk mjög vel, enda slóðin nú vel troðin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er algjörlega sammála þér að kalla nýja hraunið áfram Holuhraun. Þetta er bara Holuhraun 2014. Í Kröflueldum breyttu eldstöðvar ekki um nafn eða ný hraun voru skýrð.

Þorsteinn Styrmir (IP-tala skráð) 12.11.2014 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband