Er Bigfoot til?

Bigfoot mythMeð tilkomu vísindalegra aðferða má segja, að ekki er lengur hægt að komast upp með það að gera hvaða yfirlýsingar sem manni dettur í hug, því nú eru til aðferðir til að prófa sanngildi þeirra. Í mög ár hafa menn þóttst sjá bregða fyrir í skóginum furðuveru, sem líkist stórum og loðnum manni. Myndin sem fylgir er tilbúin og ekki raunveruleiki.  Í Norður Ameríku er hann kallaður Sasquatch eða Bigfoot. Í Himalayafjöllum kallast hann yeti. Rússar kalla hann Almasty. Stundum sést honum bregða fyrir og stundum finnast risastór fótspor hans í jarðveginum. Stundum skilur hann eftir hár á trjágreinum. Fyrir tveimur árum sendu vísindamenn í Oxford og Lausanne út boð til heimsins, að safna saman einhverjum leifum sem finnast af bigfoot til rannsóknar.  Þeim bárust 57 sýni víðsvegar að úr heiminum, sem voru flest af einhverskonar hárum.  Reyndar reyndust sjö vera af gróðri. Vísindamennirnir, sem voru flestir erfðafræðingar, greindu erfðamengi eða DNA í hinum sýnunum,  en aðeins 30 voru nothæf til rannsókna. Tíu þeirra reyndust vera af björnum, fjögur af hestum, fjögur af úlfum eða hundum, eitt af manni, og hin af kúm, dádýrum, og eitt af ísbirni. Ekkert af sýnunum var því frábrugðið vel þekktum dýrategundum.  Bigfoot er bara plat, eins og aðrar sögusagnir um öll hin skrímslin. Vel á minnst: hvað er að frétta af opinberu rannsóknarnefndinni, sem á að fjall um tilvist ormsins í Lagarfljóti?  Setur hið opinbera pening í slíka vitleysu?


Fracking: niðurdæling sem mengar

Borholur og niðurdælingFyrir 70 árum komu nokkrir jarðfræðingar og verkfræðingar saman umhverfis borholu í Kansas og gerðu tilraun. Þeir dældu niður á  700 metra dýpi blöndu af benzíni og sandi undir miklum þrýstingi í þeirri von, að blandan myndaði sprungur í berginu og losaði þannig um jarðgas.  Borholan fer fyrst niður lóðrétt, en síðan tekur hún boga og gengur lárétt inn í jarðlögin, sem innihalda gasið.  Þetta var byrjunin á aðferð sem nefnist “hydraulic fracturing” eða fracking og hefur hún valdið byltingu í olíu og gas iðnaðinum.  Með þessari aðferð er nú hægt að ná út gasi og olíu úr jarðlögum, sem áður voru talin orðin þurr.  Shale gasBókstaflega að kreista gas og olíu út úr steininum.  Fracking hefur síðan verið beitt við gas og olíuvinnslu í þúsundum borhola í Pennsylvaníu, Texas og Norður Dakóta.  Myndin sýnir að borholum er þétt dreift yfir stór svæði og allt berg er þar undir þrýstingi. Enn er þessari tækni nær eingöngu beitt í Bandaríkjunum og gasið er nefnt shale gas.  Allt í einu eru Bandaríkin orðin fremsti jarðgas framleiðandi heims!  Framleiðsla af shale gasi hefur aukist um 700% í Bandaríkjunum síðan 2007.  Þar með hefur verð á jarðgasi fallið mikið, eins og línurítið sýnir.   Jákvæðar hliðar á fracking eru þær að gasið er ódýrt og dregið hefur mikið úr brennslu kola í raforkuverum í Bandaríkjunum og gas hefur tekið við.  Við það hefur minnkað verulega útblástur af koltvíoxíði og einnig brennisteinsgösum.  Gasverð

En neikvæðu áhrifin eru risastórt vandamál. Umhverfisáhrif vegna fracking eru margskonar.  Efnasamseting vökvans, sem dælt er niður í borholur er iðnaðarleyndamál og hvert gasfyrirtæki hefur sína formúlu.  Rannsóknir sýna að vökvinn er oft einhverskonar díselolía, með ýmsum aukaefnum.  Það á meðal er benzen, sem veldur krabbameini.    Hingað til hefur gasiðnaðurinn haft frjálsar hendur með fracking og af þeim sökum mengað jarðvatn í mjög stórum svæðum í Ameríku.   Hér er listi yfir nokkur af þeim 600 efnum, sem hefur verið dælt niður í sambandi við fracking: benzene, ethylbenzene, toluene, xylene, naphthalene, methanol, formaldehyð, ethylene glycol, saltsýra, og einnig kemur fram í þessum blöndum efni eins og blý, úran, radon, kvikasilfur.   Auk þess er vatnsþörf fyrir fracking gífurleg.  Ein borhola tekur um 15 milljón litra af vatni og það hefur því mikil áhrif á vatnsbúskap á yfirborði jarðar.  Hin hliðin er að fracking er að menga og eyðileggja jarðvatn á stórum svæðum.  Oft er þetta jarðvatn, sem er aðal uppspretta drykkjarvatns á þessum svæðum. Þegar skrúfað er frá krananum í eldhúsinu streymir stundum út froða af metan, vatni og drullu.  Eitt af því versta varðandi nýfundna gasið er, a' það mun seinka þróun sjálfbæra og endurnýjanlegra orkulinda í landinu. Í viðbót við allt þetta, þá veldur fracking einnig jarðskjálftum. En gas og olíuiðnaðurinn er sterkur og hefur góð sambönd í þinginu í Washington DC.  Enn er því löggjöf um fracking á frumstæðu stigi.  Hvílíkt böl, að eiga slík auðæfi í jörðu, sem gera menn viti fjær af græðgi.


í maí var heimsmet

Maí heimshitiLínuritið sýnir meðal hita fyrir maí mánuð á jörðinni allri frá 1880 til 2014. Lóðrétti mælikvarðinn er frávik frá meðalhita fyrir allt 134 ára tímablilið. Þar kemur í ljós, að sá maí mánuður, sem nú er nýafstaðinn, setti nýtt heimsmet í hita.  Hitamælingarnar eru fyrir bæði land og yfirborð hafsins.  Bláu svæðin eru að sjálfsögðu tímabil þar sem hiti er undir meðallagi, en hin rauðu eru tímabil yfir meðallagi.  Maí í ár er 0,74 stigum fyrir ofan langtímameðallagið fyrir jörðina alla.  Gögnin eru frá NOAA.   Þetta er ekki heimsmet, sem ég held mikið uppá eða gleðst yfir. Hnattræn hlýnun verður vaxandi böl fyrir mannkynið og allt lífríki jarðar.   Hitabeltið hefur hingað til verið talið svæðið, sem er milli 23,5 beiddargráðu á norðurhveli og 23,5 breiddargráðu á suðurhveli jarðar.  Í þessu belti er hitinn hár og lítil hitabreyting yfir árið eða yfir sólarhringinn.  Hitabeltið stækkar nú ár frá ári, en það er talið að hitabeltið færist nú norður um 140 til  270 kílómetra á hverju 25 ára tímabili.   Þetta hefur þau áhrif að árið 2050 mun meir en helmingur mannkyns búa í hitabeltinu. 


Hvers vegna vex hafísinn á Suðurskautinu?

MeginlandsíshellaÍsbreiðan sem þekur Suðurskautið heldur áfram að minnka, eins og fyrsta myndin sýnir. Á myndinni er magn jökulksins sýnt í gígatonnum, en einn miljarður gígatonna er einmitt einn rúmkílómeter af ís.  Jökullinn á Suðurskautinu minnkar að meðaltali um 100 rúmkílómetra á ári hverju síðan 2002, sennilega vegna hnattrænnar hlýnunar.  Þetta er svipuð bráðnun og á íshellunni sem þekur Grænland.  Til samanburðar er rúmmál allra jökla Íslands um 3600 rúmkílómetrar. En meginlandsjökull og hafís eru tvö ólík fyrirbæri. Hafísinn umhverfis Grænland minkar á sama hátt og íshettan á meginlandinu, en hafísinn umhverfis Suðurskautið hagar sér hins vegar allt öruvísi og hefur STÆKKAÐ  ár frá ári, allt frá því að mælingar hófust árið 1980. Zhang 2007 Þetta kemur fram á annari myndinni, en hún sýnir einnig að meðalhiti í lofthjúpnum á Suðurskautinu hefur vaxið á sama tíma.  Hvað er að gerast?  Reyndar er stækkun ísbreiðunnar ekki hröð, en samt vel mælanleg og vex um 2,6% á áratug.  Nú í apríl náði hafísbreiðan yfir 9 milljón ferkílómetra.  Eins og kemur fram á þriðju mynd er þetta algjört met.  Þeir, sem leggja ekki trúnað á að hlýnun jarðar sé staðreynd, vitna nú oft í hinn vaxandi hafís umhverfis Suðurskautið máli sínu til stuðnings.  Er þetta ef til vill þá Akillesarhæll kenningarinnar um hnattræna hlýnun?   Ég held ekki.   Suðurskaut of Norðurskaut eru auðvitað ólíkir heimar.  Það er ekki einungis munur á mörgæsum og ísbjörnum, heldur er stóri munurinn að annar póllinn er á hafinu en hinn í miðjunni á stóru meginlandi.  Hafís SuðurskautHafísinn, sem myndast á Norðurskautinu er umkringdur meginlöndum á alla kanta, nema út í Noregshaf, og útbreiðsla hans takmarkast af því.  Hér í norðri hrannst ís upp oft í hryggi af þeim sökum.   Hinsvegar getur hafís Suðurskautsins breiðst út frjálst og óhindrað í allar áttir og beiðist því einnig hraðar út.  Suðurskautshafísinn er yfirleitt um 1 til 2 metrar en ísinn er tvöfalt þykkari umhverfis Norðurskaut.  En tölurnar fyrir ofan um vaxandi útbreiðslu hafíssins eru að sumu leyti villandi og betri mælistika er að skoða rúmmál hafíss. Þá kemur í ljós að hafís á Suðurskautinu hefur vaxið um 30 rúmkílómetra á ári, sem er aðeins einn tíundi partur af bráðnun hafíss á Norðurskauti og um helmingur af magninu af ferskvatni sem fer í hafið umhverfis Suðurskaut vegna bráðnunar innlandsíssins.   

Suðurpólfarar hafa fjórar kenningar, sem þeir rannasaka nú til að skýra hegðun hafíss syðra:  (1)  Vaxandi vestanátt í suðurhafinu, sem dreifir ísbreiðunni til norðurs, frá Suðurskautinu. Þetta er kenningin, sem flestir vísindamenn hallast að sem aðal þátt í drefingu íssins. (2)  Vaxandi úrkoma á hafið, sem dregur úr streymi af hita úr dýpri lögum hafsins og minkar bráðnun hafíss.  (3)  Úrkoma gerir yfirborð hafsins minna salt og hækkar frostmark og örvar hafísmyndun.  (4)  Vaxandi straumur af ferskvatni til hafsins þegar innlandsísinn bráðnar hefur sömu áhrif og (3).   

Askja sígur

SturkellAskja er ein stærsta eldstöð Íslands. Í Öskju eru þrjár öskjur eða hringlaga sigdældir, og er sú yngsta frá gosinu 1875: Öskjuvatn.  Það var stórt sprengigos, sem dreifði mikilli ösku yfir Austurland og kann að hafa hrint af stað fólksflótta til Norður Ameríku.  Ekki hefur gosið hér síðan 1961 en Askja er ætíð óróleg undir niðri.   Jarðeðlisfræðingar hafa fylgst með Öskju síðan 1966.  Myndin sýnir hæðarbreytingar í Öskju frá 1966 til vorra daga, eftir Sturkell. Þetta er alls ekki einfalt, því ýmist rís eða sígur öskjubotninn.  Þessar mælingar benda til þess að það séu hreyfingar á kviku á um 2,5 til 3 km dýpi undir miðri öskjunni.  Einnig virðist kvika vera á hreyfingu á um 16 km dýpi, eins og önnur mynd sýnir, eftir Soosalu og félaga.  Þar kemur vel í ljós að jarðskjálftar raða sér á tvö vel aðskilin dýpi í jarðskorpunni undir Öskju og Herðubreiðartöglum. En Askja er einnig á flekaSoosalu et al.mótum og gliðnun og aðrar flekahreyfingar hafa því einnig áhrif á lóðréttar hreyfingar jarðskorpunnar.  Það er reyndar allt nágrenni Öskju sem hefur verið á hreyfingu undanfarin ár.  Ekki má gleyma hinum stöðugu jarðskjálftum, sem herjuðu í jarðskorpunni djúpt undir Upptyppingum árið 2007 og tíðum jarðskjálftum undir Herðubreiðartöglum.  Að öllum líkindum er kvika oft á hreyfingu á flekamótunum í grennd við Öskju.  En það er ekki þar með sagt að eldgos séu í nánd.  Okkur ber að hafa það í huga, að meiri hluti kvikunnar, sem kemur upp úr möttlinum, safnast fyrir í jarðskorpunni sem berggangar og önnur kvikuinnskot, og aðeins brot af kvikunni kemur upp á yfirborðið. Það er því miður engin GPS stöð staðsett í Öskju, en sú næsta er á Dyngjuhálsi, um 40 km fyrir suðvestan og við norður rönd Vatnajökuls.  GPS DYNGJUHÁLSÁ Dyngjuhálsi rís land, sennilega vegna bráðnunar Vatnajökuls.  Bráðnunin kemur vel fram í árstíðasveiflum á GPS ritinu fyrir neðan.


Árekstrar við hvali eru tíðastir hjá hvalaskoðunarbátum

HvalaárekstrarSkip og bátar af öllum stærðum sigla öðru hvoru á hvali.  Það gerist nú æ oftar, þegar skip kemur í höfn, að dauður hvalur hvílir ofan á kúlunni í stafni skipsins, eins og fyrsta myndin sýnir.  Hvað þá með alla hina hvalina, sem urðu fyrir árekstri og hurfu í hafið?  Skýrsla Alþjóðahvalveiðiráðsins um árekstra við hvali kom út nýlega og er fróðleg, en hún nær yfir meir en eitt þúsund árekstra sem eru skráðir frá 1885 til 2010.  Auðvitað er galli á svona plaggi, þar sem margir aðilar skrá alls ekki árekstra.  Það eru fyrst og fremst herskip og skip í eigu hins opinbera, sem skrá, en einkaaðilar síður. Árekstrar Það kemur í ljós í þessari og skyldum skýrslum, að algengustu árekstrar við hvali verða hjá hvalaskoðunarbátum.  Hér með fylgja tvö línurit, sem styðja þessa niðurstöðu.  Annað er frá Alþjóðaráðinu en hitt frá Hawaii.  Í báðum þessum heimildum eru hvalaskoðunarbátar og hvalaskoðunarskip á toppnum.  Þetta er auðvitað það sem maður mátti búast við.  Hvalaskoðarar eru fyrst og fremst á þeim slóðum þar sem hvalir eru algengastir og hvalaskoðunarmenn reyna að komast eins nálægt og hægt er, til að þóknast ferðamönnum.  Í Hawaii er reyndar sú regla, að hvalaskoðunarskip mega ekki koma nær hval en 100 metrar. Árekstrar Hawaii Ekki veit ég hver reglan er hér á landi, ef nokkur, en þær eru ekki ófáar myndirnar, sem birtast hér við land þar sem skipið er alveg ofaní hvalnum.   Telur hinn ágæti lesandi að íslenskir hvalaskoðarar veiti upplýsingar til hins opinbera um slíka árekstra?


Svifþörungar blómgast í hafinu

Svifþörungar 2010Á hverju vori eða snemma sumars gerist atburður í hafinu umhvefis Ísland, sem er svo stór að hann sést vel frá gervihnöttum. Þetta er blómgun á svifþörungum, sem lita hafið grænt og berast með hafstraumum umhverfis landið.  Fyrsta myndin er frá slíkri blómgun svifþörunga, sem gerðist í júní 2010 og barst með straumum umhverfis Snæfellsnes.  Svifþörungar eru einfaldlega undirstaða lífríkis í sjónum og beinlínis nauðsynlegir fyrir þróun fiskstofna, skelfisks og allra annara tegunda í hafinu: neðsti hlekkurinn í lífkeðju hafsins.  Við íslendingar ættum að fagna því og halda hátið hvert sinn sem slík blómgun á sér stað umhverfis Ísland.  Svifþörungar eru einfrumungar og reyndar plöntur, því þeir innihalda blaðgrænu og stunda ljóstillífun.  Þaðan kemur græni liturinn.  Yfirleitt er haldið að svifþörungar séu í dvala yfir veturinn en blómstri á vorin þegar sólar nýtur og hafið hitnar og næringarefni eru ef til vill í meira mæli.  En sumir telja að blómstrunin á vorin sé háð stormum sem gerast síðari hluta vetrar. Stormar róta upp hafinu og færa næringarríkari djúpsjó nær yfirborði, en svifþörungar þurfa sólarljós til að þroskast og blómstra. Síðan eru svifþörungar etnir af átu eða dýrasvifi og þar hefst keðjan.  Aðrir hafa stungið uppá að blómgun verði þegar mikil næringarefni berast út í hafið, eins og í eldfjallaðsku eða jökulhlaupum.  Ef til vill er járn lykilefnið í þessu máli. Við vitum að járn er nauðsynlegt fyrir blaðgrænu, alveg eins og fyrir hemoglobin í blóðinu.  Getur það verið að blómgun verði umhverfis Ísland vegna  járns, sem berst út í hafið? Emiliana huxleyi Sennilega eru allir þessir þættir mikilvægir. Síðari myndin sýnir svifþörunginn Emiliana huxleiy í rafeindasmásjá.  Þetta er mikil furðusmíð náttúrunnar og stórkostlegt á að líta.  Eftir því sem ég best veit, þá hafa vísindamenn ekki nokkra hugmynd um hvers vegna Emiliana býr til þessar fallegu plötur af kalki, sem hún hefur innvortis.


Hornafjörður er á uppleið

 

Sjöberg ofl.Ég eignaðist mitt fyrsta GPS tæki árið 1990. Það var af Trimble gerð, kostaði yfir $4000 og var fyrsta kynslóð af GPS tækjum, sem komu á markaðinn. Ég beitti því fyrst við rannsóknir mínar á Krakatau eldfjalli í Indónesíu. Stóra byltingin með GPS tæki gerðist í Flóastríðinu, þegar Írak réðst inn í Kuwait og Bandaríkjaher svaraði með áras á  Írak.  GPS tæki voru þá komin í hendur flestra hermanna og svo strax í hendur almennings eftir það.  Nú er hægt að fá ágætis GPS tæki fyrir innan við $100 og notkun þessarar tækni hefur valdið byltingu í siglingum, ferðum og vísindum.

Höfn landrisJarðeðlisfræðingar á Íslandi hafa beitt GPS tækninni með ágætum árangri.  Á Íslandi var fyrst sett út GPS net umhverfis Vatnajökul árið 1991 og fylgst vel með því til 1999 af Lars Sjöberg og félögum.  Þeir mældu landris á bilinu 5 til 19 mm á ári umhverfis Vatnajökul yfir þetta tímabil.  Fyrsta mynd sýnir hluta af þeirra niðurstöðum. Lengdin á lóðréttu línunum er í hlutfalli við landris á þessu tímabili.  Aðrir telja að ris í grennd við Höfn í Hornafirði hafi verið um 16 til 18 mm á ári síðan 1950.  Á vef Veðurstofu Íslands er hægt að fylgjast með skorpuhreyfingum á Íslandi á rauntíma.  Þar eru til dæmis gögn um GPS mælingar í Höfn, eins og önnur mynd sýnir.  Landris er greinilega mikið og stöðugt. Fyrir tímabilið frá 1998 til 2013 er risið að meðaltali um 17,1 mm á ári, samkvæmt GPS í Höfn.  Síðasta myndin er eftir Þóru Árnadóttur og félaga. Hún sýnir lóðréttar hreyfingar á landinu öllu, fyrir tímabilið frá 1999 til 2004.  Mælikvarðinn sýnir hreyfinguna og það er augljóst að nær allt landið er á uppleið, en hreyfingin er langmest umhverfis Vatnajökul.  Á þessu svæði er hreyfingin allt að eða yfir 20 mm á ári.  Bráðnun Vatnajökuls og annara jökla hálendisins eru auðvitað skýringin á þessi risi landsins.  Það eru þó til undantekningar frá þessu lanÞóra Árnadóttirdrisi og er Öskjusvæðið ein slík, en þar hefur land sigið, eins og myndin sýnir.    Landris umhverfis Vatnajökul kann að hafa mest og alvarlegust áhrif á Hornafjarðarós, en hann er í dag talin einhver erfiðasta innsigling landsins.  Sandrifið Grynnslin liggur þvert um siglingaleiðina inn í ósinn og þar er dýpi aðeins um 6 til 7 metrar.  Þessi innsigling mun því versna stöðugt vegna bráðnunar Vatnajökuls og landrisins, sem því fylgir.


Hlýnun hafsins

Hlýnun hafsinsLosun á koltvíoxíði hefur vaxið stöðugt í heiminum og hitastig á yfirborði jarðar hækkað að sama skapi. En undanfarinn áratug hefur yfirborðshiti á landi nokkurn veginn staðið í stað.  Hvað er að gerast?  Sennilega er skýringuna að finna í hafinu. Ég hef áður bloggað um  hitann í hafinu, sjá hér:  http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1278537/

Myndin sýnir feril á hita í öllum heimshöfunum frá yfirborði og niður á 2 km dýpi.  Hér er hitinn sýndur í hitaeiningunni Joules, frekar en gráðum.  En niðurstaðan er sú sama: það er gífurlegt magn af hitaorku, sem nú safnast fyrir í hafinu. Loftslagsfræðingar telja að nú sé yfirborð jarðar búið að ná einhverskonar jafnvægi um tíma, og að hitinn færist nú úr lofthjúpnum niður í hafið í auknum mæli.  Sem sagt:  það er alls ekki ástæða til að álíta að það hafi degið úr hlýnun jarðar.  Hún gerist nú í vaxandi mæli í hafinu.   Það er talið að um 90% af hitanum sem myndast við hlýnun jarðar fari í hafið,  en til samanburðar geymir lofthjúpurinn aðeins um 2% af hitanum.  Hafið er því þessi risastóri geymir og einnig einskonar “buffer” eða jöfnunartankur, sem tekur endalaust á móti hlýnun.   Hlýnunin í hafinu er um 17 x 1022 Joules síðustu 30 árin.  Hvað er það mikil orka?  Jú, það er jafnt og að sprengja eina Hiroshima kjarnorkusprengju í hafinu á hverri sekúndu í þrjátíu ár!  Þeir fáu, sem eru ekki enn sannfærðir um hlýnun jarðar benda oft á að meðalhitinn á yfirborði jarðar hafi ekki vaxið mikið síðasta áratuginn,  þrátt fyrir vaxandi útblástur af gróðurhúsagasi.  Ég vil því benda þeim á staðreyndina um vaxandi hlýnun heimshafanna.


Þegar Bjarnarhafnarfjall var eyja

BjarnarhafnarfjallBjarnarhafnarfjall (574 m) stendur stakt á norðanverðu Snæfellsnesi. Meiri hluti fjallsins er myndaður á Tertíer tíma, mest úr blágrýti eða stafla af basalt hraunlögum, sem eru um 5 til 6 miljón ára gömul.  Í suðvestur hluta fjallsins eru myndanir úr líparíti og andesíti, sem tilheyra hinni fornu Setbergseldstöð í Eyrarsveit fyri vestan. Utan í Bjarnarhafnarfjalli er allstór móbergsmyndun í Kothraunskistu. Hún hefur myndast mun síðar, við gos undir jökli á ísöld. Bjarnarhafnarfjall var áður hluti af samfelldri háslettu blágrytismyndana, sem náðu um Breiðafjörð og Snæfellsnes.  Ísaldarjöklarnir skáru þessa hásléttu í sundur og mótuðu það landslag, sem einkennir svæðið í dag. Þegar ísöldinni lauk var sjávarstaða mun hærri en nú og þá mun Bjarnarhafnarfjall hafa verið eyja, eins og fyrsta mynd sýnir. Það var þá með hæstu og ef til vill stærstu eyjum landsins, yfir 20 ferkílómetrar að flatarmáli.  Fyrir um 3800 árum  opnaðist gossprunga með VNV-ASA stefnu og Berserkjahraun rann, aðallega úr fjórum gígum: Rauðukúlu austast, þá Gráukúlu, Smáhraunskúlum og Kothraunskúlu vestast.  Ekki er vitað hvað gosið stóð lengi, en sennilega var það samfellt. Þó má greina fjögur vel aðskilin hraun. Það fyrsta rann frá Rauðukúlu ( númer 1 á annari mynd)  og er það hraun þynnst, mest þunnfljótandi og ef til vill heitast.  Samkvæmt efnagreiningu virðist Rauðukúluhraun vera mun frumstæðara en yngri hraunin, til dæmis með yfir 13.7% MgO, en hin seinni hraunin eru með um 9.8% MgO.  Næst rann hraun frá Kothraunskúlu, sem er vestast (#2). Það er mun úfnara apalhraun og illt yfirferðar.  Þá rann hraun úr Smáhraunskúlum og fór til vesturs (#3).  Rann það út í Hraunsfjörð og myndaði þrengslin í firðinum, sem nefnd eru Mjósund. Loks kom hraun úr Gráukúlu (#4) og á suður jaðri þess myndaðist Selvallavatn.   Að öllum líkindum var eldvikrni á allri sprungunni frá Rauðukúlu og til Kothraunskúlu í upphafi goss, en síðan þrengdist sprungan og virkni takmarkaðist við þessa fjóra gíga. 

BerserkjahraunÉg tel líklegt að Bjarnarhafnarfjall hafi verið eyja áður en Berserkjahraun rann.  Sennilega var sundið milli fjallsins og Snæfellsness fremur mjótt og mjög grunnt og landslag kann hafa verið líkt og sýnt er á fyrstu myndinni.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband