Loftslagsspá og Norðurheimskaut
17.7.2014 | 06:35
Vísindin eru til lítils gagns, ef við getum ekki beitt þeim til að gera spár um framtíðina. Þannig höfum við til dæmis veðurspá, hagspá og síðast en ekki síst loftslagsspá. Loftslag á Norðurheimskautinu hlýnar nú hraðar en á nokkru öðru svæði á jörðu. Hvað með framhaldið? Mest áberandi af breytingum á þessu svæði er bráðnun hafíss, en hann hefur dregist saman sem nemur 75% síðan á áttugasta áratug síðustu aldar. Fyrsta myndin sýnir flatarmál hafíss á norðurhveli (svarta þykka línan). Lituðu línurnar sýna ýmis líkön af þróun hafíss á norðurhveli allt til ársins 2100. Þetta er einn þáttur af spá, sem James Overland og félagar hafa nýlega birt um framtíðarhorfur loftslags á norðurslóðum. Þetta er byggt á flóknu reiknilíkani, þar sem vaxandi CO2 er mikilvægur þáttur, en einnig breytingar sem verða á endurskini eða albedo jarðar þegar hafísinn fer af og dökkt hafið drekkur í sig sólarhitann. Takið eftir að það er mikil breidd í hafísspánum sem sýndar eru af lituðu línunum, en mér þykir merkilegast að raunveruleikinn (svarta línan) er fyrir neðan þær allar. Sem sagt: spárnar fyrir hafísinn eru sennilega of bjartsýnar. Hafís á norðurhveli verður sennilega horfinn að fullu í kringum 2050.
Þeir reikna út tvennskonar loftslagslíkön, sem sýnd eru í annari myndinni. Annars vegar er bjartsýnislíkan þar sem gert er ráð fyrir að dregið verði verulega úr CO2 útblæstri á jörðu í náinni framtíð (bláa línan), en hins vegar er svartsýnislíkan, sem byggist á business-as-usual, þ.e.a.s. að við jarðarbúar höldum áfram uppteknum hætti og mengum CO2 út í andrúmsloftið á sama hátt og nú ríkir (rauða línan). Spáin er fyrir Norðurheimskautssvæðið (60oN90oN) og nær því einnig yfir Ísland. Kúrfurnar eru frávik frá langtíma meðaltalinu fyrir árin 1981 til 2005, en líkanið nær til ársins 2100 en ég sýni aðeins tvo mánuði hér: janúar og maí. Takið eftir að línuritið sýnir ekki absolút hitastig, heldur hlutfallslega hækkun, miðað við 1981-2005 meðaltalið fyrir viðkomandi mánuð. Það er augljóst að líkönin sýna stórfelda hlýnun á norðurhveli, jafnvel fyrir bjartsýnasta líkanið. Hlýnun er hlutfallslega miklu meiri að vetri til en sumri. Nú er bara að fylgjast með, og einnig sjá hvernig líkön verða bætt og endurbætt í náinni framtíð.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 07:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mengun í Kína
16.7.2014 | 11:23
Þegar ég var lítill snáði og tregur til að borða hafragrautinn, þá var oft sagt við mig: Vertu nú duglegur og borðaðu fyrir fátæku börnin í Kína, sem eru að þjást úr hungri. Nú er hungursneyð ekki lengur stóra vandamálið í Kína, heldur mengun af ýmsu tagi. Árið 2005 fór Kína fram úr Bandaríkjunum hvað snertir útblástur af koltvíoxíði, eins og myndin sýnir. Þetta ár er útblástur Kína af þessu mengunarefni orðinn helmingi meiri en í Ameríku. Kína er mesti mengunarvaldurinn í heiminum, en um einn fjórði af þeirri mengun er vegna framleiðslu á vörum, sem eru fluttar út frá Kína. Frá árinu 2000 hefur Kína orsakað útblástur á um 30% af öllu koltvíoxíði í heiminum. Á meðan Ameríka og Evrópa draga úr útblæstri sem nemur um 60 milljón tonnum á ári, þá hefur útblástur á koltvíoxíði í Kína aukist um 500 milljón tonn. Með því ógnar mengun frá Kína öllum heiminum. Áhrif mengunar í Kína eru margvísleg, bæði í lofti og á landi. Víða er það komið svo, að ekki er hægt að drekka vatn úr ánum og sumstaðar má ekki einu sinni SNERTA vatnið, svo mengað er það. Í fyrra náði mengun í lofti í Beijing nýjum hæðum. Svifryk komst upp í 40 sinnum meira magn en talið er leyfilegt. Nú var mælirinn fullur og yfirvöld tóku ákvörðun um að berjast gegn menguninni á allan hátt. En mengunin er allstaðar og einkum í landbúnaði. Það kom í ljós í könnun árið 2006 að um 10% af öllu landbúnaðarlandi í Kína er mengað af hættulegum þungmálmum eins og kadmíum. Þegar hátt kadmíum fannst í kínverskum hrísgrjónum þá reyndu flestir kínverjar að útvega sér hrísgrjón frá Taílandi. Síðan hafa yfirvöld ekki viljað gefa út upplýsingar um þungmálmamengun af ótta við uppþot meðal neytenda. En vatnsskortur og mengun vatns kann samt að vera stærsta vandamálið. Á Beijing svæðinu er búið að dæla svo miklu vatni upp úr jörðu, að vatnsborð í berginu undir hefur fallið um 300 metra. Gula Áin er líka menguð, og nú er svo komið að ekki má einu sinni nota vatn úr henni til áveitu á akrana. Eyðimerkur breiðast út, akrar þorna upp og uppskera stendur í stað eða minnkar. En Kínverjar gera nú margt til að reyna að draga úr útblastri og mengun. Vatnsaflsorka er nú komin yfir 15% af heildar orkuframleiðslu, og mikil áhersla er nú lögð á sólar og vindorku. Stærsta vonin er tengd kjarnorku, og þá einkum þóríum orku, eins og ég hef bloggað um hér áður. En það eru áratugir þar til nýju þóríum kjarnorkuverin koma inn á orkunetið. Á meðan halda kínverjar áfram að kafna í mengunarþokunni.
Gongshi - Steinar fræðimannsins
15.7.2014 | 10:45
Um 200 f. Kr. tóku kínverjar að nota sérkennilega steina til að skreyta garða sína. Fyrir suma táknuðu steinarnir fjöllin, og voru þannig mikilvægur þáttur í hugleiðingum. Stundum voru smærri en sérstakir steinar færðir inn í stofu og stillt upp sem listaverki, eða þá til að færa fjallið inn í húsið. Nafnið Gongshi má þýða sem steinn andans, en það vísar að sjálfsögðu til hugleiðingar. Japanir tóku upp þennan sið frá kínverjum, en í Japan er steinninn nefndur Suiseki. Á ensku er Gongshi kallaður scholar´s rock, eða steinn fræðimannsins eða þá spirit stone. Upphaflega voru Gongshi steinar valdir valdir úti í náttúrunni vegna sérkennilegs forms steinsins. Oftast voru þeir kalksteinar eða marmari, sem hafði fengið á sig fantatískt form vegna veðrunar og rofs yfir langan tíma. Kínverjar líta á slíka steina sem gersemar og setja þá á stall í heimili sínu.
Það skiftir öllu máli að steinninn hafi skapast úti í náttúrunni og að honum hafi ekki verið breytt af mannshöndinni á neinn hátt. Á síðari árum hefur risið upp heill iðnaður í Kína við að falsa slíka steina með slípun og öðrum aðferðum, til að líkja eftir hinum fornu náttúrusteinum, og nú eru eftirlíkingarnar allstaðar boðnar fram til sölu. Það fer ekki framhjá neinum íslending, að Gongshi steinar eru nauðalíkir íslenskum hraunsteinum eða gjalli.
Beinin frá Vopnafirði
13.7.2014 | 16:06
Árið 1980 fann Grétar Jónsson frá Einarsstöðum í Vopnafirði nokkur smábein í setlagi. Hann var á ferð í Þuríðargili í um 330 metra hæð yfir sjó. Rauði hringurinn á myndinni sýnir Þuríðargil, þar sem Þuríðará rennur úr Þuríðarvatni. Beinin eru sýnd á annari mynd, sem Friðgeir Grímsson og félagar birtu. Á myndinni er strik, sem er 2 cm skali. Þessi litlu bein, sem eru vart meira en 3 cm á lengd, eru talin vera úr spendýri og sennilega litlu dýri af hjartarætt.
Þau fundust í rauðum sandsteini í Bustafellsmynduninni, en Bustafellsmyndunin eru sandsteinslög, talin vera frá Plíósen, eða milli 3 og 3,5 milljón ára að aldri. Ef rétt reynist, þá eru þetta EINU minjar eða steingervingar af land spendýrum, sem fundist hafa á Íslandi. Þetta kann því að vera mikilvægt sönnunargagn um, að einhvern tíma í jarðsögunni hafi landbrú verið milli Íslands og nærliggjandi landa, annað hvort til austurs eða vesturs.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Flúoríð mengun
12.7.2014 | 09:02
Það kemur alltaf betur og betur í ljós, að opinbert eftirlit á Íslandi með matvælum, vörum, umhvefi, mengun og bókstaflega öllum atriðum sem snerta neytandann og hinn almenna bogara er sérstaklega veikt og lélegt og því fer hrakandi. Bæði Ólafur Stephensen og Stefán Ólafsson hafa bent nýlega á þetta vandamál á prenti varðandi stjórnsýslu landsins. Áður fyrr voru Neytendasamtökin mjög virkur aðli, sem bar hag almenning í brjósti, en nú virðist mér að við heyrum miklu minna úr því horni. Landvernd hefur hins vegar verið dugleg við að fjalla um náttúruverndarmál, en hefur ekki undan í dag, þar sem krafturinn í virkjanamálum og stóriðnaði virðist fara sívaxandi.
Öðru hvoru heyrum við um flúoríð mengun umhverfis álver á Íslandi og er það áhyggjuefni. Flúor er eitt efnahvarfgjarnasta frumefni á jörðu og þess vegna er það nauðsynlegt við álbræðslu. Þá er blandað saman krýólíti (Na3AlF6) eða sviðuðum hvata og álríkum jarðefnum (báxít eða súrál Al2O3) í rafknúnum bræðsluofnum og við það myndast eða skilst frá málmurinn ál. Fúór-ríku íblöndunarefnin lækka bræðslumarkið frá yfir 2000 og niður að um 1000 gráðum C. Við bræðsluna losna mengandi efni út í andrúmsloftið og er rætt um að fyrir hvert tonn af ál berist út 0,6 kg af flúoríði út í loftið og einnig um 0,6 kg af flúor-ryki. Mér skilst að Alcoa Fjarðarál noti um 5450 tonn af álfúorið á ári og fer mikill hluti þess flúors út í andrúmsloftið. Kortið sýnir staðsetningu verksmiðju Alcoa Fjarðarál á ströndinni rétt fyrir austan byggðina í Reyðarfirði. Almennt er talið að óæskilegt sé að flúor fari yfir 30 til 50 míkróg/g í heyi eða grasi. Eins og glöggt kemur fram á kortinu, þá er gildi flúors í grasi víða yfir 50 míkróg/g (rauðu blettirnir) og sex mælingar eru jafnvel yfir 100 míkróg/g. Mér er ekki kunnugt um hvað mikið magn af flúor Alcoa er leyfilegt að dæla út, en hér er hættulegt ástand að þróast.
Þóríum orkuver er framtíðin
11.7.2014 | 19:49
Kapphlaupið er hafið. Það er kapphlaup um hver er fyrstur til að byggja ný þóríum kjarnorkuver á jörðu. Ég hef áður bloggað um þóríum hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1280271/ Yfirvöld í Kína hafa látið boð út ganga um að hraða verði byggingu fyrsta þóríum orkuversins og skal það vera tilbúið á tíu árum en ekki 25 árum, eins og áður var boðað. Ákafinn er sagður jafn mikill og þegar menn undirbúa sig í styrjöld. Við fögnum öll þessum ákafa Kínverja, því þóríum orkuverin munu draga úr eða jafnvel leiða undir lok brennslu kola, olíu og jarðgass, sem mengar allan heiminn. En vesturlönd eru enn sofandi í þessu máli. Þau reka enn gamaldags úran kjarnorkuver, sem nota tækni sem var upphaflega þróuð fyrir kjarnorkuknúna kafbáta í kringum 1950. Þóríum orkuver eru hreinni, ódýrari og öruggari í rekstri heldur en úran orkuver. Einnig er lítil hætta á að þóríum sé beitt sem kjarnorkuvopnum og útbreiðsla þeirra sem vopn því ekki vandamál. Það er enginn skortur á þóríum á jörðu. Mestar birgðir af þóríum er að finna í Ástralíu, Bandaríkjunum, Tyrklandi, Indlandi og Venezuela. Sennilega eru mjög miklar birgðir af því að finna í bergi á suðvestur Grænlandi. Efnið þóríum kemur aðallega fyrir í kristöllum eða steindum sem heita monasít. Það er jarðefni eða kristaltegund, sem inniheldur mikið magn af Rare Earths eða sjaldgæfu málmunum. Það er eitt ár síðan Kína byrjaði á þóríum verkefninu eins og greinir frá í South China Morning Post. Fyrrum forseti Jiang Zemin skipaði son sinn Jiang Mianheng til að stjórna því. Hann fékk í upphafi $350 milljón og 140 vísindamenn með doktorsgráðu til starfa. Á næsta ári verða vísindamennirinir orðnir 750. Svo virðist sem þeir stefni í að byggja þóríum kjarnorkuver af þeirri tegund sem Bandaríkjamaðurinn Alvin Weinberg þróaði árið 1962. En Nixon forseti rak Weinberg og lokaði þóríum orkuverinu. Nixon vildi úran orkuver, en þau framleiða, auk orku, einnig hið illræmda geislavirka efni pútóníum, sem er nauðsynlegt til að smíða kjarnorkuvopn. Kalda stríðið réð ferðinni þá, og Bandaríkjamenn hafa ekki enn vaknað af svefninum. Í Ameríku hefur NASA verkfræðingurinn Kirk Sorensen hafið áróðursherferð til að vinna að þóríum orkuverum, en Ameríkanar hlusta ekki á hann. Kínverjinn Jiang Mianheng fór þá til Bandaríkjanna og komst yfir teikningar af orkuverinsu, sem Alvin Weinberg hafði uppgötvað og fór með gögnin til Kína. Þeir eru nú þegar að reisa 28 orkuver.
Myndin sem fylgir gerir samanburð á úran orkuveri (fyrir ofan) og þóríum orkuveri (fyrir neðan), sem hvort um sig framleiðir 1 GW af orku, en það er töluvert meira en Kárahnjúkar framleiða. Úran orkuverið þarf 250 tonn af úran til verksins, og afgangurinn er 35 tonn af geislavirkum efnum, sem verður að geyma undir mjög erfiðum aðstæðum í meir en tíu þúsund ár. Til samanburðar þarf eitt tonn af þóríum í orkuverið, en afgangurinn er efni, sem geyma þarf aðeins í tíu til 300 ár þar til það er orðið óvirkt og hættulaust. Kostirnir við þóríum eru augljósir og reyndar ekki auðvelt að skilja að helstu ríki heims hafi ekki sett meiri kraft í rannsóknir á þessu verkefni og byggingu þóríum orkuvera. Kínverjar eru að flýta sér, því þeir eru að kafna í kolaryki.
Óvissustig
10.7.2014 | 05:34
Þegar Færeyjar voru við Grænland
9.7.2014 | 12:12
Norður Atlantshafið er hlutfallslega ungt á jarðsögulegum tíma. Fyrir um 55 milljón árum var Grænland hluti af meginlandi Evrópu og þá samfellt land með Skandinavíu og með því landsvæði sem nú eru Bretlandseyjar. Fyrsta myndin sýnir legu landanna á þeim tíma. Fyrr hafði landrek eða flekahreyfingar rifið sundur meginlandsskorpuna fyrir vestan Grænland og skilið Baffinseyju frá Grænlandi, en úr því varð nú ekki mikið haf heldur aðeins Davis Sund. Af einhverjum örsökum hætti gliðnun í Davis Sundi og myndaðist þá mikil sprunga í jarðskorpunni, sem skildi Grænland frá Skandinavíu og Bretlandseyjum. Það var upphaf Norður Atlantshafsins. Gliðnunin var samfara mikilli eldvirkni eftir flekamótunum öllum. Eldvirknin myndaði úthafshrygg á hafsbotni þar sem flekarnir skildust að, en einnig gubbaðist mikið magn af basalt kviku upp á jaðra meginlandanna unhverfis. Þá varð til blágrýtismyndunin sem er útbreidd á austur strönd Grænlands og einnig á Bretlandseyjum. Á sama tíma hlóðst upp blágrýtismyndunin sem hefur skapað Færeyjar. Önnur mynd sýnir staðsetningu Færeyja á þessum tíma, fyrir um 55 milljón árum, skammt undan austur strönd Grænlands.
Þar eru blágrýtismyndanir sýndar með rauðum lit. Eins og myndin sýnir voru Færeyjar þá aðeins um 150 km undan strönd Grænlands. Nú hefur einnig verið sýnt framá með efnafræði greiningu basalt myndananna að hægt er að rekja sömu myndanirnar milli Færeyja og Grænlands. Ísland var auðvitað ekki til á þessum tíma, en myndaðist svo miklu síðar (sennilega hefur það byrjað að koma uppúr sjó fyrir um 20 milljón árum) á hafsvæðinu, sem var og er síbreikkandi milli Færeyja og Grænlands.
Þegar möttull Íslands var undir Grænlandi
7.7.2014 | 17:23
Basaltkvikan, sem veldur eldgosum, myndast við bráðnun í möttli jarðar. Hér á landi er yfirborð möttulsins á um 20 til 40 km dýpi undir jarðskorpunni. Basaltkvikan, sem kemur upp úr möttlinum og gýs á yfirborði Íslands, er í stórum dráttum allstaðar á landinu mjög keimlík hvað snertir efnasamsetningu. En þegar jarðefnafræðingar greina viss snefilefni, einkum samsætur eða ísótópa þeirra, þá kemur í ljós að viss svæði á Íslandi hafa séreinkenni hvað snertir ísótópa af efnunum neódiníum og blýi. Fyrsta myndin sýnir niðurstöður Abigail Barker og félaga um efnafræði basaltkvikunnar á þessum svæðum á Íslandi. Þar eru þrennskonar svæði afgreind: Reykjanes (rautt), Snæfellsnes og syðri hluti eystra gosbeltisins (blátt), og að lokum nyrðri hluti eystra gosbeltisins (grænt). Auðveldasta skýringin er sú, að basaltkvikan á þessum þremur svæðum komi uppúr þrennskonar möttulefni. Það þýðir að möttullinn undir Íslandi er alls ekki allur eins, heldur ríkja þar nokkrar vel aðgreindar bergtegundir, sem bráðna og gefa af sér mismunandi basalt. Eftir þennan fremur langa inngang snúum við okkur loks að Grænlandi. Möttullinn, sem nú er undir Íslandi á sér langa sögu, sem er miklu lengri en aldur Íslands (16 milljónir ára). Möttullinn okkar er fremur óvenjulegur, ef til vill óvenju heitur, og honum er oftast lýst sem hot spot meðal jarðfræðinga. Vegna flekahreyfinga hefur þessi heiti reitur ferðast víða. Þannig var hann undir Baffin eyju fyrir um 65 milljón árum, síðan ferðaðist hann undir allt Grænland, frá vestri til austurs og var undir Scoresby sundi í austur Grænlandi fyrir um 55 milljón árum. Önnur mynd sýnir dæmigert landslag á austur Grænlandi, þar sem blágrýtismyndunin er alveg eins í útliti og á til dæmis Vestfjörðum. Takið eftir að heiti reiturinn í möttlinum er reyndar staðbundinn, hreyfist ekki, en jarðskorpan fyrir ofan hreyfist og rekur stöðugt til vesturs. Ef sami möttullinn var undir austur Grænlandi fyrir 55 miljón árum, þá ætti hann hafa gosið þar samskonar basalti og nú gýs á Íslandi.
Og einnig, þar ætti að koma fram sama dreifing basalttegunda hvað snertir bý og neódiníum ísótopa eins og á Íslandi. Ungfrú Barker og félagar hafa einmitt kannað þessa hugmynd, eins og kemur fram á fyrstu mynd. Það er mikill stafli af basalt hraunum í og fyrir sunnan Scoresby sund á austur Grænlandi. Efnafræðirannsóknir á þessum hraunum sýna, að þau hafa sama innihald af bý og neódiníum ísótopum og basaltsvæðin á Íslandi. Hér í grennd við og fyrir sunnan Scoresby sund eru vel afmörkuð basaltsvæði, sem hafa sömu efnaeinkenni og svæðin á Íslandi, eins og litirnir sýna. Þetta er reyndar stórmerkilegt, og sýnir að sami heiti reiturinn var forðum undir Grænlandi og er undir okkur nú, og sýnir einnig að vel aðgreind svæði möttulsins koma fram bæi hér og á Grænlandi. Að lokum: Á fyrstu mynd er Ísland og Grænland sýnt í sama stærðarskala.
Kvikuþró - ein stór og önnur lítil
4.7.2014 | 06:02
Undir flestum stórum og langvirkum eldfjöllum er kvikuþró. Hún er einskonar tankur eða forðabúr af kviku ofarlega í jarðskorpunni. Í stórgosum tæmist kvikuþróin að miklu leyti og þá kann fjallið að hrynja niður í tómarúmið undir. Við það myndast hringlaga sigdalur á yfirborði, sem við nefnum öskju eða caldera á erlendum málum. Katla er eitt af þeim íslensku eldfjöllum, sem talin er hafa kvikuþró á dýpinu, eins og fyrsta mynd sýnir. Mælingar jarðeðlisfræðinga hafa gefið vísbendingu um kvikuþró á um 1,5 km dýpi undir sjávarmáli, eða um 2 til 3 km undir yfirborði fjallsins. Kvikuþróin er talin um það bil 5 km í þvermál og gæti rúmmál af kviku í þrónni verið um 4 rúmkílómetrar.
Önnur mynd sýnir niðurstöður Ólafs Guðmundssonar og annara jarðeðlisfræðinga á skorpunni undir Kötlu. Ljósa svæðið sýnir staðsetningu kviku í þrónni undir. Þetta verður að teljast fremur lítil kvikuþró, miðað við það, sem finnst í jarðskorpunni á sumum öðrum eldfjallasvæðum. Ein þekkasta, best rannsakaða og stærsta kvikuþró sem vitað er um er undir Yellowstone í Bandaríkjunum. Þriðja mynd sýnir þversnið af henni. Hún er um 80 til 90 km á lengd og yfir 20 km á breidd. Kvikuþróin er talin vera á dýpinu frá 5 km og ná niður á 17 km undir yfirborði. Fyrri niðurstöður sýndu að í henni eru um 4000 rúmkílómetrar af kviku en sennilega er það lágmark.
Reyndar er talið að í þrónni sé blanda af kviku og kristöllum, þ.e.a.s. einskonar kristal-ríkur hrærigrautur. En yfirleitt getur kvika ekki gosið ef hún inniheldur meir en 50% kristalla. Þá er hún einfaldlega of stíf og rennur ekki. Risastór gos hafa komið upp úr þessari kvikuþró undir Yellowstone. Síðasta stórgosið var fyrir um 640 þúsund árum og þá gaus 1000 rúmkílómetrum af kviku í sprengigosi, sem dreifði ösku yfir alla Norður Ameríku. Hvað er einn rúmkílómeter? Surtsey er til samanburðar einn rúmkílómeter. Okkar stærsta gos síðan land byggðist, Skaftáreldar, er um 15 rúmkílómetrar. Þúsund er alveg ótrúlegt magn, en fyrri sprengigos í Yellowstone hafa verið enn stærri. Til dæmis var gosið fyrir 2,1 milljón árum um 2500 rúmkílómetrar. Stærsta sprengigos af þessari gerð varð þó í eldfjallinu Toba í Indónesíu fyrir um 74 þúsund árum, en þá kom upp 2800 rúmkílómetra á yfirborðið. Yellowstone er elsti og merkasti þjóðgarður Bandaríkjanna og það er ævintýraland ferðamannsins og jarðfræðingsins. En jarðskopran þar er sífellt á hreyfingu. Jarðskjálftar eru mjög tíðir og land ýmist rís eða sígur. Síðasta gosið í Yellowstone var líparít hraungos fyrir 70 þúsund árum. Það var "aðeins" um 30 rúmkílómetrar að stærð, en hefur ekki valdið miklum umhverfisspjöllum þar sem hraunið var takamarkað í útbreiðslu innan öskjunnar. Enginn veit hver framtíð Yellowstone elstöðvarinnar er. Kvikan er fyrir hendi í miklum mæli, órói er tíður í jarðskorpunni og allt er fyrir hendi til að stórgos gæti orðið. En hins vegar hafa engar breytingar orðið, sem benda til að slíks sé að vænta á næstunni. Á meðan svæðið er rólegt, þá hvet ég alla til að fara til Yellowstone amk. einu sinni á ævinni, því þessi þjóðgarður er engu líkur -- en varist bjarndýrin! Ég starfaði þar um tíma við rannsóknir árið 1985. Við fórum víða á göngu utan vega um garðinn allan. Það hafði verið brýnt fyrir okkur að koma bjarndýrunum ekki á óvart. Ég hafði það þá fyrir sið að halda á steini í vinstri hendi og jarðfræðihamrinum í þeirri hægri, og slá á steininn í hverju spori. Þá heyrðu birnirnir í okkur langar leiðir og vissu hvar við vorum á ferð. Ef þeir hrökkva við og ef þú gengur milli móður og unga þá getur þú átt von á árás. Á slíkum gönguferðum er mér ávalt í huga minningin um konu, sem ég þekki. Hún er jarðfræðingur og vann í Alaska árið 1977. Það vað hún fyrir árás bjarndýrs og hann bókstaflega át af henni báða handleggina. Ef þið sækið Yellowstone heim, þá haldið ykkur á göngustígunum!